Hæstiréttur íslands
Mál nr. 56/2002
Lykilorð
- Lögmaður
- Skaðabótamál
- Ómerkingarkröfu hafnað
- Skriflegur málflutningur
|
|
Fimmtudaginn 19. desember 2002. |
|
Nr. 56/2002. |
Jakob A. Traustason(sjálfur) gegn Almennu málflutningsstofunni sf. Hróbjarti Jónatanssyni Jónatan Sveinssyni og Reyni Karlssyni (Sigurmar Albertsson hrl.) |
Lögmenn. Skaðabótamál. Ómerkingarkröfu hafnað. Skriflegur málflutningur.
J krafði H, J, R og A sf. um bætur vegna vanrækslu á innheimtu krafna sem hann fól þeim á árunum 1989 til 1991 sem hafi haft þær afleiðingar að þær fengust ekki greiddar. Fallist var á það með héraðsdómi að J hefði ekki tekist að leiða líkur að því að H, J, R og A sf. hefðu misfarið með hagsmuni hans við innheimtu umræddra krafna. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest og H, J, R og A sf. sýknaðir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2002. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 2.560.271 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 285.000 krónum frá 11. júní 1991 til 26. september 1993 og af 774.849 krónum frá þeim degi til 19. október 1996 og af 2.560.271 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði dæmdir sameiginlega til að greiða sér 1.965.787 krónur ásamt dráttarvöxtum af 615.000 krónum frá 10. ágúst 1991 til 12. nóvember 1993, af 1.465.787 krónum frá þeim degi til 19. október 1996 og af 1.965.787 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum áfrýjanda en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málið var flutt skriflega eftir ákvörðun Hæstaréttar samkvæmt 3. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 15. gr. laga nr. 38/1994, en sú ákvörðun var tekin að fram kominni ósk áfrýjanda.
Áfrýjandi hefur ekki fært nein haldbær rök fyrir aðalkröfu sinni um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og heimvísun málsins. Verður henni því hafnað.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Á það verður að fallast með dóminum, að áfrýjanda hafi ekki tekist að leiða líkur að því, að stefndu hafi misfarið með hagsmuni hans við innheimtu þeirra krafna, sem um ræðir í málinu. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Eftir atvikum verður málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn niður falla.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jakob A. Traustasyni, kt. 180846-2049, Barónsstíg 3, Reykjavík, á hendur Almennu málflutningsstofunni sf., kt. 460886-1399, Kringlunni 6, Reykjavík, Hróbjarti Jónatanssyni hrl., kt. 270458-5649, Ljárskógum 6, Reykjavík, Jónatan Sveinssyni hrl., kt. 180234-7569, Deildarási 16, Reykjavík, Reyni Karlssyni hrl., kt. 220356-5239, Logafold 102, Reykjavík, og Leifi Árnasyni hdl., kt. 121262-6579, Vesturási 26, Reykjavík, með stefnu sem birt var 18. nóvember 1999.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða honum bótakröfu að fjárhæð 2.560.271 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 285 krónum frá 1l. júní 1991 til 26. september 1993 og af 774.849 krónum frá þeim degi til 19. október 1996 og af 2.560.271 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum bótakröfu að fjárhæð 1.965.787 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 615.000 krónum frá 10. ágúst 1991 til 12. nóvember 1993 og af 1.465.787 krónum frá þeim degi til 19. október 1996 og af 1.965.787 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilfellum krefst stefnandi málskostnaðar að mati réttarins. Gangi það ekki eftir er þess krafist að málskostnaður falli niður.
Dómkröfur stefndu eru aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og honum verði gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar og hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Málvextir eru þeir að málflutningsstofu Jónatans Sveinssonar hrl. og Hróbjarts Jónatanssonar hrl. var falið af stefnanda að innheimta á árunum 1989 til 1991 ákveðnar kröfur sem stefnandi átti á hendur tilgreindum aðilum. Upp úr sambandi stefnanda og firmans Almennu málflutningsstofunni sf. sem rekin var af stefndu, Jónatan Sveinssyni hrl., Hróbjarti Jónatanssyni hrl. og Reyni Karlssyni hrl. slitnaði á árinu 1994, en Almenna málflutningsstofan sf. hafði tekið við verkefnum málflutningsstofu Jónatans Sveinssonar og Hróbjarts Jónatanssonar á þeim tíma.
