Hæstiréttur íslands
Mál nr. 688/2016
Lykilorð
- Skaðabætur
- Galli
- Sönnun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 28. júlí 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 14. september 2016 og var áfrýjað öðru sinni 10. október sama ár. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 951.722 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. júlí 2014 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta hefur áfrýjandi höfðað til greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda vegna ætlaðra galla á smíði glugga sem hún pantaði hjá honum árið 2014 til uppsetningar í húsi í hennar eigu á Akureyri. Fékk áfrýjandi smið, búsettan á Akureyri, til að setja gluggana í húsið.
Ágreiningslaust er að þau smíðamál, sem stefndi fékk í hendur, hafði áfrýjandi afhent stefnda á vélrituðu blaði. Stefndi gerði síðan 15. apríl 2014 tilboð í smíði glugganna. Ágreiningslaust er að áfrýjandi bað stefnda um að hafa samband við smið þann sem setja átti gluggana í húsið, þar sem málin væru ónákvæm, og fá staðfest rétt mál. Í málinu liggur fyrir staðfesting símafyrirtækis um að degi síðar átti sér stað símtal úr símanúmeri forsvarsmanns stefnda í símanúmer smiðsins. Fær það jafnframt stoð í framburði stefndu fyrir dómi og í stefnu, þar sem hún staðhæfði að ,,forsvarsmaður stefnda hafði samband við smiðinn til þess að kanna með málin“. Hefur stefndi því sýnt nægilega fram á að hann hafi farið að fyrirmælum áfrýjanda um að hafa samband við smiðinn til að fá mælinguna staðfesta. Samkvæmt framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að smíði glugganna verði rakin til atvika sem stefndi ber að lögum ábyrgð á.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Rakel Dísella Magnúsdóttir, greiði stefnda, Eljó ehf., 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2016.
Mál þetta, sem þingfest var 13. janúar 2016 og dómtekið 19. apríl sl., var höfðað með stefnu, birtri 16. desember 2015, á hendur Eljó ehf., kt. [...], Hlynsölum 16, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 951.722 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6 gr. laga um vexti og verðtyggingu nr. 38/2001, frá 13. júlí 2014 fram til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málsatvik.
Málsatvik eru þau að stefnandi hafði samband við fyrirsvarsmann stefnda, Jón Kristin Gunnarsson, og óskaði eftir tilboði í smíði glugga í hús stefnanda að Oddeyrargötu 12 á Akureyri. Stefndi sérhæfir sig í smíði glugga o.fl. Stefnandi kom málum af gluggunum til stefnda og kvaðst óska eftir tilboði í sjö glugga með karmmáli 88,5 cm x 140 cm. Kom fram í skjalinu að 2 neyðarútgangar skyldu vera hliðarhengdir svo að neðri hluti opnist alveg og miðpósturinn með. Annar opnist til hægri og hinn til vinstri. Þrír gluggar verði topphengdir svo að neðri hluti öðrum hvorum megin við miðpóst opnist. Tveir gluggar verði án opnanlegra faga. Gluggar verði að koma glerjaðir og málaðir/sprautulakkaðir hvítir. Ef möguleiki væri á skrautfræsingu þá væri það kjörið. Þá verði gluggarnir að vera tilbúnir 31. maí 2014. Stefnandi kvaðst hafa rætt við stefnda í síma og sagt honum að umrædd mál væru bráðabirgðatölur og stefndi yrði að ræða við smiðinn sem ætlaði að setja gluggana í til að fá málin staðfest. Þá er nafn smiðsins Friðjóns og símanúmer handritað á skjalið ásamt teikningu af gluggunum og gluggapóstum inni í þeim og hlutfalli þeirra, þ.e. 1/3 sé gluggi fyrir ofan póst en 2/3 hluti fyrir neðan gluggapóst. Eru gluggapóstarnir teiknaðir inn á skjalið eins og þeir myndi kross.
