Hæstiréttur íslands

Mál nr. 431/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ökuréttur
  • Bráðabirgðasvipting
  • Framsal valds


Mánudaginn 11

 

Mánudaginn 11. desember 2000.

Nr. 431/2000.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

Ingimundi Sverri Sigfússyni

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

                                                   

Kærumál. Ökuréttur. Bráðabirgðasvipting. Valdframsal.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2000, þar sem staðfest var bráðabirgða-svipting ökuréttar sóknaraðila frá 7. október 2000. Kæruheimild er í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms og framangreind svipting ökuréttar til bráðabirgða, sem tveir lögreglumenn við embætti sóknaraðila gerðu varnaraðila að sæta, verði felld úr gildi. Jafnframt er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I.

Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði kveðast tveir lögreglumenn hafa mælt ökuhraða bifreiðarinnar OX-358 með ratsjá, þar sem henni var ekið norður Eiðsgranda í Reykjavík 7. október 2000 klukkan 21:58. Sýndi ratsjáin ökuhraðann 122 km á klukkustund að teknu tilliti til vikmarka, en leyfður ökuhraði er þar 50 km á klukkustund. Veittu lögreglumennirnir bifreiðinni eftirför og var hún stöðvuð nokkru síðar. Vegna hraðaksturs var varnaraðili, sem ók bifreiðinni í umrætt sinn, í kjölfarið sviptur ökurétti til bráðabirgða, en samkvæmt skýrslu lögreglunnar var klukkan þá 22:20. Málavextir eru nánar raktir í úrskurði héraðsdóms.

Til stuðnings kröfu sinni vísar varnaraðili í fyrsta lagi til þess að í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga séu ákvæði þess efnis að lögreglustjóri skuli svipta ökumann ökurétti til bráðabirgða, ef tiltekin skilyrði eru fyrir hendi. Hafi lögreglumenn á vettvangi hins ætlaða brots ekki farið með það vald, sem lögreglustjóra sé fengið með nefndu lagaákvæði til að svipta menn ökurétti til bráðabirgða. Meðferð þess sé hjá lögreglustjóra sjálfum eða staðgengli hans og verði það ekki framselt öðrum án skýrrar lagaheimildar. Í bréfi lögreglustjóra til varnaraðila 13. október 2000 hafi ökuleyfissviptingin heldur ekki verið staðfest eftir á. Í annan stað hljóti brot að þurfa að vera hafið yfir vafa til þess að unnt sé að beita heimildinni. Sú aðstaða sé hér ekki fyrir hendi. Er í því sambandi meðal annars tekið fram að eftirför lögreglumannanna hafi ekki verið óslitin, enda hafi stöðvunarmerki ekki verið gefið og varnaraðili ekki orðið lögreglunnar var fyrr en bifreiðin var stöðvuð allfjarri þeim stað, þar sem mælt var. Þá komi ekki fram í lögregluskýrslu að sá ökuhraði, sem lögreglumenn töldu sig hafa mælt, hafi verið borinn undir varnaraðila og hann látinn staðfesta hann eða synja.

II.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt „Reglur um bráðabirgðasviptingu ökuréttar vegna of hraðs aksturs og ölvunar við akstur“, sem hann gaf út 1. júlí 1998. Segir þar í upphafi að ökumenn, sem aka svo hratt að varða kunni sviptingu ökuréttar, skuli svipta ökurétti á vettvangi. Sé lögreglumönnum, sem lokið hafa námi frá Lögregluskóla ríkisins, heimilt að gera það samkvæmt 103. gr. umferðarlaga. Ef einhver vafi sé um að hraðamæling lögreglu sé rétt skuli ekki svipta til bráðabirgða. Er síðan að finna nánari fyrirmæli í þessum reglum um hvernig heimildinni skuli beitt, en þar kemur meðal annars fram að sé mældur ökuhraði 94 km á klukkustund eða meiri þar sem hámarkshraði er 50 km á klukkustund, skuli ökumaður sviptur ökurétti til bráðabirgða.

