Hæstiréttur íslands

Mál nr. 85/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


                                                        

Fimmtudaginn 21. febrúar 2002.

Nr. 85/2002.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Karl Georg Sigurbjörnsson hdl.)

 

Kærumál. Framsal sakamanns.

Lettnesk yfirvöld kröfðust þess að íslenska ríkið framseldi X sem var grunaður um að hafa banað þremur mönnum og fleiri brot gegn hegningarlögum. Í dómi Hæstaréttar segir að í beiðni lettneskra yfirvalda um framsal X og gögnum með henni komi fram að samkvæmt lettneskum hegningarlögum hafi verið heimilt að dæma mann til dauðarefsingar vegna þeirra manndrápsbrota sem X séu gefin að sök. Aftur á móti sé ekki unnt að ráða með ótvíræðum hætti af beiðninni hvort slík heimild sé ennþá fyrir hendi eftir gildistöku þarlendra laga 4. maí 1999 um afnám dauðarefsingar. Af 3. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna  og aðra aðstoð í sakamálum leiði að framsal X verði bundið því skilyrði að óheimilt sé að fullnægja dauðarefsingu gagnvart honum. Fram sé komið í málinu að dómsmálaráðuneytið hafi lýst því yfir að umrætt skilyrði yrði sett fyrir framsali X féllust dómstólar á að lagaskilyrði fyrir framsali væru fyrir hendi. Af hálfu X hafi því verið mótmælt að fullnægjandi væri að setja slíkt skilyrði fyrir framsali þar sem afstaða lettneskra dómstóla til þess liggi ekki fyrir. Í málinu sé fram komið að Lettland, sem eigi aðild að Evrópuráðinu, hafi 7. maí 1999 staðfest viðauka nr. 6. við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, varðandi afnám dauðarefsingar, og afnumið dauðarefsingu með lögum. Með hliðsjón af því og þeim upplýsingum, sem hefðu verið lagðar fram um að forseti Lettlands hafi frá árinu 1996 kerfisbundið breytt dómum þar sem menn eru dæmdir til dauða í ævilangt fangelsi, verði að telja fullnægt skilyrðum til framsals varnaraðila að þessu leyti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2002, þar sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja varnaraðila til Lettlands var felld úr gildi. Kæruheimild er í 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, en til vara að framsal varnaraðila verði skilyrt með nánar tilteknum hætti í samræmi við 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984 og ákvæði í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.

I.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði ríkissaksóknari Lettlands eftir því með bréfi til hérlendra stjórnvalda 13. desember 2001 að varnaraðili yrði framseldur til Lettlands vegna gruns um að hafa framið alvarleg brot í Ríga í Lettlandi. Varnaraðili sé í fyrsta lagi grunaður um að hafa 1. nóvember 1997 banað [...] og í framhaldi af því ásamt öðrum mönnum stolið munum úr íbúð hins látna. Í öðru lagi að hafa 7. júní 2000 banað [...] og í félagi við aðra menn stolið bifreið og munum í eigu hins látna. Í þriðja lagi að hafa 15. ágúst 2001 banað [...] og gert tilraun til að bana [...] auk þess sem hann sé grunaður um rán og eignaspjöll. Þá sé varnaraðili grunaður um ólöglega meðferð skotvopna. Í tilvitnuðu bréfi kemur fram að komi til þess að varnaraðili verði framseldur muni hann meðal annars verða sóttur til saka fyrir brot gegn 1. mgr. 99. gr. og 4. mgr. 141. gr. hegningarlaga Lettlands frá 1961 með því að hafa banað [...] og stolið munum úr íbúð hins látna, en lögin hafi fallið úr gildi við gildistöku laga um sama efni 1. apríl 1999. Refsing fyrir brot gegn 1. mgr. 99. gr. eldri laganna geti varðað fangelsi ekki skemur en 10 árum og allt að 20 árum, ævilöngu fangelsi eða dauðarefsingu. Þá kemur fram í bréfi ríkssaksóknara Lettlands að með lögum 15. apríl 1999 um viðauka nr. 6 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis hafi dauðarefsing verið afnumin, en lögin hafi tekið gildi 4. maí sama árs.

