Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2017
Lykilorð
- Fasteign
- Líkamstjón
- Meðdómsmaður
- Ómerking héraðsdóms
- Aðfinnslur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2017. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefndu, en til vara að bótaskylda verði aðeins viðurkennd að hluta. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir líkamstjóni 19. september 2014 þegar hún féll og ökklabrotnaði á leið sinni út úr Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut 58-60 í Reykjavík, en hún missti jafnvægið þegar útidyrahurðin á bakaríinu kom í bak hennar.
Málsaðilar deila um það hvort dyraumbúnaður bakarísins hafi verið vanbúinn og hafa þá öðru fremur vísað til tveggja atriða. Annars vegar hæðarmunar á gólfinu í bakaríinu og gangstéttarinnar fyrir utan sem hefur það í för með sér að stíga þarf úr dyragættinni niður þrep sem nemur 12,5 sentimetrum. Hins vegar hefur stefnda byggt á því að svokölluð hurðarpumpa hafi ekki virkað sem skyldi og látið hurð bakarísins lokast hættulega hratt og með miklum fallþunga. Í hinum áfrýjaða dómi er fallist á að samspil þessara tveggja þátta hafi orsakað slysið en ábyrgð felld á áfrýjendur vegna þess að hurðarpumpan hafi ekki verið í lagi. Upphaflega höfðaði stefnda málið jafnframt gegn Húsfélaginu Háaleitisbraut 58-60 vegna ábyrgðar þess á fyrirkomulagi stéttarinnar utan bakarísins en með hinum áfrýjaða dómi var húsfélagið sýknað og undi stefnda við þá niðurstöðu.
Hvað ætlaðan þátt hurðarpumpunnar í umræddu slysi varðar þá aflaði stefnda, áður en málið var höfðað, minnisblaðs C og D hjá Eflu verkfræðistofu um aðstæður í inngangi bakarísins og er það frá 29. janúar 2015. Í minnisblaðinu kom meðal annars fram að umrædd hurðarpumpa væri stillt þannig að lokun sé óeðlilega hröð og auk þess skorti á hæglokun síðustu sentimetrana. Virkni hurðarinnar væri hættuleg fyrir viðskiptavini nema gerðar yrðu lagfæringar á hurðarpumpunni. Nefndur C gaf jafnframt skýrslu fyrir héraðsdómi. Áfrýjendur mótmæltu þegar í greinargerð til héraðsdóms þýðingu minnisblaðsins á þeim grundvelli að um væri að ræða einhliða aflaðs sérfræðiálits af hálfu stefndu.
Stefnda aflaði ekki matsgerðar samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og henni var unnt, í þeim tilgangi að færa sönnur á staðhæfingar sínar um að umrædd hurðarpumpa hafi ekki virkað sem skyldi ellegar verið vanbúin með öðrum hætti. Stefnda aflaði umrædds minnisblaðs einhliða og án þess að áfrýjendur ættu þess kost að gæta hagsmuna sinna og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við gerð þess. Verður minnisblaðið því ekki talið hafa þýðingu við úrlausn málsins og varð dómur ekki á því byggður.
Eins og málið lá þá fyrir héraðsdómi og án þess að fram hefði farið fullnægjandi öflun sönnunargagna um ástand, virkni og mögulega hættueiginleika hurðarpumpunnar var héraðsdómara ókleift að fjalla um málsástæður sem uppi eru hafðar um þann þátt málsins á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu. Því var undir þeim kringumstæðum þörf á sérkunnáttu og bar héraðsdómara þá að kveðja til meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem héraðsdómari lét það ógert er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Það athugist að við aðalmeðferð málsins í héraði kom fyrir dóm sem vitni annar höfunda framangreinds minnisblaðs Eflu verkfræðistofu. Hann var hvorki vitni í skilningi 8. kafla laga nr. 91/1991 né matsmaður, sbr. 9. kafla sömu laga. Fyrir skýrslugjöf hans var því ekki heimild í þeim lögum, samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 51. gr. og 1. mgr. 65. gr. þeirra.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2016.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 7. nóvember sl., er höfðað 23. febrúar 2016 af A, […], gegn Mosfellsbakaríi ehf., […], B, […], og Húsfélaginu Háaleitisbraut 58-60, til húsa að Háaleitisbraut 58-60 í Reykjavík. Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði óskipt bótaskylda stefndu (in solidum) vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í Mosfellsbakaríi, Háaleitisbraut 58-60, þann 19. september 2014. Stefnandi krefst enn fremur málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Af hálfu stefndu, Mosfellsbakarís ehf. og B, er aðallega krafist sýknu af dómkröfum stefnanda, en til vara að bótaskylda þeirra verði aðeins viðurkennd að hluta. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Af hálfu stefnda, Húsfélagsins Háaleitisbraut 58-60, er aðallega gerð krafa um sýknu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Til vara er þess krafist að stefndi verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta og að málskostnaður falli niður.
