Hæstiréttur íslands

Mál nr. 150/2009


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Upptaka


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. júní 2009.

Nr. 150/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Þorsteini Kragh og

(Helgi Jóhannesson hrl.)

Jacob van Hinte

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Ítrekun. Upptaka.

J og Þ voru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið saman að innflutningi á 191.714,75 g af kannabis og 1.305,23 g af kókaíni ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Efnin fundust við komu farþegaferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar, falin í sérútbúnum geymsluhólfum í húsbifreið. Hafi J og Þ lagt á ráðin um flutning efnanna frá Hollandi til Íslands og hist í því skyni í Hollandi auk þess að vera í símasambandi. Hafi Þ annast fjármögnun og kaup fíkniefnanna og hugðist móttaka þau á Íslandi en J hafi móttekið efnin í Hollandi og flutt þau þaðan í bifreiðinni landleiðina til Danmerkur og þaðan með ferjunni til Íslands. J játaði sök að mestu leyti en neitaði sök varðandi innflutning kókaínsins þar sem hann hafi ekki vitað um það efni. Þ neitaði sök. Krafðist hann frávísunar málsins þar sem hann hafi í fjölmörg skipti ekki fengið gögn afhent eða fengið þau of seint meðan á lögreglurannsókn stóð. Þ hélt því ekki fram að vörn hans hafi verið áfátt vegna þessa dráttar. Var ekki fallist á að vísa bæri málinu frá héraðsdómi af þessum sökum. Hins vegar voru vinnubrögð lögreglu talin aðfinnsluverð. Framburðir J og Þ breyttust nokkuð eftir því hvernig rannsókn málsins vatt fram. Talið var sannað með framburðum J hjá lögreglu og fyrir dómi og með stuðningi af öðrum gögnum málsins, en að hluta gegn neitun J fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins og gegn neitun Þ, að þeir hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir. Talið var augljóst að innflutningur svo mikils magns fíkniefna væri í ágóðaskyni þótt ekkert lægi fyrir um hvernig efnunum yrði dreift. Hafi J móttekið fíkniefnin ytra án þess að ganga úr skugga um hvers kyns fíkniefni væri að ræða. Þótt hugur hans hafi ekki staðið til þess að flytja kókaín til landsins beri hann refsiábyrgð á flutningi þess efnis þar sem hann hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvaða efni hafi verið á ferðinni og ekki gengið úr skugga um þetta sjálfur og hafi hann því mátt gera ráð fyrir hverju sem væri í þessu efni. Við ákvörðun refsingar J var litið til þess að hann var á Spáni árið 2005 dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi fyrir innflutning á miklu magni fíkniefna. Var dómur þessi látinn hafa ítrekunaráhrif á brot ákærða. Hins vegar var virt honum til mildunar að hann skýrði í upphafi frá þætti Þ og vísaði af sjálfsdáðum á fíkniefnin, en þá hafði lögregla ekki fundið þau í bifreið hans þrátt fyrir leit. Þá var litið til þess við ákvörðun refsingar beggja að brotið var framið í sameiningu, það var stórfellt og varðaði mikið magn fíkniefna og hluti kókaínsins var mjög sterkur. Var refsing J ákveðin fangelsi í 7½ ár en Þ fangelsi í 9 ár. Þá voru fíkniefnin, áfengisflöskur og bifreiðin sem notuð var til að flytja fíkniefnin til landsins gerð upptæk.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen, Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari og Benedikt Bogason dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars og 2. apríl 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða Þorsteins Kragh um áfrýjun, en af hálfu ákæruvalds gagnvart ákærða Jacob van Hinte. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing verði þyngd og staðfest niðurstaða dómsins um upptöku á 191.714,75 g af kannabis, 1.305,23 g af kókaíni, tveimur eins lítra flöskum af Whisky, sex 0,75 lítra flöskum af léttvíni og bifreiðinni BD RG 01.

Ákærði Þorsteinn krefst aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara sýknu.

Ákærði Jacob krefst sýknu af innflutningi á 1.305,23 g af kókaíni og að refsing verði milduð. Jafnframt krefst hann þess að kröfu um upptöku bifreiðarinnar BD RG 01 verði hafnað.

Fyrir Hæstarétti hefur komið fram að Ragnheiður Harðardóttir, einn þriggja dómara málsins í héraði, starfaði sem vararíkissaksóknari hjá ríkissaksóknara á hluta þess tíma sem málið var í rannsókn hjá lögreglu. Ekkert er fram komið í málinu um að hún hafi haft afskipti af því á þeim tíma og eru ekki efni til að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað vegna þessa.

Ákærði Þorsteinn reisir frávísunarkröfu sína á því að hann hafi í fjölmörg skipti ekki fengið gögn afhent eða fengið þau of seint meðan á lögreglurannsókn stóð. Við rannsóknina lagði ákærði fram kröfu 9. desember 2008 fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur um að „embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi við rannsókn málsins brotið gegn 43. gr. oml.“ Með úrskurði dómsins 14. janúar 2009 var kröfunni vísað frá dómi þar sem talið var að ekki yrði séð að ákærði gæti samkvæmt lögum haft „lögvarða hagsmuni af því að fá slíku lýst yfir með úrskurði.“ Mál þetta var þingfest í héraði 21. janúar 2009. Í þinghaldi 3. febrúar sama ár krafðist ákærði þess að málinu yrði vísað frá dómi á þeim grunni að rannsókn þess væri ábótavant þar sem skjöl málsins hefðu verið afhent í fjölmörg skipti eftir að liðinn var frestur samkvæmt 1. mgr. 43. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með úrskurði héraðsdóms 6. sama mánaðar var kröfu ákærða hafnað. Í niðurstöðu hans var vísað til þess að úrræði samkvæmt áðurnefndum lagaákvæðum ættu ekki við eftir að ákæra hafi verið gefin út og meðferð málsins væri hafin fyrir dómi. Verjandinn hafi við svo búið fengið öll gögn málsins í hendur og gæti óskað eftir frekari fresti til að undirbúa vörn sína. Ákærði hefur ekki haldið því fram að vörn hafi verið áfátt vegna þessa dráttar á afhendingu rannsóknargagna og er ekki fallist á með honum að vísa beri málinu frá héraðsdómi af þessum sökum. Hins vegar er tekið undir með héraðsdómi að þessi vinnubrögð lögreglu séu aðfinnsluverð.

         Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms var meðal annars vísað til framburðar ákærða Jacob í lögregluskýrslu 19. september 2008 um að hann hefði átt að vera fararstjóri fyrir hóp manna, sem til stæði að kæmi hingað til lands ásamt ákærða með skipinu Norrænu 4. júlí 2007, en hópurinn hefði ekki skilað sér við komuna til landsins. Var framburður þessi talinn mjög ótrúverðugur í ljósi þess að hann, fararstjórinn, hefði ekki komist að því fyrr en eftir komuna hingað til lands að hópurinn væri ekki með skipinu. Í áðurnefndri skýrslu kom fram að ákærði hefði átt að annast hópinn fyrir tvo menn í Hollandi, Jim og Bill. Þegar farþegarnir skiluðu sér ekki frá borði á Seyðisfirði hafi hann áttað sig á því að mennirnir, sem væru fíkniefnasalar í Hollandi, hafi sent hann í einhvers konar „tilraunaferð“ til Íslands. Meðákærði hafi átt að taka við hópnum við komuna til landsins. Í niðurstöðu héraðsdóms er þess hins vegar ekki getið að ákærði hafi dregið þennan framburð sinn til baka í skýrslu hjá lögreglu 21. október 2008 og við aðalmeðferð málsins. Aðspurður þá fyrir dómi um hvort frásögn hans í skýrslunni um komu hópsins til landsins hafi verið röng sagði hann að svo væri ekki, þetta hafi á hinn bóginn aldrei gerst en verið „svona saga sem að Jim og Bill bjuggu til.“ Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu beggja ákærðu.

         Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður dómur nánar tilgreinds héraðsdóms í Alicante á Spáni 1. desember 2005, en með honum var ákærði Jacob dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi fyrir innflutning á miklu magni fíkniefna til Spánar. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður dómur þessi látinn hafa ítrekunaráhrif á brot ákærða sem hér er fjallað um. Þá er það einnig metið ákærða til refsiþyngingar að hluti kókaínsins var mjög sterkt. Hins vegar ber að virða honum til mildunar að hann skýrði í upphafi frá þætti meðákærða og vísaði af sjálfsdáðum á fíkniefnin, en þá hafði lögregla ekki fundið þau í bifreið hans þrátt fyrir leit. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til þess sem fram kemur í héraðsdómi um ákvörðun refsingar ákærðu verður staðfest niðurstaða dómsins um hana. Einnig verður staðfest niðurstaða hans um upptöku og sakarkostnað.

         Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður, þó þannig að frá refsingu ákærðu, Þorsteins Kragh og  Jacob van Hinte, skal draga gæsluvarðhald þeirra, ákærða Þorsteins frá 2. júlí 2008 til 3. september sama ár og frá 5. sama mánaðar, en ákærða Jacob óslitið frá 11. júní 2008.

