Hæstiréttur íslands

Mál nr. 111/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                                         

Miðvikudaginn 30. mars 2011.

Nr. 111/2011.

Kaupþing banki hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

gegn

þrotabúi Baugs Group hf.

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni þrotabús B um dómkvaðningu matsmanna. Matsbeiðnin var lögð fram undir rekstri dómsmáls sem þrotabúið hafði höfðað gegn sex félögum til riftunar á nánar tilgreindum greiðslum frá B og til endurgreiðslu þeirra fjárhæða. Laut hún m.a. að verðlagi hluta í B sem félagið keypti í tengslum við sölu þess á hlutafé í H. Ágreiningur var um hvort þrotabú B gæti lagt fram, undir rekstri dómsmáls sem K ætti ekki aðild að, beiðni um dómkvaðningu matsmanna til að framkvæma mat sem það hygðist ekki einungis nýta til sönnunar í því máli heldur einnig í ágreiningsmáli gegn K á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði m.a. að í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri gengið út frá því að unnt væri að krefjast dómkvaðningar matsmanna til að framkvæma mat til sönnunar á málsatvikum eða réttmæti kröfu bæði undir rekstri dómsmáls, sbr. IX. kafla laganna og án þess að mál væri höfðað, sbr. XII. kafla laganna. Þó ekki væri vikið að því í lögunum að matsbeiðanda væri unnt að leggja fram matsbeiðni bæði á grundvelli IX. kafla og XII. kafla laganna yrði ekki séð að lögin kæmu í veg fyrir það enda uppfyllti matsbeiðnin að öðru leyti efnislegar og formlegar kröfur. Ekki yrði séð að neinir formlegir eða efnislegir annmarkar væru á matsbeiðninni sem gætu valdið því að hafna bæri beiðninni. Þá væri ekki talið að 116. gr. laga nr. 21/1991 hamlaði því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta þau atriði sem tilgreind væru í matsbeiðninni

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2011, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfu varnaraðila vísað frá héraðsdómi, en til vara að synjað verði um dómkvaðningu matsmanna. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing banki hf., greiði varnaraðila, þrotabúi Baugs Group hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2011.

I.

Mál þetta var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Baugs Group hf., Efstaleiti 5 í Reykjavík, gegn Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., Engjateigi 5 í Reykjavík, Eignarhaldsfélaginu ISP ehf., Sóleyjargötu 11 í Reykjavík, Gaumi Holding S.A., 35a Avenue J.F. Kennedy í Lúxemborg og Bague S.A., 35a Avenue J.F. Kennedy í Lúxemborg, með stefnu sem árituð var af lögmanni framangreindra stefndu 16. febrúar 2010, og gegn Banque Havilland S.A., 35a Avenue J.F. Kennedy í Lúxemborg, og Pillar Securitisation S.à r.l., 35a Avenue J.F. Kennedy í Lúxemborg, með stefnum birtum 18. febrúar 2010.

Í málinu krefst stefnandi riftunar á nánar tilgreindum greiðslum Baugs Group hf. til stefndu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., Eignarhaldsfélagsins ISP ehf., Gaums Holding  S.A. og Bague S.A. 11. og 14. júlí 2008 auk riftunar á greiðslu stefnda Bague S.A. til Kaupthings Banka Luxembourg S.A. sem fór fram 15. júlí 2008. Stefnandi krefst enn fremur endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem Baugur Group hf. innti ef hendi frá öllum stefndu auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

Í þinghaldi í málinu 6. desember 2010 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Lýtur matsbeiðnin að verðlagi hluta í Baugi Group hf. að nafnvirði 314.000.000 krónur sem félagið keypti 30. júní 2008 í tengslum við sölu þess á 95,7% hlutafjár í Högum hf. Auk þess lýtur matsbeiðnin að nánar tilgreindum þáttum er tengjast fjárhagslegri stöðu Baugs Group hf. á sama tíma. Eins og fram kemur bæði í stefnu og í matsbeiðninni telur stefnandi að verðlagning á umræddum hlutum í félaginu hafi ekki samrýmst raunverulegu verðmæti þeirra en riftunarkrafan í málinu beinist að þeim greiðslum sem Baugur Group hf. innti af hendi fyrir þessa hluti. Því sem meta á er lýst með eftirfarandi hætti í matsbeiðninni:

      A. Matsliður 1-6. Eigna- og skuldastaða Baugs Groups hf. 30. júní 2008

      Fyrir liggur óendurskoðaður árshlutareikningur Baugs Group hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2008 ásamt sundurliðunum („árshlutareikningurinn“).

