Hæstiréttur íslands
Mál nr. 402/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 13. júní 2012. |
|
Nr. 402/2012.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júlí 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurðurinn verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2012.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að í morgun 8. júní kl. 10.00. hafi lögreglu verið tilkynnt um að bifreiðin [...] væri á Suðurlandsvegi á afleggjaranum við Bolöldu en henni hefði verið stolið skömmu áður. Á leiðinni á vettvang hafi lögregla fengið tilkynningu um að bifreiðin hafi komið á bensínstöð Olís við Suðurlandsveg og tekið eldsneyti en ökumaður ekið á brott án þess að greiða. Lögregla hafi farið á bensínstöðina og skoðað upptökur í öryggismyndavél og þekkt á þeim kærða X sem ökumann bifreiðarinnar. Lögregla hafi svo komið að bifreiðinni mannlausri við Suðurlandsveg.
Um kl. 11 hafi verið tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við [...] þar sem aðili hafi reynt að skríða inn um gluggann á íbúð 104 en forðað sér er hann hafi orðið var við tilkynnanda.
Hafi strax vaknað grunur um að þarna væri kærði á ferð. Lögregla hafi því farið að [...] til að svipast um. Er lögregla hafi verið að kanna svæðið hafi komið tilkynning um að verið væri að brjótast inn að [...] íbúð 105. Lögregla hafi þegar haldið á vettvang. Skömmu síðar hafi tveir aðilar verið handteknir inn í íbúðinni, A og B, en þeir séu félagar kærða. Lögreglumenn hafi farið út úr íbúðinni til að kanna með kærða og séð hann þá standa í garði nálægt. Lögreglumaður hafi svo náð kærða á hlaupum og handtekið hann. Á honum hafi fundist lyf ávísuð á íbúa að [...], íbúð 105, sem brotist hafði verið inn í. Þá hafi fundist á honum peningar.
Er lögregla hafi verið á vettvangi hafi maður komið að og tilkynnt um innbrot að [...]. Þar hafi verið farið inn um glugga og hafi verið búið að róta mikið í íbúðinni og stela talsverðum verðmætum.
Kærði hafi í skýrslutöku hjá lögreglu játað nytjastuld, bensíngripdeild, fíkniefnaakstur og innbrot og þjófnað að [...]. Þá hafi hann ekki neitað að hafa brotist inn að [...] og hafa sagt að það geti vel verið að hann hafi farið þar inn og tekið þau lyf sem á honum hafi fundist og verið úr íbúðinni.
Kærði sé nú undir sterkum grun um þjófnað ,nytjastuld, bensíngripdeild og fíkniefnaakstur, sbr. 244. gr. og eftir atvikum, sbr. 20. gr., 245. gr. og 259. gr. alm. hgl. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.
Kærði sé einnig sterklega grunaður um eftirgreind brot:
Við húsleit í gærkvöldi á heimili kærða að [...] hafi fundist reiðhjálmar, sem raktir hafa verið til innbrota frá því nú í júní. Þá hafi einnig fundist tölva, flakkari o.fl. munir sem grunur leiki á að séu þýfi en eftir eigi að rekja til innbrota.
Kærði sé einnig grunaður um innbrot og þjófnað hinn 30. maí sl. að [...], þar sem bíllyklum hafi verið stolið úr bifreið sem hafi verið inn í bílskúr. Þar sé kærði undir sterkum grun um innbrot, með því að hafa farið heimildarlaust inn í bílskúr að [...] og stolið húslyklum, en búið hafi verið að róta mikið farþegamegin í bifreiðinni. Kærði hafi verið handtekinn í kjölfarið vegna grunsamlegra mannaferða skammt þar frá og hafi fundist á honum umræddir lyklar jafnframt sem fingraför hans hafi greinst á vettvangi. Hann hafi neitað aðild að innbrotinu, en kærði sé sterklega grunaður um þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. alm. hgl.
Kærði sé jafnframt undir rökstuddum grun um fíkniefna- og sviptingarakstur, sem hér greinir:
Kærði sé grunaður um fíkniefnaakstur og sviptingarakstur hinn 3. júní sl. en þar hafi kærði verið tekinn í akstri á bifreiðinni [...] við Korputorg í Reykjavík undir áhrifum fíkniefna, en kærði hafi játað að hafa neytt kannabis skömmu áður.
Kærði sé grunaður um fíkniefna- og sviptingarakstur hinn 19. maí og fíkniefna- og sviptingarakstur hinn 2. apríl sl. sbr. og mál lögreglunnar á Suðurnesjum frá 10. nóvember sl. vegna sömu brota. Þá hafi fundist þýfi úr innbroti í [...].
Kærði sé einnig undir rökstuddum grun um eftirtalin hegningarlagabrot sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum, líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll, hinn 29. apríl sl., þar sem kærði sé grunaður um húsbrot hinn 29. apríl sl. og líkamsárás með því að hafa ruðst ásamt fleiri aðilum inn í íbúð að [...] og ráðist á húsráðanda bareflum auk þess að eyðileggja innanstokksmuni.
Kærði sé síbrotamaður og hafi hann hinn 13. apríl sl. fengið 14. mánaða fangelsisdóm óskilorðsbundinn við héraðsdóm Suðurlands fyrir rán. Hann hafi nú áfrýjað þeim dómi. Kærði hafi hlotið 11 refsidóma frá árinu 2008 fyrir ýmis auðgunarbrot, m.a. rán og það sé mat lögreglu að ný afbrotahrina sé hafin og nauðsynlegt sé fyrir lögreglu að stöðva frekari afbrot og reyna ljúka málum kærða.
Kærði sé nú undir sterkum grun um þjófnað með því að hafa brotist inn að [...], [...] og [...] í Reykjavík auk þess sé hann undir sterkum grun um fleiri þjófnaðarbrot, nytjastuld, bensíngripdeild o.fl., eins og rakið sé að framan. Brotaferill kærða hafi verið samfelldur frá því að dómur féll hinn 13. apríl sl. en kærði hafi verið handtekinn við innbrot um hádegisbil í gær í annarlegu ástandi. Við rannsókn mála kærða hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu vímuefna.
Með vísan til brotaferils kærða sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og það sé brýnt fyrir lögreglu að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans verði lokið hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir héraðsdómi. Það sé mat lögreglu að sakborningur muni ekki fá skilorðsbundinn dóm, vegna fjölda málanna og alvarleika brotanna.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88,2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Eins og að framan er rakið hefur kærði nýverið verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir ránsbrot. Þá liggur fyrir að lögregla hefur til meðferðar mál á hendur kærða vegna gruns um aðild að fjölda þjófnaðarbrota, nytjastuld og gripdeild. Er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Í þessu ljósi og með hliðsjón af sakarferli kærða verður að ætla að hann muni halda áfram brotum ef hann verður leystur úr haldi. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt. Verður því krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald kærða tekin til greina. Ekki er efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 6. júlí 2012, kl. 16.00.