Hæstiréttur íslands

Mál nr. 155/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. mars 2006.

Nr. 155/2006.

Þrotabú Móa hf.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Stofnunga sf.

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Talið var að þegar þrotabú M höfðaði mál þetta á hendur S hafi verið liðinn sá frestur, sem tilgreindur er í 1. mgr. 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl. nr. 21/199. Var því fallist á kröfu S um frávísun málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2006, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður, sbr. 3. mgr. 141. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2006.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 27. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þrotabúinu Móum hf., Hafnarstræti 20, Reykjavík, á hendur Stofnunga sf. Bændahöllinni við Hagatorg, Reykjavík. Stefnan var birt 16. ágúst 2004 og sakaukastefna í október 2005.

Endanlegar kröfur samkvæmt sakaukastefnu eru eftirfarandi:

Að staðfest verði með dómi riftun greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda að fjárhæð 13.642.291 kr.

Að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 5.179.553 kr.  með vöxtum  skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. október 2003 til greiðsludags.   Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skv. 12. gr. sömu laga á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. október 2004.

Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.

Dómkröfur stefnda eru eftirfarandi:

Aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara gerir stefndi þær kröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Í báðum tilvikum er gerð sú krafa að stefnanda verði gert að greiða stefnda máls­kostnað að skaðlausu í samræmi við síðar framlagðan málskostnaðarreikning.

 Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefnda og krefst þess að málskostnaðar-ákvörðun bíði efnismeðferðar málsins. 

Málavextir.

Málavextir eru þeir, að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 27. desember 2002 fengu Móar hf. heimild til greiðslustöðvunar. Heimildin var síðar framlengd með úrskurði dóms­­­ins 20. janúar 2003.  Með úrskurði Héraðsdóms 7. apríl 2003 fékk félagið heimild til þess að leita nauðasamnings við lánardrottna sína. Úrskurði þessum var skotið til Hæstaréttar sem synjaði um staðfestingu nauða­­samnings með dómi 7. október 2003.  Félagið var úrskurðað gjaldþrota 5. nóvember 2003. Innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna var birt í Lögbirtingablaðinu fyrra skipti hinn 19. nóvember 2003 og rann kröfu­lýsingar­frestur því út 19. janúar 2004.

Hinn 8. júlí 2004 gaf skiptastjóri stefnanda út stefnu á hendur stefnda og gerði meðal annars kröfu um riftun á greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda svo og endurgreiðslukröfu. Ekki var mætt af hálfu stefnda og gekk því útivistardómur í málinu hinn 21. janúar 2005.  Stefndi fór fram á endurupptöku málsins, sem samþykkt var af hálfu Héraðsdóms.  Í framhaldi af endurupptöku málsins var stefnda gefinn frestur til að skila greinargerð í málinu.

Með bréfi stefnda frá 24. maí 2005 var meðal annars mótmælt kröfu skiptastjóra stefnanda um riftun og endurgreiðslu. Jafnframt var upplýst að ýmsar færslur og viðskipti milli aðila væru annað hvort ekki bókaðar eða rangt bókaðar.  Í kjölfarið óskaði skiptastjóri eftir nýrri úttekt endurskoðenda á bókhaldi þrotabúsins og leiddi hún af sé nýja kröfur, samanber sakaaukastefnu málsins.

Í greinargerð sinni gerir stefndi þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá dómi og er sú krafa til meðferðar í úrskurði þessum.

Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísun málsins.

1. Málshöfðunarfrestur liðinn þegar mál er höfðað.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 16. ágúst 2004. Líkt og rakið er hér að framan rann kröfulýsingarfrestur í þb. Móa hf. út þann 19. janúar 2004. Sam­kvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal höfða mál til þess að koma fram riftun áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna.

 Í gjaldþrotaskiptalögum eru gerðar mjög strangar kröfur til þess að skiptastjóri setji sig fljótt inn í rekstur þann er þrotamaður hefur með höndum, afli sér aðgangs að bók­halds­gögnum þrotamanns og sjái um reikningshald þess. Þá getur skiptastjóri leitað sér aðstoðar sérfræðinga til þess að inna af hendi einstök verk. Þetta telur stefndi leiða til þess að alveg sérstakar aðstæður þurfi að koma til, til þess að frestur þessi verði talinn byrja að líða síðar en við lok kröfulýsingarfrests. Stefndi telur að engin slík atvik séu uppi í máli þessu, enda var skiptastjóri búinn að móta kröfu sína þann 14. maí 2004 er hann sendi stefnda bréf og lýsti yfir riftun. Samkvæmt öllu ofangreindu telur stefndi að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað þann 16. ágúst 2004.

