Hæstiréttur íslands

Mál nr. 57/1999


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Verðtrygging
  • Hagnaðarhlutdeild


           

Fimmtudaginn 27. janúar 2000.

Nr. 57/1999.

Lífeyrissjóður verkfræðinga

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Birgi G. Frímannssyni

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

og gagnsök

             

Lífeyrissjóður. Verðtrygging. Hagnaðarhlutdeild.

Samkvæmt breytingum í reglugerð fyrir lífeyrissjóðinn V, sem tók gildi 1. janúar 1991, skyldu iðgjöld og lífeyrisgreiðslur vera að fullu verðtryggð með lánskjaravísitölu auk þess sem bráðabirgðaákvæði voru sett þess efnis, að réttindi sjóðfélaga samkvæmt eldri reglugerð, svo sem þau yrðu við árslok 1990, skyldu umreiknuð til réttinda í samræmi við breytinguna. Þá sagði einnig að varasjóði, sem eftir stæði, þegar tillit hefði verið tekið til skuldbindinga við þáverandi lífeyrisþega og úthlutun farið fram á þeim hluta hagnaðar af starfsemi sjóðsins, sem til hefði orðið vegna ávöxtunar umfram reiknigrundvöll til og með 31. desember 1990, skyldi verja til að hækka lífeyrisréttindi þeirra sjóðfélaga, sem lægst réttindi hefðu miðað við fulla verðtryggingu iðgjalda þeirra frá upphafi, og greiddu í sjóðinn samkvæmt reglugerðinni. Skyldi með varasjóðnum haldið tilteknu hlutfalli fullrar verðtryggingar, sem yrði 80% fyrst um sinn. Var þetta hlutfall tengt reglu, sem V hafði fylgt frá 1979.  — B greiddi iðgjöld frá 1955 til 1979, er hann hafði hætt verkfræðistörfum, en náði ekki 65 ára aldursmörkum ellilífeyris fyrr en 1991. Hann hóf þó ekki töku lífeyris þá, þar sem hann var ósáttur við útreikninga sjóðsins á réttindum sínum, sem V taldi ekki eiga að njóta verðtryggingar. Væri reglan um lífeyri eftir hlutfalli af fullri verðtryggingu bundin við sjóðfélaga, sem greitt hefðu í sjóðinn fram að aldursmörkum. B taldi sig eiga sama rétt til verðtryggingar og aðrir sjóðfélagar á svipuðum aldri, sem hefðu hafið töku lífeyris fyrir og eftir 1. janúar 1991. Þá taldi hann að V hefði borið að veita honum hlutdeild í úthlutuðum hagnaði sjóðsins sem til hefði orðið eftir árið 1990 og þá í hlutfalli við þann lífeyri sem V bæri að ákvarða honum. Að virtum ákvæðum reglugerðarinnar og aðdraganda hennar ásamt uppgjöri sjóðsins við árslok 1990 var á það fallist með héraðsdómi, að ekki væri heimilt að synja fyrir verðtryggingu á lífeyrisréttindum B, og ætti afstaða V í því efni ekki rétmæta stoð í reglugerð sjóðsins. Meðal annars gæfu bráðabirgðaákvæði hennar ekki til kynna, að réttindi þáverandi lífeyrisþega og annarra eldri sjóðfélaga fram í tímann ættu að markast með endanlegum hætti af áætlunum tryggingafræðings um skuldbindingar vegna lífeyrisþeganna og fjárhæð varasjóðs. Einnig hafi skuldbinding sjóðsins frá 1979 um hlutfallslega verðtryggingu lífeyris ekki verið samþykkt með fyrirvara um iðgjaldagreiðslur fram að aldursmörkum. Var B talinn eiga að sæta hliðstæðum kjörum við þá sjóðfélaga, sem hófu töku lífeyris á árunum eftir 1990 og höfðu greitt iðgjöld til aldursmarka. Þá var talið að hin almennu ákvæði reglugerðarinnar um breytingar á lífeyrisréttindum vegna hagnaðar eða halla af starfsemi sjóðsins tækju til B, eftir því sem við gæti átt, en sú niðurstaða var í samræmi við nýlega dóma réttarins í sambærilegum málum. Var V dæmdur til greiðslu gjaldfallins lífeyris fram að þingfrestingu málsins frá júní 1996, er B hafði gert skýra greiðslukröfu, auk þess sem tekin var til greina krafa B um viðurkenningu réttar til hlutfallslegrar verðtryggingar lífeyrisréttinda og til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði V frá og með janúar 1998.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi hefur skotið málinu til Hæstaréttar með stefnu 16. febrúar 1999. Hann krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum gagnáfrýjanda, bæði fjárkröfum og viðurkenningarkröfu, og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krafðist hann þess í öndverðu, að kröfur gagnáfrýjanda yrðu lækkaðar verulega, en krafan er nú á þá leið, að honum verði einungis gert að greiða gagnáfrýjanda 79.527 krónur, og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu með stefnu 11. mars 1999. Kröfur hans voru þá hinar sömu og í héraði, þ.e. að aðaláfrýjandi yrði dæmdur til greiðslu á skuld vegna vangoldins lífeyris til hans, aðallega 2.745.173 krónum, en til vara 2.307.064 krónum, auk dráttarvaxta af þeim fjárhæðum, jafnframt því sem viðurkenndur yrði réttur hans til fullrar verðtryggingar lífeyris frá aðaláfrýjanda og til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði hjá sjóðnum eftir 1. desember 1997. Á þessu gerði hann breytingu við endurflutning málsins hér fyrir dómi, og krefst hann þess nú, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 2.308.644 krónur, en til vara 506.142 krónur, hvort tveggja með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingu málsins í héraði 8. janúar 1998 til greiðsludags. Jafnframt krefst hann viðurkenningar á áframhaldandi rétti sínum til 90% verðtryggingar lífeyrisréttinda sinna og til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði hjá aðaláfrýjanda eftir 1. desember 1997. Að auki krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var upphaflega flutt fyrir Hæstarétti 15. september 1999, samtímis hæstaréttarmálunum nr. 58/1999 og nr. 59/1999, sem háð voru milli aðaláfrýjanda og tveggja annarra sjóðfélaga hans. Höfðu nokkur ný gögn þá verið lögð fyrir réttinn, þar á meðal skýrsla Kr. Guðmundar Guðmundssonar cand. act. um athugun á fjárhag aðaláfrýjanda við árslok 1979 og bréfaskipti vegna breytinga á reglugerð sjóðsins í desember 1998 og janúar og febrúar 1999. Eftir dómtöku að því sinni var málið endurupptekið að ákvörðun réttarins 22. október 1999 á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga, og gagnáfrýjanda gefinn kostur á að reikna upphaflega varakröfu sína út að nýju með tilliti til dóma réttarins 14. sama mánaðar í fyrrgreindum málum. Yrði þá meðal annars miðað við, að gagnáfrýjandi hæfi töku lífeyris hjá aðaláfrýjanda frá þingfestingu máls þessa eða öðrum degi, sem aðilum kynni að þykja eiga betur við.