Stefndi sendi stefnanda tilboð í sjö gluggaeiningar þann 15. apríl 2014. Kemur fram í tilboðinu að um sé að ræða sjö gluggaeiningar, fimm opnanleg fög skv. framlagðri mynd og lýsingu. Er tilboðsverðið í gluggana 523.465 krónur. Segir að afhending gæti orðið innan 4-6 vikna eftir staðfestingu tilboðs. Smíðaði stefndi umrædda glugga og voru þeir sendir til Akureyrar. Þegar átti að setja gluggana í húsið kom í ljós að þeir voru 10 cm of litlir á breiddina. Leysti stefnandi það með því að setja 5 cm lista á hliðar glugganna báðum megin og voru gluggarnir settir þannig í húsið.
Samkvæmt símagögnum hringdi stefndi í símanúmer smiðsins Friðjóns 16. apríl 2014 og ræddi við hann í fimm mínútur.
Þann 13. júní 2014 sendi lögmaður stefnanda bréf til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefnda.
Lögmaður stefnda sendi lögmanni stefnanda bréf þann 19. júní 2014 og hafnaði bótaskyldu á þeim forsendum að stefnandi hafi sjálf komið með mál á umræddum gluggum útprentuð á skjali og afhent stefnda.
Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur frá Guðmundi K. Bergmann húsasmíðameistara, sendur 20. ágúst 2014 til lögmanns stefnanda, þar sem hann staðfestir að ekki sé viðtekin venja að gluggar séu smíðaðir nema fyrir liggi teikningar með staðfestum málum frá smið eða verkkaupa, þar sem fram verði að koma hvort um sé að ræða smíðamál glugga eða stíft mál á gluggagati. Þann 6. október 2014 sendi lögmaður stefnanda tölvupóst til lögmanns stefnda og spurði hvort ekki væri hægt að fara að ganga frá þessu. Þann 4. nóvember 2014 sendi lögmaður stefnanda lögmanni stefnda tölvupóst og lagði til að sætta málið með því að stefndi tæki að sér að smíða nýja glugga en kaupandi tæki að sér að útvega og greiða fyrir gler í gluggana og mála þá. Þann 26. nóvember 2014 sendi lögmaður stefnanda lögmanni stefnda tölvupóst þar sem hann gerir þá tillögu að þar sem eftir sé að smíða 9 glugga í húsið vilji stefnandi eiga áfram viðskipti við stefnda. Tillaga stefnanda var að stefndi smíðaði níu glugga, glerjaði þá og gæfi góðan afslátt á verðinu. Stefnandi sæi um að senda skrifleg mál af gluggagötunum á sína ábyrgð. Gluggarnir yrðu síðan afhentir fyrir sunnan fyrir maí 2015 og málið yrði þar með úr sögunni. Þá muni stefnandi fella niður bótamálið á hendur stefnda næðist samkomulag um þessa nýju smíði. Þann 1. desember 2014 svaraði lögmaður stefnda þessu tilboði stefnanda með því að stefndi vildi fá staðfestingu þess efnis að hann hafi ekkert gert skakkt í fyrri gluggunum og þá muni hann gera tilboð þannig að afsláttur sé ekki viðurkenning á galla af hans hálfu. Tvö tilboð til stefnanda liggja fyrir í málinu dagsett 18. febrúar 2015 um smíði í annars vegar níu gluggaeiningar og hins vegar átta gluggaeiningar og eina hurð samkvæmt framlagðri teikningu. Þann sama dag sendi lögmaður stefnda lögmanni stefnanda tölvupóst þar sem fram kemur að tilboðið sé meðfylgjandi.
