Hæstiréttur íslands
Mál nr. 124/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Res Judicata
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 3. maí 2001. |
|
Nr. 124/2001. |
Ólafur Þorláksson (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) |
Kærumál. Res Judicata. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Ó krafðist þess að viðurkennt yrði að lífeyrisgreiðslur til hans ættu að miðast við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa og deildarstjóra hjá sýslumanninum í Reykjavík. Kröfur Ó þóttu vera sama efnis og kröfur hans í máli er hann hafði áður höfðað á hendur L, en í meginatriðum skildi þar eingöngu á milli að greiðslukröfur Ó tóku í síðara málinu ekki að öllu leyti til sama tímabils og áður. Höfðu lyktir fyrra málsins orðið þær að Hæstiréttur sýknaði L af kröfum Ó. Héraðsdómur vísaði síðara máli Ó á hendur L frá dómi og kærði Ó þann úrskurð til Hæstaréttar, sem komst að þeirri niðurstöðu að Ó hefði verið í lófa lagið að halda málsástæðum sínum í síðara málinu fram frá fyrstu stigum fyrra málsins og fá þar efnislega leyst úr kröfum sínum á grundvelli þeirra. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest með vísan til þeirrar meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. mars 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Samkvæmt gögnum málsins byrjaði sóknaraðili að taka lífeyri hjá varnaraðila 1. desember 1989. Sóknaraðili vann sér lífeyrisrétt hjá varnaraðila með greiðslu iðgjalda meðan hann gegndi störfum hjá ríkinu, fyrst sem fulltrúi sakadómarans og síðan yfirsakadómarans í Reykjavík á tímabilinu frá 26. september 1957 til 31. júlí 1964, því næst sem sakadómari í Reykjavík frá 1. ágúst 1964 til 31. október 1972 og loks sem löglærður fulltrúi við skattstofu Suðurlands frá 18. september 1978 til 31. október 1980. Fyrst í stað fékk sóknaraðili greiddan örorkulífeyri, en síðan ellilífeyri, sem hann mun nú hafa fengið samfellt frá 1994. Allt til 1. júlí 1998 tók lífeyrir sóknaraðila mið af launum löglærðs fulltrúa, en frá þeim degi hefur hann miðast við laun deildarstjóra við embætti sýslumannsins í Reykjavík, svo sem nánar verður vikið að síðar.
Sóknaraðili höfðaði mál gegn varnaraðila 7. desember 1995, þar sem hann krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að frá 1. desember 1989 bæri að miða lífeyri hans við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa, svo og að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér 1.413.092 krónur. Mun sú fjárhæð hafa numið því, sem lífeyrir sóknaraðila hefði orðið hærri ef hann hefði miðast við laun héraðsdómara frá 1. desember 1989 til 31. október 1995. Þessar dómkröfur reisti sóknaraðili í meginatriðum á þeim málsástæðum að hann ætti að teljast hafa gegnt hærra launuðu starfi hjá ríkinu en hann síðast gegndi í þau tíu ár, sem um ræddi í 7. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 6. gr. laga nr. 98/1980, þegar bætt væri við starfstíma hans sem sakadómari í Reykjavík þeim störfum hans sem setudómari og umboðsdómari, sem hann hafði á hendi áður en hann var skipaður í það embætti. Jafnframt að óheimilt væri að svipta hann lífeyrisrétti, sem hann hefði aflað sér sem sakadómari, vegna þess eins að hann hefði á síðari stigum tekið að sér lægra launað starf hjá ríkinu, en með því væri tekinn af honum eignarréttur og brotið gegn jafnræði, sem honum væri tryggt með stjórnarskránni, mannréttindasáttmála Evrópu og að nokkru leyti samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 1997 var varnaraðili sýknaður af þessum kröfum sóknaraðila. Í dómi Hæstaréttar 2. apríl 1998, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1426, var sú niðurstaða staðfest. Í dóminum var eftirfarandi tekið fram: „Eins og mál þetta liggur fyrir, þykja ekki skilyrði, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að fjalla um það atriði, sem hreyft var af hálfu áfrýjanda við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, að starfstími hans sem dómarafulltrúi eigi einnig að koma hér til álita, en um þetta var ekki fjallað í héraði.“
