Hæstiréttur íslands

Mál nr. 332/2001


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Sjómaður
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. apríl 2002.

Nr. 332/2001.

Sigurður Gíslason

(Ingólfur Hjartarson hrl.)

gegn

Búlandstindi hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Vinnuslys. Sjómenn. Skaðabætur.

Hásetinn S, sem hafði orðið fyrir slysi um borð í togara, krafðist bóta úr hendi B hf., eiganda skipsins. Með hliðsjón af atvikum málsins, svo og málatilbúnaðar S, var ekki litið svo á að vanræksla B hf. um að leita sjóprófs vegna slyssins gæti haft áhrif á sönnunarbyrði um orsakir þess. Þótti S ekki hafa sýnt fram á að B hf. gæti borið skaðabótaábyrgð á slysi hans og var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu B hf.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.022.892 krónur með 2% ársvöxtum frá 8. maí 1996 til 3. febrúar 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi á málið rætur að rekja til slyss, sem áfrýjandi varð fyrir snemma morguns 10. mars 1994 þegar hann gegndi starfi háseta um borð í togara stefnda, Sunnutindi SU 59. Var þetta í upphafi fyrstu veiðiferðar áfrýjanda. Hann hafði ekki áður starfað á slíku skipi, en á árum áður verið um tíma við fiskveiðar á trillu og þar áður á báti, sem mun meðal annars hafa verið gerður út á togveiðar. Honum var falið að vinna á þilfari Sunnutinds ásamt þremur öðrum skipverjum við að kasta út botnvörpu. Var hann við þetta starf bakborðsmegin við skutrennu með öðrum manni þegar slysið bar að höndum.

Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að nánari tildrög slyssins hafi verið þau að áfrýjandi hafi tekið svokallað bakstroffuskott, sem átti að læsa í sylgju á grandaravír bakborðsmegin, og ætlað að færa það samverkamanni sínum, en bakstroffan hafi verið hnýtt í lunningu með spotta, sem hafi verið 15 eða 16 mm sver. Vegna hreyfinga á skipinu hafi báðir grandaravírarnir komist í þá stöðu að þeir hafi klemmst utan um bakstroffuna og dregið hana aftur úr skipinu með þeim afleiðingum að fyrrnefndur spotti slitnaði. Hafi þá komið snöggt átak á bakstroffuskottið og vinstri hönd áfrýjanda klemmst af þeim sökum, þannig að hann hlaut áverka á löngutöng og baugfingri.

Ekki urðu vitni að því hvernig það gerðist nánar að hönd áfrýjanda klemmdist. Í frumskýrslu sinni vegna slyssins hjá lögreglunni 17. mars 1994 sagðist áfrýjandi hafa haldið um bakstroffuskottið og verið að rétta það samverkamanni sínum þegar allt í einu hafi komið rykkur á það og vinstri hönd hans slegist til. Hann kvað höndina hafa af þessum sökum „orðið undir grandaravírnum sem er að renna út eftir rúllunni á skutrennulokanum.“ Í annarri lögregluskýrslu, sem áfrýjandi gaf að eigin frumkvæði 7. maí 1998, sagðist hann hafa verið með höndina á bakstroffuskottinu og „klemmdist hún á milli skotts og rekka“. Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi sagðist áfrýjandi ekki vita alveg hvað gerst hafi, en hann hafi stutt sig með vinstri hönd á rekkverki við skutrennuna þegar hann fékk skyndilega högg á hana. Sagðist hann telja ótrúlegt að hann hafi haldið um bakstroffuskottið þegar þetta gerðist.

Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um þjáningabætur, bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, miskabætur og örorkubætur vegna áverkanna, sem hann hlaut við slysið. Telur hann tjón sitt nema alls 3.034.399 krónum, svo sem sundurliðað er í hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti gengur áfrýjandi út frá því að hann verði vegna eigin sakar að bera þriðjung tjónsins sjálfur og hefur hann þannig lækkað kröfu sína í þá fjárhæð, sem áður greinir.

