Hæstiréttur íslands

Mál nr. 436/2001


Lykilorð

  • Umferðarréttur
  • Samaðild
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. júní 2002.

Nr. 436/2001.

Óskar og Kjartan ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf.

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

 

Umferðarréttur. Samaðild. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Ó og B deildu um hvort Ó ætti tiltekinn umferðarrétt að fasteign sinni. Ekki var gætt ákvæða 18. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála um samaðild þeirra lóðarhafa sem umferðarrétturinn átti að taka til og var því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. nóvember 2001. Hann krefst þess að viðurkennt verði „að hann eigi óheftan umferðarrétt á milli lóðanna nr. 119 og 121 við Vesturgötu á Akranesi.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi stendur deila málsaðila um umferðarrétt áfrýjanda að fasteign sinni Vesturgötu 119 á Akranesi. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð allmörg ný skjöl.

 Í kröfugerð sinn afmarkar áfrýjandi ekki skýrlega það svæði, sem hann krefst umferðarréttar um. Til þess verður þó að líta að eins og málið hefur verið rekið af hálfu beggja aðila stendur umferðarréttardeila þeirra um svæði, sem auðkennt er á uppdrætti Verkfræði- og teiknistofunnar sf. Akranesi frá 18. nóvember 1968. Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi fylgdu hlutar af þessum uppdrætti lóðarleigusamningi um Vesturgötu 119 frá 12. júní 1969 og lóðarleigusamningi um Vesturgötu 121 frá 27. maí 1969 við þinglýsingu þeirra skjala. Samkvæmt uppdrættinum er hluti þess svæðis, sem deilan tekur til, á lóð Vesturgötu 121, en hluti þess á lóð, sem samkvæmt uppdrættinum er talin til Vesturgötu 121A.

 Í málinu liggur ekki fyrir lóðarleigusamningur um Vesturgötu 121A frá þessum tíma, en ekkert er fram komið, sem bendir til annars en að leigulóð þeirrar eignar sé réttilega sýnd á áðurgreindum uppdrætti. Þá liggur ekki fyrir heimildarbréf stefnda fyrir fasteigninni Vesturgötu 121A, en eignarheimild hans að þeirri eign er þó ekki umdeild í málinu. Lóðarleigusamningur, sem Akraneskaupstaður gerði við stefnda 31. ágúst 1992 um lóðina númer 121A, nær ekki til alls þess svæðis, sem talið var til lóðarinnar á fyrrnefndum uppdrætti frá 18. nóvember 1968. Fellur allt það svæði utan lóðarleigusamningsins, sem umferðarkvöðin var talin ná til samkvæmt þeim uppdrætti. Samkvæmt framansögðu bera gögn málsins með sér að stefndi hafi ekki verið rétthafi þess hluta lóðarinnar þegar mál þetta var höfðað. Verður ekki af gögnum málsins ráðið hvort sá hluti var þá í eigu og á forræði Akraneskaupstaðar eða jafnvel að einhver annar hafi verið rétthafi hans. Áfrýjandi beindi ekki kröfu sinni að þeim, sem þá átti eða hafði á leigu þann hluta þeirrar lóðar, sem áður var talin fylgja Vesturgötu 121A, heldur stefnda einum. Þótt stefndi hafi þegar málið var höfðað verið eigandi fasteignarinnar númer 121 við Vesturgötu og þar með rétthafi leigulóðar, sem þeirri eign fylgdi, var samkvæmt því, sem að framan er rakið, ekki gætt ákvæða 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um samaðild þeirra lóðarhafa, sem umferðarrétturinn átti að taka til. Fær engu breytt þar um að stefndi hafi eftir áfrýjun héraðsdóms gert samning við Akraneskaupstað um leigu þess hluta lóðarinnar númer 121A við Vesturgötu, sem hin umdeilda umferðarkvöð tekur til.

Samkvæmt framansögðu er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi.

Í ljósi atvika málsins er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                               Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 19. september 2001.

   Mál þetta var höfðað 8. maí 2001 og dómtekið 13. september sama ár. Stefnandi er Óskar og Kjartan ehf., Sævangi 22 í Hafnarfirði, en stefndi er Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., Kirkjubraut 16 á Akranesi.

   Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hann eigi óheftan umferðarrétt á milli lóða nr. 119 og 121 við Vesturgötu á Akranesi. Einnig krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti af 1.150.000 krónum frá 31. janúar 2001 til greiðsludags. Enn fremur er þess krafist að staðfest verði með dómi lögbannsgerð sýslumannsins á Akranesi frá 2. maí 2001, þar sem lagt er lögbann við þeirri athöfn stefnda að „hindra umferðarétt [stefnanda] á milli fasteignanna Vesturgötu 119 og 121, Akranesi, samkvæmt teikningum sem fylgja gildandi lóðarleigusamningum um fasteignirnar nr. 119 og 121.“ Þá krefst stefnandi hæfilegs málskostnaðar úr hendi stefnda.

   Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

I.

   Stefnandi er eigandi fasteignarinnar Vesturgötu 119 á Akranesi. Lóðarleigusamningur fyrir eignina var gerður 12. júní 1969 og afhentur sama dag til þinglýsingar. Flatarmál lóðarinnar er 3.430 fermetrar og er lögun hennar sýnd á uppdrætti sem fylgir lóðarleigusamningnum. Í ákvæðum lóðarleigusamningsins er ekki vikið að umferðarrétti leigutaka um aðliggjandi lóðir. Á uppdrætti með samningnum hefur hins vegar verið skyggt svæði frá lóð nr. 119 meðfram lóð nr. 121 með svohljóðandi áritun: „Dökkt: gagnkvæm umferðarkvöð“.

   Fasteignin Vesturgötu 121 er í eigu stefnda en lóðarleigusamningur fyrir eignina er frá 27. maí 1969 og var hann afhentur til þinglýsingar sama dag. Samkvæmt samningnum er flatarmál lóðarinnar er 3.190 fermetrar og er lögun hennar sýnd á viðfestum uppdrætti. Í samningnum sjálfum er ekki að finna ákvæði um umferðarkvöð, en uppdráttur með samningnum hefur að geyma sömu áritun og samningur fyrir lóð nr. 119 um gagnkvæma umferðarkvöð.

   Hinn 26. janúar 1999 var stefnanda veitt byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Vesturgötu 119. Þær breytingar gera meðal annars ráð fyrir bílgengum dyrum á vesturhlið hússins í horni beint á móti dyrum inn í hús stefnda. Með bréfum, dags. 25. apríl 2001, kærði stefndi byggingarleyfið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og óskaði samhliða eftir því við bæjarstjórn Akraness að leyfið yrði endurskoðað. Þessi erindi hafa hvorki hlotið afgreiðslu hjá úrskurðarnefnd né bæjarstjórn.

   Með kauptilboði samþykktu 31. janúar 2001 seldi stefnandi Agli Steinari Gíslasyni atvinnuhúsnæði á jarðhæð fasteignarinnar Vesturgötu 119. Kaupverðið var 1.150.000 til greiðslu við undirritun kaupsamnings. Í kauptilboðinu er tekið fram að seljandi tryggi kaupanda „fullan aðkeyrslurétt að innkeyrsludyrum að húsnæðinu“. Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá Óskari Hrafni Ólafssyni, framkvæmdarstjóra stefnanda, að gerður hefði verið annar kaupsamningur um hluta eignarinnar, en sá samningur væri bundinn skilyrði um umferðarrétt milli lóða nr. 119 og 121.

   Með beiðni 5. apríl 2001 fór stefnandi þess á leit að sýslumaðurinn á Akranesi legði lögbann við því að stefndi takmarkaði umferðarrétt stefnanda á milli lóðanna nr. 119 og 121 við Vesturgötu. Í beiðninni er því haldið fram að stefndi hafi hindrað umferð stefnanda á milli lóðanna með því að setja stóran vörugám á það svæði sem umferðarrétturinn taki til. Þetta hafi valdið stefnanda óþægindum og beinu fjártjóni, sem einkum verði rakið til þess að sala á hluta eignarinnar með fyrrgreindu kauptilboði frá 31. janúar 2001 hafi gengið til baka. Í samræmi við beiðni stefnanda og gegn andmælum stefnda náði síðan lögbannið fram að ganga 2. maí 2001 og er krafist staðfestingar á þeirri lögbannsgerð með málsókn þessari.

II.

