Hæstiréttur íslands
Mál nr. 247/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Sakarefni
- Gerðardómur
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Mælt er fyrir um það í 2. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma að hafi mál verið höfðað fyrir almennum dómstólum um ágreiningsefni, sem á undir gerðardóm samkvæmt gildum gerðarsamningi, skuli ekki vísa því frá dómi nema krafa komi fram um það. Varnaraðilar kröfðust þess í greinargerðum til héraðsdóms að máli þessu yrði vísað frá dómi. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Viti ehf., greiði varnaraðilum, ALMC hf., Anchorage Capital Group LLC, Andrew Sylvain Bernhardt, Birnu Hlín Káradóttur, Brynjari Þór Hreinssyni, Christopher M. Perrin, Gísla Val Guðjónssyni, Hoxton (Lux) S.à r.l., LS Retail Holding ehf. og Óttari Pálssyni, hverjum um sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2016.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 5. febrúar sl. er höfðað af Vita ehf., Fornubúðum 12 í Hafnarfirði, með stefnu birtri 30. júní, 8. og 9. júlí sl., á hendur LS Retail Holding ehf., Borgartúni 25 í Reykjavík, Brynjari Þór Hreinssyni, Kjalarlandi 12 í Reykjavík, Birnu Hlín Káradóttur, Þinghólsbraut 49 í Kópavogi, Gísla Val Guðjónssyni, Lálandi 22 í Reykjavík, ALMC hf., Borgartúni 25 í Reykjavík, Christopher M. Perrin, án tilgreiningar á heimili, Andrew Sylvain Bernhardt, án tilgreiningar á heimili, Óttari Pálssyni, Kaldakri 5 í Garðabæ, Anchorage Capital Group, L.L.C. 610 Broadway, 6th floor, New York, NY 10012 í Bandaríkjunum, og Hoxton (Lux) S.à r.l., 5 rue Guillaume Kroll, L-1882 Lúxemborg, og á hendur réttargæslustefndu þeim Magnúsi Norðdahl, Bröttutungu 2 í Kópavogi, Jörg Schmikale, AM Himberg 10, 23714 Malente í Þýskalandi, Marý B. Steingrímsdóttur, Löngumýri 20 í Garðabæ, Rúnari Sigurbjartssyni, Hamilton Park Dr, Roswell, GA, 30075 í Bandaríkjunum, Stefáni Konráðssyni, Öldusölum 8 í Kópavogi, Sveini Áka Lúðvíkssyni, Hörgslundi 10 í Garðabæ, Aðalsteini Valdimarssyni, Suðurvangi 7 í Hafnarfirði, Carsten Wulff, Præstevej 10A, 3480 Fredensborg í Danmörku, Daða Kárasyni, Kringlunni 63 í Reykjavík, Högna Hallgrímssyni, Foldarsmára 20 í Reykjavík, Matthíasi E. Matthíassyni, Safamýri 37 í Reykjavík, Pétri Þór Sigurðssyni, Svöluási 6 í Hafnarfirði, Björk Garðarsdóttur, Bollatanga 5 í Mosfellsbæ, Eiði Má Arasyni, Vallarhúsum 34 í Reykjavík, Guðna Vilmundarsyni, Hvassaleiti 10 í Reykjavík, Guðrúnu Eddu Gunnarsdóttur, Mánabraut 15 í Kópavogi og Jóhanni Sveinmar Sveinssyni, Fannafold 46 í Reykjavík.
I.
Stefnandi krefst þess aðallega að ákvörðun hluthafafundar stefnda, LS Retail Holding ehf., þann 27. apríl 2015 um að stefndi, LS Retail Holding ehf., samþykki að sala allra hluta í LS Retail ehf., kt. 700807-0530, til Anchorage Capital Group, eða heimilaðra framsalshafa þess félags, fyrir 17.638.600 evrur, verði dæmd ógild og verði breytt á þann veg að stefndi, LS Retail Holding ehf., samþykki sölu allra hluta í LS Retail ehf. til stefnanda, eða heimilaðs framsalshafa þess félags, fyrir 17.638.600 evrur.
Stefnandi krefst þess að allir stefndu verði dæmdir til að þola dóm um ógildingu á ákvörðun hluthafafundar stefnda, LS Retail Holding ehf., þann 27. apríl 2015 um að stefndi, LS Retail Holding ehf., selji alla hluti í félaginu LS Retail ehf. til Anchorage Capital Group eða heimilaðra framsalshafa þess félags, og þola breytingu á ákvörðun hluthafafundarins þann 27. apríl 2015 á þann veg að stefndi, LS Retail Holding ehf., samþykki sölu allra hluta í LS Retail ehf. til stefnanda, eða heimilaðs framsalshafa þess félags, fyrir 17.638.600 evrur.