Almenna málflutningsstofan sf. telur sig eiga kröfur á hendur stefnanda vegna útlagðs kostnaðar og málskostnaðar nokkurra mála. Stefnandi hefur hafnað því og telur aftur á móti að stefndu hafi gróflega vanrækt að sinna þeim verkefnum sem stefndu hafi tekið að sér fyrir hann og ekki staðið í skilum við hann á þeim fjárhæðum, sem stefndu hafi innheimt í hans nafni, að minnsta kosti ekki gert honum viðhlítandi grein fyrir meðferð sinni á málefnum hans.
Stefnandi byggir málsókn sína á því að stefndu hafi valdið honum tjóni með saknæmum hætti og séu því bótaskyld.
Stefnandi flokkar kröfur þær sem hann kveðst hafa fengið stefndu til að innheimta fyrir sig og hér um ræðir með eftirgreindum hætti:
„A. Í febrúar 1989 fól stefnandi stefndu að innheimta eftirtalda víxla :
Víxill að fjárhæð kr. 250.000, útgefinn, þann 15. ágúst, af Viðari Norðfjörð og samþykktan til greiðslu, þann 20. september 1988, af Pyramid heildverslun, ábektur af Hólmfríði Stefánsdóttur og Herði Steinssyni.
Víxill að fjárhæð kr. 250.000, útgefinn, þann 15. ágúst, af Viðari Norðfjörð og samþykktan til greiðslu, þann 20. október 1988, af Pyramid heildverslun, ábektur af Hólmfríði Stefánsdóttur og Herði Steinssyni.
B. Í júní 1990 fól stefnandi stefndu að innheimta skuld vegna þriggja skuldabréfa, hvert að fjárhæð kr. 110.000, útgefin í Reykjavík, þann 16. desember 1985, af Guðmundi Vigni Sigurbjarnarsyni kt. 040243-4619 til handhafa. Bréfin voru með sjálfskuldarábyrgð Aðalbjargar Jónsdóttur kt. 221041-2839 og Sigurðar B. Guðmundss. kt. 120964-2089. Samkvæmt skuldabréfunum átti skuldin að greiðast með þremur jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 25. maí 1986. Í stað skuldabréfanna var lagður fram ógildingardómur, uppkveðin þann 30. október 1987, dskj. 6.
Í ógildingardómnum er rangt til getið um útgáfudag skuldabréfanna, hann er þar sagður vera 16. desember 1986 en á að vera 16. desember 1985.
Eftir að stefnandi fékk stefndu framangreinda innheimtu, í júní 1990, létu stefndu hjá líða fram til apríl 1992 að krefjast dóms fyrir kröfunni og til 24. febrúar 1993 að gera fjárnám í hlutaðeigandi fasteign til tryggingar kröfunni og til 28. apríl 1993 að krefjast nauðungarsölu eða samtals í nærri þrjú ár. Fyrir þessum seinagangi höfðu stefndu enga heimild og var stefnanda ókunnugt um aðgerðarleysi stefndu að þessu leyti. Á þeim tíma, sem stefndu létu þannig hjá líða að gera fjárnám fyrir kröfu stefnanda, tryggðu aðrir kröfuhafar sínar kröfur í viðkomandi fasteign og lentu því kröfur stefnanda utan þess ramma sem gat talist raunhæft söluverð eignarinnar.
C. Í desember 1991 fól stefnandi stefndu að innheimta skuldakröfur sem reynd hafði verið greiðsla á með eftirfarandi þrem innistæðulausum tékkum (ávísunum).
Samkvæmt tékka að fjárhæð kr. 285.000, útgefinn af Magnúsi Magnússyni, kt. 1006655579, þann 11. 05. 1991. Valdimar Jónsson, kt. 260665-2949, framseldi tékkann til stefnanda er síðan framseldi hann til banka.
Samkvæmt tékka að fjárhæð kr. 320.000, útgefinn af Guðjóni Sverri Rafnssyni kt. 220567-3709, þann 10. 07. 1991. Magnús Magnússon, kt. 100665-5579, framseldi tékkann til stefnanda er síðan framseldi hann til banka.
Samkvæmt tékka að fjárhæð kr. 10.000, útgefinn af Guðjóni Sverri Rafnssyni kt. 2205673709, þann 04. 07. 1991. Magnús Magnússon, kt. 100665-5579, framseldi tékkann til stefnanda er síðan framseldi hann til banka.
