Hæstiréttur íslands

Mál nr. 314/2009


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Vinnuvélar
  • Skip


Fimmtudaginn 25. febrúar 2010.

Nr. 314/2009.

Á. B. Lyfting ehf.

(Grétar Haraldsson hrl.) 

gegn

Samskipum hf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

Skaðabótamál. Vinnuvélar. Skip.

S hf. krafði Á ehf. um skaðabætur vegna tjóns sem varð þegar verið var að hífa jarðbor úr lest flutningaskips sem S hf. hafði á leigu. Ástæða óhappsins var sú að stroffur skárust í sundur þar sem þær voru ekki festar í borinn með viðeigandi hætti. Talið var að verkstjórn hafi ekki verið í höndum Á ehf. og að tjónið yrði ekki rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna Á ehf. Því var félagið sýknað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2009. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með hinum áfrýjaða dómi voru áfrýjandi og Sigurtak ehf. dæmdir óskipt til að greiða stefnda skaðabætur vegna tjóns 7. apríl 2007, sem varð þegar verið var að hífa 47 tonna jarðbor úr lest flutningaskips sem stefndi hafði á leigu. Aðila greinir ekki á um að ástæða óhappsins hafi verið sú að stroffa, sem brugðið hafði verið um styrktarbita á bornum framanverðum, skarst í sundur á skarpri brún styrktarbitans. Við það féll borinn aftur niður í lestina. Við verkið voru notaðir tveir kranar áfrýjanda sem starfsmenn hans stjórnuðu. Óumdeilt er að komast hefði mátt hjá óhappinu með því að setja viðeigandi hlífar undir stroffuna þegar hún var sett um borinn í lest skipsins. Sigurtak ehf. áfrýjaði ekki héraðsdómi.

Fram er komið að 4. apríl 2007 hittust fyrirsvarsmenn stefnda og Sigurtaks ehf. til að fjalla um framkvæmd uppskipunar úr skipinu á varningi af ýmsu tagi. Við það tækifæri var fyrirsvarsmanni Sigurtaks ehf. afhent lestunarplan eða yfirlitsmynd um farm skipsins. Kveður stefndi að á þessum fundi hafi verið vikið að búnaði sem nota mætti við hífingu. Þá munu þessir menn hafa eftir þetta átt samtöl í síma um framkvæmd uppskipunar. Fyrirvarsmaður áfrýjanda var ekki boðaður á framangreindan fund, en fyrirsvarsmaður stefnda mun hafa haft samband við hann símleiðis og talað við hann um verkið sem áfrýjandi átti að sinna. Fyrir dómi kvaðst fyrirsvarsmaður stefnda hafa talið að Sigurtak ehf. myndi annast verkstjórnina og áfrýjandi starfa eftir fyrirmælum Sigurtaks ehf., en ekki hafi verið forsvaranlegt að nota stroffu án hlífa. Hafi það verið í verkahring hins síðarnefnda að ákveða hvaða búnað heppilegast væri að nota við hífingu á þungum stykkjum.

Eins og greinir í héraðsdómi var á hinn bóginn á því byggt af hálfu Sigurtaks ehf. að stefndi hefði haft yfirumsjón með allri uppskipuninni og borið ábyrgð á verkstjórn þar á meðal við kranavinnu, en þessu hefði hann ekki sinnt með fullnægjandi hætti. Í skriflegri skýrslu fyrirsvarsmanns Sigurtaks ehf., sem hann staðfesti fyrir dómi, kvaðst hann ekki vilja neita því að hann hafi átt þátt í að húkka í borinn ásamt áhafnarmeðlimum skipsins. Þá hafi hann haft samráð við annan kranamanna um hífingarbúnað sem hann vildi þó „ekki færa sökina á vegna trausts hans á mér eftir að hann yfirgaf lestina upp í krana.“

Fram er komið að sá kranamanna sem athugaði aðstæður í lest skipsins var farinn úr skipinu þegar stroffan var fest. Ekki verður fallist á með héraðsdómi að það skuli metið áfrýjanda til sakar að hinn kranamaðurinn hafi kallað ofan í lest og spurt hvort gengið hafi verið tryggilega frá festingum og nefnt sérstaklega í því sambandi hvort nokkur hætta væri á að stroffan myndi skerast í sundur, enda verður ekki talið að áfrýjandi hafi átt að stjórna verkinu. Samkvæmt því og eins atvikum er lýst hér að framan verður ekki fallist á með stefnda að tjónið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna áfrýjanda. Verður hann því sýknaður af kröfu stefnda.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Á. B. Lyfting ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Samskipa hf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 17. mars 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. mars sl., var höfðað 25. mars 2008.

Stefnandi er Samskip hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík.

Stefndu eru Sigurtak ehf., Birkihvammi 4, Kópavogi og Á.B. Lyfting ehf., Melabraut 23-25, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum óskipt 140.000 bandaríkjadali með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. apríl 2007 til 1. mars 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi Sigurtak ehf. krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

Stefndi Á.B. Lyfting ehf. krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

1.