   Stefnandi heldur því fram að milli húsa á lóðum nr. 119 og 121 við Vesturgötu á Akranesi sé gagnkvæmur umferðarréttur í samræmi við uppdrætti sem fylgi þinglýstum lóðarleigusamningum. Stefndi hafi um alllangt skeið haft stóran vörugám á því svæði sem umferðarréttur taki til og því hafi stefnandi ekki komist að húsum sínum. Í fyrstu hafi stefndi takmarkað umferðarréttinn með því að staðsetja gáminn á miðju svæðinu, sem hafi hindrað umferð bíla, en síðan með því að færa gáminn þétt að fasteign stefnanda. Með málshöfðun þessari sé krafist viðurkenningar á hinum gagnkvæma umferðarrétti og að staðfest verði lögbann sem lagt var við þeirri athöfn stefnda að hindra umferðarréttinn.

   Stefnandi vísar til þess að gerður hafi verið bindandi kaupsamningur um hluta húsnæðis hans með samþykktu kauptilboði frá 31. janúar 2001. Samkvæmt kauptilboðinu hafi stefnandi gengist undir að tryggja kaupanda fullan rétt til aksturs að innkeyrsludyrum að húsnæðinu. Þar sem umferðarrétturinn hafi verið hindraður af stefnda, og af þeim tálma hafi ekki verið látið þrátt fyrir áskoranir, hafi stefnandi ekki getað efnt þennan þátt samningsins. Af þessu sökum sé krafist hóflegra bóta úr hendi stefnda sem svari til dráttarvaxta af umsömdu kaupverði eignahlutans frá því kauptilboðið var samþykkt 31. janúar 2001 til greiðsludags.

   Stefndi andmælir því að umferðarkvöð hvíli á lóð hans í þágu fasteignarinnar Vesturgötu 119. Vísar stefndi til þess að uppdrættir með lóðarleigusamningum fyrir lóðir nr. 119 og 121 séu afrit af upphaflegum uppdrætti, sem gerður hafi verið af Verkfræði- og teiknistofunni sf. á Akranesi 18. nóvember 1968. Hvorki uppdrátturinn né þinglýst afrit af honum séu undirrituð af eigendum eignanna og engin önnur skrifleg gögn liggi fyrir, sem feli í sér samning um nýtingu lóðanna. Stefndi heldur því fram að þinglýsing uppdráttar með lóðarleigusamningi feli ekki í sér kvaðabindingu heldur hafi hún þann tilgang einan að afmarka og staðsetja lóð. Efni þeirrar kvaðar sem getið sé á uppdrætti með lóðarleigusamningi fyrir eign stefnda sé allt of óljóst til að annað og meira felist í þinglýsingunni og fráleitt að telja að í skjalinu felist réttur til handa stefnanda til að hafa einu aðkomu að eignarhluta í eign sinni þvert yfir lóð stefnda en eina aðkoma að eign hans sé um þann hluta lóðarinnar.

   Stefndi heldur því fram að umferðarkvöð um eign hans sé í öllu falli ekki þágu eiganda Vesturgötu 119. Það svæði sem skyggt sé á uppdrætti með lóðarleigusamningi fyrir eign stefnda nái inn á lóð hans en ekki inn á lóð stefnanda. Því sé ljóst að gagnkvæm umverðarkvöð sé ekki fyrir hendi í þágu eiganda Vesturgötu 119 þar sem ekki sé gert ráð fyrir umferð um lóðina í þágu eigenda annarra lóða. Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til þess að í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir Vesturgötu 119 sé tekið fram að á lóðinni séu engar kvaðir.

   Stefndi vísar til þess að á árinu 1974 hafi viðbygging verið reist við Vesturgötu 119 en fyrir þann tíma hafi aðkoma að eigninni verið frá Vesturgötu og engin þörf á umferðarrétti um portið milli húsanna við Vesturgötu 121 og 121 A. Þegar uppdráttur, sem fylgi lóðarleigusamningum fyrir Vesturgötu 119 og 121, hafi verið gerður hafi staðið braggi á lóð nr. 121 A með dyr á báðum göflum. Því hafi þurft að aka um portið að eystri dyrum braggans. Á þessum tíma kunni því að hafa verið samkomulag um gagnkvæman umferðarrétt milli eigenda lóða nr. 121 og 121 A við Vesturgötu. Einnig telur stefndi mögulegt að umferðarréttur kunni að hafa verið í þágu eiganda húss sem stóð milli lóða nr. 119 og 121 A og nefnt var Aðalból, en það hús hafi verið rifið áður en nefnd viðbygging við Vesturgötu 119 var reist árið 1974.

