Hæstiréttur íslands
Mál nr. 161/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 29. apríl 2004. |
|
Nr. 161/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2004 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti áfram gæsluvarðhaldi allt til þess að dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 5. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2004.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi úrskurðað X í gæsluvarðhald að kröfu þessa embættis þann 15. desember 2003 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þann 23. desember hafi úrskurðarþoli verið úrskurðaður til að sæta gæslu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. og hafi það gæsluvarðhald verið framlengt í tvígang, annars vegar 3. febrúar og hins vegar 30. mars.
Úrskurður héraðsdóms frá 30. mars sl. hafi verið kærður til Hæstaréttar þar sem hann hafi verið staðfestur með dómi nr. 130/2004 frá 1. apríl 2004.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hafi gefið út tvær ákærur á hendur úrskurðarþola. Annars vegar ákæru dags. 23. desember 2003 þar sem ákært sé fyrir þjófnaði, hylmingarbrot og fjársvik og hins vegar ákæra dags. 23. janúar 2004 þar sem ákært sé fyrir hylmingarbrot, skjalafalsbrot, fjársvik, þjófnaði og tilraun til þjófnaðar. Einnig sé ákærð fyrrverandi sambýliskona X. Mál þetta hafi verið rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur undir málanúmerinu [...] og Róbert R. Spanó sé dómari í málinu. Mál þetta hafi verið umfangsmikið og málareksturinn tímafrekur en flutningi þess sé nú lokið og málið hafi verið dómtekið og verði dómur uppkveðinn 5. maí nk. kl 11:45.
Auk máls [...] sé X einnig kærður í fjölda mála sem séu til rannsóknar og til afgreiðslu hjá lögreglunni í Kópavogi og Reykjavík. Það sé því fyrirséð að önnur ákæra verði gefin út á hendur honum vegna ólokinna mála hans en tekin hafi verið ákvörðun um að ekki skyldi sameina fleiri ákærur máli [...] þar sem málið hafi þegar verið orðið umfangsmikið.
Ákærði, X, hafi samkvæmt sakarvottorði langan sakarferil. Hann hafi margsinnis verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og sérrefsilögum en ávallt verið gerð skilorðsbundin refsing. Hann hafi síðast hlotið dóm fyrir héraðsdómi Reykjavíkur þann 3. október 2003 og hafi þá verið dæmdur til 7 mánaða fangelsisrefsingar en fullnustu refsingarinnar hafi verið frestað skilorðsbundið í 3 ár.
Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 30. mars sl., sem staðfestur hafi verið af Hæstarétti, hafi verið fallist á að skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væru fyrir hendi og því verði að telja að enn séu lagaskilyrði til áframhaldandi gæsluvarðhalds þar til dómur fellur í máli ákærða.
Ákærði sé grunaður um fjölda brota gegn 155. gr., 244. gr., 248. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.
Fyrir liggur að ákærði á að baki langan sakarferil, m.a. vegna þjófnaðar- og auðgunarbrota auk umferðalagabrota og áfengis- og fíkniefnabrota. Síðast hlaut ákærði dóm 3. október sl. og var hann þá dæmdur í sjö mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár. Síðan þá hefur lögreglan í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði unnið að rannsókn fjölda mála, sem ákærði er talinn tengjast. Gefnar hafa verið út tvær ákærur á hendur ákærða sem þingfestar hafa verið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í annarri ákærunni er ákært fyrir 9 þjófnaði, 4 hylmingarbrot og tvö fjársvikabrot og eru flest brotin framin í ágúst 2003. Í hinni ákærunni er ákært fyrir hylmingarbrot, 3 skjalafalsbrot, 4 fjársvikabrot, tvo þjófnaði og tilraun til þjófnaðar. Ákærði sætir enn fremur rannsókn vegna margra ætlaðra brota sem gætu varðað hann fangelsisrefsingu. Af því sem fram er komið í málinu má ætla að ákærði haldi áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið. Nú liggur fyrir að dómur verður kveðinn upp í málum ákærða skv. þeim tveimur ákærum sem lýst er hér að framan miðvikudaginn 5. maí nk. Í ljósi framanritaðs þykir nauðsynlegt að stöðva brotastarfsemi ákærða til að unnt sé að ljúka málum hans og þykja skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir hendi.
Að framanrituðu virtu er krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að ákærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 5. maí 2004, kl. 16:00.