Engar sjálfstæðar kröfur eru gerðar af hálfu réttargæslustefnda.
II
Stefnandi varð fyrir líkamstjóni 19. september 2014 þegar hún var á leið út úr Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut 58-60. Af hálfu stefnanda er slysinu lýst á þann veg að þegar hún hafi sett hægri fótinn út fyrir dyrnar hafi útidyrahurðin skollið harkalega aftan á hana með þeim afleiðingum að hún kom skakkt niður á fótinn á gangstéttinni fyrir framan bakaríið. Stefnandi var flutt á Landspítala í kjölfarið. Þar kom í ljós að stefnandi hafði brotnað á hægri ökkla. Gert var að meiðslum stefnanda með því að rétta af liðhlaup í ökklalið og síðan var fóturinn settur í sérmótaða spelku.
Eftir slysið kveðst stefnandi í fyrstu hafa þurft að notast við hjólastól en síðan göngugrind og hækjur. Hreyfigeta í ökklanum sé enn þá skert og í dag, rúmum tveimur árum eftir slysið, verði hún að notast við staf. Í stefnu er staðhæft að hún muni þurfa að glíma við afleiðingar slyssins um ókomna tíð.
Í málinu liggja fyrir lögregluskýrslur frá 26. febrúar 2015, annars vegar af stefnanda og hins vegar af E, vinkonu stefnanda, sem varð vitni að slysinu úr bifreið sem lagt var í stæði skáhalt fyrir framan innganginn í bakaríið. Fyrir lögreglu lýstu þær báðar atvikum á sama veg og að framan er rakið. Í skýrslu E kemur fram að stefnandi hafi opnað dyrnar, stutt hendi á dyrastafinn og sett hægri fótinn út fyrir dyrnar. Í sömu andrá hafi hurðin skollið aftan á stefnanda og kvaðst vitnið hafa séð hana lyppast niður í kjölfarið og falla aftur fyrir sig.
Lögmaður stefnanda óskaði eftir því að Efla verkfræðistofa skoðaði aðkomu og dyraumbúnað við inngang bakarísins. Í málinu liggur fyrir minnisblað C og D, starfsmanna verkfræðistofunnar, dags. 29. janúar 2015, um niðurstöðu skoðunar þeirra. Þar kemur fram að hurðarpumpa sé þannig stillt að lokunin sé óeðlilega hröð og að hæglokun síðustu sentímetrana vanti. Þar er lýst þeirri afstöðu að virkni hurðarinnar sé hættuleg fyrir viðskiptavini ef ekki verði gerð bragarbót á. Enn fremur segir í minnisblaðinu að hæðarmunur á gólfi inni í bakaríinu og gangstétt fyrir utan sé u.þ.b. 125 mm. Þá sé brattur halli frá brún hurðarkarms sem endi u.þ.b. 25 mm frá yfirborði gangstéttarinnar. Í minnisblaðinu kemur fram sú afstaða að þessi hæðarmunur stangist á við byggingarreglugerð og að hann, auk fyrrgreinds halla, skapi hættu á að hrasa þegar stigið sé út um dyrnar.
Með bréfi 4. mars 2015 var óskað afstöðu réttargæslustefnda til bótaskyldu í málinu, en stefndu, Mosfellsbakarí ehf. og B, eru með ábyrgðartryggingu hjá tryggingarfélaginu. Bótaskyldu var hafnað 8. júlí 2015.
Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi mun stefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, hafa staðið að framkvæmdum árið 2012 á gangstétt sem er milli bílastæða og húseignarinnar, þ. á m. fyrir framan innganginn í bakaríið.
III
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á því að stefndu beri almenna skaðabótaábyrgð á því tjóni stefnanda sem hafi hlotist af hættulegri og ólöglegri umgjörð við útganginn á Mosfellsbakarí. Þá ályktun reisir stefnandi á þremur atriðum.
Í fyrsta lagi hafi þröskuldurinn fyrir utan bakaríið verið langtum hærri en reglur heimili. Þröskuldurinn hafi mælst 145 mm niður á stétt, en skv. d-lið gr. 6.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eigi hæðarmunur milli svæðis framan við inngangsdyr/útidyr ekki vera meiri en 25 mm. Hæðarmunurinn sé því nærri sexfaldur umfram það sem leyfilegt sé.
Í öðru lagi sé útidyrahurð bakarísins knúin af pumpu sem láti hurðina lokast hættulega hratt og með miklum fallþunga. Telur stefnandi að virkni hurðarinnar sé sérstaklega hættuleg þar sem hæglokun síðustu sentímetrana vanti.
Í þriðja lagi sé frá neðri brún hurðarkarms brattur halli sem endi u.þ.b. 25 mm frá yfirborði hellulagnar úti sem sé nýleg. Telur stefnandi að þessi halli auki verulega hættuna á að fótur skriki þegar stigið sé út úr versluninni.