Af þessu tilefni hafa verið lagðir fram nýir útreikningar Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, er fylgdu bréfi hans 2. nóvember 1999, þar sem krafa gagnáfrýjanda um lífeyri frá aðaláfrýjanda er endurreiknuð, og þá miðað við mismunandi upphafsdaga að töku lífeyrisins. Í annan stað hefur aðaláfrýjandi lagt fram bréf 10. og 11. þessa mánaðar frá Bjarna Guðmundssyni cand. act., tryggingafræðingi sjóðsins, með athugasemdum við þessa útreikninga, ásamt eigin útreikningum Bjarna eftir breyttum forsendum. Að fengnum þessum gögnum var málið flutt á ný og dómtekið hinn 17. þessa mánaðar.

I.

Mál þetta lýtur að rétti gagnáfrýjanda til ellilífeyris úr lífeyrissjóði aðaláfrýjanda og varðar einkum efni og áhrif mikilvægra breytinga, sem gerðar voru á reglugerð sjóðsins árið 1990 og tóku gildi 1. janúar 1991. Er málavöxtum lýst í hinum áfrýjaða dómi. Atvik málsins og málsástæður aðila eru að miklu leyti hin sömu og um var fjallað í dómum réttarins 14. október 1999 í áðurgreindum hæstaréttarmálum nr. 58/1999 og 59/1999, en gagnaðilar aðaláfrýjanda voru þar tveir verkfræðingar, sem greitt höfðu iðgjöld til sjóðsins fram að 65 ára aldursmörkum og þá byrjað töku lífeyris. Hafði annar náð því marki á árinu 1989, fyrir gildistöku umræddra breytinga, en hinn á árinu 1994. Eiga viðhorf, sem lýst er í þessum dómum um stöðu aðaláfrýjanda og sjóðfélaga hans og skýringu og gildi reglugerðar sjóðsins með umræddum breytingum, einnig við í máli þessu.

II.

Gagnáfrýjandi er verkfræðingur og varð félagi í lífeyrissjóði aðaláfrýjanda þegar á árinu 1955 við 29 ára aldur, svo sem um getur í héraðsdómi. Greiddi hann iðgjöld til sjóðsins frá því ári til 1. júlí 1979. Vann hann á þessu tímabili að verkfræðistörfum og atvinnurekstri á sviði verklegra framkvæmda, lengst af við fyrirtæki, sem hann stofnaði á árinu 1961. Hann náði aldursmörkum sjóðsins í apríl 1991, er hann varð 65 ára, og taldist þá hafa aflað sér um 4/5 hluta þeirra réttinda, sem iðgjaldagreiðslur til þess tíma hefðu veitt. Þegar gagnáfrýjandi hætti greiðslunum hafði hann lagt niður verkfræðistörf, en áðurgreint fyrirtæki hans hafði þá verið selt fyrir nokkru. Kveðst hann ekki hafa stundað launuð störf eftir þetta.

Gagnáfrýjandi hóf ekki töku lífeyris hjá aðaláfrýjanda eftir að hann náði aldri til þess, þar sem hann var ósáttur við útreikninga sjóðsins á réttindum sínum. Hefur hann aldrei lagt fram formlega beiðni um greiðslur úr sjóðnum. Hins vegar gerði hann í maímánuði 1997 kröfu um lífeyri sér til handa, frá maí 1991 að telja. Var hún borin fram í bréfi frá lögmanni hans og henni síðan fylgt eftir með höfðun máls þessa, sem þingfest var 8. janúar 1998.

Í málinu er um það deilt, hvort gagnáfrýjandi eigi rétt á verðtryggingu eftir vísitölu á iðgjöldum sínum og lífeyri samkvæmt reglugerð aðaláfrýjanda, svo sem henni var breytt árið 1990, ásamt því, hvaða rétt hann eigi til hlutdeildar í hagnaði hjá sjóðnum umfram skuldbindingar á hverjum tíma. Um hið fyrra eru ákvæði í gr. 6.2 og gr. 10.1 ásamt bráðabirgðaákvæðum í gr. 20.1 og 20.2, sem öll voru sett á þeim tíma, en um hið síðara er fjallað í gr. 16.5, sem er óbreytt að kalla frá öndverðu.

Upphafleg aðalkrafa gagnáfrýjanda var við það miðuð, að hann ætti rétt á fullri verðtryggingu lífeyrisréttinda sinna samkvæmt gr. 6.2 og 10.1, og skírskotaði hann um það til orða bráðabirgðaákvæðsins í gr. 20.1. Hann hefur nú fallið frá þessu og breytt kröfugerð sinni á þann veg, að núverandi aðalkrafa samsvarar fyrri varakröfu. Er hún á því reist, að hann eigi sama lífeyrisrétt og aðrir verkfræðingar á svipuðum aldri, er hófu töku lífeyris fyrir og eftir 1. janúar 1991 á þeim grundvelli, að réttindi þeirra yrðu miðuð við tiltekið lágmark verðtryggingar á iðgjöldum þeirra frá upphafi, eftir hlutfalli, sem samþykkt væri af hálfu sjóðsins. Um þetta vísar hann einkum í 20. gr. reglugerðarinnar og einnig til ákvörðunar á aukaaðalfundi sjóðsins 28. nóvember 1979. Samkvæmt gr. 20.2 og umræddri ákvörðun var hlutfall verðtryggingar til útreiknings á réttindum sjóðfélaga, sem ekki töldust ná að standa undir fullri verðtryggingu, upphaflega ákveðið 80%, en frá 1. júlí 1996 hefur það verið 90%. Einnig telur gagnáfrýjandi sig eiga rétt til hlutdeildar í hagnaði sjóðsins til jafns við þessa sjóðfélaga, og þá miðað við þann verðtryggða lífeyri, sem sjóðnum beri að ákvarða honum eftir umræddri hlutfallsreglu.

Af hálfu aðaláfrýjanda hefur hins vegar verið litið svo á, að gagnáfrýjandi eigi ekki rétt til ellilífeyris umfram þann, sem reikna megi eftir uppsöfnuðu verðmæti iðgjalda hans frá 1955-1979, að meðtalinni hlutdeild í hagnaði sjóðsins umfram skuldbindingar á tímanum fram til ársloka 1990. Hafi gr. 20.1 ekki veitt honum rétt á verðtryggingu iðgjalda að þessu tímamarki fremur en öðrum sjóðfélögum. Ennfremur eigi hann ekki rétt til greiðslu lífeyris á grundvelli gr. 20.2, er svari til 80% og síðar 90% af fullri verðtryggingu iðgjalda hans. Skuldbinding sjóðsins um þann lífeyri og varasjóður sá, sem henni sé tengdur, varði aðeins þá sjóðfélaga, sem haldið hafi áfram greiðslu iðgjalda allt að aldursmörkum. Jafnframt eigi hann ekki rétt til hlutdeildar í hagnaði af starfsemi sjóðsins eftir árið 1990, er úthlutað sé samkvæmt gr. 16.5, nema að tiltölu við óverðtryggt verðmæti iðgjalda sinna.

