Hæstiréttur íslands

Mál nr. 374/2002


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. mars 2003.

Nr. 374/2002.

Kristín Jónsdóttir og

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

gegn

Róbert Þór Ólafssyni

(Gylfi Thorlacius hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Sakarskipting. Gjafsókn.

R og tveir vinnufélagar hans smíðuðu trépall sem þeir notuðu til leiks á þann hátt að tveir þeirra festu sig niður í sæti á honum, en sá þriðji stýrði bifreið sem dró pallinn eftir malarplani. R slasaðist þegar pallurinn rakst á járngrindur, sem geymdar voru á planinu, og hlaut varanlegan miska og örorku. Gekk R til uppgjörs við vátryggingafélag bifreiðar þeirrar, sem hafði verið notuð til að draga pallinn, um greiðslu bóta fyrir tjón sitt, en miðað var þar við að hann yrði að bera það sjálfur að hálfu. Gerði R fyrirvara um sakarskiptingu. R höfðaði af þessu tilefni mál til heimtu skaðabóta vegna þess helmings tjóns síns, sem stóð óbætt eftir uppgjörið. Í dómi Hæstaréttar segir að þegar slysið bar að höndum hafi R náð nægilegum aldri til að geta gert sér fulla grein fyrir þeirri verulegu hættu, sem hann hafi setti sig í með þátttöku í þessum athöfnum. Var vátryggingafélag bifreiðarinnar því sýknað af kröfu hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2002. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjendur dæmd til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.

I.

Eins og greinir í héraðsdómi varð stefndi, sem er fæddur 1982, fyrir slysi 30. október 1998 á athafnasvæði þáverandi vinnuveitanda síns, Vegagerðarinnar, við Stórhöfða í Reykjavík. Stefndi var að láta þar af störfum þann dag ásamt tveimur öðrum ungmennum, Ásgeiri Jóni Einarssyni og Ágústi Erni Grétarssyni, sem báðir voru liðlega tvítugir að aldri. Til að gera sér dagamun af þessu tilefni tóku stefndi og Ásgeir það til bragðs að búa til pall með því að skeyta saman tveimur vörubrettum úr timbri, sem munu hvort um sig hafa verið 80 cm að breidd og 120 cm löng. Á þennan pall festu þeir tvö sæti úr bifreið, sem munu hafa verið í ruslagámi á vinnustaðnum. Yfir sætin settu þeir ól og bundu síðan pallinn með kaðli aftan í bifreið, sem var í umráðum Ásgeirs en í eigu áfrýjandans Kristínar Jónsdóttur og ábyrgðartryggð af áfrýjandanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Var bifreiðin þannig látin draga pallinn í hringi eftir malarplani á athafnasvæðinu og ók Ágúst henni fyrst í stað, en stefndi og Ásgeir voru í sætunum á pallinum, þar sem þeir höfðu fest sig niður með fyrrnefndri ól. Eftir nokkrar ferðir tók Ásgeir við akstrinum en Ágúst tók sér sæti á pallinum, þar sem stefndi var fyrir. Í fyrstu ferðinni eftir þetta beygði Ásgeir bifreiðinni með þeim afleiðingum að pallurinn rakst utan í járngrindur, sem geymdar voru á svæðinu. Stefndi hugðist verja sig með vinstri hendi, sem skall utan í grindurnar. Hlaut hann af þessu opið beinbrot á olnboga, auk annarra minni áverka.

