Hæstiréttur íslands
Mál nr. 662/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Miðvikudaginn 7. október 2015. |
|
Nr. 662/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hrl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þótt L hafi ekki skipað X verjanda, svo sem skylt var samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2011, gæti sá annmarki ekki orðið til þess að brotaþoli færi á mis við þá vernd sem hann nýtur samkvæmt lögunum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2015 þar sem ákvörðun sóknaraðila 22. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni í sex mánuði var staðfest. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími eða það mildað á annan hátt. Þá er krafist þóknunar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við meðferð málsins hjá sóknaraðila var varnaraðila ekki tilnefndur verjandi svo sem skylt var samkvæmt samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2011. Það var hins vegar gert við meðferð málsins í héraði. Getur þessi annmarki ekki orðið til þess að brotaþoli fari á mis við þá vernd sem hann nýtur samkvæmt lögunum. Með vísan til þess sem rakið er í hinum kærða úrskurði verður fallist á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 til þess varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Er hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 22. september 2015 um að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni, samkvæmt a og b lið 1. mgr. 4. gr. laga 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og barna þeirra B og C, að [...] í [...], [...] [...] og [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti A og börnum þeirra eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Samkvæmt gögnum málsins gengu varnaraðili og framangreind kona í hjúskap 2008. Þau skildu að borði og sæng 2012 og lögskilnaði 2013. Þau eiga saman framangreindar dætur. Þau deildu um forræði þeirra og með dómi [...] 2015 var ákveðið að konan færi með forræði þeirra en varnaraðili mætti umgangast þær annan hvern laugardag á tilteknum tíma undir eftirliti barnaverndarnefndar.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi sætt nálgunarbanni gagnvart konunni og dætrum þeirra í 6 mánuði frá [...]. júlí 2013 samkvæmt úrskurði sem staðfestur hafi verið af Hæstarétti. Í október 2014 hafi varnaraðila aftur verið gert að sæta nálgunarbanni, sem staðfest hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og af Hæstarétti [...]. nóvember það ár.
Áður en síðara nálgunarbannið var lagt á hafi lögregla haft upplýsingar um að varnaraðili hefði valdið konunni og dætrum þeirra miklu ónæði. Konan hafi farið með forsjá dætra þeirra og á þeim tíma hafði ekki náðst samkomulag um umgengni varnaraðila við þær. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafði varnaraðili setið í kringum heimili konunnar og dætra þeirra og valdið miklu ónæði í skóla og á frístundaheimili eldri dótturinnar þar sem hann hefði sótt mjög stíft að hitta hana fyrir. Skólayfirvöld og barnavernd hafi rætt við varnaraðila um að hegðun hans ylli henni mikilli vanlíðan. Varnaraðili hafi hinsvegar ekki látið segjast og haldið uppteknum hætti og sótt hart að hitta barnið á skóla og frístundatíma. Í október 2014 hafi barnaverndarstarfsmaður rætt við dótturina og í viðræðum þeirra hafi komið fram að hún óttist pabba sinn og hafi hann sagt við hana að hann ætli að taka hana með sér. Þá óttist hún að varnaraðili myndi gera móður hennar eitthvað illt.
Lögreglustjóri lagði nálgunarbann á varnaraðili [...]. apríl 2015, en Héraðsdómur felldi það úr gildi [...]. sama mánaðar.
Varnaraðili var ákærður [...]. júlí 2014 fyrir minniháttar líkamsárás á starfsmann leikskóla þar sem dóttir hans dvaldi og brot á nálgunarbanni. Hann var sakfelldur fyrir líkamsárásina [...]. október sama ár en sýknaður af ákæru fyrir brot á nálgunarbanni.
Í greinargerð lögreglustjóra er gerð svofelld grein fyrir þeim kæruefnum sem krafa hans nú byggist á: „Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]. Upplýsingar skráðar 22. september 2015. Lögreglunni hafa borist upplýsingar/kæra frá starfsmanni [...], er varðar kærða, en samkvæmt þeim upplýsingum hefur kærði í tvígang 11. september og 18. september sl. áreitt brotaþola á vinnustað hennar og raskað friði A þar sem hún starfar á leikskólanum [...] í [...], með því að koma að leikskólanum og verið með truflandi hegðan m.a. tekið myndir á lóðinni af börnum og starfsfólki þar á meðal brotaþola. Lögregla var kölluð til og hafði afskipti að kærða, einnig sem brotaþola var ekið til síns heima. Þessi hegðan kærða var í kjölfar á [...] umfjöllun þar sem fjallað var um mál brotaþola. Samkvæmt upplýsingum lögreglu óttast brotaþoli kærða og óttast um velferð sína og er þessi hegðan til þess fallin að raska friði gegn brotaþola, sbr. 4. gr. a, laga um nálgunarbann.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi starfsfólk og nokkrir foreldrar lýst yfir áhyggjum sínum um öryggi barna sinna og það sé ólíðandi að kærði sé að taka myndir af börnum og starfsfólki og ögra umhverfinu með hátterni sínu.
