Hæstiréttur íslands

Mál nr. 312/2004


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Opinberir starfsmenn
  • Dráttur á máli
  • Skilorð


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. janúar 2005.

Nr. 312/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Valgeiri Valdimarssyni

(Reimar Pétursson hrl.)

 

Fjárdráttur. Opinberir starfsmenn. Dráttur á máli. Skilorð.

V, sem gegndi starfi forstöðumanns ríkisstofnunar, var sakfelldur fyrir að hafa í 67 tilvikum dregið sér af fé stofnunarinnar, samtals um tvær milljónir krónur. Var refsing V ákveðin fangelsi í átta mánuði. Þar sem alls óviðunandi dráttur varð á rannsókn málsins, sem hafði með engu verið réttlættur, og V hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi var fullnustu fimm mánaða af refsingunni frestað skilorðsbundið í tvö ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af þeim liðum ákæru, sem hann gekkst ekki við en var sakfelldur fyrir í héraðsdómi, svo og að refsing verði milduð.

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun ákærði hafa verið skipaður framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins af menntamálaráðherra 1. september 1998. Vorið 2001 tók ríkisendurskoðun bókhald og fjárreiður stofnunarinnar til athugunar, þar sem í ljós hafði komið við skil bókhaldsgagna vegna ársins 2000 að uppgjör tékkareiknings hafi verið ófullnægjandi og fylgiskjöl vantað fyrir fjölmörgum útborgunum af honum. Ákærði mun hafa látið af starfi að eigin ósk 4. maí 2001. Ríkisendurskoðun sendi menntamálaráðherra 16. júlí 2001 greinargerð um athugun sína, sem tók til tímabilsins frá ársbyrjun 1999 til þess dags, sem ákærði hætti störfum. Í niðurstöðum greinargerðarinnar sagði að athugunin hefði leitt í ljós að ákærði sýndist bæði hafa dregið sér fé frá Íslenska dansflokkum og lánað sér án heimildar, en til að dylja úttektir hafi hann útbúið reikninga. Hann hafi einnig fært kostnað, sem sneri að honum sjálfum, til gjalda hjá stofnuninni, auk þess að nota nafn hennar til að afla sér fyrirgreiðslu. Taldi ríkisendurskoðun ákærða hafa á þennan hátt tekið til sín samtals 2.702.078 krónur.

Menntamálaráðherra sendi 19. júlí 2001 greinargerð ríkisendurskoðunar til ríkissaksóknara, sem degi síðar fól ríkislögreglustjóra rannsókn málsins. Hjá þeim síðastnefnda voru teknar skýrslur af ákærða 21. og 22. maí 2003, svo og af einu vitni 3. júlí sama ár. Að lokinni rannsókn 30. október 2003 endursendi ríkislögreglustjóri málið ríkissaksóknara, sem gaf út ákæru 9. janúar 2004. Í henni var ákærða gefinn að sök fjárdráttur í opinberu starfi með því að hafa í 78 nánar greindum tilvikum dregið sér af fé Íslenska dansflokksins samtals 2.348.442 krónur. Fyrir héraðsdómi gekkst ákærði við sakargiftum samkvæmt 56 liðum ákærunnar, sem vörðuðu samtals 1.607.009 krónur, en neitaði á hinn bóginn sök í 22 tilvikum. Var þar um að ræða 1. til og með 5. lið ákærunnar, sem mynduðu A. kafla hennar, liði 6, 8, 9, 11, 12 og 15, sem heyrðu til B. kafla, liði 20 til og með 22 og 26 til og með 32, sem voru í C. kafla ákærunnar, og lið 66 í F. kafla hennar. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af síðastnefndum ákærulið, sem varðaði greiðslu að fjárhæð 9.067 krónur, en sakfelldur að öðru leyti. Af hálfu ákæruvaldsins er unað við niðurstöðu héraðsdóms um þetta, en ákærði krefst sem fyrr segir sýknu af þeim liðum ákæru, sem hér var getið og hann var sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi.

II.

Fyrir Hæstarétti er ekki til endurskoðunar sakfelling ákærða fyrir brotin, sem hann gekkst við í héraði. Stendur hinn áfrýjaði dómur því óraskaður varðandi þau.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt 1., 2., 3., 4. og 5. lið ákæru, svo og 6. og 8. lið hennar.

Í 9., 11., 12. og 15. lið ákæru er ákærði sakaður um að hafa dregið sér alls 221.366 krónur í tengslum við ferðalög erlendis á vegum Íslenska dansflokksins. Í hinum áfrýjaða dómi er lýst nánari atvikum varðandi 9. lið ásamt skýringum ákærða, en í umfjöllun um 11. og 12. lið er þar að nokkru vísað til þess, sem segir um 9. lið varðandi afstöðu hans. Loks er í héraðsdómi lýst sömu atriðum varðandi 15. lið. Í niðurstöðum dómsins eru teknir í einu lagi til meðferðar 11., 12. og 15. liður ákæru, en ekki er vikið þar að 9. lið. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því borið við af hálfu ákæruvaldsins að hér sé bersýnileg ritvilla í hinum áfrýjaða dómi, enda ljóst af öðru því, sem þar komi fram, að niðurstaðan hafi í senn átt að taka til 9. liðar ákæru og 11., 12. og 15. liðar. Af hálfu ákærða var því lýst yfir að ekki væru gerðar athugasemdir við þennan málatilbúnað ákæruvaldsins. Að þessu virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um 11., 12. og 15. lið ákæru, sem tekur samkvæmt framansögðu jafnframt til saka, sem ákærði er borinn í 9. lið hennar.

Í C. kafla ákæru er ákærði sakaður um að hafa á tímabilinu 19. nóvember 1999 til 10. febrúar 2000 dregið sér samtals 512.000 krónur með þrettán greiðslum, sem taldar eru upp í 20. til og með 32. lið hennar og allar skýrðar í bókhaldsgögnum Íslenska dansflokksins sem greiðslur til erlends manns að nafni Jochen Ulrich. Ákærði hefur gengist við sakargiftum í 23., 24. og 25. lið ákæru, sem varða fjárdrátt á samtals 220.000 krónum, en neitar að öðru leyti sök samkvæmt þessum kafla hennar.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi liggur fyrir í málinu samningur, sem ákærði gerði fyrir hönd Íslenska dansflokksins 9. nóvember 1999 við Jochen Ulrich um sýningarrétt að tilteknu dansverki hans, en fyrir þetta bar honum að fá greidd samtals 25.000 þýsk mörk, að þriðjungi við undirritun samningsins, að þriðjungi 1. desember 1999 og eftirstöðvarnar 10. febrúar 2000. Átti Jochen Ulrich að taka þátt í undirbúningi sýninga dansflokksins á verkinu, en kostnað af ferðum til og frá landinu vegna þessa og gistingu hér skyldi hann sjálfur bera. Samkvæmt gögnum málsins var Jochen Ulrich greitt frá ríkisféhirði jafnvirði 316.500 króna 16. nóvember 1999 og 318.170 króna 11. janúar 2000, en óumdeilt er að þetta séu tvær fyrstu greiðslurnar, sem honum báru eftir samningnum. Þá liggur fyrir að ríkisféhirðir greiddi í þágu Íslenska dansflokksins í desember 1999 fyrir tvo flugfarseðla vegna sama manns, alls 106.800 krónur, og í febrúar 2000 gistikostnað að fjárhæð 120.589 krónur. Samkvæmt því hefðu staðið eftir ógreiddar um 90.000 krónur af þeirri þóknun, sem Íslenska dansflokknum bar að greiða Jochen Ulrich. Í málatilbúnaði ákæruvaldsins er byggt á því að þessi mismunur hafi verið gerður upp með tveimur greiðslum af tékkareikningi Íslenska dansflokksins, annars vegar tékka að fjárhæð 42.000 krónur, sem innleystur var í banka 9. nóvember 1999 af nafngreindum starfsmanni dansflokksins, og hins vegar millifærslu á 40.000 krónum 7. janúar 2000 inn á bankareikning þess sama. Fyrir þessu tvennu liggja kvittanir, sem virðast undirritaðar af Jochen Ulrich, en starfsmaðurinn, sem hér átti í hlut, kvaðst hafa látið hann fá þessar fjárhæðir í peningum eftir að hafa fengið þær á þennan hátt í hendur.

