Hæstiréttur íslands
Mál nr. 450/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Aðfarargerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2016, þar sem felld var úr gildi aðfarargerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, nr. 011-2015-06091, sem fram fór 14. september 2015. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfur hans fyrir héraðsdómi teknar til greina. Þá krefst hann þess að að lagt verði fyrir Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að endurupptaka hina kærðu fjárnámsgerð og að hið fjárnumda verði skrásett með „tegundarheitum, framleiðslunúmerum og fjölda.“ Að lokum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var varnaraðila með dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. janúar 2014 gert að greiða sóknaraðila 109.577.514 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. apríl 2011 til greiðsludags og 5.723.131 krónu í málskostnað. Með dómi Hæstaréttar 25. september sama ár í máli nr. 84/2014 var héraðsdómur staðfestur og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 800.000 krónur í málskostnað fyrir réttinum. Að gengnum dómi Hæstaréttar greiddi varnaraðili samtals 96.150.995 krónur inn á kröfuna með innborgunum 21. október 2014 að fjárhæð 23.500.000 krónur, 29. desember sama ár að fjárhæð 23.500.000 krónur, 3. febrúar 2015 að fjárhæð 23.500.000 krónur og 2. mars sama ár að fjárhæð 25.650.995 krónur. Þá greiddi varnaraðili 17. nóvember 2014 staðgreiðslu opinberra gjalda af hinni dæmdu fjárhæð, 50.668.642 krónur, og dró þá fjárhæð frá skuld sinni við varnaraðila. Jafnframt hefur varnaraðili dregið frá kröfu sóknaraðila 4% iðgjald í lífeyrissjóð, 4.383.101 krónu, sem varnaraðili greiddi 15. janúar 2016 til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.
Að beiðni sóknaraðila var 14. september 2015 gert fjárnám fyrir kröfu hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 30.687.873 krónur í innréttingum sex verslana varnaraðila undir merkjum 66°N. Sóknaraðili taldi tilgreiningu hins fjárnumda óljósa og fór með beiðni 14. október 2015 til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu fram á að aðfarargerðin yrði endurupptekin og hið fjárnumda skrásett með „nákvæmari hætti, t.d. með tegundarheitum, framleiðslunúmerum og fjölda.“
II
Sóknaraðili hefur krafist þess að lagt verði fyrir Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að endurupptaka framangreinda aðfarargerð og hið fjárnumda verði skrásett með nánari hætti en gert var þegar hún fór fram. Samkvæmt 4. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1989 er málsaðila heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um synjun sýslumanns um endurupptöku aðfarargerðar, ef krafan kemur fram án ástæðulauss dráttar og áður en krafist er frekari ráðstafana. Svo sem áður greinir beindi sóknaraðili 14. október 2015 beiðni til sýslumanns um að framangreind aðfarargerð yrði endurupptekin. Þar sem synjun sýslumanns á beiðninni lá ekki fyrir brast lagaheimild til að bera kröfu þessa undir dómstóla. Verður henni því vísað frá héraðsdómi.
Ágreiningslaust er að varnaraðila hafi verið rétt að lögum að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af höfuðstól kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila, sbr. 7. tölulið 5. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, svo sem lagaákvæðinu var breytt með 1. gr. laga nr. 159/1998. Á hinn bóginn deila aðilar um hvort lög hafi staðið til þess að varnaraðili héldi eftir og stæði skil á lífeyrissjóðsgjöldum af höfuðstól kröfu sóknaraðila, en í því efni vísar varnaraðili til 3. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þá lýtur ágreiningur aðila að því hvort sóknaraðili eigi rétt á dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð sem greidd var til ríkissjóðs vegna staðgreiðslu opinberra gjalda.