Stefnandi krefst þess að allir stefndu verði dæmdir til að þola dóm um afmáningu á nafni Hoxton (Lux), eða heimilaðs framsalshafa þess félags, úr hlutaskrá LS Retail ehf. og stefnandi, eða heimilaður framsalshafi þess félags, verði skráður eigandi alls hlutafjár í hlutaskrá LS Retail ehf.
Til vara krefst stefnandi skaðabóta að fjárhæð 3.806.137 evrur óskipt úr hendi stefndu, ALMC hf., stjórnar ALMC hf. og stjórnar LS Retail Holding ehf., vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir og hlaust af ákvörðun hluthafafundar í stefnda LS Retail Holding ehf., þann 27. apríl 2015 um sölu allra hluta í LS Retail ehf. til Anchorage Capital Group fyrir 17.638.600 evrur og eftirfarandi ráðstöfun hluta samkvæmt þeirri ákvörðun. Þess er krafist að skaðabæturnar beri vexti samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. apríl 2015 til 30. júlí 2015 og dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, frá 30. júlí 2015 til greiðsludags.
Samhliða og í tengslum við kröfu um skaðabætur krefst stefnandi dóms fyrir því að stefndi, ALMC hf., verði dæmdur til að innleysa 6,9% hlut stefnanda í stefnda LS Retail Holding ehf. fyrir 1.217.063 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess til þrautavara að stefnda, LS Retail Holding ehf., verði dæmt skylt að innleysa 6,9% hlut stefnanda í LS Retail Holding ehf., miðað við að innlausnarfjárhæðin nemi andvirði hlutar stefnanda þann 27. apríl 2015 áður en hluthafafundur tók ákvörðun um sölu LS Retail ehf. til Anchorage Capital Group.
Loks krefst stefnandi þess til þrauta-þrautavara að stefnda, ALMC hf., verði dæmt skylt að innleysa 6,9% hlut stefnanda í LS Retail Holding ehf. miðað við að innlausnarfjárhæðin nemi andvirði hlutar stefnanda þann 27. apríl 2015 áður en hluthafafundur tók ákvörðun um sölu LS Retail ehf. til Anchorage Capital Group.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt allan málskostnað, þar með talinn kostnað af matsgerð dómkvaddra matsmanna, í samræmi við málskostnaðarreikning sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.
Allir stefndu hafa skilað greinargerðum þar sem einvörðungu er höfð uppi krafa um frávísun málsins frá dómi svo sem heimilt er samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Málið var tekið til úrskurðar að loknum málflutningi um þær kröfur.
Stefnandi gerir kröfu um að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað. Réttargæslustefndu taka undir þær kröfur.
Allir málsaðilar gera kröfu um greiðslu málskostnaðar í þessum þætti málsins.
II.
Ágreiningur máls þessa lýtur að sölu LS Retail Holding ehf. á dótturfélagi sínu LS Retail ehf. en síðarnefnda félagið var að fullu í eigu þess fyrrnefnda. Eigendur LS Retail Holding ehf. voru stefnandi, sem átti 6,9% hlut í félaginu, og ALMC hf. (áður Straumur-Burðarás), sem átti 93,1% hlut. Fyrirsvarsmaður stefnanda, Aðalsteinn Valdimarsson, var stjórnarformaður LS Retail ehf. og hafði á grundvelli kaupréttarsamnings frá 21. júní 2010, með síðari viðaukum, rétt til að kaupa allt að 7,5% hlut í félaginu með nánar greindum skilyrðum. Í grein 1.6 í kaupréttarsamningnum segir að í viðauka við samninginn sé hluthafasamkomulag og kaupréttarhafi samþykki skilmála þess. Þann 6. desember 2013 keypti Aðalsteinn 6,9% hlut í félaginu á grundvelli heimildar í kaupréttarsamningnum og framseldi þann hlut til stefnanda sama dag samkvæmt framsalsheimild í viðauka við kaupréttarsamninginn, dags. sama dag og kaupin fóru fram. Stefnandi, sem er einkahlutafélag að fullu í eigu Aðalsteins, skuldbatt sig til að hlíta skilmálum kaupréttarsamningsins og hluthafasamningsins með yfirlýsingu þar að lútandi sem er undirrituð sama dag og kaupsamningurinn. Þá liggur fyrir hluthafasamningur, undirritaður sama dag, á milli ALMC og Aðalsteins. Allir framangreindir samningar voru gerðir á ensku en þýðingar löggiltra skjalaþýðenda hafa verið lagðar fram í málinu.
