Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-62
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Útburðargerð
- Aðför
- Lóðarsamningur
- Sveitarstjórn
- Fasteign
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 28. febrúar 2018 sem barst Hæstarétti 6. mars sama ár leitar Eignarhaldsfélagið Ingólfstorg ehf. eftir að fá leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 21. febrúar 2018 í málinu nr. 138/2018: Eignarhaldsfélagið Ingólfstorg ehf. gegn Seltjarnarnesbæ, á grundvelli 4. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Seltjarnarnesbær leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu Seltjarnarnesbæjar um að söluskáli Eignarhaldsfélagsins Ingólfstorgs ehf. verði með beinni aðfarargerð borinn út af lóðinni Suðurströnd 10 í Seltjarnarnesbæ, sem tilheyrir bænum, á þeim grundvelli að leigusamningur um lóðina sé útrunninn. Héraðsdómur féllst á kröfu varnaraðila og var úrskurður héraðsdóms staðfestur með ofangreindum úrskurði Landsréttar. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort réttur Seltjarnarnesbæjar til að krefjast útburðar á grundvelli 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 sé nægjanlega ljós eða skýr svo fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 83. gr. laganna um sönnun fyrir réttmæti kröfu. Þá heldur Eignarhaldsfélagið Ingólfstorg ehf. því jafnframt fram að krafa Seltjarnarnesbæjar feli í sér brot gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar, 1. gr. 1. viðauka við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að það hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.