II.

Eftir slys áfrýjanda 10. mars 1994 var Sunnutindi siglt til Hafnar í Hornafirði, þar sem áfrýjanda var komið í land til læknismeðferðar, sem hann gekkst síðan undir í Reykjavík. Skipið hélt strax aftur til veiða, en kom á ný til hafnar á Djúpavogi 15. sama mánaðar. Lögreglurannsókn á slysinu hófst daginn eftir, en við hana voru teknar skýrslur af fimm skipverjum auk áfrýjanda. Í samantekt, sem lögreglan gerði að henni lokinni, var lýst því áliti að málið væri vel upplýst og ekki þörf á frekari rannsókn.

Í gögnum málsins kemur fram að rannsóknarnefnd sjóslysa lét slysið til sín taka, en lagt hefur verið fram ódagsett álit hennar um orsakir þess. Þar koma fram svofelldar ályktanir um það efni: „Nefndin telur að orsök slyssins megi rekja til þess að haldið er um keðjuna með lokuðu gripi, þ.e. að þumalfingur er látinn grípa á móti hinum fingrum handarinnar. Nefndin ítrekar fyrri ályktanir sínar um þá hættu sem er samfara vinnu við veiðarfæri sem eru að renna út eða verið að hífa inn. Nefndin telur einnig varhugavert að vera með tóg í upphölurum fyrir bakstroffur og mælir með að notaðar séu t.d. 11 mm keðjur í upphalarafali fyrir bakstroffurnar.“ Í tilefni af síðastgreindum ummælum var tekið fram í bréfi, sem réttargæslustefndi ritaði í þágu stefnda 11. febrúar 1999 til lögmanns áfrýjanda, að það væri „ekki rétt hjá sjóslysanefnd að það væri tóg í upphölurum, þar hafa alltaf verið keðjur og hefur það m.a. verið staðfest með viðtali við skipstjórann Kristján Finnsson, hins vegar var tóg notað til þess að hnýta bakstroffuna við lunninguna og er þetta almennur frágangur. Ekki hefur því verið sýnt fram á vanbúnað er felli ábyrgð á útgerðina.“ Í tengslum við þetta var staðhæft í greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi að þess misskilnings hafi gætt í áliti rannsóknarnefndar sjóslysa að tóg hafi verið í upphölurum á skipinu, en í þeim hafi alltaf verið keðjur. Áfrýjandi hefur ekki leitað nánari skýringa nefndarinnar um hvert hafi verið tilefni þeirrar athugasemdar, sem hér um ræðir, hvort nefndin telji hana réttmæta að fram komnum ábendingum stefnda eða hvernig það atriði, sem hún lýtur að, geti hafa tengst slysi áfrýjanda. Verður því ekki miðað við að óvissa sé uppi um orsakir slyssins vegna þessa atriðis.

Stefndi hlutaðist ekki til um að sjópróf yrði haldið vegna slyss áfrýjanda. Til þess er hins vegar að líta að um rás atburða fram að slysinu liggja fyrir nægilegar upplýsingar að öðru leyti en hvað varðar þau atvik, sem áfrýjandi er einn til frásagnar um. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hans hálfu byggt á því að við úrlausn þess yrði að leggja til grundvallar þá lýsingu á atvikum, sem hann gaf ásamt vitnum þegar slysið var til rannsóknar hjá lögreglunni í mars 1994. Ekki verður fallist á með áfrýjanda að hnökrar séu á rannsókn slyssins þótt spotti, sem notaður var sem áður segir til að hnýta bakstroffuna í lunningu, hafi ekki verið varðveittur til nánari skoðunar. Að öllu þessu gættu verður ekki litið svo á að vanræksla stefnda um að leita sjóprófs vegna slyssins geti haft áhrif á sönnunarbyrði um orsakir þess.

 

III.