Í framangreindum hluthafasamningi kemur fram að eina eign LS Retail Holding sé dótturfélagið LS Retail og að starfsemi félagsins sé að sinna því eignarhaldi en að stefnt sé að því að selja dótturfélagið og leysa félagið upp að því loknu. Þá er í 2. gr. samkomulagsins kveðið á um að ALMC tilnefni alla stjórnarmenn félagsins, enda sé hlutur annarra hluthafa undir 10% og í 3. gr. er m.a. kveðið á um hömlur á framsali og veðsetningu hlutabréfa án skriflegs samþykkis ALMC. Jafnframt er í greininni vísað til þess að samvinna aðila sé byggð á gagnkvæmu trausti. Þá er í 9. gr. ákvæði um úrlausn deilumála. Stefndi LS Retail Holding hefur lagt fram eftirfarandi þýðingu löggilts þýðanda á ákvæðinu: „Um samning þennan gilda íslensk lög. Komi til deilu vegna samnings þessa, túlkunar hans, einstakra greina eða annarra mála er varða samskipti aðila samnings þessa varðandi eign þeirra á hlutabréfum eða kauprétti í félaginu samþykkja aðilar að leitast við að leysa úr slíkum ágreiningsmálum í góðri trú. Náist ekki slík lausn er hvorum aðila um sig heimilt að leggja deiluna í gerð. Vilji aðili leggja slíka deilu í gerð skal hann tilkynna ágreiningsaðilanum um það skriflega. Skal einn gerðardómari dæma í málinu og skal hann fullnægja skilyrðum til þess að vera skipaður hæstaréttardómari. Geti aðilar að deilunni ekki komið sér saman um gerðardómara skal hann skipaður af dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Um gerðardómsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma nr.53/1989. Aðilar samnings þessa samþykkja með óafturkallanlegum hætti að hlíta lögsögu gerðardómsins og afsala sér rétti til að leita til almennra dómstóla.“
Stefnandi hefur lagt fram aðra þýðingu sem ekki er að fullu samhljóða framangreindum texta. Sá munur sem máli kann að skipta er lokamálsliður greinarinnar sem er svohljóðandi í þýðingu stefnanda „Aðilar að samningi þessum skulu samþykkja óafturkræft fulla lögsögu dómstólsins.“
Samhljóða ákvæði um gerðardóm er að finna í 11. gr. kaupréttarsamningsins.
Forsvarsmaður stefnanda var stjórnarformaður í LS Retail. Tók hann ásamt fleirum þátt í að reyna að selja félagið og liggja fyrir í málinu gögn frá samningaviðræðum við aðila sem sýnt höfðu áhuga á kaupum. Á hluthafafundi LS Retail Holding þann 27. apríl sl. var samþykkt tilboð um kaup á LS Retail fyrir 17.638.600 evrur og í stefnu er kaupandi sagður vera stefndi Anchorage Capital Group eða heimilaður framsalshafi. Forsvarsmaður stefnanda var afar ósáttur við þessa ákvörðun hluthafafundar þar sem hann taldi verðið vera mun lægra en það sem hægt hefði verið að fá fyrir félagið. Í samskiptum hans við stjórnarmenn LS Retail Holding og ALMC og félaga hans í stjórn LS Retail í aðdraganda hluthafafundarins lýsir hann þessari afstöðu sinni og leggur til að aðrir sölumöguleikar verði skoðaðir. Þá setti hann fram tillögu um að ALMC seldi stefnanda hlut sinn í félaginu á sama verði og með sömu skilmálum og tilboð Anchorage Capital Group hljóðaði upp á, eða að ALMC keypti hlut hans og annarra kaupréttarhafa, miðað við að verðmæti félagsins næmi 37,5 milljónum evra, eða sama verði og stefnandi taldi að fást myndi fyrir félagið með sölu þess til annars aðila. Tillögur stefnanda voru felldar á hluthafafundinum og lét ALMC m.a. bóka af því tilefni að söluferli LS Retail hefði verið lengi í gangi án þess að það bæri árangur og að tilboð Anchorage Capital Group væri eina óskilyrta tilboðið sem hefði borist. Stefnandi bókaði hörð mótmæli við ákvörðun hluthafafundar og áskildi sér rétt til að hafa uppi frekari kröfur á hendur félaginu, stjórn þess og/eða hluthöfum í tengslum við söluna til Anchorage Capital Group. Stjórn LS Retail Holding lýsti því yfir á fundinum og lét færa til bókar að hún tæki ekki afstöðu til fyrirliggjandi tillagna um sölu á dótturfélaginu og legði þær fyrir hluthafa til afgreiðslu.
