Hæstiréttur íslands

Mál nr. 270/2000


Lykilorð

  • Víxill
  • Endurkrafa
  • Fyrning


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2001.

Nr. 270/2000.

Einar Magnússon

(Kjartan Reynir Ólafsson hrl.)

gegn

Valdimar Elíassyni

(Óskar Thorarensen hrl.)

og gagnsök

             

Víxill. Endurkrafa. Fyrning.

V var útgefandi víxils sem E samþykkti og Þ ábekti. Með dómi Hæstaréttar 15. júní 1995 voru E, V og Þ dæmdir sameiginlega til greiðslu höfuðstólsfjárhæðar víxilsins, að viðbættum dráttarvöxtum og málskostnaði. Að samkomulagi varð milli V og Þ að hvor þeirra greiddi helming dómkröfunnar og greiddi V dómhafa í samræmi við það 2.201.567,50 krónur 18. desember 1995. V bar að hann hefði gengist undir víxilskuldbindinguna í greiðaskyni við E og krafði hann um þá fjárhæð sem hann hafði greitt. Lagt var til grundvallar að V hefði einskis ávinnings notið af því að takast víxilskuldbindinguna á herðar og að ekkert viðskiptasamband hefði verið milli hans og E. Var því talið að með því að greiða helming kröfunnar hefði V öðlast endurgjaldskröfu á hendur E sem þeirri greiðslu nam. Fyrningarfrestur þeirrar endurgjaldskröfu var ekki talinn hafa hafist fyrr en á þeim degi er greiðslan var innt af hendi. Var hún því ekki talin niður fallin fyrir fyrningu þegar málið var höfðað 13. desember 1999. Var niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu E því staðfest um annað en dráttarvexti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2000. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 29. ágúst 2000. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en dráttarvexti, sem hann krefst samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. desember 1995 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með dómi Hæstaréttar 15. júní 1995 voru aðaláfrýjandi, gagnáfrýjandi og Þórir Magnússon dæmdir sameiginlega til að greiða Íslandsbanka hf. höfuðstól víxils ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði, sbr. dómasafn 1995 bls. 1706. Víxill þessi, sem var útgefinn og ábektur af gagnáfrýjanda, samþykktur af aðaláfrýjanda og ábektur af Þóri Magnússyni, hafði verið settur til tryggingar yfirdráttarheimild á tékkareikningi aðaláfrýjanda í Iðnaðarbanka Íslands hf., síðar Íslandsbanka hf. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi bar gagnáfrýjandi fyrir héraðsdómi að hann hefði gengist undir þessa víxilskuldbindingu í greiðaskyni við aðaláfrýjanda. Hefði ekki verið á milli þeirra viðskiptasamband og hann einskis ávinnings notið vegna undirskriftar sinnar á víxilinn. Eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir varð það að samkomulagi milli gagnáfrýjanda og Þóris Magnússonar að greiða dómkröfuna að helmingi hvor. Greiddi gagnáfrýjandi Íslandsbanka hf. í samræmi við það 2.201.567,50 krónur 18. desember 1995.

II.

Við munnlegan málflutning í Hæstarétti féll gagnáfrýjandi frá því að byggja kröfu sína á auðgunarreglu 74. gr. víxillaga nr. 93/1933.