Afrit reikninga vegna kaupa á ýmsu óskilgreindu, sem ekki verður lesið út úr ljósritum hvað sé, að fjárhæð 51.767 krónur liggur fyrir í málinu en einnig reikningur frá Flugger vegna Easy Filler, 150 ml að fjárhæð 789 krónur, það sama ásamt málningarlímbandi o.fl. að fjárhæð 3.879 krónur og ýmislegt nánar tiltekið efni frá Byko að fjárhæð 12.565 krónur og fleira efni vegna málningarvinnu, skrúfur o.fl., að fjárhæð 23.334 krónur auk reiknings frá stefnda að fjárhæð 523.465 krónur. Ljósmynd af nótubók smiðsins Friðjóns liggur fyrir í málinu, sem stefnandi kvaðst hafa tekið þegar ljóst var að gluggarnir voru of litlir, þar sem fram koma mál á gluggum 140 cm og 99,5 sm. Ljósmyndir teknar af Oddeyrargötu 12 á Akureyri fyrir og eftir gluggaísetningu liggja fyrir auk afrits af reikningi smiðsins sem setti gluggana í húsið, samtals 376.500 krónur.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefnandi hafi látið stefnda hafa ónákvæm mál af gluggunum eftir minni og lagt honum til að hringja í smiðinn sinn á Akureyri til að fá málin staðfest. Stefnda hafi verið gert fyllilega ljóst að ekki væri um endanleg mál að ræða og að stefndi þyrfti að hafa samband við Friðjón, smið á vegum stefnanda, til þess að fá staðfest endanleg mál á gluggunum. Stefndi hafi fengið símanúmer smiðsins Friðjóns hjá stefnanda og hafi stefndi hringt í hann. Friðjón hafi látið stefnda hafa rétt mál og gluggarnir farið í framleiðslu. Þegar gluggaskiptin hófust í byrjun júní 2014 hafi komið í ljós að gluggarnir voru of litlir en það hafi vantað 5 cm upp á hvora hlið til að þeir myndu passa í gluggaopið. Þar sem búið var að taka hluta af eldri gluggum úr húsinu hafi ekki verið annar kostur en að smíða lista utan á alla gluggana og nýta þá. Stefndi hafi boðist til að koma til móts við stefnanda með því að gera hagstætt tilboð í þá glugga sem átti að skipta út sumarið 2015 án þess að leggja fram tölulegt tilboð. Annað hafi stefndi ekki boðið. Stefnandi hafi reynt að fá skaðann bættan hjá tryggingarfélagi stefnda en það hafi ekki gengið eftir. Stefndi hafi hafnað því að bæta stefnanda það tjón sem hún hafi orðið fyrir en stefnandi hafi margítrekað leitað til stefnda og leitað lausnar, sem hafi ekki gengið eftir. Stefndi hafi hafnað því að bæta stefnanda það tjón sem hún varð fyrir og því sé henni nauðugur einn kostur að höfða mál þetta. Stefnandi hafi keypt gallaða vöru úr hendi stefnda sem hafi sölustarfsemi að atvinnu. Stefndi sé sérfræðingur á sviði gluggasmíða og hafi stefnandi sérstaklega leitað til hans og mátt treysta honum fyrir faglegri þjónustu og vöru sem uppfylltu þær kröfur sem gera mátti. Stefnandi hafi strax gert stefnda viðvart um framkomna galla en í ljósi langs afgreiðslutíma hafi stefnda verið ómögulegt að vinna úrbætur með fullnægjandi hætti. Þess fyrir utan hefði frekari töf í för með sér verulegt óhagræði fyrir stefnanda, sér í lagi í ljósi þess að búið var að taka út gömlu gluggana. Stefndi beri hlutlæga ábyrgð á öllum þeim göllum sem kunni að koma fram á söluhlut og vegna sérhvers fjárhagslegs tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna gallans. Skaðabótakrafan taki til þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna hinna gölluðu glugga. Um sé að ræða sannanlegan útlagðan kostnað sem stefnandi hafi orðið að leggja út fyrir. Kostnaður við gluggakaup, vinnu smiðs og lista er bæta varð við glugga sundurliðast þannig: Reikningur frá BYKO 23.334 krónur. Reikningur frá BYKO 12. 565 krónur. Reikningar frá Flugger 3.879 krónur og 798 krónur. Reikningur frá Akurfelli 376.500 krónur og frá Hurðum og Gluggum 523.455 krónur og 5.600 krónur og tveir reikningar frá Íspan 5.600 krónur hvor um sig.
Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæðum laga nr. 48/2003 um neytendakaup, ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, einkamálalögum nr. 91/1991 og meginreglum kauparéttar. Þá byggir hann kröfuna um vexti á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, málskostnað á lögum nr. 91/1991 og kröfuna um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar. Stefndi kveður stefnanda hafa komið með blað til sín með öllum málum á gluggunum og verið með ósk um afhendingartíma. Stefndi hafi gert stefnanda tilboð í umrædda glugga eftir uppgefnum málum. Stefnandi hafi samþykkt tilboðið og þá hafi umrædd smíði hafist. Stefndi hafi, áður en smíðin hófst, haft samband við smið sem hafði tekið málin af gluggunum. Hafi þeir rætt um staðsetningu gluggapósta og hafi smiðurinn staðfest smíðamálin á gluggunum eins og þau hafi komið fram á beiðni stefnanda, þ.e. 88,5 cm x 140 cm. Gluggarnir hafi verið afhentir stefnanda um mánaðamótin maí/júní 2014. Stefndi mótmælir því að hann hafi ekki smíðað gluggana eftir umbeðnu máli. Stefnandi hafi beðið stefnda um að hafa samband við smiðinn hennar, sem stefndi hafi gert. Hafi smiðurinn staðfest gluggamálin frá stefnanda. Stefndi hafi því smíðað þá vöru sem stefnandi óskaði eftir. Stefndi mótmælir því að það sé venja að hann fari á staðinn og mæli glugga sjálfur. Stefndi sé með starfsstöð í Hafnarfirði en fasteign stefnanda sé á Akureyri. Stefnandi hafi sjálf gefið upp röng mál og beri ábyrgð á því. Stefnandi hafi ekki kvartað strax og hún hafi ekki skilað gluggunum. Stefnandi hafi aldrei óskað eftir nýjum gluggum og hún hafi sett alla gluggana í húsið og séu þeir þar í notkun. Stefnandi krefji stefnda um bætur sem nemi verði á gluggunum, sem þó séu í notkun hjá henni, auk óskilgreinds kostnaðar. Þá kveður stefndi stefnanda ekki vera neytanda í skilningi neytendalaga þar sem hún reki gistihús í fasteigninni og hafi atvinnu af rekstri hússins. Ef neytendalög nr. 48/2003 séu talin gilda um þessi viðskipti þá vísi stefndi til XI. kafla laganna. Þá sé tjón stefnanda eins og því sé lýst í stefnu ekki í samræmi við 52. gr. né 54. gr. laganna sem kveði á um skyldu stefnanda til að takmarka tjón sitt en það hafi hún ekki gert. Ef gluggarnir hafi verið ónothæfir hefði verið eðlilegast að endursenda þá og krefjast nýrra en það hafi stefnandi ekki gert og með því telji stefndi hana hafa samþykkt gluggana. Stefndi kveðst vísa til 70. gr. lausafjárkaupalaga vegna varakröfu stefnanda um skyldu til að takmarka tjón sitt. Sömu sjónarmið eigi við um skaðabótakröfu vegna laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, sbr. 40. gr. laganna. Varðandi varakröfu sína vísar stefndi til sömu raka og í aðalkröfu. Þá bendir stefndi á varakröfu sinni til stuðnings að ef stefnandi hefði endursent gluggana hefði stefndi getað selt þá og þannig takmarkað tjónið. Það hafi stefnandi ekki boðið upp á. Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda.
Stefndi vísar til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar. Þá vísar hann til laga nr. 48/2003 um neytendakaup, sérstaklega XI. kafla laganna, 52.-54. gr., sbr. 1., sbr. 16. gr. Þá vísar hann til laga um lausafjárkaup nr. 50/200, sérstaklega 40. gr. þeirra laga, sbr. og X. kafla laganna. Um dráttarvexti vísar hann til vaxtalaga nr. 38/2001, sérstaklega 5. gr.
Skýrslur fyrir dómi.
