Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2001


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 31/2001.

M

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

K

(Sveinn Skúlason hdl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn. Aðfinnslur.

M krafðist þess að samningi hans við K um að hún færi með forsjá X dóttur þeirra yrði breytt og hún falin honum. Þegar aðstæður aðila voru metnar í heild og sérstaklega litið til þeirra uppeldisskilyrða sem X voru búin á heimili K, þótti einsýnt að það væri X fyrir bestu að forsjá hennar yrði breytt og krafa M tekin til greina. Var þá jafnframt við það miðað að gott samband héldist við K og umgengni yrði komið í fast horf. Tekið var fram að héraðsdómara hefði verið rétt, eins og málið lá fyrir, að kalla til sérfróða meðdómsmenn. Þá var með vísan til 1. mgr. 34. gr. barnalaga að því fundið hversu málið hafði dregist í meðförum aðila.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. janúar 2001. Hann gerir þær dómkröfur aðallega að samningi aðila um að stefnda fari með forsjá X dóttur þeirra, kt. [ . . . ], verði breytt og hún falin honum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu af málkostnaðarkröfum stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en hún hefur gjafsókn fyrir réttinum.

I.

Mál þetta höfðaði áfrýjandi fyrir héraðsdómi í október 1998 á grundvelli 35. gr. barnalaga nr. 20/1992, en í 1. mgr. greinarinnar er foreldri heimilað að krefjast þess fyrir dómi að samningi um forsjá barns verði breytt.  Þar segir jafnframt að slík krafa verði þó því aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins. Ber í því sambandi að hafa í huga þá grunnreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 34. gr. laganna, að forsjá skuli ráðast af því sem barni er fyrir bestu.

Af gögnum málsins verður ráðið að aðilar hafi skilið að borði og sæng 13. ágúst 1991 og hafi stefnda þá fengið forsjá X og eldri systur hennar, sem nú er uppkomin, en áfrýjandi forsjá sonar þeirra sem er elstur barnanna. Aðilar munu er þetta varð hafa búið að [B] og hélt áfrýjandi þar áfram búskap fram á árið 1998 að hann flutti til [ . . . ], en þar var hann alinn upp og á ættingja og vini. Hann er skipstjóri á bát sem gerður er út þaðan. Stefnda bjó hins vegar á [ . . . ] með dæturnar til ársins 1994. Hún mun þó hafa dvalist með þær hjá áfrýjanda frá því í maí 1992 til vors 1993. Frá 1. október 1994 og til 15. febrúar 1996 voru þær skráðar til heimilis að [ . . . ] en fluttust þá til [A]. Þar voru þær skráðar með heimili til 1. febrúar 1998 og munu að sögn stefndu hafa búið þar á tveimur stöðum. Lögheimilið var síðan flutt heim til Íslands að [ . . . ]. Þær búa nú að [ . . . ] samkvæmt ótímabundnum leigusamningi frá 15. júní 1999. Að sögn stefndu undi X ekki í [A] og sóttist eftir því að koma heim. Dvaldist hún að [B] með föður sínum veturinn 1997-1998 og var í skóla á [ . . . ]. Hún mun þó ekki hafa dvalist hjá föður sínum allan veturinn þar sem móðirin var óánægð með þá tilhögun og flutti hana í krafti forsjár sinnar á annað heimili í sveitinni. Flutningum stefndu fylgdi óhjákvæmilega verulegt rót á skólagöngu dótturinnar.

II.

Að ósk þáverandi lögmanns áfrýjanda var Einar Ingi Magnússon sálfræðingur dómkvaddur 10. júní 1999 til að meta aðstæður og forsjárhæfni foreldranna og tengsl dótturinnar við þá. Héraðsdómari hefur tekið lokakafla matsgerðar hans frá 28. febrúar 2000 upp í dóm sinn. Kemur þar fram að stefnda hefur lengi átt við þunglyndi og alkóhólisma að stríða. Áfrýjandi var hins vegar þegar matið fór fram löngum útivistum á sjó. Fram kemur að X er í góðum tengslum við báða foreldrana. Ljóst er þó af matsgerðinni að henni semur ekki við vin móður sinnar sem nú býr á heimilinu og hefur það samband staðið í nokkur ár.

