Hæstiréttur íslands
Mál nr. 78/2010
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Skilorð
- Sekt
- Vararefsing
- Tekjuskattur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 3. mars 2011. |
|
Nr. 78/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn Ingibergi Oddssyni (Kristín Edwald hrl. Arnar Þór Stefánsson hdl.) |
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð. Sekt. Vararefsing. Tekjuskattur. Sératkvæði.
I var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem framkvæmdastjóri X ehf. og meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum í sjálfstæðri atvinnustarfsemi I sjálfs. I krafðist frávísunar málsins þar sem fyrrverandi eiginkona hans hefði einnig átt að sæta ákæru, en hún hafði verið stjórnarmaður í X ehf., haft prókúru fyrir það og annast bókhald þess. Tekið var fram að ætluð vanræksla stjórnarmanns á eftirlitsskyldu firrti framkvæmdastjóra ekki ábyrgð á rekstri félags. Ekki yrði talið að málið hefði verið í því horfi að lokinni lögreglurannsókn að ákæruvaldinu hefði ekki að réttu lagi verið fært að meta hvort af saksókn ætti að verða á hendur I. Brotin voru talin sönnuð og réttilega heimfærð til refsiákvæða. Hæstiréttur taldi að þegar litið væri lagaákvæða sem kvæðu skýrt á um fésektarlágmark væru ekki efni til þess við ákvörðun refsingar I að líta til fullyrðinga hans um ætlaða samábyrgð annars einstaklings vegna starfa hans í þágu X ehf. Slíkt kæmi eingöngu til greina ef fleiri menn hefðu verið ákærðir og sakfelldir fyrir sömu brot. Með vísan til ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu kæmi ekki til álita að dómstóll fjallaði um mögulega sakfellingu manns á slíkum grundvelli sem ekki hefði verið ákærður. Brot I voru talin stórfelld og var refsing hans ákveðin fangelsi í 10 mánuði, skilorðbundið til tveggja ára. I var einnig gert að greiða ríkissjóði 42 milljónir króna í sekt, en sæta ella fangelsi í eitt ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega að ákærunni eða einstökum liðum hennar verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing hans verði milduð.
I
Til stuðnings kröfu sinni um frávísun málsins frá héraðsdómi vísar ákærði nú til þess að ákæra beri þess merki að vera reist á ófullnægjandi lögreglurannsókn. Ákærði telur að fyrrverandi eiginkona sín, A, hefði einnig átt að sæta ákæru í málinu vegna þeirrar háttsemi sem um er fjallað í báðum liðum A hluta ákærunnar og varðar starfsemi X ehf. Í því sambandi verði að líta til þeirrar venju sem skapast hafi í dómaframkvæmd í málum sem þessum að fjárhæð sektarrefsingar sé deilt milli þeirra sem dæmdir eru ábyrgir fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda í stað þess að taka til greina til þyngingar refsingu að fleiri en einn gerist sekur um ákæruatriði. Vegna aðkomu A að þeirri háttsemi sem um getur í 2. lið A hluta ákæru hafi einnig átt að halda utan ákæru 1.136.665 krónum vegna afdreginnar staðgreiðslu af launum hennar vegna vinnu í þágu X ehf. Í því sambandi verði að líta til þess að A hafi verið eini stjórnarmaðurinn í félaginu, haft prókúru fyrir það og annast bókhald þess. Af þessum sökum hafi hún, líkt og ákærði, einnig sætt kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins til ríkislögreglustjóra vegna þeirra atriða sem greinir í A hluta ákæru.
Þá kveður ákærði að háttsemi sú, sem lýst sé í 1. lið A hluta ákæru, verði ekki heimfærð undir 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 heldur hefði eftir atvikum átt að vísa til 5. eða 6. mgr. 40. gr. laganna. Loks vísar ákærði til þess að rannsókn lögreglu hafi verið ófullnægjandi vegna tveggja tilgreindra krafna sem ekki hafi fengist innheimtar frá fyrirtækjum sem verið hafi í viðskiptum við X ehf.