Þá þá hefur einnig verið lagt fram bréf ríkissaksóknara til allra lögreglustjóra 17. desember 1998. Segir þar að vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 443/1998, sem kveðinn var upp sama dag, sé hér með mælt fyrir um að ekki skuli svipta mann ökurétti vegna of hraðs aksturs nema ökuhraði hans hafi verið slíkur að varði sviptingu ökuréttar í 3 mánuði hið skemmsta samkvæmt viðauka við reglugerð nr. 280/1998. Degi síðar gaf sóknaraðili út „Breytingar á vinnureglum varðandi bráðabirgðasviptingar“, þar sem í upphafi er vísað í áðurnefndan dóm Hæstaréttar og bréf ríkissaksóknara. Segir síðan að vinnureglur lögreglumanna skuli hér eftir vera með þeim hætti að einungis megi svipta til bráðabirgða þegar mældur ökuhraði með tilliti til vikmarka, varði þriggja mánaða sviptingu. Er jafnframt áréttað að einungis fullmenntaðir lögreglumenn skuli svipta menn ökurétti til bráðabirgða. Nánari fyrirmæli í þessum breyttu reglum um það, hvernig heimildinni skuli beitt, fela meðal annars í sér að svipta skuli til bráðabirgða þegar mældur hraði með tilliti til vikmarka sé 105 km á klukkustund eða meiri þar sem hámarkshraði er 50 km á klukkustund.

 

 

III.

Ekki verður á það fallist að 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga verði skýrð svo að lögreglustjóri verði sjálfur að taka afstöðu til hverrar lögregluaðgerðar, sem felur í sér sviptingu ökuréttar til bráðabirgða. Felst í því óhjákvæmileg verkaskipting að tilteknir undirmenn lögreglustjóra geti annast slík störf í umboði og á ábyrgð hans. Við mat á því hve langt verði gengið í þessu efni er meðal annars til þess að líta að í áðurnefndum reglum er kveðið á um að einungis fullmenntaðir lögreglumenn megi svipta menn ökurétti til bráðabirgða. Lögreglustjóri getur endurskoðað slíka ákvörðun og jafnframt afturkallað heimildina hvenær sem er. Þá er hún takmörkuð við alvarleg brot af þessu tagi, auk þess sem heimildinni verður því aðeins beitt að ekki sé vafi um að hraðamæling lögreglu sé rétt. Er í nefndum reglum gætt eðlilegra sjónarmiða um réttaröryggi við meðferð starfsmanna lögreglustjóra á valdi samkvæmt 103. gr. umferðarlaga til að svipta menn ökurétti til bráðabirgða. Þá verður ákvörðun lögreglu um bráðabirgðasviptingu borin undir dómstóla, svo sem fyrir er mælt í sömu grein umferðarlaga. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður hafnað málsvörn varnaraðila, sem lýtur að heimildarleysi lögreglumanna og áður er getið.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hafnað þeirri viðbáru varnaraðila að sá vafi sé uppi í málinu varðandi ætlað brot hans að ekki sé heimilt að svipta hann ökurétti til bráðabirgða. Samkvæmt því verður úrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2000.

Málsaðilar eru: Ingimundur Sverrir Sigfússon, kt. 051181-4769, Bæjartúni 15, Kópavogi, sem hér eftir verður vísað til sem sóknaraðila og lögreglustjórinn í Reykjavík, kt. 450269-7519, Hverfisgötu 115, Reykjavík, sem eftirleiðis verður nefndur varnaraðili.

Mál þetta barst dóminum hinn 6. nóvember sl. með bréfi lögmanns Ingimundar Sverris Sigfússonar, sem dagsett er 3. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 13. nóvember sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili gerir þær dómkröfur með vísan til 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila frá 7. október sl. um að honum verði gert að sæta sviptingu ökuréttinda til bráðabirgða.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar dómsins á þeirri ákvörðun að svipta sóknaraðila ökuréttindum til bráðabirgða. Einnig krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati réttarins.

 