Þegar framangreindir tékkar voru sýndir í greiðslubanka reyndist innistæða ekki næg og varð stefnandi að leysa til sín tékkana."
Stefnandi byggir kröfugerð sína á því að stefndu hafi til sakar unnið gagnvart honum með því að hafa annað hvort vanefnt að innheimta framangreindar viðskiptakröfur og/eða vanefnt að skila honum fjármunum sem innheimst hafi af viðkomandi kröfum. Þess vegna eigi hann skaðabótakröfu á hendur stefndu til greiðslu þeirrar fjárhæðar sem tilgreind er í dómkröfum, auk vaxta og málskostnaðar.
Stefnandi kveðst byggja kröfugerð, vegna víxlanna sem getið er í A. lið málavaxta, á því að stefndu hafi vanefnt að innheimta eða standa stefnanda skil á innheimtuandvirði víxlanna. Ef víxlarnir eru enn óinnheimtir sé einnig á því byggt að eign (s.s.bifreiðaeign) ábyrgðarmannanna Hólmfríðar Stefánsdóttur og Harðar Steinssonar hafi verið nægar til að standa undir greiðslu á viðkomandi kröfu og að stefndu hafi jafnframt verið skylt að gera fjárnám í þessum eignum til tryggingar kröfunni.
Stefnandi mótmælir þeirri staðhæfingu stefndu að hann hafi afturkallað innheimtu víxlanna og kvittað fyrir móttöku þeirra 19. júlí 1989. Stefndu hafi sjálf lagt fram í málinu stöðuyfirlit innheimtumáls varðandi kröfuna með skráðum viðmiðunardegi 19. september 1996.
Stefnandi kveðst byggja kröfugerð, vegna innheimtukröfu á grundvelli skuldabréfanna þriggja, sem getið er í B. lið málavaxta, á því að stefndu hafi vanefnt að innheimta þessa kröfu og/eða standa stefnanda skil á innheimtuandvirði kröfunnar. Ef krafan er enn óinnheimt, kveðst stefnandi byggja m.a. á því, að til staðar hafi verið fasteign í eigu eins skuldarans og að krafan hefði fengist greidd að fullu ef stefndu hefðu krafist dóms fyrir kröfunni og gert fjárnám í fasteigninni, áður en það varð of seint vegna fjárnáma á vegum annarra kröfuhafa, ásamt því að krafan hefði fengist greidd ef stefndu hefðu gert fjárnám í bifreiðum sem skráðar voru í eigu skuldaranna. Í þessu tilliti sé m.a. byggt á því að stefndu hafi ekki stefnt kröfunni fyrir dóm fyrr en í apríl 1992 nærri tveimur árum eftir að þeim var fengin innheimtan eða í júní 1990, ásamt því að stefndu hafi einnig látið hjá líða til 24. febrúar 1993 að gera fjárnám fyrir kröfunni í hlutaðeigandi eign og til 28. apríl 1993 að krefjast nauðungarsölu á henni. Eignin sem um ræðir sé íbúð að Úthlíð 15 í Reykjavík sem einn skuldaranna, Aðalbjörg Jónsdóttir, varð þinglýstur eigandi að 27. desember 1991.
Á þeim tíma sem stefndu hafi þannig látið hjá líða að gera fjárnám í viðkomandi fasteign hafi fjöldi annarra kröfuhafa tryggt kröfur sínar í eigninni á 4., 5., 6. og 7. veðrétti. Byggt sé m.a. á því að kröfur stefnanda hafi fyrir vanefndir, aðgerðarleysi og vanrækslu stefndu lent utan þess ramma sem söluverð eignarinnar gaf tilefni til. Þá sé byggt á því að stefndu hafi borið að gera fjárnám í fasteigninni strax í byrjun árs 1992 og tryggja þannig kröfur stefnanda á 4. veðrétti ásamt því að þeim hafi verið skylt að vinna síðan þannig að málum að eignin seldist nauðungarsölu eigi síðar en í ágúst 1992.
