Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2009


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Starfslok
  • Kröfugerð
  • Aðfinnslur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. október 2009.

Nr. 53/2009.

Helga Björk Magnúsar Grétudóttir

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

Fjölmennt

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Starfslok. Kröfugerð. Aðfinnslur. Sératkvæði.

H krafðist þess að viðurkennt yrði að henni hefði með ólögmætum hætti verið skipað í veikindafjarvistir frá starfi sínu sem tónlistarkennari hjá F og að F yrði dæmt til að greiða henni skaða- og miskabætur vegna þessa. Í málinu hélt F því fram að veikindi H hefðu orðið þess valdandi að hún gæti ekki sinnt starfi sínu. Þar sem H hafði ekki aflað sér sönnunar um vinnufærni sína, þrátt fyrir að það hefði staðið henni nær, yrði að leggja til grundvallar að hún hefði horfið frá vinnu vegna veikinda. Þar sem F hafði uppfyllt launagreiðsluskyldu sína gagnvart H í samræmi við rétt hennar samkvæmt gildandi kjarasamningi og lagareglum var F sýknað af kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. febrúar 2009. Hún krefst þess að viðurkennt verði að henni hafi með ólögmætum hætti verið skipað í veikindafjarvistir frá starfi sínu sem tónlistarkennari hjá stefnda í desember 2005 og að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skaða- og miskabætur að fjárhæð 6.341.436 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. apríl 2008 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

Krafa áfrýjanda um greiðslu úr hendi stefnda er reist á þeirri grunnröksemd að stefndi hafi með ólögmætum hætti skipað henni í veikindafjarvistir frá starfi sínu í desember 2005. Áfrýjandi lýsti því við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að hún hefði ekki aðra hagsmuni að lögum af því að fá viðurkenningardóm í samræmi við fyrri kröfulið sinn en að fá leyst úr ágreiningi aðila um þessar forsendur fyrir aðfararkröfunni í síðari kröfuliðnum. Viðurkenningarkrafan felur því í reynd einungis í sér forsendu af hálfu áfrýjanda fyrir aðfararkröfu hennar og verður fjallað um efni hennar þannig en ekki lagður á hana sérstakur dómur.

Krafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti er annars vegar um 341.436 krónur vegna þess sem hún telur vanta á launagreiðslur stefnda til sín það tímabil sem krafa hennar í héraði tók til. Hefur hún þá dregið frá kröfunni launagreiðslur stefnda og greiðslur sem hún hefur notið vegna sama tímabils frá sjúkrasjóði stéttarfélags síns, lífeyrissjóði, Félagsþjónustunni í Reykjavík og Tryggingastofnun ríkisins. Þessar greiðslur dró hún ekki frá kröfunni í héraði. Hins vegar krefst hún miskabóta 6.000.000 króna svo sem hún gerði í héraði.

Fyrir liggur að stefndi taldi atvik sem orðið höfðu á vinnustað áfrýjanda leiða í ljós að heilsufar hennar væri með þeim hætti að hún gæti ekki leyst starf sitt af hendi. Er óumdeilt að áfrýjanda varð strax á næstu dögum kunnugt um þessa afstöðu stefnda. Þá hefur áfrýjandi lagt fram í Hæstarétti bréf  lögmanns Félags framhaldsskólakennara 20. mars 2006 til félagsins, þar sem hann meðal annars nefnir að hann hafi í símtali við áfrýjanda lagt til að hún aflaði sér læknisvottorðs um vinnufærni sína, mætti með það á vinnustaðinn og lýsti sig reiðubúna að taka til starfa aftur. Talið verður að þessi atvik hafi gefið áfrýjanda tilefni til að afla gagna um heilsufar sitt til sönnunar um vinnufærni sína og það hafi staðið henni nær en stefnda að afla þeirra enda óhægt um vik fyrir hann, eins og tekið er fram í forsendum hins áfrýjaða dóms. Verður því lagt til grundvallar dómi að áfrýjandi hafi horfið frá vinnu í desember 2005 vegna veikinda.

Fallist verður á með stefnda að hann hafi í tengslum við veikindi áfrýjanda og starfslok, þar með talið með launagreiðslum til hennar, farið að öllu leyti eftir kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu, en óumdeilt er að sá samningur gilti um ráðningarkjör áfrýjanda. Verður ekki talið að tilvísanir áfrýjanda til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skipti máli við úrlausn málsins þegar af þeirri ástæðu að uppsögn stefnda á ráðningarsamningi áfrýjanda, sem reist var á því að hún hefði verið samfellt frá vinnu vegna veikinda í 12 mánuði launalaust, gaf ekki tilefni til áminningar eða málsmeðferðar samkvæmt stjórnsýslulögum.

Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Það er aðfinnsluvert að bæði stefna áfrýjanda í héraði og greinargerð hennar fyrir Hæstarétti eru að mun lengri og ítarlegri en gert er ráð fyrir í e. lið 1. mgr. 80. gr. og b. lið 2. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991. Í hinum áfrýjaða dómi er efni stefnunnar tekið um of upp í dóminn án þess að nægilega hafi verið fylgt d. lið 114. gr. sömu laga.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Áfrýjandi, Helga Björk Magnúsar Grétudóttir, greiði stefnda, Fjölmennt, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

I

Fyrir liggur að stefndi taldi atvik sem orðið höfðu á vinnustað áfrýjanda 7. desember 2005 leiða í ljós að heilsufar hennar væri með þeim hætti að hún gæti ekki leyst starf sitt af hendi. Er óumdeilt að áfrýjanda var strax á næstu dögum kunnugt um þessa afstöðu stefnda. Í tölvupósti sem hún skrifar skólastjóra 14. desember 2005 rekur hún atburði 7. desember og segir þar deildarstjóra hafa fullyrt að hún væri veik, en hún hafi andmælt því. Í héraðsstefnu kemur fram að áfrýjandi hafi strax mótmælt öllum fullyrðingu um veikindi og verið reiðubúin til að mæta til vinnu. Stefndi kvaðst hafa farið að ráðleggingum Félags framhaldsskólakennara um hvernig taka mætti á málinu, en í tölvupósti frá formanni þess til skólastjóra 9. desember 2005 segir að: „við svona aðstæður geti stjórnandi afþakkað vinnuframlag starfsmanns vegna þess að hann sé ófær um að gegna starfi sínu vegna veikinda. Ef starfsmaðurinn hafnar því þá getur stjórnandi farið fram á að starfsmaðurinn fari í læknisrannsókn hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar“. Þykir mega ganga út frá því, og hefur það stuðning í málsgögnum, að skólastjórinn hafi upplýst áfrýjanda um innihald þessa bréfs símleiðis. Þá hefur áfrýjandi lagt fram í Hæstarétti bréf  lögmanns Félags framhaldsskólakennara 20. mars 2006 til félagsins, þar sem hann meðal annars nefnir að hann hafi í símtali við áfrýjanda lagt til að hún aflaði sér læknisvottorðs um vinnufærni sína, mætti með það á vinnustaðinn og lýsti sig reiðubúna að taka til starfa aftur. Ljóst er af málsgögnum að áfrýjandi fór ekki að þessum ráðum lögmannsins. Áfrýjandi var boðuð bréflega til fundar 22. ágúst 2006 til þess að kynna henni tvær skýrslur, annars vegar úttekt Lífs og sálar ehf., sálfræðistofu, sem stefndi hafði óskað eftir vegna kvartana áfrýjanda um einelti og ofbeldishótanir á vinnustaðnum, og hins vegar greinargerð trúnaðarmanns fatlaðra í Reykjavík. Ekki eru meint veikindi áfrýjanda nefnd í því fundarboði. Með bréfi lögmanns stefnda 7. desember 2006 var henni tilkynnt að réttur hennar til launa vegna veikinda væri fallinn niður og henni gefinn kostur á að fá lausn frá störfum ef hún framvísaði vottorði um „varanlega ófærni um að gegna starfi vegna vanheilsu“ og myndi hún þá halda föstum launum í þrjá mánuði. Ef hún kysi að snúa aftur til starfa myndi stefndi nýta sér heimild samkvæmt kjarasamningi til þess að krefjast vottorðs trúnaðarlæknis. Áfrýjandi mótmælti þessari afstöðu með bréfi 27. apríl 2007 og krafðist þess að lögmæt uppsögn færi fram eða ellegar að hún kæmi aftur til starfa. Með bréfi lögmanns stefnda 3. maí 2007 var fyrra erindi ítrekað. Í svarbréfi 3. júlí 2007 mótmælti áfrýjandi enn að hún hefði verið veik frá 7. desember 2005. Vísar hún þar um til vottorðs heimilislæknis sem hafi legið fyrir frá upphafi, en það er ekki meðal málsgagna. Áfrýjandi var síðan formlega leyst frá störfum samkvæmt grein 12.4.2. í kjarasamningi með bréfi 17. desember 2007. Er óumdeilt að hún hafi þá fengið greidd þriggja mánaða laun.

