Hæstiréttur íslands
Mál nr. 452/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Opinber skipti
|
|
Fimmtudaginn 6. september 2007. |
|
Nr. 452/2007. |
Sigríður Guðlaugsdóttir(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Agli Eðvarðssyni (Ásdís J. Rafnar hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Opinber skipti.
S krafðist þess að við opinber skipti til fjárslita milli aðila yrði viðurkennt að öll fullgerð málverk máluð af A sem voru á heimili málsaðila eða í láni, teldust séreign hennar samkvæmt kaupmála 16. september 2004. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi þar sem kröfugerð S uppfyllti ekki skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili reisir kröfu sína í stuttu máli á að aðilar séu bundnir af því hvernig skiptastjóri lagði ágreiningsmál þeirra fyrir héraðsdóm. Varnaraðili hafi ekki haft uppi andmæli gegn því að málinu yrði vísað til héraðsdóms og af þeim sökum hafi hann samþykkt með bindandi hætti að leggja málið fyrir dómara eins og gert var, sbr. 45. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hafi hann því ekki getað haft uppi kröfu um frávísun fyrir héraðsdómi. Þá byggir sóknaraðili jafnframt á að heimilt sé samkvæmt lögum að setja dómkröfuna fram með þeim hætti sem gert var, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 25. gr. sömu laga. Málsástæðum og lagarökum aðila er að öðru leyti gerð nægjanleg skil í úrskurði héraðsdóms.
Samkvæmt 112. gr. laga nr. 20/1991 hefur skiptastjóri heimild til að beina ágreiningi sem rís milli aðila við opinber skipti til héraðsdóms, sbr. 122. gr. sömu laga. Slíkur ágreiningur verður ekki lagður fyrir dómstóla á annan hátt. Kröfugerð aðila í málum sem lögð eru fyrir dómstóla á grundvelli framangreindrar heimildar verður eigi að síður að uppfylla reglu d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 og breytir ætlað samþykki varnaraðila um framsetningu kröfugerðar engu í því sambandi. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2007.
Mál þetta var þingfest 20. febrúar 2007 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila 28. júní sl.
Sóknaraðili er Sigríður Guðlaugsdóttir, Miðvangi 15, Hafnarfirði en varnaraðili er Egill Eðvarðsson, Löngulínu 7, Garðabæ.
Sóknaraðili gerir þær dómkröfur að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði viðurkennt að öll fullgerð málverk máluð af varnaraðila sem voru á heimili málsaðila eða í láni, teljist séreign sóknaraðila samkvæmt kaupmála aðila frá 16. september 2004. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega frávísunar málsins en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
I.
Málavextir eru í stuttu máli þeir að aðilar gengu í hjónaband 14. maí 1999. Þau eignuðust í hjónabandi sínu tvíbura 17. nóvember 2000. Aðilar gerðu með sér kaupmála 16. september 2004 þar sem segir að allt innbú að Bjarmalandi 6, skuli vera séreign sóknaraðila. Í kaupmálanum er tekið fram að málverk skuli vera séreign sóknaraðila. Kaupmálinn var skrásettur í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík lögum samkvæmt.
Málsaðilar slitu samvistum 1. mars 2005. Reis þá ágreiningur um innbússkiptin og þá sérstaklega um málverk sem varnaraðili hafði málað og héngu á heimili þeirra meðan á hjúskapnum stóð. Sum þessara málverka voru um stundarsakir í láni hjá ýmsum aðilum og fyrirtækjum. Jafnframt reis ágreiningur með aðilum um tilbúin málverk, sem máluð höfðu verið af varnaraðila, en höfðu ýmist verið geymd í fataherbergi á heimili aðila eða á vinnustofu varnaraðila á heimilinu.
Varnaraðili styður frávísunarkröfu sína þeim rökum að kröfur sóknaraðila að þessu leyti hafi alltaf verið mjög á reiki frá upphafi. Kröfugerð sóknaraðila sé þannig sett fram að hún sé andstæð meginreglu réttarfars um skýran málatilbúnað og sé vanreifuð. Hún sé ekki nægilega ákveðin og glögg, sbr. d lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar krafa um viðurkenningu á tilteknum réttindum sé sett fram beri að skilgreina nákvæmlega í kröfugerð hver þessi réttindi séu. Sú leiðbeiningaregla hafi verið sett fram að kröfugerð þurfi að haga þannig að dómstóll geti formsins vegna tekið hana til greina og gert hana að niðurstöðu sinni. Dómsúrlausn þurfi að vera það ákveðin að hún leiði ein og sér til málaloka um sakarefnið. Með öllu sé óvíst hvaða hugverk varnaraðila það séu sem sóknaraðili telji sig eiga eignarétt á. Dómstólar verði ekki krafðir svara við svokölluðum lögspurningum, það er álitaefnum um tilvist eða skýringu réttarreglna, sem tengist ekki úrlausn um ákveðna kröfu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 24. gr. sömu laga. Þess vegna beri að vísa málinu frá dómi.
II.
Í kaupmála aðila er kveðið á um að allt innbú að Bjarmalandi 6 skuli vera séreign sóknaraðila. Er innbúið talið upp og segir meðal annars að málverk og allir aðrir lausamunir falli undir kaupmálann. Í málinu er deilt um hvaða málverk hafi verið á heimili málsaðila og hefur krafa sóknaraðila tekið einhverjum breytingum undir rekstri málsins hjá skiptastjóra hvað þetta áhrærir.
Krafa sóknaraðila í málinu er að viðurkennt verði við fjárslit aðila að öll fullgerð málverk, máluð af varnaraðila, sem voru á heimili aðila eða í láni, teljist séreign sóknaraðila samkvæmt kaupmálanum.
Þessi krafa er ekki dómtæk þar sem hin umdeildu málverk eru ekki sérgreind. Krafa sóknaraðila er því óskýr og óákveðin að þessu leyti og í andstöðu við meginreglu réttarfarsins um skýran málatilbúnað. Nauðsynlegt er að skilgreina nákvæmlega í kröfugerð þau réttindi sem krafist er viðurkenningar á. Af þessum sökum verður fallist á frávísunarkröfu varnaraðila samkvæmt d lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti að fjárhæð 85.750 eða samtals 435.750 krónur.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Sigríður Guðlaugsdóttir, greiði varnaraðila, Agli Eðvarðssyni, 435.750 krónur í málskostnað.