Stefnandi segir að viðkomandi fasteign hafi skv. brunabótarmati verið að verðmæti 9.485.000 krónur á þeim tíma er uppboðssala hefði getað farið fram, þ.e. í ágúst 1992, en áhvílandi veðskuldir, skv. 1., 2. og 3. veðrétti, ásamt lögveðum og sölulaunum í ríkissjóð hefðu þá aðeins verið u.þ.b. 4.916.000 krónur og sé þá höfð hliðsjón af frumvarpi sýslumanns að úthlutun söluverðs vegna uppboðsins sem fram fór á eigninni þann 12. október 1993. Verðmæti eignarinnar umfram veðkröfur hafi því skv. þessu verið 4.569.000, (9.485.00 mínus 4.916.000), en krafa stefnanda, ásamt kostnaði, hafi þá aðeins verið 870.000 krónur. Byggt sé á því að hægt hefði verið að fá kröfu stefnanda greidda að fullu samhliða uppboði á fasteigninni.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndu hafi til sakar unnið með því að þeir hafi látið hjá líða að stefna kröfunni, frá júní 1990 fram til apríl 1992, ásamt því að láta hjá líða til 24. febrúar 1993 að gera fjárnám og til 28. apríl 1993 að krefjast nauðungarsölu eða samtals í nær þrjú ár og þess vegna hafi viðkomandi skuldakrafa ekki fengist greidd af uppboðsandvirði. Fyrir þessum seinagangi hafi stefndu enga heimild haft og hafi stefnanda verið ókunnugt um aðgerðarleysi stefndu. Þá kveðst stefnandi einnig byggja á því að stefndu hafi ekki, eins og þeim hafi þó verið skylt, tilkynnt honum að til staðar væri íbúð sem seld yrði uppboðssölu og kveðst hann reisa kröfu á því að hann hefði gætt hagsmuna sinna og boðið í eignina ef stefndu hefðu tilkynnt honum um uppboðið. Stefnandi kveðst hafa keypti íbúð í Reykjavík á árinu 1992. Það hefði því hentað honum að kaupa þá íbúð sem hér um ræðir á uppboði og fá um leið kröfur sínar greiddar. Þá hafi veðlánin, sem á eigninni hvíldu, verið hagstæð lán við Byggingarsjóð og Húsnæðisstofnun. Stefnandi kveðst einnig byggja á því að hann hefði fengið kröfuna, sem getið sé um í B. lið, greidda ef stefndu hefðu gert fjárnám fyrir henni í öðrum eignum skuldaranna, m.a. skráðum farartækjum.
Þá byggir stefnandi á því að stefndu hafi í engu sinnt áskorunum hans um gögn er sanni, að ekki hafi verið mögulegt að ná birtingu á stefnum, eins og haldið sé fram af hálfu stefndu.
Stefnandi mótmælir staðhæfingum stefndu um hvernig staðið hafi verið að skráningu mála hjá lögmannsstofunni, þ.e. að tekið hafi verið í notkun nýtt IL kerfi 22. desember 1992 og millifærðar allar upplýsingar úr eldra kerfinu er við það hafi fengið dagsetninguna 22. desember 1992.
Stefnandi segist reisa bótakröfu á hendur stefndu vegna viðskiptaskulda, sem reynt hafi verið að greiða með þremur innistæðulausum tékkum (ávísunum), og getið sé í C. lið málavaxta, á því, að stefndu hafi vanefnt að standa stefnanda innheimtuskil á þessum innheimtukröfum, en stefndu hljóti annað hvort að hafa móttekið greiðslu á kröfunum eða látið fyrirfarast að innheimta þær. Fyrir þessar sakir beri stefndu að greiða honum skaðabætur. Stefnandi kveðst einnig byggja á því að séu kröfurnar, sem getið er í C. lið málavaxta, enn óinnheimtar, þá hafi eignir þeirra, sem komu við sögu tékkanna, verið meira virði en þurfti til að tryggja kröfurnar með fjárnámi þannig að þær hefðu fengist greiddar að fullu og sé m.a. á því byggt að stefndu hafi verið skylt að gera fjárnám í þessum eignum.