Umfangsmikil gagnaöflun hefur farið fram fyrir Hæstarétti af hálfu beggja aðila. Í fyrsta lagi er þar um að ræða þrjár bakvaktaskýrslur félagsþjónustu Reykjavíkurborgar frá nóvember 2000, en þar kemur fram að X hefur í þeim mánuði leitað tvisvar til Rauðakrosshússins vegna áfengisneyslu og erfiðleika á heimili stefndu. Í öðru lagi er um að ræða bréfaskipti lögmanns áfrýjanda við Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og [ . . . ]skóla. Kemur þar fram að heimilisaðstæður virðist bágbornar og að skólinn hafi áhyggjur af velferð X þar sem  skólasókn hennar sé slök og námsframvinda algjörlega óviðunandi. Loks óskaði lögmaður stefndu með bréfi 8. júlí 2001 eftir viðbótarálitsgerð frá Einari Inga Magnússyni sálfræðingi. Hefur álitsgerð hans 19. október sl. verið lögð fyrir Hæstarétt. Af hálfu áfrýjanda hefur framlagning þessi verið samþykkt. Segir þar að uppeldisaðstæður X á heimili móður hennar verði að felast í eðlilegum, ofbeldislausum samskiptum. Hegðun hennar, sem lýst er í álitsgerðinni og lýsi sér í óhemjugangi, sé ekki orsök einstakra átaka heldur sé hún afleiðing aga- og uppeldisleysis um langan tíma. Þegar áfengisneysla heimilismanna í einhverjum mæli bætist þar við sé ekki við öðru að búast en að verulegt umrót verði og engin lífsfesta skapist. Tryggja verði henni uppeldisgrundvöll með daglegri mótun, en hér sé eðlilega greind stúlka að flosna upp úr öllu námi vegna umróts og agaleysis. Torvelt sé þó að sjá hvernig nú megi grípa inn í, þar sem félagarnir séu aðalaðdráttaraflið en ekki foreldrarnir. Þegar horft sé til breytinga, sem orðið hafi á vinnutilhögun áfrýjanda, verði að telja nýtt fyrirkomulag betra fyrir X en þó ekki fullnægjandi. Miðað við þær miklu breytingar, sem faðir ræði um á högum hennar, gangi ekki að fela öðrum daglegt uppeldi hennar í umboði foreldra, því að hún uni engri leiðsögn annarra en þeirra. X hafi að hinu leytinu nokkuð góðan grunn til áframhaldandi tengsla við báða foreldra sína, þar sem þau stríði ekki daglega sín á milli þrátt fyrir yfirstandandi málaferli.

Fram kom í álitsgerðinni að X var við vinnu í [ . . . ] í sumar er leið og bjó hjá föður sínum og að hann setti henni mörk um útivist. Þá segir þar að henni hafi leiðst vinnan. Í haust mun hún hafa flutt aftur til móður sinnar og hafið nám í [ . . . ], fjölnámsdeild. Í upphafi hafði hún til þess mikinn metnað í orði en síðar hefur leitað í sama far og fyrr.

III.

          X er nýlega orðin 15 ára. Ætti því vilji hennar um það hjá hvoru foreldri hún dveljist að skipta verulegu um úrslit málsins. Af málsgögnum verður ekki ráðinn skýr vilji hennar til að vera hjá móður, auk þess sem sá vilji virðist, sé hann fyrir hendi, stjórnast af því að þar geti hún farið sínu fram að mestu. Þegar horft er síðan til þeirra nýju gagna, sem að framan er lýst, og matsgerðarinnar, verður ekki fram hjá því litið að X eru ekki búnar viðhlítandi uppeldisaðstæður á heimili stefndu. Þykir fram komið að velferð hennar í framtíðinni verði teflt í tvísýnu búi hún þar áfram, en ljóst er að hún verður að búa við aðhald og fá virkan stuðning við nám og leik. Af álitsgerðinni sést að faðirinn hefur nú breytt vinnu sinni, og er kominn á dagróðrarbát og því ekki fjarri heimilinu sem fyrr. Vegna veðurs og gildandi fiskveiðikerfis er heldur ekki róið daglega, svo að hann er þó nokkuð heima við. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hann sé vel hæfur til að fara með forsjá dóttur sinnar og til muna horfi betur um velferð hennar dveljist hún hjá honum og sé í forsjá hans. Þegar aðstæður aðila eru virtar í heild og sérstaklega litið til þeirra uppeldisskilyrða, sem stúlkunni eru búin á heimili móður, þykir einsýnt að það sé henni fyrir bestu að forsjá hennar verði breytt og krafa áfrýjanda tekin til greina. Er þá jafnframt við það miðað að gott samband haldist við móður og umgengni verði komið í fast horf.

Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Það athugast að héraðsdómara hefði verið rétt, eins og mál þetta lá fyrir, að kalla til sérfróða meðdómsmenn.

Aðfinnsluvert þykir hversu málið hefur dregist í meðförum aðila, fyrst í héraði og síðan fyrir Hæstarétti, en lögmaður stefndu leitaði ekki eftir álitsgerð sálfræðingsins fyrr en málið var fyrst komið á málaskrá réttarins. Forsjármálum ber að hraða eftir því sem kostur er, sbr. 1. mgr. 34. gr. barnalaga.

Dómsorð:

Tekin er til greina krafa áfrýjanda, M, um að forsjá dóttur hans X, kt. [ . . . ], verði breytt og fengin honum.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest. Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2000.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 24. október 1999.  Það var dómtekið 17. þ.m.

Stefnandi er M, kt. […] […] en með lögheimili að […]

Stefnda er K, kt. […], […].

Stefnandi krefst þess að samningi aðila um að stefnda fari með forsjá dóttur þeirra, X, kt. […], verði breytt og að sér verði með dómi veitt forsjá hennar. Hann krefst þess að stefnda verði dæmd til þess að greiða sér málskostnað að skaðlausu en jafnframt greiðslu úr ríkissjóði á kostnaði vegna mats að upphæð 240.000 krónur.