   Þar sem stefnandi eigi ekki umferðarrétt yfir lóð stefnda telur hann að synja beri kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns. Af sömu ástæðu beri að sýkna stefnda af bótakröfu stefnanda. Verði lögbannið á hinn bóginn staðfest og umferðarréttur viðurkenndur beri allt að einu að sýkna af bótakröfu þar sem stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni, sem rakið verði til bótaskyldrar háttsemi.

   Þá heldur stefndi því fram að synja beri um staðfestingu lögbanns þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefndi hafi ekki haft í frammi byrjaða eða yfirvofandi athöfn, sem lögbann verði lagt við. Á lóðinni hafi hins vegar verið gámur en því verði ekki jafnað til athafna í þessum skilningi. Til að njóta umferðarréttar, sem stefnandi telur sig eiga, hefði honum á hinn bóginn verið kleift að hafa uppi kröfu um beina aðfarargerð á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Loks telur stefndi að synja hefði átt um lögbann þar sem réttarreglur um skaðabætur fyrir röskun hagsmuna hefðu tryggt þá nægjanlega, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. 

III.

   Stefnandi er eigandi fasteignarinnar Vesturgötu 119 á Akranesi. Með málshöfðun þessari hefur hann krafist þess að viðurkennt verði að eigninni fylgi umferðarréttur um aðliggjandi fasteign. Stefnandi samþykkti kauptilboð í hluta eignarinnar 31. janúar 2001 en sá kaupsamningur mun hafa gengið til baka. Þá hefur stefnandi upplýst að annar kaupsamningur um eignina sé bundinn skilyrði um umferðarrétt þann sem er sakarefni málsins. Að þessu virtu verður ekki talið að reglur um samaðild í 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hindri málsókn þessa.

   Með málsaðilum er ágreiningslaust að lóðir fasteignanna Vesturgötu 119 og 121 liggja saman innst í porti sem liggur frá vegi milli lóða nr. 121 A og 121 og að fasteign stefnanda. Aðilar deila hins vegar um hvort stefnandi eigi umferðarrétt um portið, yfir lóð stefnda og að fasteign sinni.

   Á uppdrætti sem fylgir þinglýstum lóðarleigusamningi fyrir fasteign stefnda að Vesturgötu 121 er umrætt port skyggt og með áritun um gagnkvæma umferðarkvöð. Sama áritun er á lóðarleigusamningi fyrir eign stefnanda. Af uppdráttum þessum verður ekki ráðið hvaða heimild liggi til grundvallar slíkri umferðarkvöð. Um hana eru engin ákvæði í skilmálum lóðarleigusamninga og ekki nýtur við annarra skriflegra gagna. Samkvæmt þessu liggur ekki fyrir hverjir njóta umferðarréttar um portið og hvernig sá réttur verði hagnýttur.

   Þegar nefnd umferðarkvöð er virt með tilliti til fasteignar stefnanda verður ekki hjá því litið að skyggða svæðið liggur ekki um lóð hans. Að réttu lagi væri því umferðarréttur stefnanda um aðliggjandi lóð einhliða en ekki gagnkvæmur. Einnig skiptir máli sú staðreynd að aðkoma að húsi á lóð stefnanda á þeim tíma sem lóðarleigusamningar voru gerðir, og áður en þar var reist viðbygging löngu síðar, var greið frá Vesturgötu. Á hinn bóginn er lega lóða nr. 121 og 121 A þannig að umferð að húsum á lóðunum verður ekki komið við með góðu móti nema farið sé yfir mörk lóðanna. Þetta bendir til þess að umferðarréttur sé í þágu eiganda annarra lóða en Vesturgötu 119, ef slík kvöð á eign stefnda er á annað borð fyrir hendi.

   Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að eign hans fylgi umferðarréttur að lóð sinni yfir lóð stefnda og verður stefndi því sýknaður af kröfu um að slíkur réttur verði viðurkenndur. Þegar af þeirri niðurstöðu leiðir að synjað verður um staðfestingu lögbannsgerðar sýslumannsins á Akranesi frá 2. maí 2001, auk þess sem stefndi verður sýknaður af skaðabótakröfu stefnanda.   

   Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

   Dóm þennan kveður upp Benedikt Bogason, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

   Stefndi, Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Óskars og Kjartans ehf.

   Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.