Hæstiréttur íslands
Mál nr. 659/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2017 þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að aflétt yrði haldi sóknaraðila á fjármunum í nánar tilgreindu bankahólfi. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið á um að gera megi upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða að hluta. Ef færðar eru viðhlítandi sönnur á að maður hafi hlotið ávinning af broti verður fjárhæð, sem svarar til hans, gerð upptæk á grundvelli þessa lagaákvæðis jafnvel þótt sýnt sé fram á að þess fjár hafi verið aflað með lögmætum hætti, sbr. hins vegar 4. mgr. 69. gr. b. sem á við ef maður hefur gerst sekur um brot án þess að fyrir liggi að hann hafi sjálfur notið ávinnings af því. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurðar staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 dæmist kærumálskostnaður ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2017.
Mál þetta var lagt fyrir dóminn með bréfi varnaraðila 2. október sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi miðvikudaginn 11. október sl. Heimild til að bera ágreininginn undir dóm er í 3. mgr. 69. gr., sbr. XV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Sóknaraðili er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, en varnaraðilar eru X og Y bæði til heimils að [...], Reykjavík.
Varnaraðilar krefjast þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að aflétt verði haldi á fjármunum í eigu varnaraðilans Y sem fundust í bankahólfi varnaraðilans X nr. [...] í Landsbankanum í Borgartúni 33 í Reykjavík. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða þóknun lögmanns varnaraðila.
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kröfunum verði hafnað og varnaraðilum gert að greiða þóknun lögmanns síns.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. september 2016 var sóknaraðila veitt heimild til leitar í geymsluhólfi nr. [...] í Landsbankanum hf. í Borgartúni 33 í Reykjavík, en skráður leigutaki hólfsins er varnaraðilinn X. Í hólfinu fannst reiðufé að fjárhæð 2.331.000 krónur og var það haldlagt. Að auki fannst miði, sem sagður var áfastur við búnt af reiðufé sem innhélt 100.000 krónur. Samkvæmt skýrslu um leitina stóð á miðanum: A skuldar enn 520.000,-
Fyrir liggur að grundvöllur framangreindrar haldlagningar er rannsókn sóknaraðila á ætluðu broti varnaraðilans Y og fimm annarra einstaklinga gegn 173. gr. a. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafa rannsóknargögn verið lögð fyrir dóminn.
I
Sóknaraðili kveður umrædda lögreglurannsókn beinast að ætlaðri stórfelldri ræktun kannabisplantna og sölu afurða ræktunarinnar, auk peningaþvættis. Við leit, 9. september 2016, í nánar greindum tveimur fasteignum að [...] í Kópavogi, í eigu B ehf. hafi ræktunaraðstaðan fundist. Faðir varnaraðilans Y og bróðir hans séu í fyrirsvari fyrir nefndu félagi. Hafi varnaraðilinn Y viðurkennt að hafa ásamt þeim tveim tekið þátt í umræddri starfsemi. Auk framangreindra þriggja manna eru þrír aðrir grunaðir um að hafa átt þátt í umræddum brotum.
Kveður lögregla að umfangsmikil framleiðsla kannabis hafi farið fram í húsnæðinu. Sér rými hafi verið fyrir vökvunarkerfi og næringarblöndun og búið að koma fyrir stórum blásara til að blása lofti út um þak húsnæðisins en kolasíur hafi verið notaðar til að lykt frá framleiðslunni bærist ekki út fyrir húsið. Á staðnum hafi fundist skjalleg gögn sem sýnt hafi regluleg tímabil uppskeru og bókhald ræktunar sem og mætingaskrá hlutaðeigandi manna sem starfað hafi við ræktunina. Það sé mat lögreglu að faglega hafi verið staðið að uppsetningu á framleiðslurýminu í heild og lagt hafi verið í talsverðan kostnað. Allar aðstæður á vettvangi hafi gefið lögreglu skýrt til kynna að skipulega hefði verið gengið til verksins af hópi manna með einbeittan ásetning til að fremja stórfelld brot.
Lagt hafi verið hald á 522 plöntur sem og 9.391,30 grömm af tilbúnu marijúana. Lagt hafi verið hald á búnað sem notaður hafi verið við framleiðsluna m.a. gróðurhúsalampa, blásara, viftur, þurrkgrindur, loftsíur o.fl. Þá hafi húsnæðið verið innsiglað vegna vettvangsvinnu og til frekari rannsóknar. Þá hafa fjármunir og lausafé einnig verið haldlagðir við rannsókn málsins og eru peningar þeir sem um er deilt í máli þessu þar á meðal. Kveðst sóknaraðili venju samkvæmt munu gera kröfu fyrir dómi við meðferð væntanlegs ákærumáls um upptöku hinna haldlögðu verðmæta. Sé hér um að ræða, að mati sóknaraðila, muni sem hafi verið notaðir við framkvæmd brotsins og/eða fjármagnaðir með ávinningi af brotastarfseminni sem og fjármuni sem telja verði ávinning af henni.
