Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/2017

Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. júní 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 2. júní 2017

Héraðssaksóknari hefur krafist þess, með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærða X, kt. [...], [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. júní 2017, kl. 16.00.

                Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að mál þetta hafi borist héraðs­sak­sóknara frá lögreglustjóranum á Suðurlandi þann 21. mars sl., en ákærði sé sterk­lega grunaður um þrjú kynferðisbrot gagnvart þremur brotaþolum sem framin hafi verið á [...] að morgni mánudagsins 13. febrúar sl. Með ákæru héraðs­sak­sóknara, dags. 5. maí sl., sé ákærða gefið að sök tvær nauðganir og eitt kyn­ferðis­brot gegn þremur konum með skömmu millibili en konurnar hafi allar verið [...] á [...] umrætt sinn og hver í sínu herbergi þegar brotin hafi verið framin. Tvö hinna ætluðu brota kunni að varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og hið þriðja við 199. gr. laganna. Sem kunnugt er geti brot gegn 194. gr. almennra hegn­ing­ar­laga varðað allt að 16 ára fangelsi og því ljóst að um alvarleg brot sé að ræða. Ákærði hafi neitað sök hjá lögreglu. Þingfesting málsins hafi verið þann 17. maí sl. þar sem ákærði hafi neitað sök og muni aðalmeðferð málsins hefjast 6. júní nk. og til standi að ljúka henni 7. júní nk.

Þrátt fyrir neitun ákærða sé að mati ákæruvaldsins fram kominn sterkur grunur um öll þrjú brotin og byggi ákæruvaldið þann grun sinn á því m.a. að ákærði hafi verið hand­tekinn á vettvangi síðasta brotsins, á framburðum brotaþola og annarra vitna. Auk þess hafi ákærði sjálfur í framburði hjá lögreglu kannast við að hafa farið inn í þrjú her­bergi á hótelinu umrætt sinn og lýst því að hann hafi haft samræði og önnur kyn­ferð­is­mök við tvær konur. Framburður ákærða hafi hins vegar verið á þann veg að það hafi verið með samþykki brotaþolanna. Að mati ákæruvaldsins sé framburður ákærða ótrú­verðugur með hliðsjón af framburðum brotaþola, vitna og viðbrögðum brotaþola í kjöl­far hinna meintu brota.  Að mati ákæruvaldsins eigi hið sama við hvað varði fram­burð ákærða um að hann hafi verið að leita að tóbaki sínu uppi í rúmi þriðja brota­þol­ans og þess vegna hafi hann verið með hendurnar undir sæng brotaþolans.

Aðstoðarsaksóknari tekur fram að mat ákæruvalds um sterkan grun fyrir brotum ákærða hafi fengið stoð í úrskurðum Héraðsdóms Suðurlands nr. [...] frá [...] sl. og [...] sl. og Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] frá 8. maí sl. ásamt dómum Hæstaréttar nr. [...], [...], [...] og [...] en síðastnefndi dómurinn hafi verið kveðinn upp 10. maí sl.

Að mati ákæruvaldsins hefur ekkert fram komið undir lok rannsóknar málsins sem gefi tilefni til þess að breyta framangreindu mati Hæstaréttar. Að mati héraðs­sak­sókn­ara séu því skilyrði 2. mgr., sbr. 4. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála upp­fyllt með vísan til alvarleika brotsins sem ákærði sé sterklega grunaður um en það geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Að mati héraðssaksóknara sé gæsluvarðhald einnig nauð­synlegt með vísan til eðli brotsins og að almannahagsmunir krefjist þess að ákærði fari ekki frjáls ferða sinna á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir dómstólum en slíkt myndi stríða gegn réttarvitund almennings. Með vísan til alls framangreinds, fyrri úrskurða Héraðsdóms Suðurlands og Héraðsdóms Reykjavíkur og dóma Hæsta­réttar sem vísað hafi verið til og framlagðra gagna, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga. Um heimild til að úrskurða ákærða í gæsluvarðhald sé vísað til, 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála

Niðurstaða

                Héraðssaksóknari gaf, föstudaginn 5. maí sl., út ákæru á hendur ákærða fyrir þrjú brot. Tvö hinna ætluðu brota kunna að varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegning­ar­laga og hið þriðja við 199. gr. laganna. Brot gegn 194. gr. almennra hegn­ing­ar­laga getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Það mat ákæruvaldsins að sterkur grunur liggi fyrir um brotin hefur verið staðfest af Hæstarétti, nú síðast í máli nr. 282/2017 10. maí sl. Málið gegn ákærða var þingfest 17. maí og mun ætlunin að aðalmeðferð fari fram 6. og 7. júní nk. Sóknaraðili lagði fyrir dóminn niðurstöður úr DNA rannsókn sem var að berast og sem sóknaraðili telur að renni frekari stoðum undir grunsemdir um brot ákærða.

                Það skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, að sterkur grunur leiki á að sak­born­ingur hafi framið brot sem varðað getur 10 ára fang­elsi, er fyrir hendi. Með vísan til eðlis brotanna og fyrrgreinds dóms Hæsta­réttar Íslands er einnig fallist á það að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almanna­hags­muna. 

                Sakborningurinn hefur nú setið í gæsluvarðhaldi í rúmar 15 vikur. Hins vegar er upp­fyllt það skilyrði 4. mgr. 95. gr. að mál hafi verið höfðað gegn honum. Af þessum sökum verður fall­ist á þá kröfu sóknaraðila að ákærði sæti gæsluvarðhaldi á grund­velli heim­ildar í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 eins og í úrskurðarorði greinir.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákærði, X, kt. [...],[...], skal þegar gæsluvarðhald hans rennur út nk. mánudag, áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. júní 2017, kl. 16.00.