Hæstiréttur íslands
Mál nr. 117/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 19. mars 1999. |
|
Nr. 117/1999. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði (Ólafur Kr. Hjörleifsson fulltrúi) gegn Mána Freysteinssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
M hafði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, allt þar til dómur hafði gengið í máli hans í héraði. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að M skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti vegna dómsins stæði, sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður dæmist úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 1999.
Árið 1999, föstudaginn 12. mars er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Guðmundi L. Jóhannessyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi í málinu nr. R-9/1999.
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerir þá kröfu í málinu að Máni Freysteinsson, kt. 150267-3669, verði úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti í máli hans stendur allt til 9. apríl 1999, en hann hlaut dóm í Héraðsdómi Reykjaness í dag og hlaut þar 18 mánaða fangelsisrefsingu. Til stuðnings kröfu sinni vísar sýslumaður til c-liðar 1. mgr. 103. gr.
Máni hefur mótmælt kröfunni.
Þann 15. janúar s.l. höfðaði lögreglustjórinn í Hafnarfirði opinbert mál á hendur Mána Freysteinssyni vegna fjölmargra þjófnaðarbrota er hann var talinn hafa framið á seinni hluta síðastliðins árs, og fór fram aðalmeðferð í málinu í febrúar s.l. (mál nr. S-53/1999).
Mánu hefur fimm sinnum verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vegna ofangreindra brota, þar af tvisvar á grundvelli c-liðar málsgreinarinnar, og hefur Máni nú setið í svokallaðri síbrotagæslu frá 3. desember s.l. Báða þá úrskurði sem hér um ræðir kærði Máni til Hæstaréttar, sem staðfesti þá með dómum uppkveðnum 8. desember 1998 (mál nr. 475/1998) og 15. janúar 1999.
Í dag var síðan kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness í málinu, og hlaut Máni þar 18 mánaða fangelsisrefsingu. Máni lýsti því þá yfir að hann tæki sér frest til að lýsa yfir áfrýjun.
Af hálfu sýslumannsins er á því byggt, að Máni Freysteinsson sé síbrotamaður sem eigi að baki töluverðan sakarferil. Hann sé atvinnulaus og hafi ekki haft fastar tekjur, hvorki bætur né annað. Þá eigi hann ekki fastan samastað, heldur hafi hann dvalist hjá vinum og kunningjum. Fram hafi komið að Máni sé fíkniefnaneytandi, en sjálfur kvaðst hann neyta fíkniefna fyrir u.þ.b. 30.000 krónur á viku hverri. Hann hafi engar viðhlítandi skýringar gefið á því hvernig hann hafi fjármagnað þessa neyslu eða framfærslu sína almennt, en telja verði næsta víst að það hafi hann gert með afbotum. Með hliðsjón af því er að framan greinir, brotaferli Mána og dómi Héraðsdóms Reykjaness er gekk í dag, sé ljóst að veruleg hætta sé á því að Máni muni halda áfram afbrotum ef hann er frjáls ferða sinna á meðan að máli hans er ekki lokið í dómskerfinu. Því sé það nauðsynlegt að krafa þessi nái fram að ganga.
Af hálfu Mána er vísað til þess, að hann hafi nú verið í gæsluvarðhaldi í um fjóra mánuði vegna brota á refsilögum, sem fjallað sé um í dómi Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum í dag og vænta megi þess, að ef þeim dómi verði áfrýjað í lok áfrýjunarfrests þá sé mjög ósennilegt að takist að búa málið til flutnings í Hæstarétti Íslands fyrir réttarhlé þar og því vart að vænta dóms þar fyrr en í lok september, en þá væri hann búinn að sitja inni í lengri tíma er næmi helming dæmdrar fangelsisrefsingar. Hann eigi að geta fengið reynslulausn eftir úttekt á helming refsingarinnar og gæti því áframhaldandi gæsluvarðhald bitnað þyngra á honum en efni standa til, en ekki um það alvarleg brot að ræða af hans hálfu að það réttlæti þetta. Þá er bent á að ekki sé líklegra að Máni haldi núna áfram brotastarfsemi heldur en að lokinni afplánun.
Mjög líklegt er, að í framangreindu máli nr. S-53/1999 fáist niðurstaða í Hæstarétti á vormánuðum, ef tekin verður ákvörðun um áfrýjun án óþarfa tafar, en slík töf ætti að vera Mána í óhag. Beiðni um framlengingu gæsluvarðhalds yfir Mána miðast ekki við að málinu hafi verið áfrýjað, heldur frestinn sem Máni hefur til að taka afstöðu til áfrýjunar, og er ekki ástæða til að fjalla um beiðnina út frá öðrum sjónarmiðum.
Þegar litið er til sakarferils Mána og þó einkum brota þeirra, sem hann var dæmdur fyrir í framangreindum dómi Héraðsdóms Reykajness, og þess, að hann er fíkniefnaneytandi, sem líklegast fjármagnar fíkniefnakaup og framfærslu með afbrotum, má telja mjög sennilegt að hann haldi áfram brotastarfsemi, ef hann verður nú látinn laus. Endanlegar lyktir í máli nr. S-53/1999 fást ekki fyrr en með dómi Hæstaaréttar, ef dómi héraðsdóms verður áfrýjað og eru því skilyrði skv. c-lið 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 til að úrskurða Mána í gæsluvarðhald og er fallist á rök í beiðninni um nauðsyn þess, og þykir mega marka tímalengd gæsluvarðhaldsins í samræmi við na, sem miðast við áfrýjunarfrest ákærða Mána í framangreindu máli nr. S-53/1999.
Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr. 19/1991 er Máni því úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til 19. apríl s.k. kl. 1600.
Úrskurðarorð:
Máni Freysteinsson, kt. 150267-3669, sæti gæsluvarðhaldi allt til 9. apríl 1999 kl. 16:00.