Stefnandi byggir á því að þessar hættulegu aðstæður hafi valdið því að stefnandi hafi ekki verið búinn að stíga í fótinn þegar hurðin hafi skollið á henni af krafti með þeim afleiðingum að fóturinn á henni brotnaði.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að gangstéttin fyrir utan Háaleitisbraut 58-60 hafi allri verið breytt fyrri hluta árs 2012. Eftir það sé hæð þröskulds á öðrum verslunum í húsalengjunni í samræmi við eða mjög nærri því sem krafist sé í núgildandi byggingarreglugerð. Kveður stefnandi innganga þar sem sé mikil umferð viðskipavina jafnvel vera slétta frá gangstétt. Þröskuldur Mosfellsbakarís sé hins vegar langtum hærri en þröskuldur að öðru húsnæði á Háaleitisbraut 58-60. Telur stefnandi því að bæði sé brotið á ákvæðum byggingarreglugerðar og ekki fylgt þeirri framkvæmd sem hafi verið viðhöfð þegar gangstéttin var lagfærð.
Stefnandi kveður stefndu hafa verið eða mátt vera ljóst að um verulegan vanbúnað væri að ræða, enda umbúnaður við innganginn ekki í samræmi við gildandi reglugerð eða aðbúnað hjá öðrum verslunum í sömu húsalengju og annars staðar.
Af hálfu stefnanda er lögð áhersla á að stefndi, Mosfellsbakarí ehf., reki verslun og veitingaþjónustu fyrir almenning í umræddu húsnæði. Verulegur umgangur sé um húsnæðið og hvetji bakaríið fólk á öllum aldri, í hvaða líkamlega ásigkomulagi sem er, til að koma í verslanir sínar. Því verði að gera sérstaklega ríkar kröfur um öryggi og aðkomu að húsnæði þeirra. Byggingarreglugerð, gr. 6.1.3, geri þá kröfu að verslanir skuli hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar þannig að þær nýtist öllum, allir geti ferðast um þær og athafnað sig án sérstakrar aðstoðar. Þetta hafi ekki verið gert við hönnun á inngangi Mosfellsbakarís sem sé bæði hættulegur og ófær hjólastólanotendum án hjálpar vegna hurðarbúnaðar og hæðar á þröskuldi. Þá fari viðskiptavinir, eðli málsins samkvæmt, með vörur og drykki í hönd út úr versluninni og því beri að gera sérstakar ráðstafanir þannig að þeir sem ekki hafi báðar hendur lausar geti gengið örugglega út án aðstoðar, t.d. með því að setja upp rennihurð.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að aðkoma að húsnæði stefndu sé óforsvaranleg og að auðvelt hefði verið fyrir þá að tryggja örugga aðkomu að bakaríinu í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Þetta hafi ekki verið gert og beri stefndu bótaábyrgð á því tjóni sem af því hafi hlotist á grundvelli almennu skaðabótareglunnar. Stefndi, B, beri ábyrgð á grundvelli ólögfestrar reglu íslensks skaðabótaréttar um ábyrgð húseigenda á tjóni sem verði í húsnæði þeirra. Stefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, beri hins vegar ábyrgð á stéttinni fyrir utan Mosfellsbakarí.
Um lagarök segir í stefnu að málið sé fyrst og fremst reist á ólögfestum reglum skaðabótaréttar, byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem og lögum nr. 160/2010, um mannvirki, og lögum nr. 75/2000, um brunavarnir, sem byggingarreglugerð er sett samkvæmt. Einnig sé byggt á skaðabótalögum, nr. 50/1993, og á ákvæðum laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Krafa um málskostnað sé reist á ákvæðum einkamálalaga, nr. 91/1991, og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
2. Málsástæður og lagarök stefndu, Mosfellsbakarís ehf. og B, sem og réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf.
Af hálfu stefndu er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt. Þeir benda á að um mál þetta fari eftir almennum skaðabótareglum utan samninga. Er sýknukrafa stefndu, Mosfellsbakarís ehf. og B, reist á því að ekki sé sannað að þessir stefndu eigi sök á slysi stefnanda eða að þeir hafi valdið því með saknæmum og ólögmættum hætti. Benda stefndu á að sönnunarbyrðin um það hvíli alfarið á stefnanda.
Stefndu mótmæla því sérstaklega sem röngu og ósönnuðu að virkni hurðarpumpunnar, sem hafi verið sett upp á árinu 2007, hafi verið hættuleg fyrir viðskiptavini verslunarinnar eða ekki í samræmi við gildandi lög og byggingarreglugerð. Skýrsla verkfræðistofunnar EFLU hafi ekkert sönnunargildi í þessu efni, en um sé að ræða skýrslu sem stefnandi hafi aflað einhliða og án þess að stefndu væri gefinn kostur á að gæta þar hagsmuna sinna. Aðeins sé um persónulegt álit skýrsluhöfundar að ræða. Sama eigi við um framburð E. Hann sanni ekki frekar en framburður stefnanda sjálfrar, að hurðarpumpan hafi verið hættuleg.