Lögreglan var kvödd á vettvang vegna þessa slyss. Í frumskýrslu hennar um atvikið var meðal annars haft eftir Ásgeiri að hann „tók krappa vinstri beygju“ og áðurnefndur pallur hafi þá skollið í járngrindurnar. Taldi hann sig hafa ekið á 20 til 40 km hraða á klukkustund. Ásgeir gaf lögregluskýrslu 21. desember 1998, þar sem hann taldi slysið hafa stafað af því að „brettið var greinilega of þungt ... þannig að það dró bifreiðina af leið og lenti brettið utan í járngrindur.“ Sagðist hann hafa ekið á 30 til 40 km hraða á klukkustund. Í lögregluskýrslu 29. sama mánaðar sagði stefndi meðal annars að þeir félagarnir hafi verið „búnir að draga brettið 1-2 sinnum áður en slysið varð og þá sömu leið og þá. Í það sinn sem slysið gerðist hefur hraðinn trúlega verið meiri en í hin skiptin. Síðan tók Ásgeir, sem var að aka í þetta sinn krappa beygju og sveiflaðist brettið þá til hliðar og lenti utan í járnamottum sem voru þarna á svæðinu.“ Aðspurður kvað stefndi tvo nafngreinda starfsmenn Vegagerðarinnar hafa vitað af því, sem þeir félagarnir voru að gera, og „ekki reynt að hafa áhrif á þá.“ Loks gaf Ágúst skýrslu hjá lögreglunni 18. maí 1999, þar sem hann kvað meðal annars hraða bifreiðarinnar ekki hafa verið mikinn þegar slysið varð og „ekkert svona markvert“ meiri en fyrri skiptin. Beygjan, sem Ásgeir hafi tekið rétt fyrir slysið, hafi ekki verið „svo voðalega kröpp“, en þó nægilega til að pallurinn sveiflaðist til og gæti Ásgeir „hafa tekið beygjuna eitthvað öðruvísi“ en gert var í fyrri ferðunum. Ágúst kvað að minnsta kosti einn verkstjóra hafa vitað af þessum athöfnum og minnti að hann hafi gert einhverjar athugasemdir út af þeim. Við lögreglurannsóknina lá enn fremur fyrir yfirlýsing 2. nóvember 1998 frá starfsmanni Vegagerðarinnar, þar sem kom meðal annars fram að sést hafi til stefnda og félaga hans þegar þeir unnu að smíði pallsins. Þeim hafi verið „bannað að draga hann um lóðina, þau viðvörunarorð voru virt að vettugi og því fór sem fór.“

Áfrýjandinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og stefndi öfluðu í sameiningu álitsgerðar tveggja lækna 24. nóvember 1999 um örorku þess síðarnefnda. Samkvæmt henni taldist stefndi tímabundið óvinnufær í þrjá mánuði eftir slysið og veikur í sex mánuði, þar af tvær vikur rúmliggjandi. Varanlegur miski stefnda og varanleg örorka voru metin 17%. Stefndi krafði félagið um skaðabætur á þessum grunni með bréfi 4. janúar 2000. Bauð félagið honum 19. sama mánaðar greiðslu til uppgjörs á tjóni hans, en miðað var þar við að hann yrði að bera það sjálfur að hálfu. Stefndi gekk að þessu boði og tók við greiðslu 21. janúar 2000 á samtals 1.761.646 krónum með fyrirvara um sakarskiptingu. Hann höfðaði síðan mál þetta með stefnu 3. maí 2001 til heimtu skaðabóta vegna þess helmings tjóns síns, sem stóð óbætt eftir uppgjörið. Ekki er ágreiningur um að það tjón nemi fjárhæðinni, sem stefndi krefst að fá greidda, eða 1.871.137 krónum.

II.

Af gögnum málsins er ljóst að stefndi átti hlut að smíði áðurnefnds trépalls og lagði á ráðin með vinnufélögum sínum um að nota hann til leiks á þann hátt að tveir þeirra myndu festa sig niður í sæti á honum og hann yrði dreginn af bifreið, sem sá þriðji myndi stýra. Pallur þessi var þannig úr garði gerður að augljóst mátti vera að stórfelld hætta gæti stafað af honum á fleiri en einn veg þegar hann yrði dreginn í hringi eftir malaryfirborði athafnasvæðis Vegagerðarinnar innan um vörubirgðir og áhöld. Stefndi hefur ekki hnekkt því, sem fram kom við lögreglurannsókn, að ökuhraði og aksturslag Ásgeirs Jóns Einarssonar, sem stjórnaði bifreiðinni þegar stefndi slasaðist, hafi lítt verið frábrugðið því, sem var hjá fyrri ökumanni hennar, svo og að starfsmenn Vegagerðarinnar hafi hreyft athugasemdum við þá um þennan háskaleik. Þegar slysið bar að höndum hafði stefndi náð nægilegum aldri til að geta gert sér fulla grein fyrir þeirri verulegu hættu, sem hann setti sig í með þátttöku í þessum athöfnum. Hann sýndi þannig af sér stórfellt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Að því virtu hefur stefndi þegar fengið tjón sitt bætt að því leyti, sem hann getur sótt að öðrum um það. Verða áfrýjendur því sýknuð af kröfu hans.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

 

Dómsorð:

Áfrýjendur, Kristín Jónsdóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýkn af kröfu stefnda, Róberts Þórs Ólafssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2002.