Aðaláfrýjandi lítur jafnframt svo á, að greiðsla verðtryggðs lífeyris til gagnáfrýjanda ásamt samsvarandi hagnaðarhlutdeild myndi raska þeim forsendum, sem á hafi verið byggt við tryggingafræðilegar úttektir á sjóðnum frá og með 1991, og eigi þetta einnig við um greiðslur á grundvelli dóma Hæstaréttar frá 14. október 1999. Leiði röskunin til þess, að endurmeta þurfi það hlutfall verðtryggingar, sem fylgt hafi verið á grundvelli gr. 20.2, en varasjóður frá 1990 til uppbóta eftir þeirri grein nægi ekki til að standa undir breyttum greiðslum samkvæmt skilningi Hæstaréttar á reglugerð sjóðsins. Við endurflutning málsins hefur hann fylgt þessu eftir með því að leggja fram fyrrgreinda útreikninga Bjarna Guðmundssonar cand. act., þar sem lýst er meðal annars þeirri skoðun, að hlutfall verðtryggingar á lífeyri til gagnáfrýjanda ætti að nema sem næst 64% og 72% í stað 80% og 90% á sama tíma, ef miðað væri við stöðu sjóðsins að þessu leyti.

III.

Í samræmi við forsendur að fyrrgreindum dómum réttarins verður að líta svo á, að gagnáfrýjandi geti ekki krafist fullrar verðtryggingar lífeyrisréttinda sinna á grundvelli reglugerðar aðaláfrýjanda, og verði ákvæði 20. gr. hennar ekki skýrð á þann veg. Hefur hann og breytt kröfugerð sinni hér fyrir dómi því til samræmis.

Með skírskotun til sömu dóma og til forsendna hins áfrýjaða dóms verður á hinn bóginn að fallast á það með gagnáfrýjanda, að hann eigi ekki að þurfa að sæta lakari kjörum með tilliti til verðtryggingar réttinda en þeir eldri sjóðfélagar aðaláfrýjanda, sem hófu töku lífeyris á næstu árum eftir 1990 og höfðu þá greitt iðgjöld í sjóðinn fram að 65 ára aldri. Eigi þetta við þrátt fyrir þau orð gr. 20.2, að ákvæði hennar varði sjóðfélaga, sem „greiða í sjóðinn“ samkvæmt reglugerðinni.

Aðaláfrýjandi hefur skýrt orð þessi svo, að átt sé við greiðslu iðgjalda fram að venjulegum aldursmörkum, og styður það meðal annars við gögn um uppgjör á sjóðnum við árslok 1988 og 1990 og aðdragandann að samþykkt hinnar breyttu reglugerðar. Kveður hann þennan áskilnað hafa verið forsendu að áætlunum tryggingafræðings um það, hvað leggja þyrfti í varasjóð til að standa undir greiðslu á lífeyri með 80% verðtryggingu, og einnig að samþykkt á reglugerðinni og reikningum sjóðsins. Á hinn bóginn verður ekki sagt, að reglugerðin sjálf beri með sér, að þetta sé hinn rétti skilningur. Í henni er ekki vikið beinum orðum að nauðsyn þess að greina á milli áunninna réttinda sjóðfélaga og réttar þeirra til að njóta verðtryggingar iðgjalda og lífeyris eftir gr. 6.2 og 10.1, og þess sér hvergi stað nema í bráðabirgðaákvæðum 20. gr., að árið 1990 marki sérstök skil í starfsemi sjóðsins. Þau ákvæði veita ekki vísbendingu um, að réttindi þáverandi lífeyrisþega og annarra eldri sjóðfélaga fram í tímann hafi átt að markast með endanlegum hætti af þeim áætlunum um skuldbindingar vegna lífeyrisþega og fjárhæð varasjóðs, sem lýst var í skýrslum tryggingafræðingsins. Við skýringu þessara ákvæða og reglugerðarinnar í heild verður að líta til þess, að með hinum umdeildu breytingum var að því stefnt að koma á  verðtryggingu á lífeyrisréttindum sjóðfélaga, eins og réttilega er til vísað í héraðsdómi.

Á það má fallast, að greiðsla umkrafins lífeyris til gagnáfrýjanda sé óhagstæð sjóðnum að því leyti, að iðgjöld hans voru greidd á þeim tíma, er verðtrygging fjárskuldbindinga var almennt óheimil. Hins vegar voru iðgjöldin meðal þeirra fjármuna, sem stóðu undir vexti sjóðsins á árunum eftir 1979, sem og skuldbindingu sjóðsins frá því ári um greiðslur miðað við 80% af fullverðtryggðum réttindum til lífeyrisþega sinna. Sú skuldbinding var ekki samþykkt með fyrirvara eða áskilnaði um iðgjaldagreiðslur fram að aldursmörkum, og aðaláfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að fyrirvari í þá átt hafi mótast áður en gengið var til breytinga á reglugerðinni. Um gagnáfrýjanda sjálfan liggur það fyrir, að greiðslur hans til sjóðsins fóru í raun saman við starfsævi hans sem verkfræðings.

Að athuguðu öllu þessu verður að telja, að synjun um verðtryggingu á lífeyri til gagnáfrýjanda eigi ekki réttmæta stoð í reglugerð sjóðsins.

Með skírskotun til fyrrgreindra dóma verður einnig að fallast á, að gagnáfrýjanda beri hlutdeild í hagnaði af starfsemi sjóðsins með hliðstæðum hætti og þeim sjóðfélögum, sem fyrr getur, þegar til úthlutunar komi samkvæmt gr. 16.5, enda beri hann áhættu af halla á sjóðnum að sama skapi og þeir.

IV.

Í málinu krefst gagnáfrýjandi aðfarardóms fyrir lífeyri, sem fallinn hafi verið í gjalddaga fyrir þingfestingu málsins, en lífeyrir er greiddur mánaðarlega fyrirfram með 1/12 af árslífeyri, sbr. gr. 10.1 í reglugerð aðaláfrýjanda. Er krafan nú miðuð við 80% af fullverðtryggðum lífeyri fram að 1. júlí 1996 og 90% eftir það, sem fyrr segir. Jafnframt tekur hún til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði af starfsemi aðaláfrýjanda árin 1991-1996, er honum hafi borið á sama tímabili, og þá í hlutfalli við þennan lífeyri, sem aðaláfrýjanda hafi borið að ákvarða honum. Nær aðalkrafa hans yfir tímabilið frá og með maí 1994, er hann hafði náð 68 ára aldri, til og með desember 1997. Varakrafan miðast hins vegar við tímabilið frá og með júní 1997, þegar kröfubréf hans til aðaláfrýjanda hafði verið sent, til desemberloka sama ár. Eru fjárhæðir krafnanna, 2.308.644 og 506.142 krónur, byggðar á áðurnefndum útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, þar sem horft er til forsendna að fyrrgreindum dómum Hæstaréttar. Eftir atvikum og aðdraganda málsins þykir rétt, að varakrafa gagnáfrýjanda verði tekin til greina óbreytt.

Með vísan til þess, sem fyrr var rakið, verður einnig fallist á kröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á rétti hans til hlutfallslegrar verðtryggingar lífeyrisréttinda sinna og hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði hjá aðaláfrýjanda eftir desembermánuð 1997.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem um er mælt í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Lífeyrissjóður verkfræðinga, greiði gagnáfrýjanda, Birgi G. Frímannssyni, 506.142 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. janúar 1998 til greiðsludags.