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en dóms- og kirkjumálaráðuneytið veitti henni gjafsókn 19. febrúar 1999.

Undir rekstri málsins, 11. nóvember 1998, var úrskurðað að kröfu stefndu að stefnandi skyldi leggja fram málskostnaðartryggingu sem var ákvörðuð 250.000 krónur.

II

Stefnandi greinir þannig frá málavöxtum að við hjónaskilnað aðila á árinu 1991 hafi orðið að samkomulagi að stefnda færi með forsjá tveggja dætra þeirra og sé hin yngri X sem mál þetta varði. Sonur þeirra, sem sé elstur barnanna, hafi verið hjá stefnanda. Eftir að gengið hafi verið frá hjónaskilnaði hafi stefnda flust til […] og búið þar á ýmsum stöðum. Hún hafi verið á […]1993 til 1994 og telpurnar þá sótt þar skóla. Veturinn 1995 hafi stefnda flust með X til [A] þar sem þær  hafi verið þar til í ágúst 1997 er þær komu að nýju til Íslands. Samkomulag hafi orðið um að X yrði hjá stefnanda veturinn 1997 til 1998 en stefnda hafi þá dvalist hjá öðrum; hjá eldri dóttur sinni að […] og hjá móður sinni […]. Sumarið 1998 hafi hún fengið húsnæði í […]. X hafi dvalist hjá stefnanda frá heimkomu í ágúst 1997 og sótt skóla á […]. Í janúar 1998, skömmu eftir að jólafríi lauk, hafi stefnda komið og tekið telpuna án þess að láta stefnanda vita hvar hún væri. Stúlkan hafi komið aftur veik til stefnanda um miðjan janúar og legið þar í tvo daga uns stefnda hafi komið, sótt hana og vistað hjá vandalausum að […] þar sem hún hafi dvalist fram eftir vori. Þegar leið að prófum hafi stúlkan flust til stefnanda og bróður síns og dvalist þar meðan hún tók prófin og áfram fram á sumar. Sumarið 1998 hafi stúlkan dvalist til skiptis á heimili stefnanda og bróður síns og á heimili stefndu. Stefnandi, sem hafi búið á […] í mörg ár, hafi flust til […] þar sem hann hafi fengið vinnu.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að X sé fyrir bestu að hann fái forsjá hennar og að hún búi hjá sér. Hann hafi ávallt haldið heimili frá því aðilar máls þessa gengu frá skilnaði sínum og lengst af á sama stað. Stefnda hafi hins vegar þvælst um með telpuna, sem veiti ekki nægilegan stöðugleika í uppeldi, og ekki búið henni heimili frá því í ágúst 1997 og fram á sumarið 1998. Þannig hafi X sótt marga skóla og haustið 1998 hafi stefnda tekið hana úr skóla í viku til þess að fara til [A] og ganga frá málum sínum þar en hún hafi þá verið nýbyrjuð í enn einum skólanum og þurft aðlögunar við. Þá hafi stefnda neytt áfengis í óhófi og geri enn. Annmarkar hennar geri það að verkum að hagsmunum X sé betur komið búi hún hjá stefnanda heldur en stefndu. Stefnda hafi sýnt með hegðun sinni að hún hafi hagsmuni telpunnar ekki í fyrirrúmi eins og þegar hún hafi komið fyrirvaralaust í janúar 1998, sótt hana og komið fyrir hjá vandalausum. Stefnandi bendir á að hann hafi betri aðstæður en stefnda til að annast framfærslu og uppeldi X Hann búi í öruggu  húsnæði og sé með öruggar tekjur.  Telpan sé í góðum tengslum við sig, hún hafi verið til heimilis hjá sér og hann annast hana og veitt henni stuðning við lærdóm.

III

Stefnda mótmælir málavaxtalýsingu stefnanda að því er hana varðar sem rangri og órökstuddri. Hún hafi haldið heimili með X dóttur sinni í mörg undanfarin ár, þ.á m. er hún bjó í [A].

Að því er varðar stefnanda hafi hjónaskilnaður aðila verið óhjákvæmilegur, m.a. vegna óreglu og framhjáhalds hans, en hann hafi oft lagt á sig hendur svo og á föður sinn, sem hafi um tíma búið hjá þeim að […] er þau héldu sameiginlegt heimili þar.

Í samningi aðila um skilnaðarkjör, dags. 13. ágúst 1991, hafi stefnandi skuldbundið sig til þess að greiða stefndu lífeyri, 50.000 krónur á mánuði í 12 mánuði. Við þessa greiðsluskyldu hafi stefnandi ekki staðið og því hafi stefnda, sem hafi farið af sameiginlegu heimili aðila, átt í miklum erfiðleikum eftir skilnaðinn. Með dómi […] hafi stefnandi verið dæmdur til þess að greiða stefndu lífeyri í 10 mánuði. Hann hafi ekki fengist til að greiða í samræmi við dómsniðurstöðuna og því hafi bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslauss fjárnáms með úrskurði […]. Skömmu síðar hafi heimili stefnanda verið selt nauðungarsölu, hann hrökklast þaðan vorið 1998 og eftir það átt m.a. heima í […].