Greiðslur til Jochen Ulrich virðast í þrettán öðrum tilvikum en hér að framan greinir hafa verið færðar í bókhaldsgögnum Íslenska dansflokksins, en þar er um að ræða samtals 512.000 krónur, sem ákærði er sakaður um að hafa dregið sér samkvæmt C. kafla ákæru. Sem fyrr segir neitar ákærði sök í tíu tilvikum. Í þremur þeirra, sem varða samtals 72.000 krónur, var greitt með tékkum, sem ákærði innleysti í banka, en fyrir greiðslunum eru kvittanir, sem virðast vera undirritaðar af Jochen Ulrich á sama hátt og kvittanirnar 9. nóvember 1999 og 7. janúar 2000, sem áður var getið. Í hinum tilvikunum sjö virðast hafa verið útbúnar kvittanir í nafni sama manns, sem hann ritaði þó ekki undir. Í þremur þeirra var greitt með tékkum, sem ákærði innleysti í banka, í þremur öðrum með millifærslu inn á bankareikning hans og í einu tilviki með úttekt af bankareikningi Íslenska dansflokksins, sem ákærði kvittaði fyrir. Jochen Ulrich gaf hvorki skýrslu við meðferð málsins fyrir dómi né lögreglurannsókn. Liggur því ekkert fyrir af hans hálfu um hvort hann hafi tekið við fénu, sem hér um ræðir, eða greiðslunum 9. nóvember 1999 og 7. janúar 2000, sem ákæruvaldið miðar þó í málatilbúnaði sínum við að hann hafi fengið. Af þeim gögnum, sem liggja fyrir um þetta efni og áður er lýst, er því ófært að telja sannað gegn neitun ákærða að hann hafi gerst sekur um þau brot, sem 20. liður til og með 22. og 26. til og með 32. lið ákæru taka til. Verður hann því að þessu leyti sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

III.

Samkvæmt framansögðu er ákærði sakfelldur fyrir brot samkvæmt 67 liðum í ákæru, sem varða fjárdrátt á samtals 2.047.375 krónum. Brot þessi eru réttilega heimfærð í ákæru til 247. gr., sbr. 138. gr. og 141. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 54/2003. Við ákvörðun refsingar verður að taka tillit til þeirrar fjárhæðar, sem ákærði dró sér, en hann hefur að engu leyti bætt tjón af brotum sínum. Fjöldi þeirra var mikill, þau voru drýgð skipulega á rúmum tveimur árum og í mörgum tilvikum var það gert með aðferðum, sem báru með sér eindreginn ásetning til brots. Með þessari háttsemi allri misnotaði ákærði sér alvarlega þann trúnað, sem honum var sýndur sem forstöðumanni ríkisstofnunar. Hann hefur á hinn bóginn ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo að kunnugt sé og við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi játaði hann hreinskilnislega verulegan hluta þeirra brota, sem hann var sakaður um. Að þessu virtu er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði.

Eins og áður var getið fól ríkissaksóknari ríkislögreglustjóra rannsókn málsins með bréfi 20. júlí 2001, en því fylgdi greinargerð ríkisendurskoðunar, þar sem greint var í meginatriðum frá þeirri háttsemi ákærða, sem síðar varð tilefni ákæru. Málið barst ekki ríkissaksóknara á ný fyrr en með bréfi ríkislögreglustjóra 30. október 2003. Á þeim tíma hafði verið aflað nokkurs fjölda gagna, sem ekki lágu fyrir við athugun ríkisendurskoðunar, einkum frá viðskiptabanka Íslenska dansflokksins, en annars teknar tvær skýrslur af ákærða og skýrsla af einu vitni. Miðað við þetta umfang rannsóknarinnar varð alls óviðunandi dráttur á framkvæmd hennar, sem hefur með engu verið réttlættur. Að þessu virtu og því að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi verður hluti refsingar hans bundinn skilorði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Um áfrýjunarkostnað málsins fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Ákærði, Valgeir Valdimarsson, sæti fangelsi í átta mánuði. Fresta skal fullnustu fimm mánaða af þeirri refsivist og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talið af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns, sem samtals eru ákveðin 250.000 krónur. Áfrýjunarkostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. maí sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 9. janúar 2004, á hendur Valgeiri Valdimarssyni, kt. 140172-5379, Aðallandi 6, Reykjavík, fyrir fjárdrátt í opinberu starfi sem framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins á árunum 1999, 2000 og 2001, sem hér greinir:

A.

Með því að hafa á árinu 1999 dregið sér af tékkareikningi dansflokksins nr. 313-26-5701 í Búnaðarbanka Íslands, Háaleitisútibúi, Suðurlandsbraut 2, Reykjavík, með millifærslum og útgáfu ávísana, samtals kr. 155.000, sem ákærði skýrði sem fyrirframgreidd laun og sundurliðast þannig:

1. 24.03.99 kr.  50.000

2.          26.04.99           kr.        20.000

3.          15.06.99           kr.        50.000

4.          21.06.99           kr.        25.000

5.          16.09.99           kr.        10.000

B.

Með því að hafa á árunum 1999 og 2000, dregið sér og notað í eigin þágu kr. 375.566 af sama tékkareikningi nr. 5701, sem hér greinir:

6.                      22.09.99           kr.        60.000

7.                      22.10.99           kr.        2.000

8.                      28.10.99           kr.        4.000

9.                      28.02.00           kr.        17.555

10.                    28.04.00           kr.        2.330

11.                    27.06.00           kr.        24.774

12.                    12.07.00           kr.        79.970

13.                    21.08.00           kr.        4.000

14.                    23.08.00           kr.        4.000

15.                    28.06.00           kr.        99.067

16.                    29.08.00           kr.        3.700

17.                    27.09.00           kr.        2.960

18.                    23.10.00           kr.        10.800

19.                    29.11.00           kr.        60.410

C.

Með því að hafa frá nóvember 1999 til febrúar 2000 með útgáfu átta ávísana og fimm millifærslum dregið sér og notað í eigin þágu kr. 512.000 af sama tékkareikningi nr. 5701, og ranglega skýrt þær úttektir sem launagreiðslur til Jochen Ulrich. Fjárhæðin sundurliðast þannig:

20.        19.11.99           kr.        20.000

21.        23.11.99           kr.        12.000

22.        30.11.99           kr.        40.000

23.        13.12.99           kr.        40.000

24.        10.01.00           kr.        100.000

25.        13.01.00           kr.        80.000

26.        19.01.00           kr.        40.000

27.        19.01.00           kr.        50.000

28.        25.01.00           kr.        50.000

29.        31.01.00           kr.        30.000

30.        04.02.00           kr.        10.000

31.        07.02.00           kr.        20.000

32.        10.02.00           kr.        20.000

D.