Málsatvik eins og þau horfa við stefnanda eru þau helst, að þann 7. apríl 2007 hafi stefnandi keypt verktakaþjónustu af stefndu við losun úr flutningaskipinu MV/ Nordersand þar sem skipið lá bundið við Vogabakka í Sundahöfn í Reykjavík. Meðal þess sem losað skyldi úr skipinu hafi verið 47 tonna jarðabor af gerðinni Schramm sem var fluttur hingað til lands frá Bandaríkjunum af stefnanda fyrir Ræktunarfélag Flóa og Skeiða ehf. til borunar eftir jarðhita. Stefndu hafi unnið við hífingu borsins frá borði í Sundahöfn í sameiningu. Þannig hafi verið staðið að verki að tveir bílkranar á vegum stefnda Á.B. Lyftingar ehf. hafi híft borinn upp úr lest skipsins. Af hálfu stefnda Sigurtaks ehf. hafi keðjur verið festar í afturhluta borsins og í bómuna á öðrum bílkrananum. Þær festingar hafi haldið allan tímann meðan á verkinu stóð. Þá hafi starfsmenn Sigurtaks ehf. fest stroffu utan um styrktarbita á framhluta borsins og í bómuna á hinum bílkrananum. Brúnir styrktarbitans hafi verið tiltölulega skarpar. Þegar búið hafi verið að hífa borinn með afli beggja bílkrana í um 8 metra hæð, hafi stroffan slitnað með þeim afleiðingum að borinn steyptist á framendann ofan í lest skipsins og varð altjón á bornum.

Í aðdraganda komu skipsins hafi verið haft samband við stefndu af hálfu Harðar Gunnarssonar viðskiptastjóra hjá stórflutningadeild stefnanda og nokkrum sinnum eftir það fram að komu skipsins. Í þeim samtölum hafi með hefðbundnum hætti verið farið yfir hvernig farmur væri í skipinu, þyngdir og fleiri upplýsingar. Að ósk Harðar hafi Sigurbjörn Rúnar fyrirsvarsmaður stefnda Sigurtaks ehf.  komið þann 4. apríl 2007 á fund hans ásamt starfsmanni sínum til að sækja lestunarplan svo unnt væri að fara yfir það hvernig Sigurbjörn Rúnar hygðist vinna verkið, hvaða mannafla þyrfti o.s.frv. Farið hafi verið yfir þetta á fundinum og m.a. vikið að hífibúnaði sem notast skyldi við og geymdur var á nánar tilgreindum stað við skipaafgreiðslu stefnanda. Sigurbjörn Rúnar hafi þekkt til þessa búnaðar vegna fyrri starfa fyrir stefnanda að skipaafgreiðslu. Stefndu hafi tekið ákvörðun um hvaða búnað skyldi nota umrætt sinn og hafi það val reynst rangt og óforsvaranlegt. Stefnandi hafi haft yfir að ráða nægjanlega traustum hífibúnaði á vettvangi sem hefði dugað til öruggrar hífingar borsins frá borði.

Stefnandi getur um niðurstöðu þriggja skoðunarfyrirtækja á orsökum óhappsins og ber þeim öllum saman um að orsök óhappsins megi rekja til þess að stroffa sem notuð var við hífinguna skarst í sundur á skörpum brúnum styrktarbita sem hún var fest utan um án þess að trébatti eða sambærilegur búnaður til varnar hafi verið notaður.

Með bréfum dagsettum 11. apríl 2007 tilkynnti stefnandi stefndu að félagið myndi krefja þá um greiðslu kæmi til þess að stefnandi yrði krafinn um bætur vegna tjónsins. Með bréfum lögmanns Ræktunarfélags Flóa og Skeiða ehf. til stefnanda og beggja stefndu, dagsettu 10. maí 2007, var af hálfu félagsins tilkynnt að félagið teldi ,,ljóst að orsök tjónsins mætti rekja til stórfelldra mistaka við uppskipun borsins” og var fullur bótaréttur áskilinn. Vátryggjandi borsins greiddi umræddu félagi fullar vátryggingabætur vegna tjónsins þann 22. júlí 2007, 1.136.798,67 bandaríkjadali. Með samkomulagi 24. janúar  féllst stefnandi á, með hliðsjón af takmörkunarákvæðum siglingalaga nr. 34/1985, að greiða vátryggjandanum 140.000 bandaríkjadali vegna tjónsins. Með bréfi dagsettu 31. janúar s.á. krafði stefnandi stefndu óskipt um þá fjárhæð. Stefndu höfnuðu bótaábyrgð.

