Hæstiréttur íslands
Mál nr. 725/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfesta ákvörðun hans 10. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun hans verði staðfest.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.
Samkvæmt a. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita brottvísun af heimili ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot gegn meðal annars ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og samkvæmt b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita brottvísun af heimili ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a. lið sama ákvæðis. Þá er heimilt samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili ef það þykir nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni brotaþola. Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi þannig að varði við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga en slíkt brot varðar fangelsi allt að sex mánuðum og fangelsi allt að einu ári ef háttsemi er sérstaklega vítaverð. Þá verður að telja nauðsynlegt að tryggja hagsmuni brotaþola með nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili, enda ekki sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011. Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður framangreind krafa sóknaraðila tekin til greina.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 10. nóvember 2017 um að varnaraðili, X, skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalarstað hans og lögheimili brotaþola, A, að [...] í Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti brotaþola eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila, Arnars Kormáks Friðrikssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun sína, dags. 10. nóvember 2017, um að X, kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni skv. a. og b. lið 4. gr. og a. og b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í 4 vikur, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við dvalastað sinn og lögheimili A, kt. [...], að [...] í Reykjavík á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með síma, í gegnum samfélagsmiðla eða með öðrum hætti.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að þann 18. október sl. hafi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um nálgunarbann og brottvísun varnaraðila af heimili verið staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-361/2017.
Fram kemur að í skýrslutöku þann 25. júlí sl. hafi A lýst langvarandi grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi X í sinn garð. Hafi hún kynnst X árið 2007 og þau átt í ástarsambandi. Upp úr því hafi slitnað en þau hafi aftur tekið upp þráðinn árið 2011 og hafið ástarsamband að nýju en í kjölfarið hafi ofbeldið byrjað. Þau hafi átt í sambandi síðan en með hléum. Lýsti hún ítekuðu ofbeldi X í sinn garð frá árinu 2011 fram til júlí sl., bæði hérlendis og erlendis. Hafi hún sagt hann hafa hlotið eins árs fangelsisdóm í [...] fyrir ofbeldi gegn henni auk þess sem honum hafi verið gert að sæta nálgunarbanni. Hún hafi lagt fram gögn úr málinu í [...]. Hún hafi greint frá því að X hafi síðast beitt hana kynferðislegu ofbeldi í júlí sl. og líkamlegu ofbeldi í júní sl. er þau hafi verið í fríi á [...]. Hún hafi sagst hafa farið á slysadeild um leið og hún hafi komið heim eða þann 17. júní sl. Meðal gagna málsins sé áverkavottorð vegna komu A á slysadeild umrætt sinn og skv. því hafi hún verið með dreifða marbletti um allan líkamann. A hafi jafnframt lýst því að hún óttaðist X og þyrði ekki að sofa með opinn glugga þar sem hann gæti komist inn auk þess sem hún væri vör um sig ef það kæmi bíll að húsinu. Þá hafi hún sagst vera búin að skipta um símanúmer vegna hótana frá X, bæði í hennar garð og sonar hennar. A hafi gefið skýrslu þann 16. október sl. vegna málsins og lýst miklu andlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu X frá því að hún hafi gefið skýrslu í júlí sl. Hafi hún sagt að X hafi flutt inn á heimili hennar árið 2015 og dvalist þar. Hann hafi flutt út síðastliðið sumar en þau hafi tekið aftur saman 13. ágúst sl. og hann flutt aftur inn á heimilið í kjölfarið.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögregla hafi aflað sakavottorðs X og skv. því hafi hann hlotið eins árs fangelsisdóm þann [...] 2014 hjá [...] í [..] fyrir líkamsárás, hótun og ölvunarakstur.
Skv. málaskrákerfi lögreglu hafi veru tilkynnt um ofbeldi X í garð A gegnum árin, sbr. eftirfarandi mál:
Mál lögreglu nr. 007-2011-[...], dags. [...] 2011: Bókað að nafnlaus tilkynning hafi borist frá þriðja aðila um að kona sem býr að [...], A, sé þolandi heimilisofbeldis. Bókað að áðan hafi hún sætt ofbeldi af hálfu sambýlismanns síns, grunur sé um að þetta hafi gerst áður. Bókað að farið hafi verið og rætt við X og A vegna málsins. Þau kváðust hafa verið að deila en engu líkamlegu ofbeldi hafi verið beitt. Hafi þau rifist sín á milli og verið læti í þeim.