Í samræmi við 2. mgr. 13. gr. laga nr. 13/1984 sendi dómsmálaráðuneytið ríkissaksóknara 18. desember 2001 hina fram komnu beiðni um framsal varnaraðila til Lettlands. Að fenginni álitsgerð ríkissaksóknara 19. sama mánaðar ákvað ráðuneytið 28. desember 2001 að verða við beiðninni. Varnaraðili óskaði í framhaldi af því eftir dómsúrskurði um hvort skilyrði framsals væru fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 14. gr. áðurnefndra laga. Með hinum kærða úrskurði var ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja varnaraðila felld úr gildi með vísan til þess að ekki væri fram komin „trygging fyrir því að dauðarefsing komi ekki til greina í máli ...“ varnaraðila.

II.

Krafa sóknaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi er reist á því að í 3. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984 sé boðið að setja skuli það skilyrði fyrir framsali að óheimilt sé að fullnægja dauðarefsingu gagnvart hinum framselda manni, en lögin geri ekki ráð fyrir að hérlend stjórnvöld afli fyrirfram tryggingar fyrir því að viðkomandi verði ekki dæmdur til dauða og tekinn af lífi, svo sem byggt sé á af hálfu héraðsdómara. Hefur sóknaraðili lagt fyrir Hæstarétt bréf dómsmálaráðuneytisins til sóknaraðila 13. febrúar sl. þar sem segir svo: „Fallist dómstólar á að lagaskilyrði fyrir framsali séu fyrir hendi í máli þessu mun framangreint skilyrði, [3. töluliðar 1. mgr. 11. gr.], ásamt öðrum skilyrðum sem getið er um í 11. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, verða sett fyrir framsali X til Lettlands.“ Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að Lettland hafi 7. maí 1999 staðfest viðauka nr. 6 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, varðandi afnám dauðarefsingar og afnumið dauðarefsingu með lögum nokkrum dögum áður, svo sem fram komi í bréfi ríkissaksóknara Lettlands. Þá komi fram í skýrslu Evrópunefndar 22. nóvember 2001 um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð að forseti Lettlands hafi frá árinu 1996 kerfisbundið breytt dómum þar sem menn eru dæmdir til dauða í ævilangt fangelsi.

Krafa varnaraðila er í fyrsta lagi reist á því að málsmeðferð fyrir lettneskum dómstólum brjóti í bága við rétt sakaðs manns samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið sé á um rétt manns til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma. Þá sé aðbúnaður fanga í þarlendum fangelsum ekki í samræmi við alþjóðleg viðhorf um afplánun refsinga og aðbúnað fanga. Varnaraðili styður kröfu sína öðrum þræði því að lettnesk yfirvöld hafi ekki staðfest með afgerandi hætti að dauðrefsing liggi ekki við þeim brotum, sem varnaraðila séu gefin að sök. Leiki vafi á því hvort um slíka refsingu geti verið að ræða sé ekki unnt að framselja varnaraðila, enda óljóst hvort lettneskir dómstólar telji sig bundna af slíku skilyrði.

III.

Í áðurnefndri framsalsbeiðni og gögnum með henni kemur fram að samkvæmt lettneskum hegningarlögum hafi verið heimilt að dæma mann til dauðarefsingar vegna þeirra manndrápsbrota sem varnaraðila eru gefin að sök. Aftur á móti er ekki unnt að ráða með ótvíræðum hætti af beiðninni hvort slík heimild er ennþá fyrir hendi eftir gildistöku þarlendra laga 4. maí 1999 um afnám dauðarefsingar. Af 3. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984 leiðir að framsal varnaraðila verður bundið því skilyrði að óheimilt sé að fullnægja dauðarefsingu gagnvart honum. Hefur dómsmálaráðuneytið lýst því yfir að umrætt skilyrði verði sett fyrir framsali varnaraðila fallist dómstólar á að lagaskilyrði fyrir framsali séu fyrir hendi. Af hálfu varnaraðila hefur því sem áður segir verið mótmælt að fullnægjandi sé að setja slíkt skilyrði fyrir framsali þar sem afstaða lettneskra dómstóla til þess liggi ekki fyrir. Í málinu er fram komið að Lettland, sem á aðild að Evrópuráðinu, hefur 7. maí 1999 staðfest viðauka nr. 6. við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, varðandi afnám dauðarefsingar, og afnumið dauðarefsingu með lögum. Með hliðsjón af því og þeim upplýsingum, sem hafa verið lagðar fram um framkvæmd dauðarefsinga þar í landi frá árinu 1996, verður að telja fullnægt skilyrðum til framsals varnaraðila að þessu leyti.