II
Eins og greinir í héraðsdómi var ákærði framkvæmdastjóri X ehf. og hafði prókúru fyrir félagið. Við meðferð málsins hjá skattrannsóknarstjóra höfðu bæði ákærði og A skýrt frá því að hún hafi annast bókhaldsvinnu fyrir félagið og ásamt ákærða sinnt daglegum rekstri þess og tekið ákvörðun um skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Við rannsókn ríkislögreglustjóra voru borin undir ákærða rannsóknargögn frá skattrannsóknarstjóra og hann spurður um aðkomu sína að rekstri félagsins með tilliti til þeirra atriða sem kæruefni lutu að. Bókað var eftir ákærða að hann hafi „sjálfur, sem framkvæmdastjóri félagsins, tekið allar ákvarðanir um fjármálastjórn, þ.e.a.s. tekið ákvörðun hverju sinni um hvað hafi verið greitt og hvað ekki. Hann kveðst því bera alla ábyrgð af hálfu félagsins, á öllum skattskilum vegna þeirra tímabila sem hér eru til rannsóknar.“ Sérstaklega aðspurður um þátt A við stjórn félagsins kvað hann hana hafa „annast almenn skrifstofustörf fyrir félagið, en hafi ekkert haft með neinar ákvarðanir að gera varðandi ráðstöfun fjár“. Þá kvað ákærði bróður sinn, sem skráður var fyrir helmingi hlutafjár í félaginu móti fyrrverandi eiginkonu ákærða, aldrei hafa komið að rekstri félagsins. Ekki var tekin skýrsla af þessu fólki hjá lögreglu, en A gaf skýrslu við meðferð málsins fyrir dómi. Er meðferð málsins hjá rannsóknaraðilum, framburður ákærða og vitna rakinn í hinum áfrýjaða dómi.
Fallist er á með ákærða að það sé skylda lögreglu að athuga ábyrgð allra þeirra sem koma að stjórnun hlutafélaga enda kann það að hafa þýðingu við ákvörðun refsingar manna, sbr. 57. gr., sbr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í því sambandi ber að líta til þess að stjórnarmenn einkahlutafélaga bera almennt ábyrgð á því að skipulags félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, þar á meðal að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Á hinn bóginn bera framkvæmdastjórar slíkra félaga einnig ábyrgð, sbr. 2. og 3. mgr. 44. gr. laganna. Skal framkvæmdastjóri meðal annars annast daglegan rekstur félags og sjá um að bókhald þess sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Ætluð vanhöld á því að stjórnarmaður sinni ekki eftirlitsskyldu sinni firrir ekki framkvæmdastjóra ábyrgð á rekstri félagsins í þá veru sem hér um ræðir.
Af gögnum málsins verður ráðið að einkahlutafélagið X var stofnað um starfsemi sem ákærði áður sinnti undir eigin nafni, sbr. B hluta ákæru. Eins og áður segir var framburður ákærða skýr um það hjá lögreglu að hann einn bæri ábyrgð á því sem miður hafi farið í starfsemi félagsins og ákæran lýtur að. Er að minnsta kosti ljóst að ákærði hafði það í höndum sér hvort uppfylltar væru skyldur þær sem A hluti ákærunnar lýtur að sem og B hluti hennar. Samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn sé lokið. Að þeirri athugun lokinni ber honum annað hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þess þörf, ellegar tekur hann ákvörðun um hvort rétt sé að sækja mann til sakar samkvæmt 152. gr. laganna á grundvelli fyrirliggjandi gagna og gefur eftir atvikum út ákæru. Sú ákvörðun um meðferð valdheimilda ákæruvalds getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn málsins. Á hinn bóginn geta verið slíkir ágallar á rannsókn máls, sem bersýnilega verður ekki bætt úr undir rekstri þess og leiða af þeim sökum til frávísunar á grundvelli 1. mgr. 159. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með ákærða að málið hafi verið í því horfi að lokinni lögreglurannsókn að ákæruvaldinu hafi ekki að réttu lagi verið fært að meta hvort af saksókn ætti að verða á hendur ákærða. Að þessu frágengnu geta ætlaðir gallar á rannsókn komið til athugunar við mat á því hvort ákæruvaldið hafi axlað sönnunarbyrði fyrir sök ákærða og eftir atvikum haft þýðingu við refsiákvörðun. Önnur atriði sem ákærði færir fram til stuðnings kröfu sinni um frávísun málsins frá héraðsdómi lúta að efnisatriðum máls.
III
Að öðru leyti en að framan greinir eru röksemdir ákærða er varða efnisþátt málsins nægilega raktar í héraðsdómi. Ákæruvaldið fellst á rökstuðning og niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um háttsemi ákærða sem réttilega er færð til refsiákvæða.
Ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt kveða öll á um fésektarlágmark í tilvikum eins og þeim sem hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin og vanrækt var að greiða. Það var ótvírætt undir ákærða komið að annast þessi skil bæði vegna reksturs einkahlutafélagsins X ehf. og eins er rekstur hans var í hans eigin nafni. Á þessu bar ákærði sjálfstæða refsiábyrgð að lögum. Þegar virt eru framangreind ákvæði sem kveða skýrt á um fésektarlágmark eru ekki efni til að líta til fullyrðinga ákærða um ætlaða samábyrgð annars einstaklings vegna starfa hans í þágu félagsins. Slíkt kæmi eingöngu til greina ef fleiri menn hafa verið ákærðir og sakfelldir fyrir sömu brot. Ekki kemur til álita að dómstóll fjalli um mögulega sakfellingu manns á slíkum grundvelli sem ekki hefur verið ákærður, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi eru brot ákærða ýmist framin með því að skila ekki virðisaukaskattskýrslum eða skilagreinum á réttum tíma, skila slíkum gögnum alls ekki eða efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og skattframtali. Ákærði er einnig fundinn sekur um að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald vegna atvinnustarfsemi sinnar, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1997 um bókhald. Teljast brot ákærða gegn framangreindum ákvæðum stórfelld í skilningi 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem hér skiptir máli. Auk þess verður litið til þess að ákæruvaldið sættir sig við niðurstöðu héraðsdóms um að taka að nokkru tillit til varna ákærða vegna 1. töluliðar B hluta ákæru. Samkvæmt framansögðu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði, sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir, en niðurstaða héraðsdóms um sektarrefsingu ákærða verður staðfest. Vararefsing verður ákveðin í samræmi við almennar reglur, sbr. dóm Hæstaréttar 31. maí 2007 í máli nr. 392/2006.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ingibergur Oddsson, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði 42.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í eitt ár.
Ákvæði héraðsdóms um sakakostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 383.974 krónur þar með talin málflutningslaun skipaðs verjanda síns, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ég er sammála forsendum og niðurstöðu meirihluta dómenda um sakfellingu ákærða og um fangelsisrefsingu hans en ósammála ákvörðun fésektar hans.
Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er lögð refsing við ef „skattskyldur maður“ skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta. Er kveðið á um fésekt fyrir brot og er fjárhæð hennar látin miða við þá skattfjárhæð sem undan var dregin. Skal sektarfjárhæðin aldrei verða lægri en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð með undantekningu þó og er kveðið á um skilyrði hennar í lagaákvæðinu. Í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda er að finna sambærilegt ákvæði um staðgreiðsluskil ef „gjaldskyldur maður“ skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju sem máli skiptir. Þrátt fyrir reglu sem fram kemur í 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um að virða skuli til refsiþyngingar ef fleiri menn en einn hafa unnið refsivert verk í sameiningu, hefur Hæstiréttur túlkað nefnd refsiákvæði laga nr. 50/1988 og nr. 45/1987 þannig, að í þeim tilvikum, þar sem fleiri en einn fyrirsvarsmaður lögaðila er sakfelldur fyrir sameiginleg brot, skuli ákvæðunum um sektarlágmark beitt með þeim hætti að samanlögð sekt hinna ákærðu sé ekki undir hinu lögbundna lágmarki. Þessa lagaframkvæmd má finna í dómum Hæstaréttar 30. mars 2006 í máli nr. 428/2005, 7. júní 2007 í máli nr. 419/2006, 14. janúar 2010 í máli nr. 447/2009, 21. júní 2010 í máli nr. 751/2009 og fleiri dómum.
Það getur ekki verið hlutverk dómstóla í sakamáli sem höfðað hefur verið gegn einum manni að láta í ljós álit um að rétt hefði verið að sækja fleiri en hann til saka fyrir það brot sem honum er gefið að sök. Hins vegar verða dómstólar að gæta að því að sakborningur verði ekki látinn sæta þyngri refsingu en lög standa til. Við mat á þessu verður að miða við þá skýringu á lagaákvæðum um sektarlágmark sem Hæstiréttur hefur beitt í fyrri dómum sínum, sbr. það sem að framan segir um það efni. Vegna meginreglna íslensks réttar um jafnrétti, sbr. til dæmis 65. gr. stjórnarskrárinnar, á ákærði rétt á að verða ekki verr settur um refsiákvörðun en þeir sem á undan honum hafa verið sakfelldir fyrir brot gegn sömu lagaákvæðum. Verður þá að leysa úr þessu með þeim hætti að láta ákærða njóta góðs af því við ákvörðun sektar ef ekki er talið útilokað að annar maður hafi borið ábyrgð við hans hlið á þeim brotum sem hann er sakfelldur fyrir. Eins og þetta mál liggur fyrir er að mínum dómi ekki unnt að útiloka að sameigandi ákærða og stjórnarmaður í X ehf., fyrrverandi eiginkona hans, hafi verið samábyrg ákærða vegna þeirra brota sem hann er sakfelldur fyrir í málinu. Þó að í þessu máli verði ekkert fullyrt um sök hennar, verður að láta ákærða njóta vafa sem að þessu lýtur við ákvörðun sektar hans. Þar sem meirihluti dómara er á öðru máli um þetta tel ég ekki þörf á að kveða á um fjárhæð sektar þeirrar sem ég hefði talið hæfilega.
Þá tel ég að beita eigi um vararefsingu ákærða þeirri reglu sem beitt var í dómum Hæstaréttar 18. febrúar 1999 í málum nr. 288/1998, 323/1998 og 327/1998 en þeir eru birtir í prentuðu dómasafni réttarins árið 1999 á blaðsíðum 524, 544 og 550.
