Hæstiréttur íslands
Mál nr. 391/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðslustöðvun
- Vanreifun
|
|
Föstudaginn 13. ágúst 2010. |
|
Nr. 391/2010. |
Sigurður Sigurgeirsson (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.) gegn Norðurturninum ehf. (Halldór Jónsson hrl.) |
Kærumál. Greiðslustöðvun. Vanreifun.
Með úrskurði héraðsdóms var N veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar. S, sem kvaðst eiga skuldabréf útgefin af N að höfuðstól samtals 100.000.000 krónur sem tryggð væru með fyrsta veðrétti í fasteigninni H, mótmælti því að N yrði veitt þessi heimild og kærði úrskurðinn. Talið var að málatilbúnaði N í beiðnum hans frá 10. maí 2010 um greiðslustöðvun og áframhaldandi greiðslustöðvun 2. júní sama ár og öðrum framlögðum gögnum væri í mörgum atriðum áfátt með tilliti til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þannig hefði meðal annars greinargerð N um eignir sínar falist í talningu upplýsinga úr framlögðum árreikningi, þar sem þær voru sundurliðaðar í eignfærðan kostnað af lóð og framkvæmdum við H, skammtímakröfur og handbært fé. Í engu hefði verið getið um markaðsverð fasteignarinnar, á hendur hverjum kröfur N væru eða hvert væri nánar handbært fé. Mjög skorti á að fram kæmi í upphaflegri beiðni N ítarleg greinargerð um hvað ylli verulegum fjárhagsörðugleikum hans, í hverju þeir fælust og hvernig hann hygðist leysa úr þeim og hafði ekki verið nægilega úr því bætt í greinargerð, sem fylgdi beiðni hans til áframhaldandi greiðslustöðvunar. Þá kom yfirlýsing löggilts endurskoðanda um að bókhald N væri í lögboðnu formi fyrst fram í málinu með greinargerð hans fyrir Hæstarétti. Vegna þessara annmarka á málatilbúnaði N var talið að héraðsdómi hefði verið ófært að meta hvort fyrirmæli 2. mgr. 12. gr., sbr. 1. tölulið 2. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1991 kynnu að standa því í vegi að honum yrði veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júní 2010, þar sem varnaraðila var veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar til 1. september sama ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði synjað um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar og gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins leitaði varnaraðili 10. maí 2010 heimildar til greiðslustöðvunar. Í beiðni um hana var greint frá því að hann hafi staðið að byggingu húss á lóð Smáralindar að Hagasmára 3 í Kópavogi, svokallaðs Norðurturns, sem ætlunin hafi verið að leigja út undir verslanir og skrifstofur. Framkvæmdir við þetta hús hafi byrjað á árinu 2007, en stöðvast í „efnahagshruninu 2008“ og væri ekki ljóst hvenær þær gætu hafist aftur vegna mikillar óvissu um öflun fjár til verksins og framtíðarhorfur varnaraðila. Samkvæmt efnahagsreikningi hafi eignir hans í lok árs 2009 verið lóð og eignfærður framkvæmdakostnaður vegna fasteignarinnar, 1.200.000.000 krónur, skammtímakröfur að fjárhæð samtals 4.399.815 krónur og handbært fé, 3.907.424 krónur. Skuldir hans við lánastofnanir hafi numið 3.379.927.189 krónum og aðrar skammtímaskuldir 10.152.006 krónum, en hlutafé hafi verið 1.000.500.000 krónur. Að teknu tilliti til ójafnaðs taps frá fyrra ári hafi eigið fé varnaraðila verið neikvætt í árslok 2009 um 2.181.771.956 krónur. Um skuldir var tekið fram að á fyrsta veðrétti í fasteigninni Hagasmára 3, sem væri að fasteignamatsverði 238.750.000 krónur, hvíli veðskuldabréf í eigu sjö aðila og skuld samkvæmt þeim væri samtals 2.236.026.375 krónur með áföllnum vöxtum til 5. mars 2010, en aðrar skuldir varnaraðila væru „tryggðar með síðari veðréttum á eigninni.