Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/1998
Lykilorð
- Ærumeiðingar
- Tjáningarfrelsi
- Sýkna
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 1999. |
|
Nr. 337/1998. |
Jón Björnsson (Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Jóni Kjartanssyni (Helgi Jóhannesson hrl.) og gagnsök |
Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Sýkna.
JK eignaðist jörð í hreppnum R árið 1993, en deilt hafði verið í hreppnum á undanförnum árum um lagningu vegar í landi jarðar hans. JB, sem var á öndverðri skoðun við JK um vegarlagninguna, sótti hreppsnefndarfund í R sem varamaður á árinu 1997. Þar beindi oddviti hreppsins spurningu til hans varðandi afskipti hans af málum JK og var svar hans fært til bókar. Krafðist JK þess að ummælin yrðu dæmd ómerk þar sem í þeim fælist ærumeiðandi aðdróttanir í sinn garð. Þá krafðist hann að JB yrði refsað svo og greiðslu kostnaðar vegna birtingar dómsins í fjölmiðlum auk þess sem hann krafðist miskabóta. Talið var sannað að ummælin hafi verið viðhöfð, en hvorki var talið að í þeim fælist refsiverð móðgun eða aðdróttun né að nægileg efni væru til að dæma þau ómerk. Var JB sýknaður af kröfum JK.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 1998. Hann krefst sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 30. október 1998. Hann krefst þess að eftirfarandi ummæli aðaláfrýjanda á fundi hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps 1. júlí 1997, sem rakin eru í a. og b. lið kröfugerðar hans í héraði, og færð voru til bókar í fundargerðarbók hreppsnefndar 16. sama mánaðar, verði dæmd ómerk:
a. „Ég fékk grun þegar Jón Kjartansson hóf endurbyggingu gamla fjóssins í stað þess að byggja nýtt. Mig grunaði að Jón Kjartansson væri ekki eins stöndugur og hann vildi vera láta og taldi hann hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Hafi maðurinn átt peninga þá færi hann ekki að gera við svona gamalt fjós. Tilgangur minn með því að verða mér úti um veðbókarvottorð fyrir Stóra-Kropp er svipaður og hjá blaðamönnum þegar þeir eru að fletta ofan af mönnum sem eru í svona fjárglæfrastarfsemi og fékk ég grun minn staðfestan við athugun á veðbókarvottorðinu.“
b. „Það skiptir engu máli fyrir búskap á Stóra-Kroppi hvort þar kemur vegur eða ekki. Þessi spilaborg hrynur.“
Einnig krefst hann þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til refsingar fyrir ummælin og að hann verði dæmdur til greiða 200.000 krónur til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms í heild í opinberum blöðum. Ennfremur krefst hann miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur auk dráttarvaxta frá þingfestingardegi málsins til greiðsludags. Loks krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem greinir í héraðsdómi hafa aðilar máls þessa verið andstæðrar skoðunar um fyrirhugaða vegarlagningu í landi jarðar gagnáfrýjanda Stóra-Kropps í Borgarfirði. Á fundi hreppsnefndar Reykholtsdalshrepps 1. júlí 1997 beindi Gunnar Bjarnason oddviti spurningu til aðaláfrýjanda um hvers vegna hann hefði aflað veðbókarvottorðs fyrir jörðinni, en ekki er deilt um að það hafi aðaláfrýjandi gert um hálfu öðru ári áður. Í fundargerð var eftirfarandi bókað: „Jón svaraði á þá leið að hann vildi fá vitneskju um hvað stæði í því, vegna þess að hann grunaði að um offjárfestingu væri að ræða þegar farið var í framkvæmdir á Stóra-Kroppi.”
Í héraðsdómi segir einnig frá því, að á hreppsnefndarfundi 16. júlí 1997 hafi oddvitinn komið með blað, sem hann hafði ritað á drög að bókun, sem hann óskaði eftir að yrði færð í fundargerðarbók. Taldi hann hana vera réttari en þá, sem færð hafði verið til bókar 1. júlí. Eru öll hin umstefndu ummæli í síðari bókuninni. Á fundi hreppsnefndar 26. ágúst 1997 gerði aðaláfrýjandi athugasemd og sagði að bókunin frá 16. júlí hefði ekki verið orðrétt eftir sér höfð. Fyrir dómi kvað aðaláfrýjandi bókunina frá 1. júlí og hin umstefndu ummæli vera efnislega rétt eftir sér höfð, en ekki orðrétt. Fyrir Hæstarétti hélt aðaláfrýjandi því fram, að hann hefði ekki notað orðið fjárglæframaður um gagnáfrýjanda og það væri ósannað.