Leggja verður til grundvallar að gagnáfrýjandi hafi einskis ávinnings notið af því að takst á hendur víxilskuldbindingu þá, er að framan greinir, og ekkert viðskiptasamband verið milli hans og aðaláfrýjanda. Jafnframt liggur fyrir að aðaláfrýjandi hagnýtti sér á sínum tíma úttekt af tékkareikningi sínum hjá Iðnaðarbanka Íslands hf., sem víxillinn stóð til tryggingar á. Með því að greiða Íslandsbanka hf. 18. desember 1995 helming kröfu samkvæmt fyrrgreindum dómi Hæstaréttar öðlaðist gagnáfrýjandi endurgjaldskröfu á hendur aðaláfrýjanda, sem þeirri greiðslu nam. Fyrningarfrestur þeirrar endurgjaldskröfu hófst ekki fyrr en þann dag, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Var hún því ekki fallin niður fyrir fyrningu þegar aðaláfrýjanda var birt stefna í málinu 13. desember 1999. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um annað en upphafstíma dráttarvaxta. Ekki liggur fyrir að gagnáfrýjandi hafi haft uppi kröfur á hendur aðaláfrýjanda fyrr en með höfðun máls þessa. Verða dráttarvextir því dæmdir frá 13. desember 1999, sbr. 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur um annað en dráttarvexti, sem greiðast samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987  frá 13. desember 1999 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi, Einar Magnússon, greiði gagnáfrýjanda, Valdimar Elíassyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2000.

 

Mál þetta, sem dómtekið var 22. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Valdimar Elíassyni, kt. 230249-2109, Álfholti 22, Hafnarfirði, á hendur Einari Magnússyni, kt. 110836-3419, Torfufelli 25, Reykjavík, með stefnu sem birt var 13. desember 1999.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.201.567 krónur auk hæstu lögleyfðu dráttarvaxta frá 18. desember 1995 til greiðsludags skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda lægri fjárhæð að mati réttarins auk hæstu lögleyfðu dráttarvaxta frá 18. desember 1995 til greiðsludags skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 18. desember 1996.  Að lokum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati réttarins.

I.

Málavextir eru þeir að stefnandi gerðist útgefandi tryggingarvíxils, sem stefndi lagði inn sem tryggingu á yfirdráttarheimild á tékkareikningi sínum í útibúi Iðnaðarbanka Íslands hf., Strandgötu 1, Hafnarfirði - en banki þessi varð síðar Íslandsbanki hf.  Víxillinn var afhentur bankanum án þess að getið væri útgáfudags, gjalddaga og fjárhæðar.  Greiðandi var stefndi.  Auk þess að vera útgefandi var stefnandi ábekingur.  Þá var Þórir Magnússon, kt. 200544-4209, ábekingur.  Tékkareikn-ingnum var lokað og fyllti bankinn tryggingarvíxilinn út á grundvelli svohljóðandi yfirlýsingar stefnanda, stefnda og Þóris Magnússonar:

Víxill þessi er óútfylltur (in blanco) að því er varaðar útgáfudag, gjalddaga og fjárhæð.  Víxillinn er afhentur bankanum til tryggingar lánaviðskiptum okkar við bankann, sem er yfirdráttarheimild á tékkareikningi nr: (10) 1506 og um er samið sérstaklega hverju sinni og getur bankinn, hvenær sem hann sér ástæðu til, sett útgáfudag og fjárhæð á víxilinn, sýnt hann til greiðslu og innheimt hann á venjulegan hátt, ef greiðslufall verður.  Víxilfjárhæðin, sem færð yrði á víxilinn, má ekki varða önnur viðskipti mín í bankanum en tilgreind eru í yfirlýsingu þessari, auk alls kostnaðar og vaxta af sömu ástæðum.

Útgáfudagur varð 22. mars 1993, gjalddagi 1. apríl 1993 og fjárhæð tryggingarvíxilsins 2.870.713 krónur.  Víxillinn var ekki greiddur á gjalddaga en greitt var inn á hann 39.787,14 krónur 30. apríl 1993.