“ Frá hausti 2008 hafi legið fyrir að hann gæti ekki staðið við allar skuldbindingar sínar og hafi lánardrottnar tekið upp samráð til að forðast að hann yrði tekinn til gjaldþrotaskipta. Með þessu hafi komið fram að eigendur 94% krafna á fyrsta veðrétti væru reiðubúnir til að gerast eigendur að félaginu og hefja viðræður um að ljúka byggingu hússins að Hagasmára 3 ásamt því að tryggja fé til verksins, svo og að semja við síðari veðhafa um að fella niður kröfur þeirra, en þessum ráðagerðum hafi þeir síðastnefndu allir verið sammála. Varnaraðili hygðist nýta heimild til greiðslustöðvunar til að koma nýrri skipan á fjármál sín með því í fyrsta lagi að fella niður allt eldra hlutafé og hækka það síðan með framlögum að fjárhæð 500.000 krónur, í öðru lagi að fá mat á raunvirði eigna sinna til að geta samið við eigendur annarra krafna en þeirra, sem hvíli á fyrsta veðrétti í áðurnefndri fasteign, um að fella þær niður, í þriðja lagi að „ganga úr skugga um hagsmuni félagsins gagnvart aðliggjandi fasteignum“ og í fjórða lagi að gera samninga um að ljúka byggingu hússins og öflun fjár til framkvæmdanna. Með beiðninni lagði varnaraðili fram óundirritaðan ársreikning 2009, upplýsingar úr landskrá fasteigna um Hagasmára 3, veðbandayfirlit fyrir þá fasteign, vottorð úr hlutafélagaskrá um varnaraðila og samþykktir hans. Þessi beiðni var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness 12. maí 2010 og kveðinn samdægurs upp úrskurður um heimild varnaraðila til greiðslustöðvunar, sem skyldi standa til nánar tilgreinds tíma 2. júní sama ár, þegar þinghald yrði háð til að taka málið fyrir á ný.
Aðstoðarmaður varnaraðila við greiðslustöðvun lét frá sér fara tilkynningu til lánardrottna 12. maí 2010 um að framangreind heimild hafi verið veitt, en 26. sama mánaðar boðaði hann þá til fundar, sem haldinn yrði 1. júní sama ár. Fundarboði þessu virðist hafa verið beint til Íslandsbanka hf., Glitnis banka hf., Grænastekks ehf., Bilskirnis ehf., Tryggingamiðstöðvarinnar hf., Lífeyrissjóðs verkfræðinga og sóknaraðila. Fundurinn var haldinn þann dag og sóttur af hálfu allra, sem boðaðir voru, en þar vakti aðstoðarmaður varnaraðila athygli á að láðst hafi að fylgja fyrirmælum 1. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1991 um að efna bæri til fundarins í síðasta lagi þremur sólarhringum fyrir lok greiðslustöðvunar og gerðu ekki aðrir en sóknaraðili athugasemdir af því tilefni. Fyrir fundarmenn var lögð samantekt, sem hafði að geyma samhljóða upplýsingar um eignir og skuldir varnaraðila og fram komu í beiðni hans um heimild til greiðslustöðvunar, en þar var þó jafnframt getið um að verið væri að „kanna lögfræðilegan grundvöll“ fyrir kröfu á hendur Smáralind ehf. að fjárhæð 1.265.000.000 krónur og á hendur „BYGG vegna verksamnings“ að óvissri fjárhæð, svo og fyrir skuld við ríkissjóð „vegna virðisaukaskattskvaðar“ að fjárhæð 700.000.000 krónur. Þá var einnig tekið fram að varnaraðili myndi leita heimildar til áframhaldandi greiðslustöðvunar til að kanna til hlítar réttarstöðu sína gagnvart Smáralind ehf. og Byggingarfélagi Gunnars og Gylfa ehf., svo og að „leita samninga um að endurbæta efnahagsreikning félagsins“ með því samhliða að semja við lánardrottna um skuldbreytingar, semja um framhald framkvæmda við húseign varnaraðila gegn því að sá, sem tæki það að sér, fengi að hluta greitt með eignarhlut í fasteigninni eða „eiginfé“ og semja við Smáralind ehf. um rekstur sameiginlegra svæða. Af fundargerð verður ráðið að rætt hafi verið á fundinum um ýmis atriði, sem fram komu í þessari samantekt, og þess hafi einnig verið getið þar að „núverandi eigendur félagsins“ hafi nýlega tekið við því, svo og að greiðslustöðvunartími hafi verið nýttur til gagnaöflunar og viðræðna við helstu lánardrottna. Tekið var fram í fundargerðinni að sóknaraðili teldi „að ekkert hefði verið gert“ á greiðslustöðvunartímanum og myndi hann mótmæla að áframhaldandi greiðslustöðvun yrði heimiluð.