Í framburði gagnáfrýjanda og eins vitnis fyrir héraðsdómi kom fram að aðaláfrýjandi undirritaði fyrrnefnda bókun á fundinum 16. júlí með einni athugasemd um atriði, sem ekki er hér til úrlausnar. Verður ráðið af gögnum málsins, að bókunin hafi þá strax verið leiðrétt um það atriði. Lögmaður gagnáfrýjanda í héraði krafði aðaláfrýjanda skýringa á ummælunum í bréfi 18. júlí 1997, sem aðaláfrýjandi svaraði 7. ágúst sama árs. Aðaláfrýjandi gerði þar enga tilraun til að vefengja að ummæli sín væru rétt eftir höfð eins og þau birtust í bókuninni. Að þessu virtu verður ekki fallist á þá varnarástæðu að ósannað sé að ummælin hafi verið viðhöfð.
II.
Aðaláfrýjandi bendir á, að gagnáfrýjandi hafi ítrekað látið í ljós í fjölmiðlum, að ef ráðagerðir um tiltekið vegarstæði nærri Stóra-Kroppi næðu fram að ganga, myndi hann neyðast til að hætta búskap þar. Hefur aðaláfrýjandi skýrt umdeild ummæli svo, að með þeim hafi hann verið að vísa til þess að jörðin Stóri-Kroppur væri veðsett umfram það, sem álíta mætti að búrekstur þar þyldi. Hafi hann með veðbókarvottorðinu fengið staðfest, að vafasamt væri að fullyrðingar gagnáfrýjanda um ástæður þess að búskapur kynni að leggjast af á Stóra-Kroppi stæðust.
Með orðinu „fjárglæfrastarfsemi” þarf ekki að vera átt við refsiverða eða óheiðarlega starfsemi eða hátterni, sem skaðar aðra en fjárglæframanninn sjálfan. Verður ekki fallist á að aðaláfrýjandi hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með þeim ummælum. Sama á við um orðin „að hafa óhreint mjöl í pokahorninu”, en það kemur í textanum í beinu framhaldi af þeim orðum, að gagnáfrýjandi væri ekki eins stöndugur og hann vildi vera láta. Ekki eru efni til að fjalla sérstaklega um önnur einstök orð eða orðasambönd í hinum umdeilda texta.
Þótt hin átöldu ummæli séu ekki kurteisleg og með þeim sé deilt á gagnáfrýjanda, verður ekki talið, þegar ofangreindar bókanir frá fundunum 1. og 16. júlí eru virtar í heild, að í þeim felist refsiverð móðgun eða aðdróttun, sbr. 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki eru heldur nægileg efni til að dæma ummælin ómerk. Verður aðaláfrýjandi sýknaður af öllum kröfum gagnáfrýjanda.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Jón Björnsson, er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Jóns Kjartanssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Héraðsdómur Vesturlands 7. júlí 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 4. júní sl., er höfðað af Jóni Kjartanssyni, kt. 151149-2789, Stóra-Kroppi, Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu á hendur Jóni Björnssyni, kt. 120655-2809, Deildartungu 1a, Reykholtsdalshreppi, Borgarfjarðarsýslu, með stefnu birtri 8. desember 1997 og þingfestri 16. desember 1997.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: „að eftirgreind ummæli stefnda, er hann hafði uppi á hreppsnefndarfundi Reykholtsdalshrepps hinn 1. júlí 1997 og færð voru til bókar í fundargerðarbók hreppsnefndar hinn 17. júlí 1997 verði dæmd ómerk:
a.„Ég fékk grun þegar Jón Kjartansson hóf endurbyggingu gamla fjóssins í stað þess að byggja nýtt. Mig grunaði að Jón Kjartansson væri ekki eins stöndugur og hann vildi vera láta og taldi hann hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Hafi maðurinn átt peninga þá færi hann ekki að gera við svo gamalt fjós. Tilgangur minn að verða mér út um veðbókarvottorð fyrir Stóra-Kroppi er svipaður og hjá blaðamönnum þegar þeir eru að fletta ofan af mönnum sem eru í svona fjárglæfrastarfsemi og fékk ég grun minn staðfestan við athugun á veðbókarvottorðinu”
b.„Það skiptir ekki máli fyrir búskap á Stóra-Kroppi hvort þar kemur vegur eða ekki. Þessi spilaborg hrynur.”