Ákærðu greiði hvor um sig málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Helga Jóhannessonar, 498.000 krónur, og Páls Arnórs Pálssonar, 541.575 krónur. Ákærðu greiði sameiginlega annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 446.812 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2009.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 12. janúar 2009 á hendur:

,,Jacob Van Hinte, f. 17. janúar 1938, hollenskum ríkisborgara,

Dvalarstaður: Fangelsið Litla-Hrauni, Eyrarbakka,

og

Þorsteini Kragh, kt. 000000-0000,

Hrísrima 11, Reykjavík,

fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa á árinu 2008, staðið saman að innflutningi hingað til lands á 191.714,75 g af kannabis og 1.305,23 g af kókaíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Efnin fundust við komu farþegaferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar þriðjudaginn 10. júní 2008, falið í sérútbúnum geymsluhólfum í húsbifreið með skráningarnúmerið BD RG 01, af gerðinni Iveco. Á fyrri hluta ársins 2008 lögðu ákærðu á ráðin um flutning efnanna frá Hollandi til Íslands og hittust þeir í því skyni í Hollandi auk þess að vera í símasambandi. Ákærði Þorsteinn annaðist fjármögnun og kaup fíkniefnanna og hugðist móttaka þau á Íslandi en ákærði Jacob móttók efnin í Hollandi og flutti þau þaðan í bifreiðinni landleiðina til Danmerkur og þaðan með ferjunni til Íslands.

Telst þetta varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og 32/2001.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Upptökukröfur:

1. Þess er krafist að ákærðu verði gert að sæta upptöku á framangreindum ávana- og fíkniefnum, sem hald var lagt á við rannsókn málsins, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001.

2. Þess er krafist að ákærða Jacob verði gert að sæta upptöku á bifreiðinni BD RG 01, sem notuð var til að flytja framangreind fíkniefni til landsins og lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

3. Einnig er þess krafist að ákærða Jacob verði gert að sæta upptöku á eftirfarandi átta flöskum af áfengi sem hald var lagt á við rannsókn málsins, samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005, en áfengið fannst í bifreiðinni við komu til landsins; tvær eins lítra flöskur af The Famous Grouse Whisky, og sex 0,75 lítra flöskur af léttvíni, þar af tvær af tegundinni La Tulipe, og ein af tegundinni Beamonte, Honoré Lavigne Bourgogne Chardonnay, Pinot Blanc Cave de Beblenheim, og Chateau Ventenac Cabardès.“

Verjandi ákærða Jacobs van Hinte krefst þess að ákærði verði sýknaður af þeim hluta sakargifta að hafa staðið ásamt Þorsteini Kragh að innflutningi fíkniefnanna til landsins ætluðum til söludreifingar í ágóðaskyni og krafist er sýknu af innflutningi á 1305,7 g af kókaíni og aðeins dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa fyrir innflutning á kannabisefnunum. Þess er krafist að hafnað verði upptökukröfu ákæruvaldsins á bifreiðinni BD RG 01. Þess er krafist að sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun samkvæmt málskostnaðaryfirliti.

Verjandi ákærða Þorsteins Kragh krefst sýknu og málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.

Í lögregluskýrslu, dagsettri 11. júní 2008, er því lýst að tollgæsla hafi haft upplýsingar um að ákærði Jacob van Hinte væri um borð í Norrænu sem kæmi til Seyðisfjarðar 10. júní 2008. Er því lýst í skýrslunni að Jacob sé eftirlýstur af spænskum yfirvöldum til fullnustu refsidóms sem hann hefði hlotið fyrir fíkniefnabrot. Leiddi þetta til þess að gerð var ítarleg leit í bifreiðinni BD RG 01 sem ákærði Jacob ferðaðist á. Árangurslausri leit var hætt síðdegis sama dag og ákærða kynnt að hann væri handtekinn sökum þess að hann væri eftirlýstur eins og rakið var. Er sækja átti ákærða um kl. 21.00 að kvöldi þessa dags, til flutnings til Reykjavíkur, greindi hann svo frá að í þaki bifreiðar sinnar væru 200 kíló af hassi. Í framhaldinu vísaði ákærði á fíkniefnin sem í ákæru greinir og jafnframt á áfengið sem þar greinir frá.

Tekin var lögregluskýrsla af ákærða Jacob 11. júní 2008 og hann úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag. Hann hefur játað aðild sína að málinu en framburður hans undir rannsókn málsins hefur verið breytilegur. Verður vikið að því síðar.

Ákærði Þorsteinn var handtekinn 2. júlí 2008 og úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag. Hann hefur staðfastlega neitað sök.

Rannsóknargögn málsins erum mikil að vöxtum. Verður vikið að þeim eins og ástæða þykir jafnhliða því sem málavextir verða raktir og eftir atvikum í niðurstöðukafla.

Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi

Eins og á stendur þykir ekki hjá því komist að reifa framburð ákærðu hjá lögreglu jafnhliða reifun á framburði þeirra fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins, auk þess verður reifaður framburð ákærða Jacobs fyrir dómi á rannsóknarstigi málsins.

Þess verður getið á hverjum stað í reifuninni hvort framburðurinn sem rakinn verður er gefin hjá lögreglu eða undir aðalmeðferð málsins.

Ákærði Jacob játar að hafa flutt kannabisefni til landsins eins og lýst er í ákærunni og einnig áfengið. Hann kvaðst hafa tekið að sér að flytja til landsins 200 kíló af hassi. Hins vegar neitar hann sök hvað varðar kókaínið og byggist sú neitun hans á því að hann hafi ekki vitað af kókaíninu. Hann hefði ekki tekið að sér flutning fíkniefnanna hefði hann vitað af því efni. Hann kvaðst ekki hafa getað ráðið af pakkningum efnisins að kókaínið væri þar og lýsti hann pakkningunum. Hann kvað hljóðrituð símtöl við vinkonur sínar sýna þessa afstöðu sína. Ákærði kvað fíkniefnin hafa verið innpökkuð er hann tók við bifreiðinni ytra og Jim og Bill, aðilar í Hollandi sem sendu ákærða í þessa ferð að hans sögn, hefðu komið fíkniefnunum fyrir í bifreiðinni. Ákærði kvaðst mjög á móti sterkum fíkniefnum og hann kvaðst aldrei mundu hafa tekið að sér flutning slíkra efna. Að öðru leyti neitar ákærði sök og kvaðst ekki hafa staðið að innflutningnum ásamt meðákærða Þorsteini til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærði kvað í þessu sambandi útilokað fyrir sig að fjármagna fíkniefnakaup eins og þau sem hér um ræðir. Hann kvaðst nánast eignalaus. Þá neitaði hann þeirri lýsingu í ákæru að ákærðu hefðu lagt á ráðin um flutning efnanna hingað til lands og hist í því skyni í Hollandi og verið í símsambandi. Hann kvað ranga lýsingu í ákærunni um að meðákærði Þorsteinn hefði annast fjármögnun og kaup fíkniefnanna og fyrirhugað að taka á móti efnunum hér á landi. Ákærði kvað fíkniefnin hafa verið í bifreiðinni er hann tók við henni ytra, en flutningsleiðinni væri rétt lýst í ákærunni.

Ákærði Jacob kvað málavexti hafa verið þá að tveir enskir karlmenn, Bill og Jim, hefðu komið að máli við sig í Amsterdam á árinu 2007 þótt hann myndi það ekki fyrir víst. Hann kvaðst engin deili vita á þessum mönnum, hvorki eftirnöfn né annað en hann hefði fyrst hitt þá í Amsterdam á árinu 2007. Hann kvaðst ekki muna samskiptin við mennina vel en taldi að á öðrum eða þriðja fundi þeirra á nafngreindum bar í Amsterdam hefðu þeir spurt sig hvort hann væri reiðubúinn að annast flutning fíkniefnanna hingað til lands. Jafnframt því að hafa beint samband við Bill og Jim hefðu þeir haft símsamband en ákærði kvaðst engin símanúmer muna í þessu sambandi, hvorki sín né þeirra. Ákærði kvaðst hafa keypt bifreiðina sem í ákæru greinir og látið innrétta fyrir sig til íbúðar. Eftir það hefði hann afhent þeim Jim og Bill bifreiðina og þeir hefðu komið fíkniefnunum fyrir í henni. Þeir hefðu jafnframt sýnt ákærða hvernig hann ætti að opna hólf þar sem fíkniefnunum var komið fyrir, en sérstakt áhald, sem ákærði hafði meðferðis hingað til lands, þurfti til þess að  nálgast fíkniefnin. Áhaldinu framvísaði hann til lögreglu er rýmið var opnað. Ákærði kvað Bill og Jim, að sinni ósk, hafa komið áfenginu fyrir í hólfinu með fíkniefnunum. Eftir þetta hefði ákærði keypt farseðil með ferjunni Norrænu hingað til lands. Hann lýsti því að ferðinni hefði seinkað eftir að bifreiðin bilaði í Danmörku. Ákærði lýsti því að Bill og Jim hefðu gefið sér þau fyrirmæli að hann ætti að halda til Reykjavíkur eftir komuna hingað til lands og koma sér fyrir á tjaldstæði þar sem þeir myndu hafa samband við hann og gefa honum fyrirmæli um það hvar hann ætti að losa sig við fíkniefnin.