Viðurkenndur er réttur gagnáfrýjanda til hlutfallslegrar verðtryggingar lífeyrisréttinda sinna og til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði hjá aðaláfrýjanda frá og með 1. janúar 1998.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað á að vera óraskað.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 1999.

Ár 1998, mánudaginn 23. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hirti O. Aðalsteinssyni, héraðsdómara og með­dóms­mönnunum Sigurði Frey Jónatanssyni, tryggingastærðfræðingi og Stefáni Daníel Franklín, löggiltum endurskoðanda, kveðinn upp dómur í máli nr. E-41/1998: Birgir G. Frímannsson gegn Lífeyrissjóði verkfræðinga.

Mál þetta, sem upphaflega tekið var til dóms 25. september s.l., er höfðað með stefnu útgefinni 16. desember s.l. og birtri daginn eftir. Málið var endur­upp­tekið í dag samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en þar sem dómendur og aðilar voru sam­mála um að ekki væri þörf flutnings á ný var það dómtekið.

Stefnandi er Birgir G. Frímannsson, verkfræðingur, kt. 140426-4159, Barðaströnd 27, Seltjarnarnesi.

Stefndi er Lífeyrissjóður verkfræðinga, kt. 430269-4299, Engjateigi 9, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu á skuld vegna van­greidds lífeyris, aðallega að fjárhæð kr. 2.745.173, en til vara að fjárhæð kr. 2.307.064, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 18. desember 1997 til greiðsludags. Þá er krafist viðurkenningar á áframhaldandi rétti stefn­anda til fullrar verðtryggingar lífeyrisins og til hlutdeildar í úthlutuðum hagn­aði hjá stefnda eftir 1. desember 1997. Loks er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi auk virð­isaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefn­anda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá er krafist máls­­kostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málavextir.

Lífeyrissjóður Verkfræðingafélags Íslands, eins og hann hét áður, var stofn­aður árið 1954 og er hlutverk sjóðsins að veita sjóðfélögum elli- og örorkulífeyri og eftir­látnum mökum þeirra og börnum maka- og barnalífeyri samkvæmt ákvæð­um reglu­gerðar fyrir sjóðinn. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar geta allir verk­fræðingar orðið sjóðfélagar og aðrir sem stjórnin hefur samþykkt. Þá er tekið fram í reglugerðinni að elli- og örorkulífeyrisþegar teljist einnig sjóðfélagar. Sjóð­ur­inn er svokallaður sam­eign­arsjóður, enda eiga sjóðfélagar ekki sérgreint það fé sem þeir greiða til sjóðsins, heldur leggst það í sameiginlegan sjóð. Í 6. gr. reglu­gerð­ar sjóðsins er fjallað um rétt­indi sjóðfélaga til ellilífeyris og mun sjóðurinn hafa þá sérstöðu meðal sameignarsjóða að réttindi sem fást út á greidd iðgjöld eru hærri í krónum talið eftir því sem greið­and­inn er yngri. Upphæð ellilífeyris fer eftir töfl­um í reglugerðinni og er þar kveðið á um krónu­tölu ellilífeyris sem fer lækkandi eftir aldri greiðanda.

Vegna verðbólgu í landinu á áttunda áratugnum varð sjóðurinn fyrir áföllum, enda var raunávöxtun fjárskuldbindinga haldið neikvæðri með lagaboði og rýrnaði raun­virði lífeyris sjóðfélaga hratt af þeim sökum. Var brugðist við þessu með því að greiða ár­lega uppbætur á lífeyri og voru þær nefndar jólabónus. Á aðalfundi árið 1979 var samþykkt að endurskoða reglugerð sjóðsins vegna þessara vanda­mála og þar til endur­skoðun lyki skyldu greiddar uppbætur á lífeyrinn sem næmu 80% af verðtryggingu réttinda miðað við framfærsluvísitölu. Reglugerðinni var ekki breytt fyrr en í júní árið 1990 með gildistöku 1. janúar 1991 og fram til þess tíma var 80% uppbótarreglunni beitt. Þær breytingar sem hér skipta máli voru þær að ákveðið var að lífeyrisgreiðslur skyldu verðtryggðar með lánskjaravísitölu, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Í at­huga­semdum með breytingatillögunni var vísað til at­huga­semda við gr. 6.2., en þar var lagt til að iðgjöld verði við útreikning elli­líf­eyr­is­rétt­ar verðtryggð með lánskjaravísitölu. Samkvæmt gr. 16.5. í reglugerðinni skal sjóð­stjórnin frá tryggingafræðing til að reikna út fjárhag sjóðsins eigi sjaldnar en 3. hvert ár. Hann skal semja skýrslu um athugunina og gera upp efnahagsreikning sjóðs­ins á grundvelli útreikninga sinna. Sýni uppgjörið hagnað skyldi honum varið til hlutfallslegrar hækkunar á lífeyrisréttindum sjóðfélaganna eftir tillögum trygg­inga­fræðingsins. Þó getur aðalfundur ákveðið að leggja hann eða hluta hans í vara­sjóð.  Sýni uppgjörið halla, sem ekki verður greiddur úr varasjóði, ber að lækka líf­eyrisréttindin hlutfallslega. Þá voru sett eftirfarandi bráðabirgðaákvæði í reglu­gerð­ina og er gr. 20.1. svohljóðandi: “Réttindi sjóðfélaga eins og þau verða þ. 31. des. 1990 skv. þágildandi ákvæðum reglugerðar, skulu umreiknuð til réttinda í sam­ræmi við réttindaákvæði þau, sem gildi taka 1. jan. 1991, og skulu verð­tryggð upp frá því á sama hátt og þau réttindi sem myndast frá og með 1. janúar 1991.”  Í at­huga­semdum með greininni segir að kveðið sé á um verðtryggingu rétt­inda sem myndast áður en tekin er upp verðtrygging í sjóðnum. Gr. 20.2. er svo­hljóðandi: „Varasjóði, sem eftir stendur, þegar úthlutað hefur verið þeim hluta hagnaðar af starf­semi sjóðsins, sem til hefur orðið vegna ávöxtunar umfram reikni­grundvöll til og með 31. des. 1990, skal verja til að hækka lífeyrisréttindi þeirra sjóðfélaga, sem lægst réttindi hafa miðað við fulla verðtryggingu iðgjalda þeirra frá upphafi, og greiða í sjóðinn skv. reglugerð þessari. Með varasjóði þessum skal haldið tilteknu hlutfalli af fullri verðtryggingu lífeyrisréttar. Hlutfall þetta verður 80% frá og með 1. jan. 1991 og endurskoðast til hækkunar eða lækk­unar skv. úttekt tryggingafræðings.“  Orð­un­um „skv. reglugerð þessari” mun hafa verið bætt síðar við reglugerðina. Í athuga­semdum segir að tillagan að grein 20.2 sé sniðin eftir tillögum tryggingafræðings LVFÍ um lífeyrisuppgjör pr. 31. des. 1988. Gert er ráð fyrir sams konar uppgjöri pr. 31. des. 1990 þegar verðtrygging verði tekin upp í sjóðnum. Tilteknum hagnaði verði varið til að hækka lífeyrisrétt þeirra sjóðfélaga sem lægst réttindi hafa miðað við fulla verð­tryggingu og greiða í sjóð­inn fram að þeim tíma að þeir eigi rétt á bótum frá sjóðnum.

