Hæstiréttur íslands
Mál nr. 407/2006
Lykilorð
- Málsástæða
- Kærumál
- Útburðargerð
|
|
Fimmtudaginn 17. ágúst 2006. |
|
Nr. 407/2006. |
Flugmálastjórn Íslands(Kristján Þorbergsson hrl.) gegn Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf. (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Útburðargerð. Málsástæður.
FÍ krafðist þess að HJ og FHJ ehf. yrðu með beinni aðfarargerð bornir út úr tilteknu flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Í héraði var ekki fallist á að sýnt hefði verið fram á að FÍ ætti þann rétt yfir skýlinu að hún gæti fengið HJ og FHJ ehf. borna út úr því. FÍ lagði fram fjölda nýrra gagna fyrir Hæstarétt til stuðnings kröfu sinni. Var sú málsástæða, sem þessum gögnum var ætlað að skjóta stoðum undir, talin of seint fram komin fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og dómur lagður á málið án tillits til þeirra. Héraðsdómurinn var staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá varnaraðila borna með beinni aðfarargerð út úr flugskýli á Reykjavíkurflugvelli, nefnt „skýli 7“ og kennt við nafn varnaraðilans Helga Jónssonar, með nánar tilgreindum auðkennum í landskrá fasteigna. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimiluð aðfarargerðin og varnaraðilum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði kveðst sóknaraðili vera eigandi flugskýlisins, sem áður er getið, en varnaraðilar hafi haft not af því samkvæmt munnlegum leigusamningi. Hann hafi sagt þeim afnotum upp með eins árs fyrirvara með tilkynningu, sem birt hafi verið fyrir varnaraðilunum Helga Jónssyni 18. febrúar 2005. Að liðnum uppsagnarfresti hafi þess verið krafist með bréfi til varnaraðilanna 28. mars 2006 að þeir rýmdu flugskýlið þegar í stað, en við því hafi þeir ekki orðið. Með beiðni 11. maí 2006 leitaði sóknaraðili heimildar Héraðsdóms Reykjavíkur til að fá varnaraðilana borna út úr flugskýlinu. Í hinum kærða úrskurði var þeirri beiðni hafnað með þeim rökum að enginn samningur hafi verið lagður fram um að varnaraðilarnir hafi tekið flugskýlið á leigu og lægju heldur ekki fyrir viðhlítandi gögn um eignarrétt að því eða að sóknaraðili hefði á annan hátt þau réttindi yfir því að hann gæti krafist útburðargerðar til að víkja varnaraðilunum af eigninni.
Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili lagt fram fjölda nýrra gagna, sem hann telur sýna fram á að varnaraðilinn Helgi hafi í ýmsum ráðstöfunum á árabilinu frá 1969 til 1994 byggt á því að sóknaraðili nyti eignarréttar að flugskýlinu. Þessari málsástæðu var ekki hreyft fyrir héraðsdómi og er hún of seint fram komin fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum, sem hér á við samkvæmt 4. mgr. 150. gr. sömu laga og 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Verður því að fella dóm á málið án tillits til þessara nýju gagna.
Að framangreindu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Flugmálastjórn Íslands, greiði varnaraðilum, Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf., samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2006.
I
Málið
barst dóminum 11. maí sl. og var þingfest 2. júní sl. Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 3. júlí
sl.
Sóknaraðili
er Flugmálastjórn Íslands, Reykjavíkurflugvelli.
Varnaraðilar
eru Helgi Jónsson, Bauganesi 44, Reykjavík og Flugskóli Helga Jónssonar,
Reykjavíkurflugvelli.
Sóknaraðili
krefst þess að varnaraðilar verði, ásamt öllu sem þeim tilheyrir, bornir út úr
flugskýli (“skýli 7”), kennt við nafn varnaraðila Helga Jónssonar, auðkennt
samkvæmt Landsskrá fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins sem FMR 202-9310
(auðkenni 202-9327), merkt 25 0101, skráð 525 fermetrar á Reykjavíkurflugvelli,
og sóknaraðila fengin umráð eignarinnar.
Þá er krafist málskostnaðar og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Varnaraðili
krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sér úrskurðaður
málskostnaður.