Fyrir Hæstarétti heldur áfrýjandi fram að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans af tveimur ástæðum. Annars vegar hafi áðurnefndur spotti, sem bakstroffa var fest í lunningu með, ekki staðist álagið, sem myndaðist þegar grandaravírarnir klemmdust um stroffuna, en spottinn hljóti því að hafa verið í óviðunandi ástandi. Hins vegar hafi stefndi vanrækt að veita áfrýjanda, sem var óvanur vinnu á togurum, nægilega tilsögn áður en hann var settur til starfa á sinni fyrstu vakt.

Um fyrrnefnda atriðið er þess að gæta að áfrýjandi hefur ekki aflað sönnunar um að bakstroffan hafi verið bundin í lunningu með spotta sérstaklega til að koma í veg fyrir hættu, sem gæti leitt af því að stroffan festist í grandaravírum eða að öðru leyti í veiðarfærum, sem verið væri að kasta út frá skipi stefnda. Hann hefur heldur ekki sýnt fram á að spotti þeirrar gerðar, sem notast var við og áður er lýst, ætti almennt að standast það álag, sem myndast gæti með því að bakstroffan drægist út af skipinu með grandaravírum, eða að annar búnaður, sem tíðkað sé að nota í þessu skyni, myndi gera það. Í hinum áfrýjaða dómi, sem sérfróðir meðdómsmenn stóðu að ásamt héraðsdómara, er jafnframt byggt á því að ekki verði séð að umræddur spotti eða það að hann slitnaði hafi átt neinn þátt í slysi áfrýjanda. Því áliti hefur áfrýjandi ekki hnekkt.

Um síðarnefnda atriðið er óumdeilt að áfrýjanda var í umrætt sinn falið að vinna á þilfari með manni, sem var þaulvanur slíkum störfum. Í lögregluskýrslu 7. maí 1998 sagði áfrýjandi að þessi samverkamaður hafi sagt sér til „jafnóðum og hlutirnir áttu að gerast.“ Ekki verður litið svo á að ákvæði 1. mgr. 8. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem áfrýjandi vísar til í þessu sambandi, leggi almennt ríkari skyldur á útgerðarmann um leiðbeiningar við nýliða en gætt var á þennan hátt. Í því sambandi verður einnig að líta til þess að áfrýjandi, sem var 44 ára gamall þegar hann varð fyrir slysinu, hafði nokkra reynslu af sjómannsstörfum þótt hann hafi ekki áður fengist við þau á togara. Hann hefur ekki hnekkt því mati héraðsdóms að ekki hafi verið gert líklegt að skort hafi á leiðbeiningar eða að þær hefðu getað komið í veg fyrir slysið, eins og atvik að því urðu.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að stefndi geti borið skaðabótaábyrgð á slysi hans vegna þeirra atvika, sem áður getur. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 6. júní 2001.

Mál þetta sem tekið var til aðalmeðferðar og munnlegs flutnings 1. mars sl. og var endurupptekið skv. 115. gr. laga nr.19/1991 og dómtekið að nýju að loknum munnlegum málflutningi 6. júní 2001, hefur Sigurður Gíslason, kt. 020549-3359 til heimilis að Kambi 4, Djúpavogi, höfðað með stefnu útgefinni 8. maí 2000 gegn Búlandstindi hf., kt. 490169-0169, Djúpavogi, og var málið þingfest á Egilsstöðum hinn 16. maí 2000.

Þá er einnig stefnt til réttargæslu Vátryggingarfélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 3.034.339 auk 2% vaxta frá 10. mars 1994 til 3. febrúar 2000 og að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 10. mars 1995 og til greiðslu dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. febrúar 2000 til greiðsludags, og til greiðslu málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda Búlandstinds hf. eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingarfélags Íslands hf., eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

Málavextir:

Samkvæmt stefnu eru málavextir þeir, að hinn 10. mars 1994 var stefnandi máls þessa í sinni fyrstu sjóferð, sem háseti á Sunnutindi SU 59 frá Djúpavogi. Var Sunnutindur við veiðar í Lónsdýpi, er stefndi varð fyrir því slysi að klemma hendina og missti framan af löngutöng vinstri handar.