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Fyrir liggur í málinu skýrsla lögreglumannsins Sigurbjörns Þorgeirssonar frá 7. október sl. þar sem atvikum er svo lýst: ,,Vorum staddir á Eiðsgranda norðan við Rekagranda gagngert til að mæla ökuhraða er við mældum gráa sportbifreið, tveggja sæta með svartri blæju, með upphafsstafina OX á 126 km/klst. Bifreiðinni var ekið norður Eiðsgranda að Boðagranda er mæling var gerð. Ég og lögreglumaður nr. H-646 (þ.e. Jónas Þór Oddsson, sem staðfestir skýrsluna, innskot dómara) lásu af ratsjánni. Fórum á eftir sportbifreiðinni og var henni ekið norður Eiðsgranda, í gegnum hringtorf við Hringbraut og áfram norðua Ánanaust. Sportbifreiðinni var síðan ekið í gegnum hringtorg við Mýrargötu og áfram norður Grandagarð.  Á Grandagarði, norðan við Grandakaffi, sneri ökumaður bifreiðarinnar henni við og hóf akstur í suður, á móti okkur. Var akstur bifreiðarinnar stöðvaður á Grandagarði við Grandakaffi. Reyndist skráningarnúmer hennar vera ÖX-358.  Ökumaður bifreið­arinnar var boðaður yfir í lögreglubifreiðina 10-269 og honum kynnt ástæða afskiptanna, of hraður akstur. Ökumanni var kynnt að hann þyrfti ekki að tjá sig um brotið en ef hann kysi að tjá sig þá væri hann áminntur um sannsögli. Ökumaður kvaðst hafa fengið bifreiðina lánaða hjá vini föður hans og sagðist hann bara hafa ætlað að prófa kraftinn í henni. Ökumaður margbað okkur um að sleppa sér og spurði okkur hvað við hefðum gert ef við hefðum verið í hans sporum með svo kraftmikla bifreið, yfir 300 hestöfl. Aðspurður kvaðst ökumaður ekki vera með ökuskírteinið meðferðis og sagði það vera glatað. Ökumaður framvísaði þess í stað debetkorti. Ökuréttindi voru könnuð um fjarskipti og reyndist ökumaður vera með B réttindi í lagi. Ökumaður var sviptur ökurétti á vettvangi, kl. 22:20, samkvæmt 103. gr. umferðarlaganna og tók félagi hans, sem kom þar að á annarri bifreið, við akstri bifreiðarinnar ÖX-358. …”

Fram kom fyrr í skýrslunni, að mæling lögreglumannanna hefði átt sér stað kl. 21:58. Sóknaraðili hafi verið ökumaður bifreiðarinnar, sem var af gerðinni Honda S2000, grá að lit. Mældur ökuhraði hafi verið 126 km/klst.; niðurstaða að teknu tilliti til skekkjumarka sé 122 km/klst. Hámarkshraði, þar sem mæling fór fram sé 50 km/klst.

Þá liggur fyrir skýrsla lögreglunnar í Reykjavík um að sóknaraðili hafi verið sviptur ökuréttindum til bráðabirgða í þrjá mánuði. Þar kemur fram, hvaða bifreið sóknaraðili hafi ekið og mældur ökuhraði; hvenær mælt var og leyfður hámarkshraði, þar sem mæling fór fram. Sóknaraðili staðfesti með undirritun sinni, að efni skýrslunnar hafi verið kynnt honum.

Varnaraðili sendi sóknaraðila svonefnda sektargerð, dags. 13. október sl. þar sem honum var gefinn kostur á því, ,,að ljúka málinu án dómsmeðferðar með sátt þannig: með greiðslu sektar til ríkissjóðs kr. 52.000 með sviptingu ökuréttar í 4 mánuði.”  Bent var á að veittur yrði 25% afsláttur yrði greiðsla innt af hendi innan 30 daga.  Í sektargerðinni kemur einnig fram, að brot sóknaraðila varði 4 punktum, sbr. reglugerð nr. 431/1997 í ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Síðan segir þar: ,,Með þessum punktum hafa alls verið færðir 10 punktar í ökuferilsskrá yðar og skv. 8. gr. reglugerðarinnar verðið þér því jafnframt sviptir ökuleyfi í 3 mánuði.”

Lögmaður sóknaraðila ritaði varnaraðila bréf, dags. 23. október sl. og hafnaði sáttarboðinu f.h. umbj. síns af ástæðum, sem síðar verður vikið að. Jafnframt var þess krafist af hálfu lögmanns sóknaraðila, að svipting ökuréttinda sóknaraðila yrði felld úr gildi.  Þessu hafnaði varnaraðili með bréfi til lögmanns sóknaraðila, sem dags. er 2. nóvember sl. og í kjölfar þess vísaði sóknaraðili málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína bæði á formlegum ástæðum og efnislegum.  Byggt sé þannig á þeirri formástæðu, að lögreglumennirnir á  vettvangi hins meinta brots hafi ekki farið með það vald sem lögreglustjóra sé fengið í 1. mgr. 103 gr. umferðarlaga til að svipta menn ökurétti til bráðabirgða. meðferð þess hljóti að lögum að vera hjá lögreglustjóra sjálfum eða staðgengli hans, ef því er að skipta. Ljóst sé, að svipting ökuréttinda til bráðabirgða sé íþyngjandi ákvörðun. Því þurfi slík aðgerð að styðjast við skýra lagaheimild. Sú heimild sé ekki fyrir hendi í tilvitnuðu ákvæði umferðarlaga. Því hafi þeir lögreglumenn, sem að sviptingunni stóðu farið út fyrir leyfileg og heimil valdmörk og aðgerðin ólögmæt af þeim sökum.

