Hæstiréttur íslands
Mál nr. 418/2006
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 22. febrúar 2007. |
|
Nr. 418/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Steinþóri Kristjánssyni (Einar Gautur Steingrímsson hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni. Skilorð.
S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í lögreglubifreið, sem S var farþegi í, ráðist að lögreglumanni og slegið hann ítrekað með krepptum hnefa. Sakarferill S skipti ekki máli um ákvörðun refsingarinnar og þótti hún hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, þar af þrír mánuðir skilorðsbundnir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Að virtum atvikum málsins er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði og skal fresta fullnustu þriggja mánaða af þeirri refsivist skilorðsbundið eins og nánar segir í dómsorði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, svo sem nánar greinir í dómsorði, en virðisaukaskattur er innifalinn í fjárhæð þeirra.
Dómsorð:
Ákærði, Steinþór Kristjánsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu þriggja mánaða af þeirri refsivist og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 201.479 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 8. febrúar 2006 á hendur Steinþóri Kristjánssyni, Selvogsgötu 5, Hafnarfirði, fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 5. október 2004 í lögreglubifreið nr. 148, sem verið var að flytja ákærða á slysadeild í kjölfar umferðaróhapps, ráðist að A lögreglumanni sem sat með honum í aftursæti bifreiðarinnar og slegið hann ítrekað með krepptum hnefum. A tókst að bera hendur fyrir andlit og lentu höggin því á handleggjum hans og vinstri hendi.
Háttsemi ákærða er talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.
Aðfaranótt þriðjudagsins 5. október 2004 fékk lögreglan í Reykjavík tilkynningu um að bifreið væri upp á umferðareyju á móts við hús nr. 38 við Laugarásveg í Reykjavík. Í frumskýrslu er fært að er lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi ákærði setið í ökumannssæti bifreiðarinnar, sem hafi verið kyrrstæð á umferðareyjunni. Hafi boðmerki verið beyglað undir framenda bifreiðarinnar. Vél hennar hafi ekki verið í gangi og kveikjuláslyklar hennar ofan á miðju mælaborði. Í hólfi fyrir framan gírstöng hafi verið tvær opnar bjórdósir. Hafi önnur þeirra verið hálffull en hin tóm. Þriðja bjórdósin hafi verið á gólfi fyrir framan hægra framsæti. Sú hafi verið tóm. Við og á gírstöng hafi verið blóðblettir, sem og í ökumannssæti. Tilkynnandi hafi verið á vettvangi og hafi hann greint frá því að hann hafi komið að bifreiðinni kyrrstæðri á umferðareyjunni. Ákærði hafi verið með sjáanlega áverka í andliti. Blætt hafi úr skurði, auk þess sem nef hafi verið áberandi bólgið. Greinilega hafi blætt úr nefi hans. Einnig hafi blóð verið á vörum hans. Þá hafi blóð verið á höndum og fatnaði ákærða. Mikinn áfengisþef hafi lagt frá vitum hans. Þá hafi hann virst illa áttaður. Hafi hann verið beðinn um að stíga út úr bifreiðinni. Sökum áfengisþefs hafi honum verið kynnt sakarefni og réttur til að tjá sig ekki. Sökum þess hve blóðug föt ákærða hafi verið hafi verið ákveðið að flytja hann í stærri lögreglubifreið á slysadeild til nánari skoðunar. Lögreglumaðurinn A hafi farið með ákærða í lögreglubifreið nr. 148, sem B lögreglumaður hafi ekið.