Í áðurgreindu bréfi áfrýjanda 3. júlí 2007 krafðist hún þess að „fá skriflega greinargerð um meint veikindi“ sín og hvaðan sú sjúkdómsgreining kæmi. Var þessi krafa ítrekuð í bréfi lögmanns hennar 13. nóvember 2007. Í svarbréfi lögmanns stefnda 20. nóvember 2007 segir að fyrir liggi tvær skýrslur sem varði málið og skýri efni þeirra hvers vegna stefndi taldi nauðsynlegt á sínum tíma að afþakka vinnuframlag áfrýjanda og talið hafi verið að veikindi hindruðu hana í að sinna kennslu fyrir stefnda. Þarna vísar stefndi til þeirra tveggja skýrslna sem kynntar voru áfrýjanda á fundi 22. ágúst 2006, en þá voru rúmir átta mánuðir liðnir frá því að hún var send heim úr vinnu. Fyrri skýrslan er unnin af Líf og sál ehf., sálfræðistofu 5. maí 2006 af því tilefni að áfrýjandi kvartaði yfir samstarfsmanni. Ekki er tekið undir þau umkvörtunarefni, en lýst þeim vanda sem upp var kominn á vinnustaðnum vegna framkomu áfrýjanda. Engin afstaða er þar tekin til heilsufars áfrýjanda og lýsti annar skýrslugjafa því fyrir dómi að ekki hefði verið um það beðið og þau myndu ekki hafa tekið að sér slíkt verkefni. Hin skýrslan er greinargerð trúnaðarmanns fatlaðra í Reykjavík 14. júlí 2006. Þar er lýst ýmsum atvikum sem nemendur hafi kvartað yfir. Þá kemur ítrekað fram í skýrslunni að kennarinn sé kominn í veikindaleyfi, að atvik hafi verið skýrð fyrir nemendum í ljósi þessara veikinda og hvers eðlis þau séu og skýrsluhöfundur hafi vitneskju um að kennarinn muni ekki koma aftur til starfa. Í tilefni þessarar skýrslu sendi áfrýjandi erindi til Félagsmálaráðuneytisins sem féllst á að fjalla um það á grundvelli eftirlitshlutverks síns samkvæmt 3. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Í áliti ráðuneytisins 28. september 2007 kemur fram að um óvenjulegt mál sé að ræða, að viðkomandi trúnaðarmaður hafi verið nýkomin til starfa, og að hún hefði að réttu átt að bera mál þetta formlega undir Svæðisráð um málefni fatlaðra í Reykjavík og ræða þar efnistök áður en hún afgreiddi það. Þá hafi andmælaréttur áfrýjanda ekki verið virtur. Í málflutningi sínum byggir stefndi á því að hann hafi í kjölfar atburðarins 7. desember 2005 haft samband við tvo heilbrigðisstarfsmenn og fleiri aðila vegna áfrýjanda. Verður að skilja það svo að það hafi verið í tengslum við þá ákvörðun hans að setja áfrýjanda í veikindaleyfi. Engin gögn eru í málinu varðandi þessi samtöl og þessir ráðgjafar komu ekki fyrir dóminn til að gefa skýrslu þar um.

II

Stefndi er sjálfseignarstofnun og virðist óumdeilt að hann hafi gengið inn í annars vegar samkomulag sem forveri hans, Fullorðinsfræðsla fatlaðra, og Kennarasamband Íslands gerðu 12. júní 2002 um að lágmarkskjör starfsmanna færu að kjarasamningi Kennarasambandsins og fjármálaráðherra, og hins vegar þjónustusamning menntamálaráðuneytis og Landsamtakanna Þroskahjálp og Öryrkjabandalags Íslands um rekstur fullorðinsfræðslu fyrir fatlaða 12. mars 2002. Í þjónustusamningnum kemur fram í 4. gr. að ríkið leggur stofnuninni til rekstrarfé. Starfsemi stefnda á undir lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðra og lýtur eftirliti félagsmálaráðuneytisins. Í ljósi þessa er fallist á með áfrýjanda að stefnda beri að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Þá segir í ráðningarsamningi áfrýjanda að um „réttindi og skyldur starfsmanns fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna“, er ómótmælt að þarna sé vísað til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Skilja verður málflutning stefnda svo að vegna meintra veikinda áfrýjanda hafi sá kostur ekki verið fyrir hendi að veita henni áminningu og hefja uppsagnarferli. Ber stefndi sönnunarbyrði fyrir því að aðstæður hafi verið með þeim hætti. Ljóst er að hvorug framangreindra skýrslna fjallar um mat á heilsufari áfrýjanda og styðja þær því ekki þá ákvörðun stefnda að setja hana í ótímabundið í veikindaleyfi. Í báðum skýrslunum eru hins vegar tilgreind atvik sem sýna að vandamál höfðu skapast á vinnustaðnum og verður að fallast á að nægilega sé upplýst að skólastjórnandi hafi verið í rétti til að senda áfrýjanda heim 7. desember 2005. Engin gögn önnur en frásagnir um óviðeigandi hegðun áfrýjanda, sem ekki eru staðfestar fyrir dómi, styðja hins vegar þá fullyrðingu stefnda að áfrýjandi hafi verið óvinnufær í kjölfarið. Engin vottorð eða skýrslur heilbrigðisstarfsfólks þar að lútandi er að finna í málinu. Verður því ekki fallist á að stefndi hafi sannað að hann hafi haft fullnægjandi forsendur til þess að setja áfrýjanda í ótímabundið veikindaleyfi og gera henni að afsanna réttmæti þess, og að ekki hafi verið unnt að fara með starfslok hennar samkvæmt IX. kafla laga nr. 70/1996.