Með áðurnefndum dómi Hæstaréttar 25. september 2014 var varnaraðila gert án fyrirvara að greiða sóknaraðila tiltekna skuld með dráttarvöxtum, auk tilgreinds málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Óumdeilt er að varnaraðila hafi verið heimilt að draga frá kröfu sóknaraðila staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 50.668.642 krónur, en sem fyrr segir innti varnaraðili þá greiðslu af hendi í ríkissjóð 17. nóvember 2014. Af þeim sökum átti sóknaraðili engan rétt á að fá þá greiðslu í hendur eða vexti af henni. Verður sú fjárhæð því dregin frá höfuðstól kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili stóð ekki skil á lífeyrissjóðsgjöldum fyrr en að gengnum fyrrnefndum hæstaréttardómi. Gat varnaraðili ekki losnað undan skyldu samkvæmt dómsorðinu með greiðslu þeirra gjalda til annars en sóknaraðila, nema til kæmi samþykki hans, aðilaskipti að kröfunni eða viðtökudráttur, sbr. dóm Hæstaréttar 10. nóvember 1997 í máli nr. 442/1997, sem er í dómasafni réttarins það ár á bls. 3217, en ekki er um slík atvik að ræða í málinu. Þá standa ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997 ekki til þess að varnaraðila hafi, að gengnum dómi um greiðsluskyldu, verið það heimilt. Stóð varnaraðili því sóknaraðila ekki með lögmætum hætti skil á þeirri greiðslu samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar. Samkvæmt þessu verður framangreind aðfarargerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði, en rétt er að málskostnaður í héraði falli niður.
Dómsorð:
Kröfu sóknaraðila, Halldórs Gunnars Eyjólfssonar, um að lagt verði fyrir Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að endurupptaka aðfarargerð sýslumanns, nr. 011-2015-06091, sem fram fór 14. september 2015, er vísað frá héraðsdómi.
Framangreind aðfarargerð er staðfest með þeirri breytingu að fjárnám er heimilað fyrir höfuðstól kröfu sóknaraðila að fjárhæð 58.908.872 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. apríl 2011 til greiðsludags að frádregnum innborgunum 21. október 2014 að fjárhæð 23.500.000 krónur, 29. desember sama ár að fjárhæð 23.500.000 krónur, 3. febrúar 2015 að fjárhæð 23.500.000 krónur og 2. mars sama ár að fjárhæð 25.650.995 krónur.
Varnaraðili, Sjóklæðagerðin hf., greiði sóknaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2016.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. apríl síðastliðinn, barst til dómsins 6. nóvember 2015 með bréfi sóknaraðila dagsettu 5. nóvember sama ár.
Sóknaraðili er Sjóklæðagerðin hf., Miðbraut 11, Garðabæ.
Varnaraðili er Halldór Gunnar Eyjólfsson, Boðagranda 18, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu númer 011-2015-6091, sem fram fór á skrifstofu hans í Kópavogi hinn 14. september 2015 að kröfu varnaraðila, verði ógilt. Sóknaraðili krefst þess til vara að málsskot til Hæstaréttar fresti frekari fullnustugerðum, verði fyrrnefnd fjárnámsgerð staðfest. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefst varnaraðili þess að lagt verði fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að endurupptaka hina kærðu fjárnámsgerð og að hið fjárnumda, það er innréttingar í verslunum sóknaraðila undir merkjum 66°N í Kringlunni, Smáralind, Skipagötu á Akureyri, Bankastræti í Reykjavík, Faxafeni í Reykjavík og Miðhrauni 11 í Garðabæ, verði skrásett með tegundarheitum, framleiðslunúmerum og fjölda. Varnaraðili krefst málskostnaðar.
Mál þetta var þingfest 1. desember 2015. Sóknaraðili skilaði greinargerð 15. desember sama ár. Varnaraðili óskaði eftir fresti til að skila greinargerð í málinu. Þegar málið var tekið fyrir 12. janúar 2016 lagði varnaraðili fram greinargerð sína. Að ósk sóknaraðila var málinu frestað. Gagnaöflun í málinu var lýst lokið í þinghaldi 1. mars 2016 og málinu frestað til munnlegs málflutnings sem fór fram 8. apríl síðastliðinn.