Þá byggir sóknaraðili á því, að ekki hafi verið borið undir hann á vettvangi, hvort hann hafi ekið á þeim hraða, sem hann er sakaður um, enda beri skýrsla lögreglu það ekki með sér. Hann mótmælir því að hafa gerst sekur um hraðakstur þann, sem í lögregluskýrslu greinir.

Sóknaraðili bendir enn fremur á það, að eftirför lögreglu hafi ekki verið óslitin. Í lögregluskýrslu komi fram, að mæling á hraða bifreiðar með OX númeri hafi átt sér stað kl. 21:58. Hins vegar segi í skýrslu lögreglu um ökuréttindasviptingu hans, að sú aðgerð hafi átt sér stað kl. 22:20 eða 22 mínútum síðar. Ljóst sé því, að eftirför lögreglu hafi ekki verið óslitin og hraðamæling lögreglu snúi að annarri bifreið. Því sé ósannað með öllu að hann hafi ekið bifreiðinni ÖX-358, þegar mæling lögreglu átti sér stað. Þá segi ekkert um það í skýrslu lögreglu að stöðvunarmerki hafi verið gefið.

Sóknaraðili vefengir hraðamælingu lögreglu og vísar til þess, að hann hafi verið að koma frá Seilugranda, sem sé svo skammt sunnan við þann stað, sem mæling lögreglu á að hafa átt sér stað, að útilokað sé, að bifreiðin hafi náð tilgreindum hraða á svo stuttri vegalengd, jafnvel þótt um aflmikla bifreið sé að ræða.

Sóknaraðili telur, að svipting ökuréttinda til bráðabirgða hljóti eðli málsins samkvæmt að vera bundin við þau atvik ein, þar sem enginn vafi leiki á, að það brot hafi verið framið, sem brugðist sé við með þessum hætti. Í máli þessu skorti mikið á, að svo verði talið. Raunar svo mikið, að ætla megi að ekki verði nokkurri sviptingu við komið á þeim grundvelli, sem fyrir liggi í málinu, heldur ekki eftir undanfarandi meðferð málsins fyrir dómi.

 

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili mótmælir framangreindum rökum og málsástæðum sóknaraðila.

Hann bendir á það, að vanir lögreglumenn hafi átt hér hlut að máli. Þeir hafi verið að sinna venjulegu umferðareftirliti og hafi þeir lesið samtímis af ratsjánni, eins og venja sé til, þegar hraðamælingar með ratsjá eigi sér stað. Bifreið sóknaraðila hafi verið veitt eftirför og hafi hún verið óslitin. Bifreiðinni hafi verið snúið við á mót við Grandakaffi og verið stöðvuð þar. Þá hafi komið í ljós, að sóknaraðili var ökumaður hennar. Hann hafi þá hvorki mótmælt mælingu lögreglu né því að hafa ekið bifreiðinni, að því er séð verði. Aftur á móti hafi hann margbeðið lögreglumennina að sleppa sér. Ekkert renni stoðum undir þá fullyrðingu sóknaraðila að 20 mínútur hafi liðið frá því hraðamæling átti sér stað og þar til bifreiðin var stöðvuð, eins og sóknaraðili haldi fram. Hins vegar komi fram í lögregluskýrslu, að liðið hafi 22 mínútur frá því mæling átti sér stað og þar til sóknaraðili var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Með hliðsjón af málsatvikum hafi lögreglumönnum þeim, sem í hlut áttu, borið skylda til þess með vísan til 1. mgr. 103 gr. laga að svipta sóknaraðila ökuréttindum til bráðabirgða, þar sem sóknaraðili hafi gerst sekur um vítaverðan akstur.

Varnaraðili vísar til þess, að Hæstiréttur hafi margítrekað staðfest úrskurði héraðsdóms um sviptingu ökuréttinda til bráðabirgða, þegar eins hefur staðið á og í þessu máli, þ.e. að lögreglumenn hafi framkvæmt sviptingu ökuréttinda á vettvangi. Fyrir því sé löng dómvenja að standa þannig að málum.  Varnaraðili benti ekki á ákveðna dóma Hæstaréttar til sönnunar þessari fullyrðingu sinni.

