Hæstiréttur íslands
Mál nr. 722/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. október 2017 þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi þeirra varnaraðila sem hafa látið málið til sín taka.
Varnaraðilarnir B, C, D, E og F krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði andaðist A 30. apríl 2017, en þá hafði stefna til héraðsdóms verið birt fyrir nokkrum af varnaraðilum. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 tekur dánarbú við aðild máls ef sóknaraðili deyr eftir að það er höfðað og réttindi, sem dómkrafan varðar, áskotnast því. Að öðrum kosti fellur málið niður. Þar sem stefna hafði ekki verið birt öllum varnaraðilum þegar A andaðist var málinu að réttu lagi vísað frá héraðsdómi í stað þess að fella það niður. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, enda hefur sóknaraðili engin haldbær rök fært fyrir því að lög geti staðið til þess að hann fái haldið áfram rekstri málsins eftir andlát A eða að aðrir geti tekið við rekstri málsins í sinn stað.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilunum, sem hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti, kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilunum B, C, D, E og F samtals 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 31. október 2017
Mál þetta var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu sumra stefndu þann 23. október sl. Það var höfðað 28. apríl sl. Málið höfðaði A, [...], Reykjavík. Hún lést þann 30. apríl sl. Kveðst dánarbú hennar hafa tekið við rekstri málsins. Verður það hér eftir kallað stefnandi.
Stefndu eru I, [...], Reykjavík, H, [...], Hörgársveit, G, [...], Akureyri, J, [...], Akureyri, E, [...], Akureyri, K, [...], Grenivík, B, [...], Akureyri, D, [...] , Grenivík, C, [...], Akureyri og F, [...], Akureyri.
Einungis stefndu B, C, D, E og F hafa látið málið til sín taka. Verða þau kölluð stefndu hér á eftir, nema sérstaklega sé tekið fram að átt sé við öll stefndu.
Stefndu krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi og að málskostnaður verði felldur niður.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og að tekið verði tillit til þessa þáttar við ákvörðun málskostnaðar.
Málið er höfðað til viðurkenningar á því að L, sem nú er látinn, hafi verið faðir M. M er einnig látinn. Móðir hans var A, upphaflegur stefnandi í málinu. Er málið höfðað gegn lögerfingjum L heitins, þeim sem gengju M heitnum jafnhliða eða næst að erfðum.
Þegar hefur verið viðurkennt með dómi að L, sem einnig er í tölu látinna og í öndverðu feðraði M heitinn, hafi ekki verið faðir hans. Einnig liggur fyrir að samkvæmt mannerfðafræðilegri rannsókn eru meiri en 99% líkur á að M hafi verið sonur L.
Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 tekur dánarbú sóknaraðila við aðild máls, ef sóknaraðili deyr eftir að mál er höfðað, en áður en það er tekið til dóms, að því tilskildu að réttindi sem dómkrafan varðar áskotnist dánarbúinu. Að öðrum kosti fellur málið niður, en dæma má dánarbúið til greiðslu málskostnaðar. Er byggt á því af hálfu stefndu að hvorugt skilyrðið sé uppfyllt, málið hafi ekki verið höfðað áður en sóknaraðili dó og að réttindi sem dómkrafan varðar áskotnist ekki dánarbúinu.
Í 10. gr. laga nr. 76/2003 eru tæmandi taldir þeir sem geta verið stefnendur faðernismáls. Er sérstaklega tekið fram að hafi móðir barns höfðað slíkt mál, en andast áður en því lyki, geti sá sem við forsjá barns taki haldið málinu áfram.
Í 2. gr. laga nr. 20/1991 segir að þegar maður sé látinn taki dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann hafi þá átt eða notið, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna.
Af þessum ákvæðum leiðir glögglega að dánarbú A getur ekki tekið við aðild þessa máls til sóknar. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa frá dómi þeim kröfum sem það hefur uppi. Málskostnaður verður felldur niður.
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.