A hafi verið spurð út í þetta mál í skýrslutöku þann 25. júlí sl. og hafi hún þá sagst muna eftir þessu. Hún hafi sagt barsmíðar hafi verið byrjaðar en hún hafi ekki verið með sýnilega áverka. Hafi hún sagt að engu líkamlegu ofbeldi hefði verið beitt þar sem hún hefði ekki verið með áverka og X verið orðinn rólegri.
Mál lögreglu nr. 007-2011-[...], dags. [...] 2011: Bókað að A óski aðstoðar vegna heimilisofbeldis. Bókað að X og A eigi í miklum deilum um allt á milli himins og jarðar. Bókað að umrætt sinn hafi þau átt í deilum en án ofbeldis.
A hafi verið spurð út í þetta mál í skýrslutöku þann 25. júlí sl. og hafi hún sagst muna eftir þessu. Hún hafi sagt að það hefðu verið barsmíðar og henni hafi verið farið að líða ofboðslega illa. Hún hafi verið komin með brjóstverk. Hafi hún sagst hafa óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem þessu þyrfti að linna.
Mál lögreglu nr. 007-2012-[...], dags. [...] 2012: Bókað að X og A væru ölvuð og hefðu staðið í deilum. Bókað að A hafi sagt að X hafi reynt að slá sig. Bókað að X hafi sagt Y ölvaða og skálda upp atvik.
Mál lögreglu nr. 007-2012-[...], dags. [...] 2012: Bókað að A hafi komið á lögreglustöðina í Kópavogi til að tilkynna um ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir af hendi X en þau standi í skilnaði. Hún eigi húsið en hann neiti að yfirgefa það. Hann hafi hótað henni lífláti og að taka húsið af henni. Þá segi hún hann hafa hrist hana til og talað til hennar með ókvæðisorðum. Hún óttist um sitt öryggi og einnig um föður sinn sem búi á neðri hæð hússins en hann sé að verða áttræður. Bókað að hann hafi komið með henni á stöðina og sagt að X hafi neglt aftur hurð að sameign. Bókað að A hafi hringt og sagt að X hafi ráðist á hana þegar hún hafi farið inn í íbúð sína, og hann hafi ítrekað slegið hana. Bókað að hún hafi sagst hafa komist undan á hlaupum inn til föður síns þar sem hún bíði nú lögreglu.
Mál lögreglu nr. 007-2012-[...]: Þann [...] 2012 hafi A lagt fram kæru á hendur X fyrir líkamsárás og þjófnað á [...] þann [...] 2012. Í málinu hafi legið fyrir áverkavottorð en A hafi leitað á slysadeild við heimkomu. Hafi hún verið greind með mar og húðrispur á hægri fótlegg og einkenni frá hægri síðu sem bent hafi til tognunar. X hafi neitað sök í skýrslutöku hjá lögreglu. Rannsókn málsins hjá lögreglu hafi verið hætt.
Mál lögreglu nr. 007-2017-[...], dags. [...] 2017: Bókað að A hafi komið í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, og sagt frá miklu ofbeldi er hún hafi þurft að þola af hálfu sambýlismanns. Hann hafi m.a. hlotið árs fangelsisdóm í [...] vegna heimilisofbeldis. Hún hafi sagt að nýjasta ofbeldið hafi átt sér stað á [...] og hafi hún komið heim og farið á slysadeild sl. laugardag vegna áverka.
Mál lögreglu nr. 007-2017-[...]dags. [...] 2017: A hafi tilkynnt um óæskilegan mann í íbúð sinn, X sem hafi veitt henni áverka. Lögregla hafi farið á staðinn og tekin hafi verið skýrsla af A á vettvangi. Í framburði sínum hafi hún sagt að X hafi kýlt hana með gosdós í hægra augað og að hann hafi hlaupið út er hún hafi hringt á lögregluna. Aðspurð hafi A sagt að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem X legði á hana hendur, það hefði hann oft gert og væri mál í gangi hjá LRH vegna ofbeldisins. A hafi jafnframt sagt að hún vildi losna við X en hann væri búinn að halda til í íbúðinni hennar í [...] í tvær vikur með henni en hann væri ekki með skráð lögheimili þar og ætti ekki neitt þar inni nema leðurjakka og eina tölvu sem hún hefði reyndar greitt fyrir.