III

Eins og að framan er rakið er upplýst að áfrýjanda var frá upphafi ljóst að hún var sett í veikindaleyfi. Kemur fram að hún hafi af þessu tilefni þegar í upphafi leitað til heimilislæknis, en vottorð þar um er ekki að finna í málsgögnum. Þá er ljóst að hún tók ekki til greina ráðleggingar lögmanns stéttarfélags síns, sem hann skýrir frá í bréfi 20. mars 2006, um að hún skyldi afla sér læknisvottorðs um vinnufærni sína og mæta til starfa. Í ljósi þess að áfrýjandi vissi að hún var talin veik, ákvæða kjarasamnings, sem henni hafði verið bent á, og ráðlegginga lögmannsins, verður að líta svo á að hún hafi sýnt verulegt tómlæti um hagsmuni sína með því að afla ekki gagna um heilsu sína til sönnunar á vinnufærni sinni. Þó að fallist sé á að stefndi hafi ekki gætt réttra vinnubragða við uppsögn áfrýjanda upphefur það ekki skyldu hennar til að bregðast við þeirri fullyrðingu að hún væri óvinnufær vegna veikinda, enda gat hún ein aflað réttra gagna um heilsufar sitt eða samþykkt að tala við trúnaðarlækni stefnda. Þá verður einnig að líta til þess að samkvæmt uppfærsluskrá launamanns eru mánaðarlaun til hennar frá og með desember 2005 til og með desember 2006 skráð sem veikindalaun. Liggur ekki fyrir að hún hafi gert neinar athugasemdir við þá afgreiðslu.

Ráðningarsamningur áfrýjanda var ótímabundinn með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hefur hún fengið greidd full laun í eitt ár og að auki þrjá mánuði vegna uppsagnar. Fallast verður á með stefnda að áfrýjandi hafi þar með fengið fullar bætur, enda hefur hún ekki sannað að núverandi óvinnufærni hennar sé afleiðing þeirra atburða sem mál þetta snýst um.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum samkvæmt 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Tekið er undir aðfinnslur meiri hluta dómsins.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2008.

Mál þetta sem þingfest var hinn 10. apríl 2008 var dómtekið 14. október 2008.

Stefnandi er Helga Björk Magnúsar Grétudóttir, Sólvallagötu 50, Reykjavík. Stefndi er Fjölmennt, Borgatúni 22, Reykjavík.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur í málinu:

Að viðurkennt verði að stefnanda hafi með ólögmætum hætti verið skipað í veikindafjarvistir frá starfi sínu sem tónlistarkennari hjá stefnda í desember 2005.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 13.122.009 í bætur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað með hliðsjón af gjaldskrá Lögfræðiþjónustunnar ehf. og beri málskostnaður virðisaukaskatt. Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði látinn falla niður.

Málsatvik:

Stefnandi kveður málsatvik vera þau að hún hafi ráðið sig til starfa hjá Fullorðinsfræðslu fatlaðra, sem síðar varð Fjölmennt, með ráðningarsamningi dagsettum 4. október 2002. Um 100% starf hafi verið að ræða við tónlistarkennslu. Stéttarfélag stefnanda sé Kennarasamband Íslands (KÍ) og í ráðningarsamningi aðila sé vísað til kjarasamnings KÍ um launagreiðslur og önnur starfskjör, um rétt til launa í veikindum og fleiri atriði. Þá sé einnig vísað til kjarasamnings KÍ vegna uppsagnarfrests og fram komi í ráðningarsamningi að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna án nánari lagatilvísunar.

Stefndi sé miðstöð símenntunar sem þjóni fötluðu fólki 20 ára og eldri. Stefndi sé sjálfseignarstofnun með þjónustusamning við menntamálaráðuneytið. Vorið 2002 hafi orðið breyting á rekstrarformi stefnda, sem þá hét Fullorðinsfræðsla fyrir fatlaða. Breytingin fólst í því að stefndi varð sjálfseignarstofnun í stað ríkistofnunar en með þjónustusamning við menntamálaráðuneytið.

Þann 7. desember 2005 hafi komið til árekstrar á milli stefnanda og samkennara og sviðstjóra hjá stefnda í kennslustund frammi fyrir nemendum og samkennara.

Stefnandi hafi talið að þarna hafi átt sér stað ofbeldi gagnvart sér og nemendum. Hún hafði haft samband við Vinnueftirlitið vegna þessa atburðar og óskað aðstoðar. Síðar sama dag hafi framkvæmdastjóri stefnda, Atli Georg Lýðsson, og deildarstjóri stefnda, María Hildiþórsdóttir, óskað eftir fundi með stefnanda. Á fundinum hafi stefnandi sagt frá því að hún hefði haft samband við Vinnueftirlitið vegna málsins.  Deildarstjórinn hafi fullyrt við stefnanda að hún væri veik sem stefnandi mótmælti.

Þann 8. desember 2005 hafi stefnandi mætt til vinnu og kennt sína tíma. Þann 9. desember hafi hún ekki átt að kenna. Þann 12. desember 2005 hafi stefnandi talað við framkvæmdastjóra stefnda í síma og hann sagt henni að hún ætti ekki að mæta til vinnu að svo stöddu. Stefnandi hafi þá aftur haft samband við heimilislækni sinn og kvartað formlega til Vinnueftirlitsins og sent formanni KÍ tölvupósta vegna málsins.

Í framhaldi hafi stefndi sett stefnanda á veikindalaun og hún fengið greidd veikindalaun frá 7. desember 2005 til 7. desember 2006 en þá verið tilkynnt að veikindaréttur hennar hjá stefnda væri tæmdur og hún fengi ekki frekari greiðslur.

Þann 3. janúar 2006 hafi stefnanda borist bréf frá Vinnueftirlitinu og í framhaldi af því verið framkvæmd úttekt hjá stefnda þann 5. janúar s.á. og gerðar þrjár athugasemdir af hálfu Vinnueftirlitsins sem flokkaðar hafi verið sem minniháttar athugasemdir.

Stefndi hafi óskað eftir aðstoð fyrirtækisins Lífs og sálar ehf. í mars 2006 vegna ásakana stefnanda um einelti og ofbeldishótanir. Hafi verið óskað eftir rannsókn Lífs og sálar ehf. á því hvað hæft væri í ásökunum stefnanda. Skýrsla fyrirtækisins, unnin af Einari G. Jónssyni og Þórkötlu Aðalsteinsdóttur, sálfræðingum hafi legið fyrir þann 5. maí 2006. 

Í skýrslunni komi fram að fjarvistir stefnanda frá vinnu hafi verið skilgreindar sem veikindaleyfi af hálfu stjórnenda. Ekkert mat sé þar lagt á ástand stefnanda en þar komi fram að ljóst sé að stefnandi hafi neitað að hlýða fyrirmælum yfirmanns. Að mati þeirra sem unnu skýrsluna hefði stefnandi við þessar aðstæður átt að gera athugasemd, yfirgefa skólastofuna og kvarta síðan við stjórnendur vinnustaðarins. Í skýrslunni komi fram að það sé ljóst að stefnandi hafi upplifað aðstæður þann 7. desember 2005 sem mjög erfiðar og hafi síðan átt erfitt með að komast yfir það sem gerðist. Einnig hafi það skapað mikla vanlíðan hjá stefnanda hversu langur tími hafi liðið og hve óljós staða hennar hjá stefnda væri. Í skýrslunni komi fram að fullyrðing standi gegn fullyrðingu um samskiptin eftir 7. desember 2005. Stefnandi hafi kvartað undan því að enginn hafi haft samband við hana frá stefnda en stjórnendur stefnda segi að stefnandi hafi tilkynnt þeim að hún óskaði ekki eftir beinum samskiptum við þá.