Með því að hafa frá því í október 1999 til desember 2000 dregið sér kr. 744.810 af tékkareikningi nr. 5701 útbúið og notað sem fylgiskjöl í bókhaldi dansflokksins 23 tilhæfulausa reikninga, 22 í nafni fyrirtækisins Smith, Smith & Smith samtals kr. 689.810 og einn í nafni Valgarðs Bragasonar að fjárhæð kr. 55.000.  Fjárhæðin sundurliðast sem hér greinir:                                                                

33.        15.10.99           kr.        20.000

34.        10.02.00           kr.        30.000

35.        5.03.00 kr.        55.000

36.        17.03.00           kr.        65.000

37.        28.04.00           kr.        20.000

38.        12.05.00           kr.        30.000

39.        19.05.00           kr.        20.000

40.        25.05.00           kr.        80.000

41.        23.06.00           kr.        50.000

42.        25.07.00           kr.        22.000

43.        26.07.00           kr.        22.000

44.        17.08.00           kr.        20.000

45.        25.08.00           kr.        75.000

46.        22.09.00           kr.        28.000

47.        29.09.00           kr.        21.500

48.        13.10.00           kr.        20.715

49.        13.10.00           kr.        78.000

50.        26.10.00           kr.        7.500

51.        08.12.00           kr.        18.000

52.        11.12.00           kr.        9.735

53.        18.12.00           kr.        15.660

54.        18.12.00           kr.        12.000

55.        22.12.00           kr.        24.700

E.

Með því að hafa dregið sér kr. 147.900 sem voru greiðslur til Íslenska dansflokksins frá Leikfélagi Reykjavíkur fyrir sölu á leikskrám og fleiru, og sundurliðast þannig:

56.        des.    99          kr.        42.700

57.        29.04.00           kr.        88.000

58.        19.11.00           kr.        17.200

 

F.

Með því að hafa á árinu 2001 dregið sér kr. 356.046 af  tékkareikningi nr. 5701, með því að gefa út 19 tékka sem hann notaði til greiðslu eigin útgjalda sem hér greinir:

59.        03.01.01           kr.        10.800

60.        19.01.01           kr.        1.190

61.        19.01.01           kr.        40.000

62.        23.01.01           kr.        42.000

63.        07.02.01           kr.        21.000

64.        15.02.01           kr.        30.000

65.        19.02.01           kr.        3.240

66.        02.03.01           kr.        9.067

67.        14.03.01           kr.        68.000

68.        20.03.01           kr.        75.000

69.        27.03.01           kr.        3.995

70.        27.03.01           kr.        8.995

71.        27.03.01           kr.        2.500

72.        05.04.01           kr.        5.000

73.        05.04.01           kr.        2.099

74.        05.04.01           kr.        3.000

75.        06.04.01           kr.        7.500

76.        20.04.01           kr.        13.550

77.        29.04.01           kr.        9.110

G.

78.        Með því að hafa í febrúarmánuði 2001 dregið sér kr. 57.120 af  kr. 132.120 sem hann millifærði af tékkareikningum Íslenska dansflokksins nr. 5701 í Búnaðarbanka og nr. 4600 í Landsbanka Íslands, inn á eigin tékkareikning dagana 5., 8. og 23. febrúar. Af úttektum þessum greiddi ákærði tveimur erlendum starfsmönnum dansflokksins samtals kr. 75.000 í dagpeninga.

Eru brot ákærða talin varða við 247. gr., sbr. 138. og 141. gr.a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 54/ 2003.

Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Við meðferð málsins hefur ákæruvald leiðrétt dagsetningu í 35. tl. ákæru og fært hana til 15. mars 2000.

Ákærði hefur játað sök samkvæmt töluliðum 7, 10, 13, 14, 16-19, 23-25, 33-65 og 67-78 í ákæru. Í öðrum ákæruliðum neitar ákærði sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, að því marki er ákærði neitar sök, en að honum verði ákvörðuð vægasta refsing er lög leyfa að öðru leyti. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins er greiðist að lágmarki að helmingi úr ríkissjóði.

Málsatvik:     

Með bréfi 19. júlí 2001 tilkynnti menntamálaráðuneytið ríkissaksóknara um ætluð refsiverð brot ákærða, sem fyrrverandi framkvæmdastjóra Íslenska dans­flokksins. Ráðuneytinu hafi borist greinargerð Ríkisendurskoðunar um fjárhagsleg sam­skipti ákærða við dansflokkinn en þar komi fram að framkvæmdastjórinn virðist hafa dregið sér fé og heimildarlaust tekið fé að láni.

Í greinargerð Ríkisendurskoðunar frá júlí 2001 kemur fram að við skil Íslenska dans­­flokksins á bókhaldsgögnum vegna ársins 2000 hafi komið í ljós að uppgjör vegna tékkareiknings 5701 hafi verið ófullnægjandi, auk þess sem fylgiskjöl hafi vantað fyrir fjölmörgum útborgunum og ávísunum. Síðar hafi framkvæmdastjóri dans­flokksins framvísað ljósritum af reikningum vegna þeirra úttekta. Í framhaldi af því hafi Ríkisendurskoðun ákveðið að rannsaka bókhald og fjárrreiður Íslenska dans­flokksins. Athugunin hafi sérstaklega beinst að bankareikningi dansflokksins, auk þess sem fjárhagsleg tengsl framkvæmdastjóra við dansflokkinn hafi verið könnuð. Athug­unin hafi náð til áranna 1999, 2000 og allt til 4. maí 2001. Þegar Ríkis­endur­skoðun hafi hafið athugun sína á bókhaldi dansflokksins hafi komið í ljós að bankareikningar stofn­unarinnar hafi ekki verið færðir né stemmdir af í rúmt ár. Þá hafi við­skipta­manna­reikningar ekki verið stemmdir af og innheimtu útistandandi krafna lítt verið sinnt. Lítið sem ekkert eftirlit hafi verið haft með bókhaldi dansflokksins. Athugun Ríkis­endurskoðunar hafi leitt í ljós, að framkvæmdastjóri virðist bæði hafa dregið sér fé og tekið að láni án heimildar. Til að draga dul á úttektir sínar hafi hann útbúið reikninga. Þá hafi hann fært til kostnaðar á dansflokkinn útgjöld sem hafi tilheyrt honum sjálfum, auk þess sem hann hafi notað nafn dansflokksins til að fá persónulega fyrir­greiðslu. Er það mat Ríkisendurskoðunar að ákærði hafi dregið sér fé eða tekið að láni á tímabilinu að fjárhæð 2.700.000 krónur. Fram kemur, að ákærði hafi látið af störfum að eigin ósk 4. maí 2001. 

Ákærði var fyrst yfirheyrður um sakarefnið hjá ríkislögreglustjóranum 21. maí 2003. Listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins, Katrín Hall, var einnig yfirheyrð um efnið sem vitni. Ákærði og Katrín Hall voru yfirheyrð fyrir dómi, sem og Sigurjón I. Haraldsson, skrifstofustjóri hjá Ríkisendurskoðun. Verður nú gerð grein fyrir fram­burði ákærða og vitna.