Málsatvik eins og þau horfa við stefnda Sigurtaki ehf. eru þau helst, að um mánaðamótin mars/apríl 2007 hafi Hörður Gunnarsson yfirmaður stórflutningadeildar stefnanda haft samband við fyrirsvarsmann stefnda, Sigurbjörn, og farið þess á leit að stefndi útvegaði starfsmenn til aðstoðar við losun og lestun skipsins MV Nordersand. Skortur væri á starfsmönnum. Um væri að ræða leiguskip á vegum stefnanda og væri ráðgert að vinna við skipið færi fram 6.-7. apríl. Þegar til kom hafi átta menn frá stefnda unnið við verkið, þrír til fjórir frá stefnanda, sex úr áhöfn skipsins og tveir frá stefnda Á.B. Lyftingu ehf., sem hafi útvegað tvo krana til verksins og hafi einn kranamaður verið á hvorum krana. Starfsmenn stefnda Sigurtaks ehf. hafi tekið við vörum úr skipinu á bryggju, losað þær og húkkað úr og komið vörunum fyrir á svæði stefnanda með lyfturum. Áhafnarmeðlimir hafi séð um að húkka í varning í skipi. Skömmu áður en kom að losun borsins, sem var um 40 tonn að þyngd og hafði verið lestaður í Rotterdam án vandkvæða, hafði annar starfsmanna stefnda Á.B. Lyftingar gert athugasemd varðandi húkkun áhafnarmeðlima í byggingarkrana sem hann hífði upp. Hafði kraninn komið skakkur upp við hífinguna. Af þessum sökum hafi kranamaðurinn kallað til Sigurbjörns Rúnars, sem þá var að losa varning á bryggjunni og farið þess á leit að hann aðstoðaði við húkkun í borinn. Að því verki og ákvarðanatöku hafi allir þeir er á staðnum voru komið, þ.e. Sigurbjörn, kranamaður, starfsmenn stefnanda og áhafnarmeðlimir. Hafi niðurstaðan orðið sú að keðjur voru settar í sérstakar festingar á borinn að aftan, en stroffa sett  á borinn að framan. Stroffan hafi svo slitnað, borinn fallið í lestargólf og skemmst.

Fram kemur í greinargerð stefnda Sigurtaks ehf. að fyrirtækið reki fjölþætta starfsemi, m.a. rafverktakastarfsemi, ýmsa starfsemi tengda húsbyggingum og þá hafi fyrirtækið útvegað starfsmenn til annarra fyrirtækja til ýmissa verka t.d. að aðstoða við lestun og losun skipa. Þannig hafi fyrirtækið útvegað starfsmenn til slíkra verka til Atlantsskipa hf. og stefnanda.

Stefndi Á.B. Lyfting ehf. lýsir helstu atvikum svo að stefndi, sem reki kranaþjónustu, hafi oft tekið að sér verk sem fyrir stefnanda. Stefndi hafi verið beðinn að útvega tvo krana við losun skipsins MV Nordersand í Sundahöfn þann 7. apríl 2007. Hvorum krana hafi fylgt einn kranamaður og hafi þetta verið einu mennirnir sem unnu við verkið á vegum stefnda. Viðskipastjóri stefnanda, Hörður Gunnarsson, hafi ekki haft annað samband við stefnda en að panta  kranana. Starfsmenn stefnda Á.B. Lyftingar ehf. hafi ekki unnið við að húkka varningi í kranakrókana. Við það hafi starfsmenn stefnanda unnið. Meðal þess sem hífa þurfti á land hafi verið umræddur krani um 47 tonn að þyngd. Stefndi hafi haft á sínum vegum á staðnum keðjur til að hífa þung stykki. Þær hafi verið notaðar og krækt í sérstakar festingar (tvö augu) ætlaðar til að hífa borinn að aftan, en að framan hafi einnig verið sérstök festing (auga), en einhverra hluta vegna hafi hún ekki verið notuð við hífingu borsins að ákvörðun starfsmanna stefnanda, sem unnu við að húkka í borinn og í stað keðjunnar hafi verið notuð kaðalstroffa, sem stefnandi lagði til, einnig að ákvörðun starfsmanna stefnanda, sem unnu við áhúkkunina. Það hafi því verið ákvörðun starfsmanna er unnu í lest skipsins á vegum stefnanda að nota kaðalstroffu og það hafi einnig verið ákvörðun þeirra hvernig stroffunni var fest í borinn. Starfsmenn stefnda Á.B. Lyftingar ehf. hafi ekkert haft með það að gera. Jens Klein hafi verið kranamaður á krananum sem hífði í borinn framanverðan, en Pétur Júlíus Óskarsson hafi verið kranamaður á hinum krananum. Við hífingu borsins hafi þeir verið í símasambandi og hafi hífingin gengið vel og að öllu leyti eins og best var á kosið. Starfsmaður stefnanda í lest hafi haft samband við Pétur kranamann um áhúkkunina og hafi Pétur ráðlagt honum að nota keðjur beggja vegna og ,,augun”, en áhúkkarinn hafi talið betra að nota stroffu að framan og að nota ekki ,,augað” og hafi hann ráðið því. Þegar búið hafi verið að hífa nokkuð í báðum megin hafi Jens Klein farið fram að lestarlúgu og spurt hvort allt væri í lagi og fengið þau svör frá áhúkkunarmönnum að svo væri. Hann hafi þá farið aftur upp í kranann og kranamennirnir híft upp samtímis, enda hafi þeir verið í símasambandi og samstillt verk sín.

2.