Af hálfu stefndu eru málavextir taldir með nokkuð öðrum hætti en fram komu hjá stefnanda. Rétt sé að stefnandi hafi falið stefndu innheimtu á kröfum á árunum 1989 til 1991, sem nánar eru tilgreindar í stefnu undir stafliðunum A, B og C. Hafa verði í huga að um sé að ræða mjög gömul mál, þannig að byggja verði fyrst og fremst á skjallegum gögnum í viðkomandi málamöppum svo og málasögu málanna, sem séu varðveittar í hinu tölvuskráða innheimtukerfi lögmanna (IL) og sem hafi verið í notkun á lögmannsstofunni frá upphafi reksturs hennar árið 1986. Þá sé rétt að geta þess að í lok ársins 1992 eða nánar tiltekið 22. desember hafi verið tekið í notkun nýtt IL kerfi en þá hafi allar upplýsingar úr eldra kerfinu verið millifærðar yfir í nýja kerfið. Við þá millifærslu hafi allar eldri aðgerðir viðkomandi mála fengið dagsetninguna 22. desember 1992, sem sé í raun millifærsludagsetningin en jafnframt rétt dagsetning viðkomandi aðgerðar. Framlagðar útskriftir af málasögu viðkomandi mála bera þetta með sér. Með vísan til þess sem hér hafi verið rakið og í sömu röð og greinir í stefnu hafi gangur umræddra innheimtumála verið með eftirgreindum hætti:
A. Kröfur samkvæmt tveimur víxlum, hvorum að fjárhæð kr. 250.000, báðum útgefnum 15/8 1988 af Viðari Norðfjörð, samþykktum til greiðslu þann 20/9 og 20/10 1988 af Pyramid, heildverslun. Víxlarnir voru ábektir af Hólmfríði Stefánsdóttur og Herði Steinssyni. Kröfunúmer 0339-000002.
Skráð málssaga staðfestir, sbr. dskj. nr. [13 og 14], að kröfur samkvæmt víxlum þessum voru skráðar til innheimtumeðferðar þann 23/6 1989 og gengu innheimtubréf út þann sama dag. Samtímis því að málið var skráð er tekin út stefna í málinu til þingfestingar þann 29/6 1989, þ.e. daginn fyrir réttarhlé. Málið er þó ekki þingfest, þar sem ekki náðist birting á alla stefndu í tæka tíð. Þann 19/7 1989 afturkallar stefnandi innheimtuna og kvittar fyrir móttöku á víxlunum sbr. dskj. nr. [15]. Má ljóst vera að í þessu tilviki hefur stefnandi sett fram óréttmæta kröfu á hendur stefndu gegn betri vitund. Er hafður uppi áskilnaður um að kæra þetta framferði á öðrum vettvangi.
B. Skuld samkvæmt 3 skuldabréfum, útgefnum af Guðmundi Sigurbjarnarsyni 16/12 1986 með sjálfskuldarábyrgð Aðalbjargar Jónsdóttur og Sigurðar Bj. Guðmundssonar. Kröfunúmer 0339-000006.
Svo sem yfirlit um málssöguna ber með sér sbr. dskj. nr. [17-19] var mál þetta skráð fyrst til innheimtumeðferðar hjá lögmannsstofunni 3/7 1990, upphaflega skv. 3 víxlum, samtals að fjárhæð kr. 110.000. Gögn málsins bera með sér, að um hafi verið að ræða bráðabirgðaskráningu, sem stundum kom fyrir [að gerð væri], en þá alltaf að fyrirlagi kröfuhafa. Þann 29/11 1990 er málið skráð á ný, þá á grundvelli ógildingardóms um þrjú skuldabréf, hvert að fjárhæð kr. 110.000 eða samtals kr. 330.000, sem er hin rétta skráning kröfunnar. Saga málsins er löng og nær yfir tímabilið frá þessari síðastgreindu skráningu til 17/2 1998, þegar endurupptekin er aðfararbeiðni. Máli þessu er ólokið svo sem gögn málsins og málssaga bera með sér.
Af gögnum málsins verður ráðið að illa hafi gengið að koma fram birtingu á stefndu í málinu, því þrjár stefnur eru teknar út á árinu 1991, þann 10. janúar, 18. mars og 17. apríl, en enga þeirra tókst að birta, dskj. nr. [19].
Fyrir liggur í gögnum málsins að lögmaður hafi komið að málinu fyrir hönd einhvers eða allra stefndu í málinu, því Lára Hansdóttir hdl. sendir þann 3. apríl 1991 símbréf ásamt uppkasti að réttarsátt, sbr. dskj. nr. [27]. Samkomulag virðist ekki hafa náðst um málalok á grundvelli þessa sáttaboðs. Þar hefur stefnandi (kröfuhafi) að sjálfsögðu átt seinasta orðið.