Ekki fór fram sjópróf vegna slyssins, en lögreglurannsókn fór fram og gaf stefnandi skýrslu fyrir lögreglu hinn 17. mars 1994 og aftur 7. maí 1998.

Nánari atvik að slysinu voru samkvæmt frásögn stefnanda sjálfs hjá lögreglu, þau, að hann var við störf með Jóni Ingvari Hilmarssyni á hlera bakborðsmegin og var verið að slaka trollinu út. Trollið sjálft hafi verið komið í sjóinn og grandararnir verið að renna út. Hann hafi verið við að rétta Jóni Ingvari skottið sem tengist bakstroffu hlerans, svo hægt væri að læsa því í sylgjuna, en Jón hafi staðið honum á vinstri hlið eða framar í skipinu. Síðan segir orðrétt í skýrslunni: „Allt í einu rykktist keðjan sem ég var með í höndunum aftur. Við það slæst vinstri hendin til, og þar sem ég stend á móts við skutrennulokann, tel ég að hendin á mér hafi orðið undir grandaravírnum, sem er að renna út eftir rúllunni á skutrennuloknanum. Um leið og þetta gerist, heyri ég og sé, að keðjan er að detta niður skutrennuna. Ég fann fyrir sársauka í vinstri hendi og tók af mér gúmmívettlinginn og sá ég þá að fremsta kjúkan á löngutöng var af en hékk á skinnlufsum og baugfingur var eitthvað skaddaður.“

Hinn 7. maí 1998 gaf stefnandi skýrslu fyrir lögreglunni á Eskifirði, að eigin frumkvæði eftir því, sem fram kemur í skýrslunni. Hann skýrði svo frá: „Þetta var þannig að verið var að slaka út trollinu. Ég var aðstoðarmaður á bakborðshlera og var að gera svokallað bakstroffuskott klárt til að lása í sylgju, þegar grandarar rykktu í bakstroffu og skottið. Ég var með vinstri hendina á skottinu og klemmdist hún á milli skotts og rekka með þeim afleiðingum að fremsta kjúka löngutangar fór nánast af og hékk á skinntuttlu einni saman. Baugfingur klemmdist einnig þannig að nögl fór af.“

Þá var stefnandi spurður: „Varstu vanur þeirri vinni sem þú inntir af hendi um borð í Sunnutindi þegar slysið varð? Nei, reynsla mín á sjó var sú að ég hafði áður verið trillusjómaður og einnig verið á smærri bátum. Ég hafði aldrei verið á togara fyrr en þarna og var búinn að vera hálfan sólarhring er óhappið átti sér stað. Þetta átti að verða fyrsta halið í ferðinni. Á þessum tíma þekkti ég ekki mörg þeirra nafna sem ég taldi upp áðan svo sem bakstroffuskott, sylgja  og skott. Ég hafði enga hugmynd um, hvað þessi nöfn táknuðu né til hvers hlutirnir væru. Sp.: Var þér veitt einhver tilsögn áður en þú varst sendur á dekkið til vinnu við það, sem þú varst að gera? Sv.: Nei eina tilsögnin sem ég fékk var sú, að ég ætti að vera með hjálm á höfðinu. Sp.: Var einhver vanur að vinna með þér er slysið átti sér stað? Sv.: Það var með mér ungur maður, Jón Ingvar Hilmarsson. Ég veit ekki hve vanur hann var, en hann sagði mér til jafnóðum og hlutirnir áttu að gerast.“  

Í skýrslu stefnanda fyrir dómi sagði hann svo frá fyrri reynslu sinni, að hann hefði síðast verið við sjómennsku 1987 eða 1988, en þá hafi hann átt tveggja tonna trillu. Þar áður hafi hann verið á sjó 1967 og 1968 í Þorlákshöfn og hafi þá verið á netabátum á vetrum, en á togveiðum á sumrin.