Sigurbjörn Rúnar Sigurbjörnsson fyrirsvarsmaður stefnda Sigurtaks ehf. skýrði svo frá fyrir dóminum í aðilaskýrslu sinni að hann hefði oft unnið fyrir stefnanda í afleysingum þegar þá vantaði mannskap, t.d. vegna veikinda starfsmanna og færi vinnan þá fram undir stjórn starfsmanna Samskipa.  Í því tilviki sem málið er risið af  hafi verið að koma páskafrí og hafi Hörður hringt og sagt að hann vantaði fleiri menn í uppskipun. Þeir hefðu komið á staðinn en illa hefði verið staðið að verkinu. Allt hefði verið illa skipulagt, enginn vaktstjóri hefði verið á staðnum og enginn með  lykla að tækjum. Hann hefði ætlað að hann ætti ekki að bera ábyrgð á verkinu heldur hlýða skipunum annarra. Hefði hann átt að bera einhverja ábyrgð á verkinu hefði hann viljað vita það fyrirfram og hefði hann þá jafnvel keypt tryggingar. Hann hefði hins vegar aldrei verið  beðinn um að taka slíka ábyrgð á sig. Hann kvað átta starfsmenn hafa komið frá stefnda, þrír hafi komið frá stefnanda en þeir hafi átt að vera fleiri. Hann hefði talið sig vera að fylla upp í lausar stöður hjá stefnanda en ekki að taka yfir stjórn verksins. Þá hefði áhöfn skipsins verið á staðnum og tveir kranamenn. Starfsmenn hans hefðu verið að mestu á bryggju við að taka á móti varningi, raða inn í gáma og koma vörunni í burtu. Hásetar skipsins hefðu að mestu séð um að húkka í varning um borð. Enginn hefði stjórnað verkinu. Hann hefði hins vegar stjórnað eigin mönnum. Hann hefði haldið  að Hörður ætti að stjórna verkinu. Hörður hefði  þó sagt daginn áður að hann yrði lítið við en ná mætti í hann í síma.

Hann kvað krana sem hásetar höfðu húkkað í hafa komið skakkan upp. Kranamaður hefði gert athugasemdir við það og beðið hann að koma með niður í lest til að athuga hvernig taka ætti borinn upp. Þarna hefði verið áhöfn skipsins, þ. á m. stýrimaður o.fl. Ákvörðun hefði verið tekin um að nota stroffur við að hífa borinn að framanverðu en keðjur að aftan. Ákveðið hefði verið að nota stroffur svo borinn rispaðist ekki. Það hefði átt að vera í lagi nema að gleymst hefði að setja spýtukubba við hvassar brúnir borsins. Á því hefðu allir borið ábyrgð. Þarna hefðu hins vegar átt að vera til staðar teikningar um hvernig ætti að hífa. Upplýsingar hefðu legið fyrir um að augu hefðu verið notuð til að húkka í þegar bor var tekinn um borð. Rætt hefði verið um að nota augun en horfið frá því. Augun hefðu verið á bornum en ekki bílnum. Þeir hefðu ekki þorað að taka áhættuna á því hvort bíllinn héldist við borinn í hífingu. Ekkert hefði verið rætt um hvernig ætti að hífa borinn á fundi hans með Herði Gunnarssyni.

Hann kvaðst ekki hafa tekið verkið að sér sem sjálfstæður verktaki með stjórnunarábyrgð. Starfsmenn hans hefðu verið starfsmenn stefnanda eins og launþegar. Hann kvað stefnda þó hafa unnið þetta verk sem verktaka hjá stefnanda. Er hann hitti Hörð Gunnarsson hefði verið punktað niður hvað marga menn þyrfti og hvað þeir ættu að vinna lengi, útvegun krana o. fl. Hann hefði fengið í hendur yfirlitsmynd yfir hvað væri í skipi, hvað í lest og hvað á dekki. Umræður hefðu snúist mikið um áburðarfarminn í skipinu. Farið hefði verið yfir hvernig ætti að vinna verkið. Hann hefði vitað um jarðborinn um borð. Hann kvaðst hafa hringt nokkrum sinnum í Hörð en hann aldrei svarað, kominn í frí. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hringdi út af stroffunni. Hann taldi sig reyndar ekki eiga að þurfa að hringja út af þessu, hann væri bara starfsmaður. Hann kvað aldrei hafa verið rætt um að nota spýtu eða aðra hlíf vegna stroffunnar. Enginn hefði gert sér grein fyrir því fyrirfram að þarna gæti skörp brún slitið stroffuna. Hefði verið notuð keðja sem hentaði hefði borinn komist klakklaust upp. Stroffan hefði einnig átt að duga. Hin hvassa brún hefði hins vegar ekki komið til umræðu. Hann kvaðst hafa átt hlut í því að húkka í borinn. Aðferðin hafi verið samþykkt af honum, Pétri kranamanni og áhöfn. Pétur hefði verið niðri í lest er ákvörðun var tekin um hífinguna. Jens kranamaður hefði ekki komið niður í lest.

Ástþór Björnsson fyrirsvarsmaður stefnda Á.B. Lyftingar ehf. skýrði svo frá fyrir dóminum í aðilaskýrslu sinni að Hörður hefði hringt og pantað krana í verkefnið. Hann hefði ekki beðið um að kranamenn sæju um áhúkkun niðri í lest. Það sé yfirleitt aldrei gert. Hann kvaðst ekki vita hvort verkstjórar voru frá stefnanda. Hann hefði komið til starfa sem verktaki og gert stefnanda reikning fyrir verkið. Hann hefði unnið við hífingar frá 16 ára aldri og um hefði verið að ræða ágætis kranamenn og sérfræðinga. Rukkað hefði verið fyrir tímavinnu. Honum hefði ekki verið boðin þátttaka í viðræðum við bandarískt tryggingarfélag varðandi kröfu á Samskip.