Ákærði kvaðst hafa verið skipaður framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins með bréfi menntamálaráðherra 1. september 1998.  Hafi hann, sem framkvæmdastjóri dans­flokksins, verið forstöðumaður þeirrar stofnunar með þeim skyldum og þeirri ábyrgð er því starfi fylgdu. Starfsemi dansflokkins hafi skipst í almennan rekstur og list­ræna stjórnun. Hafi hann verið í fyrirsvari fyrir hinn almenna rekstur en öll listræn stjórnun hafi verið í höndum Katrínar Hall. Að auki hafi í starfi framkvæmdastjóra falist umsjón með starfsmannamálum og markaðsmálum. Í upphafi starfa sinna kvaðst ákærði hafa haft sér til aðstoðar ritara sem hafi m.a. aðstoðað ákærða við frágang bókhaldsgagna áður en þau hafi verið send til Ríkisféhirðis. Að öðru leyti hafi eftirlit með fjármálum dansflokksins verið í höndum stjórnar dansflokksins, Ríkisbókhalds og Ríkisendurskoðunar. Dansflokkurinn hafi verið í bókhaldsþjónustu hjá Ríkis­bókhaldi en reikningar hafi að jafnaði verið greiddir í samræmi við reglur Ríkis­féhirðis. Þannig hafi allir reikningar verið samþykktir af framkvæmdastjóra og í fram­haldinu verið stimplaðir og áritaðir með viðeigandi bókhaldslyklum. Að því loknu hafi þeir verið sendir til Ríkisféhirðis til greiðslu. Þetta hafi átt við um alla reikn­inga dans­flokksins, fyrir utan reikninga sem hafi verið greiddir út af tékkareikningi nr. 5701 í Búnaðar­banka Íslands nr. 313.  Sá reikningur hafi fyrst og fremst verið hugsaður til að standa straum að ýmsum tilfallandi kostnaði í kringum rekstur dansflokksins. Reikn­ing­urinn hafi verið notaður langt umfram það er gert hafi verið ráð fyrir. Hafi hann verið til staðar og verið í notkun á þeim tíma er ákærði hafi ráðist til starfa hjá dans­flokkn­um. Ákærði kvað Ríkisendurskoðun hafa haft uppi athugasemdir vegna notk­unar á reikningnum fyrir árið 1998. Stjórn dansflokksins hafi engu að síður viljað hafa reikn­inginn áfram vegna greiðslu smærri útgjalda. 

Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa dregið sér fé í opinberu starfi sem fram­kvæmda­stjóri Íslenska dansflokksins, að því marki sem hann játaði sakargiftir sam­kvæmt ákæru. Kvað ákærði óráðsíu hafa einkennt fjármál sín á þessum tíma sem hafi leitt til þess að hann hafi dregið sér fé. Kvaðst hann enga sérstaka skýringu hafa á því af hvaða völdum óráðsían stafaði. Að öðru leyti en því neitaði hann að hafa dregið sér fjár­muni dansflokksins.

Verður nú vikið að einstökum ákæruefnum að því marki er ákærði neitar sök.

A.

Ákærði kvaðst hafa greitt sér laun fyrirfram á árinu 1999, alls að fjárhæð 155.000 krónur. Um væri að ræða tilvik skv 1.- 4. til A hluta ákæru. Ákærði kvað fyrir­framgreiðslu launa hafa tíðkast í einhverjum tilvikum hjá hinu opinbera, þó svo fyrir­framgreiðsla launa hafi almennt verið í andstöðu við reglur Fjársýslu ríkisins um greiðslu launa. Í einhverjum tilvikum hafi tíðkast hjá dansflokknum að laun hafi verið greidd fyrirfram með þeim hætti að þau væru greidd út af tékkareikningi 5701. Hafi það átt við um framkvæmdastjóra sem og aðra starfsmenn dansflokksins. Það hafi síðan verið í verkahring framkvæmdastjóra að tilkynna launabókhaldi um fyrir­fram­greidd laun, þannig að þau kæmu til frádráttar útborguðum launum næstu mánaðarmót á eftir. Ekki kvaðst ákærði hafa tilkynnt launabókhaldi um þessar fyrirframgreiðslur til sín heldur hafa áritað fylgiskjöl þannig að þær yrðu færðar til skuldar á við­skipta­manna­­reikning sinn. Hafi hann notað greiðslurnar í eigin þágu. Ekki hafi verið ætlun ákærða að draga sér þessa fjármuni en hann hafi ákveðið að tilkynna ekki um fyrir­fram­­greiðsluna þar sem hann hafi ekki talið sig hafa haft bolmagn til að endurgreiða launin. Ef ákærði hefði látið af störfum með venjulegum hætti hjá dansflokknum, hefði þessi skuld verið greidd í lokauppgjöri launa.

B.

6. tl.

Ákærði kvaðst hafa komist að samkomulagi við Chad A. Batner, sem hafi verið starfandi við dansflokkinn, um að Chad yrðu greidd laun fyrirfram sem færð yrðu á viðskiptamannareikning Chad. Í kjölfarið myndi Chad lána ákærða þá fjárhæð. Í samræmi við það hafi greiðsla að fjárhæð 60.000 krónur verið færð af tékkareikningi 5701 yfir á reikning ákærða.  Sú ráðstöfun hafi verið viðhöfð þar sem ákærði hafi talið að greiðslustaða sín hjá Ríkisféhirði væri slæm. Hafi hann litið svo á að um persónulega skuld sína við Chad væri að ræða. Chad hafi ekki endurgreitt þessa fjárhæð til Fjársýslunnar né heldur hafi ákærði gert það. Í raun og veru hafi verið um fyrirframgreidd laun til ákærða að ræða, þó svo þau hafi verið færð með þessum hætti. Fjárhagsvandræði hafi knúið ákærða til þess að fara þess á leit við Chad að hann myndi aðstoða ákærða með þessum hætti.

8. tl.

Ákærði kvaðst hafa leitað aðstoðar Neyðarþjónustunnar ehf., 25. október 1999 til að láta opna læstar dyr að íbúð fyrir sig. Hafi hann ekki haft reiðufé við hendina á þeim tíma en starfsmaður Neyðarþjónustunnar hafi ekki getað tekið við greiðslu með greiðslukorti. Hafi ákærði því gripið til þess ráðs að greiða fyrir þjónustuna með ávísun út af tékkareikningi Íslenska dansflokksins. Í kjölfarið hafi hann fært í bók­halds­lykil áritun um að fjárhæðina skyldi færa á viðskiptamannareikning sinn sem fyrir­framgreidd laun. Reikningurinn hafi síðan verið sendur Fjársýslunni með venju­legum hætti. Um hafi verið að ræða persónulegt atvik sem hafi verið Íslenska dansflokknum óviðkomandi. Hafi hann ekki endurgreitt þennan kostnað þar sem hann hafi ekki haft fé til endurgreiðslu. Hafi hann litið svo á að um lánveitingu til sín hafi verið að ræða, þó svo honum hafi verið kunnugt um að slíkt væri ekki heimilt.

9.tl.

Ákærði kvað greiðslu út af tékkareikningi Íslenska dansflokksins, að fjárhæð 17.555 krónur, 28. febrúar 2000, hafa komið til vegna útlagðs kostnaðar við sýningu dansflokksins í Avignon í Frakklandi. Allir þeir er farið hafi til Frakklands á vegum dansflokksins hafi verið á dagpeningum venju samkvæmt. Kvað hann kostnað að fjárhæð 17.555 krónur hafa verið færðan sem persónulega skuld ákærða, þar sem ekki hafi verið til staðar fylgiskjöl að baki þessum kostnaði. Í raun hafi hann þar með veitt sjálfum sér persónulegt lán sem honum hafi verið ljóst að ekki var heimilt. Ákærði hafi ekki endurgreitt þessa fjárhæð en til þess hefði komið ef starfslok hans hefðu borið að með venjulegum hætti.