Af hálfu stefndu er kröfugerð stefnanda mótmælt sem tilhæfulausri og bent á að mál þetta virðist höfðað til þess að ná fram hefndum gagnvart stefndu vegna tilrauna hennar til þess að fá stefnanda til þess að efna samningsskyldur sínar, sbr. skilnaðarsamning aðila frá 1991.

Á það er bent að stefnda hafi haldið og haldi óaðfinnanlegt heimili með X. Ekki hafi verið sýnt fram á neina hnökra á uppeldinu og barnaverndaryfirvöld hafi engin afskipti haft af þeim mæðgum, enda ekkert tilefni verið til slíkra afskipta.

Stefnda bendir á að stefnandi sé skipstjóri sem hafi löngum stundað sjó frá […] Hann sé því langdvölum að heiman og vandséð hvernig hann geti haldið heimili með X, dóttur aðilanna.

IV

Að beiðni stefnanda var á dómþingi 25. júní 1999 dómkvaddur sérfróður og óvilhallur aðili, Einar Ingi Magnússon sálfræðingur til að meta eftirfarandi:

1.                  Andlegt ástand foreldranna og persónuleika einkum með tilliti til hæfni þeirra til að fara með forsjá dóttur þeirra og annast hana.

     2.             Tengsl stúlkunnar við foreldra sína.

     3.             Líðan X í umsjá foreldra og hvernig foreldrum ferst úr hendi að koma til móts við líkamlegar og andlegar þarfir hennar.

     4.             Aðbúnað á heimilum foreldra og félagsleg staða þeirra.

     5.             Vegna ásakana stefnanda á hendur stefndu um áfengisnotkun úr hófi, er þess farið á leit að sá þáttur verði kannaður hjá báðum aðilum, jafnframt því sem ítrekað er að andlegt ástand beggja aðila málsins verði kannað vandlega.

     6.             Annað það sem sérfróður aðili kann að telja nauðsynlegt í máli þessu vegna ákvarðanatöku um forsjá stúlkunnar.

Ítarleg, sálfræðileg matsgerð Einars Inga Magnússonar er dagsett 28. febrúar 2000 og var lögð fram 16. mars s.á. Í lokakaflanum “Samantekt og ályktun” er sett fram afstaða matsmannsins til þeirra atriða sem til mats komu. Verður þessi hluti matsgerðarinnar tilgreindur hér í heild sinni en þar er fylgt sömu röð sem í matsbeiðni:

1.  Niðurstöður sýna að K mælist almennt í meðallagi greind og vel greind á verklegum sviðum. Ýmiss konar frávik komu hins vegar fram í persónuleikamælingum þar á meðal mikill tilfinningalegur óstöðugleiki, sem endurspeglast m.a. í umtalsverðum kvíða og svartsýni. Einnig eru þunglyndiseinkenni til staðar, veikar innri varnir, slök sjálfsmynd og jafnvel sjálfsvígshugleiðingar. Ýmsar viðbótarmælingar á kvíða og geðlægð draga fram einkenni sömu ættar í missterku mæli. Þá liggur jafnframt fyrir að hún er í tengslum við geðlækni frá 1991 og tekur lyf við þunglyndi.

Þær mæðgur virtust vera samrýmdar dagsdaglega og bindast sterkum jákvæðum tilfinningaböndum. K virtist einnig hafa næmt auga fyrir félagslegri og tilfinningalegri stöðu dóttur sinnar, sem hún hafði mótað af langri samveru. Hins vegar segir hún X "svolítið freka, ákveðna og hafa sínar skoðanir". Þannig virðist undirrituðum margt sem bendi til þess að stúlkan fari oft sínu fram í hegðun og taki ýmsar ákvarðanir í lífi sínu sjálf og að móðir hennar hafi ekki nægilega oft persónustyrk til að setja henni mörk.

Niðurstöður sýna að greind M falla innan ramma "mjög góðrar greindar" almennt og "afburðargreindar" á verklegum sviðum. Í mælingum á persónuleikanum kemur fram talsverð vörn og sjálfsfegrun og líklega ekki full einlægni í svörum. Niðurstöðurnar teljast engu að síður gildar. Þar kemur fram að M er kraftmikill, bjartsýnn og félagslyndur einstaklingur, með sterkt sjálfsálit, sem tekst á við viðfangsefni sín ókvíðinn. Jafnframt virðist ríkja gott jafnvægi á milli hlédrægni og félagslyndis, er bendir til sveigjanleika. Hann er fljótur að tengjast fólki en getur átt erfitt með að mynda dýpri tilfinningatengsl og vinna úr tilfinningalegum vandkvæðum. Auk þess eru vísbendingar um hvatvísi í hegðun. Í frekari könnun á kvíða og geðlægð kom ekkert nánar fram um frávik því sviði. Ekkert í niðurstöðum benti til geð- eða persónuleikaraskana og gott "klínískt" samræmi virtist vera á milli ólíkra mælinga í matinu.