      1.   Hvert var verðmæti heildarskulda Baugs Group hf. samkvæmt árshlutareikningnum?

      2.   Hvert var vænt söluvirði eftirtalinna eigna Baugs Group hf. þann 30. júní 2008: a) Iceland Foods Group Ltd. b) Mosaic Fashions hf. og c) Highland Group Holdings Ltd (House of Fraser)?

      3.   Hver er mismunur á væntu söluvirði þeirra eigna Baugs Group hf. þann 30. júní 2008 sem taldar eru upp í matslið 2 annars vegar og bókfærðu verði þeirra hins vegar?

      4.   Hvert var verðmæti heildareigna Baugs Group hf. þann 30. júní 2008 þegar verðmæti eigna samkvæmt árshlutareikningum hefur verið leiðrétt í samræmi við matslið 3 hér að ofan og að frádregnu verðmæti eigin hlutabréfa Baugs Group hf. sem eignfærð voru í árshlutareikningnum?

      5.   Hvert var eigið fé Baugs Group hf. þann 30. júní 2008 að teknu tilliti til niðurstaðna matsliða 1—4 hér að ofan?

      6.   Hvert var innra virði Baugs Group hf. þann 30. júní 2008 að teknu tilliti til niðurstaðna matsliða 1-5 hér að ofan?

      B. Matsliður 7. Verð hlutabréfa í Baugi Group hf. 30. júní 2008.

      7. Hvert var eðlilegt kaupverð fyrir hlutafé Baugs Group hf. að nafnvirði 314.000.000,- kr. sem Baugur Group hf. keypti þann 30. júní 2008, að teknu tilliti til niðurstaðna matsliða 1-6 hér að ofan?“

Í matsbeiðni voru matsþolar tilgreindir allir stefndu auk Kaupþings banka hf. og fjögurra einstaklinga. Þar er um beiðnina vísað til 1. mgr. 61. gr. og XII. kafla, sbr. IX. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Í þinghaldinu 6. desember 2010 var ákveðið að málið yrði næst tekið fyrir 12. janúar 2011 og boðaði dómari aðra matsþola en stefndu sérstaklega til þess þinghalds. Í því þinghaldi lýsti stefnandi því yfir að fallið væri frá því að hinir tilgreindu einstaklingar yrðu matsþolar í matsmálinu. Af hálfu Kaupþings banka hf. var í þinghaldinu bókuð mótmæli við því að hið umbeðna mat færi fram að því er bankann varðaði. Stefndu í málinu gerðu hins vegar ekki athugasemd við að dómkvaðningin færi fram.

Málið var flutt 1. febrúar 2011 um ágreiningsefni þetta milli stefnanda, sóknaraðila í þessum þætti málsins, og matsþolans Kaupþings banka hf., sem er varnaraðili í þessum þætti málsins, en áður hafði varnaraðili lagt fram greinargerð um ágreiningsefnið. Sóknaraðili krefst þess að dómkvaðningin fari fram að því er varnaraðila varðar auk þess að krefjast málskostnaðar. Af hálfu varnaraðila er þess aðallega krafist að kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna verði vísað frá dómi en til vara að synjað verði um dómkvaðninguna, í báðum tilvikum að því er varnaraðila varðar. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts. Stefndu í málinu, þ.e. aðrir matsþolar en varnaraðili, létu þennan þátt málsins ekki til sín taka.

II.

Eins og rakið er í greinargerð varnaraðila tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í varnaraðila 9. október 2008, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Þar kemur einnig fram að varnaraðili hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. 24. nóvember 2008, sbr. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 129/2008. Hafi varnaraðili talist vera til slitameðferðar eftir reglum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki frá 22. apríl 2009 að telja, sbr. ákvæði V til bráðabirgða við framangreind lög, sbr. lög nr. 44/2009. Varnaraðili hafi síðan verið formlega úrskurðaður í slitameðferð 22. nóvember 2010 í kjölfar gildistöku laga nr. 132/2010.