I
Sóknaraðili var með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 10. janúar 2014, dæmdur til að greiða varnaraðila 109.577.514 krónur með dráttarvöxtum frá 20. apríl 2011 til greiðsludags og 5.723.131 krónu í málskostnað. Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm héraðsdóms 25. september 2014, mál réttarins númer 84/2014, og var sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Deildu aðilar um það hvort kaup- og söluréttur varnaraðila í tilteknum hlutum í sóknaraðila hafi verið fallinn niður þegar hann var nýttur árið 2011. Í kjölfar dóms Hæstaréttar greiddi sóknaraðili fjórum sinnum inn á skuld sína við varnaraðila, samtals 96.150.995 krónur. Að auki greiddi sóknaraðili þann 17. nóvember 2014 til ríkissjóðs staðgreiðslu af dæmdri fjárhæð, samtals 50.668.642 krónur, og dró þá fjárhæð frá skuld sinni við varnaraðila. Varnaraðili kveðst ekki hafa andmælt því að sóknaraðili hafi greitt staðgreiðslu opinberra gjalda af kröfunni.
Í bréfi Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda til sóknaraðila 20. október 2014 kemur fram að sóknaraðili hafi ekki greitt lífeyrisiðgjöld í samræmi við skattskyldar tekjur varnaraðila árið 2014, en 4% framlag launþega nemi 4.383.101 krónu.
Með beiðni 14. október 2015 óskaði varnaraðili eftir því við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að fjárnámsgerðin yrði endurupptekin og hið fjárnumda, það er innréttingar í tilgreindum verslunum sóknaraðila, yrði skrásett með nánari hætti, það er með tegundarheitum, framleiðslunúmerum og fjölda.
II
Krafa varnaraðila samkvæmt fyrrgreindum dómsmálum var mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kauprétturinn var nýttur. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt teljist slíkar tekjur launatekjur, sbr. 1. tölulið A-liðar 7. gr. laganna. Beri samkvæmt því að greiða af fjárhæðinni tekjuskatt og iðgjöld í lífeyrissjóð. Kröfur samkvæmt framangreindu stofnist um leið og krafa launagreiðanda um greiðslu launa og falli í gjalddaga 10. hvers mánaðar, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997.
Sóknaraðila sé að lögum skylt að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og lífeyrisjóðsiðgjöldum, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 45/1987 og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997. Því sé sóknaraðila óheimilt að greiða varnaraðila þann hluta launakröfunnar sem sóknaraðila beri að halda eftir og skila samkvæmt framangreindu.
Krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila nemi því aldrei hærri fjárhæð en 54.525.771 krónu, það er launakrafa að frádreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og iðgjöldum í lífeyrisssjóð. Samkvæmt því sundurliðist krafan þannig:
Heildarlaun 109.577.514 krónur
Staðgreiðsla opinberra gjalda (46,24%) - 50.668.642 krónur
Iðgjöld í lífeyrissjóð (4%) - 4.383.101 króna
Samtals 54.525.771 króna
Sóknaraðili kveðst byggja á því að varnaraðili geti ekki gert kröfu um dráttarvexti af allri kröfunni, heldur aðeins þeim hluta hennar sem varnaraðili átti sjálfur tilkall til að fá greiddan, það er að frádreginni greiðslu opinberra gjalda og iðgjalda í lífeyrissjóð. Dráttarvextir séu skilgreindir sem bætur fyrir vaxtatap, það er bætur fyrir tjón sem kröfuhafi verði fyrir vegna þess að hann geti ekki látið peninga bera vexti eins og honum væri unnt hefði hann fengið þá greidda á réttum tíma. Með greiðslu dráttarvaxta sé því leitast við að gera kröfuhafa eins settan og ef hann hefði fengið kröfuna greidda á réttum tíma.
Samkvæmt framansögðu hefði varnaraðili getað látið 54.525.771 krónu bera vexti en hann hefur þegar fengið greidda dráttarvexti vegna þeirrar fjárhæðar. Þar af leiðandi hafi honum verið bætt það vaxtatap sem hann hafi orðið fyrir vegna greiðsludráttar sóknaraðila. Ljóst sé að varnaraðili hefði aldrei getað ávaxtað þann hluta launakröfunnar sem greidd var í ríkissjóð, enda hefði hann aldrei fengið þá fjárhæð í hendur. Hann hafi því ekki orðið fyrir vaxtatapi vegna þess hluta kröfunnar.