Þá er því og lýst í greinargerð sóknaraðila hvernig rannsóknin hafi að hans mati leitt í ljós að fjármögnun kaupa þeirra tveggja fasteigna sem framleiðslan fór fram í hafi að mestu verið með reiðufé. Rannsókn hafi leitt í ljós að önnur fasteignin hafi verið keypt í desember 2014 á 27 milljónir króna en hin í nóvember 2015 fyrir 37 milljónir króna. Greitt hafi verið fyrir fasteignirnar að töluverðu leyti með reiðufé. Hafi hinir grunuðu ekki getað gefið trúverðugar skýringar á því hvernig þeir hafi aflað þeirra fjármuna. Telur lögregla skýringuna liggja í því að um sé að ræða afrakstur hinnar ólöglegu brotastarfsemi.
Gerði sóknaraðili tilraun til að leggja hald á fyrrnefndar tvær fasteignir en án árangurs þar sem þær reyndust hafa verið seldar skömmu áður. Kveðst sóknaraðili ekki hafa getað haldlagt nema lítinn hluta söluverðmætis fasteignanna þar sem þeim fjármunum hafi verið komið undan og þeir ekki fundist þrátt fyrir tilraunir til þess.
Þá kemur fram í greinargerð sóknaraðila að rannsókn málsins sé margþætt og umfangsmikil og þrír sakborningar hafi verið látnir sæta gæsluvarðahaldi. Hafði það verið varnaraðilinn Y, faðir hans og bróðir. Dómstólar hafi metið það svo þeir séu allir undir rökstuddum grun um að hafa staðið að framleiðslunni og hafi þeim verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í viku tíma. Þau sönnunargögn málsins sem síðan hefur verið aflað hafi rennt styrkari stoðum undir framangreindan grun.
Í málinu liggi og fyrir játningar sumra sakborninga þ.á.m. varnaraðilans Y. Allir sakborningar málsins tengist innbyrðis, þar af fjórir af fimm fjölskylduböndum. Gögn málsins og framburður tveggja sakborninga beri það skýrt með sér að varnaraðilinn Y sé einn af aðalskipuleggjendum umræddrar brotastarfsemi.
Kveður sóknaraðili að aflétting halds á umræddum fjármunum væri í ósamræmi við dómaframkvæmd enda sé fyrir hendi rökstuddur grunur um alvarleg brot sem allt að 12 ára fangelsisrefsing liggi við auk þess sem gangur rannsóknar hafi verið með góðu móti og staðið yfir í fremur skamman tíma. Kveður sóknaraðili að rannsókn fari senn að ljúka.
Þykir sóknaraðila ljóst að þeir fjármunir og lausafjármunir sem haldlagðir hafi verið við rannsókn málsins verði gerðir upptækir með dómi. Sé í þessu sambandi vísað til 69. gr. og a-c. lið 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sé sérstaklega áréttað að fyrir hendi sé jafnvirðisupptökuheimild sem sé einkar víðtæk og taki m.a. til þeirra fjármuna sem sparast hafi hjá hinum brotlega í kjölfar hins refsiverða athæfis. Brýnt sé að ákæruvaldið hafi tækifæri til að fara fram með upptökukröfu vegna hinna haldlögðu verðmæta. Verði haldlagningu aflétt, sé viðbúið að umræddum fjármunum verði komið undan, rétt eins og þegar hafi átt sér stað hvað varði stóran hluta ávinningsins.
Með vísan til alls ofangreinds, kröfu lögreglustjóra og gagna málsins sé ítrekuð sú krafa að kröfum varnaraðila verði hafnað.
II
Varnaraðilar beina máli þessu til dómsins á grundvelli 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 og vísa einnig til 4. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009. Um er að ræða kröfu um að aflétt verði haldi á reiðufé að fjárhæð 2.331.000 krónur sem fannst við leit lögreglu 16. september 2016 í geymsluhólfi nr. [...] í Landsbankanum hf. í Borgartúni, en leigutaki er varnaraðilinn X, maki varnaraðilans Y.
Að sögn lögmanns varnaraðila er málum þannig háttað að í janúar 2014 fékk varnaraðilinn Y arf að fjárhæð 18.821.011 krónur. Sýni skattframtal hans að hann hafi greitt skatt af arfinum árið 2014. Hafi varnaraðilinn X haft fullt umboð til að veita arfinum viðtöku og hafi hann verið greiddur inn á reikning hennar eins og gögn sýni. Hafi hún tekið fjármunina út af reikningi sínum og geymt þá í umræddu geymsluhólfi. Þaðan hafi hún reglulega tekið reiðufé t.d. til að fjármagna fasteignaviðskipti og bifreiðakaup. Megi sjá þetta allt af gögnum um hreyfingar peninga á reikningum hennar, sem og skrá yfir tímasetningu heimsókna í umrætt geymsluhólf, sem varnaraðilar hafi lagt fram. Það sem eftir hafi verið af arfinum hafi enn verið í geymsluhólfinu þegar leit lögreglu hafi farið fram og hald lagt á féð. Varnaraðilinn Y hafi síðan verið yfirheyrður sem sakborningur vegna þessa þann 6. október 2016. Hafi frásögn hans um bankahólf þetta og fjármunina þar verið í samræmi við gögn þau sem lögð séu fram með kröfugerð þessari.