Fyrir dómi lýsti stefnandi slysinu með nokkuð öðrum hætti en áður: „Ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir því, það er eitthvað, sem fer úrskeiðis þarna, slitnar eða slæst til og ég verð á milli, þannig að ég klemmist, en ég veit raunverulega ekki alveg hvernig. Sp.: Manstu hvað þú varst að gera? Sv.: Já það var verið að slaka trollinu, ég var þarna við rennuna og beið eftir því hvað mér yrði sagt að gera, ég vissi ekki hvað yrði næst eða hvað mundi næsta skref og styð mig við rekkverk. Svo heyrist einhver hávaði og læti og keðjuglamur og ég fæ högg á hendina. Hvað skeður raunverulega veit ég ekki nákvæmlega.“ Aðspurður um, hvernig útbúnaður hafi verið, sagði stefnandi: „Þetta var minn fyrsti túr og allt saman svo nýtt. Ég man að það var bundin grönn keðja upp í rekkverkið eða upp undir það, og bundið með spotta. Ég var við þessa keðju og það er verið að slaka út, heitir það ekki grandarar? og þetta flækist eitthvað eða törnast, óklárast og rykkir í þessa keðju, sem var bundin þarna við rekkverkið, sem ég stóð við og þá skeður þetta, verð ég með hendina á milli. Sp.: Hélstu utan um þessa keðju eða hélstu utanum eitthvað af þessum verkfærum, manstu eftir því? Sv.: Ég held ég hafi haldið við rekkverkið sjálft. Sp. Nú kemur fram í skýrslum að þú hafir haldið utan um keðju, manstu eitthvað til þess? Sv.: Nei, mér þykir nú ótrúlegt að maður haldi í hana.“

Vitnið, Jón Ingvar Hilmarsson, gaf skýrslu hjá lögreglu 16. mars 1994 og segir í henni: „Sigurður Bjarni og ég erum saman á hlera og það er verið að slaka út trollinu. Við erum að undirbúa við að lása saman sylgjuna og vargakjaftinum. Veður var gott og lítil hreyfing á skipinu. Skyndilega slitnar niður spotti er heldur uppi bakstroffinu og þá kippist í skottið og Sigurður Bjarni klemmist á vinstri hendi milli skotts og einhvers annars hlutar. Ég sá ekki hversu mikið Sigurður Bjarni slasaðist þar sem hann var í gúmmíhönskum.“

Þegar Jón Ingvar Hilmarsson gaf skýrslu fyrir dómi í aðalmeðferð málsins, upplýsti hann, að hann hefði ekki séð slysið verða, hann hafi líklega verið að horfa í aðra átt, allavega muni hann ekki eftir að hafa séð það. Vitnið sagðist ekki hafa verið beðinn um að leiðbeina stefnanda um handtök eða kenna honum á veiðarfærin, enda væri slíkt ekki venja. Hann sagðist hafa sagt stefnanda til þ.e. hvað þeir ættu að fara að gera, enda sagðist hann hugsanlega hafa sagt stefnanda, áður en þeir byrjuðu, að hann mundi segja honum til. Aðspurður sagðist hann ekki hafa bent stefnanda almennt á þær hættur, sem fylgja því að kasta trolli.

Í skipsdagbók er atvikinu lýst svo: „Óhappið atvikaðist þannig að Sigurður var að rétta Jóni Hilmarssyni svokallað bakstroffuskott að grandarar kipptu í bakstroffuna og rikktu í skottið og Sigurður með vinstri hendina á milli skotts og rekka með fyrrgreindum afleiðingum.“ Ekki kemur fram hver var til frásagnar um atvikið eins og því er lýst í dagbókinni.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefnda hafi borið að veita honum tilsögn áður en hann var sendur á dekk til að koma trollinu út. Hafi stefndi sýnt af sér stórfellt gáleysi, þar sem hann hafi vitað, að stefnandi var að fara sinn fyrsta túr og óvanur vinnu á togurum. Stefnda hafi borið að veita stefnanda tilsögn til að byrja með og kenna honum réttu handtökin, áður en hann sendi hann einan til að vinna við þessar áhættusömu aðstæður, sbr. 8. gr. laga nr. 35/1985.