Í stefnu málsins eru færð rök fyrir því að varnaraðili teljist réttur aðili að riftunarkröfu í máli þessu en ekki Arion banki hf., sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 um skiptingu á eignum og skuldum varnaraðila. Þar sem varnaraðili var þá bæði í greiðslustöðvun og slitameðferð samkvæmt lögum nr. 161/2002 kom 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í veg fyrir að unnt væri að höfða mál gegn varnaraðila vegna þess ágreiningsefnis sem stefnan lýtur að. Sóknaraðili lýsti hins vegar fjárkröfu í bú varnaraðila með þremur kröfulýsingum 29. desember 2009 vegna innborgana stefndu, Fjárfestingafélagsins Gaums hf., Gaums Holding S.A og Eignarhaldsfélagsins ISP ehf., inn á skuldir félaganna hjá varnaraðila. Krafan vegna innborgunar stefnda, Fjárfestingafélagsins Gaums hf., var að fjárhæð 8.660.575.262 krónur, krafa vegna innborgunar stefnda, Gaums Holding S.A., að fjárhæð 6.271.706.583 krónur og krafa vegna innborgunar stefnda, Eignarhaldsfélagsins ISP ehf., að fjárhæð 1.609.113.973 krónur. Í kröfulýsingunum var í öllum tilvikum vísað til 2. mgr. 131. gr., 141. gr. og 146. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. varðandi riftun á greiðslunum frá framangreindu stefndu og bóta krafist aðallega með vísan til 3. málsl. 1. mgr. 142. gr. og 2. mgr. 142. gr. en til vara með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 142. gr., sbr. 143. gr. sömu laga.

Kröfum sóknaraðila í bú varnaraðila mun hafa verið hafnað af hálfu slitastjórnar varnaraðila. Í lýsingu á tilgangi matsbeiðninnar kemur fram að ætlunin sé að nota matsgerðina sem gagn í dómsmáli því, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn stefndu til staðfestingar á riftun á umræddum greiðslum og greiðslu bóta eða endurgreiðslu á fjárkröfum, sem og í máli sem sóknaraðili hyggst vísa til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna ágreinings um kröfu hans í bú varnaraðila. Tilgangurinn virðist í báðum tilvikum vera sá sami, að sýna fram á að staða Baugs Group hf. hafi 30. júní 2008 verið með þeim hætti að í raun hafi ekkert eða lítið endurgjald komið í stað þess fjár sem félagið innti af hendi til stefndu, Fjárfestingafélagsins Gaums hf., Gaums Holding S.A., Eignarhaldsfélagsins ISP ehf. og Bague S.A, sem endurgjald fyrir bréf í því sjálfu.

III.

Mótmæli varnaraðila við því að dómkvaðning matsmanna fari fram gagnvart sér byggjast á þremur atriðum. Telur hann að matsbeiðnin gefi til kynna að hún sé reist á XII. kafla laga nr. 91/1991. Eftir sem áður sé ljóst að lagaskilyrði 1. mgr. 77. gr. laganna, um að dómsmál sé ekki höfðað, sé ekki fyrir hendi enda hafi sóknaraðili þegar haft uppi kröfu vegna matsatriðis í því dómsmáli þar sem matsbeiðnin var lögð fram. Sé beiðnin aftur á móti studd við IX. kafla laganna, þ.e. að hún sé sett fram undir rekstri dómsmáls, fái það ekki staðist að varnaraðili geti orðið aðili að slíku matsmáli enda sé hann ekki aðili að því dómsmáli sem sóknaraðili hefur höfðað. Þá telur varnaraðili að ákvæði 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. standi því í vegi að varnaraðili geti orðið matsþoli í fyrirliggjandi máli. Telur hann að matsmál feli í sér „dómsmál“ í skilningi framangreinds ákvæðis, annaðhvort samkvæmt almennri textaskýringu eða með lögjöfnun.