Í bréfi sóknaraðila til varnaraðila 7. október 1998 var vísað til þess að í áðurnefndu dómsmáli hafi sóknaraðili meðal annars borið því við fyrir Hæstarétti að í upphafi starfsferils hans hafi aðeins verið einn sakadómari í Reykjavík, en nánast öll dómarastörf við embætti hans hafi verið unnin af dómarafulltrúum, sem hafi verið sjö talsins. Hann hafi því unnið öll dómarastörf meðan hann var dómarafulltrúi á árabilinu 1957 til 1964. Til þessa hefði Hæstiréttur tekið afstöðu með þeim orðum, sem vitnað er til hér að framan. Allt fram til dóms Hæstaréttar 18. maí 1995, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1444, hafi dómarafulltrúar starfað í raun á sama hátt og embættisdómarar. Með dóminum hafi hins vegar orðið breyting þar á. Lífeyrir sóknaraðila tæki mið af launum aðstoðarmanna við héraðsdómstóla, sem hefðu ekki á hendi störf sambærileg við þau, sem hann hefði fengist við. Væri þess því krafist að lífeyrir hans yrði endurskoðaður og látinn taka mið af launum héraðsdómara. Þessu erindi svaraði varnaraðili með bréfi 25. júní 1999, þar sem síðastgreindum þætti í kröfu sóknaraðila var hafnað. Vísað var á hinn bóginn til þess að lífeyrisgreiðslur hans hefðu miðast við laun dómarafulltrúa, en stöður þeirra hefðu verið lagðar niður með lögum nr. 15/1998 um dómstóla frá 1. júlí á því ári að telja. Væri því nauðsynlegt að finna nýjan grunn til að reikna lífeyri sóknaraðila eftir. Í tilvikum sem þessum fylgdi varnaraðili þeirri reglu að fundið væri starf, sem væri sambærilegt að eðli, umfangi og launum því starfi, sem lífeyrisþegi hefði gegnt. Hefði varnaraðili þessu til samræmis samþykkt að frá 1. júlí 1998 yrði lífeyrir sóknaraðila látinn taka mið af launum deildarstjóra við embætti sýslumannsins í Reykjavík.
Sóknaraðili felldi sig ekki við framangreinda ákvörðun varnaraðila og höfðaði mál þetta 18. september 2000. Hann krefst þess að viðurkennt verði að lífeyrisgreiðslur honum til handa eigi að miðast við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa og deildarstjóra hjá sýslumanninum í Reykjavík, aðallega frá 1. desember 1989 en til vara frá 19. maí 1995. Þá krefst hann einnig greiðslu mismunar á áföllnum lífeyri til 31. október 1999, sem af þessu leiði, en í aðalkröfu nemur fjárhæð hans 3.466.559 krónum og í varakröfu 1.666.291 krónu. Í héraðsdómsstefnu var málsástæðum fyrir þessum kröfum sóknaraðila í meginatriðum lýst á eftirfarandi hátt: „Stefnandi telur að við ákvörðun launa til viðmiðunar við ákvörðun lífeyris hans beri að taka mið af þeim störfum, sem sambærilegust eru nú þeim störfum, sem stefnandi vann sem ríkisstarfsmaður og embættismaður. Hann hafi unnið að öllu leyti sem dómari við stjórn rannsókna opinberra mála og uppkvaðningu dóma alla þá tíð er hann starfaði hjá sakadómi Reykjavíkur allt frá 1957 til 1972, einnig á tímabilinu 1957 til 1964 er starfsheiti hans var dómarafulltrúi. Vorið 1961 var gerð sú breyting á lögum að við sakadóm Reykjavíkur var stofnað til nokkurra staða sakadómara og fengu elstu fulltrúarnir hjá sakadómi Reykjavíkur stöðurnar. Yfirmaðurinn fékk starfsheitið yfirsakadómari. Ástæður þessara breytinga voru deilur um kaup og kjör fulltrúanna og var ágreiningur að hluta leystur með