Hæstiréttur íslands
Mál nr. 493/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Lögvarðir hagsmunir
|
|
Föstudaginn 31. ágúst 2012. |
|
Nr. 493/2012.
|
Glitnir hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (Jón Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Lögvarðir hagsmunir.
Staðfestur var sú niðurstaða úrskurðar héraðsdóms að L skyldi fá afhent staðfest eftirrit af stefnum og skjalaskrám í tveimur málum sem G hf. hafði höfðað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2012, þar sem hafnað var aðalkröfu varnaraðila um að honum yrðu afhent öll málsgögn í tveimur tilgreindum dómsmálum sem sóknaraðili hefur höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en fallist á kröfu hans um afhendingu á staðfestu endurriti stefnu og „stefnuskrá“ í sömu málum. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ekki verður séð af gögnum málsins að sóknaraðili hafi krafist málskostnaðar við meðferð málsins í héraði. Sú krafa kemur því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Það athugist að með orðinu „stefnuskrá“ í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar er sýnilega átt við skjalaskrá samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991, það er að segja skrá yfir skjöl sem stefnandi hefur lagt fram við þingfestingu umræddra dómsmála.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili lýst kröfu við slitameðferð sóknaraðila. Uppi er ágreiningur milli málsaðila um rétthæð kröfunnar og hefur honum verið vísað til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur. Er þessu lýst í hinum kærða úrskurði.
Talið verður að framangreind aðstaða nægi til að varnaraðili teljist hafa sýnt fram á lögvarða hagsmuni í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 til að fá þau gögn afhent sem fallist var á með hinum kærða úrskurði. Verður niðurstaða hans að því er þau varðar því staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Staðfest er sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að varnaraðili, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, skuli fá afhent staðfest eftirrit af stefnum og skjalaskrám samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í tveimur héraðsdómsmálum sem sóknaraðili, Glitnir hf., hefur höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og eru rekin þar með númerum E-500/2012 og E-1411/2012.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2012.
Með bréfi Stefáns Árna Auðólfssonar hdl., dags. 27. apríl sl., f.h. sóknaraðila, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins A-deildar, (LSR), var þess farið á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að látin yrðu í té staðfest eftirrit af tilgreindum málsskjölum úr þremur einkamálum sem nú eru rekin fyrir dóminum. Beiðni þessi var sett fram í tengslum við ágreiningsmál nr. X-69/2010 sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur milli LSR og Glitnis banka hf.
Með bréfi, dags. 7. maí sl., hafnaði dómstjórinn í Reykjavík framangreindri beiðni með vísan til þess að ekki hefði verið nægilega rökstutt að sóknaraðili hefði lögvarinna hagsmuna að gæta í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 19/1991.
Með bréfi, dags. 23. maí sl. var þess krafist af hálfu sóknaraðila, með vísan til 5. mgr.14. gr. laga nr. 91/1991, að kveðinn yrði upp úrskurður um afhendingu staðfestra endurrita af málsskjölum, eins og hér greinir:
Þess er krafist að Héraðsdómur Reykjavíkur láti LSR í té staðfest endurrit af öllum málsskjölum, til vara stefnu og stefnuskrá, í eftirtöldum dómsmálum sem nú eru rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur:
1. Mál Glitnis hf. á hendur Lárusi Welding, Birni Inga Sveinssyni, Hauki Guðjónssyni, Jóni Sigurðssyni, Katrínu Pétursdóttur, Pétri Guðmundarsyni, Skarphéðni Berg Steinarssyni, Þorsteini M. Jónssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, en Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu, sbr. stefnu þingfestri í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 2. febrúar 2012.
2. Mál slitastjórnar Glitnis hf. á hendur PricewaterhousCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP, sbr. stefnu þingfestri í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 12. apríl 2012.
Fallið var frá kröfu um afhendingu skjala úr máli Glitnis hf. á hendur Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni sem þingfest var 20. mars 2012, sem einnig hafði verið sett fram upphaflega í bréfinu 27. apríl sl.
Leitað var umsagnar varnaraðila, Glitnis hf., vegna kröfu sóknaraðila um afhendingu gagna og barst hún 6. júní sl.
Varnaraðili, Glitnir hf., mótmælir kröfum sóknaraðila um afhendingu umbeðinna gagna.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili, LSR, sé kröfuhafi í þrotabú Glitnis. Þau dómsmál, sem gögnin tilheyri, séu mál sem höfðuð hafa verið af slitastjórn Glitnis og varði miklu varðandi endurheimtur kröfuhafa, þ.m.t. sóknaraðila, við slitameðferð bankans. Þegar af þeirri ástæðu einni telur sóknaraðili sig hafa ríka og lögvarða hagsmuni af því að fá upplýsingar um þau mál er hér um ræðir.