2. Að stefndi verði dæmdur til refsingar fyrir greind ummæli.
3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða kr. 200.000.- til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms í heild í opinberum blöðum.
4. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 500.000.- í miskabætur auk dráttarvaxta frá þingfestingardegi máls þessa til greiðsludags.
5. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.”
Stefndi gerir þær dómkröfur, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Þá krefst stefndi þess að málflutningsþóknun beri virðisaukaskatt samkvæmt lögum nr. 50/1988.
II.
Stefnandi eignaðist jörðina Stóra-Kropp árið 1993. Um nokkurt skeið hafa verið skiptar skoðanir meðal íbúa Reykholtsdalshrepps um fyrirhugaða lagningu Borgarfjarðarbrautar í hreppnum. Hafa stefnandi og stefndi verið andstæðrar skoðunar í þeim efnum. Stefnandi hefur lýst þeirri skoðun sinni, að ómögulegt verði að halda áfram búskap, sem hann nú stundar á jörðinni Stóra-Kroppi, ef þjóðvegur verði lagður yfir tún jarðarinnar en stefndi hefur lagt áherslu á að sá kostur verði valinn. Miklar umræður og deilur hafa orðið um vegarlagninguna meðal íbúa hreppsins og hafa fjölmiðlar flutt fréttir af þeim.
Stefndi er varamaður í hreppsnefnd Reykholtsdalshrepps. Hinn 1. júlí 1997 sótti hann hreppsnefndarfund. Á fundinum beindi Gunnar Bjarnason, oddviti, þeirri spurningu til stefnda hver hefði verið tilgangur hans með því að afla sér veðbókarvottorðs fyrir jörðinni Stóra-Kroppi í janúar 1996 og óskaði hann eftir að svar stefnda yrði bókað. Í fundargerð frá hreppsnefndarfundinum var bókað eftirfarandi: „Jón svaraði á þá leið að hann vildi fá vitneskju um hvað stæði í því, vegna þess að hann grunaði að um offjárfestingu væri að ræða þegar farið var í framkvæmdir á Stóra-Kroppi.”
Á hreppsnefndarfundi 16. júlí 1997 gerði Gunnar Bjarnason athugasemdir við bókun á svari stefnda á fundinum 1. júlí. Hafði Gunnar meðferðis eftirfarandi skriflega bókun, sem hann óskaði eftir að væri færð til bókar; „Ég fékk grun þegar Jón Kjartansson hóf endurbyggingu gamla fjóssins í stað þess að byggja nýtt. Mig grunaði að Jón Kjartansson væri ekki eins stöndugur og hann vildi vera láta og taldi hann hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Hafði maðurinn átt peninga þá færi hann ekki að gera við svona gamalt fjós. Tilgangur minn með því að verða mér úti um veðbókarvottorð fyrir Stóra-Kropp er svipaður og hjá blaðamönnum þegar þeir eru að fletta ofan af mönnum sem eru í svona fjárglæfrastarfsemi og fékk ég grun minn staðfestan við athugun á veðbókarvottorðinu. Ég fór ekki með veðbókarvottorðið um sveitir. Það skiptir engu máli fyrir búskap á Stóra-Kroppi hvort þar kemur vegur eða ekki. Þessi spilaborg hrynur” Jafnframt var bókað: „Jón Björnsson segir þetta rétt eftir sér haft og gerir ekki athugasemdir við bókunina.”
Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf hinn 18. júlí 1997 og óskaði eftir útskýringum á fyrrgreindum ummælum. Stefndi svaraði bréfi þessu hinn 7. ágúst 1997.