Dómkröfur stefnanda, eins og þær eru nú, koma fram í sakaukastefnu útgefinni 5. október sl. Hafi málshöfðunarfrestur ekki verið talinn liðinn við höfðun málsins þann 16. ágúst 2004 telur stefndi nokkuð ljóst að fresturinn var liðinn er sakaukastefn­an var gefin út og telur stefndi það leiða til þess að vísa beri málinu frá. Verði ekki talið að það leiði til frávísunar málsins í heild, byggir stefndi á því að það leiði í það minnsta til þess að vísa beri frá þeim kröfum sem eru umfram kröfur sem gerðar eru í „aðalstefnu“.

2. Rangt staðið að höfðun framhaldssakar.

Stefndi telur að af sakaukastefnu megi ráða að þar greindar dómkröfur séu þær heildardómkröfur sem stefnandi gerir í máli þessu, en ekki aðeins sú viðbót við kröfurnar sem er tilefni fram­halds­sakarinnar. Þetta telur stefndi fara í bága við ákvæði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og eiga að leiða til frávísunar framhaldssakarinnar.

 3. Skilyrði framhaldssakar ekki fyrir hendi.

Þá telur stefndi að skilyrði þess að höfða framhaldssök séu ekki uppfyllt þar sem það hljóti að verða að meta stefnanda það til vanrækslu að hafa ekki gert þær kröfur sem framhaldssök lýtur að, í upphafi málsins. Í þessu sambandi er vísað til þess sem að framan greinir um ríkar skyldur skiptastjóra.

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun málsins.

Stefnandi hafnar frávísunarkröfum stefnda og þeim málsástæðum er hún byggist á. Varðandi fyrstu málsástæðu stefnda um að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn, tekur stefnandi fram, að þrotabúið hafi verið stórt og málið hafi því verið mjög umfangsmikið.  Stefnandi heldur því fram að skiptastjóri hafi ekki haft aðgengileg gögn til að hægt væri að taka afstöðu til málssóknar fyrr en í fyrsta lagi 28. apríl 2004, en þá hafi fyrsta skýrslan borist frá endurskoðendum þeim er falið var að yfirfara bókhaldið. Því eigi í allra fyrsta lagi að miða við þann dag sem upphaf málshöfðunarfrests. 

Varðandi þá málsástæðu stefnda að ranglega hafi verið staðið að útgáfu sakaukastefnu tekur stefnandi fram, að þessi stefnuháttur hafi ekki valdið neinum misskilningi hjá lögmanni stefnda.  Þar fyrir utan telur stefnandi að mikið hagræði sé í málinu með þessari kröfugerð. 

Varðandi þriðju málsástæðuna tekur stefnandi fram, að skiptastjóri hafi fyrst fengið upplýsingar sem hann byggir viðbótarkröfurnar á, með bréfi frá 24. maí 2005. En upplýsingar þessar eru runnar frá lögmanni stefnda. Þá telur lögmaðurinn að sú fjárhæð sem bætt er við með sakaukastefnu frá stefnu, eigi ekki að vísa frá sjálfstætt því 148. gr. gjaldþrotalaga geymi ekki heimild til slíks. Vísar hann þessu til hliðsjónar til Hrd. 2003:28 og almennra reglna um tímamörk framhaldssakar.

Forsendur og niðurstöður.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var bú stefnanda tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Innköllun vegna gjaldþrotaskiptanna var birt í Lögbirtingablaðinu 19. nóvember 2003. Ágreiningslaust er með málsaðilum, að kröfulýsingarfrestur rann út 19. janúar 2004.

Í 1. mgr. 148. gr. um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 segir:  „Ef höfða þarf dómsmál til að koma fram riftun skal það gert áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests.“

Samkvæmt þessu lagaákvæði rann málshöfðunarfresturinn út í fyrsta lagi þann 19. júlí 2004.  Fyrir liggur í málinu að skiptastjóri stefnandi gaf út stefnu málsins 8. júlí 2004, það er  innan málshöfðunarfrestsins. Ljóst er því að skiptastjórinn hafi á þeim tíma haft öll gögn og upplýsingar til að hafa uppi riftunarkröfu á hendur stefndu. Aftur á móti tókst birting ekki fyrr en 16. ágúst 2004, en samkvæmt 93. gr. laga nr. 91/1991 telst mál höfðað með birtingu stefnu. Á þeim tímapunkti var málshöfðunarfrestur liðinn. Að mati dómsins er í máli þessu ekki efni til annars en að miða upphaf málshöfðunarfrests við 19. janúar 2004.  Því verður ekki  hjá því komið að vísa máli þessu frá dómi.

Í ljós þessarar niðurstöðu koma aðrar málsástæður stefnda, um að rangt hafi verið staðið að höfðun framhaldssakar og að skilyrði hennar hafi ekki verið fyrir hendi, ekki til skoðunar. 

Dómurinn fellst því á kröfu stefnda um að vísa máli þessu frá dómi.  Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. tl. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 21/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 100.000 kr.

Af hálfu stefnanda flutti málið Bergþóra Ingólfsdóttir hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Heimir Örn Herbertsson hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Þrotabú Móa hf., greiði stefnda, Stofnunga sf., 100.000 krónur í máls­kostnað.