Þetta sáttaþóf teygðist fram yfir áramótin 1991/1992, því þann 17/3 1992 er stefna gefin út í málinu einu sinni enn, birting tókst og málið þingfest þann 9/4 1992. Tekið var til varna í málinu en við aðalmeðferðina 19.11.1992 er gerð réttarsátt sbr. dskj. nr. [22], allt að höfðu samráði við stefnanda. Var þar gert ráð fyrir að skuldin yrði greidd að fullu fyrir 15. janúar 1993.
Ekki var staðið við sáttina og fjárnámsbeiðni send á lokadegi þann 15/1 1993. Fjárnám var síðan gert í fasteigninni Úthlíð 15 í Reykjavík þann 24/2 1993 og nauðungarsölubeiðni send 23. apríl s.á. Var fasteignin seld á nauðungaruppboði, þar sem Búnaðarbanki Íslands varð hæstbjóðandi, fyrir kr. 6.200.000. Fékk bankinn kr. 228.776 upp í kröfu sína, sem nam þá kr. 931.000. Þau þrjú fjárnám, sem voru á undan kröfu stefnanda fengu heldur ekkert í sinn hlut en þau námu samtals kr. 568.000. Eftir þetta var fylgst með eignum/eignaleysi skuldaranna en þeir reyndust allir eignalausir þegar upp var staðið og var m.a. gerð árangurslaus aðför hjá Sigurði þann 30/5 1995. Fjárnámsbeiðni var send að nýju á Sigurð 17/2 1998. Málið lá niðri af þessari ástæðu um nokkurt skeið þar til það kom sáttatilboð frá Láru Hansdóttur hdl. vegna Sigurðar um fullnaðargreiðslu kr. 600.000 en stefnandi vildi ekki fallast á að lögmannsstofan annaðist milligöngu í þessum efnum vegna þess ágreinings sem þá var kominn upp milli hans og stefndu, sbr. dskj. nr. [28].
C. Skuld samkvæmt 3 tékkum. 1. tékki að fjárhæð kr. 285.000, útgefinn af Magnúsi Magnússyni 11/5 1991, framseldur af Valdimar Jónssyni. 2. tékki að fjárhæð kr. 320.000, útgefinn af Guðjóni Sverri Rafnssyni 10/7 1991, framseldur af Magnúsi Magnússyni. 3 tékki að fjárhæð kr. 10.000, útgefinn af Guðjóni Sverri Rafnssyni 4/7 1991, framseldur af Magnúsi Magnússyni.
Samkvæmt gögnum málsins voru tveir síðastgreindu tékkarnir afhentir til greiðslu á þeim fyrstnefnda. Hann kom því ekki til skráningar sem kröfugrundvöllur. Hinir tveir tékkarnir voru skráðir til innheimtumeðferðar þann 2/1 1992 og var innheimtubréf sent samdægurs. Samkvæmt málssögunni var stefna tekin út á Guðjón Sverri einan þann 3/2 1992 og dómur gekk (áritun) þann 12. sama mánaðar. Gögnin veita þær upplýsingar að Magnús hafi á árinu 1991 flust til Bandaríkjanna og að heimilisfang hans þar hafi verið óþekkt. Aðfararbeiðni var síðan tekin út á Guðjóni Sverri þann 20. febrúar 1992 og árangurslaust fjárnám gert hjá honum 24. sama mánaðar. Var málið því fellt niður þann 26/8 1993.
Stefnandi lætur að því liggja í málatilbúnaði sínum að þarna hafi verið til innheimtu viðskipta- eða reikningsskuld, sem greidd hafi verið með greindum tékkum en kröfuréttarsambandið raknað við þegar greiðslur skv. tékkunum reyndust ónýtar. Þessu er alfarið mótmælt. Hvorki í skráningu kröfunnar, geymslugögnum né framlögðum gögnum af hálfu stefnanda má ráða að svo hafi verið.
Af hálfu stefndu er talið ljóst að umræddar kröfur hafi fengið þá lögfræðilegu innheimtumeðferð sem efni stóðu til. Stefnandi hafi verið mjög tíður gestur á lögmannsstofunni og fengið allar þær upplýsingar, bæði skjallegar og munnlegar, sem hann fór fram á. Stefndu hafi að öllu leyti efnt þær skyldur sem á þeim hvíldu við starf þetta. Stefnandi hafi alla sönnunarbyrði um annað. Þessu til viðbótar sé á það bent og byggt á sem málsástæðu, ef talið yrði að einhver mistök hafi átt sér stað við meðferð innheimtunnar, að umræddar kröfur hafi frá upphafi verið verðlausar. Stefnandi hafi því aldrei orðið fyrir neinu tjóni. Málsástæður þær og lagarök sem stefnandi tjaldar í stefnu eiga ekki við nein rök að styðjast og ber því að hafna þeim.