Verði sóknaraðili á hinn bóginn látinn greiða varnaraðila dráttarvexti af allri fjárhæðinni, en ekki einungis þeim hluta hennar sem hann raunverulega fékk greiddan, leiddi það óhjákvæmilega til þess að varnaraðili auðgaðist um þá fjárhæð sem því næmi á kostnað sóknaraðila. Að mati sóknaraðila fái það ekki staðist að varnaraðili auðgist á sinn kostnað um fjárhæð sem nemi dráttarvöxtum á þann hluta kröfu varnaraðila sem renni eða hefði alltaf runnið í ríkissjóð og hann því aldrei fengið greiddan. Þessir dráttarvextir nemi ríflega 30.000.000 króna. Að mati sóknaraðila væri slík auðgun varnaraðila á kostnað sóknaraðila með öllu óréttmæt.
Skattyfirvöld kunni að krefja sóknaraðila um greiðslu dráttarvaxta af skattfjárhæðinni frá 20. apríl 2011 samkvæmt 4. mgr. 115. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Verði sóknaraðila gert að greiða varnaraðila dráttarvexti af þeim hluta kröfunnar sem tilheyri ríkissjóði kunni að koma upp sú staða að sóknaraðili tvígreiði dráttarvexti af kröfunni. Sé slík niðurstaða í andstöðu við dómsorð Hæstaréttar í málinu númer 84/2014. Með vísan til framangreinds byggi sóknaraðili á því að krafa varnaraðila sé að fullu greidd og því beri að ógilda aðfarargerðina. Eftirstöðvar kröfu varnaraðila miðað við 20. mars 2015, þann dag sem varnaraðili hafi krafist aðfarar, hafi verið eftirfarandi:
Launakrafa (gjalddagi 20. apríl 2014) 54.525.771 króna
Málskostnaður í héraði 5.723.131 króna
Málskostnaður í Hæstarétti 800.000 krónur
Dráttarvextir til 20. mars 2015 30.888.433 krónur
Innborgun 21. október 2014 - 23.500.000 krónur
Innborgun 29. desember 2014 - 23.500.000 krónur
Innborgun 3. febrúar 2015 - 23.500.000 krónur
Innborgun 2. mars 2015 - 25.650.995 krónur
Samtals - 4.213.660 krónur
Sóknaraðili hafi samkvæmt þessu ofgreitt varnaraðila 4.213.660 krónur og eigi varnaraðili því ekki peningakröfu á hendur sóknaraðila. Skorti því meginskilyrði þess að gera megi fjárnám í eignum sóknaraðila. Af þeirri ástæðu beri að ógilda aðfarargerðina.
Hvað lagarök varðar vísar sóknaraðili til laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 15. kafla, laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, laga 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, svo og almennra reglna kröfuréttar. Þá byggir sóknaraðili málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1989.
III
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Byggir varnaraðili á því að fjárnámskrafa hans sé samkvæmt dómi Hæstaréttar og eigi varnaraðili því sannanlega lögvarinn rétt til þess að gert sé fjárnám fyrir dómkröfunni hjá sóknaraðila, sbr. 1. tölulið 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Dómara sem fái til umfjöllunar ágreining aðila á grundvelli 15. kafla laga nr. 90/1989 sé að lögum óheimilt að úrskurða efnislega um fjárkröfu gerðarbeiðanda (varnaraðila) í andstöðu við fyrri og endanlega úrlausn dómstóls þar um. Krafa sóknaraðila fyrir dómi verði hins vegar ekki skilin öðru vísi en svo að slíkrar úrlausnar sé krafist og þá í trássi við réttarfarslöggjöf svo sem fyrr greini. Verði því þegar af þessari ástæðu að hafna kröfugerð sóknaraðila. Megi hér vísa til 2. mgr. 88. gr., sbr. 2. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 og meginreglna einkamálaréttarfars um „res judicata“, sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Öllum sjónarmiðum sóknaraðila sem lúta að kröfu varnaraðila um dráttarvexti, umfjöllun hans um eðli vaxta og dráttarvaxta, ávöxtun fjár, vaxtatap og meinta auðgun varnaraðila sé mótmælt sem röngum og þýðingarlausum við úrlausn málsins. Hugleiðingar sóknaraðila um að skattayfirvöld kunni að krefja hann um dráttarvexti af sköttum varnaraðila séu málinu óviðkomandi. Þá sé útreikningi sóknaraðila og tölulegri umfjöllun hans í greinargerð sérstaklega mótmælt sem þýðingarlausum og röngum. Varnaraðili bendir á það að sóknaraðili dragi frá kröfu hans 4% iðgjald í lífeyrissjóð, 4.383.101 krónu án þess að fyrir slíkum frádrætti sé nokkur heimild að lögum og án þess að leggja fram skjallegar sannanir fyrir því að hann hafi í raun greitt iðgjöldin. Varnaraðili leggi fram yfirlit frá tveimur lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóði verkfræðinga og Almenna lífeyrissjóðnum, sem varnaraðili eigi aðild að. Yfirlitin sýni greiðslur til sjóðanna frá ársbyrjun 2014 til og með nóvember 2015 og megi sjá að sóknaraðili hafi að minnsta kosti ekki greitt umrædd iðgjöld til þessara sjóða.