Stefndu telja að ekki liggi annað fyrir en að hurðarpumpan hafi verið í samræmi við þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 og kröfur byggingaryfirvalda þegar húseigandi hafi látið setja hana upp árið 2007. Núgildandi byggingarreglugerð, nr. 112/2012, taki hins vegar ekki til pumpunnar eða dyraumbúnaðarins yfirleitt. Ekki sé skylt að breyta eldri fasteignum og búnaði þeirra í takt við nýjar eða breyttar byggingarreglugerðir. Núgildandi byggingarreglugerð, nr. 112/2012, sé ekki afturvirk. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar við pumpuna af hálfu byggingaryfirvalda eða verið kvartað yfir henni af hálfu viðskiptavina Mosfellsbakarís ehf. Fullyrða stefndu að óhapp í útidyrum Mosfellsbakarís ehf., eins og hjá stefnanda, hafi aldrei gerst áður. Mikill fjöldi viðskiptavina hafi heimsótt bakaríið gegnum tíðina áfallalaust. Telja stefndu ósannað að hurðarpumpan hafi verið hættuleg viðskiptavinum eða brotið í bága við einhver ákvæði í þágildandi reglugerð nr. 441/1998. Þá sé það rangt og ósannað að lokun hurðarinnar hafi verið „óeðlilega hröð“ eða að hurðin hafi veitt eitthvert högg að ráði þó að hún lendi á manni á leið um dyrnar. Enn fremur sé ósannað að skylt hafi verið að hafa sérstaka hæglokun á hurðinni síðustu sentímetrana.
Stefndu telja að sama skapi ósannað að þröskuldurinn við útidyr bakarísins hafi verið hættulegur og brotið í bága við ákvæði í þágildandi reglugerð nr. 441/1998, sem hafi verið í gildi þegar húseigandi hafi látið setja dyraumbúnaðinn upp árið 2007. Tekur núgildandi byggingarreglugerð frá 2012 ekki til þröskuldarins eða dyraumbúnaðarins að öðru leyti, enda reglugerðin ekki afturvirk. Ekki skipti máli í þessu efni þó að meðstefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, hafi látið endurnýja gangstéttina við húsið á árinu 2012. Þar hafi ekki verið um nývirki að ræða, heldur endurnýjun eða viðhald á stéttinni sem fyrir var. Því verði ekki séð að byggingarreglugerð nr. 112/2012 taki til þeirrar framkvæmdar. Þá verði að líta til þess að stefndu, Mosfellsbakarí ehf. og B, hafi ekki haft neitt með viðhald eða endurnýjun gangstéttarinnar að gera og geti því ekki borið ábyrgð á því ef í ljós kemur að þar hafi verið brotið gegn byggingarreglugerð. Að framangreindu virtu telja þessir stefndu að sýkna beri þá af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi, Mosfellsbakarí ehf., reisir sýknukröfu sína einnig á því að bakaríið geti ekki borið ábyrgð á því þó að hurðarpumpan, þröskuldurinn, dyraumbúnaðurinn og aðstæður við dyrnar standist ekki kröfur laga eða byggingarreglugerða um gerð og búnað fasteigna, þar sem bakaríið hafi ekki verið eigandi húsnæðisins og dyranna, þar sem stefnandi slasaðist, heldur leigjandi húsnæðisins. Reglur um ábyrgð fasteignaeiganda taki því ekki til stefnda, Mosfellsbakarís ehf.
Af hálfu stefndu er varakrafa þeirra á því reist að hvað sem öðru líði þá eigi stefnandi sjálf sök á slysi sínu. Liggi fyrir að stefnandi hafði áður gengið inn í bakaríið og hafi því mátt vita af því hvernig aðkomu og dyraumbúnaði væri háttað, þ.m.t. hurðarpumpu og dyraþröskuldi. Mjög auðvelt hafi verið að ganga slysalaust gegnum dyrnar væri eðlileg aðgát viðhöfð. Mörg þúsund viðskipatvina bakarísins hafi líka gert það í gegnum tíðina. Á því hafi hins vegar orðið misbrestur hjá stefnanda. Það geti ekki stafað af öðru en því að hún hafi ekki gætt sín sem skyldi þegar hún gekk út um dyrnar. Því verði stefnandi að ber hluta af tjóni sínu sjálf vegna eigin sakar. Þó að stefnandi hafi gengið það hægt um dyrnar að hurðin hafi komið í bak henni hafi það ekki átt að valda óhappi, enda högg af hurðinni það lítið að engum hafi átti að bregða við það eða missa jafnvægið. Að mati stefndu tjáir stefnanda því ekki að kenna höggi frá hurðinni um að hún „hálf hrasaði“ eða kom skakkt niður á hægri fótinn og missteig sig, eins og haft sé eftir henni í lögregluskýrslu.