II
Sóknaraðili
kveður málavexti vera þá að hann sé skráður eigandi að framangreindu flugskýli
en varnaraðilar hafi haft afnot af því samkvæmt munnlegum samningi. Með bréfi 8. febrúar 2005, sem birt var
varnaraðilum 18. sama mánaðar, hafi þeim verið sagt upp afnotum af eigninni og
þess krafist að þeir rýmdu hana eigi síðar en ári eftir móttöku bréfsins. Með bréfi 28. mars sl. hafi þessi krafa
verið áréttuð en varnaraðilar hafi ekki orðið við henni.
Varnaraðilar
kveðast hafa keypt hús á Reykjavíkurflugvelli 1969 og rekið þar flugskóla. Við þessa starfsemi hafi þeir haft afnot af
greindu flugskýli nr. 7. Um eignarhald
að því liggi ekki fyrir nein gögn en samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni sé það
talið tilheyra Flugskóla Helga Jónssonar.
Enginn samningur, hvorki munnlegur né skriflegur, sé á milli aðila
málsins um leiguafnot af skýlinu. Þá
hafi varnaraðilum aldrei borist bréfið frá 8. febrúar 2005 og heldur ekki
bréfið frá 28. mars sl., enda hafi sá sem við því tók aldrei verið starfsmaður
varnaraðila.
III
Sóknaraðili
byggir á því að íslenska ríkið eigi framangreint flugskýli og hann fari með
umsýslu þess fyrir hönd ríkisins.
Varnaraðilar hafi haft afnot af skýlinu samkvæmt samningi sem hafi verið
sagt upp með eins árs fyrirvara, sbr. 3. tl. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. sömu laga teljist
uppsagnarfrestur hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send og
skuli leigjandi hafa lokið rýmingu og frágangi hins leigða eigi síðar en kl.
13.00 næsta dag eftir að uppsagnarfresti hafi lokið. Varnaraðilar eigi því að vera búnir að rýma eignina, en þar eð
þeir hafi ekki gert það sé krafist útburðar á grundvelli 78. gr. laga um aðför
nr. 90/1989.
Varnaraðilar
byggja á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að íslenska ríkið eigi
flugskýlið, eða að minnsta kosti sé eignarhaldið verulegum vafa
undirorpið. Réttur sóknaraðila sé ekki
svo skýlaus sem vera þurfi til að hægt sé að fá varnaraðila borna út, sbr. 78.
gr. aðfararlaga. Þá hafi sóknaraðili
ekki staðið rétt að uppsögninni, eins og lýst var, og heldur ekki framfylgt
henni innan tilskilins frests, sbr. 59. gr. húsaleigulaga.
IV
Af
gögnum málsins má ráða að varnaraðili Helgi og aðilar tengdir honum hafi lengi
haft afnot af flugskýlinu sem um ræðir.
Á myndum sést að nafn hans er ritað stórum stöfum framan á skýlið. Þá er því ómótmælt að hann eða aðilar
tengdir honum hafi lengi annast viðhald flugskýlisins. Enginn skriflegur samningur hefur verið
lagður fram sem sýnir að varnaraðilar hafi tekið skýlið á leigu. Þá hafa heldur ekki verið lögð fram önnur
gögn um eignarhald að því en ljósrit frá Fasteignamati ríkisins þar sem
Fjársýsla ríkisins er sögð eiga Flugskýli Helga Jóns. Í ljósritinu er þessi eign merkt með sömu táknum og sóknaraðili
tilgreinir í kröfugerð sinni.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga getur maður, sem með ólögmætum
hætti er aftrað að neyta réttinda sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós að
sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður eftir 83. gr.
laganna, krafist úrskurðar um að öðrum manni verði gert að víkja af fasteign. Í 83. gr. er nánar tiltekið hvaða gagna er
heimilt að afla og samkvæmt henni skal aðfarargerð að jafnaði hafnað ef
varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra
sönnunargagna sem heimilt er að afla.
Eins og rakið var hér að framan er með öllu óljóst hver á umrætt
flugskýli en skrár Fasteignamats ríkisins eru ekki fullnægjandi skilríki um
eignarrétt. Þá hefur heldur ekki með
öðrum hætti verið sýnt fram á að sóknaraðili eigi þau réttindi yfir skýlinu að
hann eigi rétt á að fá varnaraðila borna út úr því. Kröfu sóknaraðila er því hafnað og skal hann greiða varnaraðilum
sameiginlega 150.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur
Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kröfu
sóknaraðila, Flugmálastjórnar Íslands, er hafnað og skal sóknaraðili greiða
varnaraðilum, Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf., sameiginlega
150.000 krónur í málskostnað.