Í hlutaskrá LS Retail ehf., hefur Hoxton (Lux) S.à r.l. nú verið skráður eigandi allra hluta í félaginu og dagsetning eigendaskipta er sögð vera 5. júní 2015. Í stefnu er á því byggt að Hoxton hafi verið heimilaður framsalshafi samkvæmt samningi á milli ALMC og Anchorage Capital Group um kaup þess síðarnefnda á LS Retail.
Framangreind ákvörðun hluthafafundar þann 27. apríl sl. er tilefni þessara málaferla. Stefnandi telur stöðuna vera þá að stefndu ALMC hf., LS Retail Holding ehf. og stjórnarmenn þessara félaga hafi í sameiningu knúið í gegn ólögmæta ákvörðun á hluthafafundinum um sölu á LS Retail og verið grandsamir um brot á hagsmunum stefnanda þegar sú ákvörðun var tekin. Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndu Anchorage Capital Group og Hoxton hafi verið grandsamir um að salan bryti gegn hagsmunum stefnanda. Anchorage Capital Group hafi verið kaupandi félagsins samkvæmt ákvörðun hluthafafundar en Hoxton hafi verið heimilaður framsalshafi.
Eftir að mál þetta var höfðað, eða þann 26. ágúst sl., lýsti lögmaður stefnda LS Retail Holding yfir, fyrir hönd umbjóðenda sinna, riftun á kaupum Aðalsteins Valdimarssonar á 6,9% hlut í félaginu og þeim samningum sem þau kaup byggðu á og var því lýst yfir að kaupverðið yrði endurgreitt og að skráðu eignarhaldi yrði breytt til samræmis við þá ákvörðun. Stefnandi var síðan færður af hluthafaskrá félagsins fyrir næsta hluthafafund þess sem var haldinn þann 28. ágúst sl. Í kjölfar þessarar yfirlýsingar krafðist stefnandi kyrrsetningar á eignum LS Retail Holding til tryggingar kröfum að fjárhæð 5.023.200 evrur og 28.510.835 krónur. Var sú krafa tekin til greina og innistæða á reikningi gerðarþola kyrrsett með ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík þann 7. september sl. Stefnandi hefur höfðað mál til staðfestingar á þeirri kyrrsetningargerð. Stefndu í því máli krefjast frávísunar þess frá dómi og var sú krafa tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 8. febrúar sl. Þá tók sýslumaður einnig til greina kröfu kaupréttarhafa, sem er stefnt til réttargæslu í þessu máli, um kyrrsetningu á eignum stefndu ALMC og LS Retail Holding og hafa gerðarþolar sömuleiðis krafist frávísunar staðfestingarmála sem höfðuð voru í kjölfar þeirra kyrrsetninga.
III.
Svo sem áður greinir krefjast stefndu þess að málinu verði vísað frá dómi og gerðu þeir ítarlega grein fyrir sjónarmiðum að baki þeirri kröfu við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna. Byggja allir stefndu á því að ágreiningur málsins heyri undir gerðardóm og beri því að vísa málinu frá dómi á grundvelli 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. og 2. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma og á hendur öðrum stefndu vegna skorts á lögvörðum hagsmunum, sbr. m.a. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Vísa allir stefndu í þessu sambandi til ákvæða í hluthafasamkomulagi, kaupréttarsamningi og yfirlýsingu stefnanda um skuldbindingargildi þeirra samninga gagnvart sér.
Auk þessa byggja stefndu á því að kröfugerð stefnanda sé óskýr, málatilbúnaður hans vanreifaður og kröfurnar ódómtækar. Eigi þessir annmarkar að leiða til frávísunar málsins í heild.
Aðalkrafan lúti bæði að því að tiltekin ákvörðun hluthafafundar stefnda LS Retail ehf. verði ógilt og að henni verði breytt. Feli það í sér að dómstóllinn taki yfir stjórn félagsins í málefnum sem eru háð frjálsu mati þess og breyti þannig ákvörðun lögaðila þannig að hann samþykki eitthvað. Slík krafa sé ekki dómtæk, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.