Í skýrslunni komi fram það mat að hluti vandans sé að stjórnendur stefnda hafi ekki tekið á vandmálum með skýrum hætti. Stjórnendur stefnda hefðu þurft að taka afstöðu til þeirra þátta í hegðun stefnanda sem þyki ámælisverðir og ákveða hvort boða eigi áminningu vegna þeirra eða láta kyrrt liggja og koma hefði þurft skýrt fram afstaða þeirra til þess hvort stefnandi yrði boðin velkomin til starfa eða hvort einhver skilyrði yrðu sett fyrir endurkomu hennar. Stjórnendur stefndu þyrftu að taka afstöðu til þess hvort óæskilegt væri að stefnandi komi aftur til starfa eftir það sem á undan er gengið, og ef svo væri, að taka afstöðu til þess hvort bjóða eigi stefnanda starfslokasamning eða hvort setja eigi af stað uppsagnarferli.

Það hafi síðan ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 9. ágúst 2006, að boðað hafi verið til fundar vegna málsins. Stefnandi mætti til fundarins með þáverandi lögmanni sínum. Á fundinum hafi fyrrnefnd greinargerð Lífs og sálar ehf. verið lögð fram og greinargerð trúnaðarmanns fatlaðra í Reykjavík, dagsett 14. júlí 2006, vegna meintra samskiptaerfileika milli stefnanda og nemenda stefnda. Stefnandi, sem hafi ekkert vitað um vinnslu þessarar greinargerðar trúnaðarmanns fatlaðra fyrr en á þessum fundi, hafi mótmælt henni með öllu.

Stefnandi sendi félagsmálaráðuneytinu erindi í apríl 2007 og óskaði eftir því að framangreind greinargerð trúnaðarmanns yrði rannsökuð.  Var svo gert og í september 2007 lá fyrir sú afstaða ráðuneytisins að andmælaréttur stefnanda hefði ekki verið virtur en að trúnaðarskylda hefði ekki verið brotið á henni.

Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 7. desember 2006, var stefnanda tilkynnt að veikindalaun hennar væru fallin niður. Jafnframt var henni tilkynnt að hún hefði möguleika á lausn frá störfum ef hún framvísaði læknisvottorði um varanlega ófærni um að gegna starfi vegna vanheilsu en með því að vera leyst frá störfum á þessum grunni héldi hún föstum launum í þrjá mánuði. Loks var henni bent á að starfsmaður, sem hefði verið óvinnufær vegna veikinda samfellt í 1 mánuð eða lengur, mætti ekki hefja störf að nýju nema læknar vottaði að heilsa hans leyfði.  Kæmi til þess myndi stefndi nýta sér heimild í kjarasamningi og krefjast vottorðs trúnaðarlæknis stofnunarinnar.

Þann 22. desember 2006 lagði stefnandi fram formlega kvörtun um einelti á vinnustað til Vinnueftirlitsins og þar kemur fram  eftirfarandi lýsing hennar á aðstæðum:

„Í kjölfar atviks þann 7. des. 2005 sem var formlega kvartað undan til VER 12. des. 2005 var undirritaðri sagt að halda sig til hlés þar til öldurnar lægðu í gegnum óviðkomandi aðila. Seinna var ég úrskurðuð veik af stjórnendum, án samráðs við lækna og sett í veikindafrí gegn mínum vilja og læknisvottorðs aldrei krafist. Stjórnendur hafa aldrei haft beint samband við mig og er málinu enn ólokið.“

Í bréfi stefnanda til lögmanns stefnda. dagsettu 27. apríl 2007, kemur fram að stefnandi hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá lausn á sínum málum með aðstoð ýmissa aðila en að það hafi ekki tekist. Þá gerði stefnandi þá kröfu í bréfinu að stefndi segði sér upp með löglegum hætti eða að hún kæmi aftur til starfa.

Lögmaður stefnda svaraði í bréfi, dagsettu 3. maí 2007, þar sem fram kemur að stefndi sé reiðubúinn, vegna veikinda stefnanda, að ganga til samstarfs við hana um lausn frá starfi samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Þá var áréttað í bréfinu að óskaði stefnandi ekki eftir því væri nauðsynlegt fyrir hana að framvísa starfs­hæfnisvottorði til að hefja starf að nýju. Stefnandi svaraði þessu með bréfi, dagsettu 3. júlí, þar sem hún hafnaði því að hún hefði verið veik, og  benti á að ekkert í málinu styddi þá fullyrðingu, engin læknisvottorð um veikindi hennar lægju fyrir.

Með bréfi, dagsettu 13. nóvember 2007, óskaði lögmaður stefnanda eftir því að stefndi legði fram þau gögn sem legið hefðu til grundvallar því mati hans að stefnandi hefði verið veik þann 7. desember 2005 og síðar. Einnig var óskað skýringa og gagna sem legið hefðu til grundvallar þeirri ákvörðun að setja stefnanda á veikindalaun í desember 2005.

Svar barst frá lögmanni stefnda með bréfi, dagsettu 20. nóvember 2007, þar sem fram kom að stefndi hefði talið nauðsynlegt á sínum tíma að afþakka vinnuframlag stefnanda þar sem hún hefði verið talin ófær um að gegna starfi sínu vegna veikinda. Hefði stefnanda ávallt síðan verið gerð grein fyrir því að þegar og ef hún teldi heilsu sína leyfa sér að hefja starf að nýju yrði hún að tilkynna stefnda það formlega og stefndi þá fela trúnaðarlækni stofnunarinnar að leggja mat á heilsufar hennar eins og kjarasamningur heimilaði. Þá var bent á fyrirliggjandi skýrslur um málið og að stefndi hefði talið að efni þeirra skýrði hvers vegna talið hefði verið að veikindi stefnanda hindruðu hana í að sinna kennslu fyrir stefnda.

Með bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 17. desember 2007, var stefnanda tilkynnt að með vísan til kjarasamningsgreinar 12.4.2, væri hún leyst frá störfum frá og með 7. desember 2007, vegna heilsubrests. Jafnframt að stefndi myndi afgreiða launagreiðslu til stefnanda vegna loka vinnusambandsins í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Lögmaður stefnanda mótmælti ofangreindri ákvörðun stefnda í bréfi, dagsettu 4. janúar 2008, og gerði grein fyrir fyrirhugaðri skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna málsins. Lögmaður stefnda áréttaði í bréfi 8. janúar 2008 að stefndi teldi sig hafa gert að fullu upp við stefnanda í samræmi við kjarasamning og að fyrirhugaðri skaðabótakröfu væri hafnað.

Fram kemur í stefnu að stefnandi hafi ekki unnið frá því í desember 2005. Hún hafi ekki fengið aðra vinnu við tónlistarkennslu enda tíðkist að hafa samband við fyrri vinnustað og fá meðmæli og umsögn þegar sótt sé um starf. Þá sé tónlistarheimurinn hér á landi mjög lítill og þetta mál sé vel þekkt innan hans. Frá því í ágúst 2007 hafi stefnandi verið óvinnufær með öllu, eins og vottorð heimilislæknis hennar, sem liggur frammi í málinu, beri með sér.