11. tl.

Ákærði kvað greiðslu út af tékkareikningi Íslenska dansflokksins, að fjárhæð 24.774 krónur, 27. júní 2000, hafa komið til í tilefni af för dansflokksins til Tékklands og Ítalíu. Hafi ákærði keypt gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli fyrir brottför til að standa straum að ófyrirséðum og tilfallandi kostnaði í ferðinni. Allir á vegum dansflokksins hafi verið á dagpeningum í ferðinni. Ekki hafi verið til staðar fylgiskjöl fyrir þessum kostnaði og hafi ákærði því gripið til þess ráðs að færa kostnaðinn sem persónulega skuld sína. Að öðru leyti eigi sömu skýringar við þessa ráðstöfun og undir 9. tl. ákæru.

12. tl.

Ákærði kvað greiðslu út af tékkareikningi Íslenska dansflokksins, að fjárhæð 79.970 krónur, 12. júlí 2000, hafa komið til vegna ferðar til Prag og Bologna. Þar hafi einnig verið um að ræða greiðslu á tilfallandi kostnaði í ferðinni. Í þessari ferð hafi sem fyrr ferðalangar verið á dagpeningum. Eigi sömu sjónarmið við um þessar færslur og fram komi undir tl. 9 og 11.

15. tl.

Ákærði kvað þessa greiðslu út af tékkareikningi Íslenska dansflokksins hafa komið til vegna ferðar ákærða til Prag og víðar. Millifærðar hafi verið 120.000 krónur af tékkareikningi dansflokksins yfir á reikning ákærða, nr. 0543-26-007650. Í ferðinni til Prag hafi ákærði verið á dagpeningum. Hinni formlegu ferð dansflokksins hafa lokið en hann hafi haldið för sinni áfram á einkavegum til Parísar. Hafi hann talið að eðlilegt væri að dansflokkurinn tæki a.m.k. að hluta þátt í kostnaði við ferðina til Parísar þar sem ákærði hafi þar að hluta verið að gegna embættisskyldum. Hafi hann m.a. hitt tiltekna einstaklinga vegna fyrirhugaðra sýninga á verkinu Kippa sem dansflokkurinn hafi ætlað að sýna í París og Caen haustið 2000. Ákærði hafi ekki fengið dagpeninga vegna þessa hluta ferðarinnar en greiðslu dagpeninga hafi lokið á sama tíma og hjá öðrum í ferðinni þegar sýningarferðinni hafi lokið. Ákærði hafi fært greiðslur með þeim hætti að hann hafi samkvæmt áritun í bókhaldslykla látið færa 40.260 krónur til kostnaðar vegna ferðarinnar, s.s. vegna hótelkostnaðar. Það sem eftir standi, eða 79.740 krónur, hafi ákærði látið færa til skuldar á viðskiptamannareikning sinn. Vandræði sín hafi að ákveðnu leyti orðið til vegna þess að ferðin hafi orðið löng og hann átt erfitt með að ganga þannig frá málum að hann fengi greidda dagpeninga vegna ferðarinnar til Parísar.

C.

Ákærði kvað Íslenska dansflokkinn hafa gert samning við Jochen Ulrich, sem væri danshöfundur, um vinnu fyrir dansflokkinn. Samkvæmt samningi hafi Jochen átt að fá greiðslu fyrir vinnu sína í þrennu lagi. Hafi Jochen fengið tvær fyrstu greiðslurnar greiddar í gegnum Ríkisféhirði. Að beiðni Jochen sjálfs hafi þriðja greiðslan farið þannig fram, að Jochen hafi fengið fjárhæðina greidda í nokkrum litlum fjárhæðum. Kvaðst ákærði játa að hafa sjálfur dregið sér einhverjar greiðslur er í bókhaldi hafi verið færðar sem greiðslur til Jochen samkvæmt samningi. Ekki gæti hann áttað sig á hvaða greiðslur hann hafi dregið sér og hvaða greiðslur hafi runnið til Jochen. Jochen hafi verið á Íslandi á tveimur tímabilum, eða frá 8. nóvember til 1. desember 1999 og síðan aftur frá 3. janúar til 13. febrúar 2000. Játi ákærði að hafa dregið sér greiðslur samkvæmt 23.-25. tl. C hluta ákæru en í því efni miði hann við að greiðslur sem átt hafi sér stað að Jochen fjarverandi hafi örugglega runnið til ákærða. Eigi það við um greiðslu skv. 23. tl. Greiðslur skv. 24. og 25. tl. séu það háar að víst megi telja að ekki sé um greiðslur til Jochen að ræða. Ákærði hafi því örugglega dregið sér þær greiðslur. Ákærði kvað Jochen hafa fengið greitt eitthvað umfram samning er við hann hafi verið gerður og á því beri ákærði ábyrgð. Á hinn bóginn sé ljóst að eitthvað af þeim greiðslum, sem ákært sé fyrir undir C lið ákærunnar, hafi runnið til Jochen. Ákærði kvaðst hafa nýtt sér óreiðu er hafi verið í kringum greiðslur til Jochen Ulrich til að leyna fjárdrætti sínum.

F.

66. tl.

Ákærði kvað Stephen Sheriff danshöfund hafa komið reglulega til Íslands til að kenna dönsurum við dansflokkinn. Stephen hafi oftast fengið greitt fyrir vinnu sína með greiðslum út af tékkareikningi Íslenska dansflokksins án þess að sérstakir reikningar hafi verið útbúnir. Hafi greiðsluseðlar verið fylltir út en greiðslurnar hafi oftast verið í íslenskum gjaldmiðli. Stephen hafi verið búsettur í Svíþjóð og hafi hann, í því tilviki er um ræði, óskað eftir því að fá greiðsluna í sænskum krónum sem láðst hafi að kvitta fyrir. Um þetta leyti, eða 2. mars 2001, hafi dansflokkurinn verið á leið til Kanada og hafi skipulag á rekstri ekki verið í nægjanlega góðu horfi. Kvaðst ákærði hafa látið af störfum 4. maí á sama ári en honum hafi ekki gefist ráðrúm til að fá kvittun frá Stephen fyrir greiðslunni. Ekki hafi ákærði sjálfur haft neina ástæðu til að nálgast sænskan gjaldmiðil fyrir sig persónulega á þessum tíma.

Vitnið Katrín Hall, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins, kom fyrir dóminn. Vitnið kvað störf þess og ákærða, sem framkvæmdastjóra dansflokksins, hafa skarast á þeim tíma er ákærði hafi verið við störf. Framkvæmdastjóri hafi á þeim tíma verið embættismaður sem hafi heyrt undir menntamálaráðuneytið. Daglegur rekstur dansflokksins hafi verið í höndum ákærða. Í kjölfar þess að rannsókn hafi farið fram á fjármálum Íslenska dansflokksins hafi stjórnun verið breytt og listrænn stjórnandi verið gerður að forstöðumanni stofnunarinnar. Eftir það sjái framkvæmdastjóri um daglegan rekstur og beri reikninga undir forstöðumann til samþykktar.