Stefndu vísa máli sínu til stuðnings til almennra reglna skaðabótaréttar utan samninga (sakarreglunnar), reglna um ábyrgð fasteignareigenda og ákvæði byggingarreglugerða nr. 441/1998 og nr. 112/2012. Um málskostnað vísa stefndu til 130. gr. laga nr. 91/1991.
3. Málsástæður og lagarök stefnda, Húsfélagsins Háaleitisbraut 58-60
Sýknukrafa stefnda, Húsfélagsins Háaleitisbraut 58-60, er á því reist að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að saknæm háttsemi stefnda hafi valdið slysinu. Leggur stefndi áherslu á að hér sé ekki um hlutlæga ábyrgð að ræða heldur hvíli á stefnanda að sanna að öll skilyrði almennu sakarreglunnar séu uppfyllt. Stefndi telur það algjörlega ósannað að slys stefnanda megi rekja til gáleysis, vanbúnaðar, vanrækslu eða ófullnægjandi aðstæðna á ábyrgð stefnda. Tjónið sé fyrst og fremst að rekja til gáleysis stefnanda sjálfrar eða óhappatilviljunar.
Stefndi telur að með engu móti hafi verið sýnt fram á að farið hafi verið gegn þágildandi lögum eða reglugerðum af hálfu stefnda. Jafnvel þótt talið verði sannað að gangstéttin sé þannig gerð að fari að einhverju leyti á svig við skráðar reglur þá sé algjörlega ósannað að orsakatengsl séu á milli þeirra brotalama og slyssins.
Stefndi tekur fram að húsið að Háaleitisbraut 58-60 og gangstéttin framan við það hafi verið hönnuð rétt eftir 1960. Fyrir liggi að stefndi hafi farið í viðhald á gangstéttinni á tímabilinu apríl til júní 2012. Steypt stétt hafi þá verið rifin upp, kantsteinn lagður, snjóbræðsla lögð og stéttin hellulögð. Gangstéttin eins og hún hafi verið í upphafi hafi fullnægt öllum þeim kröfum sem þá hafi verið gerðar. Líta verði til þess að ekki hafi verið byggð ný fasteign með nýrri gangstétt í viðhaldsframkvæmdunum árið 2012, heldur hafi verið gert við það sem fyrir var. Því hafi ekki verið hægt að endurhanna stéttina, heldur aðeins færa hlutina til betri vegar eins og unnt var. Stefnandi byggi mál sitt á hendur stefnda á því að ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hafi ekki verið fylgt og þá aðallega reglum um algilda hönnun. Með algildri hönnun í skilningi reglugerðarinnar sé m.a. átt við að allir eigi að geta komist inn og út úr mannvirkjum, þ.e. að einstaklingum sé í því sambandi ekki mismunað eftir því hvort þeir séu fatlaðir eður ei.
Stefndi kveður engar breytingar hafa verið gerðar í viðhaldsframkvæmdunum á hæðarafstöðu stéttarinnar, m.a. vegna afstöðu hennar gagnvart bílastæðum og vatnsbretti á sökkli hússins undir álfronti á framhlið þess. Hæð stéttarinnar sé 13 cm eins og áður var og geti ekki verið hærri svo að bílar geti keyrt með framendann inn yfir kantsteininn. Þá sé stéttin lögð tveimur til þremur sentímetrum fyrir neðan neðri brún vatnsbrettisins. Að mati stefnda sé umferðarleiðin við bakaríið góð, örugg og þægileg með sama hætti og hún hafi verið fyrir viðhaldsframkvæmdina. Til marks um það hafi opinberir aðilar hvorki gert athugasemdir við fyrirkomulag þessa fjölfarna staðar né hafi rekstrarleyfum þeirra verslana og þjónustuaðila sem þarna séu verið settar nokkrar skorður vegna nýrra skilmála um algilda hönnun. Bendir stefndi á að fjöldi verslana og þjónustuaðila sé staðsettur, eins og Mosfellsbakarí, á fyrstu hæð Háaleitisbrautar 58-60. Ef setja ætti rampa upp við alla inngangana myndi gangstéttin verða varhugaverð og illfær gangandi/hjólandi vegfarendum.