Af hálfu stefnda er tekið fram að því er varðar atvik málsins að stefnandi, sem hafi starfað sem tónlistarkennari hjá stefnda, hafi lent í útistöðum við stuðningsfulltrúa og starfsfólk og farið út fyrir öll mörk í almennum samskiptareglum, og hafi það einnig bitnað á nemendum. Þann 7. desember 2005 hafi stefnandi mætti til kennslu í annarlegu ástandi að mati stjórnenda. Hafi verið óskað eftir því við stefnanda að hún færi heim, hvíldi sig og leitaði sér aðstoðar. Varðandi þennan atburð vísar stefndi í greinargerð sinni til áðurnefndrar skýrslu Lífs og sálar, sálfræðistofu, sem unnin hafi verið vegna ásakana stefnanda um einelti og ofbeldishótanir. Komi fram á bls. 7 í skýrslunni dæmi frá viðmælendum skýrsluhöfunda um ójafnvægi stefnanda og óviðeigandi hegðun: „T.d. bænahald í kennslustundum, setja krydd­jurtir ofan á ofna skólahúsnæðinu til að fæla burt illar vættir og ónáða nemendur í einkalífi þeirra með heimsóknum og símhringingum. Gagnrýna stjórnendur og samstarfsmenn við nemendur og gera nemendur að trúnaðarvinum sínum.“

Þáverandi framkvæmdastjóri stefnda leitaði strax eftir ofangreinda atburði til stéttarfélags stefnanda til ráðgjafar um það hvað væri best að gera í máli hennar. Í tölvupósti frá formanni Félags framhaldsskólakennara 9. desember 2005 segir: „Félagið hafði samband við lögmann þess, Ragnar H. Hall, til að fá ráðgjöf varðandi málin sem við ræddum um í vikunni. Hann segir að við svona aðstæður geti stjórnandi afþakkað vinnuframlag starfsmanns vegna þess að hann sé ófær um að gegna starfi sínu vegna veikinda. Ef starfsmaðurinn hafnar því þá getur stjórnandi farið fram á að starfsmaðurinn fari í læknisrannsókn hjá trúnaðarlækni stofnunarinnar sem gefi þá út vottorð um vinnufærni/óvinnufærni – og um forsendur þess að starfsmaður geti/geti ekki sinnt starfi sínu. Í framhaldinu verði þá starfsmaður leystur frá störfum ef niðurstöður læknisrannsóknar sýna að hann sé ófær um að gegna þeim vegna veikinda.“

Stefnanda hafi strax í desember 2005 verið gerð grein fyrir því að stefndi teldi hana ófæra um að gegna starfi sínu vegna veikinda og að væri hún því ósammála yrði hún að fara í læknisrannsókn hjá trúnaðarlækni til að leggja mat á vinnufærni hennar. Líklegt sé að stefnandi hafi einnig fengið þessar upplýsingar frá stéttarfélagi sínu, með hliðsjón af framangreindum tölvupósti. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi viðurkennt veikindi sín í framkvæmd með því að leita eftir styrkjum, meðal annars frá sjúkrasjóði KÍ.

Þá kemur fram af hálfu stefnda að frá því að stefnandi fór í veikindaleyfi í byrjun desember 2005 hafi hún verið á fullum launum í 12 mánuði + 3 mánuði eða samtals í 15 mánuði.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því að lausn hennar úr starfi hjá stefnda vegna heilsubrests, hafi verið ólögmæt. Stefnandi telur að við undirbúning og töku þeirrar ákvörðunar hafi ekki verið gætt réttra meginreglna samkvæmt lögum og kjarasamningum. Stefnandi leggur áherslu á að við mat á lögmæti ákvörðunarinnar verði að líta á málið í heild, hinn langa aðdraganda og sérkennilega ferli þess og til þess að allar ákvarðanir stefnda í málinu varði mikilvæga persónulega hagsmuni stefnanda.

Stefnandi byggir á því að stefndi sé stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að sú ákvörðun stefnda að setja stefnanda á veikindalaun sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem lúti ákvæðum þeirra laga, auk óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar, og verði að byggjast á málefnalegum og gildum forsendum. Stefnandi telur að með því að taka ákvörðun um að senda stefnanda heim og ákveða svo að hún væri veik, án undirbúnings og án þess að viðhlítandi grundvöllur væri lagður að ákvörðuninni, án þess að gefa skýringar á henni og án þess að gefa stefnanda kost á að tjá sig um málið, hafi stefndi brotið gegn andmælarétti stefnanda, sbr. 13.-15. gr. stjórnsýslulaga, gegn rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt því ákvæði skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun ef markmiði verði ekki náð með öðru vægara móti.

Stefnandi telur að hún hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna þess að stefndi hafi með ólögmætum hætti sett hana á veikindalaun og síðar veitt henni lausn frá starfi á grundvelli heilsubrests. Telur stefnandi að hún eigi rétt á að fá það tjón sitt bætt úr hendi stefnda.

Stefnandi telur að lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi um sig og sín réttindi. Stefnandi hafi gert ótímabundinn ráðningarsamning við stefnda þann 4. október 2002 og komi þar meðal annars fram að ofangreind lög gildi um starfssambandið og að stéttarfélag launþegans sé Kennarasamband Íslands (KÍ). Samkvæmt starfsmannalögum nr. 70/1996 sé skylt að veita starfsmanni áminningu og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. laga nr. 70/1996. Eru það fyrst og fremst ástæður sem rekja má til persónu starfsmannsins. Þá eigi starfsmenn rétt til launa í veikindaforföllum samkvæmt 12. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, sbr. lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 19/1979 sé það lagt í hendur launþegans, hvort hann vilji neyta réttar síns til veikindalauna, hann eigi, ef að atvinnurekandi óskar þess, að afhenda atvinnurekanda vottorð læknis, sem sýni óvinnufærni launþegans vegna veikinda. Skylda launþegans í þessu efni sé bundin ósk atvinnurekandans.

Í 12. kafla kjarasamnings KÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sé fjallað um rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa. Þar komi fram í grein 12.1.1. að ef starfsmaður verði óvinnufær vegna veikinda og slyss, skuli hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveði hvort læknisvottorðs skuli krafist og hvort það skuli vera frá trúnaðarlækni hlutaðeigandi stofnunar. Þá segi í greininni að krefjast megi læknisvottorðs af starfsmanni vegna óvinnufærni hvenær sem forstöðumanni /yfirmanni stofnunar þyki þörf á.

Lög nr. 19/1979, lög nr. 70/1996 og veikindakafli kjarasamningsins gangi út á að það sé starfsmaður sem tilkynni veikindi óski hann eftir greiðslu veikindalauna og beri honum að leggja fram vottorð læknis því til sönnunar ef vinnuveitandi óskar Réttur vinnuveitandans snúist um að geta krafist læknisvottorðs til staðfestingar á óvinnufærni starfsmanns sem hafi óskað eftir að fá veikindalaun greidd. 

Laga- og kjarasamningaákvæðum um veikindarétt sé ætlað að veita launþegum ákveðið fjárhagsöryggi í veikinda- og slysatilvikum sem byggist á áunnum rétti launþegans til launa í veikindum. Ákvæðin gefi ekki, og hafi aldrei verið ætlað að gefa, vinnuveitanda heimild eða möguleika á því að ákveða einhliða að starfsmaður sé veikur, hefja greiðslu veikindalauna og á grundvelli þessara einhliða ákvarðana leysa starfsmann frá störfum á grundvelli heilsubrests. Það sé eingöngu þegar starfsmaður hafi tilkynnt um veikindi að myndist réttur fyrir vinnuveitanda að krefjast læknisvottorðs og starfshæfnisvottorðs.