Auk þessara breytinga var réttindatöflum 6. gr. breytt þannig að gert var ráð fyrir 3,5% ávöxtun í stað 4% ávöxtunar.

Stefndi hefur í greinargerð og með framlagningu dómskjala lýst aðdraganda reglu­gerð­arbreytingarinnar árið 1990. Segir stefndi að í fréttabréfi stefnda í maí 1986 hafi verið skýrt frá því að unnið væri að úttekt á stöðu sjóðsins, en slík úttekt sé grundvöllur að endurskoðun á reglugerðinni. Í fréttabréfi í maí 1987 séu hug­leið­ingar um vandann við fyrirhugaðar reglugerðarbreytingar. Í mars 1988 sé ítar­leg umfjöllun um stöðu sjóðs­ins og hugmyndir sem til umræðu voru. Jafnframt sé þar grein um útreikning trygg­ingafræðings á stöðu sjóðsins. Í maí 1989 er enn fjall­að um útreikninga trygg­inga­fræðings sjóðsins og í maí 1990 er fjallað um líf­eyr­is­uppgjör skv. nýjum tillögum, reglu­gerð­arbreytingar og áhrif breyttra reglna á maka­lífeyri. Þá hafi stjórn sjóðsins boðað til félags­fundar 9. apríl 1990, annars vegar um tillögur tryggingafræðings um lífeyris­upp­gjör í árslok 1988 og hins vegar til kynningar á hugmyndum að breytingum á reglugerð sjóðsins. Með fundarboði dag­settu 18. maí 1990 var boðað til aðalfundar í sjóðnum 30. maí 1990. Meðal dag­skrárliða var lífeyrisuppgjör pr. 31.12.1988 og reglu­gerð­ar­breyt­ing. Tekið var fram að skýrsla tryggingafræðingsins liggi frammi á skrifstofu sjóðsins sjóð­félögum til sýnis. Tillögum til breytinga á samþykktum sjóðsins með at­huga­semd­um og skýr­ingum var dreift meðal sjóðfélaga. Þær voru ræddar á aðalfundi 30. maí 1990 og samþykktar samhljóða á framhaldsaðalfundi 27. júní 1990.

Stefnandi er félagi í hinum stefnda lífeyrissjóði og hóf hann að greiða iðgjöld við stofnun hans árið 1955, en þá var stefnandi 29 ára gamall. Hann greiddi sam­fellt til sjóðsins í 25 ár eða til 1. júlí 1979. Stefnandi varð 65 ára í apríl 1991 og komst þá á þann aldur að geta hafið töku lífeyris skv. ákvæðum reglugerðar sjóðs­ins, en hann hafði þá ekki greitt iðgjöld í 12 ár. Vegna ákvæðanna í reglugerð sjóðs­ins um að iðgjöld greidd fyrri hluta ævinnar skuli vega þyngra í öflun líf­eyr­is­rétt­inda var stefnandi búinn að afla sér um 4/5 hluta þeirra réttinda sem hann hefði öðl­ast með greiðslu iðgjalda til aldurs­markanna.  Áðurgreind verðtrygging líf­eyr­is­rétt­inda var ekki látin ná til þeirra sem höfðu hætt greiðslu iðgjalda áður en þeir urðu 65 ára. Mun stefndi hafa túlkað orðin „og greiða í sjóðinn” í bráða­birgða­ákvæð­inu í gr. 20.2. með þessum hætti. Þeir líf­eyrisþegar, sem greitt hafa til sjóðs­ins fram að aldursmörkum, hafa hins vegar fengið verð­tryggðan lífeyri að hluta eftir breyt­ingarnar á reglugerðinni, fyrst 80% fram á mitt ár 1996 en síðan 90% skv. ákvörð­un sjóðsins. Stefnandi mun hins vegar hafa verið talinn hafa átt að njóta hlut­deildar í úthlutuðum hagnaði eftir 1991, sem þá hefur verið reiknuð af óverð­tryggð­um hluta hans.

Stefnandi hefur aldrei þegið lífeyri frá stefnda og hefur hann talið útreikninga stefnda á lífeyrinum með öllu óviðunandi. Hefur komið fram að stefndi telji mán­að­ar­legan lífeyri til stefnanda fyrir júlímánuð árið 1995 eiga að nema kr. 9.688. Stefnandi og aðrir sjóðfélagar hafa leitað lögmannsaðstoðar en þeir telja sig eiga rétt til hærri líf­eyr­isg­reiðslna úr sjóðnum. Hefur verið reynt að leysa ágreininginn utan réttar og er þeim til­raunum lýst í stefnu, en ekki þykir ástæða til að tíunda þær hér, en þar áttu hlut að máli lögmenn aðila og tryggingafræðingarnir Jón Erlingur Þorláksson og Bjarni Guðmunds­son, tryggingastærðfræðingur sjóðsins.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að í ákvæði til bráðabirgða í gr. 20.1. reglu­gerðar sjóðsins felist réttur hans til fullrar verðtryggingar eldri réttinda við um­reikninginn 1. janúar 1991. Sá réttur njóti síðan áfram fullrar verðtryggingar eftir þann dag.  Þá byggjast kröfur hans á því að stefnanda hafi samkvæmt reglu­gerð­inni borið hlut­deild í úthlutuðum hagnaði sjóðsins eftir reglugerðarbreytinguna frá ársbyrjun 1991, þannig að við þá úthlutun yrði miðað við verðtryggðan líf­eyr­is­rétt­inn. Er gert ráð fyrir að úthlutun hefjist frá og með júlímánuði árið eftir að hagn­aður varð og byrjar hann því að leggjast til á miðju ári 1992. Stefnandi hefur áskilið sér rétt til þess að gera frekari kröfur vegna hagnaðar ársins 1996 sem leggjast hefði átt til í júlí 1997. Aðalkrafa stefn­anda er byggð á fullri verðtryggingu og hlutdeild í hagnaði, en varakrafan felur að­eins í sér lífeyri sem er miðaður við þá verð­tryggingu sem aðrir lífeyrisþegar hafa notið, þ.e. fyrst 80% en síðan 90% frá miðju ári 1996 og tilsvarandi hagnaðarhlutdeild.

  Stefnandi byggir á því að ákvæðið í gr. 20.1. feli það í sér að við breytinguna 1. janúar 1991 hafi réttindi sjóðfélaganna átt að umreiknast yfir á þann rétt­inda­grund­völl sem þá tók við. Þetta hljóti að þýða fulla verðtryggingu hinna eldri rétt­inda við um­reikn­inginn, því að „réttindaákvæði þau, sem taka gildi 1. janúar 1991” hafi falið í sér slíka verðtryggingu skv. breytingunni sem gerð var á gr. 10.1. Ekki verði fallist á þann skilning stefnda að umreikningurinn ætti að miðast við 80% verð­tryggingu, sem hafi verið sú verðtrygging sem menn nutu fyrir breytinguna. Stefn­anda sýnist stefndi byggja þennan skilning á ákvæðinu í gr. 20.2., þar sem ráða­gerð er uppi um 80% hlutfall af fullri verðtryggingu, sem eigi að endurskoðast til hækkunar eða lækkunar skv. úttekt trygg­ingafræðings, þó að þetta sé þar bundið við ráðstöfun á tilgreindum varasjóði. Stefnandi byggir á því að ekki sé verið að fjalla um útreikning grunnréttinda til lífeyris við reglugerðarbreytinguna heldur aðeins um ráðstöfun varasjóðsins. Stefnandi bendir á að skv. ákvæðinu skuli vara­sjóðn­um varið til að hækka lífeyrissjóðsréttindi þeirra sjóð­félaga, sem lægst hafa réttindi miðað við fulla verðtryggingu og sýnist stefnanda þarna hnykkt á þeim skilningi að iðgjöldin eigi frá upphafi að verðtryggjast að fullu.