Í annarri skýrslu lögreglu, frá aðfaranótt 5. október 2004, er atvikum í lögreglubifreið nr. 148 lýst nánar. Fram kemur að ákærði hafi ekki verið færður í handjárn þar sem hann hafi verið rólegur og samvinnufús. Hafi hann sest á bekk fyrir aftan ökumannssæti og lögreglumaðurinn A á bekk gegnt honum. Lögreglubifreiðinni hafi verið ekið Laugarásveg til austurs. Við Langholtsveg hafi verið beygt til suðurs og ekið áleiðis að Álfheimum. Stuttu áður en komið hafi verið að gatnamótunum hafi ákærði tekið upp sígarettu, sett hana í munn sinn og gert sig líklegan til að kveikja í henni. Hafi A vinsamlega beðið ákærða um að kveikja ekki í sígarettunni, en ákærði lýst yfir að hann ætlaði að kveikja í henni. Hafi A þá tekið sígarettuna úr munni ákærða. Ákærði hafi brugðist ókvæða við, staðið upp og ráðist að A með krepptum hnefum. Hafi A náð að verjast höggum ákærða en af þeim sökum hafi B stöðvað lögreglubifreiðina. Við það hafi ákærði og A henst fram í bifreiðina og hafnað aftan á hægra framsæti bifreiðarinnar. Hafi A lent undir ákærða. B hafi farið aftur í lögreglubifreiðina og hafi hann, ásamt A, reynt að koma ákærða í lögreglutök. Ákærði hafi barist harkalega gegn lögreglumönnunum og ítrekað reynt að slá til þeirra. Hafi lögreglumennirnir óskað eftir aðstoð. Hafi B náð að halda hægri hendi ákærða fastri og A þeirri vinstri. Stuttu síðar hafi lögreglumenn komið á vettvang og aðstoðað við að færa ákærða í handjárn. Í framhaldi hafi honum verið ekið á slysadeild. Ákærði hafi áfram verið æstur og m.a. barist um í lögreglubifreiðinni, sem og á slysadeild. Eftir að læknir hafi hugað að meiðslum ákærða hafi blóð verið tekið úr honum til ákvörðunar á alkóhólmagni. Í framhaldi hafi ákærði verið færður á lögreglustöð þar sem hann hafi verið vistaður í fangaklefa.
Ákærði neitar sök. Kaus hann að tjá sig ekki um ætlað brot sitt gegn valdstjórninni við skýrslugjöf hjá lögreglu. Fyrir dómi greindi hann frá því að hann myndi óljóst eftir atvikum umrætt sinn. Kvaðst hann einungis minnast þess að hafa verið fluttur í lögreglubifreið á brott af þeim stað þar sem bifreið hans hafi stöðvast eftir umferðaróhapp. Í lögreglubifreiðinni hafi síðan orðið einhverjar ryskingar vegna sígarettu þegar lögreglumaður hafi rifið hana af ákærða. Síðan hafi orðið talsvert högg er ökumaður lögreglubifreiðarinnar hafi skyndilega snögghemlað. Aðspurður kvaðst ákærði sér finnast ótrúlegt að hann hafi slegið lögreglumanninn A með krepptum hnefa í lögreglubifreiðinni.
Lögreglumaðurinn A kvaðst hafa haft afskipti af ákærða í framhaldi af umferðaróhappi aðfaranótt þriðjudagsins 5. október 2004. Ákveðið hafi verið að flytja hann í lögreglubifreið nr. 148 á slysadeild. Hafi ákærði sest á bekk fyrir aftan ökumannssæti og A á bekk gegnt honum. Á leið upp á slysadeild hafi A farið þess á leit við ákærða að veita honum persónulegar upplýsingar um sig. Ákærði hafi ekki orðið við því og A ákveðið að aðhafast ekkert frekar í því á því stigi í ljósi viðbragða ákærða. Ákærði hafi þá tekið upp sígarettupakka og kveikjara. Hafi A beðið hann um að reykja ekki þar sem reykingar væru ekki heimilar í lögreglubifreiðum. Ákærði hafi engu skeytt um það og sett upp í sig sígarettuna. Hafi A þá skipað honum að setja niður sígarettuna. Ákærði hafi þá kveikt á kveikjaranum og gert sig líklegan til að kveikja í sígarettunni. Hafi A þá teygt sig eftir sígarettunni og tekið hana úr munni ákærða. Ákærði hafi þá spyrnt sér upp af bekknum og rokið í A. Við það hafi A fallið aftur á bak á bekknum. Hafi hann þurft að setja hendur fyrir andlit sitt en þrjú högg frá ákærða hafi lent á framhandleggjum A. Hafi A náð að spyrna sér upp á móti ákærða og þannig náð að rísa á fætur, en allan þann tíma hafi ákærði slegið til A með krepptum hnefa. Þegar A hafi verið risinn á fætur hafi hann náð tökum á annarri hendi ákærða og reynt að ná hinni. Þá hafi ökumaður lögreglubifreiðarinnar stöðvað bifreiðina með þeim afleiðingum að A hafi misst jafnvægið og fallið með höfuðið á undan í bak sætis hægra megin að framan. Rétt eftir það hafi hann fundið þungt högg frá ákærða lenda á sér og við það hafi andlit A og háls klesst upp við sætisbakið. Hafi A legið þannig að hluta til á bakinu og með hægri hendi undir sér. Hafi hann átt mjög erfitt með að hreyfa sig. Ákærði hafi gripið í jakkaboðung A og dregið hann upp. Um leið hafi ákærði dregið hægri hendi upp með krepptum hnefa reiðubúna til höggs. Hafi A varið sig með því að setja vinstri hendi fyrir andlitið og þannig fundið nokkur högg lenda á hendinni. Höggin hafi a.m.k. verið þrjú. Í því hafi ökumaður lögreglubifreiðarinnar náð að fjarlægja ákærða af sér. Þeir hafi náð að kalla til frekari aðstoð og hafi aðrir lögreglumenn aðstoðað þá við að handjárna ákærða. Í framhaldi hafi hann verið færður á slysadeild.