Stefnandi byggir á því að fjarvera hennar frá vinnu hafi ekki verið óútskýrð, heldur hafi átt sér þá skýringu að stefndi hafi sent hana heim vegna samskiptavandamála sem komið hafi upp á vinnustað hennar þann 7. desember. Stefnandi hafi mætt til vinnu 8. desember, en hún hafi ekki átt að kenna 9. desember. Stefndi hafi tilkynnt henni símleiðis að hún skyldi halda sig heima að svo stöddu, en hún hafi á þessum tíma verið vinnufær og tilbúin að sinna skyldu samkvæmt ráðningarsamningi. Þetta hafi stefnda verið heimilt og hann byggt á stjórnunarrétti sínum, en þegar hann hafi sett stefnanda á veikindalaun án nokkurrar tilkynningar um veikindi eða framlagningar vottorðs af hálfu stefnanda, hafi stefndi farið út fyrir mörk stjórnunarréttar síns. Hann hafi aldrei skýrt á hverju hann byggði ákvörðun sína og fullyrðingar um veikindi stefnanda, sem hafi strax mótmælt öllu tali um veikindi og verið reiðubúin til að mæta til vinnu hvenær sem stefndi óskaði. Stefndi hafi aldrei reynt að sanna eða sýna fram á veikindi stefnanda, en í bréfi lögmanns hans frá 20. nóvember 2007 hafi hann í fyrsta sinn reynt að skýra á hverju niðurstaða um veikindi stefnanda hafi verið byggð. Þar sé vísað til skýrslu Lífs og sálar ehf., frá 7. maí 2006 og til greinargerðar trúnaðarmanns fatlaðra í Reykjavík frá 14. júlí 2006. Segi orðrétt í bréfinu: „Telur Fjölmennt að efni þeirra skýri hvers vegna talið hefur verið að veikindi Helgu Bjarkar hindri hana í að sinna kennslu fyrir Fjölmennt.“

Stefnandi telur að ofangreindar skýrslur staðfesti ekki með nokkrum hætti veikindi hennar. Annars vegar skýrsla unnin af sálfræðingum vegna ásakana stefnanda um einelti á vinnustað og hins vegar skýrsla unnin af þroskaþjálfa, trúnaðarmanni fatlaðra, vegna meintra samskiptaerfiðleika milli stefnanda og nemanda stefnda. Skýrslurnar hafi ekki verið unnar af læknum og geti ekki komið í stað læknisvottorðs. Fram hafi komið í bréfi lögmanns stefnda frá 20. nóvember 2007 að stefnanda hafi ávallt verið gerð grein fyrir því að þegar og ef hún teldi heilsu sína leyfa sér að hefja starf að nýju yrði hún að tilkynna stefnda það formlega og hann þá fela trúnaðarlækni stofnunarinnar að leggja mat á heilsufar hennar. Því er mótmælt að þessi krafa um starfhæfnisvottorð hafi legið fyrir frá upphafi. Það hafi fyrst verið á fundi í ágúst 2006 að gerð hafi verið krafa um að stefnandi skilaði starfhæfnisvottorði til þess að mega hefja vinnu að nýju. Skilyrði sem stefnandi hafi mótmælt með öllu.

Stefnandi hafi alveg frá upphafi mótmælt því að hún væri veik eða að hún hafi verið óvinnufær í desember 2005. Hún hafi alltaf haldið því fram að hún ætti rétt á að snúa aftur til vinnu eða að stefndi yrði að segja henni upp með lögmætum og formlegum hætti. Stefnandi hafi mótmælt því með öllu að stefndi hefði getað krafist þess að hún skilaði inn starfshæfnisvottorði til að mega mæta aftur til vinnu enda hafi hún ekki verið frá vinnu sinni hjá stefnda vegna veikinda. Því telji stefnandi að stefndi hafi ekki getað byggt lausn hennar frá störfum á kjarasamningsgrein 12.4.2 á grundvelli heilsubrests þar sem að ákvæðið byggist á því að starfsmaður hafi verið frá vinnu vegna veikinda sem, eins og fram hafi komið, hafi alls ekki átt við.

Kröfu sína um miskabætur byggir stefnandi á því að í aðgerðum stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gagnvart henni sem stefndi beri ábyrgð á og sé bótaskyldur vegna. Stefnandi bendir á að það hafi fyrst verið með tilkynningu hennar um einelti til Vinnueftirlits sem stefndi hafi brugðist við og óskað eftir úttekt Lífs og sálar ehf. Kröfu sína um miskabætur byggir stefnandi á því að í aðgerðum stefnda hafi falist ólögmæt meingerð gagnvart henni sem stefndi beri ábyrgð á og sé bótaskyldur vegna. Stefnandi bendir á að það hafi fyrst verið með tilkynningu hennar um einelti til Vinnueftirlits sem stefndi hafi brugðist við og óskað eftir úttekt Lífsogsálar ehf.

Stefnandi telur að stefndi hafi með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi gert lítið úr henni og hennar starfsframlagi án þess að veita henni nokkurt tækifæri til að bera hönd fyrir höfðuð sér. Fullyrðingar stefnda um veikindi séu með ólíkindum. Framganga stefnda gagnvart stefnanda brjóti gegn því sem talist geti eðlileg framkoma vinnuveitanda gagnvart starfsmanni. Stefndi hafi niðurlægt stefnanda með ótilhlýðilegum hætti, brotið gegn persónu hennar og virðingu. Hún hafi ekki fengið tækifæri til að verja sig og skýra mál sitt, henni verið sett ólögmætt skilyrði fyrir því að geta snúið aftur til vinnu og svo loks sagt upp störfum með ólögmætum hætti. Stefndi hafi því algerlega brugðist skyldum sínum sem vinnuveitandi.

Stefnandi hafi upplifað aðgerðir stefnda sem einelti og ofsóknir og telji sig af þessum sökum eiga rétt á miskabótum úr hendi stefnda.  Háttsemi stefnda hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda sem leiði til þess að stefnda beri að greiða stefnanda miskabætur, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 

Við mat á því hvort framangreindar aðgerðir stefnda gagnvart stefnanda hafi verið meingerð gegn persónu stefnanda beri að líta til þess að lausn frá störfum hafi verið byggð á meintum veikindum sem stefndi hafi aldrei gert tilraun til að styðja gögnum. Viðurkenning á lögmæti slíkrar einhliða fullyrðingar vinnuveitanda um veikindi starfsmanns vekti upp spurningar um hvaða áhrif það hefði á vinnu­umhverfi og réttarvernd launþega í landinu,  það sé alltaf áfall þegar starfsmanni sé sagt upp, en það skipti líka verulegu máli með hvaða hætti starfsmanninum sé sagt upp. Aðgerðirnar veki grundsemdir um að stefndi hafi hreinlega ekki treyst sér til að segja stefnanda upp með formlegum og lögmætum hætti og því hafi stefndi valið sér þessa óvenjulegu leið til þess að losa sig við óæskilegan starfsmann.

Stefnandi kveður ástæður málshöfðunarinnar ekki síst vera kröfu sína um að fá uppreisn æru og að viðurkennt verði að hún hafi ekki verið veik þegar vinnuframlagi hennar var hafnað í desember 2005, að stefnda hafi ekki verið stætt á að krefja hana um starfhæfnisvottorð og að viðurkennt verði að hún hafi mátt þola aðför að persónu sinni, óþægindi og andlegar þjáningar, vegna engra saka.