Þá feli önnur málsgrein aðalkröfu stefnanda í sér rökleysu, þar sem þess sé krafist að „allir stefndu verði dæmdir til að þola dóm“. Ekki sé hægt krefjast dóms um að stefndu verði gert að þola dóm um dómkröfuna sem fram kemur í fyrri málsgrein aðalkröfunnar.
Um varakröfuna er byggt á að vísa beri henni frá þar sem hún sé studd ófullnægjandi gögnum, beinist m.a. að stjórnum stefnda LS Retail Holding og ALMC, sem eru ekki sjálfstæðir lögaðilar og því ekki með aðildarhæfi, og feli að auki í sér óheimilt kröfusamlag.
Þrautavarakrafa og þrauta-þrautavarakrafa sé óljós og ódómtæk þar sem ekki sé tilgreind fjárhæð innlausnarverðs og því í andstöðu við d-lið 80. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem þær byggi á öðrum grundvelli en aðrar dómkröfur og því ekki hægt að hafa þær uppi í sama málinu sbr. 27. gr. sömu laga.
Þá eigi réttargæslustefndu ekki aðild að málinu. Ekki þurfi að höfða mál sérstaklega gegn hluthöfum, skv. 71. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, dómur myndi binda þá.
Stefndu Anchorage Capital Group og Hoxton byggja jafnframt á því að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins, stefndi Anchorage Capital Group hafi ekki verið kaupandi í umdeildri sölu og hvað sem því líði beri að beina kröfu, samkvæmt 71. gr. laga nr. 138/1994, að stefnda LS Retail Holding og öðrum ekki. Auk þess er byggt á að ósannað sé að stefnandi sé enn hluthafi í því félagi, sem sé forsenda þess að hann geti höfðað mál á grundvelli ákvæðisins, að viðbættu því að umdeild ákvörðun hafi þegar leitt til skuldbindandi löggerninga við þriðju aðila sem standa munu óhaggaðir, hvað sem líður niðurstöðu þessa máls. Þá byggja þessir stefndu á því að aðild málsins, bæði til sóknar og varnar, sé vanreifuð og sömuleiðis málið í heild. Skilyrði til samlagsaðildar í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki fyrir hendi.
IV.
Stefnandi mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum stefndu varðandi frávísunarkröfurnar og krefst þess að þeim verði hafnað. Í málflutningi fyrir dómi um frávísunarkröfur stefndu gerði stefnandi ítarlega grein fyrir málsástæðum og lagarökum fyrir kröfu sinni. Réttargæslustefndu tóku undir málflutning stefnanda og rökstuddu afstöðu sína sömuleiðis.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að ágreiningur málsins eigi undir almenna dómstóla. Ágreiningurinn varði rétt stefnanda sem hluthafa í LS Retail Holding og brot stefndu á 51. og 70. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Forsendur hluthafasamningsins og kaupréttarsamningsins séu brostnar þar sem stefndu ALMC og LS Retail Holding hafi ekki komið heiðarlega fram við sölu á LS Retail, sem hafi verið gerð við aðila tengdan ALMC án þess að gætt hafi verið armlengdarsjónarmiða, kaupverðið hafi verið langt undir markaðsverði og ekki í samræmi við það sem hefði verið ákveðið í viðskiptum ótengdra aðila.
Þá byggir stefnandi á því að ákvæði um gerðardóm uppfylli ekki skilyrði laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, 9. gr. hluthafasamningsins jafngildi ekki gerðardómssamningi auk þess sem ákvæðið feli í sér heimild en ekki skyldu til að fela gerðardómi að leysa úr ágreiningi. Þá muni úrlausn fyrir gerðardómi ekki tryggja réttláta málsmeðferð sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og vísar stefnandi í því sambandi til þess að nauðsyn kunni að bera til þess að beita ákvæðum réttarfarslaga til að stefna aðilum til að bera vitni og/eða leggja fram gögn í málinu, auk þess sem ekki sé unnt að koma fram réttaráhrifum réttargæslustefnu með úrlausn gerðardóms.
Loks byggir stefnandi á því að samningsákvæði um gerðardóm geti ekki átt við nema hvað varðar stefnda ALMC, sem sé aðili að hluthafasamningnum. Ágreiningurinn lúti ekki að efni kaupréttarsamningsins og því séu ákvæði hans máli þessu óviðkomandi og stefndu Anchorage Capital Group og Hoxton séu aðilar að hvorugum samningnum.
Þá hafnar stefnandi öllum öðrum málsástæðum stefndu vegna frávísunarkrafna og byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins gagnvart öllum stefndu, kröfur hans séu skýrar, dómtækar og málatilbúnaður hans að öðru leyti í samræmi við áskilnað réttarfarslaga.
