Hæstiréttur íslands

Mál nr. 103/2000


Lykilorð

  • Þjófnaður


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2000.

Nr. 103/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Bjarna Sigurðssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                              

Þjófnaður.

B var ákærður fyrir þjófnað með því að hafa brotist inn í verslun og stolið þaðan ýmsum varningi. Játaði B brotið fyrir lögreglu, en fyrir dómi neitaði hann sakargiftum. Meðákærði, H, játaði heldur ekki þessar sakargiftir, en bar fyrir sig minnisleysi. Fyrir dómi gáfu þrír lögreglumenn skýrslu og báru tveir þeirra um frásögn B á rannsóknarstigi af atvikum, sem þeir sjálfir höfðu hvorki séð né heyrt eða kannað aðstæður á vettvangi. Þó að framburður þeirra væri talinn fullgilt sönnunargagn um það sem þeir sjálfir hefðu upplifað var talið að ekki yrði litið framhjá því að ekkert annað hefði komið fram, sem tengt gæti B við brotið. Því var, gegn eindreginni neitun B, ekki talið að ákæruvaldinu hefði tekist að sanna sekt hans, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991. Var B því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. mars 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi játaði ákærði fyrir lögreglu að hafa í félagi við meðákærða í héraði brotist inn í verslunina Dún- og fiðurhreinsunina við Vatnsstíg í Reykjavík að morgni fimmtudags 14. janúar 1999. Við skýrslugjöf fyrir dómi neitaði hann hins vegar sakargiftum. Meðákærði játaði ekki heldur þessar sakargiftir, en bar fyrir sig minnisleysi. Auk þeirra gáfu þrír lögreglumenn skýrslu fyrir dómi. Einn þeirra, Einar Guðmundur Guðjónsson, var kvaddur á vettvang sama morgun og innbrotið var framið. Kvað hann lögreglumenn hafa séð til ákærðu við gatnamót Vatnsstígs og Laugavegar er þeir komu þar að um hálfri klukkustund frá því að lögreglumenn komu á staðinn. Voru ákærðu þá handteknir. Annar lögreglumaður, Guðmundur Páll Jónsson, tók skýrslu af ákærða á lögreglustöð sama dag, þar sem hann gekkst við brotinu. Aðspurður fyrir dómi bar lögreglumaðurinn meðal annars að ástand ákærða við skýrslutökuna hafi verið eðlilegt og hann sagst sjá eftir verknaðinum. Hafi skýrslutakan verið að öllu leyti eins og hún átti að vera. Þriðji lögreglumaðurinn, Eiríkur Beck, bar að ákærði hafi gefið sér góðan tíma til að lesa skýrsluna yfir og síðan undirritað hana. Eiríkur var hins vegar ekki viðstaddur sjálfa skýrslutökuna.

Til stuðnings sakargiftum á hendur ákærða er af hálfu ákæruvalds bent á nokkur atriði, sem fram hafi komið við rannsókn málsins og það telur renna stoðum undir sekt hans. Þannig hafi merktur hnífur, sem stolið var í áðurnefndri verslun, fundist í lögreglubifreið, sem ákærðu voru fluttir í á lögreglustöð umræddan morgun. Hafi hann fundist þar sem meðákærði sat. Einnig hafi meðákærði verið með skeinu á hendinni og blóðkám verið á plastpoka, sem þýfi úr versluninni hafði verið sett í. Um þessi atriði liggur ekkert nánar fyrir og eru þau haldlaus sem sönnum um sekt ákærða. Þá bar fyrrnefndur Einar að fótspor hafi sést í snjónum við innbrotsstað er lögreglumenn komu þangað. Hafi vakið athygli þeirra að stórir bókstafir hafi verið hluti af mynstri sumra fótsporanna og það verið áþekkt því, sem var á skóm annars ákærðu. Vitnið treysti sér þó ekki til að fullyrða um hvor ákærðu bar þá skó á fótum. Frekari rannsókn var ekki gerð á þessum fótsporum á vettvangi. Eins og málið liggur fyrir getur þetta atriði ekki falið í sér sönnun um sekt ákærða eða um þátt hans í innbrotinu. Hinu sama gegnir um þá lýsingu á háttsemi ákærðu, er þeir komu aðvífandi eftir Laugavegi umræddan morgun, að þeir hafi skimað ákaft í kringum sig og verið flóttalegir.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Vitni í slíkum málum skulu bera um það, sem þau hafa sjálf skynjað. Tveir þeirra lögreglumanna, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, báru um frásögn ákærða á rannsóknarstigi af atvikum, sem þeir sjálfir höfðu hvorki séð né heyrt eða kannað aðstæður á vettvangi. Þótt framburður þeirra sé fullgilt sönnunargagn um það, sem þeir sjálfir upplifðu, verður ekki framhjá því litið að ekkert annað er fram komið, sem tengt getur ákærða við brotið, og áður er rakið. Gegn eindreginni neitun hans verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sekt hans, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt öllu framanröktu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Bjarni Sigurðsson, er sýkn af kröfum ákæruvalds.