Varnaraðilar kveða að samkvæmt 68. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 geti lögregla lagt hald á fjármuni ef ætla megi að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir í tengslum við sakamál. Nú hafi varnaraðilar málsins á hinn bóginn sýnt fram á með framlögðum gögnum að fjármunanna í bankahólfinu hafi ekki verið aflað með refsiverðum hætti. Því séu augljóslega ekki forsendur til þess að þessir fjármunir verði gerðir upptækir í máli nr. 007-2016-053512, sbr. 4. mgr. 69. gr. b. laga nr. 19/1940.
III
Í 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið á um heimild lögreglu til að leggja hald á verðmæti m.a. vegna þess að þau kunni að verða gerð upptæk. Í 3. mgr. 69. gr. sömu laga er mælt fyrir um heimild eiganda eða vörsluaðila hluta sem hald hefur verið lagt á til að bera ákvörðunina undir dómstóla. Liggur fyrir í máli þessu að eigandi þeirra fjármuna sem haldlagðir voru er varnaraðilinn Y en talið verður að þeir hafi verið í vörslum varnaraðilans X þegar þeir fundust og voru haldlagðir. Verður af þessum sökum talið að varnaraðilinn X geti átt aðild að málinu.
Það skilyrði haldlagningar sem hér er fyrst litið til er að hald megi leggja á hluti sem kunni að verða gerðir upptækir, en upptaka er fyrst ákveðin í dómi þar sem fjallað er um þá ætluðu refsiverðu háttsemi sem réttlætir upptöku.
Um skilyrði upptöku eigna er mælt fyrir í VII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Segir þar í 1. mgr. 69. gr. að gera megi upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svari til hans í heild eða að hluta. Sama gildi um muni sem keyptir hafi verið fyrir hann eða komið hafi í stað hans. Þá er mælt fyrir um að þegar ekki sé unnt að færa fullar sönnur á fjárhæð ávinnings sé heimilt að áætla fjárhæðina.
Í 1. mgr. 69. gr. b. sömu laga greinir að gera megi upptæk verðmæti að hluta eða í heild sem tilheyri einstaklingi sem gerst hafi sekur um brot þegar brotið hafi verið til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og það geti varðað að minnsta kosti 6 ára fangelsi. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er mælt fyrir um að sýni viðkomandi fram á að verðmæta hafi verið aflað á lögmætan hátt skuli þau ekki gerð upptæk.
Þegar horft er til samspils þeirra lagaákvæða almennra hegningarlaga sem hér hafa verið rakin verður talið að ákvæði 4. mgr. 69. gr. b. í lögunum verði ekki skilið þeim bókstaflega skilningi sem varnaraðilar byggja á. Þykir sýnt að sjónarmið um það sem sóknaraðili nefnir „jafnvirðisupptöku“ kunna að koma til skoðunar og að ekki séu útilokað að umræddir fjármunir gætu verið gerðir upptækir, jafnvel þó fallist yrði á að sannað teldist að þeirra hefði verið aflað með lögmætum hætti. Þykir þegar af framangreindum ástæðum vera upp sú aðstaða sem greinir í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 þannig að umræddir fjármunir kunni að vera gerðir upptækir með dómi í máli sem höfðað yrði vegna umræddra ætluðu brota. Er fallist á að varnaraðilinn Y sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem sé til þess fallið að hafa í för með sér verulegan fjárhagslegan ávinning og geti varðað að minnsta kosti 6 ára fangelsi sbr. 1. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga sem fyrr er vitnað til. Rannsókn málsins hefur verið umfangsmikil og kveður sóknaraðili að hún sé á lokastigi. Þykir ekki hafa orðið sá dráttur á meðferð málsins að það gæti réttlætt afléttingu halds, en endanlegt mat á því hvort skilyrði upptöku eru fyrir hendi mun fara fram við meðferð ákærumáls fyrir dómi, komi til útgáfu ákæru í málinu. Þegar af framangreindum ástæðum er kröfum varnaraðila í málinu hafnað.
Ekki eru efni til að kveða á um málskostnað.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu varnaraðila, X og Y, um að aflétt verði haldi á 2.331.000 krónum, sem fundust í geymsluhólfi nr. [...] í Landsbankanum hf. í Borgartúni, er hafnað.