V.
Forsendur og niðurstaða
Svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 hafa dómstólar vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu. Eigi mál samkvæmt þessu ekki undir dómstóla, vísar dómari máli frá dómi.
Frávísunarkrafa stefndu er m.a. byggð á því að stefnandi hafi samið um að ágreiningur þessi eigi ekki undir almenna dómstóla heldur gerðardóm. Vísa allir stefndu í því sambandi til áður nefnds kaupréttarsamnings og hluthafasamkomulags. Hluthafasamkomulagið er gert af hálfu stefnda ALMC hf. og kaupréttarsamningurinn er gerður af hálfu stefnda LS Retail Holding ehf. Ekki er ágreiningur um að stefnandi tókst á hendur skuldbindingar samkvæmt nefndum samningum með yfirlýsingu þar að lútandi, dagsettri 6. desember 2013, þegar Aðalsteinn Valdimarsson framseldi hlut sinn í félaginu til stefnanda.
Gerðardómsákvæðum samninganna er lýst að framan. Þau eru samhljóða og er annars vegar að finna í 9. gr. hluthafasamkomulagins og hins vegar í 11. gr. kaupréttarsamningsins. Að mati dómsins uppfylla þau áskilnað laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma, enda er um skriflegan samning að ræða þar sem fram kemur hverjir séu aðilar að samningunum og úr hvaða réttarágreiningi skuli leyst, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Þá veldur það ekki ógildi ákvæðanna þótt gert sé ráð fyrir að einungis einn gerðardómsmaður sitji í dóminum. Er því hafnað málsástæðum stefnanda sem lúta að því að ákvæði framangreindra samninga jafngildi ekki gerðarsamningi í skilningi laga nr. 53/1989 eða uppfylli ekki kröfur til slíkra samninga samkvæmt sömu lögum.
Þá er að mati dómsins vafalaust að ákvæðin fela í sér skyldu en ekki einungis heimild til að leita úrlausnar gerðardóms um ágreining sem ákvæðin taka til. Í lokamálslið þeirra stendur: „The parties to this agreement irrevocably accept the sole jurisdiction to the arbitration and wave their rights to access to general courts“. Samkvæmt orðanna hljóðan og í samræmi við þýðingu löggilts skjalaþýðanda á dómsskjali 67, sem er nákvæmari en þýðingin sem stefnandi lagði fram, felst í þessu ákvæði óafturkallanleg skuldbinding samningsaðila um að hlíta lögsögu gerðardóms og jafnframt afsal á rétti til að bera ágreining undir almenna dómstóla, enda falli ágreiningurinn undir gerðardómsákvæði samninganna.
Í framangreindum hluthafasamningi eru ýmis ákvæði sem lúta að stjórn félagsins, ákvörðunarvaldi hluthafa, heimildum til sölu hlutabréfa í félaginu og hlutabréfa í dótturfélaginu. Þannig er því lýst í inngangsorðum samningsins að eini tilgangur félagsins sé að sinna eignarhaldi á dótturfélaginu og að félagið skuli leyst upp að lokinni sölu á dótturfélaginu, svo sem fram kemur í 1. mgr. 3. gr. og 7. gr. samningsins. Allt hlutafé félagsins var í eigu ALMC hf. við gerð samningsins, samkvæmt 2. gr. hans skyldu allir stjórnarmenn tilnefndir af ALMC, enda verði hlutur annarra hluthafa undir 10%, og í 3. gr. eru settar hömlur á framsal og veðsetningu hlutabréfa minnihlutaeigenda í félaginu. Samkvæmt 6. gr. samningsins hefur ALMC einhliða ákvörðunarvald um sölu á hlutabréfum í dótturfélaginu „án tillits til skoðana annarra stjórnarmanna“ eins og segir í ákvæðinu og skuli það sama eiga við ef málið er borið undir atkvæði á hluthafafundi. Varðandi aðrar ákvarðanir er í ákvæðinu vísað til þess að þær skuli teknar af stjórn félagsins í samræmi við ákvæði laga nr. 138/1994.