Fram hefur komið að sterk, jákvæð tengsl eru á milli þeirra feðgina. M virðist hafa mikinn metnað fyrir hönd dóttur sinnar og vill leggja sitt að mörkum til þess að hún nái betri tökum á tilverunni. Ef mat á uppeldishæfni M er skoðuð afmörkuð í ljósi persónuleika og andlegs ástands bendir flest til þess að hún sé góð. Hann hefur margt að veita dóttur sinni í umhyggju, leiðsögn og stuðningi. Hann gæti samt þurft að átta sig betur á tilfinningum sínum almennt auk þess að gefa mögulegri hvatvísi í hegðun meiri gaum. Auk þess ber að líta til þess að M hefur litla sem enga reynslu af barnauppeldi einn síns liðs og enn síður unglings til lengri tíma og ber hann nokkurn kvíðboga fyrir slíku uppeldisstarfi sjálfur ef til kemur. Að mati undirritaðs hefur hann þó bæði greind og persónustyrk til þess að takast á við það hlutverk.

2.  Faglegt mat á tilfinningatengslum X við foreldra sina er að þau séu jafn sterk og jákvæð bæði í þeirra garð og af þeirra hálfu. Undirritaður varð heldur ekki var við neitt annað í samvistum stúlkunnar með föður sínum og móður (sitt í hvoru lagi) auk þess sem báðir foreldrarnir ræddu þannig um tengsl stúlkunnar við hinn aðilann. X var hins vegar nokkuð í vörn með sínar tilfinningar, sérstaklega neikvæðar og virtist sú vörn tengjast almennri vanlíðan hennar vegna upplausnar og togstreitu í fjölskyldunni fremur en öðru hvoru foreldrinu.

3.  X býr að jafnaði á heimili móður sinnar og hefur umgengni við föður sinn þegar hann er í landlegu. Þá fer hún oft og gistir á heimili hans í […] og fer gjarnan með honum austur í sveitir til að hirða um hross. Í viðtölum við X kom fram að hún var í nokkri vörn gagnvart spurningum um foreldra sína og kvaðst ekki vilja vera í þeirri aðstöðu að þurfa að velja á milli þeirra. Þess vegna var hún fremur varkár í að greina nákvæmlega frá mati sínu á færni foreldra sinna að koma til móts við þarfir sínar. Auk þess þarf að gefa gaum að aldri X. Fyrirliggjandi sjálfsmat á andlegri líðan X almennt, hér að framan, bendir til þess að hún sé öðrum þræði jákvæð og í góðu lagi en hins vegar að hún sé slök. Unglingsárin ráða áreiðanlega miklu um sveiflur í sjálfsmati X en einnig vanlíðan hennar vegna togstreitu foreldranna, sem ljóslega kemur fram í hugmyndum hennar um fjölskylduna auk núverandi daglegu aðstæðna, s.s. á heimilinu og í skólanum. Hér má einnig benda á að núverandi umsjónarkennari hennar segir hana ákaflega lítið glaða. X hefur frá 1993 búið að langmestu leyti hjá móður sinni. Líðan hennar og færni móðurinnar til að koma til móts við hana líkamlega og andlega hefur verið misgóð, sem hefur m.a. ráðist af staðfestu móður, áfengisneyslu hennar og geðsveiflum. Ef miðað er við tvö síðustu misseri er ljóst að vel er hugsað um líkamlegar þarfir og hinn ytri mann X. Einnig kom fram í viðtölum að þær mæðgur tala um þau tilfinningalegu viðfangsefni sem tilefni gefst til að ræða hverju sinni og leysa úr þeim jafnóðum er þeim báðum jafnframt ljós gagnkvæm væntumþykja þeirra og sterk tilfinningatengsl. Hins vegar kemur skýrt fram í mati X á "fjölskylduhugmyndum", hér að framan, þar sem hún tengir viðfangsefnið við eigið líf, að margvísleg vanlíðan hennar, sprottin af reynslu umliðinna ára, hefur ekki fengið neina sérstaka úrvinnslu og verið ýtt til hliðar.

X hefur sem fyrr segir ágæta umgengni við föður sinn þegar hann er í landi. Hann þarf ekki að hugsa að jafnaði um föt og þrifnað X. Hins vegar hefur komið fram að hann leggur stundum til fé svo hún geti keypt sér föt og fleira. Í viðtölum og formlegu mati kom ekkert fram sem benti til þess að þau feðginin ræddu sérstaklega um tilfinningaleg málefni eða á tilfinningaleg atriði reyni sérstaklega í þeirra samskiptum. Til dæmis ræða þau (að sögn X) ekki um forsjárdeiluna. Hins vegar eru þau feðginin jafnviss um væntumþykju hvors annars og að niðurstöður forsjárdeilunnar munu ekki breyta neinu um það.

4.  Aðbúnaði á heimilum foreldra hefur verið lýst nokkuð greinlega hér að framan í kaflanum um "húsnæðismál" og vísast til þeirra lýsinga.