þessum hætti og elstu fulltrúarnir hækkuðu í launum. Stefnandi varð sakadómari þremur árum síðar. Skipan þessi breytti ekki eðli starfs stefnanda. Hann vann eftir sem áður við stjórn rannsókna á opinberum málum fyrir dómi og samningu dóma, en á tímabili eftir 1961 undirritaði þó yfirsakadómari dóma fulltrúanna, sem ekki hafði tíðkast fyrr. Stefnandi var á þessu tímabili oft skipaður setudómari. Hann kvað upp úrskurði sem fyrr svo sem um gæsluvarðhald og húsleitir. Hvorki stefnandi né aðrir fulltrúar á þessu tímabili komu að umboðsstörfum dómsins né stjórnun skrifstofu eða rannsóknarlögreglu. Voru þessi störf á borði yfirsakadómara.“ Tekið var fram í stefnunni að aðalkrafa sóknaraðila sé reist á því að hann eigi rétt á að lífeyrir hans miðist við laun héraðsdómara allt frá þeim tíma, sem hann byrjaði að taka lífeyri, en í varakröfu sé byggt á því hann eigi þennan rétt frá því að stöður dómarafulltrúa hafi í reynd verið lagðar niður með áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 18. maí 1995, enda hafi héraðsdómarar upp frá því unnið þau störf, sem fulltrúar höfðu á hendi fram til þess.
Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu varnaraðila um frávísun málsins, en hún var studd þeim rökum að krafa sóknaraðila hafi þegar verið dæmd að efni til, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
II.
Í áðurnefndu máli, sem sóknaraðili höfðaði gegn varnaraðila 7. desember 1995, krafðist sóknaraðili þess að viðurkennt yrði með dómi að frá 1. desember 1989 bæri að miða lífeyri hans við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa, svo og að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér 1.413.092 krónur eða sem svaraði vangreiddum lífeyri þessu til samræmis frá 1. desember 1989 til 31. október 1995. Í málinu, sem nú er til úrlausnar, krefst sóknaraðili sem fyrr segir þess að viðurkennt verði að lífeyrisgreiðslur til hans eigi að miðast við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa og deildarstjóra hjá sýslumanninum í Reykjavík, aðallega frá 1. desember 1989 en til vara frá 19. maí 1995, svo og að varnaraðili verði dæmdur til að greiða af þessum sökum aðallega 3.466.559 krónur en til vara 1.666.291 krónu. Kröfur sóknaraðila í þessu máli eru þannig í raun sama efnis og kröfur hans í fyrra málinu, en í meginatriðum skilur þar eingöngu á milli að greiðslukröfur hans nú taka ekki að öllu leyti til sama tímabils og áður.
Til stuðnings þessum kröfum í fyrra máli aðilanna tefldi sóknaraðili meðal annars fram nýrri málsástæðu við meðferð þess fyrir Hæstarétti. Af áður tilvitnuðum orðum í dómi Hæstaréttar 2. apríl 1998, sem lutu að þeirri málsástæðu, og fyrrgreindri reifun á henni, sem fram kom í bréfi sóknaraðila til varnaraðila 7. október 1998, verður ekki annað séð en að efnislega hafi hún verið á sama veg og sú málsástæða, sem sóknaraðili heldur nú fram og áður var rakin með tilvísun í héraðsdómsstefnu. Sóknaraðili bar þannig þessa málsástæðu fyrir sig í fyrra málinu, en þar kom hún of seint fram af hans hendi. Þegar sóknaraðili höfðaði fyrra mál sitt gegn varnaraðila 7. desember 1995 hafði gengið í Hæstarétti sá dómur, sem sóknaraðili telur nú að valdi því að ófært hafi verið frá 18. maí sama árs að miða lífeyri hans við laun dómarafulltrúa. Fyrra mál sóknaraðila var höfðað gagngert til að fá því hnekkt að varnaraðili mætti miða lífeyri hans við laun dómarafulltrúa og slegið þess í stað föstu að þar skyldi tekið mið af launum héraðsdómara. Var honum því í lófa lagið að halda fram frá fyrstu stigum þess máls báðum málsástæðunum, sem hér um ræðir, og fá þar efnislega leyst úr kröfum sínum á grundvelli þeirra.
Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ekki ráðið að hann reisi málsókn sína nú sérstaklega á þeirri málsástæðu að við afnám stöðu dómarafulltrúa 1. júlí 1998 hafi varnaraðila borið að ákveða á annan hátt en hann gerði 25. júní 1999 nýja viðmiðun lífeyrisgreiðslna samkvæmt lokaorðum 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 7. mgr. 12. gr. áðurgildandi laga nr. 29/1963, eins og þeim var breytt með 6. gr. laga nr. 98/1980, en fyrir slíkri málsástæðu var ekkert tilefni í fyrra máli hans gegn varnaraðila.
Að gættu öllu framangreindu og með vísan til þeirrar meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar að öðru leyti en um málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2001.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar mánudaginn 12. marz sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólafi Þorlákssyni lögfræðingi, kt. 070929-7919, Veghúsum 31, Reykjavík, með stefnu birtri 18. september 2000, á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, kt. 430269-6669, Laugavegi 114, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi, að frá l. desember 1989 skuli lífeyrisgreiðslur til stefnanda úr hendi stefnda miðaðar við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa og deildarstjóra hjá sýslumanninum í Reykjavík, og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda í vangoldinn lífeyri fyrir tímabilið l. desember 1989 til 31. október 1999, kr. 3.466.559, auk dráttarvaxta frá 1. október 1996 til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þær kröfur, að viðurkennt verði með dómi, að frá 19. maí 1995 skuli lífeyrisgreiðslur til stefnanda úr hendi stefnda miðaðar við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa og deildarstjóra hjá sýslumanninum í Reykjavík, og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda í vangoldinn lífeyri fyrir tímabilið 19. maí 1995 til 31. október 1999 kr. 1.666.291 með dráttarvöxtum lögum samkvæmt frá 1. október 1996 til greiðsludags. Jafnframt er krafizt alls málskostnaðar úr hendi stefnda, hvernig sem málið fer, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara, að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á tildæmdan málskostnað.
II.
Málavextir:
Stefnandi er ellilífeyrisþegi og á rétt til ellilífeyris úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Áður en hann hóf töku ellilífeyris átti hann rétt til örorkulífeyris frá 1. desember 1989. Stefnandi var fulltrúi sakadómarans í Reykjavík frá 26. september 1957 til 31. júlí 1964 og sakadómari í Reykjavík frá 1. ágúst 1964 til 31. október 1972, er hann lét af störfum. Stefnandi var skipaður setudómari í einstökum málum á árunum 1962-1964. Stefnandi starfaði sem lögmaður á tímabilinu nóvember 1972 til september 1978, en 18. september 1978 réðst hann sem löglærður fulltrúi hjá Skattstjóra Suðurlandsumdæmis og var í því starfi til 31. október 1980. Hann hóf lögmannsstörf að því loknu að nýju.
Stefnandi greiddi lífeyrisiðgjöld hjá stefnda á greindu tímabili eða í u.þ.b. 17 ár, fyrst sem fulltrúi í Sakadómi Reykjavíkur, síðan sem sakadómari og að lokum sem löglærður fulltrúi hjá Skattstjóra Suðurlandsumdæmis.
Stefnanda var metin 100% varanleg örorka frá l. desember 1989 og átti þar af leiðandi rétt á fullum örorkulífeyri frá þeim tíma og síðan ellilífeyri frá 65 ára aldri hjá hinum stefnda lífeyrissjóði. Stefndi greiddi stefnanda lífeyri miðað við laun löglærðs fulltrúa lengst af. Var sú ákvörðun stefnda á því byggð, að lífeyri skyldi miða við laun þau, sem greidd eru fyrir það starf, sem sjóðfélagi gegndi síðast fyrir töku lífeyris.