Svo sem að framan greinir snýst kjarni ágreinings þessa máls um sölu á dótturfélagi LS Retail Holding sem samþykkt var á hluthafafundi þann 27. apríl sl. með atkvæðum ALMC en gegn mótmælum stefnanda sem var eigandi 6,9% hlutafjár félagsins. Þau ákvæði hluthafasamningsins sem rakin eru að framan lúta beint að sölu dótturfélagsins og ákvörðunarvalds í þeim efnum, en það er einmitt kjarni þess ágreinings sem mál þetta lýtur að. Er því að mati dómsins vafalaust að sá ágreiningur fellur undir það sem talið er upp í 9. gr. hluthafasamkomulagsins en þar segir að undir gerðardóm heyri að leysa úr „deilu vegna samnings þessa, túlkunar hans, einstakra greina eða annarra mála er varða samskipti aðila samnings þessa varðandi eign þeirra á hlutabréfum eða kauprétti í félaginu“.
Stefnandi byggir á því að málið snúist ekki um framangreind ákvæði hluthafasamkomulagsins heldur um brot stefndu á rétti hans sem minnihluta og því hvort honum séu tæk úrræði sem lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, heimila að gripið sé til undir þeim kringumstæðum, einkum 51. og 70. gr. þeirra laga. Að mati dómsins er ekki fallist á að þessi málsástæða geti verið grundvöllur þess að gerðardómsákvæði hluthafasamkomulagsins verði vikið til hliðar. Í þessu efni verður að hafa hliðsjón af því að um lögskipti aðila gilda ákvæði íslenskra laga, sbr. m.a. upphafsákvæði 9. gr. hluthafasamkomulagsins, þar á meðal ákvæði laga nr. 138/1994. Mat á því hvort samningsaðilar stefndu hafi brotið gegn réttindum hans samkvæmt framangreindum lögum, í tengslum við sölu á dótturfélaginu, getur því komið til úrlausnar gerðardóms með sama hætti og önnur deilumál sem lúta að framangreindri sölu.
Stefnandi byggir á því að ákvæði hluthafasamkomulagsins geti alla vega ekki skuldbundið hann gagnvart öðrum en viðsemjanda hans samkvæmt þeim samningi, þ.e. ALMC hf. Að mati dómsins eru svo náin tengsl á milli hluthafasamkomulagsins og kaupréttarsamnings stefnanda og stefnda LS Retail Holding að líta verði svo á að teljist ágreiningurinn varða mál sem heyrir undir gerðardómsákvæðið í 9. gr. hluthafasamningsins bindi það einnig stefnanda, að því er varðar ágreining við stefnda LS Retail Holding. Vísar dómurinn í þessu efni til þess að í kaupréttarsamningnum er víða að finna ákvæði um réttindi og skyldur aðila eftir að kaupréttarhafi hefur nýtt sér kauprétt, m.a. er í 7. gr. getið um víðtækar heimildir seljanda, þ.e. stefnda LS Retail Holding, til taka ákvarðanir um breytingar á rekstri félagsins og í 6. gr. eru ákvæði um að stefnanda geti, við nánar tilgreindar aðstæður, verið skylt að selja stefnda LS Retail Holding eða Straumi (nú stefnda ALMC) hlutabréf sín á nánar greindu verði. Í 6. gr. segir að slík skylda til sölu geti m.a. stofnast ef stefnandi brjóti gegn hluthafasamkomulaginu en í d-lið 1. mgr. 9. gr. samningsins segir að kaupréttarhafi geti ekki nýtt sér kauprétt nema að gerast aðili að hluthafasamkomulaginu og gangast undir allar skyldur og takmarkanir sem þar eru settar fram. Veður að telja að með framangreindum skyldum og takmörkunum sé m.a. vísað til ákvæða sem lúti að því hvernig ágreiningsefni skuli útkljáð.
Í stefnu er þeirri málsástæðu ekki teflt fram að framangreind gerðardómsákvæði eða önnur ákvæði samninganna séu ógild á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar eða af öðrum ástæðum. Í málflutningi fyrir dómi um frávísunarkröfu stefndu byggði stefnandi hins vegar á því að við umdeilda sölu á LS Retail hafi ekki verið gætt sk. armlengdarsjónarmiða og staðhæfði stefnandi að kaupandi félagsins sé tengdur seljanda, þ.e. ALMC og að sameiginlegir hagsmunir þeirra hefðu staðið til þess að selja félagið undir markaðsverði. Með þeim hætti hafi salan brotið gegn rétti stefnanda sem minnihlutaeiganda í félaginu og hann hafi því með réttu mátt mótmæla sölunni og freista þess, á grundvelli ákvæðis laga nr. 138/1994, að ná fram rétti sínum fyrir almennum dómstólum. Má af málflutningi stefnanda ráða að hann byggi á því að forsendur fyrir úrlausn ágreinings fyrir gerðardómi séu brostnar þar sem forsenda þess að stefndi ALMC gæti eitt farið með ákvörðunarvald um söluna væri sú að salan færi fram til ótengds aðila á verði sem tíðkaðist í viðskiptum slíkra aðila. Jafnframt byggir stefnandi á því að með því að selja á undirverði til tengds aðila hafi brostið forsenda fyrir gagnkvæmu trausti milli aðila, sem hafi bæði verið orðuð og óorðuð forsenda fyrir aðild stefnanda að hluthafasamkomulaginu. Hvað síðastnefnda atriðið varðar vísar stefnandi til ákvæðis í 3. gr. hluthafasamningsins þar sem segir að samvinna aðila sé byggð á gagnkvæmu trausti.