Á hreppsnefndarfundi 26. ágúst 1997 var fundargerð frá fundinum 1. júlí lesin og samþykkt með eftirfarandi athugasemd frá stefnda:„Jón Björnsson gerir athugasemd við að bókun frá 16. júlí sé ekki orðrétt eftir sér höfð frekar en það sem Sigurður skrifaði í fundargerðina 1. júlí ´97. Jón spyr Gunnar af hverju hann hafi ekki skrifað orðrétt eftir segulbandsupptökunni. Gunnar svaraði því til að hann hafi ekki haft segulbandsupptöku af fundinum undir höndum”.
III.
Stefnandi byggir kröfur sínar um ómerkingu ummæla og refsikröfu á því að í hinum umstefndu ummælum felist ærumeiðandi aðdróttanir í sinn garð. Ummælin séu höfð frammi gegn betri vitund og beinlínis í því skyni að sverta mannorð stefnanda. Ummælin séu án nokkurs lögmælts tilefnis og hafi þau ekki verið réttlætt af stefnda. Ummæli stefnda séu þyngri á metunum en ella þegar það er haft í huga að stefndi er hreppstjóri Reykholtsdalshrepps og varamaður í hreppsnefnd og hafði ummælin uppi á fundi sveitarstjórnar, þar sem þau hafi verið færð til bókar.
Í fyrri ummælunum sem krafist sé að verði ómerkt lýsi stefndi grun sínum um meint misferli stefnanda, þar sem hann sé talinn hafa „óhreint mjöl í pokahorninu” auk þess sem efnaleg staða stefnanda sé dregin í efa og honum líkt við „fjárglæframann”. Stefndi ljúki síðan máli sínu með þeim orðum að hann hafi fengi þennan grun sinn staðfestan. Stefnandi telur ótvírætt að í þessum ummælum felist ásakanir um ámælisverða og jafnvel refsiverða hegðun hans í fjármálum og því til viðbótar að stefnandi standi höllum fæti fjárhagslega. Þessar aðdróttanir séu tilhæfulausar og verði ekki annað séð en þær séu hafðar uppi í þeim tilgangi að meiða æru stefnanda og rýra lánstraust hans.
Seinni ummælin séu sömu sök seld. Þar láti stefndi að því liggja að engu skipti búskaparskilyrði á jörð stefnanda, þar sem búskapurinn sé aðeins „spilaborg”, sem muni hrynja. Með þessum ummælum sé vegið að starfi stefnanda sem bónda og feli ummælin í sér staðhæfingu um að hann sé óhæfur til bústarfa og hafi ekki fjárhagslega getu til búskaparins.
Stefnandi byggir á því að aðdróttanir, sem felist í ummælunum varði við 236. gr. laga nr. 19/1940 eða eftir atvikum 235. gr. laganna.
Kröfu um ómerkingu ummæla byggir stefnandi á 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940, en kröfu um kostnað við birtingu dóms byggir stefnandi á 2. mgr. greinds lagaákvæðis, en ummælin séu óviðurkvæmileg án tillits til refsinæmis þeirra.
Kröfu um miskabætur byggir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttarins og saknæmisreglu 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, en mál þetta snúist ekki um virðisaukaskattskylda starfsemi stefnanda og beri honum því nauðsyn til að fá stefnda dæmdan til greiðslu skattsins.
IV.
Stefndi byggir kröfu sína á því, að hann hafi ekki haft í frammi óviðurkvæmileg ummæli á hreppsnefndarfundi 1. júlí 1997. Kveðst stefndi ekki hafa haft frumkvæmið að því að ræða fjárhagsstöðu stefnanda eða önnur atriði honum viðkomandi á fundinum 1. júlí. Kveðst hann eingöngu hafa svarað fyrirspurn, sem til hans hafi verið beint. Ósannað sé að þau orð, sem tilgreind séu í stefnu, hafi fallið á fundinum. Stefndi kveðst ekki treysta sér til að fullyrða nákvæmlega hvaða orð hann notaði í svari sínu til Gunnars Bjarnasonar.