Í málinu liggja engin gögn fyrir í þá veru að lettnesk yfirvöld muni ekki virða rétt varnaraðila samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá hafa heldur ekki verið lögð fram nein haldbær gögn um bágborinn aðbúnað fanga í þarlendum fangelsum. Verður framsali varnaraðila því ekki hafnað af þessum sökum.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til þess að önnur skilyrði fyrir framsali varnaraðila samkvæmt lögum nr. 13/1984 eru fyrir hendi verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.  Að þessu virtu verður kröfum varnaraðila hafnað.

Verjanda varnaraðila verða ákveðin málsvarnarlaun úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Fullnægt er lagaskilyrðum til framsals X, fædds [...] 1976, til Lettlands.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Karls Georgs Sigurbjörnssonar héraðsdómslögmanns, 70.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2002

                Mál þetta var tekið til úrskurðar 28. fyrra mánaðar.

                Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 3. janúar 2002, fór Karl G. Sigurbjörnsson hdl. fram á það fyrir hönd X, lettnesks ríkisborgara, fædds [...] 1976, (hér eftir nefndur sóknaraðili) að ákvörðun ráðuneytisins, þess efnis að fallist skyldi á beiðni lettneskra yfirvalda um framsal sóknaraðila til Lettlands, yrði lögð fyrir dómstól í samræmi við ákvæði laga nr. 13/1984. Var málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 16. janúar sl.

I

                Hinn 21. nóvember 2001 barst Interpol í Reykjavík tilkynning frá Interpol í Riga í Lettlandi um eftirlýstan lettneskan ríkisborgara, X að nafni.  Sagði í tilkynningunni að hann væri á Dalvík og sætti lögreglurannsókn í Lettlandi vegna láts tveggja manna.  Að fyrirmælum ríkislögreglustjóra var sóknaraðili handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir.  Hefur hann setið í varðhaldi síðan.

                Hinn 14. desember barst dómsmálaráðuneyti beiðni lettneskra dómsmálayfirvalda, dagsett 13. desember, þar sem farið var fram á að sóknaraðili yrði framseldur til Lettlands. Í beiðninni kom fram, að hann væri grunaður um að vera valdur að dauða þriggja manna í Lettlandi: [...] sem skotinn hefði verið þremur skammbyssuskotum hinn 7. júní 2000; [...], sem skotinn hefði verið þremur skotum úr sömu byssu hinn 15. ágúst 2001 og  [...] sem hogginn hefði verið að minnsta kosti ellefu axarhöggum hinn 1. nóvember 1997.  Þá var sóknaraðila gefin að sök tilraun til að svipta  [...] lífi hinn 15. ágúst 2001.  Ennfremur var hann sakaður um þrjú rán.

                Dómsmálaráðuneytið sendi ríkissaksóknara framsalsbeiðnina til meðferðar með bréfi, dagsettu 18. desember 2001.  Ríkissaksóknari endursendi ráðuneytinu málsgögnin með þeirri umsögn að ekki yrði annað ráðið en að uppfyllt væru framsalsskilyrði I. kafla laga nr. 13/1984.  Þó var settur sá fyrirvari að ekki yrði fyllilega ráðið hvort dauðarefsing gæti legið við meintum brotum sóknaraðila í heimalandi hans og var bent á heimild til að setja skilyrði fyrir framsali, samkvæmt 3. tl. 11. gr. laganna. 

                Með bréfi dagsettu 28. desember 2001 var sóknaraðila tilkynnt að dómsmálaráðuneytið hefði ákveðið að verða skyldi við framsalsbeiðninni.  Sóknaraðili óskaði þá eftir því að ákvörðunin yrði borin undir dómstól, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.

II

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að framsali verði hafnað.  Til vara krefst hann þess að framsal verði heimilað með þessum skilyrðum:

1.        Málsmeðferð verði hagað í samræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu.

2.        Mál hans verði tekið fyrir af sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli innan 6 mánaða frá því hann kemur til heimalands síns.