          Mál þetta, sem dómtekið var 10. maí sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 4. maí 2001.

          Stefnandi er Róbert Þór Ólafsson, kt. 130182-7129, Skipholti 50A, Reykjavík.

          Stefndu er Kristín Jónsdóttir, kt. 090648-2929, Fljótaseli 10, Reykjavík, og Sjóvá Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda:

          Að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 3.545.748 kr. auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga 87.035 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. janúar 2000 til greiðsludags. Allt að frádregnum 1.761.646 kr. sem greiddar voru 21. janúar 2000.

          Þá er þess krafist að stefndu verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu:

          Aðallega krefjast stefndu sýknu og málskostnaðar að skaðlausu.

          Til vara krefjast stefndu þess að stefnukröfur verði lækkaðar og hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

Málavextir

          Mál þetta höfðar stefnandi vegna líkamstjóns sem hann hlaut í slysi 30. október 1998 á athafnasvæði Vegagerðar ríkisins við Stórhöfða í Reykjavík. Slysið varð með þeim hætti að stefnandi sat á vörubretti, sem á höfðu verið fest sæti og dregið var af bifreiðinni JÖ-157, eign stefndu, Kristínar Jónsdóttur. Ökumaður bifreiðarinnar var Ásgeir Jón Einarsson, kt. 070677-4589.

          Þegar slysið varð tók ökumaðurinn að sögn krappa vinstri beygju með þeim afleiðingum að vörubrettið sveiflaðist til og skall utan í járngrindur, sem stóðu þar nærri.  Við áreksturinn klemmdist vinstri olnbogi stefnanda á milli grindanna og brettisins, sem dregið var með bifreið stefndu, Kristínar.

          Stefnandi fann strax til mikils sársauka frá olnboganum og brjósti og var hann fluttur af vettvangi með sjúkrabifreið.  Lögregla kom á vettvang og kannaði aðstæður.  Stefnandi var fluttur á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og þar kom í ljós að hann var með opið beinbrot á vinstri olnboga. Stefnandi var þá fluttur á bæklunarskurðdeild Landspítalans þar sem Svavar Haraldsson sérfræðingur framkvæmdi bráðaaðgerð á olnboganum.  Stefnandi lá á spítalanum í nokkra daga og var aðgerðinni svo fylgt eftir á göngudeild spítalans.

          Læknarnir Guðmundur Björnsson og Atli Þór Ólason hafa metið afleiðingar slyssins fyrir stefnanda og í matsgerð þeirra dags. 24. nóvember 1999 kemur fram að stefnandi hefur viðvarandi óþægindi í olnbogaliðnum og við skoðun kom í ljós hreyfiskerðing í olnboganum, nokkur óþægindi við álag og rýrnun í vöðvum.

          Það var niðurstaða læknanna að stefnandi hefði verið tímabundið óvinnufær í 3 mánuði.  Hann hafi verið veikur og batnandi í 6 mánuði þar af tvær vikur rúmliggjandi. Varanlegur miski hans vegna afleiðinga slyssins er talinn hæfilega metin 17% og varanleg örorka 17% og leggja þeir þar til grundvallar takmarkað starfsval Róberts og skert álagsþol.

          Hinu stefnda tryggingarfélagi var send bótakrafa þann 4 janúar 2000 þar sem krafist var skaðabóta fyrir tjón stefnanda.  Við útreikning á tjóni stefnanda var miðað við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993.