Stefndi áréttar að sjónarmið um algilda hönnun í núgildandi byggingarreglugerð sé í nánum tengslum við sjónarmið um aðgengi fyrir alla, þ.e. að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda. Stefndi telur ótækt að þessum sjónarmiðum sé beitt í þessu máli enda hafi stefnandi ekki strítt við fötlun á slysdegi, skerðingu eða veikindi. Verði talið að stefnda hafi borið að haga viðhaldi gangstéttarinnar með einhverjum öðrum hætti þá telur stefndi að stefnandi hafi ekki sannað orsakatengsl milli þess og slyssins. Ekki sé hjá því komist að benda á að enginn sé til frásagnar um það hvernig slysið átti sér nákvæmlega stað annar en stefnandi sjálf og vinkona hennar sem að sögn hafi verið staðsett í bifreið á bílastæði. Ekkert sé komið fram um hvert sjónarhorn vinkonu stefnanda hafi verið á atburðinn frá bílastæðinu. Samkvæmt fyrirliggjandi veðuryfirliti frá Veðurstofu Íslands hafi rignt í Reykjavík 19. september 2014. Ekki sé unnt að gera þær kröfur til húseigenda/verslunareiganda að þeim beri að sjá til þess að inngangur sé með öllu þurr í slíku veðurfari enda sé slíkt óvinnandi vegur. Stefnanda gæti allt eins hafa skrikað fótur í rigningarbleytu í stað þeirrar atburðarásar sem haldið sé fram í stefnu að hafi átt sér stað. Það styrki þá niðurstöðu að aldrei áður hafi orðið óhapp í bakaríinu með sambærilegum hætti og lýst sé að stefnandi hafi orðið fyrir þrátt fyrir að á ári hverju fari mörg þúsund manns um dyrnar. Að mati stefnda styrki það einnig þessa niðurstöðu að stefnandi hafði áður verslað í bakaríinu og hafi því verið öllum aðstæðum þar kunnug. Gera verði ákveðnar lágmarkskröfur um að fólk veiti nærumhverfi sínu athygli og þeir sem taki þátt í samfélagi manna þurfi að sýna almenna lágmarksaðgæslu.
Stefndi mótmælir að lokum sönnunargildi minnisblaðs Eflu verkfræðistofu, enda ljóst að það geti ekki talist til matsgerðar í skilningi IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Stefndi krefst þess til vara að hann verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins. Reisir hann þá kröfu á eigin aðgæsluleysi stefnanda og vísar í því sambandi til þess sem að framan er rakið um að henni hafi borið að sýna tilhlýðilega aðgæslu og að hún hafi verið kunnug staðnum. Aðstæður þar geti ekki talist varhugaverðar eða stefnanda erfiðar. Þá kunni inngangurinn að hafa verið háll vegna rigningar um daginn. Ekkert regluverk, sama hversu ítarlegt það er, geti komið í veg fyrir fall í bleytu ef viðkomandi sýnir ekki sjálfur tilhlýðilega aðgæslu. Stefnandi verði því a.m.k. að bera stærstan hluta tjóns síns sjálf.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna skaðabótaréttar, einkum um sönnunarbyrði, saknæmi, orsakartengsl og eigin sök. Þá vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Enginn ágreiningur er milli aðila um að stefnandi varð fyrir líkamstjóni 19. september 2014 þegar hún féll og ökklabrotnaði á leið sinni út úr Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut 58-60. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi verður að leggja til grundvallar að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefndu.
Í gögnum um komu stefnanda á Landspítala sama dag er haft eftir henni að hún hafi dottið þegar hurð hafi „skollið í bakið á henni“ og hún lent illa. Stefnandi greinir með sama hætti frá atvikinu í lögregluskýrslu 26. febrúar 2015, þannig að hurðin í bakaríinu hafi skollið á henni þegar hún hafi gengið út um dyrnar. Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi hún frá atvikinu með sama hætti.
E, vinkona stefnanda, varð vitni að slysinu. Í símaskýrslu hjá lögreglu 26. febrúar 2015 lýsti hún ástæðu þess að stefnandi missti fótanna með sama hætti og stefnandi, að hún hefði fengið hurðina í bakið og þá fallið aftur fyrir sig. Staðfesti vitnið þessa lýsingu fyrir dómi. Kvaðst hún hafa séð stefnanda koma í dyragættina á leið sinni út úr bakaríinu. Hafi stefnandi stutt vinstri hendinni á dyrakarminn og sett hægri fótinn fram fyrir þröskuldinn, en þá hafi hurðin komið aftan á hana og hún hrokkið við og þunginn farið á hægri fótinn. Við það hafi stefnandi skollið aftur á bak á hurðina sem þá hafði lokast.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir sannað að stefnandi hafi misst jafnvægið þegar útidyrahurðin í bakaríinu stjakaði óvænt við henni á leið hennar út um dyrnar með þeim afleiðingu að hún missteig sig og brotnaði á hægri ökkla. Þó að fyrir liggi að rigning hafi verið í Reykjavík umræddan dag verður í ljósi framburðar E að útiloka að stefnandi hafi runnið til í bleytu í dyrunum líkt og stefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, telur mögulegt.
Almennt verður að leggja ríka skyldu á eigendur og umráðamenn fasteigna, þar sem rekin er verslun fyrir neytendur, að gera eðlilegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra sem þar eiga leið um. Um þá kröfu má vísa til dóma Hæstaréttar Íslands m.a. frá 13. mars 2007 í málinu nr. 419/2007 og frá 8. júní 2006 í málin nr. 517/2005.
