Hæstiréttur íslands
Mál nr. 458/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Umferðarlagabrot
- Útivistardómur
- Endurupptaka
|
|
Föstudaginn 26. nóvember 2004. |
|
Nr. 458/2004. |
Sýslumaðurinn á Akureyri(enginn) gegn Esther Brittu Vagnsdóttur (sjálf) |
Kærumál. Umferðarlagabrot. Útivistardómur. Endurupptaka.
E óskaði eftir því að dómur í máli hennar yrði endurupptekinn. Talið var að skilyrði 2. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála væru ekki uppfyllt til að taka málið upp og var kröfu hennar því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. nóvember 2004, þar sem hafnað var endurupptöku á máli sóknaraðila gegn varnaraðila, sem lokið var 14. september 2004 með héraðsdómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að synjun héraðsdómara á endurupptöku málsins verði felld úr gildi og málið verði tekið fyrir á ný.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. september 2004 höfðaði lögreglustjórinn á Akureyri mál á hendur varnaraðila með ákæru, sem gefin var út 27. maí 2004. Var henni gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni RU 169 yfir gatnamót Mýrarvegar og Þingvallastrætis á Akureyri á móti rauðu umferðarljósi. Fyrirkall í málinu var gefið út 29. júní 2004 og birt varnaraðila daginn eftir. Hún kom hins vegar ekki fyrir dóm og var málið að kröfu sóknaraðila því með vísan til 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 dómtekið. Með dómi héraðsdóms var varnaraðili dæmd til að greiða 15.000 krónur í sekt, sem skyldi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, ella skyldi hún sæta 2 daga fangelsi í stað sektarinnar. Samkvæmt gögnum málsins var dómurinn birtur varnaraðila 21. september 2004. Með bréfi 6. október 2004 til ríkissaksóknara lýsti varnaraðili yfir áfrýjun dómsins. Sú yfirlýsing var hvorki talin gild né marktæk að lögum samkvæmt bréfi ríkissaksóknara 7. sama mánaðar. Hins vegar tók hann fram að þar sem um útivistardóm væri að ræða gæti varnaraðili krafist þess að málið yrði endurupptekið, en slíkri kröfu bæri að beina til Héraðsdóms Norðurlands eystra innan áfrýjunarfrests sem væri að fullu liðinn 19. október 2004.
Með bréfi til héraðsdómara 11. október 2004 leitaði sonur varnaraðila eftir því að málið yrði endurupptekið. Þeirri beiðni til stuðnings vísaði hann til þess að varnaraðili hefði haft forföll þegar málið var þingfest og ekki haft tök á að tilkynna dóminum það. Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði héraðsdómari að taka málið upp á ný.
II.
Samkvæmt 2. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 getur ákærði krafist þess, hafi máli hans verið lokið með dómi að honum fjarstöddum, að það verði endurupptekið til nýrrar meðferðar í héraði ef hann sannar að hann hafi haft lögmæt forföll og ekki verið unnt að tilkynna það í tíma. Í máli þessu liggur ekki fyrir umboð varnaraðila til sonar síns til að leita eftir endurupptöku málsins. Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. nóvember síðastliðinn lýsti varnaraðili því yfir að hún hefði ekki mætt við þingfestingu málsins „þar sem hún hafi talið það óþarft þar sem hún hafi talið málið úr sögunni þá“ svo sem bókað var eftir henni í þingbók. Að þessu virtu eru ekki uppfyllt skilyrði samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði til að taka málið upp og verður kröfu um það því hafnað.
Dómsorð:
Hin kærða ákvörðun er staðfest.