Ég er sammála meirihlutanum um sakarkostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. janúar 2010.
Mál þetta, sem var dómtekið 17. desember 2009, var höfðað með ákæru, útgefinni af ríkislögreglustjóranum 31. mars 2009, á hendur Ingibergi Oddssyni, kt.[..], [...]:
A.
Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins X ehf., kt. [...], sem ákærði Ingibergur var framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir, með því að hafa:
1. Staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl, maí-júní og júlí-ágúst 2006 og eigi á lögmæltum tíma, og hafa eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember 2006 og janúar til og með október 2007, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna júlí-ágúst og nóvember-desember 2006 og janúar-febrúar og júlí til og með október 2007, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð 8.459.391 kr., sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil
Árið 2006 |
Vantalin skattskyld velta |
Vangoldinn VSK: |
||
|
Mars-apríl Maí-júní Júlí-ágúst |
kr. kr. kr. |
0 0 -2.409.639 |
kr. kr. kr. |
0 0 1.179.096 |
|
September-október |
kr. |
7.860.035 |
kr. |
0 |
|
Nóvember-desember |
kr. |
8.108.828 |
kr. |
93.405 |
|
Samtals: |
kr. |
13.559.224 |
kr. |
1.272.501 |
|
|
|
|
|
|
|
Árið 2007 |
|
|
|
|
|
Janúar-febrúar |
kr. |
5.011.246 |
kr. |
627.569 |
|
Mars-apríl |
kr. |
0 |
kr. |
-24.205 |
|
Júlí-ágúst |
kr. |
25.297.992 |
kr. |
4.117.895 |
|
September-október |
kr. |
11.244.980 |
kr. |
2.465.631 |
|
Samtals: |
kr. |
41.554.218 |
kr. |
7.186.890 |
|
|
|
|
|
|
|
Samtals: |
kr. |
55.113.442 |
kr. |
8.459.391 |
2. Eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna janúar til og með mars 2007 og maí til og með ágúst 2007, hafa eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna apríl, október og nóvember 2007 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna desember 2006 til og með nóvember 2007, samtals að fjárhæð 7.830.433 kr., sem sundurliðast sem hér greinir:
Greiðslutímabil: Vangoldin staðgreiðsla:
|
Árið 2006 |
|
|
|
desember |
kr. 780.539 |
kr. 780.539 |
|
|
|
|
|
Árið 2007 |
|
|
|
janúar |
kr. 1.027.693 |
|
|
febrúar |
kr. 842.731 |
|
|
mars |
kr. 980.214 |
|
|
apríl |
kr. 343.290 |
|
|
maí |
kr. 525.329 |
|
|
júní |
kr. 643.245 |
|
|
júlí |
kr. 569.629 |
|
|
ágúst |
kr. 322.919 |
|
|
september |
kr. 327.784 |
|
|
október |
kr. 772.721 |
|
|
nóvember |
kr. 694.339 |
kr. 7.049.894 |
|
|
Samtals |
kr. 7.830.433 |
B.
Á hendur Ingibergi fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum, framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi ákærða, með því að hafa:
1. Staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2007, vegna tekna árið 2006, sem skattskyldar eru samkvæmt 1. tölulið a-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars samtals að fjárhæð 2.011.630 kr. og sundurliðast sem hér greinir:
|
Rekstrarárið 2006 |
|
|
|
Rekstrartekjur: |
kr. |
11.599.801 |
|
Rekstrargjöld: |
kr. |
6.130.442 |
|
Tekjuskattsstofn samkvæmt rannsókn: |
kr. |
5.469.359 |
|
|
|
|
|
Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: |
kr. |
5.469.359 |
|
|
|
|
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 23,75% |
kr. |
1.298.973 |
|
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 13,03% |
kr. |
712.657 |
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals: |
kr. |
2.011.630 |
2. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna frá janúar til og með október 2006 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans, framangreind uppgjörstímabil, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð 2.346.337 kr., sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil
Árið 2006 |
Vantalin skattskyld velta |
Vangoldinn VSK: |
||
|
Janúar-febrúar |
kr. |
1.614.458 |
kr. |
165.812 |
|
Mars-apríl |
kr. |
5.228.916 |
kr. |
1.142.274 |
|
Maí-júní |
kr. |
3.007.230 |
kr. |
610.057 |
|
Júlí-ágúst |
kr. |
1.749.197 |
kr. |
428.194 |
|
|
|
|
|
|
|
Samtals: |
kr. |
11.599.801 |
kr. |
2.346.337 |
3. Fyrir meiri háttar brot gegn bókhaldslögum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sinnar á rekstrarárinu 2006.
Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. og 2. tölulið A-hluta ákæru og 1. og 2. tölulið B-hluta eru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið A-hluta og 2. tölulið B-hluta ákæru.
b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið A-hluta ákæru.
c) 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 107. gr. laga nr. 129/2004 að því er varðar 1. tölulið B-hluta ákæru.
Framangreind brot ákærða samkvæmt 3. tölulið B-hluta ákæru eru talin varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði gerir aðallega kröfu um að ákærunni eða einstökum liðum hennar verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara gerir hann kröfu um að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa í öllum ákæruliðum. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfileg málsvarnarlaun sér til handa og að málsvarnarlaunin sem og allur annar sakarkostnaður málsins verði greiddur úr ríkissjóði. Með úrskurði dómsins 30. september 2009 var frávísunarkröfu ákærða hafnað.
I.
Málsatvik eru þau að hinn 14. janúar 2008 hófst rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skilum afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda hjá X ehf., sem ákærði var framkvæmdastjóri fyrir, og 11. febrúar sama ár hófst rannsókn á hendur ákærða á bókhaldi og skattskilum hans.
Ákærði var yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra 24. janúar 2008 þar sem hann lýsti því m.a. að hann væri starfsmaður og framkvæmdastjóri X ehf. Hann og A, eiginkona hans, hefðu séð í sameiningu um daglegan rekstur félagsins. A hefði séð um færslu bókhalds, skilagreiðslu og launaútreikninga. Við yfirheyrslu á A hinn 24. janúar 2008 kvaðst hún hafa séð um daglegan rekstur félagsins ásamt ákærða og bróður hans, en sá síðarnefndi hefði hætt afskiptum af félaginu sumarið 2007. Hún kvaðst hafa fært bókhaldið en um tíma hafi C viðskiptafræðingur gert það. Einnig sagðist hún hafa annast launaútreikning og útreikning staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið.
Skýrsla skattrannsóknarstjóra vegna rannsóknar málsins var send ríkisskattstjóra og með úrskurði hans 16. september 2008 voru endurákvörðuð opinber gjöld og virðisaukaskattur á ákærða með álagi. Þá kvað ríkisskattstjóri upp úrskurð í máli X ehf. hinn 4. nóvember 2008 um breytingu á virðisaukaskatti og beitingu álags.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra, dags. 10. október 2008, var málið sent efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra til refsimeðferðar. Kærðir voru ákærði og A, þáverandi eiginkona hans. Skattaðilar voru X ehf. og ákærði.
Ákærði var yfirheyrður hjá ríkislögreglustjóra 19. janúar 2009 þar sem hann var inntur eftir því hver eða hverjir hefðu annast daglega fjármálastjórn félagsins og borið ábyrgð á hvers konar skattskilum. Hann kvaðst sjálfur hafa, sem framkvæmdastjóri félagsins, tekið allar ákvarðanir um fjármálastjórn, þ.e. um hvað hefði verið greitt og hvað ekki. Hann bæri því fulla ábyrgð á öllum skattskilum. Spurður um aðkomu A lýsti hann því að hún hefði annast almenn skrifstofustörf fyrir félagið, en ekkert haft með neinar ákvarðanir að gera varðandi ráðstöfun fjár, en þær hefði hann annast.
II.
Ákærði lagði fram skriflega greinargerð í málinu. Ákærði telur, hvað varðar 2. tl. A-hluta ákæru, að líta beri til þess að af gögnum málsins verði ráðið að nokkurri fjárhæð hafi verið ráðstafað til greiðslu opinberra gjalda X ehf. Af dómum Hæstaréttar, m.a. í dómasafni árið 2000, bls. 2387, og dómi réttarins frá 2. október 2003, í málinu nr. 27/2003, megi ráða að taka beri tillit til greiðslna aðila á opinberum gjöldum við meðferð mála sem þessara. Ákærði vísar sérstaklega í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar frá 15. janúar 1999, í málinu nr. 20/1999, en í því máli hafi verið við ákvörðun vangreiddra fjárhæða m.a. tekið tillit til innborgunar sem innheimtumaður ríkissjóðs hafði ráðstafað inn á opinber gjöld skattaðila.
Ákærði mótmælir því að brot samkvæmt B-hluta ákærunnar varði við 262. gr. almennra hegningarlaga. Fjárhæðir séu óverulegar, hin meintu brot varði stuttan tíma og hafi ekki verið framin með sérstaklega vítaverðum hætti í skilningi ákvæðisins, né við aðstæður sem auki mjög saknæmi brotsins. Þá sé ekki um ítrekun að ræða. Um þetta megi m.a. vísa til dómasafns Hæstaréttar árið 2000, bls. 3371 og dóma Hæstaréttar 18. apríl 2002, í málinu nr. 29/2002 og 15. júní 2006, í málinu nr. 38/2006.