Vitnið Hörður Gunnarsson viðskiptastjóri í stórflutningadeild stefnanda staðfesti greinargerð sína í málinu. Hann kvað starf sitt hjá stefnanda vera að selja flutningaþjónustu og útvega skip til flutninganna. Farmeigendur kosti lestun og  losun. Hann sjái um að útvega mannskap fyrir stefnanda í umboði farmeigenda. Þeir geri stefnanda síðan  reikning fyrir verktökuna. Hann kvaðst hafa reynslu af því að starfa með þessum verktökum eða stefndu. Þeir séu úrræðagóðir og vinni faglega. Hann treysti þessum mönnum til góðra verka. Um samskiptin við fyrirsvarsmenn verktakanna í aðdraganda komu skipsins kvað hann Sigurbjörn hafa nokkru áður sagt sér að hann væri með fyrirtæki og mannskap í skipaafgreiðslu. Fyrir hafi þá legið að ráða þyrfti verktaka til að losa umrætt skip. Hann hefði beðið Sigurbjörn að taka verkið að sér gegn tímagjaldi og hefði hann rakið verkefnið fyrir honum. Hann hefði hitt Sigurbjörn og farið yfir lestunarplanið með honum. Hann hefði viljað fá fram hjá Sigurbirni hvernig hann ætlaði að vinna þetta verk og hvort hann hefði nægan mannskap í verkið og svona praktísk atriði. Rætt hefði verið um að allur hífingarbúnaður væri til staðar sem Sigurbjörn þekkti til. Rætt hefði verið um hverjir væru kranamenn. Hann hefði reiknað með því að Sigurbjörn sæi um verkstjórn við losun skipsins, sérstaklega með hliðsjón af hinum þungu hlutum.  Hann kvað eiganda áburðarfarmsins í skipinu hafa greitt áhöfn fyrir losun á áburðarfarmi. Áhöfninni hefði ekki verið greitt fyrir losun stærri stykkja. Hann hefði litið svo á að stefndi Sigurtak færi með verkstjórn þarna. Hann hefði nefnt að Sigurbjörn mætti hringja í hann ef á þyrfti að halda, en hann yrði ekki á staðnum. Þeir hefðu svo verið í einhverju sambandi er áburður var losaður. Sigurbjörn hefði hins vegar ekkert hringt út af jarðbornum eða hvernig hífa ætti borinn upp. Samskiptin við stefnda Á.B. Lyftingu hefðu verið hefðbundin. Hann hefði lýst fyrir Ásbirni hvað hífa ætti úr skipi. Allt í gegnum síma.

Hífingarbúnaður hefði verið geymdur í sérstökum gámum og körum við afgreiðsluna. Sigurbjörn hefði þekkt búnaðinn. Stroffan sem slitnaði hefði verið hluti af búnaði sem til reiðu var. Margs konar búnaður hefði verið til. Háð sé mati hverju sinni hvaða búnað sé heppilegast að nota. Óforsvaranlegt hafi verið að nota stroffurnar  án hlífa, sem voru til staðar. Hlífarnar verji einnig búnað sem eigi að hífa fyrir skemmdum. Hann kvað algengt að leitað sé til manna úti í bæ til að annast lestun. Stórflutningadeild stefnanda noti aldrei starfsmenn skipaafgreiðslu stefnanda nema vegna lestunar gáma. Alger regla sé að verktakar séu ráðnir til losunar leiguskipa. Einn starfsmaður hafi verið þarna frá stefnanda. Sigurbjörn hafi sagt að hann væri ekki með  nógu marga og því hafi verið fenginn einn maður frá skipaafgreiðslunni. Þetta verk hafi verið öðruvísi en verk hjá skipaafgreiðslunni. Þar séu verkstjórar sem stjórni vinnu. Ekki hafi verið gert ráð fyrir vaktstjóra frá stefnanda. Verktaki hafi verið ráðinn til að annast þessa losun. Hann kvað ekkert hafa verið rætt sérstaklega um hífingu borsins. Í lestunarplaninu hafi komið fram staðsetning og þyngd borsins. Rætt hefði verið um að hífa þyrfti bor með tveimur krönum og að allur búnaður væri til staðar. Velja þyrfti réttan búnað eftir könnun aðstæðna. Hann kvað það fara eftir eðli óhapps hvort lögregla sé kvödd á staðinn. Í þessu tilviki hafi lögregla komið fljótt á staðinn svo og tjónamatsmenn. Hann kvaðst undrast þau slælegu vinnubrögð lögreglu að ræða ekki við áhöfn. Það hefði ekki komið í ljós fyrr en síðar að ekki var rætt við alla sem nauðsynlegt hefði verið að gera.