Stefnandi byggir einnig á því, að búnaður stefnda hafi ekki verið nægilega traustur, þannig að menn gætu unnið öruggir við hann. Stefnda hafi borið að tryggja að allur aðbúnaður væri sem traustastur, þar sem mikil áhætta hafi fylgt starfsemi hans. Þegar slysið varð hafi verið 4 vindstig og sjólítið. Því hafi spottinn, sem átti að halda bakstroffunni verið í óviðunandi ástandi og alls ekki nógu tryggur til að aðstæður væru viðunandi eða nógu öruggar. Því hafi stefndi ekki uppfyllt skilyrði 3. gr. sbr. 9. gr. laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum. Þá beri stefndi ábyrgð á því, að hvorki fóru fram sjópróf, né lét hann kanna aðstæður um borð. Stefndi beri hallann af því, að geta ekki sýnt fram á né sannað að búnaður skipsins, og þá aðallega umræddur spotti, sem slitnaði hafi ekki verið í öruggu ástandi.

Stefnandi byggir kröfur sínar á örorkumati Jónasar Hallgrímssonar, læknis, frá 24. janúar 2000. Sé þar byggt á læknisvottorðum og gögnum um meðaltekjur sjómanna. Stefnandi hefði skipt um starf og ráðið sig á togara til frambúðar og hefði hann síðan ekki getað unnið störf þar sem unnið sé í bleytu eða útivið þar sem kuldi og dofi sæki í fingurinn. Sé honum ómögulegt að sinna ýmsum störfum og treysti sér ekki til að stunda sjómennsku framar. Hafi tekjumöguleikar hans því skerst verulega.

Tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi verið 100% frá slysdegi 10. mars 1994 til 12. júní s.á. Einnig hafi stefnandi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga sama tíma og hann hafi verið óvinnufær.

Varanlegur miski stefnanda hafi verið metinn 5% og varanleg örorka sé metin 25%. Stefnandi geri kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 76.000  í þjáningabætur í 92 daga, kr. 229.195 í miskabætur, kr. 3.544.951 vegna fjárhagslegrar örorku og kr. 88.010 vegna tímabundins atvinnutjóns. Frá kröfunni dragast kr. 531.743 skv. 9. gr. skaðabótalaga vegna aldurs stefnanda. Þá dragast frá kr. 195.968 sem greitt var inn á tímabundið atvinnutjón og kr. 170.020, sem eru bætur frá slysatryggingu. Samtals telur stefnandi þetta gera kr. 3.034.399, sem er stefnukrafan.

Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttar m.a. um húsbóndaábyrgð, og á skaðabótalögum nr. 50/1993. Einnig er byggt á siglingalögum nr. 34/1985, aðallega 2. tl. 1. mgr. 197. gr. og 201. Þá er byggt á sjómannalögum nr. 35/1985, aðallega 4. gr. og 36. gr.

Málsástæður stefnda:

Sýknukrafa stefnda er byggð á því, að slys stefnanda verði hvorki rakið til sakar stefnda eða starfsmanna hans, né til bilunar eða saknæms vanbúnaðar á togtækjum skipsins, heldur sé slysið að rekja til óhappatilviljunar og eigin gáleysis stefnanda sjálfs.