Ákærði bendir sérstaklega á, vegna 1. töluliðar B-hluta ákæru, að á því sé byggt af hálfu ákæruvaldsins í ákæru að ákærði hafi staðið skil á efnislega röngu skattframtali og með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars, svo sem byggt sé á í verknaðarlýsingu í ákæru. Af úrskurði ríkisskattstjóra á málsskjali nr. I.2.2 verði hins vegar skýrlega ráðið að álagning opinberra gjalda ákærða gjaldárið 2007, vegna tekjuársins 2006, hafi ekki verið byggð á ætluðu efnislega röngu skattframtali ákærða, líkt og verknaðarlýsing í ákæru gangi út á, heldur á áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við endurákvörðun ríkisskattstjóra á skattstofnum ákærða lækkaði þannig stofn til álagningar tekjuskatts- og útsvars ákærða umtalsvert. Verknaðarlýsing í ákæru sé þannig röng.
Þá vekur ákærði athygli á því að í kæru C, f.h. ákærða, til ríkisskattstjóra, vegna áætlunar á álagningu áranna 2005 og 2006 (framtöl 2006 og 2007), sé gengið út frá skiptingu á framtali tekna ákærða á tvö skattframtöl, fyrir og eftir það tímamark er ákærði gekk í hjúskap, svo sem heimilt sé að lögum.
Í þessu sambandi vísar ákærði enn fremur til 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sem miði refsiákvörðun við fésektir er aldrei skuli nema lægri fjárhæð en tvöfaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem á vantar ef áætlun reynist of lág við endurreikning skatts. Að öðrum kosti komi þá ekki til fésektarákvörðunar, þ.e. hafi áætlun verið nægilega há í upphafi. Líkt og áður segir sætti ákærði augljóslega áætlun við upphaflega álagningu skatts af hálfu skattstjóra, en sætti síðan lækkun álagningarinnar við endurákvörðun ríkisskattstjóra, þannig að áætlun skattstofna reyndist ekki of lág, heldur of há.
Um 2. tl. B-hluta ákæru segir ákærði að algerlega ófullnægjandi rannsókn hafi átt sér stað af hálfu lögreglu vegna krafna sem ekki hafi fengist innheimtar og tapast í rekstrinum. Í stað þess að ganga úr skugga um hvort kröfur þessar hafi í reynd fengist greiddar með rannsókn hjá viðkomandi viðskiptamanni, D ehf., hafi verið látið við það sitja af hálfu lögreglu að prenta út úr vanskilaskrá Creditinfo upplýsingar um stöðu þessa félags. Í greinargerð ákærða áskilur hann sér rétt til að afla og leggja fram gögn varðandi hinar töpuðu kröfur.
Varðandi 3. tölulið B-hluta ákæru segir ákærði að smærri rekstraraðilum hafi í framkvæmd verið játaður rúmur réttur til færslu bókhalds og gerðar ársreiknings þannig að vinnu sé þá fyrst lokið nokkru eftir lok rekstrarárs. Megi í þessu sambandi vísa til dóms Héraðsdóms Reykjaness 16. febrúar 2000, í málinu nr. S-1343/1999. Færslu bókhalds ákærða hafi að fullu verið lokið, en það verið afhent skattrannsóknarstjóra ríkisins 22. febrúar 2008. Eins og áður hefur verið rakið var mál þetta höfðað með ákæru, útgefinni af ríkislögreglustjóranum 31. mars 2009, á hendur ákærða.
III.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði greindi frá því að hann hefði verið framkvæmdastjóri X ehf. Ákærði sagði að hann hefði ekki borið ábyrgð á ákvörðunum varðandi fjármálastjórn og skattskil, heldur A. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu um að A hefði annast almenn skrifstofustörf og ekki tekið neinar ákvarðanir varðandi ráðstafanir fjár, en hann hefði annast þær. Ákærði svaraði því til að við skýrslutökuna hefði hann ráðfært sig við rannsóknarann og spurt hvort hugsanlegt væri að þau yrðu bæði dæmd í fangelsi. Rannsóknarinn hefði sagt að það væri aldrei að vita hvernig það færi. Ákærði hefði þá sagt að hann vildi taka alla ábyrgð á sig, þar sem hann vildi ekki að þau færu bæði í fangelsi, barna þeirra vegna. Ákærði kvaðst hafa rætt þetta nokkrum sinnum við rannsóknarann. Þá sagði ákærði að rannsóknarinn hefði sagt að ákærði þyrfti ekki verjanda vegna skýrslutökunnar en hann gæti það ef hann vildi. Inntur eftir því hvort ákærði hefði ekki borið einhverja ábyrgð sem framkvæmdastjóri kvaðst hann ekkert hafa séð um bókhald og ákvarðanir verið teknar sameiginlega. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað hann væri að fara út í sem framkvæmdastjóri. Fram kom hjá ákærða að hann og A væru skilin. Aðspurður hvort það væri skýringin á breyttum framburði ákærða svaraði hann því játandi og sagði jafnframt að rétt skuli vera rétt. Inntur eftir því hvort það hefði aldrei hvarflað að honum að sem framkvæmdastjóra bæri honum að sjá um þessa hluti svaraði hann neitandi. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem hann kveðst bera ábyrgð á því að virðisaukaskattsskýrslum hefði ekki verið skilað á árinu 2006 og 2007 og hann hefði reynt að senda rafrænar skýrslur sem hefðu ekki komist til skila, en hann hefði haldið að þær hefðu skilað sér. Um þetta sagði ákærði að hann hefði við skýrslutökuna hjá lögreglu hringt í A og spurt hana um ýmis atriði varðandi skil á skýrslum. Spurður hvort það væri rétt að staðin hefðu verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum, sbr. 1. tl. A-hluta ákærunnar, kvaðst ákærði ekki geta svarað því eða öðrum ákæruliðum.