Vitnið Pétur Júlíus Óskarsson starfsmaður stefnda Á.B. Lyftingar ehf. skýrði svo frá fyrir dómnum að hans vinna hefði verið að hífa borinn með krananum. Ekki hefði verið á hans sviði að stjórna störfum í lest. Í lest hefðu verið menn úr  áhöfn, Hörður, starfsmenn stefnda Sigurtaks og starfsmenn Samskipa. Mistök hefðu orðið við áhúkkun niðri í lest. Engin mistök hefðu orðið við hífingu. Ekki hefði verið rétt gengið frá áhúkkun að framan. Stroffa hefði verið sett beint á járnið og ekkert haft til að hlífa henni. Það hefði verið Sigurbjörn sem sá um áhúkkun niðri í lest. Hann kvaðst hafa farið niður í lest til að færa bor og hefði hann þá verið spurður álits. Hann hefði bent á keðjur að aftan og á augu að framan. Honum hefði þá verið sagt að ekki væri hægt að nota keðjur að framan þar sem þær myndu rispa bor. Hann hefði verið uppi þegar ákveðið var að nota stroffuna og aldrei séð hvernig hún var fest á. Jens kranamaður hefði farið að lúgunni og spurt hvort í lagi væri að halda áfram hífingu og hífa upp. Sagt hefði verið að það væri í lagi og því hefðu þeir treyst, þ.e. Sigurtaksmönnum sem sáu um þetta niðri í lest. Áhöfn hefði séð um áhúkkun á áburði ásamt Sigurbirni í fyrri hluta losunar. En er hífa átti stóru hlutina hefðu Sigurtaksmenn komið meira að. Hann hefði sagt sína skoðun varðandi áhúkkun í borinn, þ.e í augu. Sigurbjörn hefði hins vegar sagt að hann vildi ekki nota þann útbúnað, það gæti rispað borinn. Samskipsmenn hefðu ekkert komið ekkert nálægt þessu. Hann kvað nota hafa mátt lása í augun á bornum og síðan keðjur til að hífa.

Vitnið Jens Klein starfsmaður stefnda Á.B. Lyftingar ehf. skýrði svo frá fyrir dómnum að þeir hefðu komið á staðinn og híft m.a. bor. Húkkað hefði verið í borinn og hann hífður upp en slitnað niður. Fyrir hífinguna hefði hann farið út úr krananum, kallað niður í lest og spurt hvort hætta væri á að stroffan skærist. Hann hefði fengið þau svör svo væri ekki og hefði hann þá farið upp í krana og híft þangað til stroffan slitnaði. Hann eigi að geta treyst svörum lúgumanns eða lestarmanna í þessum efnum. Hann kvað starfsmenn stefnda Sigurtaks hafa fest stroffuna utan um borinn að framan. Það hefði hann einnig sagt í skýrslutöku hjá lögreglu.

3.

Stefnandi byggir á því að fyrir liggi að stefndu hafi tekið að sér sem verktakar að annast losun úr framangreindu skipi í Sundahöfn þann 7. apríl 2007, þ. á m. að koma 47 tonna jarðbor í land. Stefnandi hafi treyst á sérfræðiþekkingu og reynslu þessara aðila við umrætt verk og hafi stefndu gert stefnanda reikninga vegna verksins.

Ljóst þyki að vinna stefndu að verkinu hafi verið óforsvaranleg og leitt til þess tjóns er varð. Stroffa sem notast hafi verið við utan um styrktarbita á framhluta borsins hafi slitnað þegar borinn var kominn í nokkra hæð, en því hafi valdið m. a. skarpar brúnir styrktarbitans. Þannig hafi val stefndu á búnaði við losunina verið rangt en því verki hafi stefndu stýrt alfarið sjálfir. Stefndu beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af hlaust á grundvelli skaðabótareglna innan samninga. Ljóst sé að gera verði strangar kröfur til verktaka sem taka að sér verk gegn greiðslu um gæði verksins. Út af því hafi verið brugðið í verulegum atriðum umrætt sinn með þeim afleiðingum sem áður greini.

Sú fjárhæð sem stefnanda hafi verið gert að greiða vegna tjónsins nemi 140.000 bandaríkjadölum og sé þess krafist að stefndu greiði stefnanda óskipt þá fjárhæð. Þá krefjist stefnandi vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi, 7. apríl 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá því tímamarki þegar mánuður var liðinn frá þeim degi er stefndu voru krafðir um ofangreinda fjárhæð. Sú krafa hafi verið sett fram með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 31. janúar 2008, og skuli stefndu því greiða dráttarvexti frá 1. mars 2008 til greiðsludags.

Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing til 1. mgr. 33. gr. sömu laga.

Af hálfu stefnda Sigurtaks ehf. er því hafnað að stefndi hafi borið ábyrgð á losun farmsins úr greindu skipi. Stefndi hafi verið beðinn af yfirmanni hjá stefnanda að útvega verkamenn og menn á lyftara til aðstoðar við losun skipsins. Ekki hafi verið samið við stefnda að hann annaðist losun skipsins sem verktaki. Slíkir verktakasamningar tíðkist hins vegar og sé viðkomandi verktaka þá greidd föst fyrirfram ákveðin fjárhæð fyrir verkið. Hann annist þá á sína ábyrgð og með sitt starfsfólk losun eða lestun skipsins og stjórni verkinu alfarið. Ekki hafi verið um slíkt að ræða í því tilviki sem hér um ræðir, enda staðfesti reikningur stefnda að einungis hafi verið um að ræða útvegun stefnda á starfsmönnum. Þannig hljóði reikningurinn upp á greiðslu fyrir verkamenn og vélamenn og tilteknir séu þeir tímar sem viðkomandi starfsmenn unnu á vegum stefnanda, sem komi einnig fram í viðfestri tímaskýrslu. Hefði stefndi Sigurtak ehf. átt að bera ábyrgð á losun borsins, þá hefði stefndi átt að hafa yfirumsjón með öllu verkinu, þ. á m. kranavinnu, en því hafi ekki verið til að dreifa í þessu tilviki.