Með stefnu, sem gefin var út 28. september 1993, stefndi Íslandsbanki hf. stefnda og stefnanda í máli því, er hér er til umfjöllunar, og nefndum Þóri Magnússyni til greiðslu á skuldinni skv. víxlinum.  Héraðsdómur Reykjaness dæmdi þá 19. janúar 1994 til að greiða Íslandsbanka hf. 2.830.926 krónur með dráttarvöxtum frá 18. júní til greiðsludags auk 150.000 króna í málskostnað.  Hæstiréttur staðfesti síðan niðurstöðu héraðsdóms 15. júní 1995 og gerði þeim að greiða Íslandsbanka hf. 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Af hálfu stefnanda segir:

Eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir og stefndi í máli þessu, Einar Magnússon, gerði sig ekki líklegan til að greiða dómskuldina varð að samkomulagi milli stefnanda máls þessa, Valdimars, og Þóris Magnússonar, sem var ábekingur á víxlinum, að losa sig undan greiðsluskyldu skv. dóminum með því að greiða kröfuna hjá Íslandsbanka hf. þannig að hvor greiddi helming dómskuldarinnar.  Þannig greiddi Valdimar til bankans hinn 18.12.1995 kr. 2.201567,50.

Af hálfu stefnda segir:

Stefnandi hefur aldrei skorað á stefnda að greiða sér þann hluta dómskuldarinnar, er stefnandi sem dómþoli greiddi til Íslandsbanka hf hinn 18. desember 1995 með kr. 2.201.567,50 ...

Það er fyrst með birtingu stefnu í máli þessu, hinn 13. desember 1999, ..., sem stefnandi leitar eftir endurkröfu hjá stefnda.

II.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi í eigin þágu hagnýtt peningaúttekt þá, sem tryggingarvíxillinn tryggði, og vegna vanskila stefnda í banka sínum hafi stefnandi verið dæmdur í Hæstarétti til að greiða Íslandsbanka hf. í Hafnarfirði in solidum með stefnda og Þóri Magnússyni 2.830.926 krónur auk dráttarvaxta frá 18. júní 1993 til greiðsludags auk málskostnaðar.  Eftir að dómur gekk í Hæstarétti hafi stefnandi og Þórir Magnússon ákveðið að skipta fjárhæð dómkröfu til helminga á milli sín og greiða bankanum svo komist yrði undan frekari innheimtuaðgerðum.  Hafi stefnandi greitt lögmanni Íslandsbanka hf. í Hafnarfirði 2.201.567,50 krónur þann 18. desember 1995.

Stefnandi telur dóm Hæstaréttar og framlagt ljósrit af greiðsluseðli, sem sýnir að hann hafi greitt lögmanni Íslandsbanka hf. 2.201.567,50 krónur, sanna kröfur sínar.  Stefnandi ályktar að stefndi hafi auðgast sem nemi stefnufjárhæð á kostnað stefnanda og reisir kröfu á ákvæðum 74. gr. víxillaga nr. 93/1933.  Verði ekki fallist á það, kveðst hann byggja á því að hann eigi skaðabótakröfu fyrir dómkröfu á hendur stefnda vegna tjóns, sem stefndi hafi valdið honum, með því að láta falla á hann greiðsluskyldu vegna kröfu, sem stefndi hafi lofað stefnanda að standa skil á, þar eð stefnandi hafi eingöngu gengið í ábyrgð fyrir stefnda en ekki lofað honum að greiða fyrir hann.  Verði ekki á það fallist sé byggt á því, að stefnandi eigi endurkröfu á stefnda fyrir 2.201.567 krónum skv. almennum reglum kröfuréttar.

III.

Stefndi byggir sýknukröfur sínar á því að allar kröfur stefnanda í máli þessu séu fyrndar fyrir vangeymslu.  Um endurgjaldskröfur gildi meginregla 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, þ.e. fyrningarfrestur telst frá þeim degi, er krafan varð gjaldkræf, en það hafi verið er dómurinn var kveðinn upp 15. júní 1995.