Vitnið E rannsóknarlögreglumaður kvaðst ekki muna sérstaklega eftir skýrslu sem vitnið tók af ákærða. Vitnið sagði hins vegar að á löngum starfsferli sínum hefði vitnið aldrei ráðið nokkrum frá því að hafa verjanda. Vitnið kvaðst þess vegna neita því að hafa ráðið ákærða frá því að hafa verjanda. Um ástæðu þess að ekki var tekin skýrsla af A hjá lögreglu lýsti vitnið því að það hefði staðið til að gera það þar sem þau hefðu bæði verið kærð. Þegar ákærði hafi verið búinn að gefa skýrslu hjá lögreglu og sagt að hann hefði tekið allar ákvarðanir um fjármálastjórn, þ.e. hvað hafi verið greitt og hvað ekki, þótti ekki ástæða til að taka skýrslu af henni. Ákærði hefði sagt að hann bæri alla ábyrgð af hálfu félagsins á öllum skattskilum félagsins á umræddum tímabilum. Þá hefði ákærði verið spurður um störf A og svarað því til að hún hafi annast almenn skrifstofustörf fyrir félagið og ekkert haft með neinar ákvarðanir að gera um ráðstöfun fjár. Þau mál hafi ákærði annast. Vegna þessa afgerandi framburðar ákærða hefði vitnið metið það svo að ekki væri tilefni til að yfirheyra hana.
Vitnið A greindi frá því að hún hefði verið stjórnarmaður í X ehf. á árunum 2006 og 2007. Vitnið kvaðst hafa séð um bókhaldið, nánar tiltekið fjárhagsbókhaldið og skil á skatt- og virðisaukaskýrslum ásamt launaútreikningi. Ákærði hefði eiginlega ekkert komið að bókhaldinu. Um það hvort ákærði hefði ekki sinnt skyldum sínum sem framkvæmdastjóri sagði vitnið að þegar félagið hefði verið stofnað hafi það verið gert hjá endurskoðanda og þeim ekkert verið sagt um hvaða ábyrgðir og skyldur það fæli í sér. Ákærði hefði séð um almennan rekstur út á við en vitnið um bókhaldið. Vitnið sagði að þau hefðu ekki gert sér grein fyrir skyldum sínum og ábyrgð. Borinn var undir vitnið framburður ákærða hjá lögreglu um að hann hefði sem framkvæmdastjóri tekið allar ákvarðanir um fjármálastjórn, þ.e. hvað væri greitt og hvað ekki. Þá hefði hann sagt að vitnið hefði annast öll almenn skrifstofustörf. Aðspurt hvort þetta væri rétt kvaðst vitnið hafa séð um bókhald og skrifstofustörf. Þegar vitnið var spurt um aðkomu sína að fjármálastjórn sagði hún að þau hefðu verið með vitlausa forgangsröðun og látið launin ganga fyrir sköttum. Um það hvort þetta hefði verið sameiginleg ákvörðun vitnisins og ákærða sagði hún „já og nei“. Þau hefðu viljað að „strákarnir“ fengju sín laun og þá hafi yfirleitt verið lítið fé eftir. Vitnið sagði að þau hefðu ekki gert sér grein fyrir mikilvægi þess að láta vörsluskatta ganga fyrir.
IV.
Í A-hluta ákærunnar eru ákærða gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins X ehf. Þá eru ákærða í B-hluta ákærunnar gefin að sök meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi ákærða.
