Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-121

Reykjavíkurborg (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)
gegn
A (Fjölnir Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sönnunarbyrði
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 9. nóvember 2023 leitar Reykjavíkurborg leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. október sama ár í máli nr. 291/2022: Reykjavíkurborg gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort leyfisbeiðandi sé skaðabótaskyldur gagnvart gagnaðila á þeim grunni að búnaði við útilaug sundstaðar leyfisbeiðanda hafi verið ábótavant. Málið hverfist um sönnun á því hver hafi verið nákvæm tildrög þess að gagnaðili féll við göngu eftir mottu við sundlaugarbakka á sundstað sem rekinn er af leyfisbeiðanda og jafnframt hvor aðila beri hallann af hugsanlegum skorti á upplýsingum um atvik máls.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kemur fram að sérstakrar varúðar skuli gætt um allan aðbúnað á sund- og baðstöðum og ríkar kröfur megi gera til rekstraraðila slíkra staða um rannsókn á orsökum slysa og varðveislu gagna sem varpað geti ljósi á aðdraganda þeirra. Bentu gögn málsins ekki til þess að mottan sem leyfisbeiðandi gekk eftir þegar slysið varð hafi verið sérstaklega skoðuð í kjölfar slyssins og því lægju ekki fyrir gögn um ástand hennar og eiginleika á slysdegi. Upplýsingar sem leyfisbeiðandi lagði fram um mottur sem ætlaðar væru til notkunar á sundlaugarbökkum voru ekki taldar breyta því mati. Þá voru upplýsingar sem leyfisbeiðandi hafði lagt fram um veðurskilyrði þegar slysið varð ekki taldar til þess fallnar að hrekja staðhæfingu gagnaðila um að mottan hefði verið hál er hún datt. Í ljósi alls þessa taldi Landsréttur að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist að hrekja staðhæfingu gagnaðila um að hún hefði dottið á mottunni vegna hættueiginleika hennar og var leyfisbeiðandi látinn bera hallann af því. Þá hafi ekkert legið fyrir í málinu um að gagnaðili hafi ekki sýnt fulla aðgæslu þegar hún gekk um sundlaugarbakkann þegar slysið varð.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins geti verið fordæmisgefandi og hafi almenna þýðingu við beitingu réttarreglna. Í dómi Landsréttar séu sett fram ný viðmið og nýjar reglur um sönnunarbyrði í málum um ábyrgð fasteignareiganda þegar um er að ræða slys af því tagi sem málið lúti að. Niðurstaða Landsréttar feli í sér slíkt frávik frá meginreglum um sönnun í líkamstjónsmálum sem varða ábyrgð fasteignareiganda að nauðsynlegt sé að Hæstiréttur taki afstöðu til þessara grundvallarbreytinga. Þá sé niðurstaða Landsréttar bersýnilega röng. Í dóminum hafi meðal annars ekki verið kannað hvaða upplýsingar leyfisbeiðandi hafi haft eða átt að hafa um ætlaðan þátt sundlaugarmottu í slysi gagnaðila enda hafi gagnaðili fyrst upplýst um hann ári eftir slysið. Enn fremur hafi alfarið verið litið fram hjá ráðstöfunum starfsmanna leyfisbeiðanda til að tryggja öryggi sundlaugargesta og aðgæsluskyldu gagnaðila við hála sundlaugarbakka.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.