Samkvæmt áliti Sjóslysanefndar sé slysið rakið til þess, að stefnandi hafi haldið um keðjuna með lokuðu gripi. Sé ávallt varhugavert að halda þannig um víra og keðjur veiðarfæra, sem verið sé að slaka út eða hífa inn, þar sem þau geti rykkst og slegist til á meðan og þá verið hætta á að meiðast á hönd eða fingrum. Hafi stefnandi ekki átt að þurfa tilsögn í því efni, áður en hann var settur til starfs, þar sem hann hafi verið vanur báta- og trillusjómaður og því hlotið að vera ljós hættan af vírum og keðjum, þegar verið sé að hífa inn eða slaka veiðarfærum. Ávallt slakni eða strekkist á vírum eftir hreyfingu skips á öldunni. Sama gildi er vírar, tóg eða keðjur festist eða klemmist og rykkist þá til, en slíkt geti alltaf skeð við þessar aðstæður. Sé þetta þekktur þáttur í sjómannsstarfinu, sem allir sjómenn eigi að þekkja og þurfi að gæta sín á. Reglan sé sú, að halda ekki með lokuðu gripi um línur, víra, tóg og keðjur eða annan slíkan búnað veiðarfæra, þegar verið sé að slaka þeim út eða hífa þau inn. Stefnandi hafi ekki gætt sín á þessu sem skyldi og megi rekja slysið til þess. Eigi stefnandi ekki við aðra að sakast en sjálfan sig.

Þá bendi ekkert til þess, að spottinn sem slitnaði hafi verið vanbúinn eða í óviðunandi ástandi. Orsök þess, að hann slitnaði, hafi verið sú, að þegar grandararnir hafi verið að renna út, hafi þeir klemmt bakstroffuna svo að spottinn, sem hnýtir upp stroffuna, hafi slitnað við álagið. Sé þar um hreina óhappatilviljun að ræða, sem engum verði kennt um. Þá hafi ekkert komið fram um að það, að spottinn slitnaði hafi verið orsakavaldur slyssins. Enginn skipverja hafi nefnt það, sem þátt í slysinu.

Rangt sé, sem haldið er fram af hálfu stefnanda, að hann hafi verið settur einn til vinnu við áhættusamar aðstæður. Stefnandi hafi verið settur í létt aðstoðarstarf á dekki með vönum háseta, sem sagt hafi stefnanda til jafnóðum og hlutirnir áttu að gerast. Hafi stefnandi ekki átt að gera annað en rétta honum bakstroffuskottið. Í ljósi aldurs og starfsreynslu stefnanda á sjó, hafi ekki átt að þurfa að kenna honum fyrirfram eða vara hann sérstaklega við sjálfsögðum hlutum eins og að halda ekki um tóg, víra og keðjur með lokuðu eða læstu gripi, þegar verið er að láta þau renna í sjó eða hífa þau inn. Verði stefnda því ekki metið til sakar, að stefnandi hafi beitt lokuðu gripi og valdið þannig slysinu.

Verði ekki á sýknukröfu fallist, sé varakrafan byggð á því, að skipta beri sök og stórlækka stefnukröfur.

Kröfu um tímabundið atvinnutjón er mótmælt sem ósannaðri, en aðeins beri að bæta sannað raunverulegt tímabundið vinnutekjutap.

Einnig sé andmælt kröfu stefnanda um bætur fyrir fjárhagslega örorku, en hún sé byggð á örorkumati Jónasar Hallgrímssonar, læknis. Sé matið ekki í samræmi við 5. gr. skaðabótalaga. Gert hafi verið nýtt örorkumat hjá örorkunefnd og sé niðurstaða nefndarinnar önnur að því er varðar mat á varanlegri örorku eða 15% vill stefndi, að við það sé miðað.

Vaxtakröfum stefnanda er sérstaklega mótmælt, en eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu séu fyrndir og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi eins og málið sé vaxið.

Niðurstaða:

Slys það, sem hér um ræðir mun hafa orðið um kl. 5.30 fimmtudaginn 10. mars 1994. Lögreglurannsókn hófst, þegar Sunnutindur SU 59 kom til Djúpavogs eða hinn 16. mars s.á. Við lögreglurannsóknina kom fram, að enginn af þeim, sem á dekkinu voru sáu slysið og var stefnandi einn til frásagnar. Ekki fór fram sjópróf  vegna slyssins.

Verður af þessu að leggja frásögn stefnanda til grundvallar um það hvernig slysið varð.