Allur sakarkostnaður í héraði varðandi ákærða og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir báðum dómstigum, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 100.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 1999.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni  5. janúar 1999 á hendur H [...]

Önnur ákæra var gefin út 23. febrúar 1999 á hendur “H og Bjarna Sigurðssyni, kt. 180661-2129, Mávahlíð 33, báðum til heimilis í Reykjavík, fyrir eftirtalin brot í Reykjavík á árinu 1999, nema annað sé tekið fram:

[...]

I

Ákærðu Bjarna og H fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi að morgni fimmtudagsins 14. janúar brotist inn í fyrirtækið Dún- og fiðurhreinsunina, Vatnsstíg 3, með því að spenna upp útidyrahurð og stolið 4 dúnsængum, 5 dúnkoddum, ferðaútvarpi með geislaspilara og þráðlausum síma og hleðslutæki.

(Mál nr. 010-1999-997)

 

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Málin voru sameinuð. 

[...]

Verjandi ákærða, Bjarna, krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun.

Skírskotað er til ákærunnar vegna lýsingar málavaxta í þeim ákæruliðum, þar sem ákærði, H, játar sök.  Sökum þess hve ákæruliðirnir eru sundurleitir er ekki unnt að gera heildstætt grein fyrir málavöxtum í upphafi, heldur verða þeir reifaðir sér þar sem neitað er sök.

[...]

Ákæra dags. 23. febrúar 1999.

[...]

II

Laust upp úr kl. 07:00 að morgni 14. janúar sl. barst lögreglu tilkynning um innbrot í Dún- og fiðurhreinsunina, Vatnsstíg 3.  Á vettvangi ræddi lögreglan við starfsmann og fannst hluti þýfisins þar utan dyra, en stolið var þeim verðmætum sem lýst er í ákærunni og brotist hafði verið inn með því að spenna upp útidyrahurð.  Er lögreglan var á vettvangi sást hvar ákærðu komu gangandi frá Laugavegi niður Vatnsstíg og segir í lögregluskýrslunni að ákærðu hafi skimað mikið kringum sig og verið flóttalegir.  Er lögreglan hafði afskipti af ákærðu sást að fótspor sem sáust í snjónum við innbrotsstað samsvöruðu munstri undir skóm ákærðu.  Ákærðu voru handteknir og færðir á lögreglustöð, en í lögreglubifreiðinni sem ákærðu voru fluttir í fannst á stað, þar sem ákærði, Hinrik Jón, hafði setið, hnífur sams konar þeim sem stolið hafði verið frá Dún- og fiðurhreinsuninni.

Við yfirheyrslur hjá lögreglunni játaði ákærði, Bjarni, sök, en ákærði, H, neitaði, en kvaðst ekki muna atburði næturinnar vel, svo sem rakið verður.

Ákærði, H, bar fyrir dómi við þingfestingu málsins að hann myndi þessa atburði ekki og því hvorki geta játað né neitað.  Undir aðalmeðferð málsins neitaði ákærði sök.  Hann kvað ákærðu hafa verið samferða aðfaranótt fimmtudagsins 14. janúar sl. og hugsanlega hafi þeir orðið viðskila einhvern tíma. Ákærði var ekki viss um það, en hann lýsti mikilli óreglu sinni á þessum tíma.  Í lokaskýrslu sinni hjá lögreglunni, sem hann staðfesti fyrir dóminum, bar hann að aðfaranótt 14. janúar sl. væri fremur óljós í sínum huga og kvaðst ekki muna eftir því að hafa brotist inn. 

Ákærði, Bjarni, neitar sök.  Hjá lögreglunni játaði hann innbrotið í Dún- og fiðurhreinsunina.  Hann lýsti atburðum svo, að ákærðu hefðu verið á Keisaranum fram að lokun.  Þeir hefðu ekki haft í nein hús að venda og ráfað um bæinn.  Þeir hefðu síðan ákveðið að brjótast inn í fyrirtækið og spennt upp útidyrahurð að framanverðu.  Hann lýsti ítarlega hverju var stolið og hvaða verðmæti hvor hinna ákærðu tók.  Þýfinu var að hluta komið fyrir í plastpoka og komið fyrir í porti þar nærri, því þeir hefðu ekki viljað taka þá áhættu að sjást með þýfið nærri Dún- og fiðurhreinsuninni.  Þeir fóru síðan í burtu og ákváðu að koma aftur og sækja þýfið, en þá voru þeir handteknir.  Fyrir dómi var ákærði spurður um ástæður breytts framburðar.  Hann kvað lögreglumanninn, sem tók skýrsluna, hafa leitt sig í gegnum skýrslutökuna og sagt sér hvað koma þyrfti fram og hvað hefði átt sér stað.  Ákærði hefði verið illa fyrir kallaður og viljað losna úr haldi lögreglu og því ranglega játað sakarefnið eins og skýrslan ber með sér.