Ákærði var framkvæmdastjóri X ehf. á þeim tímabilum sem um ræðir í A-hluta ákæru. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 bar ákærða að annast daglegan rekstur félagsins. Í því felst m.a. að sjá til þess að staðin væru skil á opinberum gjöldum og að bókhald væri fært í samræmi við lög og venjur. Ákærði getur ekki borið fyrir sig vanþekkingu á skyldu sinni eða varpað ábyrgð sinni á þáverandi eiginkonu sína, A. Ákærði lýsti því hjá lögreglu að hann beri einn ábyrgð á brotum þeim sem ákært er fyrir og þegar litið er til vitnisburðar A fyrir dómi og stöðu hennar hjá félaginu verður það ekki talinn annmarki á málinu að hún hafi ekki sætt ákæru. Með vísan til framangreinds verður ákærði talinn bera refsiábyrgð vegna þeirra brota sem ákært er fyrir í A-hluta ákærunnar og eru þau rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Þá ber ákærði refsiábyrgð vegna brota sem framin voru í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans, sbr. B-hluti ákæru. Ákærði telur að verknaðarlýsing í 1. tl. B-hluta ákæru sé röng, þar sem álagning opinberra gjalda ákærða gjaldárið 2007 hafi ekki verið byggð á ætluðu efnislega röngu skattframtali ákærða heldur á áætlun skattstjóra á skattstofnum sem hafi reynst of há. Samkvæmt gögnum málsins skilaði ákærði efnislega röngu skattframtali og er hann því sekur um refsiverða háttsemi. Ákærði er þannig sakfelldur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2007, vegna tekna árið 2006, samtals 2.011.630 krónum, sbr. 1. tl. B-hluta ákæru. Þá stóð hann eigi skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilum á virðisaukaskatti, samtals 2.346.337 krónum, sbr. 2. tl. B-hluta ákæru. Alls er um að ræða 4.357.967 krónur. Að þessu virtu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 327/1998 verður að telja brot ákærða í heild sinni meiri háttar. Einnig verður ákærði sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn bókhaldslögum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa tilskilið bókhald á rekstrarárinu 2006. Ákærði afhenti skattrannsóknarstjóra bókhaldið í febrúar 2008. Ekki er unnt að játa ákærða svo rúman rétt til að færa tilskilið bókhald sem raun er á. Samkvæmt framansögðu eru brot ákærða samkvæmt B-hluta ákæru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í mars 1973. Samkvæmt sakavottorði ákærða hlaut hann fjórum sinnum refsingu fyrir umferðarlagabrot á árinu 2000. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu í máli þessu. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að brot ákærða teljast stórfelld. Hvað varðar málsvörn ákærða vegna 2. tl. A-hluta ákæru, um að við refsiákvörðun beri að taka tillit til greiðslna á opinberum gjöldum, verður að líta til þess að samkvæmt yfirliti ríkislögreglustjóra í rannsóknargögnum málsins, um afdregna staðgreiðslu skatta af launþegum X ehf., er ekki um að ræða innborganir og ráðstafanir á þeim hjá innheimtumanni ríkissjóðs inn á skuldina. Hins vegar var um að ræða greiðslur og ráðstöfun þeirra hjá innheimtumanni ríkissjóðs vegna skuldar á virðisaukaskatti 2007, sbr. 1. tl. A-hluta ákæru. Vegna athugasemda ákærða um ætlaðar tapaðar kröfur ber að líta til þess að við rannsókn málsins var gjaldfærni skuldara könnuð með athugun í vanskilaskrá. Þá greindi ákærði frá því við skýrslutöku lögreglu að tilraunir hans til að innheimta kröfurnar hefðu verið árangurslausar. Ákærði hefur ekki lagt fram gögn um ætlaðar tapaðar kröfur, eins og hann hafði uppi áskilnað um í greinargerð sinni. Tapaðar kröfur hafa því ekki áhrif á refsiákvörðun hér. Hins vegar ber að nokkru að taka tillit til þess sem fram hefur komið í málsvörn ákærða um 1. tl. B-hluta ákæru.
Að öllu þessu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði, sem verður bundin skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærða jafnframt gerð sekt. Brot ákærða lúta einkum að því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Rétt þykir með hliðsjón af dómaframkvæmd að miða sekt við lögbundið lágmark, eða tvöfalda skattfjárhæð af skattstofni, að öðru leyti en því sem varðar brot ákærða um skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum tímabilið mars-ágúst 2006, sbr. 1. tl. A-hluta ákæru, þar sem miðað verður við þrefalda skattfjárhæð af skattstofni. Samkvæmt framansögðu þykir sekt ákærða hæfilega ákveðin 42.000.000 króna, en um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað málsins. Um er að ræða þóknun verjanda ákærða sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 367.275 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Ingibergur Oddsson, sæti fangelsi í sjö mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 42.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs. Verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa skal ákærði sæta í hennar stað fangelsi í sex mánuði.
Ákærði greiði í sakarkostnað 367.275 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Garðars G. Gíslasonar héraðsdómslögmanns.