Félagsleg staða foreldranna er sú að K er einstæð móðir með 1 barn. Hún er 75% öryrki vegna þunglyndis. Hún er með tryggt húsnæði til langframa á vegum sveitarfélagsins og lágmarksframfærslu frá Tryggingarstofnun, úr lífeyrissjóði og með mögulegum viðbótarstyrk frá Félagsþjónustunni. K kvaðst hafa þurft að laga sig að þessari stöðu sem oft á tíðum væri býsna þröng. Rétt er að taka hér fram að K hefur verið í tengslum við mann til nokkra ára. Þau hafa hins vegar búið sitt í hvoru lagi eftir að þau fluttu til Íslands frá [A] en þar bjuggu þau saman í takmarkaðan tíma. Hann hefur hins vegar dvalið í íbúð þeirra mæðgna frá því haust, því hann hefur ekki fundið sér annað húsnæði í stað þess er hann missti. Formleg sambúð af þeirra hálfu mun þó ekki vera í bígerð, m.a. vegna lélegs samkomulags hans og X.

M hefur um langt árabil starfað sem skipstjóri og hefur reglulegar mánaðartekjur, sem sveiflast eitthvað til eftir afla hverju sinni. Hans fjárhagslega afkoma virðist þó vel viðunandi almennt. M hefur einnig tryggt sér leiguhúsnæði til langs tíma. M er hins vegar gjaldþrota, sem takmarkar getu hans til fjárhagslegra skuldbindinga. Að öðru leyti er undirrituðum ekki kunnugt um annað en að félagsleg staða M sé góð.

Rétt er að taka hér fram að M hefur verið í tengslum við konu um nokkurt skeið. Að hans sögn stefna þau þó ekki að sambúð í neinni mynd.

5.  Fjallað var sérstaklega um þennan þátt tvívegis hér að framan. Þar kom m.a. fram að K kveðst hafa misnotað áfengi og m.a. farið í áfengismeðferð auk þess að hafa lagst inn á geðsjúkrahús vegna lyfjaráðgjafar. Jafnframt kom fram í viðurkenndu mati á áfengisvanda (SMAST og AUDIT-spurningalistar) að slíkur vandi væri fyrir hendi. K kveðst nota áfengi í dag en mjög í hófi. Loks hefur það komið fram hér að framan að hún hefur gengið til geðlæknis frá 1991 vegna þunglyndis.

M kveðst hafa dregið mjög úr drykkju eftir skilnaðinn og það sé mjög í hófi nú (sbr. umfjöllun hér að framan). Formlegt mat á áfengisneyslu bentu ekki til "áfengisvanda sem kallar á frekari greiningu".

6.  a) Eðlilegt er að draga hér stuttlega saman niðurstöður viðtala við X og sálfræðilegar prófanir sem á henni voru gerðar og meta stöðu hennar almennt.

Í viðtölunum greindi X frá talsverðum flutningum með móður sinni á milli staða og íbúða, innan lands og utan eftir skilnaðinn og taldi jafnframt upp þá skóla sem hún hafði verið í. Í því sambandi þótti henni í góðu lagi að hafa stundað nám í […] í ½ mánuð sl. haust vegna þess að móðir hennar þurfti að hlaupa undir bagga með fjölskyldu sonar síns. Einnig barst talið að áfengisneyslu foreldra hennar og viðhorfum og reynslu hennar sjálfrar í þeim efnum og "... kannast [X] ekki við að áfengisneysla móður hennar hafi haft neikvæð áhrif á líf hennar eða skólagöngu". Jafnframt kom til tals ósamkomulag við vin móður hennar, sem X fannst að hafa ætlað að taka sæti föður síns og ráðskast með sig. Þetta ósamkomulag er ein helsta ástæða að K og vinur hennar stofnuðu ekki til sambúðar, eftir því sem undirrituðum skildist á henni. X nefndi einnig sérstaklega að hún ætti góða vini í […] og […] og vildi ákveðið búa þar en ekki í […]. Hún taldi t.d. ekki síður hægt að afvegaleiðast í […] en í […] ef málið snérist um slíka hluti. Mjög sennilega er X hér að skírskota til samtala sinna við föður sinn um áhættuhegðun unglinga. X virtist vera í nokkri vörn í viðtölunum þegar talið snérist um foreldra hennar og vildi hún undirstrika væntumþykju sína gagnvart þeim báðum auk þess kvaðst hún ekki vilja vera í aðstöðu til að velja á milli þeirra. Hún var fullvissuð um að hún yrði ekki sett í þá aðstöðu.

Í sálfræðilegum prófunum kom fram að X er í meðallagi greind (90) í heild en mun betri í verklegu hlutanum (96) en þeim munnlega (87) en í þeim hluta reynir talsvert á bóklega færni í skólanámi. Frávik í þeim hluta endurspeglast m.a. í almennu þekkingaumtaki, talnaleikni og hugtakaskilningi. Einnig eru væg frávik í samtengingarfærni og félagslegu innsæi á verklega hlutanum.

Mjög líklegt er að X þurfi að leggja sig fram, skipuleggja og rækta nám sitt reglubundið til þess að geta skilað góðum árangri. Þess vegna er afar sennilegt að öll námsleg óregla og ósamfella slái hana út af laginu og geri námið torsóttara en það þarf að vera.