Undir rannsókn málsins nefndi ákærði meðákærða Þorstein Kragh til sögunnar á þann hátt sem lýst er í ákærunni. Hann breytti síðan framburði sínum og kvað meðákærða ekki eiga hlut að máli. Aðspurður um hvers vegna hann hefði nefnt meðákærða, kvaðst hann hafa gert það sökum þess að lögreglan hefði ekki trúað upphaflegri frásögn sinni. Ákærði kvaðst í þessu ljósi hafa nefnt meðákærða til sögunnar þar sem hann teldi að lögreglan legði frekar trúnað á þá frásögn hans. Þá hefði hann nefnt Þorstein til sögunnar einnig í þeim tilgangi að freista þess að losna úr einangrun, auk þess sem lögreglan hefði greint sér frá því að ef frásögn hans væri trúverðug hlyti hann vægari refsingu.

Undir rannsókninni bar ákærði um símasamband ákærðu. Fyrir dóminum kvað hann þann framburð sinn rangan. Fyrir dómi voru símanúmer borin undir ákærða og hann spurður um notkun þeirra. Hann kvaðst engin númer muna og tilgangslaust væri að spyrja sig um þau. Hann var spurður um síma sem hann var með í fórum sínum við handtöku. Ákærði kvað mögulegt að hann hefði notað þann síma þótt hann myndi það ekki.

Við fyrstu lögregluskýrsluna sem tekin var af ákærða 11. júní 2008 var hann spurður um símanúmerið 857-2649 en sjá mátti í farsíma ákærða hringingar í og úr því símanúmeri. Ákærði kvað mann, kallaðan Kimma, eiganda þess númers, en sá væri eini Íslendingurinn sem ákærði þekkti en sá væri búsettur í Hollandi.

Fyrir dómi var ákærði beðinn að lýsa kynnum sínum af þessum manni. Ákærði kvað öll tengsl sín við Ísland, hvort sem væri í síma eða dagbók, væru skráð undir nafninu Kimmi. Ástæðan hafi verið sú að þannig gæti hann munað hvað væri hvað. Fyrir dómi kvað ákærði rangan framburð sinn í skýrslunni 11. júní 2008 um að hann hefði hitt Kimma á bar í Amsterdam og grunað Kimma um vera viðriðinn innflutning fíkniefnanna hingað til lands.

Lögregluskýrsla var tekin af ákærða 13. júní 2008. Þar lýsti hann því er hann tók að sér að flytja 200 kíló af hassi hingað til lands en það hefði hann gert eftir að hætt var við að flytja fíkniefni til Svíþjóðar, en ákærði kvaðst áður hafa tekið það verk að sér og lýsti hann því. Við þessa skýrslutöku kvaðst ákærði hafa annast flutning fíkniefnanna fyrir Jim og Bill. Hann lýsti jafnframt kynnum sínum af Íslendingnum Kimma, sem hefði meðal annars setið við sama borð á kaffihúsinu og hann, Jim og Bill auk nafngreindra manna sem hefðu ætlað að standa að fíkniefnainnflutningnum til Svíþjóðar sem hætt var við eins og rakið var. Ákærði lýsti útliti Kimmi við þessa skýrslutöku. Að mati dómsins verður ekki betur séð en að sú lýsing geti átt við meðákærða Þorstein en ákærði Jakob bar síðar um það að Kimmi væri meðákærði Þorsteinn eins og síðar verður rakið.

Steindór Einarsson rannsóknarlögreglumaður ritaði skýrslu vegna rannsóknar málsins, dagsetta 11. desember 2008. Þar er því m.a. lýst að verjandi ákærða Jacobs hefði komið þeirri ósk ákærða Jacobs á framfæri að hann vildi ræða við rannsóknaraðila þar sem hann hefði ekki greint rétt frá málavöxtum. Kvaðst Steindór hafa hitt ákærða Jacob á Litla-Hrauni daginn eftir, 17. júní. Þar hefði komið fram að ákærði hefði upplýsingar um þann aðila sem stæði að baki fíkniefnainnflutningnum sem í ákæru greinir. Ákærði hefði ákveðið að segja til þessa aðila þar sem komið hefði í ljós að ákærði hefði verið notaður til að smygla til landsins kókaíni án sinnar vitneskju. Kvaðst Jacob mjög ósáttur við þetta og því vilja gera hreint fyrir sínum dyrum og ekki ætla að halda hlífiskildi yfir eiganda fíkniefnanna og skipuleggjanda innflutningsins. Fram kom hjá Jacobi að Kimmi væri þessi maður en hann vissi ekki hans rétta nafn.

Tekin var skýrsla af ákærða Jacob hjá lögreglunni 20. júní 2008. Fram kemur í upphafi skýrslunnar að hún sé gerð að ósk ákærða sem hafi viljað bæta við fyrri framburð. Ákærði bar þar um að hafa kynnst Kimma í ársbyrjun 2007. Þeir hefðu kynnst í Amsterdam á bar eða kaffihúsi sem ákærði vandi komur sínar á og er það sami staðurinn og getið er um að framan. Hann kvað ákærðu hafa hist nokkrum sinnum á sama stað og eftir nokkur skipti og eftir að ákærði hafi greint Kimma frá fangelsisvist sinni á Spáni hefði Kimmi spurt hvort ákærði væri reiðubúinn að fara ferð til Íslands. Jacob lýsti því í skýrslunni hvernig Kimmi hefði verið mjög var um sig. Ákærði lýsti því er Kimmi skoðaði bifreiðina sem hann síðan notaði til að flytja fíkniefni til landsins sumarið 2007 fyrir Kimma. Kimmi hefði greint sér frá ferðum Norrænu og afhent sér peninga til farmiðakaupa. Kvaðst ákærði síðan hafa flutt fíkniefni til landsins sumarið 2007. Hann lýsti skipulagi ferðarinnar en Kimmi hefði skipulagt allt. Í samræmi við það sem áður var ákveðið beið Kimmi eftir ákærða við komu til Seyðisfjarðar með ferjunni en Kimmi hefði verið á gulllituðum eða gylltum Range Rover jeppa. Eftir þetta lýsti Jacob nákvæmlega ferðalagi sínu samkvæmt fyrirmælum Kimma, allt til þess er hann tók fíkniefnin úr bifreiðinni og kom þeim fyrir í tveimur töskum sem Kimmi lét honum í té. Töskurnar tók Kimmi síðan er báðir voru staddir á Laugarvatni.

Ákærði Jacob lýsti því að innflutningur fíkniefnanna sem í ákæru greinir hefði verið fyrir þennan sama mann, Kimma. Ákærði átti að aka frá Seyðisfirði til Laugarvatns þar sem Kimmi ætlaði að hitta hann á tjaldstæðinu. Fram kom hjá ákærða að þeir Kimmi hefðu hist við gufubaðið á Laugarvatni sumarið 2007 en fram hefði komið hjá Kimma þá að til stæði og ef  til vill yrði búið að rífa þá aðstöðu er ákærði kæmi til landsins í þeirri ferð sem um ræðir í ákærunni.

Hinn 26. júní 2008 var tekin lögregluskýrsla af ákærða Jacob. Þá lýsti hann aftur ferðinni sem hann kvaðst hafa farið hingað til lands sumarið 2007 fyrir Kimma. Ferðinni var lýst í aðalatriðum að framan.

Við rannsókn á minnisbók ákærða Jacobs voru rituð símanúmerin 857-2649 og 699-8100 og þar við nafnið Kimmi. Lýsti ákærði Jacob því að Kimmi hefði látið sér þessi símanúmer í té. Samskipti sín við Kimma um fyrrgreinda símanúmerið frá ársbyrjun 2008 fram í mars 2008 hefðu tengst fíkniefnainnflutningnum sem ákært er vegna. Þeir hefðu notað símann til að ákveða fundarstað í Amsterdam og Kimmi greint ákærða frá komu sinni þangað. Ákærði Jacob kvað Kimma upphaflega hafa nefnt við sig, öðru hvoru megin við áramótin 2007/2008, að annast innflutning á 200 kílóum af hassi frá Hollandi hingað til lands. Þetta hefði síðan verið fastmælum bundið í janúar 2008 og ákærði átt að fá 40.000 evrur fyrir flutninginn. Jacob lýsti skipulaginu á afhendingu fíkniefnanna ytra en allt hafi það verið samkvæmt fyrirmælum Kimma, sem hefði sagt að sami háttur yrði hafður á og í ferðinni sem ákærði kvaðst hafa farið sumarið 2007 og áður var lýst. Ákærði Jacob kvaðst þannig hafa komið fíkniefnunum fyrir í bílunum og jafnframt áfenginu sem í ákæru greinir. Ákærði Jacob kvaðst hafa nefnt Jim og Bill til sögunnar við skýrslutöku 13. júní 2008. Sá framburður væri rangur þar sem hlutur þeirra í málinu væri enginn samkvæmt því sem ákærði vissi. Hins vegar væri hlutur Kimma sá sem hann nú hefði lýst. Ákærði Jacob kvaðst fyrst hafa ákveðið að vernda Kimma. Sú afstaða sín hefði breyst er í ljós kom að kókaín var með í farminum.

Hinn 4. júlí 2008 fór fram myndsakbending. Þar benti ákærði Jacob á meðákærða Þorstein Kragh og kvað hann vera manninn sem kallaður hefur verið Kimmi hér að framan.