Stefnandi byggir kröfu sína um hlutfallslega hlutdeild í úthlutuðum hagnaði á gr. 16.5. í reglugerð sjóðsins, þar sem segir að hagnaði af rekstri sjóðsins skuli verja til hlut­fallslegrar hækkunar á lífeyrisréttindum sjóðfélaganna.  Skv. gögnum málsins virðist stefndi telja stefnanda eiga rétt til hagnaðarhlutdeildar en þá aðeins ef lífeyrir hans er óverðtryggður, eins og stefndi telur rétt. Komi fram í afstöðu stefnda að við verð­tryggingu lífeyrisins yrði stefnandi ekki fremur en þeir líf­eyr­is­þegar sem greiddu ið­gjöld til aldursmarka talinn eiga rétt á hlutdeild í hagnaðinum. Stefnandi byggir á því að allir sjóðfélagar eigi að njóta hlutdeildar í hagnaði sjóðsins skv. gr. 16.5. í reglu­gerð­inni og eigi sú hlutdeild að skiptast á þá hlut­falls­lega miðað við þau réttindi sem þeir hafa öðlast.

Stefnanda virðist stefndi byggja afstöðu sína helst á því að lífeyrisþegarnir njóti með 80% og síðan 90% verðtryggingu ríkari réttar en þeim hefði borið ef ávöxtun þeirra eigin framlaga í sjóðnum hefði verið reiknuð út. Ekki verði fallist á að orðalagið í gr. 16.5. „eftir tillögum tryggingafræðingsins” leyfi slík sjónarmið, enda hvergi í reglu­gerð­inni að finna stoð fyrir slíku. Stefnandi byggir á því að tryggingafræðingurinn hljóti við tillögugerð sína að vera bundinn af efnisreglu ákvæðisins um að hagnaði skuli verja til hlutfallslegrar hækkunar á líf­eyr­is­rétt­indum sjóðfélaganna. Hljóti þar að vera átt við alla, hvort sem þeir hafa hafið töku líf­eyris eða ekki.

Að mati stefnanda hefur stefndi beitt hann alveg sérstökum órétti með því að synja honum með öllu um verðtryggingu lífeyrisréttarins og gera hlut hans að því leyti miklu verri en annarra lífeyrisþega í sjóðnum. Virðist stefndi byggja þessa af­stöðu sína á orða­lagi í gr. 20.2. í bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar þar sem segir „og greiða í sjóð­inn”. Virðist túlkun stefnda sú að þeir sjóðfélagar sem hætt hafi að greiða iðgjöld áður en þeir náðu aldursmörkum, skuli alls engrar verðtryggingar njóta. Stefnandi byggir á því að þessi mismunum fái ekki með nokkru móti staðist. Hann bendir á að líf­eyr­isréttindi hans hjá stefnda séu eignarréttindi sem njóti auk annars stjórnskipulegrar verndar. Með því að gera hlut hans verri en annarra líf­eyr­isþega sé brotinn á honum réttur sem slíkrar verndar njóti skv. núgildandi ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 65. gr. hennar. Þessar meginreglur hljóti að orka á skýringu á reglugerð stefnda með þeim hætti að í henni verði ekki talin felast heimild til þessarar mismununar. Að því er tímabilið fram til 1991 snertir sé ljóst að hvergi var í reglugerð stefnda að finna nokkra heimild til að láta stefn­anda njóta verri kjara en aðrir nutu. Orðalagið „og greiða í sjóðinn”, getur aldrei falið í sér rétt til að mismuna mönnum aftur í tímann með þessum hætti. Þá séu engin efni til þess að túlka þau þannig að þau heimili mismunun til framtíðar. Jafn­vel þó sá skilningur yrði talinn felast í orðalaginu, fái ekki staðist að meiri hluti manna í félagi megi ákveða slíka skerðingu á eignarréttindum minni hluta þeirra mann sem í hlut eiga.

Stefnandi bendir á til viðbótar að gr. 20.1. fjalli um umreikning réttindanna og sé þar enginn fyrirvari gerður. Orðin „og greiða í sjóðinn” í gr. 20.2. standi þar í sam­bandi við ráðstöfun á varasjóðnum sem hafi ekkert að gera með grunnréttindin skv. gr. 20.1. Hafi ætlunin verið að láta þessi orð hafa þá afdrifaríku merkingu, sem stefndi vill vera láta, var auðvelt að taka það skýrt fram, t.d. með því að bæta við orðunum „fram að aldursmörkum”, en það var ekki gert.

Stefnandi bendir sérstaklega á það einkenni sameignarsjóða að þeir fela í sér sam­tryggingarkerfi sjóðfélaga þannig að réttindi þeirra til ellilífeyris ráðast af réttindaákvæðum reglugerðar en ekki sérgreindum framreikningi framlaga þeirra. Þannig geti einstakir sjóðfélagar notið mismunandi réttar eftir atvikum sem hafa ekk­ert með innborg­anir þeirra að gera. Fjármunir kunni að færast milli kynslóða í slíkum sjóðum, oftast frá þeim yngri til hinna eldri.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar trygg­ingafræðings og þykir ekki ástæða til að gera grein fyrir þeim nema kröfur stefnanda verði teknar til greina.