          Gerð var krafa um greiðslu á 300.000 kr. vegna tímabundins tekjutaps.  Krafist var þjáningabóta skv. 3. gr. miðað við niðurstöðu matsmanna.  Krafa um bætur fyrir varanlegan miska var gerð skv. 4. gr. að teknu tilliti til vísitöluhækkunar.  Þar sem stefnandi hafði nýlega hætt námi og hafði ekki verið lengi á vinnumarkaði var krafa um bætur fyrir varanlega örorku miðuð við árslaun 1.200.000 kr. að viðbættu 6% álagi vegna framlags í lífeyrissjóð, 1.272.000 kr., og framreiknað m.v. vísitölu (182,8/194) sem gefur 1.350.228 kr. og er við þá tölu miðað við kröfugerð í málinu.

          Stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., taldi að um stórkostlegt gáleysi hefði verið að ræða hjá ökumanni bifreiðarinnar og tjónþola og var félagið aðeins reiðubúið að bæta stefnanda helming af tjóni hans.

          Stefnandi gat ekki fellt sig við að hann bæri sök í málinu og var því gengið frá uppgjöri bóta með fyrirvara um sakarskiptingu og greiddu Sjóvá-Almennar hf. til stefnanda bætur samtals að fjárhæð 1.461.646 kr. auk 300.000 kr. vegna tímabundins tekjutaps.

          Bótakrafa stefnanda í málinu sundurliðast þannig:

          Bætur fyrir tímabundna örorku                                                                kr.            300.000

          Þjáningabætur vegna rúmlegu (14 dagar x 1.500 kr.)                            kr.              21.000

          Þjáningabætur án rúmlegu (166 dagar x 815 kr.)                                    kr.            135.290

          Bætur fyrir 17% varanlegan miska (af 4.671.000 kr.)                             kr.            794.070

          Bætur fyrir 17% varanlega örorku                                                           kr.     2.295.388

          Samtals                                                                                                        kr.     3.545.748

          Vextir skv. 16. gr. frá slysdegi til 21. janúar 2000                   kr.              87.035

          Samtals                                                                                                        kr.     3.632.783

          Til frádráttar koma greiðslur frá Sjóvá  Almennum tryggingum hf.

          Vegna þjáningabóta, miska og örorku                                                    kr.   1.461.646

          Vegna tímabundins tekjutaps                                                                  kr.      300.000

          Samtals til frádráttar                                                                                   kr.   1.761.646

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

          Tjón stefnanda sé rakið til notkunar ökutækisins JÖ-157 og sé því bótaskylt á grundvelli 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og á ábyrgð stefndu með vísan til 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga. Á slysdegi hafi bifreiðin verið tryggð hjá stefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf. Hið stefnda tryggingarfélag hafi gert málið upp miðað við 50% eigin sök stefnanda.

          Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann verði ekki með réttu látinn bera helming af því tjóni sem hann varð fyrir í slysinu 30. október 1998. Stefnandi fellst ekki á að hann hafi verið meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Höfnun tryggingarfélagsins á að greiða stefnanda skaðabætur að hluta eigi ekki við lög að styðjast þar sem hún verði ekki studd við 2. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987.

          Þátttaka stefnanda í iðju vinnufélaganna, að sitja á brettinu sem fest var aftan í bifreið stefndu, hafi honum virst hættulaus. Brettið hafi verið vel fest við bílinn og það hafi virst stöðugt. Sæti hafi verið fest á brettið svo að menn sætu vel á því og ekið hafi verið  um slétt og opið plan. Bifreiðinni hafði verið ekið á litlum hraða og á þann hátt að öryggi þeirra sem sátu á brettinu væri ekki stefnt í voða. Það hafi svo verið þegar ökumaður bifreiðarinnar tók snögga og krappa beygju að brettið hafi runnið út úr beygjunni með þeim afleiðingum að stefnandi hafi skollið utan í járngrindur með fyrrgreindum afleiðingum. Slysið og tjón af orsökum þess hafi orðið vegna hreyfingar bifreiðarinnar og ökulags bílstjórans en ekki vegna athafna stefnanda sem felldar verði undir ásetning eða stórkostlegt gáleysi í skilningi umferðarlaga. Stefnandi krefst því að honum verði bætt tjón hans að fullu.