Hinn 7. október 1998 gerði stefnandi þá kröfu á hendur stefnda, að sjóðurinn endurskoðaði fyrri ákvarðanir um lífeyri hans og breytti honum á þann veg, að lífeyrir hans miðaðist við laun héraðsdómara, en ekki dómarafulltrúa, og að ákvörðunin miðaði við, að slík breyting tæki gildi á árinu 1994. Krafa stefnanda var þeim rökum studd, að lífeyrir hans tæki mið af launum aðstoðarmanna embættisdómara samkvæmt 2. mgr. 6. gr. 1. nr. 92/1989, sbr. 26. gr. 1. nr. 83/1997. Aðstoðarmenn þessir gegndu annars konar störfum en dómarafulltrúar í tíð stefnanda. Þeim væri frá 18. maí 1995 óheimilt að fara með og leysa að efni til úr einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, eða opinberum málum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Byggði stefnandi á því, að hann hefði hins vegar í raun gegnt sjálfstæðu dómarastarfi allt frá 1957 til 1972, þar af með starfsheitinu dómarafulltrúi frá 1957 til 1964, en sakadómari eftir það. Allan þann tíma hafi honum verið trúað fyrir mikilvægum og þýðingarmiklum dómstörfum, bæði sem dómarafulltrúi, sakadómari og setudómari í fjölbreytilegum og mikilvægum dómsmálum. Þannig hafi störf stefnanda verið dómstörf, en lífeyrir hans tekið mið af störfum aðstoðarmanna dómara, sem ekki fáist við og ekki megi fást við eiginleg dómstörf.
Með bréfi dagsettu 25. júní 1999 tilkynnti stefndi stefnanda, að fallizt væri á, að lífeyrir hans hefði verið ákveðinn of lágur. Með lögum um dómstóla nr. 15/1998 hafi stöður dómarafulltrúa í reynd verið lagðar niður, og frá þeim tíma sé því nauðsynlegt að finna nýja viðmiðun fyrir lífeyrisgreiðslur stefnanda. Taldi stefndi það starfsreglu að miða við störf, sem væru sambærileg að eðli og umfangi við það starfs, sem lífeyrisþegi gegndi. Var ákveðið, að frá og með 1. júlí 1998 skyldi reikna lífeyrisgreiðslur stefnanda sem hlutfall af launum deildarstjóra við embætti Sýslumannsins í Reykjavík. Hækkuðu lífeyrisgreiðslur stefnanda úr kr. 48.540 í kr. 83.459 á mánuði miðað við júní 1999.
Í þessu máli er deilt um það, hvort ellilífeyrir stefnanda frá stefnda eigi að miðast við laun héraðsdómara. Jafnframt er deilt um það, hver eigi að vera upphafsdagur hækkaðs lífeyris.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir á því, að við ákvörðun launa til viðmiðunar við ákvörðun lífeyris hans beri að taka mið af þeim störfum, sem sambærilegust séu nú þeim störfum, sem stefnandi vann sem ríkisstarfsmaður og embættismaður. Hann hafi unnið að öllu leyti sem dómari við stjórn rannsókna opinberra mála og uppkvaðningu dóma alla þá tíð, er hann starfaði hjá sakadómi Reykjavíkur, allt frá 1957 til 1972 og