Í greinargerð sóknaraðila sé gerð sú dómkrafa til vara að málskot til Hæstaréttar fresti frekari fullnustuaðgerðum verði fjárnámsgerðin staðfest. Kröfu þessa sé ekki að finna í beiðni sóknaraðila, en samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 93. gr. laga nr. 90/1989 skal í tilkynningu til héraðsdóms koma fram hvers krafist sé fyrir dómi. Sé sóknaraðila að lögum óheimilt að auka við kröfur sínar í greinargerð, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989. Sé kröfunni því mótmælt þar sem hún sé of seint fram komin og leiði það raunar eftir atvikum til frávísun hennar frá héraðsdómi.
Auk þess krefst varnaraðili þess að lagt verði fyrir sýslumann að endurupptaka aðfarargerðina og að hið fjárnumda verði skrásett með nánari hætti, það er með tegundarheitum, framleiðslunúmerum og fjölda. Telja verði að skráning hins fjárnumda, eins og hún hafi verið gerð í fyrirliggjandi aðfaragerð, sé ófullnægjandi með tilliti til þess með hvaða hætti unnt verði að fullnusta kröfuna með nauðungarsölu á hinum fjárnumdu munum. Varnaraðili kveðst vísa til heimildar í 3. tölulið 66. gr. laga nr. 90/1989 til stuðnings kröfunni.
Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til laga nr. 90/1989 um aðför, einkum til 1. gr., 3. töluliðar 66. gr., 2. mgr. 83. gr., 2. mgr. 88. gr. og 94. gr. Þá vísar varnaraðili til almennra reglna um meðferð einkamála eftir því sem við á. Þá er vísað til 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafan styðst við 21. kafla laga nr. 91/1991. Við ákvörðun málskostnaðar ber að taka tilliti til þess að varnaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur aðili. sbr. lög nr. 50/1988.
IV
Í máli þessu er deilt um gildi aðfarargerðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu númer 011-2015-6091, sem fram fór á skrifstofu hans í Kópavogi 14. september 2015. Samkvæmt gerðinni voru teknar að fjárnámi innréttingar í sjö nánar tilgreindum verslunum sóknaraðila sem reknar eru undir heitinu 66°N vegna kröfu að fjárhæð 30.687.873 krónur. Aðfararheimild fyrir gerðinni er dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 84/2014 frá 25. september 2014: Sjóklæðagerðin hf. gegn Halldóri Gunnari Eyjólfssyni. Samkvæmt dómnum var sóknaraðila máls þessa, Sjóklæðagerðinni hf., gert að greiða varnaraðila, Halldóri Gunnari Eyjólfssyni, 109.577.514 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. apríl 2011 til greiðsludags, auk 5.723.131 krónu í málskostnað fyrir héraðsdómi og 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Krafan var til komin vegna samnings um kaup- og sölurétt sem talinn var hluti af launakjörum varnaraðila í starfi hans fyrir sóknaraðila.