Hurðin í bakaríinu er u.þ.b. 80 cm breið glerhurð með álramma sem opnast inn í verslunarrýmið. Hún er búin hurðarpumpu sem er ætlað að fella hurðina sjálfkrafa í dyragættina eftir að viðskiptavinur hefur gengið út um dyrnar. Í kjölfar slyssins var af hálfu stefnanda leitað til Eflu verkfræðistofu til þess að skoða dyraumbúnað bakarísins. Minnisblað um niðurstöðu skoðunar starfsmanna verkfræðistofunnar, C og D, er dagsett 29. janúar 2015. Þá kom C fyrir dóm til að bera um það hvernig hurðarpumpan virkaði þegar hann skoðaði dyrnar. Bæði í minnisblaðinu og í skýrslu C fyrir dómi kom fram að pumpan hafi verið þannig stillt við skoðunina að hún lokaðist óvenjulega hratt auk þess sem hæglokun síðustu sentímetrana vantaði. Það var einnig upplifun dómara við vettvangsferð að hurðin lokaðist í einni, hraðri sveiflu.
Af hálfu húseiganda og leigutaka hefur verið upplýst að dyraumbúnaðurinn hafi verið endurnýjaður og hurðarpumpan sett upp af eiganda verslunarrýmisins árið 2007. Engar reglur voru í þágildandi byggingarreglugerð um hurðarpumpur eða aðrar sjálfvirkar lokanir á hurðum. Í núgildandi byggingarreglugerð, nr. 112/2012, er hins vegar kveðið á um í 5. mgr. greinar 12.3.1 að pumpur skuli ávallt hæfa viðkomandi hurðum og skuli búnaðurinn vera „þannig gerðar að ekki verði slysahætta og aðgengi allra sé tryggt“. Þó að ekki hafi verið kveðið á um þetta atriði í þágildandi byggingarreglugerð verður almennt að gera kröfu um að hurðarpumpa á dyrum í verslunarrými af þessum toga sé þannig útbúin að hún loki ekki á fólk á leið þeirra út úr versluninni. Eins og umbúnaður þessi var úr garði gerður í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut var hætt við að það gerðist. Samkvæmt framansögðu telur dómurinn að slys stefnanda megi rekja til vanbúnaðar á hurðarpumpunni.
Enn fremur háttar svo til að viðskiptavinir þurfa í dyragættinni að stíga niður þrep sem er u.þ.b. 12 til 13 cm á hæð. Þetta eykur hættuna á því að ýmis viðskiptavinir þurfi að dvelji andartaki lengur í dyragættinni og að hurðin nái af þeim sökum að stjaka við þeim. Hæðarmismunurinn eykur einnig hættuna á því að viðkomandi misstígi þegar hann stígur í fótinn eftir að hafa misst jafnvægið í dyragættinni. Fyrirsvarsmönnum bakarísins og eiganda verslunarrýmisins mátti vera ljós hættan á því að slys gæti hlotist af þessum umbúnaði þó að almennt sé ólíklegt að fólk verði fyrir alvarlegum meiðslum við að missa jafnvægið á þessum stað. Þá er til þess að líta að auðvelt átti að vera draga úr hættunni sem af þessu stafaði með því að stilla hurðarpumpuna eða lagfæra hana þannig að hún lokaðist hægar.
Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið verður á það fallist að stefndi, Mosfellsbakarí ehf., sem umráðamaður verslunarrýmisins, og stefndi, B, sem eigandi þessa hluta fasteignarinnar, skuli sameiginlega bera skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem stefnandi hlaut þegar hún missteig sig á leið sinni út úr bakaríinu.
Stefnda býr fjarri höfuðborgarsvæðinu en ráða mátti af skýrslu hennar fyrir dómi að hún komi þangað reglulega. Kvaðst hún hafa nokkrum sinnum áður verslað í bakaríinu, en hélt að það hefði verið í innan við tíu skipti. Ekkert liggur fyrir um hvenær það hafi verið eða hvort hún hafi þá veitt umbúnaði dyranna sérstaka athygli eða hvernig hurðin lokaðist. Að sögn vitnisins E fór stefnandi varlega út um dyrnar. Ekki er efni til þess að stefnandi beri sjálf hluta af tjóninu á grundvelli eigin sakar.
Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi er húseignin að Háaleitisbraut 58-60 byggð á fyrri hluta sjöunda áratugar 20. aldar. Fyrir liggur að stefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, stóð að framkvæmdum á gangstéttinni sem liggur milli bílastæðisins og hússins á tímabilinu frá apríl fram í júní 2012. Samkvæmt framburði formanns húsfélagsins fyrir dómi var hellulögnin í sömu hæð og stéttin sem hafði verið fjarlægð. Hönnunarteikningar, dags. 23. mars 2012, sem bera yfirskriftina Endurnýjun gangstéttar við hús 2012, hafa verið lagðar fram í málinu. Samkvæmt þeim fólst framkvæmdin fyrst og fremst í því að gangstéttin var endurnýjuð með því að hellur komu í stað steyptrar gangstéttar, auk þess sem snjóbræðslulögn var komið fyrir undir hellulögninni.