3.        Aðbúnaður hans í fangelsi, bæði fyrir uppkvaðningu dóms og eftir, verði hann fundinn sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök, verði í samræmi við alþjóðleg viðhorf um afplánun refsinga og aðbúnað fanga.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

                Í greinargerð til dómsins hefur af hálfu sóknaraðila verið fallist á að uppfyllt séu hlutlæg skilyrði laga nr. 13/1984 fyrir framsali kærða.  Hann bendir hins vegar á að lettneskt réttarkerfi sé seinvirkt og að dæmi séu þess að menn sættu varðhaldi í meir en tvö ár áður en mál þeirra komu fyrir dóm.  Telur hann að réttarkerfi Lettlands fullnægi ekki þeim kröfum sem gerðar séu í Mannréttindasáttmála Evrópu.

                Þá segir sóknaraðili að aðbúnaður fanga í lettneskum fangelsum sé óviðunandi. 

                Þá hafi ekki fengist óyggjandi staðfesting þess að dauðarefsing liggi ekki við meintum brotum sóknaraðila að lettneskum lögum.  Með því að vafi leiki á um þetta atriði sé ekki heimilt að framselja hann.  Vísar hann til 3. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984. 

                Loks hefur lögmaður sóknaraðila bent á fyrirvara þann sem kemur fram í umsögn ríkissaksóknara um hugsanlega dauðarefsingu.  Því til áréttingar hefur hann lagt fram símbréf frá Modris Vitkovskis, lögmanni í Riga, þar sem hann leitar aðstoðar við tilraunir til að hindra framsal sóknaraðila til Lettlands.  Í óstaðfestri þýðingu bréfsins segir m.a. orðrétt: 

“1)  Fangelsi og húsnæði fyrir fólk í gæsluvarðhaldi hérlendis samræmast ekki þeim stöðlum, sem almennt eru viðurkenndir í siðalögmálum.  Þeir grunuðu eru beittir sálrænum og ósjaldan líkamlegum þrýstingi.

2)           Samkvæmt 99. gr. hegningarlaga Lettlands, fyrir meint afbrot X (manndráp með refsiþyngjandi atriðum) er hægt að dæma hann til dauða.”

III

                Varnaraðili óskaði ekki eftir að skila skriflegri greinargerð til dómsins.  Vísaði hann til gagna málsins, einkum framsalsbeiðni sem áður er lýst.  Þá benti hann á að Lettland hefur fullgilt Mannréttindasáttmála Evrópu, viðauka við hann nr. 6 um afnám dauðarefsingar og sáttmála um bann við pyntingum o.fl. frá 1987.  Ítrekaði hann að skilyrðum laga nr. 13/1984 væri fullnægt. 

IV

                Í framsalsbeiðni og handtökuskipun sem dagsett er 12. desember 2001 kemur fram að sóknaraðili er grunaður um refsiverðan verknað og hefur verið tekin ákvörðun um handtöku hans, sbr. 1. gr. og 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.  Þá er sóknaraðili ekki íslenskur ríkisborgari. 

                Fram kemur í framsalsbeiðni að dauðarefsing hefur verið numin úr lögum í Lettlandi.  Hins vegar er ekki sagt berum orðum í beiðninni að dauðarefsing samkvæmt eldri lögum verði ekki beitt, en þar segir að sóknaraðili verði sóttur til saka fyrir elsta brotið samkvæmt eldri lögum frá 1961.  Samkvæmt þeim lögum kann dauðarefsing að liggja við brotinu. 

                Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984 skal setja það skilyrði fyrir framsali að óheimilt sé að fullnægja dauðarefsingu gagnvart hinum framselda manni.  Þegar litið er til greinargerðar með frumvarpi til laga þessara og áðurnefnds Evrópusáttmála um framsal sakamanna sem þar er vitnað til, verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að trygging skuli vera fyrir því, áður en framsal er ákveðið, að ekki geti komið til þess að viðkomandi verði dæmdur til dauða og tekinn af lífi. 

                Eins og lýst er að framan er ekki fram komin í skjölum málsins trygging fyrir því að dauðarefsing komi ekki til greina í máli sóknaraðila.  Er því ekki ekki fullnægt skilyrðum laga nr. 13/1984 til að framselja megi sóknaraðila.  Verður því að fella ákvörðun ráðherra úr gildi. 

                Þóknun verjanda sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, 70.000 krónur. 

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.  Uppkvaðning hefur tafist vegna veikinda dómara. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja sóknaraðila, X, til Lettlands, er felld úr gildi. 

                Þóknun Karls G. Sigurbjörnssonar hdl., 70.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.