Þá vísar stefnandi til þeirrar vitundarvakningar og hugarfarsbreytingar sem átt hafi sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum árum um að einelti sé ekki samþykkt hvar sem það finnist fyrir. Vísast til reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum sem byggist á lögum nr. 46/1980. Þar er einelti skilgreint sem: „Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.“ Samkvæmt ákvæðum reglu­gerðarinnar hvíli ríkar skyldur á atvinnurekanda um að koma í veg fyrir hvers konar einelti. Þá vísist einnig til reglna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og til félags­mála­sátt­mála Evrópu, en þar sé kveðið á um rétt fólks til mannlegrar reisnar í starfi.

Stefnandi telur að aðgerðir stefnda gagnvart sér undanfarin ár falli undir skil­greininguna á einelti í fyrrgreindri reglugerð. Þetta hafi haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda og sé hún í dag óvinnufær. Mannorð hennar og æra hafi beðið mikinn hnekki og tíminn frá því í desember 2005 hafi einkennst af kvíða, vanmætti, ótta og reiði og haft afgerandi áhrif á líf hennar. Stefnandi telur að ákveða verði miskabætur að álitum, en ekki sé við fordæmi að styðjast.

Stefnandi sundurliðar skaðabótakröfu sína þannig:

Mánaðarlaun (desember 05)

kr.  268.321

Yfirvinna og kennsluyfirvinna

kr.   45.076

Mánaðarlaun (janúar - apríl 06)

kr.1.100.092 (275.023x4)

Yfirvinna og kennsluyfirvinna

kr.  180.304

Mánaðarlaun (maí - desember 06)

kr. 2.251.360 (281.420x8)

Yfirvinna og kennsluyfirvinna

kr.  360.608

Mánaðarlaun (janúar - desember 07)

kr. 3.474.996 (289.583x12)

Yfirvinna og kennsluyfirvinna

kr.    540.912

Mánaðarlaun (janúar - desember 08)

kr. 3.544.488 (295.374x12)

 

Yfirvinna og kennsluyfirvinna

kr.  540.912

 

Desemberuppbót 05/06/07

kr.  122.200

 

Orlofsuppbót 06/07/08

kr.    69.000

 

Lífeyrissj.framlag vinnuv. (11,5%, des 05-des 07)

kr. 1.437.301

 

Samtals

kr. 13.935.570

 

Til frádráttar veikindalaun, tekjur frá Félagsþjónustu,

Sjúkrasjóði KÍ og greiðsla stefnanda í des 2007

kr. 6.813.561  

 

Samtals

kr.   7.122.009    

 

Miskabótakröfu sína að fjárhæð kr. 6.000.000 rökstyður stefnandi með því hversu alvarlega aðför að æru og mannorði einstaklings sé hér um að ræða, en ekki sjái fyrir endann á áhrif aðgerða stefnda á líf stefnanda.

Kröfur sínar í málinu reisir stefnandi á meginreglum vinnu- og starfsmannaréttar, stjórnsýslulögum nr. 37/1993, skaðabótalögun nr. 50/1993, lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sbr. reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Krafa um vexti og dráttarvexti er reist á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi hafnar því að hann hafi á einhvern hátt gengið á rétt stefnanda. Hann telur að skýrslurnar sem liggja frammi í málinu, annars vegar skýrsla Lífs og sálar ehf. og hins vegar skýrsla trúnaðarmanns fatlaðra, sanni réttmæti þess mats stefnda á heilsu stefnanda í desember 2005 að rétt væri að hún færi í veikindaleyfi. Þá vísar stefndi til sjúkradagpeningavottorðs frá 22. ágúst 2007, sem einnig liggur frammi í málinu, en þar kemur fram að stefnandi „lenti í einelti á vinnustað sem hefur valdið miklum sálrænum erfiðleikum og orðið til þess að hún hefur ekki getað unnið“ og einnig kemur þar fram að frá 1. ágúst 2007 sé stefnandi óvinnufær með öllu. Stefnanda hafi ætíð staðið til boða, ef hún væri í raun ekki sátt við að vera í veikindaleyfi, að fara í skoðun hjá trúnaðarlækni stefnda til að meta vinnufærni. Þá liggi fyrir að stefndi hafi boðað stefnanda á fund, sem stefnandi hafi mætt til með þáverandi lögmanni sínum, til að kynna henni ofangreindar skýrslur sem unnar hafi verið af utanaðkomandi aðilum, sem stefndi hafi engar forsendur haft til að hafa áhrif á. Það geti ekki verið á ábyrgð stefnda ef þeir sem unnu þessar skýrslur hafi ekki staðið rétt að málum gagnvart stefnanda. Þá mótmælir stefndi því sem fram kemur í stefnu að stefndi virðist hafa haft það að markmiði að losa sig við stefnanda; fyrir stefnda hafi vakað það eitt að tryggja að þeir kennarar sem séu að starfi hjá honum hverju sinni séu heilir heilsu, andlega og líkamlega. Sé þetta sérstaklega mikilvægt með hliðsjón af fötlun þeirra nemenda sem starfsfólk stefnda sinnir. Þá tekur stefndi fram að skýrsla Lífs og sálar ehf. staðfesti að ekki hafi verið um einelti eða ofbeldi að ræða í garð stefnanda.

Við aðalmeðferð málsins komu fram mótmæli stefnda við því að um stjórnvaldsákvörðun hefði verið að ræða þegar ákveðið var að setja stefnanda á veikindalaun og kom fram það sjónarmið að um tvær leiðir hefði verið að velja í desember 2005 þegar stefnandi var að mati stefnda orðin ófær um að gegna starfi sínu: sú leið sem farin var og byggðist á reglum um veikindarétt annars vegar, og hins vegar, áminningar- og uppsagnarferli. Ákveðið hafi verið að fara þá leið sem vægari var gagnvart stefnanda. Þá kom fram í skýrslum fyrir dómi að haft hefði verið samband við ýmsa aðila, svo sem heimilislækni stefnanda og geðhjúkrunarfræðing sem hafi sinnt henni, áður en ákvörðun var tekin um að setja stefnanda á veikindalaun.

Stefndi tekur fram að frá því að veikindaleyfi stefnanda hófst í byrjun desember 2005 hafi hún verið á fullum launum í 12+3 mánuði eða samtals í 15 mánuði. Jafnvel þó að talið verði að ekki hafi verið staðið rétt að málum gagnvart stefnanda, telji stefndi að tjón stefnanda vegna þess hafi verið að fullu bætt. Þá verði að líta til þess í þessu sambandi að stefnandi hafi viðurkennt veikinda sín í raun enda hafi hún fengið fyrirgreiðslu bæði frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og styrktarsjóði Kennarasambands Íslands. Stefndi telur sig hafa fylgt leiðbeiningum stéttarfélags stefnanda og ákvæðum kjarasamnings varðandi veikindi stefnanda og síðan lausn frá störfum. Ef stefnandi hefði raunverulega viljað hefja störf að nýju og talið sig vinnufæra hefði hún átt að tilkynna það formlega og samþykkja að láta trúnaðarlækni stefnda meta vinnufærni, eins og kjarasamningur aðila kveði á um.