Persónuleiki og sjálfsmynd X eru nokkuð tvískipt og líklega sveiflukennd eins og þau koma fyrir í mælingum. Annars vegar er hún opin, félagsleg, áhyggjulaus og sveigjanleg í samskiptum en hins vegar haldin tilfinningalegri vanlíðan, hefur slaka sjálfsmynd og semur miður við aðra. Ef þessi síðastnefndu atriði eru skoðuð í tengslum við mælingar á kvíða og þunglyndi koma einnig þar fram skapsveiflur, orkuleysi, slök sjálfsmynd og samskiptaörðugleikar. Jafnframt má bæta við þeim tilfinningalegu hræringum í mati á "fjölskylduhugmyndum" sem X virðist tengja meðvitað við raunverulegt líf sitt og ræðir þar m.a. um samkomulag milli foreldranna um umgengni dótturinnar; tengslaleysi móður og barns og loks strok dótturinnar frá föður !

Undirritaður lítur svo á að allir framangreindir tilfinninga- og persónuleikaþættir geti verið fyrir hendi hjá X en komi fram misskýrt eftir aðstæðum hverju sinni, því hafa ber í huga að X er á viðkvæmu og oft þverstæðukenndu þroskaskeiði þegar börn takast á við sinn innri mann og reyna að fá botn í eigin hugsun og tilfinningar. Auk þess kalla börn eftir margþættu sjálfstæði en er samtímis hætt við að vanmeta freistingarnar í von um félagslega umbun frá hópnum. Í þessu samhengi er rétt að skoða sjálfstæðar umsagnir kennara X tvö síðustu skólaárin í 7. bekk {veturinn 1998-1999) og 8. bekk (veturinn 1999-2000). Í […]skóla fengust þær upplýsingar að nám X hefði verið afar slakt, hún aðhaldslítil og hún laðast að óæskilegum unglingahópum að mati kennara og skólayfirvalda. Í […]skóla fengust upplýsingar af sama toga með þeim undantekningum að mætingar hafi batnað en hún fengi að fara oft heim vegna ýmissa minni háttar lasleika og heilsufarskvilla. Kennarinn hér undirstrikar einnig að X leiti inn í áhættuhópa, sem hann nefnir "taparakandidata" og á þá væntanlega við í námslegum skilningi. Sami kennari nefnir þá einnig að honum finnist vel hugsað um X heima fyrir.

Almennt mat undirritaðs á stöðu X á grundvelli viðtala, sálfræðilegra prófana og umsagna er að talsverður losarabragur og umrót hefur verið á lífi hennar frá barnæsku. Hún hefur ekki haft tækifæri til að festa traustar félagslegar rætur á einum stað nema skamman tíma í einu. Samhliða auknum aldri hefur hún öðlast meira frumkvæði og sjálfstæði og tekið lykilákvarðanir í sínu eigin lífi og virðist móðir hennar ekki stýra þeim alltaf. Sem dæmi má nefna ákvörðun hennar að koma heim frá [A], ákvörðun hennar að byrja í […]skóla sl. haust en fara svo í […]skóla og sú óbeina ákvörðun hennar og þrýstingur á móður sína að fara ekki í sambúð með vini sínum, því að X og honum komi ekki vel saman. Loks er ljóst að X hefur sett sig í það hlutverk að vernda foreldra sína báða en eftir atvikum hefur hallað meira á móður hennar, svo vörnin hefur reynst sterkari þar. Má í því sambandi nefna þær staðhæfingar hennar um að ekki sé síður hægt að afvegaleiðast í […] en […], túlkun hennar á stroki dótturinnar frá föðurnum, auk þess að draga ósjálfrátt fjöður yfir aðstæður á heimili móður á umliðnum árum og svara spurningum undirritaðs þar að lútandi t.d. með þeim hætti að áfengisneysla móður hennar hafi ekki haft áhrif á líf hennar og skólanám, sem hlýtur að teljast vafasöm fullyrðing.

b) Ef dreginn er upp mynd af nokkrum meginkostum og göllum, sem ráðstöfun forsjár stúlkunnar hefur til móður annars vegar og föður hins vegar, má segja að:

1) Ef X er í forsjá móður sinnar áfram miðað við þær aðstæður sem móðir hennar hefur skapað nú í framfærslu, húsnæði, heimilishaldi og góðri umgengni við föður, þá felast kostirnir í talsverðum stöðugleika þar sem áður var umrót. Auk þess ná þær mæðgur vel saman í áhugamálum, daglegum umræðum og tilfinningalegum efnum og X hefur náð einhverri fótfestu í núverandi umhverfi skóla og heimilis. Gallarnir birtast hins vegar ekki síst í uppsöfnuðum losarabrag og rótleysi undangenginna ára, er endurspeglast í slökum námsárangri og óljósum markmiðum auk þess sem mat tveggja óháðra umsjónarkennara benda á áhættuna er felst í þeim félagahópum er X umgengst í tengslum við skólann. Ekki er ástæða til að ætlað að hún umgangist öðruvísi hópa utan skóla. Í þessu sambandi er vert að gefa gaum að sjálfstæðum ákvörðunum X í sínum málum. Undirritaður var þess ekki var að móðir X legði sérstakt mat á framangreind atriði í markvissri framkvæmd. Jafnframt er eðlilegt að benda á að þunglyndi er margslunginn og erfiður sjúkdómur. Í fyrirliggjandi mælingum þessa máls koma fram ýmsar birtingamyndir hans og fylgikvillar í sálfræðilegu mati á K. Gera má ráð fyrir að þunglyndið hafi gert og geri henni erfiðara um vik en ella að sinna flóknu uppeldishlutverki þar sem örvun og aðhald þarf að skiptast á og haldast í hendur.

