Hæstiréttur íslands
Mál nr. 399/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 6. september 2005. |
|
Nr. 399/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Þar sem X hafði setið nærfellt fjóra og hálfan mánuð í gæsluvarðhaldi og L þótti ekki hafa gefið viðhlítandi skýringar á nauðsyn þess að mál X þyrfti að taka svo langan tíma var felldur úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/199.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 30. september 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Mál vegna framlengingar á gæsluvarðhaldi varnaraðila var síðast til meðferðar í Hæstarétti í máli nr. 342/2005, sem dæmt var 3. ágúst 2005. Þá var beðið niðurstöðu sérfróðra manna sem dómkvaddir höfðu verið 6. júlí 2005 til að leggja mat á geðhagi varnaraðila, en hann hafði sjálfur krafist dómkvaðningar þeirra. Í forsendum dómsins var tekið fram að líta yrði til þess heildartíma, sem meðferð máls varnaraðila hefði tekið, þegar lagt væri mat á hvort skilyrði d. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir framlengingu gæsluvarðhalds hans teldist fullnægt. Varnaraðili hafði þá verið í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 23. september 2005. Í dómi Hæstaréttar var ekki talið unnt að fallast á að meðferð á máli varnaraðila þyrfti að taka svo langan tíma og var gæsluvarðhaldinu markaður tími til 5. september 2005.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram, að varnaraðili hafi ekki reynst fús til að gangast undir geðrannsókn hinna dómkvöddu matsmanna. Þeir skiluðu allt að einu matsgerð 2. september 2005 og gáfu þar umsögn um skýrslu Tómasar Zoëga geðlæknis 20. maí 2005 og töldu ekki tilefni til að draga réttmæti niðurstöðu hennar í efa.
Af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna verður ráðið, að þeir hafi ekki reynt að koma á matsfundi með varnaraðila fyrr en 25. ágúst 2005 eða rúmlega 7 vikum eftir að þeir voru dómkvaddir. Í gögnum málsins koma ekki fram neinar skýringar á því, hvers vegna þessi störf hafa tekið svo langan tíma. Nú er enn krafist framlengingar á gæsluvarðhaldi varnaraðila með vísan til sömu lagaheimildar og fyrr. Þrátt fyrir það sem að framan greinir og forsendur Hæstaréttar í dóminum 3. ágúst 2005 féllst Héraðsdómur Reykjavíkur í hinum kærða úrskurði á kröfur sóknaraðila og úrskurðaði varnaraðila til áframhaldandi gæsluvarðhalds til 30. september 2005.
Varnaraðili hefur nú sætt gæsluvarðhaldi í nærfellt fjóra og hálfan mánuð. Sóknaraðili hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á nauðsyn þess að mál varnaraðila þurfi að taka svo langan tíma sem raun ber vitni.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], verði með vísan til d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 30. september 2005 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 28. júní sl. hafi ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur X fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga vegna árásar á A, og fyrir hótanir í hans garð. Þá hafi lögreglustjórinn í Reykjavík gefið út ákæru á hendur honum vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa haft í hótunum við B og fjölskyldu hans. Í ákærum þessum sé þess aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 23. apríl sl. á grundvelli d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála í kjölfar árásar á A fyrir utan heimili hans þann 22. apríl sl. Héraðsdómur og Hæstiréttur hafa fjórum sinnum fallist á að kærði sé hættulegur A og öðrum mönnum. Með úrskurði héraðsdóms þann 23. apríl sl. hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 20. maí sl. og jafnframt var honum gert að sæta geðrannsókn. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með dómi þann 26. apríl sl. Þann 20. maí sl. var gæsluvarðhaldið framlengt til 1. júlí sl., sbr. dóm Hæstaréttar þann 25. maí sl. Þann 1. júlí sl. var gæsluvarðhaldið framlengt til 29. sama mánaðar, sbr. dóm Hæstaréttar þann 4. júlí sl. Enn var gæsluvarðhald ákærða framlengt þann 1. júlí og féllst héraðsdómur á að ákærði skyldi sæta gæslu til 23. þ.m. en Hæstiréttur stytti gæsluvarðhaldstímann til dagsins í dag.
