Hæstiréttur íslands
Mál nr. 626/2017
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Samruni
- Málsástæða
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennd verði innlausnarskylda stefnda á hlutum áfrýjanda í stefnda að nafnvirði 1.082.250 krónur. Þá krefst hann þess aðallega að stefndi greiði sér 10.061.633 bandaríkjadali aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. janúar 2012 til greiðsludags, en til vara með „8% vöxtum p.a. frá þeim degi til greiðsludags.“ Til vara krefst hann þess að stefndi greiði sér 1.232.650.674 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 6.121.035 bandaríkjadali aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags, en til vara með „8% vöxtum p.a. frá þeim degi til greiðsludags.“ Að öllu þessu frágengnu krefst hann þess að stefndi greiði sér 656.284.262 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi hafa deilur milli hluthafa í stefnda staðið lengi og hefur komið til kasta dómstóla að skera úr um ágreining þeirra í millum. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort áfrýjandi, sem er fyrrum eigandi forgangshluta í stefnda, eigi rétt á því að hlutafé hans í stefnda verði innleyst í kjölfar þess að forgangshlutir hans breyttust í almennt hlutafé við samruna félaganna Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélags þess Mogul Holding ehf. undir nafni þess síðarnefnda. Byggir áfrýjandi einkum á því að vegna samrunans sé stefnda skylt að innleysa hlutafjáreign hans í félaginu. Leiði af 24. gr. samþykkta stefnda að áfrýjandi geti krafist þess að vera leystur út úr félaginu með peningagreiðslu. Krafa hans fái jafnframt stoð í ákvæðum samnings um áskrift að forgangshlutum með breytirétti frá 21. ágúst 2006, en önnur túlkun myndi leiða til óréttmætrar auðgunar af hálfu stefnda sem og forsendubrests fyrir kaupum áfrýjanda á hlutabréfunum. Stefndi byggir á hinn bóginn einkum á því að á grundvelli dóms Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 418/2012 sé ekki fyrir hendi innlausnarskylda af hans hálfu á andvirði hluta áfrýjanda.
Með fyrrgreindum dómi komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að „forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. ... hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt, Mogul Holding ehf. ... 30. júní 2008, undir nafni hins síðarnefnda.“ Með dóminum var jafnframt fellt úr gildi hluthafasamkomulag 30. nóvember 2007 milli nánar tilgreindra hluthafa í stefnda.
Deilur hluthafa í stefnda héldu áfram í kjölfar dómsins og 21. mars 2013 krafðist áfrýjandi innlausnar á hlutum sínum í stefnda öðru sinni, en hann hafði með bréfi 27. janúar 2010 gert sams konar kröfu, á öðrum grundvelli, sem stefndi hafnaði. Stefndi hafnaði kröfu áfrýjanda um innlausn á ný 23. apríl 2013. Með stefnu birtri 20. júní 2013 höfðaði áfrýjandi mál gegn stefnda og krafðist viðurkenningar á innlausnarskyldu þess síðarnefnda. Undir rekstri þess máls aflaði áfrýjandi mats dómkvadds manns um innlausnarvirði hluta í stefnda. Málinu var vísað frá héraðsdómi þar sem breytt kröfugerð áfrýjanda á grundvelli matsins rúmaðist ekki innan upphaflegrar kröfugerðar hans. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 28. janúar 2016. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september það ár var málinu vísað frá dómi. Var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar sem með dómi 26. október 2016 í máli nr. 665/2016 felldi hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar svo sem nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi.
Málsástæður og lagarök áfrýjanda eru nægilega rakin í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir heldur áfrýjandi að hluta til fram röksemdum í máli þessu sem efnisleg afstaða var tekin til í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012. Í máli þessu hefur í engu verið hnekkt því sem var slegið föstu í þeim dómi. Þá er og til þess að líta, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi, að réttaráhrif samruna einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins og Mogul Holding voru meðal annars þau að forgangshlutir í hinu fyrrgreinda félagi breyttust í almenna hluti. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Mango Tree B.V., greiði stefnda, Mogul Holding ehf., 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 5. júlí 2017
Mál þetta var höfðað með stefnu þingfestri 28. janúar 2016 og dómtekið 30. maí 2017. Stefnandi er Mango Tree B.V., Laan Copes van Cattenburch 52, Hollandi, en stefndi er Mogul Holding ehf., Bankastræti 10, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði innlausnarskylda stefnda á forgangshlutum stefnanda í stefnda að nafnvirði ISK 1.082.250 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda fjárhæðir sem hér segir:
Aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda USD 10.061.633 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags en til vara með 8% vöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.232.650.674 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags.
Til þrautavara að stefndi verði dæmdur til greiða stefnanda USD 6.121.035 ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags, en til vara með 8% vöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 656.284.262 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar.
II.
Stefnandi er hollenskt félag sem er að verulegu leyti í eigu helstu lífeyrissjóða landsins. Sú fjárfesting sem deilt er um í máli þessu var í fyrstu gerð af Brú II ehf. en öll réttindi og skyldur Brúar II ehf. fluttust síðan til stefnanda eigi síðar en 23. júlí 2008. Stefnandi var því eigandi þeirra forgangshluta í stefnda sem hér síðar greinir.
Stefndi var stofnað á árinu 2000 í því skyni að setja upp sýningar á leikritinu Hellisbúanum í Þýskalandi og hét þá Leikhúsmógúllinn ehf. Snemma árs 2006 bauðst stefnda að kaupa sýningarrétt á leikritinu um allan heim gegn greiðslu 16,5 milljóna USD og var þá ákveðið að leita að fjárfesti sem væri tilbúinn til þess að kaupa hlut í stefnda til að afla fjármagns til kaupa á sýningarréttinum. Úr varð að Brú II ehf. skráði sig fyrir nýjum hlutum í stefnda hinn 21. ágúst 2006.
Þegar samið var um þátttöku nýrra hluthafa í félaginu og fjárframlög var gert hluthafasamkomulag 21. ágúst 2006. Tilgangur þess og samninga sem því tengdust var að tryggja forgangsstöðu þeirra sem um þetta leyti lögðu fram fjármuni til félagsins. Samkvæmt því var heildarnafnverð hluta í félaginu 4.578.750 krónur, þar af voru svonefndir almennir hlutir að nafnverði 3.330.000 krónur en forgangshlutir að nafnverði 1.248.750 krónur. Í hluthafasamkomulaginu var jafnframt kveðið á um ýmis önnur atriði svo sem forkaupsrétt og takmarkanir á framsali hluta.
Sama dag og hlutahafasamkomulagið var gert, var gerður „Samningur um áskrift að forgangshlutum með breytirétti“. Í 3. gr. þess samnings voru ákvæði um réttindi eigenda forgangshluta í félaginu umfram eigendur almennra hluta. Skyldu þeir meðal annars eiga rétt til arðs umfram eigendur almennra hluta, sérstakan rétt til greiðslna við slit félagsins, rétt til þess að krefjast innlausnar á hlutum sínum o.fl. Í grein 3.4 í samkomulaginu sagði meðal annars: „Sjálfkrafa umbreyting: Forgangshlutir skulu breytast sjálfkrafa í almenna hluti á því breytiverði sem þá gildir, ... (iii) þegar samningur tekur gildi um samruna, yfirtöku eða sölu á ráðandi hlut í félaginu eða nær öllum eignum þess, þ.á.m. hugverkaréttindum félagsins til grandlauss þriðja aðila á verði á hlut sem nemur a.m.k. 3,5 földu upphafskaupverði hlutar (að teknu tilliti til útgáfu jöfnunarhluta, arðgreiðslna umfram 8%, sbr. skilgreiningu í gr. 3.1. að ofan, og atvika af þeim toga).“
Samþykktum félagsins var breytt 21. ágúst 2006 til samræmis við þá samninga sem gerðir höfðu verið. Þar var tilgreind skipting hluta í almenna hluti og forgangshluti eins og áður greinir, sérstök réttindi forgangshluta og aðrar reglur um þá. Í 4. gr. samþykktanna var ákvæði um hvaða atvik yllu því að forgangshlutir breyttust í almenna hluti og var það sama efnis og áður hefur verið lýst, sbr. ákvæði iii) liðar 5. mgr. 4. gr.
Í 13. gr. samþykktanna var áskilið að samþykki allra hluthafa í félaginu þyrfti til tiltekinna ákvarðana og eigenda 51% forgangshluta til ýmissa annarra ákvarðana þar á meðal tiltekinna ákvarðana sem lutu að stöðu forgangshluta í félaginu.
Í 21. gr. var m.a. mælt fyrir um að engin sérréttindi, önnur en þau sem fram komi í samþykktunum, fylgi hlutum í félaginu.
Í 22. gr. samþykktanna sagði að þeim mætti breyta á lögmæltum aðal- eða aukafundi þannig að breytingin væri samþykkt með 2/3 hlutum samanlagt greiddra atkvæða forgangshluta og almennra hluta, svo og með samþykki hluthafa sem réðu yfir að minnsta kosti 2/3 þeirra hluta sem farið væri með atkvæði fyrir á fundinum, enda væri annað atkvæðamagn ekki áskilið í lögum. Auk þess væri það skilyrði fyrir því að breytingar á samþykktum teldust gildar að þær hefðu verið samþykktar með 51% heildaratkvæða forgangshluta hið minnsta.
Í 2. og 3. mgr. 24. gr. samþykktanna var mælt fyrir um hvernig ákvarða bæri innlausnarverð til forgangshluthafa við slit félagsins. Þar segir svo:
„Við slit á félaginu skulu forgangshluthafar eiga rétt á úthlutun verðmæta félagsins umfram almenna hluthafa sem hér segir að því tilskyldu að eignir félagsins við slit þess séu nægar. Áður en kemur til úthlutunar til almennra hluthafa skal greiða forgangs hluthöfum fjármuni sem svara til kaupverðs þeirra að hlutum í félaginu við skráningu nýrra forgangshluthafa í ágúst 2006 að viðbættu 8% álagi fyrir hvert ár sem liðið er hafi það ekki verið greitt út til hluthafa á tímabilinu.
Eftir forgangsúthlutun til forgangs hluthafa skal úthlutun annarra verðmæta til forgangs hluthafa og almennra hluthafa vera í samræmi við reglur hlutafélagalaga eins og um einn hluthafaflokk væri að ræða.“
Þá var svohljóðandi ákvæði í 4. mgr. 24. gr. samþykktanna:
„Eigendur forgangshluta skulu hafa sama rétt til að fá greidd út verðmæti úr félaginu í skiptum fyrir hluti þeirra ef félagið sameinast eða er yfirtekið af öðru félagi, meiri hluti þess er seldur eða verulegur hluti eigna þess er seldur ef hluthafar félagsins verða ekki eigendur meirihluta í því félagi sem lifir eftir slíkar umbreytingar.“
Leikhúsmógúllinn ehf. átti dótturfélagið Mogul Holding ehf. Í stjórnum beggja félaganna sátu sömu menn og stjórn þeirra var einnig skipuð sömu mönnum. Stjórnir Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. samþykktu 15. desember 2008 að sameina félögin þannig að hið síðarnefnda rynni inn í hið fyrrnefnda og að samþykktir þess giltu eftir samrunann, en félagið skyldi þó bera nafn hins síðarnefnda. Samrunaáætlun vegna samrunans var send fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 29. desember og miðaðist uppsetning sameiginlegs efnahags- og rekstrarreiknings fyrir félögin við 30. júní 2008. Samruni þessi gekk eftir og var hann auglýstur í Lögbirtingablaðinu 12. janúar 2009, staðfestur af stjórn Leikhúsmógúlsins ehf. 24. febrúar 2009 og tilkynntur til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 13. mars 2009. Samkvæmt hlutaskrá í félaginu frá 17. mars 2009 voru eigendur hluta hinir sömu og fyrir samrunann og skipting eignarhluta hin sama.
Lögmaður almennra hluthafa í stefnda, þeirra Signýjar, Óskars og Sigynjar Eiríksbarna og Eiríks Óskarssonar, ritaði hinn 7. apríl 2009 bréf til lögmanns Brúar II Venture Capital Fund S.C.A. SICAR, hluthafa í Leikhúsmógúlnum ehf., þar sem tilkynnt var að í kjölfar sameiningarinnar hefðu forgangshlutir í félaginu sjálfkrafa breyst í almenna hluti „sbr. lið (iii) í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins“. Var þess krafist að hluthafafundur yrði haldinn innan 14 daga „þar sem tekið verði fyrir kjör nýrrar stjórnar, sbr. 60. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög“. Af hálfu stefnanda var því mótmælt að samruni móðurfélagsins Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélagsins Mogul Holding ehf. hefði þau áhrif á stöðu forgangshluta sem haldið væri fram.
Hinn 27. janúar 2010, óskaði lögmaður stefnanda eftir innlausn forgangshluta sinna í stefnda með vísan til greinar 3.6 í áskriftarsamningnum, dags. 21. ágúst 2006. Var krafan ítrekuð með bréfi, dags. 30. júní 2011, og bréfi, dags. 21. mars 2013.
Hluthafar stefnda höfðuðu mál á hendur stefnda og stefnanda hinn 25. júní 2009. Var dómur kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 7. júní 2012. Stefnandi í máli þessu áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar hinn 15. júní 2012 og féll dómur í málinu nr. 418/2012, Mango Tree B.V. gegn Eiríki Óskarssyni, Óskari Erni Eiríkssyni, Signýju Eiríksdóttur og Sigyn Eiríksdóttur, hinn 28. febrúar 2013. Með dóminum var fallist á kröfu stefnenda í málinu, að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. hefðu breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., m.a. með vísan til beinna fyrirmæla í 5. málsgrein 4. gr. í samþykktum félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað. Með dóminum var einnig fellt úr gildi hluthafasamkomulag á milli Mango Tree B.V. annars vegar og Eiríks, Óskars, Signýjar og Sigynjar hins vegar.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 13. september 2016, vísaði dómari sem þá fór með málið, máli þessu frá dómi án kröfu. Stefnandi skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, dags. 26. september s.á. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 665/2016, var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í rökstuðningi Hæstaréttar segir m.a. svo: „Í hinum kærða úrskurði er réttilega að því vikið að sóknaraðili haldi öðrum þræði fram málsástæðum sem efnisleg afstaða var tekin til í [dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012]. Niðurstöður þess dóms um þær málsástæður hafa ekki réttaráhrif hér samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 heldur sönnunargildi um atvik að baki málinu samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar. Við efnisúrlausn málsins yrði að taka afstöðu til þess hvort svo sé ástatt um einstaka málsástæður sem sóknaraðili heldur fram nú en þetta getur ekki valdið því að málinu verði vísað frá héraðsdómi.“
Skýrslur fyrir dóminum gáfu Gísli Hjálmtýsson, Signý Eiríksdóttir og Haukur Gunnarsson.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á þeirri málsástæðu að stefnda sé skylt að innleysa hlutabréf hans í stefnda og greiða sér bæði upphaflegt kaupverð forgangshlutabréfanna auk arðs og sem nemur hlutdeild hans í eignum stefnda, hvort heldur sé miðað við ákvæði 3.6 í áskriftarsamningi og 21. gr. samþykkta stefnda sem voru í gildi í maí 2013, eða ákvæði 3.2 í áskriftarsamningi, sbr. 24. gr. samþykkta stefnda sem í gildi voru í maí 2013. Tekur stefnandi sérstaklega fram að tilvitnuð ákvæði séu samhljóða í áskriftarsamningnum og samþykktunum.
Stefnandi reisir kröfu sína um innlausn á samningsbundnum rétti sem fylgt hafi forgangshlutunum, þ.e. að vegna samrunans og staðfestingar hans hafi skapast skilyrði fyrir stefnanda til að krefjast innlausnar hlutabréfa sinna í stefnda. Innlausnarkrafan sé því ekki bundin tímamörkum.
Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi verið forgangshluthafi í stefnda allt þar til hlutaskrá félagsins og ákvæðum samþykkta félagsins var breytt hinn 2. maí 2013.
Stefnandi byggir á því að ekki sé unnt að líta svo á að dómur Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 hafi breytt samþykktunum með afturvirkum hætti, enda hafi hann ekki haft önnur áhrif en að heimila stefnda að fella forgangshlutina niður án atbeina stefnanda sem forgangshluthafa að dómi gengnum. Þá hafi Hæstiréttur vísað til þess að ekki yrði dæmt um eftirfarandi uppgjör milli aðila ef fallist yrði á kröfur stefnanda þess máls. Telur stefnandi að innlausn á forgangshlutum sé því óhjákvæmileg afleiðing af samrunanum.
Stefnandi byggir á því að stefnda hafi borið að fallast á innlausnarkröfu þá sem stefnandi setti fram í bréfi til stefnda hinn 27. janúar 2010, á grundvelli 21. gr. samþykkta félagsins og grein 3.6 í áskriftarsamningnum.
Stefnandi byggir einnig á því að hann eigi skýlausan rétt á innlausn á forgangshlutum sínum með sama hætti og ef stefnda hefði verið slitið vegna skýrra og beinna fyrirmæla 24. gr. samþykkta félagsins sem voru í gildi þegar samruninn var staðfestur. Í því sambandi byggir stefnandi sérstaklega á því að skýra beri 4. mgr. greinarinnar með sömu skýringaraðferð og beitt var í Hæstaréttarmálinu nr. 418/2012, sbr. 5. mgr. 4. gr. lið iii) í samþykktum stefnda. Telur stefnandi að önnur túlkun hafi í för með sér óeðlilega auðgun stefnda og almennra hluthafa félagsins og að sama skapi forsendubrest fyrir kaupum stefnanda á forgangshlutum í stefnda.
Þá reisir stefnandi innlausnarkröfu sína einnig á þeirri málsástæðu að grein 3.2 í áskriftarsamningi, dags. 21. ágúst 2006, feli einnig í sér rétt stefnanda til handa til að krefjast þess að stefndi innleysi hluti hans í félaginu fyrir upphaflegt kaupvirði forgangshlutabréfanna auk hvers konar áunnins en ógreidds arðs ef samruni á sér stað. Innlausnarkrafan verði aðeins virk þegar samruninn hafi verið staðfestur.
Þá byggir stefnandi á því að áskriftarsamningurinn standi sjálfstætt samhliða samþykktum stefnda og að stefndi sé bundinn af honum á grundvelli almennra reglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Breyting á samþykktum stefnda hafi ekki áhrif á gildi hans eða réttarstöðu stefnanda gagnvart stefnda á grundvelli hans.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi telur að með vísan til 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, beri að líta fram hjá sumum málsástæðum stefnanda sem einnig voru hafðar uppi í hæstaréttarmáli nr. 418/2012. Í héraðsdómsmálinu hafi verið byggt á málsástæðum sem lutu að túlkun ákvæðis iii) liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta stefnda, túlkun á efni 24. gr. samþykkta stefnda og túlkun á grein 3.2 í áskriftarsamningi. Af þessum sökum beri að líta alfarið fram hjá þessum málsástæðum við úrlausn máls þessa.
Um gildi áskriftarsamningsins tekur stefndi fram að með vísan til 1. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda fylgi engin sérréttindi hlutum í stefnda nema þau sem fram komi í samþykktunum. Greinar 3.2 og 3.6 í áskriftarsamningi hafi ekki sjálfstætt gildi sem hægt sé að byggja dómkröfur á, sbr. 2. mgr. 27. gr. og 2. mgr. 11. gr. laga um einkahlutafélög.
Stefndi telur einnig að innlausnarkrafa stefnanda sé fyrnd, sbr. lög nr. 150/2007. Telur stefndi að ekki sé unnt að byggja á innlausnarkröfu á grein 3.6 í áskriftarsamningi, sbr. innlausnarkröfu stefnanda 27. janúar 2010. Greinin feli í sér fyrirvara. Þá sé innlausnarkrafa 21. mars 2013 og eftirfarandi málssókn of seint fram komin. Stefnandi telji að samruninn hafi orðið virkur 24. febrúar 2009 og því sé fjögurra ára fyrningarfrestur, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. fyrningarlaga, liðinn.
Stefndi telur að réttarstaða stefnanda hafi markast af dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012. Í málinu hafi verið tekist á um réttaráhrif þess að stefndi sameinaðist dótturfélagi, þ.e. hvort sameiningin hafi sjálfkrafa leitt til þess að forgangshlutir í stefnda hafi breyst í almenna hluti. Úr þessu hafi verið leyst í dóminum. Dómurinn feli í sér að ákvæðin hafi tapað gildi sínu. Það sé því rangt að forgangshlutir væru áfram virkir eftir þann tíma. Auk þess telur stefndi að í þessum málatilbúnaði stefnanda felist tilraun til að fá dómstóla til að fjalla um sama sakarefni á nýjan leik, er sé andstætt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi telur að innlausnarskylda stefnda verði ekki byggð á 21. gr. samþykktanna og grein 3.6 í áskriftarsamningi, með vísan til dóms Hæstaréttar í máli 418/2012, enda sé innlausnarkrafan, dags. 27. janúar 2010, sett fram tæpum 19 mánuðum eftir að forgangshlutir höfðu breyst í almenna hluti. Samkvæmt dómi Hæstaréttar komi skýrt fram að forgangshlutir í stefnda hafi breyst sjálfkrafa í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt. Frá þeim tíma voru engir forgangshlutir í stefnda. Skipti engu máli í því sambandi hvort samþykktum hafi verið breytt á þennan veg áður en innlausnarkröfur stefnanda voru settar fram.
Stefndi hafnar þeirri túlkun stefnanda á dómi Hæstaréttar þar sem tiltekið er að uppgjör í kjölfar slíks viðurkenningardóms verði ekki dæmt í málinu. Telur stefnandi að skírskotun Hæstaréttar feli ekki annað í sér en að í málinu hafi ekki verið höfð uppi kröfugerð um uppgjör og vísar í því sambandi til eftirfarandi setningar í dóminum: Á hinn bóginn verður ekki dæmt um hvernig greitt verði úr stöðu aðila, ef á viðurkenningarkröfu stefndu verður fallist.
Stefndi telur að innlausnarskylda stefnda verði ekki byggð á 24. gr. samþykkta stefnda, enda hafi það verið gert fyrir héraðsdómi í hæstaréttarmáli nr. 418/2012. Í Hæstarétti hafi ekkert tillit verið tekið til þessarar málsástæðu við úrlausn málsins. Dómurinn sé bindandi um sakarefni. Vísar stefndi til 1 mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi tekur fram að það sé óumdeilt að meirihluti hluthafa í stefnda voru hinir sömu bæði fyrir og eftir samruna stefnda við dótturfélag sitt.
Efnislega er því mótmælt að skýra beri 4. mgr. 24. gr. samþykktanna með sama hætti og Hæstiréttur hafi skýrt ákvæði iii) liðar 5. mgr. 4. gr. samþykktanna. Hafnar stefndi því að samruninn hafi vakið upp rétt handa stefnanda sem forgangshluthafa í yfirtökufélaginu til þess að fá forgangshluti sína innleysta á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind sé í 4. mgr. 24. gr. samþykktanna. Vísar stefndi m.a. til orðalags dóms Hæstaréttar þar sem segir svo: Varð þessi breyting [forgangshluta í almenna hluti] vegna beinna fyrirmæla í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins [...] Getur viðhorf einstakra stjórnarmanna, sem þó er ekki upplýst um, ekki haggað þessari niðurstöðu sem leiðir af ótvíræðu orðalagi samþykktanna. Tekur stefndi fram að í dóminum sé engin tilvísun til 24. gr. samþykktanna.
Stefndi tekur fram að ákvæði 4. mgr. 24. gr. samþykktanna sé með öðru sniði en ákvæði 5. mgr. 4. gr. þeirra. Skipti þar mestu máli niðurlag 4. mgr. 24. gr. sem segir svo: ... ef hluthafar félagsins verða ekki eigendur meirihluta í því félagi sem lifir eftir slíkar umbreytingar. Þetta skilyrði sé ekki í 5. mgr. 4. gr. samþykktanna. Skilyrðið taki til allra þeirra tilvika sem nefnd hafi verið á undan í ákvæðinu en ekki einungis til þess tilviks að verulegur hluti eigna félagsins sé seldur eins og stefnandi haldi fram. Telur stefndi túlkun stefnanda á orðalagi 4. mgr. 24. gr. samþykktanna ranga. Innlausnarréttur á grundvelli ákvæðisins verði því aðeins virkur ef hluthafahópur stefnda verði í minnihluta eftir samruna, yfirtöku eða sölu verulegs hluta af eignum félagsins. Slíkt hafi ekki gerst við sameiningu stefnda við dótturfélag sitt og hluthafahópurinn hafi haldist óbreyttur.
Stefndi bendir á ákvæði 21. gr. samþykktanna þar sem tekið er fram að Engin sérréttindi, önnur en þau sem koma fram í samþykktum þessum, fylgja hlutum í félaginu. Með vísan til þess er tilvísunum stefnanda til áskriftarsamningsins hafnað. Telur stefndi að stefnandi geti ekki borið fyrir sig áskriftarsamninginn að öðru leyti en því sem efni hans kemur fram í samþykktum stefnda. Telur stefndi að túlkun stefnanda, ef rétt væri, myndi leiða til óþolandi réttaróvissu fyrir stefnda, hluthafa félagsins, kröfuhafa og aðra viðsemjendur. Telur stefndi enn fremur skýringaraðferð stefnanda í andstöðu við meginreglur félagaréttar.
Stefndi mótmælir öllum sjónarmiðum um auðgun hans, auk þess sem ekki verði séð hvernig almennir hlutahafar sem einnig voru forgangshluthafar hafi auðgast óeðlilega verði ekki fallist á skýringar stefnanda.
Stefndi hafnar því að innlausnarskylda stefnda verði byggð á grein 3.2 í áskriftarsamningi. Stefnandi hafi byggt á greininni í hæstaréttarmálinu nr. 418/2012. Í dóminum var ekkert tillit tekið til málsástæðu stefnanda í úrlausn réttarins. Dómurinn sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Því beri að víkja þessari málsástæðu til hliðar.
Um sundurliðun kröfugerðar stefnanda tekur stefndi fram að matsbeiðni hafi verið áfátt. Þar hafi viðmiðunarmynt ekki verið tilgreind. Ekkert tillit hafi verið tekið til dóms Hæstaréttar í máli nr. 418/2012. Kaupverð forgangshluta Guðmundar Magnasonar hafi verið rangt tilgreint. Matsgerðin sé miðuð við ársreikning stefnda fyrir árið 2013 og sé að því leyti byggð á röngum upplýsingum. Hlutafé stefnda sé tilgreint í íslenskum krónum og notkun á USD eigi því ekki við. Miða beri fjárkröfur við íslenskar krónur. Þá muni fjárkröfur skv. útreikningum leiða til gjaldþrots stefnda, andstætt ákvæðum 2. mgr. 37. gr. laga um einkahlutafélög. Matsgerðin sé því ónothæf við úrlausn málsins og beri að víkja henni til hliðar.
IV.
Niðurstöður
Í máli þessu liggur fyrir að réttaráhrif samruna einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. hafi meðal annars verið þau að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. hafi sjálfkrafa breyst í almenna hluti. Varð þessi breyting vegna beinna fyrirmæla í 5. málsgrein 4. greinar samþykkta félagsins sem í gildi voru þegar samruninn átti sér stað, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 28. febrúar 2013 í máli nr. 418/2012, Mango Tree B.V. gegn Eiríki Óskarssyni, Óskari Erni Eiríkssyni, Signýju Eiríksdóttur og Sigyn Eiríksdóttur.
Stefnandi heldur því í fyrsta lagi fram að stefnda sé þrátt fyrir þetta skylt að innleysa hlutabréf hans í stefnda og greiða sér bæði upphaflegt kaupverð forgangshlutabréfanna auk arðs og sem nemur hlutdeild hans í eignum stefnda með vísan í ákvæði 3.6 í áskriftarsamningi og 21. gr. samþykkta stefnda sem voru í gildi til maí 2013 er samþykktunum var breytt. Á þetta er ekki unnt að fallast þar sem við samrunann breyttust forgangshlutir sjálfkrafa í almenna hluti eins og fyrr segir. Sá réttur, sem forgangshluthafar áttu, m.a. samkvæmt 21. gr. samþykkta stefnda og ákvæði 3.6 í samningi frá 21. ágúst 2006 um áskrift að forgangshlutum með breytirétti, féll niður við þann atburð. Af því leiðir að innlausnarréttur var ekki lengur fyrir hendi upp frá því enda fylgdi hann forgangshlutum.
Með svipuðum hætti verður heldur ekki fallist á þann skilning stefnanda að hann hafi verið forgangshluthafi í stefnda þar til hlutaskrá félagsins og ákvæðum samþykkta var breytt. Réttarstaða hans miðast ekki við þær breytingar heldur þegar réttarstaða hans breyttist úr forgangshlutum í almenna hluti samkvæmt ákvæðum samþykktanna sem áður sagði. Telst þessi niðurstaða í samræmi við fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 418/2012.
Í öðru lagi telur stefnandi að hann eigi rétt á innlausn á forgangshlutum sínum með sama hætti og ef stefnda hefði verið slitið vegna skýrra og beinna fyrirmæla 24. gr. samþykkta félagsins, sbr. einnig grein 3.2 í áskriftarsamningi, dags. 21. ágúst 2006. Telur stefnandi að önnur túlkun hafi í för með sér óeðlilega auðgun fyrir stefnda og almenna hluthafa félagsins og að sama skapi forsendubrest fyrir kaupum stefnanda á forgangshlutum í Leikhúsmógúlnum ehf.
Í 4. mgr. 24. gr. samþykktanna er kveðið á um sama rétt forgangshluthafa til að fá greidd út verðmæti úr félaginu, og ef því væri slitið, „ef félagið sameinast eða er yfirtekið af öðru félagi, ...“. Rétturinn er þó háður því skilyrði að „hluthafar félagsins verða ekki eigendur meirihluta í því félagi sem lifir eftir slíkar umbreytingar“. Óumdeilt er að hluthafar stefnda voru þeir sömu fyrir og eftir sameininguna og því eigendur meirihluta sameinaðs félags. Skilyrði 4. mgr. 24. gr. samþykktanna er því ekki uppfyllt og getur stefnandi þar með ekki reist kröfu um innlausn á þessu ákvæði.
Í 2. mgr. 24. gr. samþykkta félagsins er rætt um réttarstöðu forgangshluthafa við slit á félaginu og það sama á við um ákvæði 3.2 í áskriftarsamningi félagsins um forgang við félagsslit. Í báðum tilvikum þykir ljóst miðað við efni ákvæðanna að þau taka aðeins til félagsslita samkvæmt XIII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en ákvæði 4. mgr. 24. gr. samþykktanna taka hins vegar sérstaklega til sameiningar og yfirtöku. Hér var hins vegar ekki um félagsslit að ræða í þessum skilningi. Því verður ekki heldur fallist á með stefnanda að hann eigi rétt á innlausn á forgangshlutum sínum með sama hætti og ef stefnda hefði verið slitið vegna fyrirmæla 2. og 3. mgr. 24. gr. samþykkta félagsins eða grein 3.2 í áskriftarsamningi.
Samkvæmt framansögðu er það einnig niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að áskriftarsamningurinn veiti honum aukin réttindi umfram samþykktir stefnda.
Loks hefur heldur engin viðhlítandi grein verið gerð fyrir því hvernig rétt túlkun umræddra heimilda geti orðið grundvöllur að óeðlilegri auðgun eða forsendubresti þeim sem stefnandi ber fyrir sig.
Með vísan til framangreinds er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir niðurstöðum málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber stefnanda að greiða stefnda 1.200.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Gylfa Magnússyni, dósent við Háskóla Íslands, og Hersi Sigurgeirssyni, dósent við Háskóla Íslands.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Mogul Holding ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Mango Tree B.V., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 1.200.000 krónur í málskostnað.