Niðurstaða: Samkvæmt því, sem stefnandi heldur fram í stefnu, fól hann stefndu innheimtu á tveimur víxlum, hvorum að fjárhæð 250.000 krónur, í febrúar 1989. Af hálfu stefndu er byggt á því að stefnandi hafi afturkallað innheimtu á þeim en það styðjist við áritun stefnda 19. júlí 1989 á bakhlið innheimtubréfs, dagsett 23. júní 1989, sem lagt hefur verið fram í málinu sem dskj. nr. 15. Stefnandi mótmælir því að hafa móttekið víxlana og telur sig hafa ritað upphafsstafi sína á dskj. nr. 15 án þess að nokkuð stæði á bakhlið skjalsins. Hann telur að skráning kröfunnar hjá stefndu, sem fram kemur á dskj. nr 14 með viðmiðunardag 19. september 1996, sýni, að hann hafi ekki afturkallað innheimtu á víxlunum og ekki tekið við þeim frá stefndu.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið svo ótvírætt sé að stefnandi hafi gert athugasemdir við innheimtu stefndu á víxlunum, er hann fól stefndu að innheimta í febrúar 1989, fyrr en í bréfi til stefndu, sem dagsett er 12. nóvember 1996. Verður þessi tími - tæplega átta ár - auk framangreindrar áritunar stefnanda á bakhlið innheimtubréfs 19. júlí 1989, að teljast styðja staðhæfingu stefndu um að stefnandi hafi raunar afturkallað innheimtuaðgerðir stefndu á víxlunum 19. júlí 1989. Skráning kröfunnar hjá stefndu 19. september 1996 tekur ekki af skarið í þessu efni svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda. Skráningin getur allt eins sýnt að stefndu hafi 19. september 1996 talið að stefnandi hafi þá enn ekki greitt þeim þóknun fyrir tilraun stefndu til að innheimta víxlana á sínum tíma.
Stefnandi krefst bóta af stefndu sökum þess að þau hafi vanefnt að innheimta skuld vegna þriggja skuldabréfa sem greint var frá. Hann hafi fengið stefndu innheimtuna í hendur í júní 1990 og stefndu vanefnt að innheimta og/eða standa stefnanda skil á innheimtuandvirði kröfunnar. Stefndu hafi til sakar unnið með því að láta hjá líða að stefna vegna kröfunnar frá því í júní 1990 og fram í apríl 1992, vanrækt að gera fjárnám þar til 24. febrúar 1993 og vanrækt að krefjast nauðungarsölu til 28. apríl 1993 eða samtals í nær þrjú ár. Þess vegna hafi krafan ekki fengist greidd af uppboðsandvirði. Þá byggir stefnandi á því að stefndu hafi ekki upplýst hann um gang mála svo sem að tilkynna honum um uppboð á íbúð Aðalbjargar Jónsdóttur er bar sjálfskuldarábyrgð á kröfunni.
Svo sem rakið hefur verið gera stefndu í málinu ítarlega grein fyrir innheimtumeðferð lögmannsstofunnar á þessum skuldabréfum. Þó að árangur yrði ekki sá, sem stefnandi hafði ef til vill vænst, verður að álykta, að stefndu hafa staðið að verki á eðlilegan hátt og eins og efni stóðu til, þ.e. krafið viðkomandi með hefðbundnum og lögmæltum hætti um greiðslu á kröfu sem stefnandi hafði falið þeim að innheimta. Og þó stefnandi haldi því fram, að stefndu hafi vanrækt að upplýsa hann um gang mála, bendir ekkert til þess. Stefndu náðu réttarsátt fyrir stefnanda 19. nóvember 1992, þar sem útgefandi skuldabréfanna, Guðmundur Sigurbjörnsson, og sjálfskuldarábyrgðarmenn, Aðalbjörg Jónsdóttir og Sigurður Bj. Guðmundsson, lofa að greiða skuldina við stefnanda eins og þar er nánar tilgreint. Annað mál er að ágreiningur aðila um greiðslu stefnanda á útlögðum og áföllnum kostnaði lögmannsstofunnar vegna innheimtunnar hefur staðið í vegi fyrir að lögmannsstofan hafi lokað reikningi vegna starfa fyrir stefnanda.