Haft hafi verið eftir skipstjóra skipsins, að við lestun borsins í Rotterdam hafi verið húkkað í þrjár festingar í bornum sem ætlaðar voru til slíks brúks. Hljóti því sú spurning að vakna af hverju áhafnarmeðlimir hafi ekki vakið máls á þessu þegar aðilar voru að ráða fram úr hvernig staðið skyldi að losun borsins. Ekkert bendi til annars en að lestunin hafi gengið snurðulaust fyrir sig þegar þessar festingar voru notaðar. Sigurbjörn hafi ekki stjórnað verkinu og sú ákvörðun að nota stroffu að framan hafi verið sameiginleg niðurstaða allra, sem í lestinni voru á þessum tíma. Um hafi verið að ræða stroffu  í eigu stefnanda. Ekki sé rétt sem fram komi í greinargerð Harðar Gunnarssonar, að Sigurbjörn eða menn á hans vegum hafi sótt stroffuna, enda hafi hann ekki vitað á þeim tímapunkti að stroffan væri til. Af hálfu stefnda Sigurtaks sé því einnig mótmælt sem fram komi í nefndri greinargerð Harðar að stefndi Sigurtak hafi borið fulla ábyrgð á vali búnaðar til verksins, hafi farið með verkstjórn og stjórnað vinnu við afgreiðslu skipsins. Starfsmenn stefnda hafi að sjálfsögðu tekið skipunum frá Sigurbirni, en verkið hafi verið unnið undir stjórn Harðar Gunnarssonar, viðskiptastjóra stórflutningadeildar stefnanda. Sigurbjörn hafi ekki stjórnað kranamönnum, áhafnarmeðlimum eða starfsmönnum stefnanda. Sú ákvörðun Harðar Gunnarssonar, sem ábyrgð bar á verkinu, að vera ekki á staðnum í greint sinn, færi ábyrgðina ekki yfir á herðar stefndu. Við þau verk sem stefndi Sigurtak ehf. hefur útvegað starfsmenn fyrir stefnanda þá hafa þessir starfsmenn stefnda ávallt unnið undir stjórn deildarstjóra stefnanda, líkt og starfsmenn stefnanda.

Af hálfu stefnda er það talið á ábyrgð stefnanda og verða túlkað honum í óhag að ekki voru teknar lögregluskýrslur af áhafnarmeðlimum vegna atviksins þar sem upplýsingar frá þessum aðilum hefðu getað varpað frekara ljósi á hvernig atvikum var háttað er óhappið varð.

Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi til meginreglna samningalaga varðandi samninga aðila á milli og meginreglu kröfuréttar.

5.

Stefndi Á.B. Lyfting ehf. byggir kröfu sína um sýknu á því að ekki sé hægt að rekja óhappið sem varð að neinu leyti til vanrækslu eða lélegra vinnubragða starfsmanna  stefnda. Þar af leiðandi beri þeir ekki ábyrgð á tjóninu. Orsök tjónsins sé rangur búnaður og ranglega notaður sem stefndi hafi ekkert haft með að gera. Ekkert hafi komið fram í málinu um að hífingin sjálf hafi verið ranglega framkvæmd og hafi ekki verið reynt að halda slíku fram. Það sé það verk sem stefndi beri ábyrgð á. Öðru ekki.

Þá liggi engin skjöl frammi um að stefnandi hafi greitt einhverjar skaðabætur og þar af leiðandi ekki hvenær og ekkert heldur um það hvernig þær séu útreiknaðar. Vaxtakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Komi til þess að ákvarða þyrfti upphaf vaxtatíma sé nauðsynlegt að vita hvort og þá hvenær stefnandi greiddi skaðabætur.

Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi til meginreglna samningalaga varðandi samninga aðila á milli og meginreglu kröfuréttar.

6.

Í máli þessu er óumdeilt, enda í samræmi við niðurstöður skoðanaskýrslna sem lagðar hafa verið fram í málinu svo og lögregluskýrslur, að orsök þess að framangreindur jarðbor steyptist á framendann niður í lest skipsins MV Nordersand í hífingu frá borði, megi rekja til þess að stroffur, sem brugðið var um styrktarbita á bornum framanverðum og var húkkað í bómu annars hífingarkranans, skárust í sundur í hífingu á hvössum brúnum styrktarbitans. Er jafnframt óumdeilt að hlífum var ekki komið fyrir við brúnirnar til að verja stroffurnar.

Stefndi Sigurtak ehf. byggir sýknukröfu sína á því að félagið hafi ekki stjórnað umræddu verki og beri félagið því ekki ábyrgð á því sem úrskeiðis fór frekar en aðrir sem að verkinu komu. Stefndi Á.B. Lyfting ehf. byggir sýknukröfu sína á því að hífing borsins sem slík hafi verið óaðfinnanleg í alla staði og að stefndi hafi hvorki séð um áhúkkun í borinn né borið ábyrgð á því verki.