Í fyrsta lagi er byggt á því að stefnanda hafi borið að sækja rétt sinn að lögum innan sex mánaða eftir að hinni fyrri málsókn var lokið, þ.e. 15. desember 1995, en þá hafi sá réttur fyrnst, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 14/1905.  Verði ekki fallist á það, er í öðru lagi byggt á því að skv. 1. mgr. 70. gr. víxillaga fyrnist allar kröfur skv. víxli á hendur samþykkjanda á þremur árum frá gjalddaga.  Tíminn markist af dómi Hæstaréttar 15. júní 1995 en stefnandi reisi kröfurétt sinn á hendur stefnda á þeim dómi.  Allar kröfur stefnanda á hendur stefnda hafi því fyrnst 15. júní 1998.  Verði ekki fallist á það, er í þriðja lagi byggt á því að allar kröfur stefnanda í máli þessu á hendur stefnda hafi í síðasta lagi fyrnst 15. júní 1999, þegar liðin voru fjögur ár frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í málinu nr. 40/1995.

Stefndi telur að krafa stefnanda eigi ekki stoð í ákv. 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 svo sem hann heldur fram, víxilkrafa hafi hvorki fyrnst né víxilréttur glatast fyrir vangeymslu.  Stefnandi hafi enda ekki verið eigandi víxils þess, sem hér um ræðir, heldur Íslandsbanki hf.  Stefndi telur heldur ekkert sýna né sanna að stefnandi hafi gerst útgefandi margnefnds víxils af greiðasemi við stefnda - engin lagastoð sé fyrir skaðabótakröfu stefnanda á hendur honum.  Hins vegar viðurkennir stefndi að stefnandi hafi átt endurkröfurétt á hendur honum að fjárhæð 2.201.567,50 króna sem stefnandi hafi ekki fylgt eftir innan þeirra tímamarka sem víxillög og lög um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda setja um gildistíma slíkrar kröfu.

Stefndi mótmælir sérstaklega upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda.  Það hafi fyrst verið með birtingu stefnu 13. desember 1999 sem stefnandi hafi leitað eftir greiðslu frá stefnda.

IV.

Stefnandi, Valdimar Elíasson, kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu.  Hann sagði m.a. að hann hefði ritað nafn sitt á tryggingarvíxil þann, sem tengist þessu máli, vegna þess að hann hefði þekkt stefnda, þeir hefðu keypt húsnæði hlið við hlið, stefndi hefði verið búinn að vera fisksali í bænum, hann hefði þekkt hann kringum það, stefndi hefði keypt „bil" við hliðina á honum og þegar stefndi hefði verið nýbúinn að standsetja þetta bil hefði hann skort fé svo hann hefði sagt stefnanda: „Ég fer niður í Landsbanka og bið um lán."  Honum hafi hins vegar verið synjað um lán.  Stefnandi kvaðst þá hafa sagt við hann: „Hefur þú prufað að fara í Íslandsbanka [Iðnaðarbanka Íslands hf.]?"  En stefnandi kvaðst hafa verið með sín bankaviðskipti þar.  Stefndi hefði neitað því en sagt: „Ég ætla að prufa það."  Stefndi hefði leitað til Iðnaðarbankans og nefnt stefnanda í því sambandi sem ábyrgðarmann á þennan víxil.  Það sem síðan hefði gerst hefði verið það, að stefndi hefði fengið þarna vilyrði um 500.000 króna lán í upphafi.  Kvaðst stefnandi hafa skrifað á þetta fyrir stefnda, en stefndi hefði beðið hann um að hafa víxilinn óútfylltan vegna þess að hann hefði ætlað að reyna að fá 800.000 krónur að láni.  Stefnandi kvaðst við svo búið hafa skrifað nafn sitt á óútfylltan víxil fyrir hann, sem síðan lenti í að verða tryggingarvíxill fyrir yfirdráttarheimild.  Um þetta kvaðst stefnandi ekkert hafa vitað fyrr en eftir mörg ár að þetta hefði „komið í hausinn á honum." Stefnandi kvaðst aðspurður hafa orðað það við stefnda að hann samþykkti að víxillinn yrði að fjárhæð 800.000 krónur.  Hann sagði að ekkert viðskiptasamband hefði verið milli sín og stefnanda.  Hann kvaðst engan ávinning hafa haft af þessari undirskrift á víxilinn.