Þegar framkvæmdirnar hófust hafði byggingarreglugerð nr. 112/2012 tekið gildi. Á það má fallast að umræddar framkvæmdir heyri undir e-lið greinar 2.3.5 í reglugerðinni þar sem segir að framkvæmdir og breytingar sem fela í sér eðlilegt viðhald lóðar séu undanþegnar byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki. Þá er ekki skylt að tilkynna slíkar framkvæmdir til byggingarfulltrúa. Í grein 2.3.7, sem upphaflega var grein 2.3.6, segir þó að eigandi mannvirkis beri m.a. ábyrgð á því að „virt séu öll viðeigandi ákvæði þessarar reglugerðar“ þó að framkvæmd sé undanþegin byggingarleyfi.
Stefnandi ber því við að stefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, beri skaðabótaábyrgð á tjóni hennar þar sem framkvæmdir félagsins á gangstéttinni hafi ekki samrýmst kröfum 5. mgr. greinar 6.4.2 í byggingarreglugerð. Því til stuðnings er á það bent að af d-lið málsgreinarinnar leiði að þröskuldur við inngangs- og útidyr í verslunarrými megi ekki vera hærri en 25 mm og að hæðarmunur utan- og innandyra skuli vera sá sami. Fyrir liggur að nýja gangstéttin er til muna neðar en gólfflöturinn í bakaríinu. Samkvæmt gögnum málsins virðist hæðarmunurinn nema um 125 mm. Stefndi hafnar því að honum hafi borið að taka mið af þessari kröfu í reglugerðinni, sem reist er á svonefndri algildri hönnun, enda einungis um viðhaldsframkvæmd að ræða á eldri fasteign sem ekki hafi falið í sér neina breytingu á eigninni.
Í 6. hluta byggingarreglugerðarinnar er fjallað um aðkomu, umferðarleiðir og innra rými mannvirkja. Fasteignir sem hýsa verslanir og aðrar byggingar sem ætlaðar eru almenningi lúta kröfum um algilda hönnun samkvæmt grein 6.1.3. Í 2. mgr. greinar 6.1.5 í byggingarreglugerðinni kemur fram að við breytingu á mannvirki, sem byggt hefur verið í gildistíð eldri byggingarreglugerða, skuli eftir því sem unnt er byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Framkvæmdirnar sem um ræðir fólu ekki í sér viðhald á eldri gangstétt heldur endurnýjun hennar. Mannvirkinu var breytt að þessu leyti og því var rétt að byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar eftir því sem unnt var við framkvæmdirnar.
Eins og þegar hefur verið vikið að eykur hæðarmismunurinn á gólfinu í bakaríinu og gangstéttinni fyrir utan hættuna á því að hurðin nái að stjaka við þeim sem eiga leið um dyrnar þannig að þeir missi jafnvægið og misstígi sig. Þessi hæðarmismunur er þó út af fyrir sig ekki svo óvenjulegur. Væri hurðarpumpan í lagi má ætla að dyraumbúnaðurinn skapaði litla sem enga hættu á meiðslum sýni þeir sem þarna eiga leið af sér lágmarksaðgæslu. Sjónarmið algildrar hönnunar sem áður er getið miða í þessu tilviki einungis að því að auðvelda aðgang hreyfihamlaðra að verslunarrýminu, en ekki að draga úr fallhættu. Ekki er unnt að fallast á að stefnda, Húsfélaginu Háaleitisbraut 58-60, hafi við endurhönnun gangstéttarinnar borið að draga úr þeirri hættu sem hlaust af vanbúinni hurðarpumpu í bakaríinu. Verður stefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, því ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda.
Samkvæmt framansögðu verður tekin til greina krafa stefnanda um að viðurkennd verði óskipt bótaskylda stefndu, Mosfellsbakarís ehf. og B, á líkamstjóni því sem stefnandi varð fyrir 19. september 2014 í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut. Aftur á móti verður stefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, sýknað af sömu kröfu.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndu, Mosfellsbakaríi ehf. og B, gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur. Á sama grunni verður stefnanda aftur á móti gert að greiða hinu stefnda húsfélagi, málskostnað, en hann þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Viðurkennt er að óskipt skaðabótaskylda hvíli á stefndu, Mosfellsbakaríi ehf. og B, vegna líkamstjóns sem stefnandi, A, varð fyrir 19. september 2014 í Mosfellsbakaríi, Háaleitisbraut 58-60.
Stefndi, Húsfélagið Háaleitisbraut 58-60, er sýkn af kröfum stefnanda.
Stefndu, Mosfellsbakarí ehf. og B, greiði stefnanda óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi greiði stefnda, Húsfélaginu Háaleitisbraut 58-60, 700.000 krónur í málskostnað.