Í samræmi við fyrrnefndan úrskurð héraðsdóms var málið tekið fyrir á ný 2. júní 2010 og lagði þá varnaraðili fram beiðni um að sér yrði áfram heimiluð greiðslustöðvun. Hann lagði einnig fram áðurgreindar tilkynningar og fundarboð til lánardrottna, fundargerð frá fundinum 1. júní 2010 ásamt athugasemdum frá tveimur fundarmönnum um efni hennar, samantektina, sem þar var lögð fyrir, og vottorð um varnaraðila úr fyrirtækjaskrá. Þá lagði hann einnig fram greinargerð um beiðni sína, en efni hennar er tekið upp nánast í heild og orðrétt sem lýsing atvika í II. kafla hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili, sem kveðst eiga skuldabréf útgefin af varnaraðila að höfuðstól samtals 100.000.000 krónur sem tryggð séu með fyrsta veðrétti í fasteigninni að Hagasmára 3, mætti í þinghaldinu 2. júní 2010 og mótmælti að varnaraðila yrði veitt áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar. Við svo búið var mál þetta þingfest um framkominn ágreining, sem leyst var úr með hinum kærða úrskurði 8. sama mánaðar að undangengnum munnlegum málflutningi sama dag.
II
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1991 skulu í beiðni um heimild til greiðslustöðvunar meðal annars koma fram sundurliðaðar upplýsingar um eignir og skuldir skuldarans, sem hennar leitar, og ítarleg greinargerð um hvað valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hans, í hverju þeir felist og hvernig hann hyggist leysa úr þeim. Með beiðni skuldara, sem er bókhaldsskyldur, skal einnig fylgja yfirlýsing löggilts endurskoðanda um að bókhald hans sé í lögboðnu formi. Þegar leitað er heimildar til áframhaldandi greiðslustöðvunar ber meðal annars að leggja fram skrá aðstoðarmanns um eignir og skuldbindingar skuldarans og greinargerð aðstoðarmannsins um hvernig staðið hafi verið að aðgerðum á greiðslustöðvunartíma og hverjar ráðstafanir verði gerðar ef beiðni verður tekin til greina, sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga.
Málatilbúnaði varnaraðila í beiðnum hans frá 10. maí og 2. júní 2010 og öðrum framlögðum gögnum er í mörgum atriðum áfátt með tilliti til þeirra lagaákvæða, sem að framan greinir. Þegar varnaraðili leitaði heimildar til greiðslustöðvunar í öndverðu fólst greinargerð hans um eignir sínar í talningu upplýsinga úr framlögðum ársreikningi, þar sem þær eru sundurliðaðar í eignfærðan kostnað af lóð og framkvæmdum að Hagasmára 3, skammtímakröfur og handbært fé. Í engu var getið um markaðsverð fasteignarinnar eins og hún þá var, á hendur hverjum kröfur varnaraðila væru eða hvert væri nánar svonefnt handbært fé, auk þess sem fjárhæðir, sem tilgreindar voru, tóku allar mið af stöðu 31. desember 2009 í stað þess tíma, sem beiðni var gerð. Eins var að verki staðið þegar varnaraðili leitaði heimildar til áframhaldandi greiðslustöðvunar. Upplýsingar í beiðni varnaraðila 10. maí 2010 um skuldbindingar hans fólust í því einu að greina frá heildarfjárhæð skulda við lánastofnanir, 3.379.927.189 krónur, og annarra skammtímaskulda, 10.152.006 krónur, eins og þær stóðu í lok árs 2009, auk þess sem tekið var fram hver heildarstaða skulda, sem hvíldu á fyrsta veðrétti í fasteigninni að Hagasmára 3, hafi verið með áföllnum vöxtum 5. mars 2010, svo og að eigendur þeirra krafna væru sjö talsins. Þess var einnig getið að aðrir skuldir væru tryggðar með síðari veðrétti í fasteigninni. Lánardrottnar voru ekki nafngreindir eða sagt frá fjárhæð skuldar við hvern þeirra. Þá var í engu skýrt út hvernig eða hvers vegna varnaraðili gerði mun á