Stefnandi byggir kröfur sínar á ólögfestum reglum samninga- og kröfuréttar um skuld­bindingargildi samninga, í þessu tilviki reglugerð stefnda. Drátt­ar­vaxta­krafa er reist á III. kafla vaxtalaga og málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991. Þess er sérstaklega krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostn­aðar af starfi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ákveðið að hætta greiðslu iðgjalda í sjóðinn enda þótt honum væri kunnugt um þá skerðingu á réttindum sem það hefði í för með sér. Stefndi hafi varað stefnanda við þegar ósk hans var samþykkt en sú leið sem stefn­andi valdi vitandi vits var honum óhagstæð. Ákvæðið um verð­trygg­ing­una og 80% regl­una á ekki við um stefnanda nema að hluta og heimilt var að mati stefnda að kveða á um slíkt í reglugerð. Gilda sömu reglur um stefnanda og aðra sem eins er ástatt um og er honum því ekki mismunað með neinum hætti.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki tilkynnt sjóðnum að hann hyggist hefja töku lífeyris og þegar af þeirri ástæðu sé engin lífeyriskrafa stefn­anda á hendur sjóðnum gjaldfallin. Beri því að sýkna stefnda að svo stöddu eða vísa málinu frá dómi ex officio. Stefndi sé reiðubúinn að greiða stefnanda þann líf­eyri sem hann á rétt á samkvæmt reglum sjóðsins.  Reglugerðarákvæðin frá 1990 hafi verið samþykkt samhljóða á löglegum aðalfundi sjóðfélaga að undan­gengn­um faglega vönd­uð­um undirbúningi. Hafi sjóðfélögum verið kynntar ítarlega fyrir­hugaðar tillögur um reglu­gerðarbreytingar og áhrif þeirra, bæði með dreifingu skrif­legra gagna og á fundum. Af tillögunum og kynningu þeirra mátti stefnanda sem og öðrum sjóðfélögum vera ljóst í hverju breytingarnar voru fólgnar og hver áhrif þeirra voru á skyldur þeirra og réttindi. Breytingarnar hafi að öllu leyti sam­ræmst lögum og sjóðfélögum hafi verið heimilt að koma málum sínum fyrir á þann hátt sem þeir gerðu, meðal annars sam­kvæmt grundvallarreglunni um samn­ings­frelsi. Stefndi hafi ekki rýrt réttindi stefnanda né hyggst hann gera það. Þá heldur stefndi því fram að sjóðurinn hafi gætt þeirrar varkárni sem af honum mátti krefjast þegar hann varaði stefnanda við áhrifum þess að hætta að greiða iðgjöld til sjóðsins löngu fyrir aldursmörk.

Þær breytingar sem hér skipti máli séu að kveðið sé í fyrsta sinn á um verðtryggingu í reglugerð og skal hún miðast við lánskjaravísitölu, sbr. gr. 6.2. Hún hafði áður sam­kvæmt tímabundnum ákvörðunum aukaaðalfundar 1979 tekið mið af framfærsluvísi­tölu. Þá var kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði að réttindi sjóð­félaga skv. eldri reglu­gerð skyldu umreiknuð til réttinda samkvæmt endur­skoð­aðri reglugerð og verðtryggð upp frá því. Að lokum var ákveðið að stofna skyldi upp­bótarsjóð með hagnaði, sem nánar er skilgreindur í ákvæðinu, til þess eingöngu að hækka lífeyrisréttindi þeirra sjóð­félaga sem lægst réttindi hafa miðað við fulla verð­tryggingu iðgjalda þeirra frá upp­hafi og greiða í sjóðinn skv. reglugerð. Með upp­bótarsjóðnum skyldi halda 80% hlut­falli af fullri verðtryggingu lífeyrisréttar frá og með 1. janúar 1991 og mátti síðan hækka eða lækka skv. úttekt trygg­inga­stærð­fræð­ings. Um stefnanda fari óhjákvæmi­lega eftir öðrum reglum og sjónarmiðum þar sem hann tók ekki þátt í því að greiða ið­gjöld til sjóðsins sem var forsenda þess að unnt væri að beita verðtryggingu og 80% reglu.

Samkvæmt úttekt tryggingastærðfræðings á sjóðnum pr. 31. desember 1990 hafi eignir sjóðsins numið 1.798 milljónum króna og skiptust skuldbindingar þannig að vegna lífeyrisþega voru 163 milljónir króna, vegna uppsafnaðra réttinda annarra voru 1.533 milljónir króna og vegna uppbóta 102 milljónir. Stefndi telur felast í þessu að lagðar hafi verið til hliðar 163 milljónir króna til greiðslu á skuld­bind­ing­um við þá sem þegar hafa byrjað töku lífeyris og er þá miðað við 80% verð­trygg­ingu réttarins án tillits til þess að iðgjöld lífeyrisþeganna dugðu ekki til að standa undir þessum réttindum. Sérstaklega skilgreindur hagnaður að fjárhæð 102 milljónir króna sé lagður í upp­bóta­sjóð í eitt skipti fyrir öll til að unnt verði að tryggja að þeir sem hefji töku lífeyris á næstu árum og greiða til sjóðsins iðgjöld fái frá og með 1. janúar 1991 80% verð­tryggð­an lífeyri án tillits til þess hvort iðgjöld þeirra standi að fullu undir slíkri verð­trygg­ingu. Með þessum ráðstöfunum hafi verið framkvæmt uppgjör þar sem hagsmunir hinna eldri sjóðfélaga voru hafðir í fyrir­rúmi. Miðað við uppbyggingu sjóðsins var flutt fé frá hinum yngri sjóð­félög­um til hinna eldri fram yfir það sem reglur og grunn­hug­mynd sjóðsins gerði ráð fyrir. Grunnhugmynd sjóðsins sé sú að iðgjöld hvers sjóð­fél­aga standi undir líf­eyr­is­rétti hans án nokkurra millifærslna en þeirra sem leiða af áhættu­tryggingu í sam­trygg­ingarsjóði.

Stefndi byggir á því að orðalag gr. 20.1. í reglugerðinni gefi ekki tilefni til þeirrar túlk­unar að öllum sjóðfélögum sé heitið fullri eða 100% verðtryggingu á lífeyr­isréttindi sín. Þar sé einungis talað um umreikning réttinda og að þau skuli verðtryggja upp frá því á sama hátt og þau réttindi sem myndast frá og með 1. janúar 1991. Ekkert sé sagt um fulla verðtryggingu réttinda við umreikninginn og með samanburði á 1. og 2. mgr. 20. gr. komi í ljós að fyrirhugað sé að greiða þeim sem hefja töku lífeyris á næstunni 80% verðtryggðs lífeyris og að til þess þurfi að stofna sérstakan uppbótasjóð. Hvorki orða­lag reglugerðarbreytinganna, undir­bún­ing­ur eða síðari kynningar geta hafa vakið hjá stefnanda væntingar um betri rétt en hann nýtur.

Stefndi byggir á því að stefnandi eigi ekki annan og meiri rétt á þátttöku í hagn­aði sjóðsins, sem varð til eftir 1. janúar 1991, en hann nýtur nú. Stefnanda hafi verið ljóst eða átti að vera ljóst að fram fór uppgjör við gamla tímann og nið­ur­staðan varð sú að hann fékk þau réttindi sem hér hefur verið lýst. Stefnandi geti ekki leitað stuðnings fyrir kröfugerð sinni í gr. 16.5. né öðrum ákvæðum reglu­gerð­arinnar.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki hreyft athugasemdum við reglu­gerð­ar­breyt­inguna fyrr en árið 1995. Fram til þessa hafði engum athugsemdum verið hreyft að undanteknum athugasemdum í bréfi stefnanda dagsettu 22. janúar 1993.  Stefnandi hafi sætt sig við framkvæmdina í verki og með aðgerðarleysi sínu glatað rétti til að gera kröfur nú.

Stefndi byggir varakröfu sína á því að hluti af kröfu stefnanda, þ.e. fyrir tíma­bilið 1. maí 1991 til 31. desember 1993 sé fyrndur, sbr. 2.tl. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Forsendur og niðurstaða.