Þá kemur fram í greinargerð lögreglu að A hafi mætt til skýrslutöku á á lögreglustöð þann 10. nóvember sl. Hún hafi lýst því að X hafi haldið áfram að áreita hana eftir að hann hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann og brottvísun af heimili í október sl. Hann hafi stjórnað henni á ýmsan hátt og m.a. neytt hana til að skila neyðarhnappi sem henni hafi verið úthlutaður. Hún hafi lýst því að hann hafi sagt henni að mæta í framangreinda skýrslutöku og afturkalla kæru á hendur honum. Þá hafi hann komið með áfengi til hennar og fengið hana til að drekka það. Hann hafi einnig beitt hana andlegu og kynferðislegu ofbeldi frá því hann hafi verið úrskurðaður í nálgunarbann og brottvísun af heimili. Hafi hann m.a. kallað hana aula og ef hún setti á sig varalit þá hafi hann sagt henni að hún væri hóra. Þá hafi hann hafið samræði við hana í tvígang er hún svaf og sagst þá hafa tilkall til hennar líkama og hafi hún lýst því að í þessi tvö skipti hafi hún læst sig inn á baðherbergi þar sem hún hafi óttast að hann gerði henni eitthvað meira. Þá hafi hann nuddað hana í þrígang með olíu sem hafi endað með því að hann fór með fingurna í leggöng hennar. Hún hafi reynt að vera máttlaus á meðan á því hafi staðið, en þegar hún hafi beðið hann um að hætta þá hafi hann lagst við hliðina á henni og sagt ljóta hluti við hana. Hafi hún lýst því að henni liði illa yfir því hvernig hann hafi náð heljargreipum á henni og að hún óttaðist hann.
Með vísan til framangreinds sé X undir rökstuddum grun um refsiverða háttsemi í garð A. Þau gögn sem lögregla hafi undir höndum bera með sér að A stafi mikil ógn af X og að hún hafi sætt ofbeldi og ógnunum af hans hálfu og hann valdið henni mikilli vanlíðan og ónæði. Þá hafi hann ekki virt nálgunarbannið og brottvísun af heimili, samkvæmt framangreindri ákvörðun lögreglustjóra sem staðfest hafi verið með úrskurði héraðsdóms.
Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en X liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt A bæði líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi í áraraðir. Samkvæmt framangreindu hafi hann haldið háttseminni áfram, þrátt fyrir nálgunarbann og brottvísun af heimili og því sé hætta talin á að hann haldi háttseminni áfram og með því raska friði hennar í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Sóknaraðili fer fram á að staðfest verði ákvörðun lögreglustjóra frá 10. nóvember sl. um að varnaraðili sæti brottvísun af heimili og nálgunarbanni í 4 vikur. Varnaraðili hefur mótmælt kröfunni.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 18. október sl., var staðfest ákvörðun lögreglustjórans, dags 13. október sl., um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar í málinu 663/2017 er gekk 23. október sl. Í dómi Hæstaréttar segir að samkvæmt a. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 sé heimilt að beita brottvísun af heimili ef rökstuddur grunur sé um að sakborningur hafi framið refsivert brot gegn meðal annars ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé heimilt samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili ef það þyki nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni brotaþola. Hæstiréttur tekur fram að samkvæmt gögnum málsins sé varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi þannig að varði við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga en slíkt brot varðar fangelsi allt að sex mánuðum og fangelsi allt að einu ári ef háttsemi er sérstaklega vítaverð. Ekkert liggur fyrir í málinu um frekari rannsókn lögreglunnar á broti gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Við fyrirtöku málsins upplýsti verjandi að föstudaginn 20. október sl. hafi brotaþoli verið í samband við geðdeild þar sem varnaraðili var vistaður. Laugardaginn 21. október hafi brotaþoli síðan heimsótt varnaraðila á geðdeildina og mánudaginn 23. október sl. hafi varnaraðili og brotaþoli mætt saman á skrifstofu verjanda. Föstudaginn 27. október hafi varnaraðili síðan hringt í uppnámi til verjanda og hafi verjandi reynt að koma varnaraðila aftur á geðdeildina en það ekki tekist. Verjandi hafi haft samband við bróður varnaraðila og úr varð að varnaraðili hafi farið [...] og dveldi nú hjá móður sinni. Varnaraðili eigi ekki í nein hús að vernda í Reykjavík og baklandið hans sé fyrir [...].
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið, sérstaklega um framkomu brotaþola og dvöl varnaraðila á [...], sbr. og 6. gr. laga nr. 85/2011, er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafnað.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Arnar Kormáks Friðrikssonar, hdl. 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl. 150.000 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Virðisaukaskattur er innifalinn í þóknun.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er staðfestingu á ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 10. nóvember 2017, um að X, kt. [...] sæti brottvísun af heimili og nálgunarbanni skv. a. og b. lið 4. gr. og a. og b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í 4 vikur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 200.000 kr. og réttargæslumanns brotaþola, Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl., 150.000 kr. skal greidd úr ríkissjóði