skuldum við lánastofnanir og aðra lánardrottna, en í því sambandi er þess og að gæta að þegar varnaraðili efndi um síðir til fundar með lánardrottnum beindi hann boði um hann til sjö aðila, þar af fjögurra, sem ekki geta talist til lánastofnana og fóru þeir þó með verulega hærri kröfur á hendur varnaraðila en sem nam áðurnefndum 10.152.006 krónum. Úr þessum annmörkum var í engu bætt þótt varnaraðili legði fram veðbandayfirlit vegna áðurnefndrar fasteignar, enda ber það aðeins með sér hver hafi verið upphaflegur veðhafi og höfuðstóll hverrar skuldar, en þess er og að geta að á yfirlitinu er greint frá því að á öðrum veðrétti í eigninni hvíli tryggingarbréf fyrir 1.071.000.000 krónum til Landsbanka Íslands hf., sem hvergi er annars staðar vikið að sem lánardrottni varnaraðila. Þá hefur á engu stigi í málatilbúnaði varnaraðila verið getið um skilmála skulda hans við einstaka lánardrottna eða hvort eða að hvaða leyti kröfur þeirra séu þegar gjaldfallnar. Mjög skorti á að fram kæmi í upphaflegri beiðni varnaraðila ítarleg greinargerð um hvað ylli verulegum fjárhagsörðugleikum hans, í hverju þeir fælust og hvernig hann hygðist leysa úr þeim og var ekki nægilega úr því bætt í greinargerð, sem fylgdi beiðni hans um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar. Yfirlýsing löggilts endurskoðanda um að bókhald varnaraðila væri í lögboðnu formi kom fyrst fram í málinu með greinargerð hans fyrir Hæstarétti, en í stað slíkrar yfirlýsingar gat ekki komið að hann legði fram síðasta ársreikning sinn, sem honum var án tillits til þessa skylt að leggja fram samkvæmt 2. málslið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem sá ársreikningur var ekki undirritaður.
Vegna framangreindra annmarka á málatilbúnaði varnaraðila var héraðsdómi ófært að meta hvort fyrirmæli 4., 5., 6. eða 7. töluliðar 2. mgr. 12. gr., sbr. 1. tölulið 2. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1991 kynnu að standa því í vegi að honum yrði veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðili, Norðurturninn ehf., greiði sóknaraðila, Sigurði Sigurgeirssyni, samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júní 2010.
I.
Með beiðni dagsettri 2. júní, sem tekin var fyrir í Héraðsdómi Reykjaness samdægurs, hefur Norðurturninn ehf., Hagasmára 1, Kópavogi óskað eftir því að heimild, sem félaginu var veitt til greiðslustöðvunar með úrskurði dómsins uppkveðnum 12. maí 2010, verði framlengd á grundvelli 17. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Er beiðnin var tekin fyrir á dómþingi var þing sótt af hálfu varnaraðilans Sigurðar Sigurgeirssonar, Logasölum 7, Kópavogi, og lögð fram mótmæli við framlengingu greiðslustöðvunar. Mótmæli þessi eru sett fram með vísan til 16. gr. l. nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Var mál þetta þá þegar þingfest og málinu frestað til aðalmeðferðar í dag. Í þinghaldinu í dag ítrekaði sóknaraðili kröfu sína um framlengingu greiðslustöðvunar og varnaraðili ítrekaði mótmæli sín við framlengingu greiðslustöðvunar. Að loknum munnlegum málflutningi var krafa sóknaraðila þá tekin til úrskurðar.
II.
Í greinargerð aðstoðarmanns skuldara á greiðslustöðvunartímanum, Halldórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, segir að með vísan til 13. og 14. gr. laga um gjaldþrotaskipti sé upplýst að fundur hafi verið haldinn með öllum þekktum lánardrottnum skuldarans þriðjudaginn 1. júní sl., en fundargerð og sönnun fyrir boðun til fundarins fylgja beiðni um framlengingu greiðslustöðvunarinnar.