Við skýrslutöku af ákærða Jacob hjá lögreglu 16. júlí 2008 var hann spurður um nokkur símanúmer, m.a. símanúmerið 857-2649. Kvað hann það vera símanúmer meðákærða og hann hefði hringt í þetta númer við komuna til landsins 10. júní sl. Kvaðst ákærði við þessa skýrslutöku engu hafa við framburð sinn frá 26. júní 2008 að bæta.

Ákærði Jacob gaf skýrslu fyrir dómi 28. ágúst 2008. Þar staðfesti hann allt það sem hann hafði borið um þátt meðákærða Þorsteins og myndsakbendingu þar sem hann kvað meðákærða vera manninn sem kallaður var Kimmi. Ákærði Jacob lýsti því að hann hefði tekið að sér að flytja 200 kíló af hassi hingað til lands. Kvaðst hann hafa tekið við fíkniefnunum í Amsterdam og komið þeim fyrir í bifreiðinni sem efnin voru flutt í hingað til lands. Ákærði kvað Kimma, meðákærða Þorstein, eiganda efnanna og ákærði hefði átt að afhenda honum efnin en ákærði kvaðst hafa komist í kynni við meðákærða á krá í Amsterdam en mundi ekki hvar. Ákærði lýsti innflutningi á, að því er hann taldi, 50 kílóum af hassi fyrir meðákærða sumarið 2007. Lýsti ákærði afhendingu fíkniefnanna og fleiru í þessu sambandi, m.a. því að hann hefði að fyrirmælum meðákærða farið að Laugarvatni þar sem efnið var afhent við gufubaðið. Ákærði Jacob kvaðst hafa hitt meðákærða í nokkur skipti á tveimur kaffihúsum í Amsterdam auk þess sem þeir hefðu haft símsamband. Er hann var spurður um símanúmerið 857-2649 kvaðst hann ekki muna símanúmer en taldi sig hafa haft samband við Kimma í þessu símanúmeri þar sem við símanúmerið var ritað nafnið Kimmi í minnisbók sem fannst í fórum ákærða Jacobs. Hann kvað hið sama eiga við um hollenskt símanúmer þar sem nafnið Kimmi hefði verið skrifað við í sömu minnisbók.

Við skýrslutökuna fyrir dómi 28. ágúst 2008 voru bornar undir ákærða Jacob van Hinte lögregluskýrslur sem hann gaf 13. júní 2008, 20. og 26. sama mánaðar og 16. júlí 2008. Aðspurður kvaðst ákærði staðfesta að það sem kom fram í skýrslunum væri rétt. Síðar í sömu skýrslutöku fyrir dómi staðfesti ákærði Jacob að hafa bent á Kimma, meðákærða Þorstein, við myndsakbendingu hjá lögreglu 4. júlí 2008. Hann væri maðurinn sem hann hitti í Amsterdam og tók á móti honum við komuna hingað til lands sumarið 2007 og átti ákærði Jacob að hitta eftir komu til landsins 10. júní 2008 er ákærði var handtekinn.

Tekin var skýrsla af ákærða Jacobi hjá lögreglunni 19. september 2008. Þá breytti hann framburði sínum og kvaðst hafa verið sendur hingað til lands á árinu 2007 af þeim Jim og Bill sem áður voru nefndir. Meðákærði hefði ekki verið viðriðinn málið. Hefði ákærði átt að annast hóp ferðamann á vegum þeirra Jim og Bill. Ákærði kvaðst hafa sagt þeim Jim og Bill að hann þekkti konu á Ibiza og sú þekkti einhvern hér á landi. Þetta hefði orðið til þess að ákærði fékk í hendur upplýsingar um Kimma og símanúmer hér á landi. Ákærði hefði komið til landsins sumarið 2007 en engin fíkniefni haft meðferðis. Enginn ferðamannahópur hefði skilað sér og ákærði áttað sig á því að hann hefði verið sendur í tilraunaferð hingað til lands. Í þessari skýrslu kvaðst ákærði fyrst hafa hitt meðákærða Þorstein er hann kom til landsins sumarið 2007. Þeir hefðu ekki hist ytra og engin símasamskipti haft sín á milli.

Undir aðalmeðferð málsins kvað ákærði framburð sinn um Jim og Bill vera hinn rétta. Hann kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna hann bar áður um það að hann hefði komið með fíkniefni í ferðinni hingað til lands sumarið 2007. Hann vissi lítið um Jim og Bill utan að þeir væru fíkniefnasalar búsettir í Amsterdam. Hann taldi í fyrstu að hann hefði átt að taka á móti hópi fólks sem ætlaði að ferðast um landið á húsbílum. Hópurinn skilaði sér ekki. Hann kvaðst þá hafa áttað sig á því að tilgangur ferðarinnar sumarið 2007 hefði verið könnunarferð í því skyni að senda ákærða til landsins árið eftir. Ákærði kvaðst ekkert hafa rætt þetta við þá Jim og Bill eftir að hann kom úr ferðinni sumarið 2007. Hann kvað sig þá hafa grunað að til stæði að senda hann í ferðina sem í ákæru greinir þótt hann hefði ekki verið viss um það. Hann kvaðst hafa hitt meðákærða sumarið 2007 á Seyðisfirði en til stóð að meðákærði sæi um ferðamannahópinn sem koma átti til landsins. Hann lýsti samskiptum þeirra meðákærða eftir þetta, m.a. ferð þeirra að Laugarvatni. Þá lýsti hann fundum þeirra meðákærða, m.a. í Reykjavík. Ákærði kvaðst eftir þetta hvorki hafa rætt við meðákærða né hitt hann fyrr en þeir hittust, er báðir sættu gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Ákærði Jacob kvaðst hafa breytt framburði sínum varðandi meðákærða sökum þess að hann hefði hitt hann í fangelsinu og hafa haft mikið samviskubit yfir því að hafa dregið saklausan mann inn í málið. Meðákærði hefði ekki haft nein áhrif á þá ákvörðun sína að breyta framburðinum þótt þeir hefðu rætt málið. Ákærði kvaðst hafa greint meðákærða frá því að hann myndi breyta framburði sínum um þetta en ákærði hefði aldrei haft nein samskipti við meðákærða vegna þessa máls.

Eins og rakið var bar ákærði Jacob margsinnis um þátt meðákærða Þorsteins í málinu áður en hann breytti framburði sínum 19. september 2008. Ákærði var spurður hvers vegna aldrei hefði hvarflað að honum í hinni löngu einangrunarvist sem hann sætti undir rannsókn málsins að breyta framburðinum. Hann kvað skýringuna geta verið þá að auðvelt væri að ásaka einhvern sem að maður er ekki í sambandi við og hittir ekki. Síðan verði breyting er maður standi andspænis slíkum einstaklingi.

Ákærði mótmælti upptökukröfu á bifreið sinni sem í ákæru greinir þar sem bifreiðin væri heimili sitt. Hann kvaðst hafa búið í húsbílum sl. 3 ár.

Ákærði kvaðst hafa hlotið dóm á Spáni fyrir að smygla þangað 800 kílóum af hassi ásamt tveimur öðrum einstaklingum. Hann lýsti meðferð málsins, en eins og rakið var í upphafi liggur fyrir að ákærði var eftirlýstur af spænskum stjórnvöldum.

Ákærði Þorsteinn neitar sök. Hann kvaðst ekkert þekkja til meðákærða utan að hafa hitt hann á árinu 2007. Ákærði lýsti aðdraganda fundar þeirra meðákærða sumarið 2007 svo, að hringt hefði verið í ákærða, að því að hann taldi í júní 2007, og hann beðinn um að sækja hóp ferðafólks til Seyðisfjarðar en fólkið hefði ætlað að ferðast um landið á 25 húsbílum. Maðurinn sem hringdi hefði sagst vera frá ferðaskrifstofu sem héti Terragotta. Hann kvaðst ekki muna hvort maðurinn kynnti sig, en maðurinn hefði gefið upp lýsingu á bílnum sem meðákærði ferðaðist á og ákærði hefði lýst bifreið sinni. Ákærði kvað fólkið hafa átt að vera eldri borgara og hann hefði því farið austur að sækja það en rætt hefði verið um að í hópnum yrðu 70 til 80 manns og myndi hópurinn gista hjá ákærða í viku til tíu daga, en ákærði rak gufubaðið á Laugarvatni á þessum tíma. Á Seyðisfirði kvaðst ákærði aðeins hafa hitt meðákærða sem kvaðst fara fyrir hópnum. Ákærði hefði spurt meðákærða hvar fólkið sem hann átti von á væri. Hafi meðákærði sagt að hann skyldi ekki hafa áhyggjur því, fólkið kæmi seinna. Þeir hefðu eftir þetta ekið á Djúpavog þar sem ákærði Þorsteinn kvaðst hafa sagt meðákærða að hann vildi ekki fara lengra fyrr en fólkið væri komið. Úr varð að ákærði fór en meðákærði varð eftir til að bíða eftir fólkinu. Síðar hefði meðákærði komið við í gufubaðinu á Laugarvatni þar sem ákærði kvaðst hafa þráspurt hann um ferðahópinn. Auk þessa hefðu ákærðu hist tvisvar sinnum í líkamsræktarstöð í Reykjavík þar sem ferðahópinn hefði einnig borið á góma. Ákærði hefði engar skýringar fengið á því hvers vegna hópurinn skilaði sér ekki. Þetta væru einu samskipti sín við meðákærða og hann hefði ekki átt nein samskipti við hann fyrr en er þeir hittust er báðir sættu gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni. Ákærði vísaði þannig á bug upphaflegum framburði meðákærða um að ákærðu hefðu hist í Amsterdam og það sama ætti við um framburð meðákærðu um önnur samskipti þeirra er vörðuðu sakarefni málsins.