Stefndi hefur skýrt svör sín þannig, að hann hafi í janúar 1996 ákveðið sem einstaklingur að kanna veðsetningu á Stóra-Kroppi. Það hafi hann gert til að ganga úr skugga um sannleiksgildi þeirra fullyrðinga stefnanda að ef búskapur leggist af á jörðinni í nánustu framtíð sé það vegna vegarlagningarinnar, verði tillagan að veruleika. Eftir skoðun á veðbókarvottorði telji hann jörðina veðsetta umfram það sem hann álíti rekstur búsins þola. Hann hafi þannig fengið staðfet að vafasamt sé að þær fullyrðingar stefnda um ástæður þess að búskapur kunni að leggjast af á Stóra-Kroppi standist. Stefndi kveðst og hafa bent stefnanda á það, í bréfi sínu, að stefnandi hafi farið rangt með í fjölmiðlum, afstöðu Búnaðarsambands Borgarfjarðar til vegarlagningar. Kveðst stefndi hafa vitað þetta um nokkurt skeið og hafi hann gert grein fyrir því á fundinum að stefnandi hallaði réttu máli án þess þó að geta sérstaklega um bréf Búnaðarsambandsins.
Stefndi kveður svör sín á fundinum alls ekki hafa falið í sér ásakanir um refsivert athæfi. Svörin hafi ekki heldur falið í sér neina afstöðu til heildarfjárhagsstöðu stefnanda eða fjárhagslega getu til búskapar, en hann hafi ekki kannað eignastöðu hans að neinu öðru leyti. Stefndi hafi ekki látið annað í ljós, en að veðbókarvottorðið hafi gefið sér tilefni til neikvæðra hugleiðinga varðandi fjárfestingar á Stóra-Kroppi. Stefndi telur að fráleitt sé að skilja svör sín þannig að sé að vega að starfi stefnanda sem bónda eða hæfni hans til bústarfa.
Stefndi telur sig hafa sýnt fram á sannleiksgildi ummæla, sem fram hafi komið á fundinum 1. júlí 1997, en hann hafi á engan hátt haft frumkvæðið að umræðunni á fundinum.
Með vísan til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1995 hafi stefnda verið heimilt að tjá svör sín á þann hátt sem hann hafi gert. Ummælin feli ekki í sér ærumeiðandi aðdróttun og hafi ekki verið óviðurkvæmileg.
Stefndi mótmælir refsikröfu og kveðst ekki hafa haft í frammi ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda. Kveður stefndi ummælin ekki hafa verið borin fram gegn betri vitund. Þá hafi svör stefnda ekki valdið stefnanda neinu tjóni.
Stefndi mótmælir á sama hátt kröfu um greiðslu kostnaðar til að standa straum af birtingu dóms. Væri réttur til slíkrar kröfu fyrir hendi sé krafa stefnanda alltof há.
Stefndi mótmælir og miskabótakröfu stefnanda, þar sem ekki sé um ólögmæta meingerð að ræða, sem sé skilyrði fyrir miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi ekki sannað eða gert sennilegt að hann hafi orðið fyrir tjóni, m.a. er haft sé í huga að fáir hafi setið umræddan fund. Þá kveður stefndi miskabótakröfu á grundvelli saknæmisreglu ekki standast, þar sem ekki sé um fjártjón að ræða.
Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Mál þetta varði ekki virðisaukaskattskylda starfsemi stefnda og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnanda.
VI.
Fyrir liggur að stefndi átti ekki frumkvæðið af því að ræða veðbókarvottorð jarðarinnar Stóra-Kropps á hreppsnefndarfundi 1. júlí heldur var það oddvit hreppsnefndar. Tilefni fyrirspurnar oddvita til stefnda á hreppsnefndarfundinum, var sú vitneskja, að stefndi hafði útvegað sér veðbókarvottorð jarðarinnar Stóra-Kropps. Stefndi bar fyrir dómi, að hann hafi ekki farið með veðbókarvottorðið út úr húsi og sýnt það sveitungum, en hann hafi þó sýnt það einhverjum sem komið hafi á heimil stefnda. Bar stefndi að það nægði til þess að vitneskja um vottorðið og efni þess færi um alla sveitina. Fyrir liggur og að svar stefnda við þessari fyrirspurn var ekki ritað í fundargerðarbók orðrétt eftir honum. Voru ummæli þau sem stefnt er fyrir rituð í fundargerðarbók hreppsnefndar á fundi 16. júlí 1997. Var það gert samkvæmt skriflegri fyrirsögn oddvita. Var bókunin lesin upp og samþykkti stefndi á þeim fundi orðalag bókunarinnar og kvað rétt eftir sér haft. Ber því að líta svo á að með því hafi stefndi viðhaft þau ummæli, sem þar eru færð til bókar, þó svo hann reki nú ekki minni til orða sinna, nákvæmlega, á næsta fundi eða nú.