Vitninu hafi verið kunnugt um einhver tilvik þess að laun hafi verið greidd fyrirfram hjá dansflokknum án þess þó að vita í hve miklum mæli það hafi verið. Ekki hafi vitninu verið kunnugt um hvort slíkar fyrirframgreiðslur hafi átt sér stað áður en ákærði kom til starfa. Vitnið staðfesti að Jochen Ulrich væri danshöfundur sem unnið hafi fyrir Íslenska dansflokkinn. Ekki hafi vitnið sjálft annast greiðslur til Jochen en því hafi verið kunnugt um að honum hafi að einhverju marki verið greitt í smærri fjárhæðum. Ákærði hafi einn annast samkomulagið við Jochen. Jochen hafi borið að fá 25.000 þýsk mörk greidd fyrir vinnuna en hann hafi að auki fengið styrk frá Göthe stofnuninni, en styrkurinn hafi átt að standa straum að kostnaði vegna dvalar hans hér á landi. Í skýrslutöku hjá lögreglu greindi vitnið frá því að því hafi ekki verið kunnugt um hvernig staðið hafi verið að greiðslu kostnaðar vegna dvalar Jochen hér á landi en taldi líklegt að styrkur Göthe stofnunarinnar hafi runnið til dansflokksins sem síðan hafi greitt ýmsan kostnað fyrir Jochen. Tók vitnið fram að mikil óreiða hafi á sínum tíma verið í tengslum við greiðslur til Jochen Ulrich. Í skýrslu hjá lögreglu kvaðst vitnið hugsanlega einhverju sinni hafa farið fyrir Jochen í banka til að innleysa tékka þar sem hann hafi ekki komist til þess sjálfur. Þá staðfesti vitnið fyrir dómi að það hafi einu sinni látið Jochen fá fjármuni út af reikningi vitnisins sem dansflokkurinn hafi síðar endurgreitt. Það hafi komið til þar sem Jochen hafi legið á að fá peninga í hendur.

Vitnið Sigurjón I. Haraldsson, skrifstofustjóri hjá Ríkisendurskoðun, kvað upphaf máls ákæruvaldsins gegn ákærða unnt að rekja til hefðbundinnar skoðunar Ríkisendurskoðunar á bókhaldi Íslenska dansflokksins. Stofnunum hins opinbera væri raðað í flokka miðað við áhættu, en Íslenski dansflokkurinn hafi verið neðarlega í flokki. Bókhald stofnunarinnar hafi verið skoðað á þriggja ára fresti. Starfsemin hafi verið skoðuð á árinu 1997 og hafi því átt að skoða hana næst á árinu 2001. Við þá skoðun hafi verið komið á framfæri við dansflokkinn ábendingum um að tiltekin gögn vantaði í bókhald. Eftir að gögnin hafi borist hafi þau verið borin undir framkvæmda­stjóra. Við það hafi ákærði upplýst að einhverjir fjármunir dansflokksins hafi runnið til ákærða sjálfs. Íslenski dansflokkurinn hafi verið í greiðslu- og bókhaldsþjónustu hjá Ríkisféhirði. Engu að síður hafi verið um töluverðar færslur að ræða á tékkareikningi dans­flokksins. Allar inn- og útborganir af tékkareikningi hafi verið teknar til at­hug­unar í endurskoðun og hafi ákærði verið samvinnufús í alla staði.

Fram kom í máli vitnisins fyrir dómi að ákærða hafi ekki verið heimilt að greiða sjálfum sér laun fyrirfram. Það væri almennt ekki heimilt að greiða laun fyrirfram og ætti það sérstaklega við um framkvæmdastjóra opinberra stofnana. Ef til fyrirframgreiðslna kæmi, bæri að leiðrétta slíkt um næstu mánaðarmót á eftir. Í tilviki ákærða hafi fyrirframgreiðslan farið í gegnum tékkareikning dansflokksins sem væri óhefðbundið því slíkar ráðstafanir ættu að fara fram í gegnum Ríkisféhirði. Vitnið kvað viðskiptamannareikninga hjá hinu opinbera vera útbúna vegna ferða starfsmanna til útlanda á vegum sinna stofnana. Til undantekninga heyrði ef aðrar færslur væru færðar á slíka reikninga. Í tilviki ákærða hafi fyrirframgreidd laun verið færð inn á við­skiptamannareikning ákærða sem og annar kostnaður tengdur ákærða þar til fylgi­skjölum yrði skilað. Vitnið kvað Fjársýslu ríkisins fara kerfisbundið yfir ferðakostnað starfsmanna vegna ferða til útlanda og væru starfsmenn krafðir um uppgjör vegna ferða. Það kæmi þó til þess að ítreka þyrfti við starfsmenn óskir um uppgjör.

Niðurstaða:

Svo sem að framan er rakið hefur ákærði að stórum hluta játað sök. Með því hefur hann viðurkennt að hafa, í opinberu starfi sem framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins, dregið sér opinbert fé. Telst brotið að því leyti varða við 247. gr., sbr. 138. og 141. gr.a. laga nr. 19/1940. Tekur sú háttsemi til áranna 1999, 2000 og 2001. Ákæruvald miðar við, að ákærði hafi alls dregið sér 2.348.442 krónur. Þar af hefur ákærði viðurkennt að hafa dregið sér 1.679.009 krónur. Hefur hann játað að hafa í sumum tilvikum látið dansflokkinn standa straum að persónlegum útgjöldum sínum en í öðrum tilvikum hefur hann játað að hafa með skipulögðum hætti útbúið og notað til­hæfulaus fylgiskjöl til að draga sér fé. 

Ákærði hefur að hluta til neitað sök. Verður hér á eftir fjallað um þau sakarefni.

C.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa bæði millifært af tékkareikningi Íslenska dansflokksins yfir á eigin reikning og gefið út ávísanir á reikninginn, á tímabilinu mars til september 1999, samtals 155.000 krónur, sem hann hefur skýrt sem fyrirfram greidd laun til sín. Hefur hann neitað því að ásetningur hafi staðið til að draga sér þessa fjármuni, heldur hafi hann ætlað að endurgreiða þessar fjárhæðir síðar. Til þess hafi ekki komið þar sem ákærði hafi ekki tilkynnt launadeild um greiðslurnar, auk þess sem hann haft ekki haft fjármuni til endurgreiðslu.

Fylgiskjöl að baki þessum greiðslum hafa verið árituð sem launagreiðslur og hafa fjárhæðirnar verið færðar sem skammtímakröfur ákærða hjá Íslenska dans­flokkn­um. Ákærði hafði, sem framkvæmdastjóri dansflokksins, fjárreiður stofnunarinnar með höndum. Á þeim grundvelli hafði hann m.a. prókúru á tékkareikning dans­flokksins nr. 5701. Ákærða bar að tilkynna þáverandi launadeild Ríkisbókhalds sér­staklega um laun er hann greiddi sjálfum sér fyrirfram 24. mars 1999 til að leið­rétt­ingu yrði komið við. Ákærði aðhafðist ekkert í þá veruna heldur ákvarðaði sér, án sér­stakrar tilkynningar, á ný fyrirframgreidd laun með færslu í næsta mánuði, eða 26. apríl 1999. Brot gegn 247. gr. laga nr. 19/1940 verður einungis framið af auðg­un­ar­ásetn­­ingi, sbr. 243. gr. laga nr. 19/1940. Verður að telja að ákærða hafi, ekki síðar en við fyrirframgreiðsluna 26. apríl, ekki getað dulist sú hætta að honum myndi ekki auðn­ast að endurgreiða hin ofteknu laun, svo sem síðar varð, og valda með því opin­berri stofnun fjártjóni. Hefur ákærða orðið sú hætta enn ljósari við síðari fyrir­fram­greiðslur sem hann tilkynnti ekki heldur sérstaklega um. Háttsemi ákærða á þeim tíma, er hér er til meðferðar, fól í sér lægri stig ásetnings með einkenni hættuásetnings er leiddi til fullframins fjárdráttarbrots skv. 247. gr. laga nr. 19/1940. Þar sem um var að ræða samfellda brotastarfsemi verður launagreiðslan frá 24. mars felld hér undir. Brot þessi framdi ákærði í opinberu starfi og á því við heimfærsla til 138. og 141. gr. a. sömu laga.