einnig á tímabilinu 1957 til 1964, er starfsheiti hans var dómarafulltrúi. Vorið 1961 hafi verið gerð sú breyting á lögum, að við sakadóm Reykjavíkur hafi verið stofnaðar nokkrar stöður sakadómara, og hafi elztu fulltrúarnir hjá sakadómi Reykjavíkur fengið þær. Yfirmaðurinn hafi fengið starfsheitið yfirsakadómari. Ástæður þessara breytinga hafi verið deilur um kaup og kjör fulltrúanna, og hafi ágreiningurinn að hluta verið leystur með þessum hætti, og hafi elztu fulltrúarnir hækkað í launum. Stefnandi hafi orðið sakadómari þremur árum síðar. Skipan þessi hafi ekki breytt eðli starfs stefnanda. Hann hafi eftir sem áður unnið við stjórn rannsókna á opinberum málum fyrir dómi og samningu dóma, en á tímabili eftir 1961 hafi yfirsakadómari þó undirritað dóma fulltrúanna, sem ekki hafði tíðkazt fyrr. Stefnandi hafi, á þessu tímabili, oft verið skipaður setudómari. Hann hafi kveðið upp úrskurði sem fyrr, svo sem um gæzluvarðhald og húsleitir. Hvorki stefnandi né aðrir fulltrúar á þessu tímabili hafi komið að umboðsstörfum dómsins eða stjórnun skrifstofu eða rannsóknarlögreglu. Hafi þessi störf verið á borði yfirsakadómara. Þessu til frekari stuðnings sé vísað í dæmaskyni til eftirfarandi dóma í dómasafni Hæstaréttar, þar sem stefnandi sé dómari í héraði: HR 1960 289; 1960 780; 1961 413; 1962 14.
Um stöðu dómarafulltrúa vísist og til þess, sem segi í dómi Hæstaréttar 1995 1444, bls. 1453, uppkveðnum hinn 18. maí 1995:
Ekki verði á það fallizt, að umfangsmikil dómstörf dómarafulltrúa geti verið á ábyrgð héraðsdómara. Í raun starfi þeir á sama hátt og embættisdómarar og oft að eins þýðingarmiklum dómstörfum.
Hæstiréttur hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að staða dómarafulltrúa uppfyllti ekki "grunnreglur stjórnarskrár um sjálfstæði dómsvaldsins", og hafi niðurstaðan einkum verið á því byggð, að starfsöryggi þeirra væri ekki tryggt með lögum eins og embættisdómara. Dómar dómarafulltrúa hafi því verið úr gildi felldir.
Aðalkrafa stefnanda sé á því byggð, að hann eigi rétt á, að lífeyrir hans miðist við laun héraðsdómara frá því að hann hóf töku lífeyris, en varakrafan miðist við, að hann eigi þann rétt, frá því að Hæstiréttur felldi úr gildi stöður dómarafulltrúa, þar sem þær væru andstæðar stjórnarskránni, en upp frá því láti fulltrúar af dómstörfum, og öll slík störf séu eftir það unnin af héraðsdómurum. Stefnandi hafi einungis sinnt dómstörfum á tímabilinu 1957 til 1972 og hafi engin afskipti haft af umboðsstörfum. Starfi hans og stöðu verði öldungis jafnað til starfs og stöðu héraðsdómara nú. Þess vegna beri að miða lífeyri hans við laun héraðsdómara.