          Fjárhæð skaðabótakröfunnar styður stefnandi við örorkumat, dags. 24. nóv. 1999, og reglur skaðabótalaga nr. 50/1993 og tilboð tryggingarfélagsins frá 19. janúar 2000.

          Um bótaskyldu stefndu vísar stefnandi til 1. mgr. 88. gr. og 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga og ólögfestra reglna skaðabótaréttar. Um útreikning bótakröfu og vexti er vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1987 (svo). Um aðild málsins er vísað til 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður og rökstuðningur stefndu

          Af hálfu stefndu er því haldið fram að þá er stefnandi slasaðist hafi hann tekið þátt í fífldjörfum leik við Stórhöfða í Reykjavík. Vörubretti með áföstum sætum hafi verið fest við bifreiðina JÖ-157, sem hafi verið í eigu stefndu, Kristínar. Leikurinn hafi falist í því að láta bifreiðina draga sig á brettinu. Þegar stefnandi var á brettinu við annan mann hafi hann dottið af því og lent á stálmottum sem voru á svæðinu. Við fallið hlaut stefnandi opið beinbrot á vinstri olboga auk höggs á brjóstkassa. Stefnandi hafi alveg náð sér af síðarnefnda áverkanum en beinbrotið hafi leitt til þess að hann hafi hlotið 17% varanlegan miska og örorku.

          Þann 19.  janúar 2000 hafi farið fram uppgjör á tjóninu þar sem stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., hafi greitt stefnanda 1.789.304 kr. fyrir utan lögmannskostnað.

          Ágreiningur í málinu snúist fyrst og fremst um meinta eigin sök hjá stefnanda. Aðalkrafa stefndu taki mið af því að stefnandi hafi við það að taka þátt í leiknum sýnt stórfellt gáleysi sem metið verði honum til 50% eigin sakar og því hafi tjónið verið gert upp að fullu. Að mati stefndu hafi það verið augljóslega hættulegt að sitja laus á bretti sem dregið var af bifreið á ferð þar sem mikil hætta hafi verið á því að falla af brettinu við þessar aðstæður eins og reynd varð. Í þessu sambandi er vísað til  2. mgr. 88. gr. umferðarlaga.

          Við munnlegan málflutning var því lýst yfir að ekki væri lengur ágreiningur um þjáningarbætur en upphafstíma dráttarvaxtakröfu var sérstaklega mótmælt.

Niðurstaða

          Ágreiningur aðila er einungis um sakarskiptingu vegna meintrar eigin sakar stefnanda og upphafstíma dráttarvaxta.

          Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi en hvorki Ásgeir Jón Einarsson, sem ók bifreiðinni R-76512 þá er slysið varð, né Ágúst Örn Grétarsson, sem tók þátt í leiknum með þeim félögunum og mun hafa setið á brettinu ásamt stefnanda þá er stefnandi slasaðist.

          Varðandi atvik málsins nýtur því eingöngu skýrslu lögreglumanns sem kom á vettvang eftir slysið og skýrslna þeirra Ásgeirs og stefnanda fyrir lögreglu svo og skýrslu stefnanda hér fyrir dómi.

          Í skýrslu lögreglumannsins, Þórarins Þórarinssonar, dags. 30. okt. 1998, kemur fram að Ásgeir, stefnandi og þriðji maður, hafi fest tvö bílsæti á vörubretti sem dregið var af bifreiðinni R 76512 og hafi verið á að giska þriggja metra dráttartaug á milli. Stefnandi hafi verið við annan mann á brettinu, vinstra megin, en Ásgeir hafi ekið bifreiðinni. Er Ásgeir tók krappa vinstri beygju hafi brettið skollið utan í járngrindur sem geymdar voru á svæðinu. Stefnandi hafi skollið með vinstri hlið líkamans utan í járngrindurnar. Ásgeir hafi talið sig hafa ekið á 20-40 km/klst. hraða.

          Í skýrslu Ásgeirs Jóns Einarssonar fyrir lögreglu 21. des. 1998 kemur fram að hann og stefnandi hafi látið sæti á vörubretti sem fest var aftan í bifreið og dregið af bifreiðinni. Þetta hafi þeir gert í nokkur skipti fyrir slysið. Ásgeir taldi brettið hafa verið of þungt aftan í bifreiðinni þannig að það hafi dregið bifreiðina af leið og brettið lent utan í járngrindur. Ásgeir kvaðst hafa ekið á 30-40 km/klst í umrætt sinn.