Lögreglu hafi einnig borist upplýsingar um að kærði X hafi elt eldra barn A og kærða/X, B úr skólanum ([...]), þegar amma hennar hafi verið með henni, en samkvæmt dómsúrskurði sem liggi fyrir megi hann ekki umgangast börnin nema undir eftirliti starfsmanns barnaverndar.
Röskun á friði brotaþola.
Mál lögreglu nr. 007-2015-[...], brotaþoli tilkynnti um áreiti og ónæði til lögreglu þann 3. maí sl., þar var kærði að ónáða og raska friði brotaþola fyrir utan heimili hennar að [...], með því að ganga í kringum heimili brotaþola og kalla til dætra sinna. Þegar lögregla kom á vettvang var kærði farinn af vettvangi. Samkvæmt upplýsingum brotaþola var kærði með barn sitt í barnavagni hrópandi og kallandi fyrir utan heimili brotaþola og barnanna.
Mál lögreglu nr. 007-2015-[...], 10. maí sl., þar var kærði fyrir utan heimili brotaþola, kallandi á dætur sínar. Lögregla var kölluð til og neitaði kærði að hafa verið að kalla, en hann var þar ásamt barnsmóður sinni og barni þeirra.
Mál lögreglu nr. 007-2015-[...], 18. maí sl., tilkynnti brotaþoli að kærði hefði komið deginum áður að heimili hennar og kallað á börn sín.
Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]. Nú er til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu brot kærða X er varða ætlað hótunarbrot, sbr. 233. gr. og ærumeiðingarbrot sbr., 233. gr. b, almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og barnaverndarlagabrot, sbr. 99. gr. laga nr. 80, 2002, en þar er kærði grunaður um að hafa brotið gegn dóttur sinni, með því að hafa uppi hótanir og ærumeiðandi móðganir við dóttur sína B, fædda [...], um móður barnsins. Ríkissaksóknari lagði fyrir lögreglustjóra að taka málið til rannsóknar að nýju 25. mars sl. og er rannsókn nú lokið og verður málið sent Ríkissaksóknara til meðferðar á næstu dögum.
Mál lögreglu nr. 007-2015-[...] sem lögregla hefur til rannsóknar, en þann 1. apríl sl., var kveikt í bifreið brotaþola á bifreiðastæði fyrir utan heimili hennar. Mál þetta er enn til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Kærði er þar grunaður um eignaspjöll og brennubrot en hann neitar aðild sinni. A telur sig þekkja kærða á myndum þegar hann leggur eld að bifreið hennar. Tekin verður ákvörðun á næstu vikum um saksókn.
Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]. Eignaspjöll, frá 22. mars, en málningu var þar hellt yfir bifreið brotaþola fyrir utan heimili hennar. Taldi brotaþoli að kærði hafi þar hellt málningu yfir bifreið hennar, en þá var nálgunarbannið frá 27. október 2014 enn í gildi. Málið er óupplýst.“
Í ljósi ofangreinds telur lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að varnaraðili muni halda áfram að raska friði fyrrum eiginkonu sinnar og barna þeirra í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Er ekki talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Að öllu framangreindu telji lögregla ljóst að konunni stafi ógn af varnaraðila og ljóst sé að hún hafi undanfarið orðið að þola áreiti af hans hálfu og ógnandi hegðun. Það sé mat lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. nefndra laga séu uppfyllt, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn fyrrum eiginkonu og dóttur og að hætta sé á að hann haldi áfram með áreiti og að raska friði hennar og barna hennar í skilningi greinarinnar. Telur lögreglustjóri ekki sennilegt að friðhelgi hennar og barna hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Eins og rakið var hér að framan hefur lögreglustjóri þrívegis lagt nálgunarbann á varnaraðila og staðfestu dómstólar bannið tvisvar. Í því ljósi verður að skoða atvikin frá því í maí síðastliðnum sem rakin voru hér að framan. Þá eru meðal gagna málsins gögn er styðja ásakanir á hendur varnaraðila um að hann hafi raskað friði brotaþola nú í september eins og rakið var. Þá verður einnig að hafa í huga framangreindan dóm um forræði dætra varnaraðila og rétt hans til að umgangast þær, en af framangreindu verður ekki séð að hann virði niðurstöðu dómsins.
Í 4. gr. laga nr. 85/2011 segir í a lið að beita megi nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Í b lið ákvæðisins segir að beita megi nálgunarbanni ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a lið. Í ljósi þess sem rakið hefur verið um hegðun varnaraðila gagnvart fyrrum eiginkonu sinni og dætrum þeirra, og með vísun til 2. mgr. 6. gr. nefndra laga, er það niðurstaða dómsins að hætta sé á að hann brjóti gegn þeim. Verður ekki séð að vægari úrræði séu fyrir hendi til að vernda friðhelgi brotaþola. Það eru því lagaskilyrði, sbr. framangreind 4. gr. laganna, til að verða við kröfu lögreglustjóra eins og í úrskurðarorði greinir.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er nálgunarbann er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu lagði á varnaraðila, X, 22. september 2015 samkvæmt a og b lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og barna þeirra B og C, að [...] í [...], [...] [...] og [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti A og börnum þeirra eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Þórs Sigurbjörnssonar hdl., 245.520 krónur, skal greidd úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 245.520 krónur skal greidd úr ríkissjóði.