Lögð sé á það áherzla, að ekki sé ágreiningur með aðilum um það, að stefnandi hafi fengið of lágan lífeyri, heldur einungis um það, hversu mikið lífeyrir hans eigi að hækka og frá hvaða tímabili hann eigi að hækka. Stefnandi hafi ekki sætt sig við einhliða ákvörðum stefnda um hækkunina og upphafstíma hennar. Hinn 2. apríl 1998 hafi gengið dómur í Hæstarétti í máli milli sömu aðila, en í því máli hafi verið ágreiningur um það, hvort það væri undantekningarlaus regla, sem samræmdist stjórnarskránni, að sá sjóðfélagi, sem greiði í lífeyrissjóð, skuli fá lífeyri, sem taki mið af þeim launum, er hann hafi haft um stundarsakir, er hann láti af störfum hjá ríkinu, án tillits til þess, að hann hafi fyrr gegnt hærra launuðu starfi miklu lengur, þó ekki samfellt í tíu ár. Hafi Hæstiréttur talið, að lækkun áunninna réttinda með ráðningu í lægra launað starf samræmdist ákvæðum stjórnarskrár um jafnræði, vernd eignarréttinda og atvinnufrelsi, og því væri lífeyrir stefnanda úr hendi stefnda ekki of lágur. Að gengnum þeim dómi hafi stefndi fallizt á, að rétt væri hjá stefnanda, að lífeyrisgreiðslur til hans væru of lágar. Stöður dómarafulltrúa hefðu verið lagðar niður, og því þyrfti að ákveða hækkaðan lífeyri og upphafstíma hins hækkaða lífeyris. Hafi stefnanda verið ákveðinn lífeyrir, sem tók mið af stöðu hjá framkvæmdavaldinu, en ekki dómsvaldinu, og einungis frá 1. júlí 1998. Ágreiningur í máli þessu lúti því einungis að ákvörðun viðmiðunarstarfs og upphafstíma hækkaðs lífeyris. Um slíkan ágreining hafi ekki verið fjallað í hinu fyrra máli, og sé því sakarefnið allt annað, og hugsanleg res judicata áhrif eigi því ekki við.
Fjárkröfur stefnanda taki mið af mismuninum á þeim lífeyri, sem stefnanda hafi verið greiddur og þeim lífeyri, sem hann hefði fengið, ef krafa hans um lífeyri miðaðan við laun héraðsdómara, annarsvegar frá l. desember 1989 og hinsvegar frá 19. maí 1995 til 1. nóvember 1999, væri tekin til greina, svo sem krafizt sé.
Stefnandi vísar til laga nr. 29/1963 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins með áorðnum breytingum. Um málskostnað vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála, og um dráttarvexti til vaxtalaga.
Málsástæður stefnda:
Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi og honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda að skaðlausu, auk virðisaukaskatts. Er þessi þáttur málsins einungis hér til úrslausnar.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því, að krafa stefnanda hafi þegar verið dæmd að efni til. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 2. apríl 1998 í máli nr. 298/1997, sem stefnandi máls þessa höfðaði á hendur stefnda, hafi stefnandi m.a. gert þá dómkröfu, að frá og með l. desember 1989 yrðu lífeyrisgreiðslur hans frá stefnda miðaðar við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa. Stefnandi hafi þá byggt kröfur sínar á því annars vegar, að hann uppfyllti þau skilyrði að hafa gegnt hærra launuðu starfi í 10 ár eða lengur, enda ætti að taka tillit til umboðs- og setudómarastarfa hans, og hins vegar að óheimilt væri að svipta hann lífeyrisrétti, sem hann hefði aflað sér sem sakadómari, vegna þess eins að hann hefði síðar tekið að sér að gegna lægra launuðu starfi hjá ríkinu. Um væri að ræða réttindi, sem jafngiltu eignarréttindum. Þá hafi stefnandi byggt á því, að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu leiddi til þess, að ekki væri heimilt að láta hann gjalda þess í lægri lífeyri að hafa tekið að sér lægra launað starf hjá ríkinu. Hæstiréttur hafi ekki fallizt á kröfur stefnanda, hvorki að hann hefði gegnt stöðu sakadómara í tíu ár samfellt, né að áunnin réttindi hans hafi verið skert með tíu ára reglunni, og sýknaði stefnda af öllum kröfum hans. Í dómi Hæstaréttar segi m.a., að með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væru ekki skilyrði til að fjalla um það atriði, sem hreyft hafi verið af hálfu stefnanda við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, að starfstími hans sem dómarafulltrúi eigi einnig að koma til álita í Hæstarétti, en um það hafi ekki verið fjallað í héraði.
Í þessu máli sé dómkrafan efnislega alveg sú sama og höfð hafi verið uppi í málinu, sem dæmt var í Hæstarétti 1998. Í málinu nú sé hins vegar byggt á öðrum málsástæðum en hafðar hafi verið uppi í fyrra málinu. Það hafi hins vegar ekkert verið því til fyrirstöðu að hafa þessar málsástæður uppi í fyrra málinu. Hér megi vísa til Hæstaréttardóms frá 26. október 1999 í máli nr. 422/1999: Þuríður Gísladóttir gegn Hollustuvernd ríkisins. Málinu hafi verið vísað frá dómi, þar sem áfrýjandi hafði áður höfðað sama mál, að vísu með lægri dómkröfum, á hendur íslenska ríkinu. Þá megi benda á Hrd. 1994, bls. 1559: Ingibjörg Fanney Hákonardóttir gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Þar hafi málinu verið vísað frá dómi með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, jafnvel þótt ný málsástæða hefði verið höfð uppi í síðara málinu, vegna þess að áfrýjandi hafði ekki sýnt fram á það, að þá málsástæðu hefði ekki verið hægt að hafa uppi í fyrra málinu.
Það sama eigi við hér. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að hann hefði ekki getað haft uppi þá málsástæðu, sem hann nú hafi uppi í fyrra málinu. Því beri að vísa málinu frá á grundvelli 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sjónarmið stefnanda varðandi frávísunarkröfu stefnda:
Stefnandi gerir þær kröfur í þessum þætti málsins, að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og stefnanda verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar með bréfi dómsmálaráðherra dags. 30.10.2000.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Frávísunarkrafa stefnda byggir á því, að krafa stefnanda hafi þegar verið dæmd að efni til. Með dómi Hæstaréttar frá 2. apríl 1998 í málinu nr. 298/1997, Ólafur Þorláksson gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, gerði stefnandi svofelldar dómkröfur, auk málskostnaðarkröfu:
“Að viðurkennt verði með dómi, að frá 1. desember 1989 skuli lífeyrisgreiðslur stefnanda úr hendi stefnda miðaðar við laun héraðsdómara í stað löglærðs fulltrúa og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.413.092 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 16.547 kr. frá 1.þ janúar 1990 til 1. janúar 1991, af 219.055 kr. frá þ.d. til 1. janúar 1992, af 438.096 kr. frá þ.d. til 1. janúar 1993, af 702.166 kr. frá .d. til 1. janúar 1994, af 941.894 kr. frá þ.d. til 1. janúar 1995, af 1.200.261 frá þ.d. til 1. nóvember 1995, en af 1.413.092 kr. frá þ.d. til greiðsludags.”
Þegar kröfur stefnanda í báðum málunum eru bornar saman, er ljóst, að þær eru að öllu leyti efnislega samhljóða, enda þótt fjárhæðir séu ekki þær sömu. Í máli þessu koma þó fram aðrar málsástæður en hafðar voru uppi í eldra málinu, þar sem stefnandi reisti kröfur sína á því annars vegar, að hann fullnægði þeim skilyrðum að hafa gegnt hærra launuðu starfi í 10 ár eða lengur, að teknu tilliti til starfa hans sem umboðs- og setudómari, og hins vegar m.a. á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Í máli því, sem er til úrlausnar fyrir dóminum nú, lýtur ágreiningur að ákvörðun viðmiðunarstarfs og upphafstíma hækkaðs lífeyris, en stefnandi byggir m.a. á því að líta beri til starfa hans sem dómarafulltrúa, og verði starfi hans og stöðu á tímabilinu 1957-1972 öldungis jafnað til starfs og stöðu héraðsdómara nú, og beri því að miða lífeyri hans við laun héraðsdómara.
Verður að fallast á með stefnda, að dómkrafa stefnanda, sem höfð er uppi í máli þessu, hafi þegar verið dæmd að efni til með áðurnefndum dómi Hæstaréttar, og málsástæður þær, sem hann nú hefur uppi, eru ekki þess eðlis, að hann hefði ekki mátt byggja á þeim í eldra málinu. Ber því að taka frávísunarkröfu stefnda til greina.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 35.000.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda ákveðst kr. 40.000 og greiðist úr ríkissjóði.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Ólafur Þorláksson, greiði stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, kr. 35.000 í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 40.000, greiðist úr ríkissjóði.