          Í skýrslu stefnanda fyrir lögreglu, 29. des. 1998, kemur fram að hann ásamt Ásgeiri Jóni Einarssyni og Ágústi Erni Grétarssyni hafi fengið sæti úr bifreið sem stefnanda minnti að hafi verið á athafnasvæði Vegagerðarinnar. Sætin hafi þeir látið á 2 Euro vörubretti (svo). Þeir hafi látið "öryggisbelti" á brettin (svo) til þess að þeir myndu ekki detta af brettinu. Þeir hafi verið búnir að draga brettið einu sinni til tvisvar áður en slysið varð. Stefnandi taldi að þá er slysið varð hafi hraðinn trúlega verið meiri en í hin skiptin. Ásgeir hafi tekið krappa beygju og þá hafi brettið sveiflast til hliðar og lent utan í járnamottum sem þarna voru. Stefnandi kvaðst hafa séð hvað verða vildi og reynt að verja sig með vinstri hendinni en lent með hliðina á grindunum.

          Fram kom hjá stefnanda hér fyrir dómi að fyrst hafi Ágúst ekið bílnum og hann hafi ekið rólega. Svo hafi Ásgeir ekið og hann hafi ekið mjög hratt. Brettið hafi sveiflast til og þeir lent utan í járnarekkum og við það hafi stefnandi slasast. Þeir hafi verið tveir á brettinu. Fyrst stefnandi og Ásgeir, þ.e. þegar Ágúst ók bílnum, og síðan stefnandi og Ágúst þegar Ásgeir ók. Bílsætin hafi þeir félagar boltað á brettin (svo) og einnig hafi þeir boltað niður slöngur sem þeir notuðu eins og öryggisbelti. Stefnandi sagði að þeir félagarnir hafi ekki fengist við þessa iðju fyrr en daginn sem slysið varð.

          Af því sem hér hefur verið rakið sést að framburður stefnanda er ruglingslegur að því er varðar bretti í eintölu eða fleirtölu. En þegar m.a. er litið til þess sem fram kemur í lögregluskýrslu og skýrslu vinnueftirlits þykir ljóst að vörubrettið hafi verið eitt.

          Við mat á því hvort stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi verður að líta til aldurs stefnanda svo og aldurs vinnufélaga hans. Þá er slysið varð var stefnandi sextán ára gamall. Ökumaður bifreiðarinnar JÖ 157, Ásgeir Jón Einarsson, var tuttugu og eins árs. Ekki kemur fram í skjölum málsins hver var aldur Ágústs Arnar Grétarssonar, en að sögn lögmanns stefnanda var hann tuttugu ára þegar slysið varð. Þannig er stefnandi fimm árum yngri en ökumaður bifreiðarinnar. Það er mikill aldursmunur á milli sextán ára unglings og  tuttugu og eins árs gamals manns.

          Enda þótt þeir félagarnir hafi hjálpast að við að útbúa brettið með sætum og festa það aftan í bifreiðina, þá var það aksturslag ökumannsins, Ásgeirs Jóns Einarssonar, sem fyrst og fremst orsakaði slysið.

          Þegar litið er til aldurs stefnanda er ólíklegt að hann hafi átt upptök að atferli þeirra vinnufélaganna. Líklegra verður að telja að hann hafi fylgt eldri félögum sínum.

          Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið fellst dómurinn ekki á að lækka beri eða fella niður bætur til stefnanda vegna ásetnings eða stórkostlegs gáleysis, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

          Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfu stefnanda sem verður því tekin til greina með vöxtum eins og segir í dómsorði.

          Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 350.000 kr. og hefur þá verið litið til virðisaukaskattsskyldu lögmannsþóknunar.

          Málið dæmir Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

          Stefndu, Kristín Jónsdóttir og Sjóvá Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Róbert Þór Ólafssyni, in solidum 1.871.137 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá uppkvaðningu dóms þessa og 350.000 kr. í málskostnað.