Stefnandi kom fyrir dóminn og kvaðst hafa keypt glugga af stefnda sem hafi reynst vera gallaðir. Hún hafi ítrekað reynt að ná sáttum en það hafi ekki gengið. Gluggana hafi þurft að panta með góðum fyrirvara en hún myndi ekki hversu löngum fyrirvara. Stefnandi kvaðst hafa vitað um smiðinn Friðjón, sem hafi unnið fyrir nágranna hennar á Akureyri, og leitað til hans. Stefnandi kvaðst hafa mælt gluggana gróflega og hafi verið með málin eftir minni. Hún hafi sagt stefnda það og beðið hann sérstaklega að hafa samband við smiðinn til að fá málin staðfest auk þess að fá staðfest hvar krossarnir ættu að vera staðsettir í gluggunum. Stefndi hafi tekið niður nafn og símanúmer smiðsins og hringt í hann. Kvað vitnið að gömlu gluggarnir hafi verið rifnir úr húsinu og þegar nýju gluggarnir hafi komið hafi gallinn komið í ljós. Gömlu gluggarnir hafi verið ónýtir og því ekki möguleiki að setja þá aftur í. Stefnandi kvaðst strax hafa hringt í stefnda og spurt hann hvort hann hafi ekki örugglega rætt við smiðinn og hafi stefndi staðfest það. Stefnandi kvaðst hafa tekið ljósmynd af málsettum gluggum hjá smiðnum sem hann hafi verið með í bók hjá sér. Það hafi hún gert sama dag og hún komst að því að gluggarnir voru of litlir. Stefnandi kvað stefnda hafa stungið upp á því að stefnandi reyndi að selja gluggana en það hafi ekki verið í myndinni. Það hafi verið búið að rífa gömlu gluggana úr og hún hafi ekki getað beðið eftir því að nýir gluggar yrðu smíðaðir en stefndi hafi lagt það til. Kvað stefnandi smiðinn hafa leyst vandamálið með gluggana og sett lista á hliðar glugganna svo að þeir pössuðu í gluggagötin. Stefnandi kvaðst ekki vera með virðisaukaskattsnúmer. Stefnandi kvaðst á þessum tíma hafa unnið skrifstofustörf á lögmannsstofu en hún hafi ekki rekið gistiheimili. Stefnandi hafi búið í húsinu í fimm ár áður en hún flutti til Reykjavíkur. Í dag sé þetta fjölskylduhús og ekki notað undir atvinnurekstur. Stefnandi kvaðst hafa prófað að leigja húsið út en hætt því.
Aðspurð um yfirlýsingu lögmanns stefnanda í bréfi 13. júní 2014, þar sem fram kemur að stefnandi reki gistiheimili í húsinu á sumrin og hafi húsið í útleigu á veturna, kvað stefnandi þetta vera misskilning af hálfu lögmannsins en vinkona hennar hafi leigt húsið veturinn eftir. Aðspurð um það að í bréfi lögmannsins standi að tveir gluggar hafi þá verið teknir úr húsinu, kvað stefnandi það vera rangt hjá lögmanninum. Ljósmynd af málum smiðsins var borin undir stefnanda. Kvaðst stefnandi hafa tekið þá ljósmynd úr nótubók smiðsins daginn sem í ljós kom að gluggarnir voru of litlir. Stefnandi staðfesti að þær upplýsingar sem fram kæmu á dskj. 5 væru upplýsingar frá henni en það sem handritað væri á skjalið væri ekki frá henni. Þá væru teikningar af krossum í gluggunum réttar á skjalinu og hlutföllin rétt. Þau hlutföll hafi stefndi fengið hjá smiðnum. Stefnandi kvaðst hafa fengið virðisaukaskatt af vinnu smiðsins endurgreiddan frá skattayfirvöldum. Stefnandi kvaðst ekki hafa hitt smiðinn þegar hann mældi gluggana en stefnandi hafi ekki fengið þau mál þegar hún þurfti að fá tilboð í gluggasmíðina.