Ákærði Þorsteinn kvaðst hafa gefið meðákærða upp símanúmer sitt 699-8100 og hann kvað sig minna að hann hefði gefið ákærða upp spænskt símanúmer sem hann átti. Ákærði kvað þeim síma hafa verið stolið frá sér fyrir meira en ári síðan. Hann hafi ekki gefið meðákærða upp önnur símanúmer.

Við skoðun farsíma ákærða 699-8100 var skráð í minnisbók dagana 8. og 9. júní 2008 textinn ,,Eric/Rabbit“. Ákærði kvað það tengjast fyrirspurn sem hann ætlaði að bera upp á þessum tíma við mann sem hann starfaði með í Frakklandi. Þá var í minnisbók síma ákærða áminning um fæðingardag, 17. janúar 1938. Nafnið ,,Rabbit“ var skráð við þessa áminningu. Nafnið Rabbit ætti þarna við meðákærða Jacob. Ákærði kvaðst hafa greint meðákærða frá því er þeir sátu og borðuðu saman á Djúpavogi er þeir hittust þar sumarið 2007 að ákærði hefði áhuga á stjörnuspeki. Meðákærði hefði þá spurt hvort ákærði vildi gera fyrir hann stjörnukort. Kvaðst ákærði fús til þess og þá tekið niður fæðingardag meðákærða og til hafi staðið að fá mann til þess að gera kortið síðar.

Ákærði var spurður um tíðar ferðir sínar til Amsterdam frá 8. janúar 2008 til 15. maí 2008. Hann kvað ferðirnar tengjast heimsóknum til unnustu sinnar ytra, auk þess sem ferðirnar vörðuðu starf hans tengt hestasýningum en höfuðstöðvar þeirrar atvinnustarfsemi hafi verið í Hollandi.

Ákærði kvaðst á ferðum sínum erlendis og endranær hafa notað farsíma sinn 699-8100. Ákærði kvað pin-númer farsíma síns vera 6969. Undir rannsókn málsins kom fram að pin-númer talhólfs farsímans númer 857-2649 er hið sama. Einnig notandanafn ákærða á samskiptaforritið Skype í fartölvu hans, þar notar ákærði ,,denni6969”. Ítrekað aðspurður kvaðst ákærði ekki kannast við síðargreinda símann og sömu pin-númer væru tilviljun.

Undir aðalmeðferðinni var gerð ítarleg grein fyrir rannsókn á staðsetningu og notkun farsímanna 699-8100 og 857-2649 á tilteknu tímabili. Niðurstaða þeirrar rannsóknar bendir til að sami aðili noti bæði símanúmerin. Síðar verður nánar vikið að þessu. Ákærða var kynnt þessi rannsókn en það var einnig gert ítarlega undir rannsókn málsins. Hann neitaði nokkurri vitneskju um símann 857-2649 og kunni enga skýringu á því hvers vegna símarnir fylgdust að eins og rannsóknin gefur til kynna.

Meðal gagna málsins er greinargerð um fjármál ákærða og félaga tengdum honum sem unnin var á vegum endurskoðunarsviðs KPMG. Þar segir að neikvæður lífeyrir ákærða á árunum 2005 til 2008 nemi að minnsta kosti 70,8 miljónum króna. Samkvæmt rannsókn lögreglu á fjármálum ákærða nema samanlagðir peningar og fjármunir sem ákærði hefur yfirráð yfir rúmum 78 miljónum króna. Ákærði kvað þá niðurstöðu geta verið rétta en hann hefði ekki gefið upp tekjur sínar eins og lög áskilja.

Ákærði Þorsteinn lýsti því er þeir meðákærði hittust í gæsluvarðhaldi eftir að báðir losnuðu úr einangrunarvist, þá hefði meðákærði beðið sig afsökunar á því að hafa flækt ákærða inn í málið. Hann kvaðst þá hafa beðið meðákærða um að hafa samband við lögfræðing sinn og lögreglu sem ákærði gerði síðan.

Nú verður rakinn hluti lögregluskýrslna sem teknar voru af ákærða Þorsteini.

Tekin var af honum skýrsla 2. júlí 2008. Hann neitaði aðild að málinu. Hann kvaðst ekki kannast við meðákærða Jacob van Hinte og ekki hafa verið í neinum beinum persónulegum samskiptum við aðila sem ferðist til landsins á húsbílum. Skýrsla var tekin af ákærða Þorsteini 8. júlí 2008. Hann var þá spurður um farsímanúmer í hans eigu. Kvaðst hann eigandi númersins 699-8100 og þá hefði hann fyrir nokkrum árum átt spænska símanúmerið 34-650262499. Hann neitaði nokkrum tengslum við símanúmerið 857-2649 og einnig við hollensk símanúmer sem hann var spurður um. Þorsteini var kynnt niðurstaða rannsóknar sem sýndi að ferðast hefði verið með farsímann 699-8100 austur á Firði 4. júlí 2007 og til baka daginn eftir. Sýnilega hefði umráðamaður símans farið akandi báðar leiðir. Kvaðst Þorsteinn ekki muna eftir þessari ferð. Breytti engu þótt rifjað væri upp fyrir honum að lögreglan hefði stöðvað akstur hans skammt austan Þjórsár 4. júlí 2007 vegna hraðaksturs. Skýrsla var tekin af ákærða Þorsteini 15. júlí 2008 og hann þá m.a. spurður ítarlega um fund þeirra meðákærða við komu Norrænu til landsins 5. júlí 2007. Var honum kynntur framburður meðákærða um þetta og aftur spurður um bifreiðina sem hann ók, þ.e gylltum Range Rover frá tiltekinni bílaleigu. Þorsteinn kvaðst engu vilja breyta í framburði sínum um þetta.

Skýrsla var tekin af ákærða Þorsteini 16. júlí 2008 og kvaðst hann þá vilja breyta framburði sínum um ferðina austur á land 4. júlí 2007. Kvaðst hann hafa farið þangað í því skyni að taka á móti ferðalöngum sem ferðast ætluðu um landið á 25 húsbílum. Spænsk ferðaskrifstofa sem hann hefði aldrei átt nein viðskipti við áður hefði haft við sig samband vegna þessa. Hann vissi ekki nafn viðmælandans sem hringdi en hringt hefði verið í símanúmer Gömlu gufunnar ehf. en hann kvaðst ekki muna símanúmerið. Þorsteinn lýsti því að hann hefði aðeins hitt einn mann á Seyðisfirði. Sá hefði kynnt sig sem Rapito en það væri meðákærði.

Við skýrslutöku af ákærða Þorsteini 1. september 2008 var honum greint frá því að rannsókn hefði leitt í ljós tíð símasamskipti við Gudrun Hinrichs og Eike Hinrichs úr farasímanum 857-2649. Ákærði hefur lýst kynnum sínum af þessu fólki. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði haft símasamskipti við fólkið er það var statt hér á landi en er ákærði var staddur erlendis hefði hann notað hótelsíma og spænskt símanúmer, sem áður hefur verið lýst, í samskiptum sínum við fólkið.

Við sömu skýrslutöku af ákærða 1. september 2008 var hann spurður um áminninguna í farsíma sínum um fæðingardaginn 17. janúar 1938 og nafnið ,,Rabbit“ þar við. Við skýrslutökuna kvaðst ákærði ekki vita hver hefði sett þetta í síma hans og hvorki vita hvenær það var gert né hvers vegna.

Lögregluskýrsla var tekin af ákærða Þorsteini 18. nóvember 2008. Þar var honum m.a. kynnt niðurstaða rannsóknaaðila, m.a. með vísan til gagna sem bárust frá Hollandi um hollenska farsímanúmerið +31-61111-5089. Í ljós kom að símanúmerið hefur verið notað í tveimur símtækjum sem einnig hafa verið notuð með símanúmerum sem ákærði Þorsteinn hefur borið að hann hafi notað. Þá leiddi rannsóknin í ljós að notkun hollenska símanúmersins er á því tímabili, sem hér um ræðir, bundin við veru ákærða Þorsteins í Hollandi. Símanúmerið var aldrei notað þegar ákærði Þorsteinn var staddur hér á landi Þá var ákærða við þessa skýrslutöku kynnt að rannsóknin leiddi í ljós að frá 31. janúar 2008 til 28. maí 2008 var fyrrgreint hollenskt símanúmer notað í samskiptum við ákærða Jakob van Hinte í a.m.k. sjö skipti og ávallt í símatækjum sem rakin voru til ákærða Þorsteins með svokölluðum IMEI-númerum. Ákærði Þorteinn ýmist neitaði að tjá sig um þetta eða kvaðst engar skýringar hafa á þessu en hann hafði áður neitað tengslum við hollenska símanúmerið sem hér um ræðir.