Eins og frásögn stefnanda var í fyrstu skýrslu hans, mun hann hafa verið að rétta háseta þeim, sem hann vann með, bakstroffuskottið, sem mun vera keðja. Allt í einu hafi keðjan, sem hann var með í höndunum, rykkst aftur. Við það hafi vinstri hönd hans slegist til. Taldi stefnandi, að þar sem hann hafi staðið á móts við skutrennulokann, hefði hönd hans orðið undir grandaravírnum, sem var að renna út eftir rúllunni á skutrennulokanum. Um leið og þetta hafi gerst, hafi hann heyrt og séð, að keðjan hafi verið að detta niður skutrennuna. Í skýrslu, sem stefnandi gaf hjá lögreglu 7. maí 1998 segist hann hafa verið að gera bakstroffuskott klárt til að lása í sylgju, þegar grandararnir hafi rykkt í bakstroffu og skottið. Hann hafi verið með vinstri hendina á skottinu og hafi hún klemmst á milli skotts og rekka. Við aðalmeðferð málsins lýsti stefnandi þessu með enn einum hætti og þá þannig, að hann hefði verið að bíða eftir fyrirmælum um hvaða verk skyldi vinna og hafi hann stutt sig við rekkverk, en þá hafi keðja, sem hann hafi ekki haft neina hönd á, slitnað úr tógi, sem hafi haldið henni við rekkverkið og slegist í hönd hans, þar sem hann studdi henni á rekkverkið.

Ekki hefur verið sýnt fram á eða gert líklegt, að af hálfu skipstjórnarmanna hafi verið staðið með einhverju móti rangt að því að kasta trollinu, eða að bátsmaður, sem stjórnaði togvindunni í umrætt sinn hafi unnið það verk með öðrum hætti en rétt var.

Ekki hefur verið sýnt fram á eða gert líklegt, að búnaði skipsins hafi verið áfátt. Verður ekki séð, að tóg það, sem hélt uppi bakstroffunni, eða að það slitnaði, hafi átt neinn þátt í slysinu.

Þá hefur stefnandi upplýst, að þegar verið var að slaka trollinu, hafi hann verið við rennuna og beðið eftir því, hvað honum yrði sagt að gera, hann hafi ekki vitað hvað yrði næst eða hvað mundi  næsta skref og stutt sig við rekkverk það, sem hann, að eigin sögn, klemmdist við.

Fram hefur komið frá stefnanda, að honum hafi verið gert að bera hjálm við vinnuna, en að sá maður, sem var með honum við verkið, hafi sagt honum til jafnóðum og hlutirnir áttu að gerast.

Þannig hefur ekki verið sýnt fram á eða gert líklegt, að skort hafi á leiðbeiningar til stefnanda um hvernig verkið skyldi unnið, eða að leiðbeiningar hefðu getað komið í veg fyrir slysið, eins og það varð.

Að áliti hinna sérfróðu meðdómsmanna virðist líklegast, að hreyfing sú, sem varð á gröndurunum, og talin er líklegasta orsök slyssins, hafi stafað af hreyfingu skipsins á öldunni, en verði ekki rakin til rangra vinnubragða af hálfu stjórnenda skipsins eða annarra skipverja.

Hefur ekki verið sýnt fram á, að stefndi eða þeir, sem hann ber ábyrgð á, hafi valdið slysinu með saknæmri hegðun sinni eða vanrækslu.

Er það álit dómsins, að slys stefnanda hinn 10. mars 1994 verði rakið til óhappatilviljunar, sem engum verði gefin sök á. 

Verður því að sýkna stefnda, Búlandstind hf. af öllum kröfum stefnanda, Sigurðar Gíslasonar, í máli þessu.

Rétt þykir, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan, ásamt meðdómsmönnunum Árna Halldórssyni, skipstjóra, og Garðari Eðvaldssyni, skipstjóra.

Dómsorð:

Stefndi, Búlandstindur hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sigurðar Gíslasonar.

Málskostnaður fellur niður.