Ákæra ríkissaksóknara á hendur ákærða var þingfest þann 6. júlí sl. og játaði ákærði árásina á A og að hafa haft í hótunum við hann en taldi heimfærslu ákæru til 106. gr. almennra hegningarlaga ekki standast. Ákærði hafnaði niðurstöðu geðrannsóknar sem hann gekkst undir og krafðist þess að dómkvaddir yrðu matsmenn til að leggja mat á geðhagi hans. Dómari varð við þeirri ósk ákærða og kvaddi til tvo geðlækna til að framkvæma matið. Matsgerð Helga Garðars Garðarssonar og Sigurðar Arnar Hektorssonar, geðlækna, var lagt fram við fyrirtöku málsins þann 2. þ.m. Þar kom fram að ákærði hafi ekki reynst vera reiðubúinn að gangast undir nýja geðrannsókn. Geðlæknarnir hafi hins vegar farið yfir gögn málsins og geðrannsókn Tómasar Zoëga, geðlæknis, og sé það niðurstaða þeirra að allt bendi til að ákærði sé haldinn alvarlegri hugvilluröskun og að hann geti verið hættulegur öðrum um ófyrirsjáanlegan tíma. Við fyrirtöku málsins þann 2. þ.m. hafi ákæra þessa embættis verið þingfest og sameinað fyrra málinu. Aðalmeðferð málsins fer fram þann 7. þ.m. og sé krafa um gæsluvarðhald nú miðuð við að unnt verði að ljúka aðalmeðferð málsins og kveða upp dóm í málinu.
Að mati lögreglu beri rannsóknargögn málsins með sér að A og öðrum stafar mikil hætta af ákærða og bera gögn málsins með sér að ákærði hafi færst mjög í aukana dagana áður en hann hafi verið handtekinn þann 22. apríl sl. Í niðurstöðu geðrannsóknar sem Tómas Zoëga, geðlæknir, framkvæmdi á ákærða komi fram að ákærði sé veikur á geði og sé enn hættulegur öðrum. Telji Tómas að brýna nauðsyn beri til að hann fái viðeigandi meðferð og að mikilvægt sé að hann sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Undir þessa niðurstöðu Tómasar taki Helgi Garðar og Sigurður Örn geðlæknar. Verði því að telja nauðsynlegt til verndar öðrum að ákærði sæti gæsluvarðhaldi áfram meðan mál hans er til meðferðar fyrir héraðsdómi.
Krafa um gæsluvarðhald byggist d-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991. Með vísan til framanritaðs og framlagðra gagna er þess krafist að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.
Varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 23. apríl 2005. Hefur Hæstiréttur Íslands staðfest gæsluvarðhald yfir ákærða á grundvelli tilvitnaðar lagagreinar með dómum réttarins frá 26. apríl 2005, 25. maí 2005, 4. júlí 2005 og 3. ágúst 2005. Ákærði hefur nú setið í gæsluvarðhaldi í rúma fjóra mánuði, sem er langur tími. Hér ber þó að líta til þess, að ákærði taldi rétt í fyrirtöku 6. júlí sl. að ný geðrannsókn færi fram í stað þeirrar sem þá var lögð fram og því voru dómkvaddir tveir matsmenn til að leggja mat á geðhagi hans að nýju. Ákærði reyndist þó ekki reiðubúinn að gangast undir nýja geðrannsókn. Matsmenn munu hins vegar hafa yfirfarið gögnin og var sú matsgerð þeirra lögð fram í fyrirtöku málsins 2. þ.m. Þá er aðalmeðferð máls hans fyrirhuguð eftir tvo daga eða 7. þ.m. Í ljósi þessa þykir rétt að verða við kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 30. september 2005 kl. 16:00.