B.

6. tl.

Ákærði leitaði til Chad A. Batner, er starfaði á vegum Íslenska dansflokksins,  um að á Chad yrðu færð fyrirframgreidd laun sem myndu renna til ákærða. Fyrir liggur að greiðslan rann milliliðalaust af tékkareikningi Íslenska dansflokksins inn á reikning ákærða, án þess að Chad hafi á nokkrum tíma notið greiðslunnar. Ákærði hefur skýrt greiðsluna sem fyrirframgreidd laun til sín þar sem staða á við­skipta­manna­reikningi hafi verið orðin há. Greiðsla þessi er færð af reikningi Íslenska dansflokksins um viku eftir að ákærði ákvarðaði sjálfum sér fyrirframgreidd laun 16. september 1999. Verður miðað við að ákærða hafi þá verið orðin ljós sú hætta að til þess gæti komið að honum yrði ekki fært að endurgreiða fjárhæðina. Til þess hefur ekki komið en ákærði hefur borið við fjárskorti. Háttsemi í þessum ákærulið varðar refsingu með sama hætti og háttsemi skv. A lið ákæru. Er hún rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

8. tl.

Ákærði notaði fjármuni Íslenska dansflokksins til að standa straum að persónulegum kostnaði sínum vegna aðstoðar Neyðarþjónustunnar ehf. Áritaði hann fylgiskjal um að fjárhæðina skyldi færa á viðskiptamannareikning sinn hjá Íslenska dansflokknum. Ákærði hefur litið svo á að honum væri heimilt að lána sjálfum sér fjármuni úr sjóði dansflokksins. Hann gerði Ríkisféhirði ekki sérstaklega grein fyrir því og leitaðist ekki við að endurgreiða fjárhæðina. Bar þessa háttsemi upp á sama tíma og ákærði greiddi sjálfum sér laun fyrirfram, vitandi að til þess kynni að koma að honum yrði ekki fært að endurgreiða fjárhæðina. Með því dró ákærði sér opinbert fé, þannig að við refsiákvæði samkvæmt ákæru varði.

11., 12. og 15. tl.

Unnt er að fjalla um 11., 12. og 15. tl. ákæru í einu lagi þar sem háttsemin varðar sambærilegar ráðstafanir. Samkvæmt þessum ákæruliðum hefur ákærði látið Íslenska dansflokkinn standa straum af ýmsum kostnaði við ferðir til útlanda þar sem ákærði og aðrir á vegum dansflokksins voru á ferð og nutu dagpeningagreiðslna. Ákærða var sem framkvæmdastjóra ljós sú regla að starfsmönnum Íslenska dans­flokks­ins bar á ferðum sínum til útlanda að láta dagpeninga standa straum að eigin kostn­aði við ferðir. Ákærði hefur ekki framvísað fylgiskjölum vegna þessara greiðslna en veruleg óreiða virðist af hálfu ákærða á þessum tíma hafa einkennt allan rekstur dans­flokksins. Hefur hann þegar viðurkennt að hafa dregið sér fjármuni eða látið Íslenska dansflokkinn standa straum af eigin útgjöldum. Þegar til þess er litið, svo og þess að ákærði færði þessar greiðslur til skuldar á eigin viðskiptamannareikning, þykir ákærði verða að bera hallann af því að fyrir þessum greiðslum finnast ekki full­nægjandi skýringar. Verður litið svo á að ákærði hafi dregið sér þessar greiðslur.

Ákæruvald hefur miðað fjárhæð skv. 15. tl. við skýringar er listrænn stjórnandi dans­flokksins hefur gefið við rannsókn málsins. Samkvæmt gögnum málsins færði ákærði 120.000 krónur af reikningi Íslenska dansflokksins yfir á eigin reikning 28. júní 2000. Ákærði framvísaði gögnum til grundvallar útlögðum kostnaði vegna hluta fjárhæðarinnar. Ákærði hefur sjálfur miðað við að dansflokknum bæri að greiða fyrir útlagðan kostnað að fjárhæð 40.260 krónum vegna dvalar ákærða í París. Mismunur þeirrar fjárhæðar og 120.000 króna, eða 79.740 krónur, hafi átt að færast á við­skipta­manna­reikning ákærða sem fyrirframgreidd laun. Listrænn stjórnandi taldi að dans­flokk­urinn ætti einungis að greiða fyrir tiltekinn farmiða ásamt hótelreikningi fyrir til­greindan einstakling, samtals 20.933 krónur. Mismunurinn, eða 99.067 krónur, væri kostn­aður vegna ákærða sjálfs, eftir að skipulagðri ferð dansflokksins hafi lokið. Ákærði hefur sjálfur lýst því yfir að ferð dansflokksins hafi formlega verið lokið þegar ákærði hélt til Parísar. Var ákærði því á eigin vegum þegar þar var komið og hafði ekki aflað sér heimildar til að láta dansflokkinn standa straum af kostnaði vegna dvalar sinnar í París. Gat hann ekki að eigin geðþótta látið Íslenska dansflokkinn standa straum af þeim kostnaði. Í þessu ljósi, og með vísan til athugasemda listræns stjórnanda dansflokksins, verður miðað við að ákærði hafi með óheimilum hætti lánað sér 99.067 krónur af fé dansflokksins. Ráðstafanir þessar áttu sér stað um mitt ár 2000 þegar fjárhagsleg staða ákærða var slæm og honum ljóst að veruleg hætta var á að honum yrði ekki fært að endurgreiða hina ofteknu fjármuni. Verður því litið svo á að ákærði hafi dregið sér fjármuni í samræmi við töluliði ákæru þannig að við refsi­ákvæði hennar varði.

C.