Jón Kristinn Gunnarsson, fyrirsvarsmaður stefnda, kom fyrir dóminn og kvað stefnanda hafa óskað eftir tilboði í smíði glugga samkvæmt málsetningu sem hún hafi komið með á blaði til sín. Stefnandi hafi tekið fram að stefndi þyrfti að ræða við smiðinn til að fá málin staðfest. Það hafi stefndi gert og lesið upp málin fyrir Friðjón af blaðinu sem stefnandi hafi gefið upp og hafi Friðjón staðfest þau mál sem rétt. Smiðurinn hafi einnig gefið sér upp hvernig póstarnir eða krossarnir í gluggunum ættu að vera. Gluggarnir hafi í framhaldi farið í smíði. Þá hafi hann rætt um önnur tæknileg mál við Friðjón gagnvart smíði á gluggunum. Gluggarnir hafi verið smíðaðir samkvæmt bestu vitund og neitaði stefndi að hafa smíðað ranga glugga. Stefndi staðfesti málsetningarnar sem koma fram á dskj. 5 og stöfuðu frá stefnanda. Stefndi hafi síðan handskrifað inn á blaðið upplýsingar frá stefnanda, bæði nafn og símanúmer hjá smiðnum svo og staðfest smíðamál og staðfestingu á hvar póstarnir ættu að vera staðsettir eftir símtal við smiðinn. Stefndi kvað það hafa komið fljótlega í ljós að gluggarnir voru of litlir en hann myndi það ekki upp á dag. Minnti stefnda að stefnandi hafi fyrst haft samband og síðan eiginmaður stefnanda. Smiðurinn hafi aldrei hringt í sig eftir þetta eina símtal. Stefndi kvaðst aldrei hafa séð uppkast að málum smiðsins af gluggunum. Hefði stefndi fengið það blað í hendurnar á sínum tíma hefðu gluggarnir verið smíðaðir eftir þeim málum. Þá hafi smiðurinn aldrei boðist til að senda honum þau mál sem komi fram á dskj. 12. Stefndi kvaðst aldrei fara út á land til að mæla glugga, það sé ætíð á hendi verkbeiðanda eða smiða á þeirra vegum. Kvað stefndi engan vilja smíða vitlausa glugga. Stefndi kvaðst ekki geta staðfest að ljósmyndir sem stefnandi lagði fram af gluggunum væru þeir gluggar sem stefndi smíðaði, trésmíðaverkstæði á Akureyri væri með nákvæmlega sama prófíl og stefndi. Þá kvaðst stefndi að öllum líkindum hafa getað selt gluggana aftur fyrir kannski hálfvirði. Aðspurður um símtalið við smiðinn kvaðst stefndi ekki vita hvort smiðurinn hafi verið með málin sín á þeim tíma sem stefndi hringdi í hann en stefndi hafi borið málin upp við hann sem voru á blaðinu frá stefnanda og smiðurinn staðfest að þau væru rétt. Stefndi kvað algengt að viðskipti færu eingöngu í gegnum síma og oft sæi hann aldrei viðskipavini sína. Kvað stefndi afhendingartíma nýrra glugga geta hafa verið um þrjár vikur en það væri mismunandi eftir því hversu mikið lægi fyrir. Stefndi kvaðst í fyrstu, þegar mistökin komu í ljós, hafa hringt í smiðinn en hann þá neitað að hafa átt símtal við stefnda á fyrri stigum. Stefndi kvaðst ekki hafa smíðað ranga glugga, hann hafi smíðað glugga eftir pöntun og því hafi hann ekki gert neitt rangt. Stefndi kvað aðila hafa reynt að semja um afslátt vegna smíði á gluggum á efri hæðina en það hafi aldrei verið samningsvilji af hálfu stefnanda eða lögmanna á hennar vegum.