Vitnið Stefán Sveinsson rannsóknarlögreglumaður lýsti því er ákærði Jacob var tekin í tollskoðun við komuna til landsins vegna þess að hann hefði verið eftirlýstur á Spáni. Stefán lýsti leitinni í bifreið ákærða. Stefán lýsti því að ákærði hefði greint sér frá því, er flytja átti hann til Reykjavíkur, að í bíl hans væru 200 kíló af kannabisefnum. Eftir það vísaði ákærði á felustað efnanna og hvernig ætti að ná þeim úr bílnum en nota þurfti sérstakt áhald sem ákærði hafði meðferðis. Ákærði hefði ekki minnst á önnur fíkniefni en hassefni. Ekki hefði verið unnt að sjá hvers kyns efnin voru vegna þess hvernig þau voru innpökkuð

Vitnið Jóhann Freyr Aðalsteinsson deildarstjóri tollgæslunnar á Seyðisfirði lýsti því að upplýsingar hefði legið fyrir um komu ákærða Jacobs Van Hinte til landsins með Norrænu og einnig vitneskja um að hann hefði áður tengst fíkniefnainnflutningi. Af þessum sökum var ákveðið að leita í fórum hans. Hann lýsti leitinni í bifreið ákærða og því er efnin fundust eftir að ákærði greindi sjálfur frá felustað þeirra og hvernig nálgast ætti efnin m.a. með tilteknu áhaldi sem ákærði afhenti í þessu skyni. Ákærði hefði aðeins talað um hass er hann greindi frá fíkniefnunum en ekki hafi verið hægt að sjá á pakkningum hvaða efnistegund var um að ræða, ekki nema í einum pakka sem hafði verið opinn og sá pakki hefði innihaldið kannabisefni.

Vitnið Kristinn Sigurðsson rannsóknalögreglumaður lýsti hlut sínum við rannsókn málsins, en hann hefði annast yfirheyrslur yfir ákærða Jacob. Kristinn lýsti því að ákærði hefði greint frá því að hann hefði aðeins tekið að sér að flytja hassefni til landsins. Þegar ákærða var kynnt, undir rannsókninni, að kókaín hefði fundist í farminum hefði ákærði brugðist illa við og kvaðst hafa verið svikinn og talaði illa um þann sem hlut átti að máli. Ekkert hefði komið fram undir rannsókninni sem benti til þess að ákærði Jacob hefði vitað um tilvist kókaínsins. Eftir þetta hefði hann greint frá þætti meðákærða. Kristinn lýsti aðdraganda breytts framburðar ákærða Jacobs 19. september 2008. Kristinn lýsti breytingum sem hann merkti í háttalagi ákærða frá því er hann afturkallaði fyrri framburð um hlut meðákærða Þorsteins við skýrslutöku 19. september frá því sem verið hafði við fyrri yfirheyrslur. Kristinn kvað þetta hafa leitt til þess að hann hefði spurt ákærða að þessu við skýrslutökuna, en ekkert svar fengið. Kristinn lýsti því að reynt hefði verið að rannsaka og bera saman raddir á þremur farsímum sem taldir voru í eigu ákærða Þorsteins. Þetta hafi ekki reynst unnt og skýrði hann ástæðuna. Þá lýsti Kristinn því að Jacob hefði engar upplýsingar gefið um Bill og Jim sem hefðu getað dugað til að fylgja málinu eftir og kanna ytra.

Vitnið Steindór Erlingsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa annast gagnaöflun undir rannsókn málsins og annast yfirheyrslur Þorsteins Kragh. Steindór kvaðst hafa verið viðstaddur skýrslutökur yfir Jacob Van Hinte. Hann lýsti breytingum í viðmóti og fasi hans við skýrslutökuna 19. september 2008. Honum virtist ákærða líða illa og eiga erfitt með að tjá sig og lýsti Steindór þessu nánar. Þetta hefði verið mjög breytt fas frá því sem var við skýrslutökuna af Jacobi hinn 20. júní 2008 en þá virtist hann vera að gera hreint fyrir sínum dyrum. Steindór lýsti því hvernig pin-númer talhólfs farsímans 857-2649 var fundið, en það reyndist vera sama pin-númer og í farsíma ákærða númer 699-8100 eða ,,6969“. Þá var notendanafnið ,,denni6969“ við Skype forrit í fartölvu ákærða Þorsteins. Steindór staðfesti og skýrði lögregluskýrslu sem hann ritaði og dagsett er 24. nóvember 2008. Þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá spænskum yfirvöldum sem bárust frá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra 18. nóvember 2008 um símanúmerið 34-650262499 sem ákærði Þorsteinn kvaðst hafa átt en glatað. Samkvæmt rannsókn lögreglu á þessu símanúmeri kom í ljós að síminn var notaður í 8 skipti frá 15. mars 2008 til 28. maí 2008 í samskiptum við síma sem var í eigu ákærða Jacobs Van Hinte en Jacob bar hjá lögreglu að hann hefði oftast notað þetta símanúmer í samskiptum sínum við Kimma. Fram kemur í skýrslunni að hið spænska símanúmer hafi síðast verið notað hér á landi 31. maí 2008 og þá er notkunin skráð á GSM sendi sem vísar á þáverandi heimili ákærða Þorsteins og sami sendir merkti á þeim tíma aðra farsíma sem notaðir voru á heimili ákærða Þorsteins. Þá segir að númerið hafi verið notað til samskipta við fjölda fólks erlendis sem og hér á landi og upplýsingar um mörg símanúmer sé að finna í GSM símaskrá ákærða Þorsteins í farsímanum 699-8100.

Vitnið Eiríkur Valberg rannsóknalögreglumaður ritaði skýrslu, dagsetta 31. október 2008, þar sem lýst er könnun á því hvort von hefði verið á 25 húsbílum á Laugarvatn sumarið 2007. Eiríkur kvað enga pöntun fyrir slíkan hóp hafa borist Smyril Line. Þá hefði verið rætt við umsjónarmenn tjaldsvæðis á Laugarvatni sem ekki kannaðist við bókun fyrir slíkan hóp. Svo stór hópur hafði aldrei komið þangað í einu. Eiríkur kvað þetta hafa verið athugað hjá öðrum sem ráku slíka aðstöðu á svæðinu en ekkert hafi verið kannast við að ákærði Þorsteinn hefði lagt inn slíka pöntun. Eiríkur lýsti því að rannsókn á minnisbók í síma ákærða Þorsteins þar sem fjallað var um Rabbit og fæðingardag ákærða Jacobs og ,,Eric/Rabbit” við dagana 8. og 9. júní 2008 eigi við um símann 699-8100. Eiríkur staðfesti það sem áður er lýst að pin-númerið 6969 hafi verið að talhólfi farsímans 857-2649 sem sé sama pin-númer og í farsímanum 699-8100 sem ákærði kvaðst eiga. Þá hafi ,denni6969” verið í Skype forrit á fartölvu ákærða Þorsteins. Eiríkur staðfesti skýrslu dagsetta 6. nóvember 2008 um rannsókn á minnisbók sem fannst í fórum ákærða Jacobs.

Vitnið Hafliði Þórðarson lögreglufulltrúi lýsti rannsókn sinni á fjármálum ákærða Þorsteins og fyrirtækjum sem hann tengdist. KPMG-endurskoðun hefði aðstoðað lögregluna við rannsóknina. Hafliði staðfesti skýrslu sem hann ritaði um þetta. Hann skýrði rannsóknina og hvernig niðurstaða var ósamrýmanleg framburði ákærða Þorsteins.

Undir rannsókn málsins var talið að ákærði Þorsteinn Kragh, sem var eigandi símanúmersins 699-8100, væri einnig eigandi og/eða notandi símanúmersins 857-2649. Ítarleg rannsókn fór fram á notkunarmynstri símanúmeranna á tímabilinu 4. júlí 2007 til 24. maí 2008. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þessar: Símarnir eru á þessu tímabilinu alltaf í notkun á svipuðum stöðum. Við greiningu á staðsetningu símanna kom í ljós að þeir voru aldrei í notkun það langt hvor frá öðrum á sama tíma að ekki geti talist að um einn og sama notanda væri að ræða. Landfræðilegt notkunarmynstur breytist eftir búsetu ákærða Þorsteins. Þá voru símarnir of lítið í notkun á sama tíma til að líklegt geti talist að um tvo mismunandi einstaklinga gæti verið að ræða.

Vitnin Jón Óttar Ólason, sérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og Rannveig Þórisdóttir, deildarsérfræðingur hjá upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, unnu ofangreinda rannsókn ásamt fleirum. Fyrir liggur ítarleg skýrsla og greinargerð þeirra um þetta. Bæði komu fyrir dóm og skýrðu og staðfestu skýrslu sína og rannsóknarvinnu.

Arnþrúður Þórarinsdóttir aðstoðarsaksóknari kom fyrir dóminn og skýrði ástæðu þess að hluti skjala málsins undir rannsókninni voru ekki afhent ákærða Þorsteini og verjanda hans í tíma eins og lög áskilja.

Jakob Kristinsson, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands, staðfesti og skýrði niðurstöðu rannsókna á sýnum sem send voru til greiningar á rannsóknarstofunni en sýnin reyndust kannabis og kókaín.