B lögreglumaður kvaðst hafa ekið lögreglubifreið nr. 148 umrædda nótt. Hafi það verið mat lögreglumanna að ákærði væri rólegur. Hafi hann verið settur aftan í lögreglubifreiðina þar sem hann hafi setið á bekk. Lögreglumaðurinn A hafi setið á móti honum. B hafi ekið Laugarásveg að Langholtsvegi. Á Langholtsvegi hafi ákærði viljað fá sér sígarettu. A hafi kurteislega sagt honum að ekki mætti reykja í lögreglubifreiðinni. B hafi séð þessa atburðarás í baksýnisspegli lögreglubifreiðarinnar, en hann hafi fylgst með þeim í speglinum. Á Langholtsvegi að Álfheimum hafi ákærði verið kominn með sígarettu í munn og kveikjara í hendi. A hafi þá tekið sígarettuna af ákærða. Ákærði hafi þá staðið upp og slegið til A. Högginu hafi verið beint að höfði A, en hann náð að verjast því og höggið lent á framhandlegg A. B hafi stöðvað lögreglubifreiðina. Við það hafi A og ákærði misst jafnvægið og lent á baki hægra framsætis. A hafi lent fyrstur á bakinu og ákærði ofan á honum. Hafi B séð ákærða ofan á A ítrekað reyna að slá hann. Hafi þeir tekist á liggjandi á fjórum fótum. B hafi farið inn í bifreiðina að aftanverðu og tekið ákærða ofan af A. Þar hafi þeir reynt að hemja ákærða en hann ítrekað reynt að slá þá. Hafi hann verið mjög æstur og þeir því óskað eftir aðstoð annarra lögreglumanna. Hafi þá borið að garði og þeir hjálpað til við að færa ákærða í handjárn.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök en kveðst ekki muna atburði vel. Muni hann það eitt að hafa lent í ryskingum í lögreglubifreiðinni í tilefni af því að hann hafi ætlað að reykja sígarettu.
Lögreglumennirnir A og B hafa lýst atvikum í lögreglubifreiðinni. Hafa þeir báðir fullyrt að ákærði hafi veist að A og slegið til hans með krepptum hnefa eftir að A hafi tekið af honum sígarettu. A kveður höggin hafa verið þrjú. B kvaðst hafa séð ákærða slá einu sinni til A í þeirri stöðu. Þá hafa lögreglumennirnir borið á einn veg um að ákærði hafi slegið ítrekað til A eftir B hafi stöðvað lögreglubifreiðina. A hafi einnig náð að verjast þeim höggum og þau lent á framhandleggjum hans. Hver sá sem ræðst með ofbeldi gegn lögreglumönnum við skyldustörf gerist með því brotlegur við 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940. Með vísan til samhljóða framburða lögreglumannanna telur dómurinn sannað að ákærði hafi ráðist með ofbeldi gegn lögreglumanninum A. Með því hefur hann gerst brotlegur við 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru.
Ákærði er fæddur í júlí 1961. Sakaferill hans skiptir ekki máli um ákvörðun refsingar. Ákærði réðst að fyrra bragði með líkamlegu ofbeldi gegn lögreglumanni sem var að gegna skyldustarfi. Var það með öllu tilefnislaust og háttsemin sérlega ámælisverð. Með hliðsjón af því, sem og 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Í ljósi sakaferils hans þykir fært að skilorðsbinda refsinguna að hluta með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Ákærði verður dæmdur til að greiða tildæmd málsvarnarlaun, að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Steinþór Kristjánsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu þriggja mánaða refsivistarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns 175.296 krónur.