2) Ef forsjá X yrði flutt til föður gætu kostirnir falist í metnaðarfullum námsmarkmiðum og tilkostnaði á því sviði auk mikillar almennar hvatningar til að takast á við tilveruna á jákvæðan hátt. Afar líklegt er að félagslegt aðhald verði meðvitaðra og eftir aðstæðum strangara. Einnig eru sterk tilfinningatengsl á milli þeirra feðgina og þau sameinast í helsta áhugamáli sínu, hestamennskunni. M hefur gott húsnæði til ráðstöfunar og góðar tekjur. Mögulegir gallar eru hins vegar nokkrir: M er nú í löngum útivistum á sjó og þótt hann segist eiga auðvelt með að skipta um starf og fara á dagróðrarbát, þá hefur hann ekki látið af því verða að skipta. Auk þess þyrfti hann að fara á fætur langt fyrir venjulegan skólatíma og þá kæmi það í hlut X sjálfrar að sinna sér á morgnana og koma sér í skóla eða að M yrði að fela einhverjum öðrum að sinna X. Einnig er ljóst að ef um breytingu á forsjá yrði að ræða, þá fæli það í sér enn eina breytinguna og flutninginn í lífi X og er umrótið talsvert fyrir. Einnig er X stúlka á unglingsárum og gæti þurft að leita til annarrar konu vegna viðkvæmra mála, sem M gæti ekki leiðbeint með og ekki væri nægilegt að afgreiða með símtali við móður. Loks er M óvanur að sinna uppeldi eins síns liðs til lengri tíma og ekki er víst að hann hefði þolinmæði til að semja við sjálfstæðan ungling og mæta honum á miðri leið. Reynsla af umgengni 1-2svar í mánuði gefur ekki rétta mynd af náinni, daglegri samveru. Loks skal á það bent að M getur átt erfitt með að leysa úr tilfinningalegum áhyggjum og hefur tilhneigingu til hvatvísi, en undirrituðum er ekki kunnugt um að hið síðastnefnda hafi beinst að X.

V

Aðilar gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins. Fram kom að þau hafi yfir að ráða fullnægjandi eða góðu húsnæði og að X njóti góðs aðbúnaðar.  Þau eru bæði einhleyp og er stefnandi einbúi en auk dótturinnar er vinur stefndu til heimilis hjá henni. Stefnandi er skipstjóri á um 160 rúmlesta fiskiskipi þar sem útilega er um vika í senn. Fái hann kröfu sinni framgengt kvaðst hann munu skipta yfir á dagróðrabát en þeim sé haldið til veiða í dagrenningu.  Hann vísaði til þess að hann ætti vinkonu sem væri barnakennari og að “stórfjölskylda” hans væri í […]. Stefnda er öryrki en hefur unnið við heimilishjálp undanfarið ár og kvað hún fjárhagslega afkomu sína vera góða.

Aðspurður um samskipti við X undanfarin ár kvað stefnandi þau vera mikil og þau væru saman í hestamennsku.  Engin tregða væri af hálfu stefndu að X kæmi til hans hvenær sem hann óskaði eftir.  Stefnda staðfesti að stefnandi hefði yfirleitt samband við X þegar hann fengi því við komið. X vilji hins vegar ekki flytjast til […] og í haust hafi hún ekki farið með föður sínum þangað, heldur austur í sveit þar sem hestar hans eru.

Einar Ingi Magnússon staðfesti matsgerð sína sem er grundvallargagn í málinu. Af henni eða því, sem að öðru leyti er fram komið, verður ekki ráðið að það verði dóttur málsaðila, X, til góðs að sú breyting verði gerð varðandi forsjá hennar að hún verði falin stefnanda.

Aðstæður stefndu, m.a. um heilsuhagi, voru bágbornar um það leyti er ákveðið var á grundvelli samnings aðila við skilnað þeirra að stefnda skyldi hafa forsjá X. Ekki er fram komið að þær hafi eftir það versnað heldur þvert á móti.

Samkvæmt framangreindu og með vísun til þess, sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 20/1992, er niðurstaða máls þessa sú að sýkna beri stefndu af kröfum stefnanda.

Stefnandi greiði í ríkissjóð 250.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar 250.000 krónur.

Vísa ber frá dómi kröfu stefnanda um (endur-)greiðslu úr ríkissjóði þar sem íslenska ríkið er ekki aðili máls.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Framangreindri kröfu stefnanda er vísað frá dómi.

Stefnda, K, er sýknuð af kröfum stefnanda, M.

Stefnandi greiði í ríkissjóð 250.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar 250.000 krónur.