Hæstiréttur íslands

Mál nr. 563/2008


Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Svipting ökuréttar
  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. mars 2009.

Nr. 563/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Jóhanni Kristni Jóhannssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Bifreiðir. Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar. Akstur án ökuréttar.

J var sakfelldur fyrir að aka tvisvar sinnum undir áhrifum áfengis og vera án ökuskírteinis í fyrra sinnið en sviptur ökuréttindum í seinna skiptið. J krafðist þess að kröfu ákæruvalds um lengri ökuréttarsviptingu en ákveðin var í héraði yrði vísað frá Hæstarétti þar sem fullnustu sviptingarinnar var lokið. Talið var að engin lagaákvæði takmörkuðu heimild ákæruvalds til að krefjast þyngingar viðurlaga þegar fullnustu þeirra viðurlaga sem ákveðin voru með héraðsdómi lyki áður en dómur Hæstaréttar gengi. J krafðist sýknu af því að hafa ekið sviptur ökuréttindum í síðara sinnið sem hann var stöðvaður af lögreglu, en við fyrra sinnið hafði hann verið sviptur ökurétti til bráðabirgða. Talið var að sviptingin hefði ekki verið fallin niður, en hún var ótímabundin og J hafði ekki gert neinn reka að því að fá hana fellda niður. Fortakslaus lagabreyting á 102. gr. umferðarlaga var talin leiða til þess að dómvenju um sviptingu ökuréttar yrði vikið til hliðar. Samkvæmt því var J gert að greiða sekt í ríkissjóð og sæta sviptingu ökuréttar í 19 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu að fengnu áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar 29. september 2008 af hálfu ákæruvaldsins sem krefst þess að ákærða verði ákvörðuð þyngri refsing og hann látinn sæta lengri ökuréttarsviptingu.

Ákærði krefst þess aðallega að kröfu ákæruvalds um lengri sviptingu ökuréttar verði vísað frá Hæstarétti og að sektarrefsing verði lækkuð, en til vara staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði rökstyður kröfu sína um að vísað verði frá Hæstarétt kröfu ákæruvaldsins um lengri sviptingu ökuréttar með því að þar sem fullnustu ökuréttarsviptingar samkvæmt héraðsdómi hafi lokið 6. desember 2008 verði ekki höfð uppi krafa um sviptingu í lengri tíma en þar var ákveðinn. Í XXXI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eða XVIII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er áður giltu, eru engin ákvæði sem takmarka heimild ákæruvalds til að krefjast þyngingar viðurlaga þegar fullnustu  þeirra viðurlaga sem ákveðin voru með héraðsdómi lýkur áður en dómur Hæstaréttar gengur. Verður þessari kröfu ákærða því hafnað.

Ákærði krefst sýknu af þeim þætti ákæruliðar II að hafa ekið sviptur ökurétti 16. febrúar 2008 en ella að honum verði ekki gerð refsing fyrir það. Samkvæmt 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum hefur lögreglustjóri heimild til sviptingar ökuréttar til bráðabirgða. Ekkert er tiltekið um til hve langs tíma sú svipting getur verið, en heimilt er að bera úrlausnina undir dómara. Ákærði hafði engan reka gert að því að fá sviptingu ökuréttar til bráðabirgða 6. desember 2007 fellda niður þegar hann var stöðvaður af lögreglu 16. febrúar 2008. Verður því talið að hann hafi þá enn verið sviptur ökurétti. Með þessari athugasemd  verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða.

Rótgróin dómvenja er fyrir því að beita 102. gr. umferðarlaga þannig að það varði sviptingu ökuréttar í 12 mánuði ef vínandamagn í blóði ökumanns mælist á bilinu 1.2‰ til 2‰ ef brot er ekki ítrekað og að svipting ökuréttar fari ekki stighækkandi við hækkun á vínandamagni í blóði ökumanns á þessu bili, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 8/2005 sem  birtur er í dómasafni þess árs á blaðsíðu 1467. Með 18. gr. laga nr. 66/2006 sem tók gildi 23. júní 2006 var gerð breyting á 102. gr. umferðarlaga. Eftir þá breytingu skal samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins, ef vínandamagn í blóði ökumanns er á bilinu frá 1.2‰ til 2‰, svipting ökuréttar eigi vara skemur en eitt ár og allt að tveimur árum eftir alvarleika brots og vínandamagni í blóði ökumanns. Í greinargerð með frumvarpi að þessari lagabreytingu kom fram að hér væri á ferðinni það nýmæli að tekið yrði sérstakt tillit til alvarleika brots og vínandamagns í blóði og „með þessum hætti gefið ákveðið svigrúm til viðurlagaákvörðunar með tilliti til þessa þátta svo sanngjarnt sé og eðlilegt með hliðsjón af atvikum máls í hvert sinn.“ Verður að telja að þessi lagabreyting sé það fortakslaus að fyrrgreindri dómvenju sé með henni vikið til hliðar. Ökuréttarsvipting ákærða er samkvæmt því hæfilega ákveðin 18 mánuðir vegna brots hans 16. febrúar 2008 og 19 mánuðir í heild.

Af hálfu ákæruvalds hefur því verið haldið fram að beita beri heimildarákvæði lokamálsliðar 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga til hækkunar við ákvörðun sekta ákærða. Ekki verður fallist á að atvik séu slík í máli þessu að veigamikil rök mæli með því og verður ákærða því gert að greiða 275.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 20 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Með þessari dómsniðurstöðu er lagfærð viðurlagaákvörðun hins áfrýjaða dóms í samræmi við 102. gr. umferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006 og er því rétt að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Jóhann Kristinn Jóhannsson, greiði 275.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 20 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 19 mánuði frá uppkvaðningu dóms þessa að telja að frádreginni 12 mánaða sviptingu ökuréttar sem ákærði sætti frá 6. desember 2007.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 27. maí 2008.

Mál þetta, sem þingfest var 14. maí sl. og dómtekið samdægurs, er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, dagsettri 28. mars 2008, á hendur Jóhanni Kristni Jóhannssyni, kt. 010587-2559, Búhamri 28, Vestmannaeyjum,

fyrir eftirtalin umferðarlagabrot

I.

með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 6. desember 2007 ekið bifreiðinni MH-736, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í útöndunarlofti 0,30 mg/l) og án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, þar sem lögreglan stöðvaði för hans á Höfðabakka við Vatnsveituveg í Reykjavík. 

II.

með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 16. febrúar 2008 ekið bifreiðinni YY 627 undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði 1,77‰) og sviptur ökurétti frá bifreiðastæði við Vilbergs bakarí við Bárustíg í Vestmannaeyjum að versluninni Foto við sömu götu, þar sem lögregla stöðvaði för bifreiðarinnar.

Telst brot samkvæmt I. lið ákæu varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50 frá 1987, en brot samkvæmt II. lið ákæru telst varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaganna, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. áðurnefndra umferðarlaga frá 6. desember 2007, en þá var ákærði sviptur ökurétti til bráðabirgða sbr. 103. gr. sömu laga.“

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir löglega birtingu ákæru þann 18. apríl sl. ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði framdi brot þau sem greinir í ákæru og eru þau réttilega færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. 

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú sem er hæfilega ákveðin 215.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í sextán daga. Þá verður ákærði sviptur ökurétti í eitt ár frá 6. desember 2007 að telja eins og krafist er í ákæru. Í samræmi við 1. mgr. 165. gr. ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar sem er samkvæmt yfirliti 41.125 krónur.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Jóhann Kristinn Jóhannsson, greiði 215.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í sextán daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá 6. desember 2007 að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað, samtals 41.125 krónur.