Guðmundur Páll Jónsson rannsóknarlögreglumaður tók skýrsluna af ákærða, Bjarna, er hann viðurkenndi innbrotið.  Guðmundur Páll staðfesti skýrsluna fyrir dóminum og kvað ákærða hafa viðurkennt að hafa brotist inn ásamt ákærða, H.  Hann hefði séð mikið eftir þessu og boðist til að greiða skaðabætur og ganga frá málinu.  Skýrslutakan hefði farið fram eins og venja og lög mæla fyrir um, en vottur var að undirritun ákærða undir skýrsluna. 

Eiríkur Beck rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dóminum að hafa verið vottur að því er ákærði, Bjarni, undirritaði skýrsluna, þar sem hann viðurkenndi innbrotið í Dún- og fiðurhreinsunina.  Eiríkur kvaðst muna vel eftir þessu og er hann kom inn í herbergið, þar sem ákærði var yfirheyrður, hefði hann verið að lesa skýrsluna yfir og tekið dágóðan tíma í það og síðan undirritað og Eiríkur síðan vottað undirritun ákærða.  Eiríkur staðfesti einnig að hafa tekið skýrslur af ákærða, Hinriki Jóni, vegna þessa sakarefnis.

Einar Guðjónsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti útkalli lögreglunnar að Dún- og fiðurhreinsuninni á þessum tíma.  Er lögreglan var á vettvangi komu ákærðu þar að og féll strax grunur á þá.  Hann kvað þær grunsemdir nánast hafa verið staðfestar er hnífur sams konar þeim sem stolið var fannst í lögreglubifreiðinni eftir flutning ákærða á lögreglustöð, en Einar kvaðst minna að ákærði, Hinrik, hefði setið þar sem hnífurinn fannst.  Þá kvað Einar grunsemdir lögreglunnar hafa styrkst er sást að ákærði, H, var blóðugur á hendi, en blóðkám hefði verið á poka, sem fannst á vettvangi og innihélt þýfi.  Þá nefndi Einar að spor hefðu sést í snjónum á vettvangi og hefðu þau verið eftir fleiri en einn mann.  Hann lýsti skóförum á vettvangi, sem hefðu verið mjög keimlík skóförum annars ákærða, en hann mundi ekki eftir hvorn.

 

Niðurstöður

[...]

III

Ekkert skyggir á játningu ákærða, Bjarna, hjá lögreglunni.  Þar lýsti hann innbrotinu í Dún- og fiðurhreinsunina í smáatriðum.  Ákærðu voru nærri vettvangi snemma morguns og skimuðu þeir mjög í kringum sig, eins og lýst var.  Skóför á vettvangi benda til þess að ákærðu hafi verið þar.  Hnífur sem stolið var úr Dún- og fiðurhreinsuninni fannst í lögreglubíl, þar sem annar hinna ákærðu hafði setið, líklega ákærði, H.  Blóðkám var á poka sem innihélt þýfi, en ákærði, H, var blóðugur á hendi við handtöku.  Við þingfestingu málsins kvaðst ákærði, H, ekki muna atburði og því hvorki geta játað né neitað.

Dómurinn telur sannað með skýlausri játningu ákærða, Bjarna, hjá lögreglunni, með öðru því sem nú hefur verið rakið og með vitnisburði lögreglumannanna sem komu fyrir dóminn, en gegn neitun ákærðu fyrir dómi, að þeir hafi framið þá háttsemi sem hér er lýst.

Brot ákærðu eru rétt heimfærð til refsiákvæða í báðum ákærunum.

[...]

Ákærði, Bjarni, hefur frá árinu 1979 hlotið 30 refsidóma fyrir ýmis konar afbrot, en oft fyrir þjófnað, fjársvik og skjalafals og nemur samanlögð óskilorðsbundin refsing hans samkvæmt þessum dómum 10 ára fangelsi.  Frá árinu 1978 hefur hann gengist undir 8 dómsáttir og 1 lögreglustjórasátt, oftast fyrir áfengis- og fíkniefnabrot.  Ákærði, Bjarni, hlaut síðast dóm í september 1994, fangelsi í 12 mánuði fyrir skjalafals.  Frá því að afbrotaferill Bjarna hófst hefur aldrei orðið lengra hlé á brotum hans en nú frá dóminum sem hann hlaut í september 1994.  Með vísan til ofanritaðs, sakaferils ákærða, Bjarna, þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði.

[...]

Ákærði, Bjarni, greiði 60.000 króna málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns. 

Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

[...]

Ákærði, Bjarni Sigurðsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

[...]

Ákærði, Bjarni, greiði 60.000 króna málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

Sakarkostnað að öðru leyti greiði ákærðu óskipt.