Aðspurður kvaðst stefnandi ekki muna eftir því að hafa haft uppi andmæli gegn fjárhæð víxilsins þegar bankinn hóf innheimtuaðgerðir sínar gegn honum, en hann kvað þessa upphæð alveg hafa komið honum í opna skjöldu þegar honum barst þessi vitneskja með tilkynningu úr bankanum.  Kvaðst stefnandi þá ekki hafa haft hugmynd um hvað þetta var.  Það hafi verið svo langt um liðið síðan hann ritaði nafn sitt á víxilinn.  Fjárhæðin hefði verið rituð á víxilinn mörgum árum eftir undirritun hans.

V.

Niðurstaða:

Mál Íslandsbanka hf. gegn Valdimar Elíassyni og Einari Magnússyni - stefnanda og stefnda í máli því er hér er til umfjöllunar - og Þóri Magnússyni, bróður Einars, lauk með dómi Hæstaréttar 15. júní 1995 sem staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness frá 19. janúar 1994, þar sem þeir Valdimar, Einar og Þórir, voru dæmdir til að greiða Íslandsbanka hf. 2.830.926 krónur með dráttarvöxtum frá 18. júní 1993 til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.  Samkvæmt yfirlýsingu frá lögmanni bankans er upplýst „að skuldin var uppgerð með sérstöku samkomulagi af Þóri Magnússyni og Valdimar Elíassyni, þannig að þeir greiddu að jöfnu til undirritaðs hinn 18.12.1995 kr. 4.403.136 eða kr. 2.201.568 hvor."

Ekki er fallist á með stefnanda að ákv. 74. gr. víxillaga nr. 93/1933 eigi við um kröfu hans á hendur stefnda.  Stefnandi var ekki eigandi umrædds víxils.  Þá er heldur ekki fallist á að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með þeim hætti að stefnandi eigi skaðabótakröfu á stefnda. 

Viðurkennt er af stefnda svo sem segir í greinargerð hans: „að stefnandi hafi átt endurkröfurétt á hendur stefnda, að fjárhæð kr. 2.201.567,50, sem hann fylgdi ekki eftir innan þeirra tímamarka sem fyrningarreglur setja, hvorki samkvæmt víxillögum nr. 93/1933 eða lögum um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905."

Álykta verður að stefnandi, Valdimar Elíasson, hafi, þá er hann greiddi Íslandsbanka hf., 18. desember 1995, öðlast sjálfstæða kröfu um greiðslu sömu fjárhæðar úr hendi stefnda.  Fyrningarfrestur gat sama dag fyrst byrjað að líða á kröfu um endurgreiðslu.  Stefna í málinu var birt 13. desember 1999, þ.e. innan fjögurra ára frá því að stefnandi greiddi bankanum.  Ekki skiptir máli í þessu sambandi þó krafa bankans á hendur stefnanda hafi upphaflega verðið byggð á því að stefnandi var útgefandi tryggingarvíxils, sem stefndi hafði lagt inn sem tryggingu á yfirdráttarheimild á tékkareikningi sínum hjá Iðnaðarbanka Íslands hf., sem síðar varð Íslandsbanki hf.  Krafa bankans á hendur stefnanda var, svo sem áður sagði, að lokum byggð á dómi Hæstaréttar frá 15. júní 1995, og endurkrafa stefnanda á hendur stefnda, byggð á greiðslu stefnanda til Íslandsbanka hf., að fjárhæð 2.201.567 krónur, 18. desember 1995.  Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð með vöxtum eins og dómsorð greinir.

Rétt er að stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Einar Magnússon, greiði stefnanda, Valdimar Elíassyni, 2.201.567 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá 13. janúar 2000 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.