Á meðal gagna málsins er samningur milli Íslenska dansflokksins og Jochen Ulrich, frá 9. nóvember 1999, um vinnu Jochen fyrir dansflokkinn. Samkvæmt ákvæði í samningi skal Jochen fá 25.000 þýsk mörk fyrir vinnu sína. Á meðal gagna málsins er fylgiskjal áritað um greiðslu samkvæmt samningi að fjárhæð 316.500 krónur. Í því tilviki er skuldbinding samkvæmt bókhaldslykli tilgreind í nóvember 1999. Það skjal hefur greiðsluáritun Ríkisféhirðis 16. nóvember það ár. Þá bera gögn málsins með sér að 3. janúar 2000 hafi Ríkisféhirði verið gert að greiða Jochen 318.170 krónur, eða sem samsvari 8.333 þýskum mörkum. Er fylgiskjal áritað um greiðslu þessarar fjár­hæðar með skuldbindingu í janúar 2000. Lætur nærri að með þessum tveimur greiðslum hafi Jochen Ulrich fengið greitt sem samsvarar um 16.600 þýskum mörkum. Stendur þá eftir 1/3 hluti samningsfjárhæðarinnar, eða um 316.000 krónur.  Ákæruvald hefur miðað við að með ofangreindum greiðslum og greiðslum sem koma fram í rannsóknargögnum, merkt II/D-1, II/D-6, II/D-7, II/D-8 og II/D-15, sé þriðja hluta fjárhæðarinnar náð. Hafi samningurinn við Jochen því verið efndur að fullu og því hafi aðrar greiðslur merktar Jochen runnið til ákærða. Gögn sem ákæruvald miðar þriðja hluta við eru í fyrsta lagi greiðslukvittun að fjárhæð 42.000 krónur. Greitt er með ávísun af reikningi Íslenska dansflokksins sem stíluð er til handhafa og framseld er af Katrínu Hall. Fram kom í skýrslu Katrínar að henni hafi verið kunnugt um að Jochen hafi fengið síðasta hluta greiðslu samkvæmt samningi í smærri greiðslum. Í skýrslu hjá lögreglu kvaðst hún hugsanlega einhverju sinni hafa farið fyrir Jochen í banka til að innleysa tékka þar sem hann hafi ekki komist til þess sjálfur. Í öðru lagi miðar ákæruvald við tvær flugferðir Jochen Ulrich milli Þýskalands og Íslands. Er sú fyrri farin frá Þýskalandi til Íslands 8. nóvember 1999 með heimferð 1. desember s.á. Til greiðslu samkvæmt reikningi eru 53.790 krónur. Seinni reikningurinn miðar við að ferð sé farin frá Þýskalandi til Íslands 3. janúar 2000 með heimferð 13. febrúar s.á. Til greiðslu samkvæmt þeim reikningi eru 53.010 krónur. Þá miðar ákæruvald við að kvittun um útborgun af reikningi dansflokksins inn á reikning Katrínar Hall, 7. janúar 2001, að fjárhæð 40.000 krónur, hafi runnið til Jochen Ulrich. Sú viðmiðun fær stoð í fram­­­­­­burði Katrínar, sem staðfesti fyrir dómi að hún hafi látið Jochen fá fjármuni út af eigin reikningi, sem hafi síðar verið endurgreiddir henni. Loks miðar ákæruvald við fjár­hæð sem fram kemur á rannsóknargagni sem er merkt II/D-15. Samkvæmt því skjali hefur Íslenski dansflokkurinn greitt reikning fyrir gistingu Jochen Ulrich á Gisti­heim­ilinu Kríunni, samtals að fjárhæð 120.589 krónur. Ekki kemur fram fyrir hvaða daga sé greitt en greitt er fyrir 41 einingu. Kvittunin er dagsett 3. febrúar 2000. Alls nemur samanlögð fjárhæð ofangreindra fimm færslna 309.389 krónum.

Þegar málstaður ákæruvalds er skoðaður er til þess að líta að samningur Íslenska dansflokksins og Jochen Ulrich hefur að geyma ákvæði um hvernig með kostnað tengdan ferðum og gistingu Jochen Ulrich á Íslandi skyldi fara. Samkvæmt ákvæði 6.4 í samningi bar Íslenska dansflokknum að panta flugfar fyrir Jochen Ulrich og að aðstoða hann við að útvega húsnæði meðan á dvöl Jochen á Íslandi stæði. Allur kostnaður tengdur ferðum og gistingu skyldi falla á Jochen Ulrich og stæði Íslenski dans­flokkurinn fyrir honum að einhverju leyti bæri að draga þann kostnað frá samn­ings­fjárhæð við lokaútborgun. Til verulegs skýrleika hefði verið ef framburðar Jochen Ulrich hefði verið aflað í tengslum við rannsókn og meðferð málsins en með því hefði mátt sannreyna hvaða greiðslur hafi í raun og veru runnið til hans. Á hinn bóginn er til þess að líta að samningur Íslenska dansflokksins og Jochen Ulrich er skýr um að kostnað tengdan flugferðum og gistingu beri að draga frá endanlegri greiðslu samkvæmt samningi. Rannsóknargögn málsins bera þess ekki merki að inn á reikn­inga Íslenska dansflokksins hafi runnið greiðslur frá Göthe stofnuninni. Þá hefur ákærði ekki við það miðað í vörn sinni að Göthe stofnunin hafi greitt fyrir ferðir og uppi­hald Jochen, og að þær greiðslur hafi farið um reikninga Íslenska dansflokksins. Þegar til þessa er litið, greiðslna er Katrín Hall hefur aðstoðað Jochen við að fá greiddar og millifærslna Ríkisféhirðis til Jochen Ulrich, lætur nærri að endanlegri samningsfjárhæð sé náð. Þar sem svo hagar til, og með vísan til þess að ákærði hefur viðurkennt að hafa nýtt sér þá óreiðu er skapast hafi í kringum greiðslur til Jochen til að draga sér greiðslur merktar honum, þykir unnt að leggja til grundvallar að ákærði hafi dregið sér allar greiðslur sem tilgreindar eru undir C lið ákæru. Varðar sú hátt­semi við refsiákvæði samkvæmt ákæru.

F.

66. tl.

Greiðslu út af tékkareikningi Íslenska dansflokksins, 2. mars 2001, að fjárhæð 9.067 krónur, hefur ákærði skýrt sem greiðslur til Stephen Sheriff danshöfundar sem búsettur hafi verið í Svíþjóð. Brigður hafa ekki verið bornar á þær staðhæfingar ákærða að greiðslur til Stephen hafi farið fram í gegnum tékkareikning 5701 og að þær hafi átt sér stað í nokkrum greiðslum. Þá hefur ekki verið aflað staðfestinga frá Stephen Sheriff um hvort greiðsla þessi hafi borist honum eða ekki. Gegn eindreginni neitun ákærða þykir ákæruvald ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að ákærði hafi dregið sér þessa greiðslu. Verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi.

Ákærði hefur, samkvæmt öllu framansögðu, verið sakfelldur samkvæmt meginefni ákæru fyrir að hafa dregið sér 2.339.375 krónur.

Refsingar:

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum svo kunngt sé.

Brot ákærða eru talsverð. Hann hefur með skipulögðum hætti, í yfir tæplega tvö og hálft ár, dregið sér fé af tékkareikningi Íslenska dansflokksins. Á ákærði sér litlar varnir enda hefur hann ekki leitast við að réttlæta gerðir sínar með neinum hætti. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði gegndi opinberu starfi þar sem honum voru fengnar fjárreiður opinberrar stofnunar til meðferðar. Fjárdráttur ákærða hófst um hálfu ári eftir að hann hafði verið skipaður til starfans. Leyndi ákærði fjár­drætti sínum skipulega, en brotin upplýstust ekki fyrr en við reglubundið eftirlit Ríkis­­endurskoðunar. Ákærði hefur að engu leyti bætt það tjón sem hann hefur valdið. Með hliðsjón af öllu þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði. Ákjósan­legt hefði verið að rannsókn málsins hjá lögreglu gagnvart ákærða hefði hafist fyrr en raun varð á. Til þess er þó að líta að um var að ræða viðamikla rannsókn sem tók til verulegs fjölda færslna í bókhaldi er allt einkenndist af mikilli óreiðu. Með hliðsjón af eðli og umfangi brotsins þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsingu ákærða að neinu leyti.

Svo sem áður greinir, hefur ákærði verið sakfelldur samkvæmt meginefni ákæru, og einungis verið sýknaður af háttsemi samkvæmt 66. tl. ákæru. Er hér um óverulegan hluta sakarefnisins að ræða sem ekki hefur áhrif á ákvörðun sakarkostaðar í málinu. Í því ljósi greiði ákærði allan sakar­kostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns, svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnar­launa er stuðst við framlagða tímaskýrslu verjanda í málinu.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Björn Þorvaldsson, fulltrúi ríkislögreglu­stjóra.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Valgeir Valdimarsson, sæti fangelsi í 9 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.