 

Forsendur og niðurstaða:

Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því, að lagaheimild sé ekki fyrir hendi, sem veiti lögreglumönnum heimild til að svipta menn ökuréttindum, heldur verði lögreglu­stjóri sjálfur að standa að þeirri ákvörðun eða staðgengill hans, skv. skýrum fyrir­mælum í 1. mgr. 103 gr. umferðarlaga.

Hæstiréttur tók afstöðu til þessa álitaefnis í máli nr. 198/1988 (Hrd. 1988:1127). 

Þar voru að vísu atvik með þeim hætti að aðalvarðstjóri stóð að framkvæmd ökuréttindasviptingar, en ekki lögreglumenn á vettvangi.

Að mati dómsins verður að líta til þess, hvort atvik séu með þeim hætti að þörf sé skjótra viðbragða lögreglu.

Samkvæmt lögregluskýrslu frá 7. október sl. og áður er lýst, mældu lög­reglumenn þeir, sem skýrsluna unnu,  hraða grárrar sportbifreiðar 126 km/klst þar sem henni var ekið eftir Eiðisgranda í Reykjavík. Gátu þeir greint að bifreiðin bar skásetningarnúmer með bókstöfunum OX. Veittu þeir bifreiðinni eftirför og verður ekki annað ráðið, en þeir hafi haft sjónar á henni, allt þar til hún var stöðvuð og sóknaraðili steig út úr henni. Í ljós kom, að sú bifreið bar skrásetningarnúmerið ÖX-358. Um var að ræða gráa sportbifreið. Verður því ekki á þá málsástæðu sóknaraðila fallist að ósannað sé, að hann hafi ekið bifreiðinni.  Sóknaraðili undirritaði kl. 22.20 hinn 7. október sl. skjal, þar sem hann var sviptur ökuréttindum. Þar kemur fram, að hraði bifreiðar hans hafi verið 126 km/klst., þar sem leyfður hámarkshraði sé 50 km/klst.  Einnig kemur þar fram, að hraðamæling hafi átt sér stað kl. 21:58 en skýrslan gerð kl. 22.20. Því verður ekki fallist á þá fullyrðingu sóknaraðila, að mældur hraði bifreiðarinnar hafi ekki verið borinn undir hann.

Í 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga segir að svipta skuli mann ökurétti hafi hann gerst sekur um mjög vítaverðan akstur og ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins, eða annars framferðis hans sem ökumanns varhugavert að hann stjórni vélknúnu ökutæki.  Lögreglustjóra ber skv. 103. gr. umferðarlaga að svipta mann ökurétti til bráðabirgða telji hann skilyrði sviptingar ökuréttar vera fyrir hendi, sbr. heimild í viðauka I í rgl. nr. 280/1998, sbr. og rgl. nr. 732/2000, sem settar eru með heimild í 4. mgr. 100 gr. umferðarlaga.

Svo sem rakið var mældist ökuhraði kærða mun meiri en tvöfaldur leyfilegur hámarkshraði. Því telur dómurinn, að lögreglumönnum þeim, sem vitni urðu að atburðinum og skráðu um hann skýrslu, hafi verið rétt, eins og hér stóð á, að svipta sóknaraðila ökuréttindum á grundvelli 103., sbr. 101. gr. umferðarlaga.

Ökuréttarsvipting sú, sem málið er risið af er bráðabirgðaúrræði. Eðli málsins samkvæmt verður ekki við þær aðstæður tekin skýrsla fyrir dómi af lögreglumönnum, sem að málinu unnu og óeðlilegt að gera kröfu þar um á þessu stigi málsins.

Með vísan til ofanritaðs og gagna málsins þykja ekki efni til að fella hina kærðu bráðabirgðasviptingu ökuréttar úr gildi og er hún því staðfest.

Sóknaraðili hefur hafnað því, að ljúka málinu með dómsátt. Fullvíst þykir, að ákæra mun verða gefin út á hendur sóknaraðila. Rétt er því, að ákvörðun um málskostnað bíði efnisúrlausnar málsins, enda hefur lögmaður sóknaraðila ekki verið skipaður verjandi hans, sbr. 164. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Bráðabirgðasvipting ökuréttar Ingimundar Sverris Sigfússonar frá 7. október 2000 er staðfest.

Ákvörðun um málsvarnarlaun bíður efnisúrlausnar málsins.