Eftir að dómur Hæstaréttar var kveðinn upp greiddi sóknaraðili fjórar greiðslur inn á kröfuna: Innborgun 21. október 2014 að fjárhæð 23.500.000 krónur, innborgun 29. desember 2014 að fjárhæð 23.500.000 krónur, innborgun 3. febrúar 2015 að fjárhæð 23.500.000 krónur og innborgun 2. mars 2015 að fjárhæð 25.650.995 krónur, eða samtals 96.150.995 krónur. Að auki greiddi sóknaraðili þann 17. nóvember 2014 til ríkissjóðs 50.668.642 krónur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda af kröfunni og dró þá fjárhæð frá skuld sinni við varnaraðila. Alls greiddi sóknaraðili því 146.819.637 krónur til varnaraðila og ríkissjóðs vegna kröfunnar. Við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni 14. september 2014 mótmælti sóknaraðili (gerðarþoli) gerðinni með þeim rökum að hann hefði þegar greitt kröfuna. Heldur sóknaraðili því fram að hann hafi ofgreitt varnaraðila 4.213.660 krónur og því eigi varnaraðili ekki fjárkröfu á hendur sóknaraðila.
Þó að dómur hafi gengið um skyldu gerðarþola getur sú skylda verið fallin niður að hluta til eða að öllu leiti þegar fullnustu með aðfarargerð er leitað. Á þetta meðal annars við um atvik sem gerast eftir að dómur gengur svo sem þegar gerðarþolinn hefur efnt skyldu sína samkvæmt dóminum. Þegar dómur varðar greiðslu peningakröfu geta komið til skoðunar í aðfararmáli sem þessu hvers kyns atvik sem leiða til brottfalls kröfuréttinda. Þó aðfarargerð sé felld úr gildi á þessum grunni er dómsúrlausn ekki hnekkt heldur hefur gerðarþoli ýmist fullnægt skyldum sínum samkvæmt dóminum eða slík óvissa er uppi um réttindi gerðarbeiðanda að ekki þykir unnt að fullnægja þeim með aðfarargerð.
Í máli því sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila er launakrafa og fer því um greiðslu opinberra gjalda af henni samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna ber launagreiðanda að halda eftir staðgreiðsluskatti af launagreiðslu og greiða hana til ríkissjóðs. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skal afdráttur opinberra gjalda af launum fara fram þegar laun eru greidd eða færð launamanni til tekna. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987 skal launagreiðandi ótilkvaddur greiða þá fjárhæð er hann hefur haldið eftir af launum á viðkomandi greiðslutímabili. Þá ber launagreiðanda einnig samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt iðgjaldshluta sínum.
Það er mat dómsins að varnaraðili hafi að lögum hvorki sjálfur átt tilkall til þess fjár sem nam iðgjaldshluta hans af launakröfunni að fjárhæð 4.383.101 króna né staðgreiðslu opinberra gjalda af kröfunni að fjárhæð 50.668.642 krónur en sóknaraðili hefur réttilega greitt þessar fjárhæðir, sem eru óumdeildar, í lífeyrissjóð og í ríkissjóð. Sama gildir um þær aukakröfur sem fylgja kunna aðalkröfunni, svo sem dráttarvaxtakröfu. Á þeim forsendum sem hér hefur verið rakið telur dómurinn að varnaraðili eigi ekki rétt til greiðslu dráttarvaxta af þeim hluta dómkröfunnar sem sóknaraðila bar að greiða í ríkissjóð samkvæmt framangreindu. Af því leiðir að sóknaraðili hefur þegar fullnægt skyldu sinni gagnvart varnaraðila samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. september 2014 í málinu númer 84/2014. Er því fallist á kröfu sóknaraðila um að ógilt verði aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu númer 011-2015-6091, sem fram fór á skrifstofu hans í Kópavogi 14. september 2015.
Ekki kemur til álita sú krafa varnaraðila í málinu að lagt verði fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að endurupptaka hina kærðu fjárnámsgerð, en varnaraðili beindi slíkri kröfu til sýslumanns með bréfi 14. október 2015.
Í samræmi við framangreinda niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Fyrir uppkvaðningu hans var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Felld er úr gildi aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu númer 011-2015-6091 frá 14. september 2015.
Varnaraðili, Halldór Gunnar Eyjólfsson, greiði sóknaraðila, Sjóklæðagerðinni hf., 400.000 krónur í málskostnað.