Sóknaraðili telur að þessar athugasemdir eigi ekki við rök að styðjast. Hann vísar til þess að gagnvart stefndu í málinu hafi matsbeiðnin verið lögð fram undir rekstri málsins með vísan til heimildarákvæðis í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 en gagnvart varnaraðila hafi hún verið lögð fram áður en mál er höfðað, sbr. XII. kafla, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991. Ekkert í lögunum hindri að aðilar að einu og sama matsmáli séu matsþolar annars vegar á grundvelli 1. mgr. 61. gr. laganna og hins vegar á grundvelli XII. kafla laganna. Bendir sóknaraðili á að matsbeiðni þurfi að uppfylla sambærileg efnis- og formskilyrði hvort sem hún er lögð fram fyrir málshöfðun eða undir rekstri máls. Andstæð regla myndi leiða til vandkvæða við gagnaöflun og binda hendur sóknaraðila almennt með óheppilegum hætti. Þá séu engir þeir annmarkar á matsbeiðninni er leiði til frávísunar hennar. Sóknaraðili telur enn fremur að 116. gr. laga nr. 21/1991 komi ekki í veg fyrir að unnt sé að leita atbeina dómstóla til að afla gagna samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991.

IV.

Matsbeiðnin var lögð fram undir rekstri dómsmáls sem sóknaraðili hefur höfðað gegn sex félögum til riftunar á nánar tilgreindum greiðslum frá Baugi Group hf. og til endurgreiðslu þeirra fjárhæða. Í matsbeiðninni kemur skýrt fram að hún sé lögð fram með vísan til 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 sem og XII. kafla sömu laga, sbr. IX. kafla laganna. Í tilvitnaðri 1. mgr. 61. gr. laganna, sem er í IX. kafla þeirra, er fjallað um heimild dómara til að kveðja einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila en þar er augljóslega átt við aðila að dómsmáli sem hefur verið höfðað. Því er ljóst að gagnvart stefndu í málinu er matsbeiðni sóknaraðila lögð fram á grundvelli framangreinds ákvæðis sem og IX. kafla laganna þar sem ákvæði þetta er.

Þá er ekki unnt að skilja matsbeiðnina á annan hátt en að gagnvart varnaraðila sé hún reist á ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991, sem fjallar um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Þar segir í 1. mgr. 77. gr. að aðila, sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, sé heimilt að beiðast dómkvaðningar matsmanns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli, ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Ekki er um það deilt að sóknaraðili hafi lögvarinna hagsmuni að gæta í skilningi þessa ákvæðis og að matsbeiðnin sé sett fram í þeim tilgangi m.a. að staðreyna kröfu sem sóknaraðili telur sig eiga á hendur varnaraðila eða sanna atvik að baki henni. Ágreiningur virðist aftur á móti vera um hvort sóknaraðili geti lagt fram undir rekstri dómsmáls, sem varnaraðili á ekki aðild að, beiðni um dómkvaðningu matsmanna til að framkvæma mat sem hann hyggst ekki einungis nýta til sönnunar í því máli heldur einnig í ágreiningsmáli gegn varnaraðila sem ekki hefur borist héraðsdómi samkvæmt 171. gr. laga nr. 21/1991.

Eins og þegar hefur verið vikið að er í lögum nr. 91/1991 gengið út frá því að unnt sé að krefjast dómkvaðningar matsmanna til að framkvæma mat til sönnunar á málsatvikum eða réttmæti kröfu bæði undir rekstri dómsmáls, sbr. IX. kafla laganna, og án þess að mál hafi verið höfðað, sbr. XII. kafla laganna. Þó að ekki sé vikið að því í lögum nr. 91/1991 að matsbeiðanda sé unnt að slá tvær flugur í einu höggi með því að leggja fram matsbeiðni bæði á grundvelli IX. kafla og XII. kafla laganna verður ekki séð að lögin komi í veg fyrir það enda uppfylli matsbeiðnin að öðru leyti efnislegar og formlegar kröfur í báðum köflunum. Í ljósi 1. mgr. 77. gr. laganna verður að telja að matsbeiðandi verði í slíku tilviki að leggja beiðnina fram í því máli sem þegar hefur verið höfðað og tekur dómari málsins þá beiðnina til meðferðar annars vegar á grundvelli IX. kafla og hins vegar á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991. Er þá jafnframt fullnægt áskilnaði 1. mgr. 78. gr. laganna um að aðili, sem vill leita sönnunar samkvæmt 77. gr. laganna, beini skriflegri beiðni um það til dómara í þeirri þinghá m.a. þar sem höfða mætti mál um kröfu hans.