Ágreiningslaust er að báðir stefndu komu að verkinu sem verktakar og fengu greitt fyrir verkið sem verktakar en á grundvelli unninna tíma. Stefndu voru fengnir til verksins sem sérfræðingar hvor á sínu sviði, en þeir höfðu báðir áralanga reynslu af störfum við lestun og losun skipa. Mátti stefnandi því treysta því að stefndu leystu þau störf er þeir tóku að sér vel af hendi og af fagmennsku.

Af því sem fram hefur komið í málinu verður að byggja á því að stefndi Sigurtak ehf. hafi tekið að sér sem verktaki að sjá um uppskipun úr nefndu kaupskipi og þar með að sjá til þess að rétt vinnubrögð yrðu viðhöfð og að valinn yrði löndunarbúnaður sem gerði kleift að leysa verkið forsvaranlega af hendi. Er því ekki fallist á að stefndi Sigurtak ehf. eða starfsmenn þess félags hafi komið að verkinu sem launþegar stefnanda og undir stjórn stefnanda. Hið sama á við um stefnda Á.B Lyftingu ehf.

Fyrir liggur að vangaveltur urðu um það niðri í lest skipsins hvernig best yrði staðið að hífingu jarðborsins og að báðir stefndu komu þar við sögu. Á því verður hins vegar að byggja, enda ekki unnt að ráða annað af gögnum málsins, að það hafi verið stefndi Sigurtak ehf., sem tók endanlega ákvörðun um val á búnaði til að hífa borinn upp úr lest skipsins, þ.e. að nota umrædda stroffu til að hífa borinn að framanverðu án þess þó að koma fyrir vörnum sem verður að telja að nauðsynlegar hafi verið til að varna því að stroffan skærist á hvössum brúnum þess bita sem henni var brugðið um. Var þar um óforsvaranlega framkvæmd verksins að ræða sem leiddi til þess altjóns sem á umræddum jarðbor varð. Á þeim mistökum verður stefndi Sigurtak ehf. sem verktaki og með sérfræðiþekkingu- og reynslu á þessu sviði talinn bera skaðabótaábyrgð á grundvelli skaðabótareglna innan samninga.

Ágreiningslaust er í málinu að starfsmönnum stefnda Á.B Lyftingar ehf. urðu ekki á nein mistök við stjórntök krananna við hífingu borsins, en á hinn bóginn þarf úr því að leysa hvort stefndi beri ábyrgð á því ásamt meðstefnda Sigurtaki ehf., að óforsvaranlegt var að nota hífingarbúnað þann sem notaður var til að hífa borinn að framanverðu með þeim hætti sem raun varð á. Fram hefur komið í málinu í vætti beggja kranamanna stefnda að áður en þeir hífðu borinn upp hefði annar þeirra haft samband við þá sem í lestinni voru og spurt hvort í lagi væri að hífa upp og fengið þau svör að það væri í lagi. Kom fram í framburði annars kranamannsins að þeir kranamennirnir hefðu treyst þeim orðum og að starfsmenn meðstefnda hefðu gengið þannig frá hífingarbúnaði að óhætt væri að hífa borinn upp. Fyrir liggur samkvæmt framburði annars kranamannsins að honum hafi verið kunnugt um þá ákvörðun Sigurbjörns, fyrirsvarsmanns stefnda Sigurtaks ehf. að nota stroffuna á framenda borsins. Í sambandi við mat á ábyrgð stefnda Á.B. Lyftingar ehf. ber til þess að líta að um var að ræða hífingu upp úr lest skips á mjög þungum og mjög verðmætum hlut. Mátti stefnandi því ætlast til þess af starfsmönnum stefnda, sem hefur sérhæft sig í hífingum, að gætt yrði ýtrustu athugunar og ótvírætt gengið úr skugga um hvort óhætt væri að hífa borinn upp með þeim búnaði sem notaður var. Er það mat dómsins að eins og á stóð hafi kranamönnunum sjálfum borið að athuga sjálfstætt hvort óhætt væri að hífa borinn upp með þeim búnaði sem komið hafði verið fyrir, en láta sér ekki nægja svör sem þeim bárust neðan úr lest skipsins. Þeirri skyldu sinntu þeir ekki. Samkvæmt því verður stefndi ekki talinn geta firrt sig ábyrgð á tjóni því er varð. Ber stefndi því ábyrgð á að um óforsvaranlega framkvæmd verksins var að ræða sem leiddi til þess altjóns sem á umræddum jarðbor varð. Á þeim mistökum verður stefndi Á.B. Lyfting ehf. sem verktaki og með sérfræðiþekkingu- og reynslu á þessu sviði því talinn bera skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli skaðabótareglna innan samninga.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaðan sú að stefndu eru taldir bótaskyldir gagnvart stefnanda vegna áðurgreinds tjónsatburðar og verða þeir dæmdir til að greiða stefnanda óskipt stefnufjárhæðina, 140.000 bandaríkjadali, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2008, er einn mánuður var liðinn frá því að stefndu voru krafðir um greiðslu, til greiðsludags. Krafa um vexti fyrir þann tíma er ekki tekin til greina.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda óskipt málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

Dómsorð:

Stefndu, Sigurtak ehf. og Á.B. Lyfting ehf., greiði stefnanda Samskipum hf., óskipt 140.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2008 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 750.000 krónur í málskostnað.