Varðandi varakröfu sína um verulega lækkun skaðabóta, krefst stefndi þess í því tilviki að, ef ekki verður fallist á að rétt hafi verið staðið að máli stefnanda af hálfu stefnda, verði litið á greiðslur þær, sem stefnandi hefur fengið frá því hún hætti að sinna starfi sínu í desember 2005, sem skaðabætur.

Stefndi vísar til þess sem fram kemur í framlögðum skýrslum, sem áður eru nefndar, að því er varðar miskabótakröfu stefnanda. Ljóst sé af því sem þar komi fram að stefnandi hafi verið ófær um að sinna kennslu þeirra fötluðu nemenda sem stefndi sinni. Einnig komi fram í skýrslu Lífs og sálar ehf., að því sé algjörlega hafnað að um hafi verið að ræða einelti eða ofbeldi í garð stefnanda. Sé því ekki grundvöllur til að dæma stefnanda miskabætur þar sem, jafnvel þótt niðurstaðan verði sú að ekki hafi verið staðið formlega rétt að málum.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til kjarasamnings aðila, kjarasamnings milli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu.

Niðurstaða:

Það liggur fyrir í málinu að stefnandi var ráðin til starfa við tónlistarkennslu hjá stefnda, eða forvera hans Fullorðinsfræðslu fatlaðra, 4. október 2002. Ekki virðist vera um það deilt í málinu að um réttindi og skyldur starfsmannsins færi að lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eins og tekið er fram í ráðningar­samningi, enda var vinnuveitandinn þá ríkisstofnun. Þá er ljóst að stefnandi var að störfum hjá stefnanda þar til í byrjun desember 2005, en kom ekki til vinnu eftir það. Í millitíðinni hafði rekstrarform stefnda breyst og var hann, þegar þarna var komið sögu, sjálfseignarstofnun með þjónustusamning við menntamálaráðuneytið.

Stefnandi byggir á því að sú ákvörðun stefnda að setja stefnanda á veikindalaun í desember 2005, sé stjórnsýsluákvörðun, þar sem stefndi sé stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1933, og að brotið hafi verið á stefnanda með því að gæta ekki að meginreglum sem um slíkar ákvarðanir gilda. Í 1. gr. laganna segir: „Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga“. Ekki verður séð að stefndi geti fallið undir skilgreiningu ákvæðisins, enda um sjálfseignarstofnun að ræða. Verður því ekki fallist á þær málsástæður stefnanda er byggjast á að réttur hennar samkvæmt stjórnsýslulögum hafi ekki verið virtur.

Stefnandi fékk greidd veikindalaun í tólf mánuði frá því að hún lét af störfum hjá stefnda. Hún hélt starfi sínu í tólf mánuði eftir að greiðslu veikindalauna lauk, en þá tilkynnti stefndi stefnanda að henni hefði verið veitt lausn frá starfi vegna veikinda og fékk stefnandi þá þriggja mánaða lausnarlaun greidd. Var af hálfu stefnda vísað til greinar 12.4.2 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs varðandi þessi málalok. Ekki virðist vera um það deilt í málinu að miðað við að stefnandi hafi verið veik, hafi verið rétt staðið að málum gagnvart henni að því er launagreiðslur varðar.

Taka verður undir það með stefnanda að ekki liggur fyrir í málinu skjalfesting á veikindum hennar í desember 2005, þegar stefndi sendi hana heim. Það kom fram við aðalmeðferð málsins, að haft hefði verið símasamband við stefnanda þann 12. desember 2005 og henni í því símtali meðal annars kynnt ráðgjöfin sem stefndi fékk frá  frá KÍ 9. desember 2005 og fékk það stuðning  í skýrslutöku af fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda við aðal­meðferð málsins. Af hans hálfu kom einnig fram að forsvarsmenn stefnda hefðu haft áhyggjur af heilsu stefnanda og haft samráð við heimilislækni hennar og fleiri heilbrigðisstarfsmenn sem hefðu sinnt henni um það leyti er hún hætti störfum hjá stefnanda. Þá kom fram við skýrslutöku af núverandi framkvæmdastjóra stefnda, þá deildarstjóra hjá stefnda, að stefnandi hefði verið nokkuð frá vegna veikinda á árinu 2005 og að hún hefði átt sveiflukennd tímabil. Skýrslur þær, sem unnar voru vegna málsins og nefndar hafa verið, eru báðar gerðar eftir að stefnandi var komin í veikindaleyfi og ganga skýrsluhöfundar út frá því að um veikindi sé að ræða. Ekki er hægt að túlka niðurstöður þeirra sem sjálfstæða staðfestingu á veikindum stefnanda, en þær renna stoðum undir það að óviðunandi ástand hafði skapast, við kennslu nemenda hjá stefnda, vegna ástæðna er vörðuðu stefnanda.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður að telja að stefndi hafi sýnt fram á það að veikindi stefnanda hafi komið í veg fyrir að hún gæti sinnt starfi sínu fyrir stefnda í desember 2005. Einnig verður að hafa í huga að stefnda var óhægt um vik að útvega læknisvottorð um heilsu stefnanda án atbeina hennar. Þá er til þess að líta að stefnandi fékk launaseðla þar sem fram kom að henni voru greidd veikindalaun í 12 mánuði, og í bréfum til hennar og öðrum gögnum sem hún hafði aðgang að kom skýrt fram að litið var svo á að hún væri í veikindaleyfi. Þá gat ekki hafa farið framhjá stefnanda að hún átti allan þann tíma, sem veikindalaunin voru greidd og auk þess í heilt ár þar á eftir, kost á að afla sér vottorðs um að hún væri fær um að gegna starfi sínu og óska eftir að fá að koma aftur til starfa hjá stefnda. 

Það er því niðurstaða málsins að með greiðslu veikindalauna í tólf mánuði og lausnarlauna sem svarar þriggja mánaða launum, hafi stefndi uppfyllt launa­greiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda, enda eru þær greiðslur í samræmi við ítrasta rétt starfsmanns samkvæmt þeim kjarasamningum og lagareglum sem giltu um samningssamband aðila. Stefndi verður því sýknaður af skaðabótakröfu stefnanda. Einnig verður með sömu rökum hafnað kröfu stefnanda um viðurkenningu á því að henni hafi með ólögmætum hætti verið skipað í veikindafjarvistir frá starfi sínu hjá stefnda í desember 2005.

Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á því að í aðgerðum stefnda, sem stefnandi hafi upplifað sem einelti gagnvart sér, hafi falist ólögmæt meingerð gegn stefnanda og vísar til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til stuðnings kröfunni. Þegar atvik málsins eru virt og með vísan til forsendna fyrir sýknu af skaðabóta- og viðurkenningarkröfum stefnanda, verður ekki séð að stefndi hafi brotið á stefnanda þannig að uppfyllt séu skilyrði tilvitnaðs ákvæðis í lögum nr. 50/1993 og verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda um miskabætur.

Eins og atvikum máls þessa er háttað og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður.

Stefnandi fékk útgefið gjafsóknarleyfi 28. júní 2007 vegna reksturs málsins í héraði. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sonju M. Hreiðarsdóttur, héraðsdómslögmanns, sem ákveðst, með hliðsjón annars vegar af tímaskýrslu lögmannsins og hins vegar af umfangi málsins, 900.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Fjölmennt, er sýkn af kröfum stefnanda, Helgu Bjarkar Magnúsar Grétudóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutnings­þóknun lögmanns stefnanda, Sonju M. Hreiðarsdóttur, héraðsdómslögmanns, 900.000 krónur.