Í ljósi 2. mgr. 78. gr. laganna verður að koma fram í slíkri matsbeiðni hverja aðra sönnunin varðar að lögum svo þeir geti látið matsmálið til sín taka og eftir atvikum andmælt því að skilyrðum sé fullnægt til að dómkvaðning fari fram. Í samræmi við þennan áskilnað sagði í matsbeiðni sóknaraðila að varnaraðili, Kaupþing banki hf., væri meðal matsþola. Dómari boðaði síðan varnaraðila til fyrirtöku þar sem fjallað var um framkomna matsbeiðni, sbr. 4. mgr. 78. gr. laganna.

Ekki verður séð að neinir formlegir eða efnislegir annmarkar séu á matsbeiðninni, sbr. 3. mgr. 46. gr., 2. mgr. 60. gr., 77. gr. og 78. gr. laga nr. 91/1991, sem geti valdið því að hafna beri beiðninni. Af henni má ráða hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á, hvað sóknaraðili hyggst sanna með matinu og hvaða réttindi hann telji að séu í húfi. Eftir er þá að taka afstöðu til þess hvort 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hamli því að dómkvaddir verði matsmenn til að meta þau atriði sem tilgreind eru í matsbeiðni sóknaraðila gagnvart varnaraðila.

Í 116. gr. laga nr. 21/1991 segir að dómsmál verði ekki höfðað í héraði gegn þrotabúi nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um sakamál sé að ræða og krafist sé refsiviðurlaga sem megi ákveða á hendur þrotabúi. Óumdeilt er að þetta ákvæði tekur til varnaraðila og leiðir til þess að sá sem telur sig eiga kröfu á hendur varnaraðila geti ekki fylgt henni eftir með höfðun einkamáls á hendur honum heldur verði að lýsa henni fyrir slitastjórn varnaraðila, sbr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Við skýringu á því hvað átt er við með höfðun dómsmáls samkvæmt 116. gr. verður m.a. að líta til 93. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem segir að mál teljist höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar eða stefndi mæti að öðrum kosti fyrir dómi þar sem stefnandi afhendir honum samrit stefnu og þingfestir mál. Með hliðsjón af þessu er ekki unnt að fallast á að dómsmál sé höfðað í skilningi 116. gr. laga nr. 21/1991 þegar beiðst er dómkvaðningar matsmanna á grundvelli heimildar í XII. kafla laga nr. 91/1991. Þá er ekki fallist á með varnaraðila að kröfulýsing fyrir slitastjórn jafngildi málshöfðun, sbr. 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, þó að kröfulýsing hafi sömu áhrif og ef mál hefði verið höfðað um kröfuna á þeirri stundu sem hún berst slitastjórn t.d. um málshöfðunarfrest og fyrningu.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður að fallast á með sóknaraðila að ekki liggi fyrir neinir þeir annmarkar á matsbeiðninni að rétt sé að hafna henni eða vísa henni frá dómi að því er varnaraðila varðar. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að umbeðin dómkvaðning matsmanna fari fram gagnvart varnaraðila auk annarra matsþola sem tilgreindir eru í matsbeiðninni.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað að þessum þætti málsins.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Marta Margrét Rúnarsdóttir hdl. v. Heiðars Ásbergs Atlasonar hrl.

Af hálfu varnaraðila flutti málið Stefán A. Svensson hrl.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Dómkveðja skal tvo matsmenn til að framkvæma mat samkvæmt matsbeiðni sóknaraðila, þrotabús Baugs Group hf., á dskj. nr. 92 sem lagt var fram í þinghaldi í málinu 12. janúar 2011.

Málskostnaður fellur niður.