Svo sem áður greinir er ekki byggt á þessari málsástæðu í stefnu og verður ekki annað séð en hún sé hluti af efnislegum ágreiningi aðila um meðferð ákvörðunarvalds ALMC hf. Úrlausn um það hvort stefndi ALMC hafi virt að vettugi réttindi stefnanda sem hann nýtur sem hluthafi í einkahlutafélagi, sbr. lög nr. 138/1994, og hvort stefnandi hafi, og þá að hve miklu leyti, afsalað sér með gildum hætti réttindum samkvæmt þeim lögum, er að mati dómsins efnislegt úrlausnaratriði sem heyrir samkvæmt samningnum sjálfum undir gerðardóm að leysa úr. Hvað sem öðru líður hefur stefnandi ekki, eins og málið snýr við dóminum nú, fært fram fullnægjandi sannanir fyrir því að forsendur séu brostnar fyrir afsali hans á rétti til að leita úrlausnar héraðsdóms um efnislegan ágreining málsins.
Þá byggir stefnandi á því að gerðardómsmeðferð ágreiningsins veiti ekki fullnægjandi réttarvernd né tryggi réttláta málsmeðferð. Á þessa málsástæðu er ekki fallist. Áður hefur verið tekin afstaða til ákvæðis um fjölda gerðardómsmanna en í samningi aðila er kveðið á um að einn gerðardómsmaður sitji í gerðardómi. Það út af fyrir sig er ekki í andstöðu við lög nr. 53/1989, þótt víða í þeim lögum sé gert ráð fyrir að þeir séu fleiri. Hefur slíkt fyrirkomulag ekki verið talið valda ógildi gerðardómssamnings. Þá ber gerðardómi að leggja sömu réttarheimildir til grundvallar úrlausn sinni og gert er í dómi, þ. á m. ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, um vernd minnihluta eftir því sem við á. Úrlausn gerðardómsins er aðfararhæf með sama hætti og dómur sbr. 13. gr. laga nr. 53/1989. Þá er heimild í 12. gr. laganna um að ógilda megi gerðardóm að einhverju eða öllu leyti, m.a. ef málsmeðferð er áfátt í verulegum atriðum. Auk þess kann að vera mögulegt að afla gagna og taka skýrslur fyrir dómi skv. 77. gr. laga nr. 91/1991, að gættum skilyrðum þeirrar greinar, til notkunar fyrir gerðardómi en í athugasemdum við 7. gr. frumvarps til laga nr. 53/1989 er vakin athygli á heimild í 103. gr. A í þágildandi réttarfarslögum, sem hefur að geyma sambærilegt úrræði og nú er að finna í 77. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til þessa er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki leitt líkur að því að réttlát málsmeðferð sé ótrygg fyrir gerðardómi þannig að í bága fari við meginreglu 70. gr. stjórnarskrárinnar, eða að sú leið komi í veg fyrir að hann geti neytt úrræða til að leiða í ljós þau atriði sem hann telur að byggja beri niðurstöðu málsins á.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að vísa beri kröfum sem beinast að stefnda ALMC hf. og LS Retail Holding ehf. frá dómi.
Að þessari niðurstöðu fenginni verður jafnframt að telja að grundvöllur málatilbúnaðar stefnanda gagnvart öðrum stefndu, þ.e. stjórnarmönnum framangreindra félaga persónulega, Anchorage Capital Group og Hoxton (Lux), sé brostinn þar sem dómkröfur á hendur öðrum stefndu eru ýmist nátengdar kröfum á hendur framangreindum félögum, sbr. síðari tvo kröfuliði aðalkröfu, eða hafðar uppi samhliða kröfu á hendur öðrum þeirra, svo sem skaðabótakrafan í varakröfu. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa kröfum á hendur öðrum stefndu einnig frá dómi.
Með hliðsjón af því hve veruleg vafaatriði eru uppi í þessu máli er rétt að málskostnaður falli niður, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður.