Hæstiréttur íslands
Mál nr. 379/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Hlutafélag
- Ábyrgð
|
|
Föstudaginn 13. ágúst 2010. |
|
Nr. 379/2010. |
Teymi hf. (Dóra Sif Tynes hdl.) gegn þrotabúi Íslenskrar afþreyingar hf. (Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Hlutafélög. Ábyrgð.
7. janúar 2005 gaf O hf. út skuldabréf í flokki sem nefndur var OGVODA 05 1 og seld voru á verðbréfamarkaði. Heiti O hf. var síðar breytt í D hf. Stjórn þess félags gerði 12. september 2006 áætlun um skiptingu þess í tvö félög sem annars vegar urðu T hf. og hins vegar félags, sem síðar varð Í hf. Skipting félaganna miðaðist við 1. júlí 2006, en við hana færðist sem svaraði 45% eigin fjár D hf. til T hf. og 55% til hins félagsins. Þann 23. júní 2009 fékk T hf. staðfestan nauðasamning sem fól meðal annars í sér að T hf. gerði upp kröfur lánardrottna vegna skuldabréfanna þannig að þeir fengju greiddar kröfur sínar á hendur félaginu með hlutum í því, sem að nafnverði svöruðu til 20% af kröfu hvers og eins. Þann 2. júlí 2009 var Í hf. tekið til gjaldþrotaskipta og lýsti T hf. kröfum í búið vegna skuldabréfanna. Hélt T hf. því fram að um ábyrgðarskuldbindingu hefði verið að ræða af sinni hálfu þegar T gerði upp kröfur lánardrottna vegna skuldabréfanna og ætti T hf. því endurkröfurétt gagnvart þrotabúi Í hf. Skiptastjóri Í hf. hafnaði kröfu T hf. og krafðist T hf. þess fyrir dómi að krafa félagsins að fjárhæð 572.290.920 krónur eða sem svaraði 20% af heildarfjárhæð skuldabréfanna, yrði viðurkennd við gjaldþrotaskipti Í hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt það leiddi af ákvæðum 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög að félögin tvö, sem urðu til við skiptingu D hf., hefðu borið óskipta ábyrgð á skuldbindingum þess félags við lánardrottna sína, þá færi eftir samningi um skiptingu félagsins hvort nýju félaganna tveggja bæri endanlega ábyrgð á hverri skuld í uppgjöri milli þeirra innbyrðis. Eins og málið var lagt fyrir yrði ekkert ráðið um það hvort Í hf. hefði fremur en T hf. að endingu verið ætlað að bera skuldir við lánardrottna samkvæmt skuldabréfunum. Hefði T hf. ekki sýnt fram á að félagið ætti framkröfu á hendur þrotabúi Í hf. vegna þeirra 20% af kröfum samkvæmt skuldabréfunum, sem hann hafði nú þegar eða kynni síðar að standa skil á. Var kröfu T hf. því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2010, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 572.290.920 krónur við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði viðurkennd við gjaldþrotaskiptin og varnaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins gaf Og fjarskipti hf. út skuldabréf 7. janúar 2005 í flokki, sem nefndur var OGVODA 05 1 og seld munu hafa verið á verðbréfamarkaði. Heiti þess félags mun síðan hafa verið breytt í Dagsbrún hf. Stjórn félagsins gerði 12. september 2006 áætlun um skiptingu þess í tvö félög, sem annars vegar yrðu Teymi hf., sóknaraðili þessa máls, og hins vegar félag, sem síðar fékk heitið Íslensk afþreying hf. Þessi skipting félagsins mun hafa gengið eftir og miðast við 1. júlí 2006, en við hana færðist sem svaraði 45% eigin fjár Dagsbrúnar hf. til sóknaraðila og 55% til hins félagsins. Sóknaraðili fékk staðfestan nauðasamning 23. júní 2009, sem fól í sér að lánardrottnar hans fengu greiddar kröfur sínar á hendur honum með hlutum í sóknaraðila, sem að nafnverði svöruðu til 20% af kröfu hvers og eins. Við nauðasamningsumleitanir sóknaraðila mun hafa verið lýst kröfum á grundvelli skuldabréfa í áðurnefndum flokki OGVODA 05 1 að fjárhæð samtals 2.317.778.226 krónur. Sóknaraðili kveðst hafa gert upp kröfur lánardrottna, sem þar komu við sögu, með afhendingu hluta samkvæmt framangreindu, en á hinn bóginn hafi kröfum ekki verið lýst vegna skuldabréfa að fjárhæð samtals 543.676.374 krónur og hafi sóknaraðili aflað sér heimildar til að hækka hlutafé félagsins til að mæta þeim kröfum á síðari stigum ef viðkomandi lánardrottnar gæfu sig fram. Samkvæmt gögnum málsins var bú Íslenskrar afþreyingar hf. tekið til gjaldþrotaskipta 2. júlí 2009. Við gjaldþrotaskiptin lýsti sóknaraðili kröfum, þar á meðal vegna skuldabréfa í fyrrnefndum flokki, jafnt þeim, sem hann hafði þegar gert upp í samræmi við ákvæði nauðasamnings síns, og þeim, sem hann gerði ráð fyrir að verða krafinn um síðar. Skiptastjóri varnaraðili hafnaði þeirri kröfu í skrá, sem hann gerði 25. september 2009 um lýstar kröfur, en með því að ekki tókst að jafna ágreining aðilanna leitaði hann úrlausnar héraðsdóms 2. október 2009 og var mál þetta þingfest af því tilefni 6. nóvember sama ár. Endanleg krafa sóknaraðila fyrir héraðsdómi var sú að við gjaldþrotaskipti varnaraðila yrði viðurkennd krafa hans að fjárhæð 572.290.920 krónur eða sem svaraði 20% af heildarfjárhæð skuldabréfa í flokknum OGVODA 05 1 og er sú krafa hans sem fyrr greinir óbreytt fyrir Hæstarétti.
Í hinum kærða úrskurði var réttilega gengið út frá því að þótt það leiði af ákvæðum 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög að félögin tvö, sem urðu til við skiptingu Dagsbrúnar hf., hafi borið óskipta ábyrgð á skuldbindingum þess félags við lánardrottna sína, þá fari eftir samningi um skiptingu félagsins hvort nýju félaganna tveggja beri endanlega ábyrgð á hverri skuld í uppgjöri milli þeirra innbyrðis. Eins og málið er lagt fyrir verður ekkert ráðið um það hvort Íslenskri afþreyingu hf. hafi fremur en sóknaraðila að endingu verið ætlað að bera skuldir við lánardrottna samkvæmt skuldabréfum í flokknum OGVODA 05 1. Sóknaraðili, sem tók samkvæmt áðursögðu við 45% af eigin fé Dagsbrúnar hf., hefur af þessum sökum ekki sýnt fram á að hann eigi framkröfu á hendur varnaraðila vegna þeirra 20% af kröfum samkvæmt umræddum skuldabréfum, sem hann hefur þegar eða kann síðar að standa skil á. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Teymi hf., greiði varnaraðila, þrotabúi Íslenskrar afþreyingar hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2010
Mál þetta var þingfest 6. nóvember sl. og tekið til úrskurðar 26. apríl sl.
Sóknaraðili er Teymi hf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík.
Varnaraðili er þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf.
Endanleg dómkrafa sóknaraðila er að viðurkennd verði krafa sóknaraðila í þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf., að fjárhæð 572.290.920 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila. Til vara er þess krafist að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Endanlegur dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Þá er þess krafist að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað að skaðlausu.
Málsatvik
Með bréfi til dómsins frá 5. október 2009 skaut skiptastjóri Íslenskrar afþreyingar hf., til dómsins ágreiningi um kröfu sóknaraðila í þrotabúið.
Krafa sóknaraðila var þá eftirfarandi:
1. Skuldabréf OGVODA 05 1 kr. 2.861.454.600
2. Vegna hluthafasamnings kr. 126.573.750
Skiptastjóri hafnaði kröfunni og kvað ágreining lúta að því hvort sóknaraðili ætti fjárkröfu á þeim grundvelli sem hann héldi fram.
Krafa þessi á rót sína að rekja til útgáfu Dagsbrúnar hf. á skuldabréfaflokki OGVODA 05 1. Með ákvörðun hluthafafundar 17. nóvember 2006 var Dagsbrún hf. skipt upp í tvö félög, 365 hf. (síðar Íslensk afþreying hf. ) og Teymi hf.
Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti þann 21. apríl 2009 beiðni sóknaraðila um heimild til að leita nauðasamninga við kröfuhafa félagsins, en samningurinn var samþykktur af kröfuhöfum félagsins 4. júní s.á. Í kjölfarið staðfesti Héraðsdómur 23. júní 2009 nauðasamning milli sóknaraðila og kröfuhafa félagsins. Í samningnum fólst samþykki kröfuhafa félagsins fyrir því að öllum ótryggðum skuldum yrði umbreytt í hlutafé í félaginu. Vegna framangreindrar ábyrgðar sóknaraðila á skuldbindingum Íslenskrar afþreyingar hf., töldust kröfur er áttu rætur að rekja til ábyrgðarinnar falla undir samninginn og var viðkomandi kröfuhöfum því greitt út í samræmi við skilmála hans. Jafnframt veitti hluthafafundur stjórn heimild til þess að hækka hlutafé félagsins frekar, ef fleiri kröfuhafar er byggðu á ábyrgð sóknaraðila á grundvelli framangreindrar skiptingar Dagsbrúnar hf., gæfu sig fram og óskuðu eftir fullnustu í samræmi við skilmála nauðasamningsins.
Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júlí 2009 var bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili lýsti kröfu í búið samtals að fjárhæð 2.988.028.350 krónur. Með bréfi 17. september 2009 hafnaði skiptastjóri kröfu sóknaraðila, með vísan til þess að greiðsla sóknaraðila myndaði ekki beinan kröfurétt á búið þar sem um væri að ræða ábyrgðarskuldbindingu sem á félaginu hafi hvílt frá stofnun þess, lögum samkvæmt. Hafi sóknaraðili því ekki orðið fyrir neinu tjóni og engin krafa stofnast á búið.
Þessari afstöðu skiptastjóra mótmælti sóknaraðili með bréfi 21. september 2009. Þar kemur fram að framangreindri afstöðu skiptastjóra sé hafnað. Telji sóknaraðili að það leiði af meginreglum kröfuréttar að félagið öðlist endurkröfu á aðalskuldara vegna greiðslu sem félagið hafi innt af hendi sem ábyrgðaraðili.
Sóknaraðili geti ekki fallist á þá afstöðu skiptastjóra að endurkröfuréttur sé ekki fyrir hendi ef sú ábyrgð sem um ræði hvíli á aðilum in solidum. Var bent á f.h. sóknaraðila að samkvæmt 3. mgr. 133. gr. laga um hlutfélög nr. 2/1995 beri sóknaraðili óskipta ábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skiptingaráætlun Dagsbrúnar hf. hafi verið birtar. Ábyrgð félagsins takmarkist hins vegar við þau nettóverðmæti sem félagið hafi tekið við úr hendi skiptingarfélagsins, þ.e. Dagsbrúnar hf. Það breyti hins vegar ekki þeirri staðreynd að um ábyrgðarskuldbindingu sé að ræða og eigi því framangreind meginregla um endurkröfurétt við í tilviki sóknaraðila. Líkt og fram komi í kröfulýsingu félagsins hafi félagið greitt kröfuhöfum skuldabréfaflokksins OGVODA 051 í samræmi við nauðasamning félagsins, þ.e. hlutafé sem svari til 20% kröfufjárhæðar. Krafan eigi beinar rætur að rekja til ógjaldfærni Íslenskrar afþreyingar hf. enda hefði ekki komið til greiðslunnar ef félagið hefði reynst gjaldfært.
Í skiptingar- og samrunaáætlun Dagsbrúnar hf. og Teymis hf. kemur fram að skipting á hlutafé sé 45% til Teymis hf. og 55% til 365 hf.(síðar Íslensk afþreying hf.).
Ágreiningi aðila var skotið til héraðsdóms 2. október sl. Undir rekstri málsins lækkaði sóknaraðili kröfu sína í 572.290.920 krónur.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að hann hafi greitt, eða eftir atvikum viðurkennt greiðsluskyldu gagnvart kröfuhöfum sem áttu kröfur gagnvart Íslenskri afþreyingu hf. fyrir skiptingu þess félags 17. nóvember 2006. Það hafi sóknaraðili gert í ljósi þess að hann hafi borið óskipta ábyrgð á umræddum kröfum með vísan til 3. mgr. 133. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.
Í ákvæðum hlutafélagalaga um skiptingu félaga sé þannig mælt fyrir um hvernig beri að fara með skiptingu eigna og skulda við skiptingu hlutafélags. Ef fallist sé á túlkun varnaraðila hafi það að mati sóknaraðila þá þýðingu að skipting skulda í skiptingaráætlun væri markleysa þar sem félagið sem skipt er og viðtökufélagið teldust allt að einu skuldarar umræddrar skuldbindingar. Jafnframt vísar sóknaraðili til þess að ákvæðið vísi berum orðum til ábyrgðar þátttökufélaga í skiptingu hlutafélags en kveði ekki á um að þátttökufélag verði samskuldari að skuldbindingum hins upprunalega félags. Sú ábyrgð sem hér um ræði takmarkist við nettóverðmæti þess er við bættist í þátttökufélaginu er áætlun um skiptingu var birt. Að mati sóknaraðila sé því alveg ljóst að um ábyrgðarskuldbindingu sé að ræða. Eigi sóknaraðili því endurkröfurétt gagnvart varnaraðila eftir almennum reglum kröfuréttar.
Ekki sé unnt að fallast á þá afstöðu varnaraðila að sóknaraðili hafi verið upprunalegur skuldari þeirra skuldbindinga sem hér um ræði. Skuldabréfaflokkurinn OGVODA 05 1 hafi verið gefinn út af Og fjarskiptum hf. á árinu 2005 en félagið hafi fengið heitið Íslensk afþreying hf. Hluthafasamkomulag Dagsbrúnar hf., nú Íslenskrar afþreyingar hf. við Sven Dam og Morten Nissen Nielsen hafi verið undirritað í apríl 2006. Á þessum tíma hafi sóknaraðili ekki verið til sem sjálfstæður lögaðili, enda hafi verið fyrst til hans stofnað í nóvember 2006.
Sóknaraðili geti enn fremur ekki fallist á að viðurkenning kröfu hans á hendur varnaraðila feli í sér stórkostlega eignamyndun gagnvart varnaraðila. Óumdeilt sé að varnaraðili hafi stofnað til þeirra skuldbindinga sem hér um ræði með útgáfu skuldabréfanna og undirritun hluthafasamkomulagsins. Sóknaraðili hafi þegar greitt umræddum kröfuhöfum eða viðurkennt greiðsluskyldu samkvæmt skilmálum nauðsamnings sóknaraðila. Sóknaraðili hafi því sem ábyrgðaraðili orðið fyrir tjóni sem hann nú krefjist að fá bætt af varnaraðila. Það leiði af ákvæðum 3. mgr. 133. gr. hlutafélagalaga að þau nettóverðmæti sem eftir verði í félaginu, sem skipt sé upp, eigi að standa til fullnustu þeirra skuldbindinga sem orðið hafi til fyrir skiptinguna. Nái krafa sóknaraðila ekki fram að ganga mætti því allt eins segja að varnaraðili auðgaðist á kostnað sóknaraðila á óréttmætan hátt.
Málsástæður sóknaraðila varðandi síðari hluta kröfu hans vegna hluthafasamkomulags verða ekki reifaðar, þar sem fallið hefur frá þeim hluta kröfu hans.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 133. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og XVI. kafla laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveðst hafa hafnað kröfu sóknaraðila á þeim grundvelli að sóknaraðili sé upphaflegur skuldari kröfunnar, enda hafi félaginu verið skipt út úr því félagi sem gefið hafi skuldabréfin út og selt á markaði. Af eðli máls leiði að ekki megi rýra ,,veðið“ sem standi að baki skuldbindingunni. Þess vegna sé sóknaraðili in solidum skuldari fjárskuldbindingarinnar. Ábyrgð sóknaraðila sé 100% alveg á sama hátt og ábyrgð Íslenskrar afþreyingar hf. sé 100%. Ábyrgðin sé ein fyrir alla og allir fyrir einn.
Kjarni málsins sé sá, að sóknaraðili sé ekki ábyrgðaraðili skuldbindinga sem hvíli á Íslenskri afþreyingu hf. heldur samskuldari in solidum að lögum. Sóknaraðili eigi því ekki endurkröfu á hendur samskuldara sínum á grundvelli almennra reglna kröfuréttar um endurkröfu ábyrgðaraðila á hendur skuldar. Sóknaraðili sé með nauðasamningum einfaldlega að greiða 20% af eigin skuld. Sóknaraðili sé því að ljúka eigin skuld með verulegum afslætti kröfunnar. Engin rök standi til þess að skuldalúkning eigin skulda geti snúist upp í stórkostlega eignamyndun sóknaraðila gagnvart þrotabúinu.
Nauðasamningur sóknaraðila feli það í sér að lánardrottnar félagsins, þar með talið eigendur skuldabréfa í OGVODA 05 1 fái 20% kröfu sinnar greidd með hlutafé í sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að með kröfulýsingu sóknaraðila sé kröfum sem rót eigi að rekja til umrædds skuldabréfaflokks lýst tvöfalt í búið. Kröfuhafar sem átt hafi skuldabréfin í OGVODA 051 hafi einnig lýst þeim í þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf. Skiptastjóri hafi viðurkennt 80% krafna OGVODA 05 1 í þrotabúið, en þó með fyrirvara um að dómstólar staðfestu synjun hans á viðurkenningu kröfulýsingar sóknaraðila.
Eðlilegt sé að kröfuhafarnir gæti hagsmuna sinna með þessum hætti enda bæði félögin í solidariskri ábyrgð fyrir greiðslu kröfunnar. Kröfurétti þeirra á hendur sóknaraðila hafi lokið með áðurnefndri 20% greiðslu upp í kröfur sínar. Þar með hafi lokið kröfuréttindum gagnvart sóknaraðila en réttur kröfuhafanna hafi haldist á hendur hinum skuldaranum, Íslenskri afþreyingu ehf. og hafi verið samþykktur í búið, að teknu tilliti til þess sem fengist áður greitt upp í kröfuna. Ljóst sé af þessu að kröfuhafarnir sjálfir deili ekki sjónarmiðum og lögskýringum sóknaraðila, heldur telji sig einnig eiga sjálfstæða kröfu á varnaraðila.
Afstaða varnaraðila sé því sú að sóknaraðili hafi ekki leyst til sín ábyrgðarskuldbindingu þegar félagið náði lúkningu á skuldum sínum með nauðasamningi. Félagið eigi ekki sjálfstæða kröfu í þrotabúið.
Þá áréttar varnaraðili að í 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995, sé mælt fyrir um solidariska ábyrgð móðurfélags og þess félags sem skipt er út úr því félagi. Við nauðasamning sóknaraðila hafi allt gamla hlutaféð verið fært niður í núll, en kröfuhöfum hafi verið afhent hið nýja hlutafé, miðað við reiknað gengi 5.0, þannig að 20% fengjust upp í kröfur þeirra. Með nauðasamningum greiði sóknaraðili 20% af eigin skuld. Um sé að ræða lúkningu skuldar sóknaraðila með verulegum afslætti. Kröfuhafar eigi sjálfstæðan kröfurétt á varnaraðila, áður Dagsbrún hf., sem nemi eftirstöðvum kröfunnar eða 80% upphaflegrar kröfu.
Kjarni málsins sé sá, að sóknaraðili sé ekki ábyrgðaraðili skuldbindinga sem upphaflega hafi hvílt á Dagsbrún hf., nú Íslenskri afþreyingu hf., heldur samskuldari in solidum að lögum. Af hálfu varnaraðila sé því hafnað að nauðasamningur sóknaraðila veiti félaginu sjálfstæðan kröfurétt í þrotabú varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili ekki umboð til slíkrar kröfugerðar fyrir hönd eigenda skuldabréfa úr umræddum skuldabréfaflokki. Sóknaraðili málsins eigi ekki aðild að málinu og beri því að hafna kröfu hans í þrotabú varnaraðila.
Varnaraðili bendi á, varðandi málsástæður sóknaraðila í greinargerð hans, að nauðasamningar sóknaraðila séu á ábyrgð sóknaraðila. Samkvæmt orðanna hljóðan í 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995, ráði fullnusta hjá því félagi sem til skuldar stofni, ábyrgð þeirra félaga sem síðar sé skipt út, en ekki öfugt. Því er mótmælt að um ábyrgðarskuldbindingu sé að ræða hjá sóknaraðila sem veiti endurkröfurétt gagnvart varnaraðila. Þá er því mótmælt að nauðasamningur sóknaraðila feli í sér að lýstar kröfur hafi verið greiddar að fullu með afhendingu hlutafjár. Rétt sé að greiðsla hafi falið í sér greiðslu krafna að 20%.
Niðurstaða
Með ákvörðun hluthafafundar 17. nóvember 2006 var Dagsbrún hf. skipt í tvö félög, 365 hf., síðar Íslensk afþreying hf. og félagið Teymi hf., sem stofnað var sama dag. Fyrir liggur að við nauðasamning milli sóknaraðila og kröfuhafa félagsins var kröfuhöfum greitt út í samræmi við skilmála nauðasamnings með hlutafé sem svaraði til 20% kröfufjárhæðar. Jafnframt veitti hluthafafundur stjórn félagsins heimild til þess að hækka hlutafé félagsins frekar, ef fleiri kröfuhafar er byggðu á ábyrgð sóknaraðila á grundvelli framangreindrar skiptingar Dagsbrúnar hf., gæfu sig fram og óskuðu eftir fullnustu í samræmi við skilmála nauðasamningsins.
Um ábyrgð aðilanna gagnvart kröfuhöfum Dagsbrúnar hf. fer samkvæmt 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995, um það er ekki ágreiningur.
Ágreiningur málsins lýtur að ábyrgð aðila innbyrðis, þ.e. hvort ábyrgð sóknaraðila, Teymis hf., og varnaraðila, þrotabús Íslenskrar afþreyingar hf. innbyrðis, sé með þeim hætti sem varnaraðili heldur fram að eftir greiðslu til kröfuhafa, geti endurkrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila aðeins numið því sem greitt var umfram það sem félaginu bar að greiða, eða hvort ábyrgðin er með þeim hætti sem sóknaraðili heldur fram, að hann eigi fullkominn endurkröfurétt á hendur varnaraðila þar sem líta beri á hann sem ábyrgðaraðila á skuldbindingum gagnvart varnaraðila, sem sé þá aðalskuldari kröfunnar.
Ljóst er að kröfuhafar hafa lýst kröfum vegna skuldbindinga Dagsbrúnar hf. í þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf. og þeir hafa einnig fengið lúkningu á 20% krafna sinna með hlutafé í sóknaraðila, Teymi hf. Skiptum á þrotabúi Íslenskrar afþreyingar hf. er ekki lokið og því ekki ljóst hversu mikið þeir bera úr býtum.
Eins og fram kemur í skiptingar- og samrunaáætlun Dagsbrúnar hf. og Teymis hf. var skipting á hlutafé með þeim hætti að í hlut Teymis hf. komu 45% hlutafjár og í hlut 365 hf. (Dagsbrúnar hf.), síðar Íslenskrar afþreyingar hf. komu 55% hlutafjár. Í samruna- og skiptingaráætlun er gerð grein fyrir tiltekinni skiptingu skulda, en þar kemur hins vegar ekkert fram um það hvaða skuldir komu í hlut hvors þeirra um sig. Þannig liggur ekkert fyrir um það með afgerandi hætti í gögnum málsins, hvort félaganna átti að greiða kröfur er urðu til vegna ábyrgðar á skuldabréfaflokki þeim sem mál þetta er sprottið af.
Sóknaraðili hefur samkvæmt framangreindu ekki fært á það sönnur að Íslensk afþreying hf. hafi við skiptingar- og samrunaáætlun Dagsbrúnar hf. og Teymis hf. tekið að sér greiðslu kröfu þeirrar sem áður hvíldi á Dagsbrún hf. vegna skuldabréfaflokksins OG VODA 05 1. Þegar það er virt er óhjákvæmilegt að hafna kröfu sóknaraðila, en í ljósi verulegra vafaatriða í málinu þykir rétt að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, Teymis hf., um viðurkenningu kröfu að fjárhæð 572.290.920 krónur, í þrotabú varnaraðila, Íslenskrar afþreyingar hf., er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.