Upplýst er í máli þessu að hinn stefndi lífeyrissjóður varð fyrir áföllum af völd­um verð­bólgu eins og að framan er rakið. Til þess að tryggja hag sjóðfélaga var unnið að breyt­ingum á reglugerð sjóðsins og voru breytingarnar kynntar ítarlega á fundum og í frétta­bréfi. Var kveðið á um verðtryggingu samkvæmt láns­kjara­vísi­tölu í reglugerðinni og samkvæmt bráðabirgðaákvæði skyldu réttindi sjóðfélaga sam­kvæmt eldri reglugerð umreiknuð til réttinda samkvæmt endurskoðaðri reglu­gerð með nánar tilgreindum hætti. Stefnandi hóf að greiða iðgjöld til sjóðsins árið 1955 og greiddi hann samfellt til sjóðsins í 25 ár eða til 1. júlí 1979. Stefnandi varð 65 ára í apríl 1991 og komst þá á þann aldur að geta hafið töku lífeyris skv. ákvæðum reglugerðar sjóðsins, en hann hafði þá ekki greitt iðgjöld í 12 ár. Stefnandi hefur hins vegar ekki þegið lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst annars vegar um það hvort stefnandi eigi rétt á verð­trygg­ingu lífeyrisréttinda sinna og hins vegar um það hvort stefnandi eigi rétt á hlutdeild í hagnaði í samræmi við gr. 16.5 í reglugerð sjóðsins.

Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á því að þar sem stefnandi hafi enn ekki óskað eftir lífeyrisgreiðslum úr sjóðnum sé engin krafa á hendur stefnda gjaldfallin og beri því að sýkna að svo stöddu eða vísa málinu frá dómi ex officio. Ljóst er af gögnum máls­ins að stefnandi hefur leitað efir útreikningum stefnda á lífeyri sínum en hefur talið nið­ur­stöðuna með öllu óviðunandi. Stefnandi leitaði lög­manns­að­stoð­ar árið 1995 og í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda kom fram að stefndi taldi mán­aðarlegan lífeyri stefn­anda fyrir júlímánuð árið 1995 eiga að nema kr. 9.688. Þegar þetta er virt þykir sú stað­reynd að stefnandi hefur enn ekki óskað formlega eftir lífeyri úr sjóðnum ekki girða fyrir að stefnandi geti leitað úrlausnar um rétt­mæti kröfu sinnar á hendur stefnda.

Fallast ber á það með stefnanda að réttindi þau, sem hann ávann sér með greiðslu í sjóðinn, hafi notið verndar þágildandi 67. gr. stjórnarskrárinnar, nú 72. gr., sbr. 10. gr. stjórn­skipunarlaga nr. 97/1995. Með umræddum reglu­gerð­ar­breyt­ing­um var leitast við að verðtryggja lífeyrisréttindi sjóðfélaga en óumdeilt er að stefn­anda stóð ekki verð­trygg­ing til boða. Hafði stefnandi þó greitt í sjóðinn í 25 ár og áunnið sér 4/5 hluta fullra lífeyrisréttinda. Ber sérstaklega að hafa í huga að stefndi ráðstafaði framlögum stefnanda m.a. þannig að frá árinu 1979 voru greiddar upp­bætur á lífeyri sem námu 80% af verðtryggingu réttinda.  Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnandi hafi sætt sig við þann skilning stefnda að stefnandi eigi ekki rétt á verðtryggingu, enda hefur stefnandi enn ekki hafið töku lífeyris með þeim kjörum sem honum buðust. Þá ber að hafa í huga að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu líf­eyr­is­rétt­inda og starfsemi lífeyrissjóða, sem öðl­uð­ust gildi 1. júlí s.l., er óheimilt að kveða svo á í samþykktum að áunnin líf­eyr­is­rétt­indi skerðist eða falli niður ef sjóðfélagi hættir ið­gjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs.

Þegar framanritað er virt verður að telja að stefnda hafi verið óheimilt að skipa málum stefnanda svo að hann ætti engan rétt til verðtryggingar lífeyrisréttinda sinna.

Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi eigi rétt til fullrar verðtryggingar líf­eyr­is­réttinda sinna. Það er álit dómsins að stefnandi eigi ekki að njóta lakari kjara að því er verð­tryggingu varðar en þeir sjóðfélagar sem áunnu sér réttindi fyrir reglu­gerð­ar­breyt­ingu, hófu töku lífeyris eftir breytinguna og greiddu í sjóðinn fram að ald­ursmörkum. Hafa þeir notið 80% verðtryggingar fram á mitt ár 1996, en síðan 90% samkvæmt ákvörð­un sjóðsins. Ekki verður fallist á að bráðabirgðaákvæði 20. gr. reglugerðarinnar verði skilið svo að þeir sjóðfélagar eigi rétt á 100% verð­trygg­ingu lífeyrisréttinda sinna. Ber að skilja ákvæði gr. 20.2. svo að lífeyrisréttur fyrir 1990 skuli verðtryggður sam­kvæmt 80% reglunni, sem var í raun staðfesting á þeirri ákvörðun aðalfundar frá árinu 1979 að greiða uppbætur á lífeyrinn sem næmu 80% af verðtryggingu réttinda. Verður því fallist á að stefnandi eigi rétt á 80% verðtryggingu til 30. júní 1996 en 90% verð­trygg­ingu frá 1. júlí á sama ári.

Samkvæmt gr. 16.5. í reglugerð stefnda skal hagnaði varið til hlutfallslegrar hækk­unar á lífeyrisréttindum sjóðfélaganna eftir tillögum tryggingafræðings. Að mati dóms­ins ber að skilja þetta ákvæði svo að allir sjóðfélagar, þar með taldir þeir sem falla undir bráða­birgðaákvæði 20. gr., eigi rétt á hlutdeild í hagnaði og skal aukn­ing réttinda vera hlut­fallsleg. Verður því fallist á að stefnandi eigi rétt á hlut­deild í úthlutuðum hagnaði hjá stefnda frá árinu 1991 og framvegis.

Stefnandi byggir fjárkröfur sínar á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar, trygg­inga­fræðings. Er þar við það miðað að stefnandi hafi frestað töku lífeyris úr sjóðnum um 3 ár, þ.e. til maí 1994, en stefnandi varð 68 ára gamall í apríl á því ári. Sam­kvæmt gr. 6.3. í reglugerð sjóðsins er sjóðfélaga heimilt að fresta um eitt ár í senn allt til 75 ára aldurs að taka lífeyri og hækkar lífeyririnn þá samkvæmt reikni­regl­um í töflum reglu­gerð­arinnar. Þar sem stefnandi hefur ekki enn þá hafið töku líf­eyris úr sjóðnum og getur enn aukið réttindi sín með því að fresta lífeyristöku, verður að telja að sá tími sé ókom­inn að stefndi verði krafinn um efndir á greiðslu­skyldu sinni. Ber því með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 að sýkna stefnda að svo stöddu af fjárkröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Stefndi, Lífeyrissjóður verkfræðinga, skal vera sýkn að svo stöddu af fjár­kröf­um stefnanda, Birgis G. Frímannssonar.

Viðurkenndur er réttur stefnanda til 80% verðtryggingar lífeyrisréttinda sinna til 30. júní 1996 en 90% frá 1. júlí á sama ári.

Viðurkenndur er réttur stefnanda til hlutdeildar í úthlutuðum hagnaði frá árinu 1991 og framvegis.

Málskostnaður fellur niður.