Þess er vænst að greiðslustöðvun verði veitt í allt að þrjá mánuði.
Viðræður við kröfuhafa sem á veðrétt að baki 1. veðrétt um afskrift þeirrar kröfu eru hafnar.
Á fundi í lok apríl var ákveðið að leita eftir heimild til greiðslustöðvunar. Á sama fundi var ákveðið að færa niður skráð hlutafé um 1.000.000.000 kr. í því skyni að leiðrétta áberandi skekkju í efnahagsreikningi, sem lið í endurskipulagningu fengist heimild. Þetta hefur nú verið framkvæmt, sbr. meðfylgjandi vottorð fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra sem útgefið var 25. maí 2010.
Kröfuhafar félagsins eru þessir:
1. Íslandsbanki hf. með kröfu vegna ýmissa lána, tryggðum með 2., 3., 4., 5. og 6. veðrétti í fasteign félagsins, og sem eigandi 46 veðskuldabréfa á 1. veðrétti;
2. GLB Holding ehf., eigandi 54 veðskuldabréfa á 1. veðrétti;
3. Tryggingamiðstöðin hf. eigandi 30 veðskuldabréfa á 1. veðrétti;
4. Sigurður Sigurgeirsson, eigandi 10 veðskuldabréfa á 1. veðrétti;
5. Lífeyrissjóður Verkfræðinga, eigandi 20 veðskuldabréfa á 1. veðrétti;
6. Grænistekkur ehf., eigandi 4 veðskuldabréfa á 1. veðrétti og
7. Bilskirnir ehf., eigandi 1 veðskuldabréfs á 1. veðrétti.
8. Ríkissjóður vegna hugsanlegrar virðisaukaskattskvaðar sem ekki hefur þó verið staðfest, allt að 700.000.000 kr.
Tilgreind veðskuldabréf sem hvíla á 1. veðrétti eru hvert um sig 10.000.000 kr. að nafnvirði. Heildarkröfur á 1. veðrétti nema nú um 2.300.000.000 kr. Hugsanlegt er að hluta þessara krafna verði breytt í eiginfé náist markmið með endurskipulagningu.
Hugmyndir stjórnar felast í því að ná samkomulagi við byggingaraðila um að ljúka byggingu fasteignarinnar en samhliða að ná samningum um breytingu skulda í eigin fé upp að því marki sem þörf er á. Tekið er fram að eigendur ríflega 96% krafna á félagið standa að baki þessum umræðum (94% af eigendum skuldabréfa á 1. veðrétti). Einn kröfuhafi sker sig úr (eigandi 6% af veðkröfum á 1. veðrétti). Samkvæmt upplýsingum félagsins keypti hann kröfu á félagið í mars sl. af upprunalegum kröfuhafa sem fram að því hafði unnið með öðrum kröfuhöfum að þeirri endurskipulagningu sem nú er unnið að. Umræddur kröfuhafi hefur síðan lagt áherslu á að félagið gangi til samninga við sig um uppbyggingu fasteignarinnar en hann er reyndur byggingarverktaki. Stjórn félagsins hefur sýnt áhuga á að starfa með honum en ekki talið sér stætt á að binda hendur sínar að svo stöddu um svo viðamikla hagsmuni félagsins í þeirri stöðu sem félagið er í. Var það ástæða þess að nauðsynlegt var að óska eftir greiðslustöðvun í stað þess að kröfuhafar vinni sameiginlega að settu marki.
Fram kemur í greinargerðinni að núverandi eigendur félagsins eru jafnframt eigendur u.þ.b. 95% krafna en hafa nýverið tekið við eignarhaldi á félaginu. Mikilvægt sé að stjórn félagsins fái ráðrúm til að ganga til samninga við aðra aðila um uppbyggingu félagsins og fasteignar þess án þess að einstakir kröfuhafar geti stöðvað fyrirætlanir þessar á viðkvæmum tíma. Það er mat stjórnar félagsins að möguleikar séu á endurreisn félagsins en að félagið þurfi enn meiri tíma til ráðagerða þar um.