Ummæli stefnda sem stefnt er vegna og koma fram í a.lið stefnu verða ekki skilin öðru vísi en svo að athafnir stefnda hafi verið vegna þess að hann hafi talið stefnanda hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Hafi tilgangur stefnda verið, eins og haft er eftir stefnda „svipaður og hjá blaðamönnum þegar þeir eru að fletta ofan af mönnum sem eru í svona fjárglæfrastarfsemi og fékk ég grun minn staðfestan við athugun á veðbókarvottorðinu”.
Samkvæmt orðabók Menningarsjóðs er orðið „fjárglæframaður” skýrt sem glæframennska í fjármálum. Telur dómarinn að almenn merking orðsins fjárglæframaður, hafi aðra og saknæmari merkingu í hugum fólks og vísi til glæpsamlegrar starfsemi. Virðist svo og vera er ummælin eru skoðuð í heild, en þar byrjar stefndi á að lýsa þeim grun sínum, að hann telji stefnanda hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Þá hafi tilgangurinn verið að „fletta ofan af” fjárglæfrastarsemi stefnanda.
Þó svo framlagt veðbókarvottorð sýni að jörðin er mikið veðsett, verður ekki talið að ummæli stefnda feli í sér gildisdóm, þar sem lagt sé mat á staðreyndir, enda með engu móti hægt að draga þá ályktun af veðbókarvottorði að stefnandi sé fjárglæframaður eða segja til um fjárhagsstöðu hans.
Ummæli stefnda, sem fram koma í a. lið stefnu teljast samkvæmt framansögðu ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda og til þess fallin að sverta mannorð hans. Hefur stefndi með þessum orðum sínum gerst sekur um brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing stefnda ákveðst hæfileg 15.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem stefnda ber að greiða innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæta ella varðhaldi í 4 daga.
Þá ber að ómerkja ummæli í a.lið með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem ummælin eru óviðurkvæmileg.
Hin refsiverðu ummæli eru til þess fallin að rýra álit stefnanda og telst meingerð við hann og verður því fallist á að stefnandi eigi rétt til miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af því að ummælin voru sett fram á opinberum vettvangi þykja bætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar krónur 90.000 og skulu þær bera vexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Þá ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda krónur 50.000 til þess að standa straum af birtingu dómsorðs í opinberu blaði, skv. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ummæli stefnda sem fram koma í í b.lið stefnu verða skilin svo, að þar sé stefndi að nota líkingarmál til að lýsa skoðun sinni um framtíð búskapar á Stóra-Kroppi. Ummæli þessi verða ekki talin óviðurkvæmileg á þann hátt að ómerkja beri þau eða refsa stefnda fyrir að hafa þau uppi. Ber því að sýkna stefnda af kröfum vegna þessa liðar í stefnu.
Eftir þessum úrslitum skal stefndi greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn krónur 80.000 og hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Hervör Þorvaldsdóttir, dómstjóri, kvað upp dóm þennan, en uppkvaðning hans hefur dregist nokkuð vegna embættisanna.
Dómsorð:
Framangreind ummæli samkvæmt a.lið skulu vera ómerk.
Stefndi Jón Björnsson, greiði krónur 15.000 í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella varðhaldi í fjóra daga.
Stefndi greiði stefnanda, Jóni Kjartanssyni, krónur 90.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 7. júlí 1998 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda krónur 50.000 til að standast straum af birtingu dómsorðs í opinberu blaði.
Stefndi greiða stefnanda krónur 80.000 í málskostnað.