Vitnið Sveinn Kragh, bróðir ákærða Þorsteins, kvaðst hafa aðstoðað Þorstein við gufubaðið á Laugarvatni sumarið 2007. Hann hafi leyst ákærða af, einkum um helgar. Hann kvaðst hafa leyst Þorstein af meðan hann fór til Seyðisfjarðar sumarið 2007 þeirra erinda að taka á móti fólki sem ferðaðist um á 25 húsbílum.

Vitnið Sigurjón Þór Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Norrænu, umboðsskrifstofu Smyril Line á Íslandi, lýsti því að kannað hefði verið í bókunum fyrirtækisins hvort hópur með 25 húsbíla hefði bókað far með ferjunni sem kom til landsins 5. júlí 2007. Enga slíka bókun hafi verið að finna en farið var yfir allt bókunarferlið hér á landi og í Færeyjum þar sem höfuðstöðvar Smyril Line séu.

Vitnið Guðmundur Óskar Hermannsson kvaðst hafa rekið tjaldsvæðið á Laugarvatni síðastliðin þrjú sumur. Hann kvað enga bókun hafa verið gerða fyrir 25 húsbíla sem koma áttu í byrjun júlí 2007. Svo margir bílar hefðu aldrei verið bókaðir í einu.

Vitnið Bjarni Daníelsson, umsjónarmaður tjaldsvæðisins í Miðdal við Laugarvatn, kvaðst ekki muna eftir hvort pöntun um 25 húsbíla hefði borist vegna júlímánaðar 2007. Hann mundi ekki eftir slíkum hópi í júlí 2007 en enginn fái aðstöðu á svæðinu nema félagsmenn í Félagi bókagerðarmanna eða samkvæmt ábyrgð frá slíkum aðila.

Vitnið Sesselja Sigríður Sævarsdóttir kvað ákærða Þorstein hafa beðið sig um að hringja fyrir sig í vin sinn en Rósa, systir vitnisins, hefði verið með farsíma frá ákærða Þorsteini þar sem símanúmerið sem hún átti áð hringja í var vistað. Hún hefði hringt í konu sem hét Anat og karlmann sem heiti Andy. Hún hefði átt að segja fólkinu að allt væri í lagi og að Hollendingurinn hefði tekið 180 gráðu stefnu og Hollendingurinn hefði dregið framburð sinn til baka og viðmælendur hennar þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur. Þetta hefði verið nokkurn veginn það sem hún sagði. Rétt er að taka fram að fyrir liggur endurrit hlustunar samtals ákærða Þorsteins og vitnisins sem tekið var upp á Litla-Hrauni.

Vitnið Rósa Karen Bergþórsdóttir kvaðst hafa hitt ákærða Þorstein eftir að hann gekk laus úr gæsluvarðhaldi. Þá bað Þorsteinn hana um að geyma fyrir sig farsímann 699-8100 en hún kvaðst síðan hafa afhent Sesselju Sigríði, systur sinni, símann.

Niðurstaða

Ákærði Jacob van Hinte játar sök að mestu leyti eins og rakið var en neitar sök varðandi innflutning kókaínsins þar sem hann hafi ekki vitað um það efni. Hann neitar að hafa staðið að fíkniefnainnflutningnum ásamt meðákærða Þorsteini, en endanlegur framburður ákærða Jacobs var á þann veg að meðákærði ætti ekki hlut að máli. Þá neitar ákærði Jacob van Hinte sök varðandi innflutning efnisins til söludreifingar í ágóðaskyni.

Eins og rakið var að framan var framburður ákærða Jacobs van Hinte breytilegur undir rannsókn málsins. Því var lýst hvernig afstaða hans breyttist er honum var gerð grein fyrir því að kókaín hefði fundist í bifreiðinni þar sem fíkniefnin voru falin. Þá óskaði ákærði eftir því að breyta framburði sínum og nefndi til sögunnar mann sem hann kallaði Kimma en síðar kom í ljós að er meðákærði Þorsteinn. Ákærði Jacob lýsti ítarlega samskiptum ákærðu tengdum sakarefni máls þessa og einnig fyrri fíkniefnasamskiptum eins og lýst var. Eftir þetta voru teknar ítarlegar lögregluskýrslur af ákærða Jacob þar sem hann bar nákvæmlega um samskipti ákærðu vegna innflutnings fíkniefnanna sem hér um ræðir. Má þar nefna símasamskipti þeirra, fundi í Amsterdam, ferðalög hér á landi og fleira. Þessar lögregluskýrslur voru teknar af ákærða er hann sætti einangrun í gæsluvarðhaldi.

Ákærði Jacob lýsti sakarefninu efnislega á sama veg er hann gaf skýrslu fyrir dómi 28. ágúst 2008. Þar staðfesti hann lögregluskýrslur sem bornar voru undir hann, meðal annars lögregluskýrslu sem tekin var 13. júní 2008, en þá bar ákærði ekki um saknæman þátt meðákærða. Hins vegar og síðar í þessari skýrslutöku fyrir dómi kvaðst ákærði hafa greint satt og rétt frá við skýrslutöku um þátt meðákærða. Þá kemur fram í gögnum málsins, eins og lýst var að framan, að það var ekki fyrr en eftir að ákærði Jacob losnaði úr einangrun í gæsluvarðhaldi að hann óskaði eftir því að breyta framburði sínum. Það er því mat dómsins að staðfesting ákærða Jacobs fyrir dómi á lögregluskýrslu sem hann gaf 13. júní 2008 hafi verið ónákvæmni og sé ekki til þess fallið að breyta framburði hans fyrir dóminum um sakarefnið og um þátt meðákærða Þorsteins.

Ákærði Jacob losnaði úr einangrunarvist hinn 28. ágúst 2008. Fyrir liggur að ákærðu hittust á Litla-Hrauni eftir að báðir gengu lausir úr einangrun. Eftir það, eða 19. september 2008, breytti ákærði Jacob framburði sínum, einkum varðandi þátt meðákærða eins og áður var rakið. Þá fyrst nefndi hann að tilgangur ferðar hans hingað til lands sumarið 2007 hefði verið að annast fararstjórn hjá hópi fólks sem ætlaði að koma til landsins ásamt ákærða með Norrænu í sömu ferð og ákærði. Við þetta tækifæri hefðu ákærðu fyrst hist.

Því var áður lýst að ferðamannahópurinn hefði ekki skilað sér. Framburður ákærða Jacobs um þetta er mjög ótrúverðugur og að hann, sjálfur fararstjórinn, hefði ekki komist að því fyrr en eftir komuna hingað til lands að engir voru samferðamennirnir sem þó áttu að vera tugir manna sem ferðuðust um á 25 húsbílum.

Lögregluskýrslurnar af ákærða Jacob voru teknar upp á mynddisk. Vitnin Kristinn Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður, sem annaðist yfirheyrslur yfir ákærða Jacob, og Steindór Erlingsson rannsóknarlögreglumaður, sem var viðstaddur skýrslutökurnar, báru báðir um breytt háttalag ákærða við skýrslutökuna 19. september 2008. Vísast um þetta til vitnisburðar lögreglumannanna sem rakin var að framan. Eftir skoðun mynddiska af yfirheyrslum yfir ákærða Jacob er það mat dómsins að augljósar breytingar séu í fari hans við skýrslutökuna 19. september 2008 frá því sem var við skýrslutökurnar allt frá því er hann bar um þátt meðákærða Þorsteins. Þessi breyting ræður ekki úrslitum við mat á trúverðugleika framburðar ákærða Jacobs hjá lögreglunni en styður það álit dómsins að breyttur framburður hans um komuna hingað til lands sumarið 2007 og fararstjórahlutverk hans og fund ákærða tengdan þessu sé svo ótrúverðugur og reyfarakenndur að hann verði ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni. Hitt blasir við að ákærðu hafi reynt að samræma framburð sinn um þetta eftir að fundum þeirra bar saman í fangelsinu að Litla-Hrauni eins og lýst var. Um breyttan framburð ákærða Jacobs van Hinte að öðru leyti varðandi samskiptin við meðákærða er hið sama að segja. Hinn breytti framburður er ótrúverðugur og í algjöru ósamræmi við nánast allt það sem áður er fram komið í málinu. Þá er framburður hans um þá Bill og Jim einnig mjög ótrúverður og verður ekkert á honum byggt enda fær hann engan stuðning af öðrum gögnum málsins. Engin trúverðug skýring er komin fram á því vegna hvers ákærði Jacob bar margsinnis við skýrslutökur hjá lögreglu og fyrir dómi, samkvæmt lokaframburði hans ranglega, um þátt meðákærða Þorsteins. Að mati dómsins er eina trúverðuga skýringin sem fær stoð í öðrum gögnum málsins sú að ákærði Jacob hafi í þeim framburði sínum verið að greina satt og rétt frá.