Fram kemur að um tiltölulega fá atriði að ræða sem útkljá þarf í félaginu en þau snerta hins vegar verulega hagsmuni sem mikilvægt er að hlúa að. Um er að ræða samskipti við Smáralind ehf. og Byggingarfélag Gylfa og Gunnars ehf. Það er mat stjórnar félagsins að undirbúa þurfi þessi samskipti afar vel til þess að vel eigi að takast. Jafnframt er um afar viðkvæma hagsmuni að ræða, svo sem vegna ráðgerðrar sölu á Smáralind ehf. en sú sala er í höndum Regins ehf., dótturfélags NBI hf. Gríðarlegir hagsmunir eru af því að rasa ekki um ráð fram í því efni.
Fundargerð aðstoðarmanns af fundi með lánardrottnum 1. júní 2010.
III.
Sigurður Sigurgeirsson kt. 280163-3099, Logasölum 7, Kópavogi eigandi 10 veðskuldabréfa samtals að höfuðstól kr. 100.000.000 tryggð með 1 veðrétti í Hagasmára 3, Kópavogi mótmælir því að beiðni Norðurturnsins ehf. um greiðslustöðvun verði samþykkt.
Telur varnaraðili að sóknaraðila sé skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu sbr. 2. mgr. 64 gr. l. nr. 21/1991 vegna þess að eigið fé sé neikvætt um meira en tvo milljarða króna og því lagaskylda að leggja félagið inn til gjaldþrotaskipta sbr. 2. mgr. 64 gr. l. 21/1991 og því óheimilt að veita heimild til greiðslustöðvunar sbr. 1 tl. 2 mgr. 17 gr. sbr. 4. tl. 2. mgr. 12. gr. l. nr.21/1991.
Ráðagerðir sóknaraðila um ráðstafanir meðan á greiðslustöðvun stendur samræmist að mati varnaraðila ekki tilgangi greiðslustöðvunar og ekki líklegar til að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans sbr. 4. tl. 2. mgr. 17. gr. sbr. 6. tl. 2. mgr. 12 gr. l. nr. 21/1991. Í stjórn skuldara sitja fulltrúar allra kröfuhafa félagsins utan varnaraðila sem er eigandi að 10 veðskuldabréfum sem tryggð eru með fyrsta veðrétti í fasteign félagsins. Ráðagerðir félagsins sem lýst er í töluliðum 1-4 eru að mati varnaraðila ómarkvissar, vanreifaðar og ekki líklegar til að koma á nýrri skipan á fjármál skuldara.
IV.
Samkvæmt framlögðum gögnum og framkomnum skýringum á þeim er ljóst að sóknaraðili á í verulegum fjárhagsörðugleikum. Samkvæmt fyrirliggjandi óumdeildu yfirliti um eignir og skuldir er ljóst að eignir sóknaraðila eru rímlega einn milljarður og tvö hundruð milljónir krónur en skuldir tæpir þrír milljarðar og fjögur hundruð milljónir sem vart verður ráðin bót á þessum fjárhagsörðugleikum ef ekki kemur til endurskipulagning á fjármálum hans.
Að framan hefur verið lýst fyrirætlunum sóknaraðila í því skyni að koma nýrri skipan á rekstur félagsins og jafnframt liggur fyrir að allir lánardrottnar félagsins að einum undanskildum standa að baki þeim fyrirætlunum. Verður ekki annað séð en að eigendur 96% krafna á félagið styðji beiðni sóknaraðila um framhald greiðslustöðvunar. Með vísan til ofanritaðs og skírskotun til framlagðra gagna þykir fullnægt skilyrðum 15. gr. sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti til að verða við beiðni skuldara um áframhaldandi heimild til greiðslustöðvunar enda telur dómari að í ljós hafi verið leitt að ekki sé ósennilegt að greiðsluörðugleikar sóknaraðila muni líða hjá innan skamms tíma og því standi ákvæði 64. gr. gjaldþrotaskiptalaganna ekki í vegi fyrir að framlengingin verið heimiluð. Er hún nú veitt til miðvikudagsins 1. september nk. kl. 15:00, en þá verður dómþing háð að nýju hér á sama stað, til ákvörðunar um framhald málsins.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Norðurturninum ehf., kt. 440800-32700, er veitt heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar til miðvikudagsins 1. september 2010 kl. 15:00, en þá verður málið tekið fyrir að nýju, enda njóti félagið á þessum tíma aðstoðar Halldórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns við að koma nýrri skipan á fjármál félagsins.