Stefnandi staðhæfir að hafa afhent stefndu til innheimtu kröfu sem byggð hafi verið á þremur tékkum í eigu hans, sem reynst höfðu án innistæðu á viðkomandi reikningum í greiðslubanka; tékka að fjárhæð 285.000 krónur, útgefnum af Magnúsi Magnússyni 11. maí 1991, framseldum til stefnanda af Valdimar Jónssyni, tékka að fjárhæð 10.000 krónur, útgefnum af Guðjóni Sverri Rafnssyni 4. júní 1991 framseldum til stefnanda af Magnúsi Magnússyni og tékka að fjárhæð 320.000 krónur, útgefnum af Guðjóni Sverri Rafnssyni 10. júní 1991, framseldum til stefnanda af Magnúsi Magnússyni.
Af hálfu stefndu er haldið fram að tékki að fjárhæð 285.000 krónur, sem gefinn var út 11. maí 1991, hafi ekki verið til innheimtu hjá þeim sökum þess að tveir síðargreindu tékkarnir hafi verið afhentir til greiðslu á honum. Þessu til staðfestingar hefur verið lagður fram í málinu af hálfu stefndu tékki að fjárhæð 285.000 krónur, útgefinn af Magnúsi Magnússyni 11. maí 1991, framseldur af Valdimar Jónssyni til handhafa, ásamt yfirlýsingu frá Reiknistofu bankanna þar sem fram kemur að á innlausnardegi 14. maí 1991 hafi ekki reynst innistæða fyrir honum á viðkomandi reikningi og að reikningi hafi verið lokað 16. maí 1991. Þá hafa stefndu lagt fram afrit af innheimtubréfum, dagsettum 2. janúar 1992, þar sem Guðjón Sverrir Rafnsson og Magnús Magnússon eru krafðir um greiðslu á fjárhæð að höfuðstól 330.000 krónur, kröfueigandi Jakob Traustason og lýsing kröfu: „2 innistæðulausar ávísanir útg. 04.07.91 og 10.07.91 að fjárhæð kr. 10.000,- og kr. 320.000,- á reikn. nr. 22563." Af hálfu stefndu er rakið í greinargerð hvernig að innheimtu var staðið af hálfu lögmannsstofunnar og er það stutt gögnum sem fram koma í málinu á dskj. nr. 29-36. Er tjáð að krafan hafi verið felld niður 26. ágúst 1993.
Í bréfi stefnanda til Almennu málflutningsstofunnar, dags. 12. nóvember 1996, sbr. dskj. nr. 5, segir m.a.:
„INNHEIMTA SEM ÉG FÓL YÐUR ÞANN 17. DESEMBER 1991.
Þessi innheimta var vegna þriggja ávísana. Kr. 320.000 útgefin af Guðjóni Sverri Rafnssyni kt. 220567-3709, framseld af Magnúsi Magnússyni, kt. 1006645-5576. Kr. 10.000 útgefin af Guðjóni Sverri Rafnssyni kt. 220567-3709, framseld af Magnúsi Magnússyni kt. 100665-5579. Kr 285.000 útgefin af Magnúsi Magnússyni, kt. 100665-5579, framseld af
Hverjar eru ástæður þess að ekki voru gerðar kröfur á hendur Magnúsi Magnússyni og af hverju var honum ekki stefnt fyrir bæjarþing vegna ofangreindra ávísan og eða skulda."
Af hálfu stefndu er skýrt frá því að Magnús hafi á árinu 1991 flust til Bandaríkjanna og heimilisfang hans þar hafi verið óþekkt.
Ótrúlegt þykir að stefnandi hafi ekki haft vitneskju um afdrif innheimtu sem hann fól stefndu 17. desember 1991 þann 12. nóvember 1996 eða í tæplega fimm ár. Af framlögðum gögnum verður ekki annað ráðið en að stefndu hafi staðið forsvaranlega að innheimtu fyrir stefnanda þó segja megi að skráning mála og málaloka hjá lögmannsstofunni hefði mátt vera með betri hætti.
Samkvæmt framangreindu verða stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda en rétt er að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Almenna málflutningsstofan sf., Hróbjartur Jónatansson, Jónatan Sveinsson, Reynir Karlsson, og Leifur Árnason, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Jakobs A. Traustasonar.
Málskostnaður fellur niður.