Ákærði Þorsteinn hefur frá upphafi neitað sök. Framburður hans breyttist eftir því hvernig rannsókninni vatt fram. Ákærði neitaði í fyrstu kynnum sínum af meðákærða og að hafa hitt hann sumarið 2007. Sá framburður breyttist síðan og er vísað til þess sem áður var rakið um þetta. Áður var vikið að rannsókn um notkun farsímanna 699-8100 og 857-2649. Með þeirri rannsókn og með öðrum gögnum málsins telur dómurinn sannað að einn maður, ákærði Þorsteinn, notar bæði númerin. Þá var því lýst að notkun á hollenska símanúmerinu +31 61111 5089 er bundin við veru ákærða Þorsteins í Hollandi. Þá leiddi rannsóknin í ljós að þetta símanúmer hefur verið notað í tveimur símtækjum þar sem einnig hafa verið notuð símanúmer sem ákærði Þorsteinn hefur kannast við að eiga. Þá kemur símanotkunin heim og saman við framburð ákærða Jacobs van Hinten eins og rakið var. Ýmis önnur atvik tengja ákærðu, svo sem fæðingardagur ákærða Jacobs í farsíma ákærða Þorsteins og einnig skráning í minnisbók farsíma ákærða Þorsteins um dagana 8. og 9. júní 2008 þar sem að textinn ,,Eric/Rabbit“ var við. Í fyrstu kvaðst ákærði Þorsteinn ekki muna neitt um tilefni þess að fæðingardagur ákærða Jacobs var skráður en síðar kvað hann það hafa verið gert til að unnt yrði að útbúa fyrir hann stjörnukort. Vísað er til skýringa ákærða Þorsteins sem rakin var að framan um textann ,,Eric/Rabbit“. Framburður ákærða Þorsteins um þetta o. fl. er með ólíkindum. Einnig sá framburður hans um að ónefndur maður á ferðaskrifstofu sem ekki er til hafi hringt í hann vegna ferðalangana sumarið 2007. Þá gefur pin-númerið ,,6969“ á talhólfi farsímans 857-2649 sterklega til kynna að ákærði noti og/eða eigi þetta símanúmer en þetta er sama pin-númer og á farsíma ákærða og á Skype forritinu í fartölvu hans.

Dómurinn telur, með vísan til alls ofanritaðs, og með vísan til rannsóknargagna sem rakin hafa verið, sem fá stuðning á nánast öllu því sem fram er komið, en gegn neitun ákærða Þorsteins, sannað að hann hafi notað símann 857-2649 á þeim tíma sem hér um ræðir í samskiptum sínum við meðákærða Jacob van Hinte eins og ákærði Jacob lýsti ítarlega áður en hann breytti framburði sínum 19. september 2008. Það er mat dómsins að framburður ákærða Þorsteins í heild sé ótrúverðugur enda í algjöru ósamræmi við flest annað sem fram er komið í málinu. Verður framburður hans ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni.

Að virtu öllu því sem fram er komið í málinu og á öllum gögnum málsins er það mat dómsins að leggja beri framburð ákærða Jacobs van Hinte hjá lögreglu 20. og 26. júní 2008 og 4. júlí 2008, er hann benti á meðákærða sem Kimma, 16. júlí 2008 og fyrir dómi 28. ágúst 2008 til grundvallar niðurstöðunni. Því hefur verið lýst að ofan að gögn málsins að öðru leyti renna styrkum stoðum undir þennan framburð ákærða Jacobs. Breyttur framburður hans er ótrúverðugur og í algjöru ósamræmi við flest annað sem fram er komið í málinu.

Ákærði Jacob kvaðst hafa tekið að sér flutning 200 kílóa af kannabisefnum hingað til lands en neitaði að þetta hefði verið gert til söludreifingar í ágóðaskyni. Það er mat dómsins að augljóst sé að innflutningur svo mikils magns fíkniefna sem í ákæru greinir sé í ágóðaskyni þótt ekkert liggi fyrir um það hvernig efnunum yrði dreift enda lýtur ákæran ekki að því. Ákærði Jacob móttók fíkniefnin ytra án þess að ganga úr skugga um hvers kyns fíkniefni væri að ræða. Þótt hugur hans hafi ekki staðið til þess að flytja kókaín til landsins ber hann refsiábyrgð á flutningi þess efnis þar sem hann lét sér í léttu rúmi liggja hvaða efni voru á ferðinni og gekk ekki úr skugga um þetta sjálfur og mátti hann því gera ráð fyrir hverju sem er í þessu efni.

Með vísan til þessa er sannað með framburði ákærða Jacobs van Hinte hjá lögreglu 20. og 26. júní 2008, 4. júlí og 16. ágúst 2008 og fyrir dómi 28. ágúst 2008 og með stuðningi af öðrum gögnum málsins sem rakin hafa verið, en að hluta gegn neitun ákærða Jacobs fyrir dómi undir aðalmeðferð málsins og gegn neitun ákærða Þorsteins, að þeir hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir og er brot þeirra þar rétt fært til refsiákvæðis.

Eins og rakið var bar ákærði Jacob um að hann hefði hlotið refsidóm á Spáni vegna fíkniefnabrots. Fyrir liggur erlent skjal um sakaferil ákærða Jacobs. Þar kemur fram að hann hafi hlotið 3 ára og 9 mánaða fangelsisdóm og eina milljón peseta í sekt hinn 1. desember 2005 fyrir brot ,,gegn almannahagsmunum“. Segir í skjalinu að það sé þýtt um refsinguna og brotategund úr spænsku ,,án ábyrgðar“. Engin önnur gögn liggja fyrir um þetta. Hinn erlendi dómur liggur því ekki fyrir. Það er mat dómsins að svo mikil óvissa sé um þetta að ekki sé eins og á stendur fært að beita ítrekunaráhrifum, sbr. 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga gagnvart ákærða Jacob. Aðrar upplýsingar um sakaferil hans ytra skipta ekki máli eins og hér stendur á. Ákærði Jacob upplýsti með framburði sínum um aðild meðákærða. Þrátt fyrir að ákærði Jacob hafi síðar breytt framburðinum þykir rétt að hann njóti refsilækkunar á grundvelli 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga enda er dómur í málinu reistur á þeim framburði ákærða Jacobs er varðar báða ákærðu eins og rakið var.  Ákærðu frömdu brot sitt í sameiningu og er það virt til refsihækkunar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða Jacobs er stórfellt og varðar mikið magn fíkniefna og þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 7½ ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 11. júní 2008 koma til frádráttar refsivistinni.

Sakaferill ákærða Þorsteins hefur ekki áhrif á refsiákvörðun eins og á stendur. Brot hans er stórfellt og á hann sér engar málsbætur. Ákærðu frömdu brot sitt í sameiningu og er það virt til refsihækkunar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af hinu mikla magni fíkniefna sem um ræðir þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 9 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivistinni gæsluvarðhaldsvist ákærða Þorsteins frá 2. júlí 2008 til 3. september 2008 og frá 5. september 2008 til dagsins í dag.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru upptæk dæmd 191.714,75 g af kannabis, og 1.305,23 g af kókaíni.

Með vísan til 1. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2005 skal ákærði Jacob sæta upptöku á tveimur eins lítra flöskum af The Famous Grouse Whisky, og sex 0,75 lítra flöskum af léttvíni, þar af tveimur af tegundinni La Tulipe, og einni af tegundinni Beamonte, Honoré Lavigne Bourgogne Chardonnay, Pinot Blanc Cave de Beblenheim, og Chateau Ventenac Cabardès.

 Krafist er upptöku á bifreiðinni BD-RG-01 sem notuð var til þess að flytja fíkniefnin til landsins. Ákærði hefur andmælt upptökukröfunni þar sem bifreiðin sé heimili hans. Ákærði notaði sérútbúna bifreiðina til að flytja til landsins mikið magn fíkniefna. Þykir því rétt að verða við kröfu ákæruvaldsins og dæma bifreiðina upptæka, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

Fyrir liggur að mikill fjöldi skjala var ekki afhentur verjanda ákærða Þorsteins fyrr en eftir að lögmæltur frestur skv. 1. mgr. 43. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra var liðinn en samsvarandi ákvæði er nú í 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Viðhlítandi skýring hefur ekki komið fram hverju þetta sætir. Ber að átelja þessi vinnubrögð lögreglu sem eru andstæð framangreindum lagaákvæðum.

Ákærðu greiði óskipt 1.430.239 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði Jacob greiði Páli Arnóri Pálssyni hæstaréttarlögmanni 2.400.000 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði Þorsteinn greiði Helga Jóhannessyni hæstaréttarlögmanni 2.400.000 krónur í málsvarnarlaun.

Þóknun lögmanna er ákvörðuð með virðisaukaskatti og er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Páll Þorsteinsson og Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærði, Þorsteinn Kragh, sæti fangelsi í 9 ár en frá refsivist hans skal draga gæsluvarðhald frá 2. júlí 2008 til 3. september 2008 og frá 5. september 2008 til dagsins í dag.

Ákærði, Jacob van Hinte, sæti fangelsi í 7½ ár en til frádráttar refsivist hans komi gæsluvarðhald frá 11. júní 2008 til dagsins í dag. 

Upptæk eru dæmd 191.714,75 g af kannabis og 1.305,23 g af kókaíni.

Ákærði Jacob van Hinte sæti upptöku á tveimur eins lítra flöskum af Whisky, og sex 0,75 lítra flöskum af léttvíni.

Ákærði Jacob sæti upptöku á bifreiðinni BD RG 01.

Ákærðu greiði óskipt 1.430.239 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði Jacob greiði Páli Arnóri Pálssyni hæstaréttarlögmanni 2.400.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Þorsteinn greiði Helga Jóhannessyni hæstaréttarlögmanni 2.400.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.