Vitnið Friðjón Halldórsson gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa sett umrædda glugga í húsið að beiðni stefnanda. Vitnið kvaðst engin tengsl hafa við stefnanda. Vitnið kvaðst hafa tekið mál af gluggunum og sett á blað fyrir sig en vitnið hafi aldrei sýnt stefnanda það blað fyrr en í ljós kom að gluggarnir voru of litlir. Þá hafi stefnandi tekið ljósmynd af málunum. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna til þess að hafa nokkurn tímann rætt við stefnda en hafi vitnið gert það þá hefði vitnið örugglega gefið honum upp sín mál. Kvaðst vitnið tvisvar hafa rætt það við stefnanda að gluggasmiðurinn hafi ekki hringt í sig áður en gluggarnir komu. Þá kvaðst vitnið ekki átta sig á því hvers vegna gluggasmiðurinn hafi ekki haft nein gögn um þessa glugga. Gluggarnir hafi verið með rétta hæð en 10 cm hafi vantað upp á breiddina. Kvaðst vitnið hafa sett 5 cm lista utan á hliðar glugganna til að þeir pössuðu í gluggagatið og hafi gluggarnir verið settir þannig í húsið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna nákvæmlega hvenær stefnandi hafði samband við sig en minnti að það hafi verið í febrúar. Þau hafi bara gert munnlegan samning. Minnti vitnið að stefnandi hafi sagt sér með ca eins mánaðar fyrirvara að hún væri búin að panta gluggana og hvenær þeir kæmu. Vitnið kvaðst aldrei hafa sent málin sín til gluggasmiðsins og hafi ekki verið beðinn um það, enda hafi þau mál verið fyrir vitnið til að vita út í hversu viðamikið verkefni hann væri að fara. Símtal frá því í apríl 2014 var borið undir vitnið og kvaðst vitnið ekki muna til þess að það símtal hafi farið fram. Þá kannaðist vitnið ekki við að hafa gefið upplýsingar um það hvar eða hvernig krossarnir eða póstarnir ættu að vera í gluggunum, þær upplýsingar hlytu að hafa komið frá stefnanda.
Forsendur og niðurstöður.
Óumdeilt er að stefnandi hafði samband við stefnda af fyrra bragði og óskaði eftir smíði á sjö gluggum samkvæmt málsetningu sem stefnandi afhenti stefnda, útprentað á blaði. Þá er óumdeilt að stefnandi bað stefnda að hafa samband við smiðinn sem ætlaði að setja gluggana í húsið og gaf hún stefnda upp nafn og símanúmer smiðsins. Þá liggur fyrir samkvæmt útskrift frá símafyrirtæki að stefndi hringdi í símanúmer smiðsins Friðjóns þann 16. apríl 2014 og ræddi við hann í 300 sekúndur.
Á umræddu blaði sem stefnandi afhenti stefnda kemur ekki fram að um áætluð mál sé að ræða. Stefndi staðfesti fyrir dóminum að hann hafi hringt í vitnið Friðjón og lesið upp málin fyrir hann og hafi smiðurinn staðfest við stefnda að það væru rétt mál. Á blaðið handritaði stefndi „SM“, sem þýddi smíðamál, og hring utan um þá stafi sem stefndi segir að þýði staðfest smíðamál. Þá hafi stefndi fengið hjá smiðnum hlutföll gluggapósta eða kross sem áttu að vera í glugganum og eru þau handrituð inn á blaðið. Staðfesti stefnandi að það væru rétt hlutföll. Fyrir dóminum kannaðist vitnið Friðjón ekki við að hafa rætt við stefnda um málsetningar á gluggunum og kannaðist ekkert við umrætt símtal.
Eins og máli þessu er háttað telur dómurinn að fullyrðingu stefnda um að hann hafi fengið staðfestingu hjá vitninu Friðjóni í símtali þann 16. apríl 2014, að gluggamál sem hann fékk uppgefin frá stefnanda væru rétt, hafi ekki verið hnekkt. Fullyrðingu stefnda til stuðnings er að stefndi skrifaði niður eftir vitninu í sama símtali staðsetningu á gluggapóstum sem voru réttir í gluggunum. Hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda. Verður stefnandi að bera hallann af sönnunarskorti á því að stefndi hafi verið með röng smíðamál frá stefnanda. Að þessari niðurstöðu fenginni er óþarft að fjalla um frekari málsástæður stefnanda. Verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu. Þá verður stefnandi dæmd til að greiða stefnda 350.000 krónur í málskostnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Eljó ehf., er sýkn í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.