Þá sé sóknaraðila mikilvægt að fá umkrafin málsgögn afhent í tengslum við ágreiningsmál nr. X-69/2010, til þess að undirbyggja málatilbúnað sinn þar og í tengslum við matsbeiðni sem sóknaraðili áformar að leggja fram í því sama máli.
Í ágreiningsmáli nr. X-69/2010 sé deilt um höfnun slitastjórnar á kröfu sóknaraðila, sem almennri kröfu. Sóknaraðili byggir kröfur sínar í því máli á því að við útgáfu á skuldabréfaflokkinum GLB Conv 04 13 í ársbyrjun 2008 hafi Glitnir banki hf. og forsvarsmenn hans brotið gegn upplýsingaskyldu sinni, upplýsingar sem veittar voru um bankann hafi verið rangar og að staða bankans hafi í raun verið mun verri en haldið var fram, sbr. málsástæðukafla greinargerðar í því ágreiningsmáli.
Eðli ætlaðra brota, við útgáfuna á GLB Conv. 04 13, sé slíkt að brotaþola sé torvelt að afla staðfestingar á saknæmu framferði starfsmanna og stjórnenda bankans án upplýsinga frá Glitni og slitastjórn hans. Slitastjórn hafi ekki að fullu orðið við áskorunum um framlagningu gagna og því verði sóknaraðili að leita leiða til að afla gagna á annan veg. Sóknaraðili telur að í þeim málum, sem óskað sé eftir gögnum úr, komi fram mikilvægar upplýsingar og gögn frá slitastjórninni, sem nýst geti til upplýsingar og sönnunar í ágreiningsmálinu.
Skuldabréfaútgáfa Glitnis banka hf. í skuldabréfaflokkinum, GLB Conv. 04 13 nam 15 milljörðum króna. Kröfur sóknaraðila og sjóða tengdum honum, á hendur Glitni, sem byggja á skuldabréfum úr þessum skuldabréfaflokki, séu fleiri en sú sem ágreiningur sé um í máli nr. X-69/2010. Sóknaraðili hafi því verulega fjárhagslega hagsmuni af því að geta lagt fram gögn sem sjóðurinn telji að geti stutt við málsástæður hans í því máli og upplýst um mikilvæg málsatriði.
Sóknaraðili telur að í framangreindum dómsmálum komi meðal annars fram mat slitastjórnar Glitnis á því hver fjárhagsstaða bankans var í raun í byrjun ársins 2008 og hvernig nokkrir eigendur og stjórnendur hans höfðu rýrt fjárhagsstöðu hans á óforsvaranlegan hátt og haldið því leyndu.
Í almennri umræðu, meðal annars í fjölmiðlum, hafi komið fram að slitastjórn Glitnis byggir í málatilbúnaði sínum gegn þriðja aðila í nefndum dómsmálum á málsástæðum um blekkingar og svik, sem komi að nokkru leyti heim og saman við málsástæður sóknaraðila ágreiningsmáli sjóðsins við slitastjórnina. Þær upplýsingar og yfirlýsingar, ásamt þeim skjölum til sönnunar þeim yfirlýsingum, sem lögð munu hafa verið fram með stefnum Glitnis, hljóti því, að mati sóknaraðila að varpa ljósi á þá annmarka sem voru á rekstri Glitnis banka hf. á árinu 2008 og sóknaraðili leitast við að sanna í ágreiningsmálinu.
Sóknaraðili telur að það fari gegn reglum um sanngjarna málsmeðferð fyrir dómi að þrotabú bankans fái í málaferlum gegn fyrrum stjórnendum bankans byggt á málsástæðum um sviksamlegar blekkingar og brot á fjölda lagaákvæða, lagt fram gögn til sönnunar þessum málsástæðum, en fái hafnað því að þær komi fram í máli gegn gamla bankanum.
Kröfur sóknaraðila í ágreiningsmálinu séu m.a. á því reistar að varnaraðili hafi á árinu 2007 og 2008 brotið gegn ákvæðum laga nr. 161/2002 varðandi takmarkanir á stórum áhættum, sem hafi leitt til þess að eiginfjárhlutfall varnaraðila hafi verið annað en kynnt var og í raun undir lögbundnu lágmarki, sbr. b-lið tl. 2.1.2.2 í greinargerð. Sóknaraðili byggir einnig á því að varnaraðili hafi árið 2007 og 2008 brotið í bága við 30. gr. laga nr. 161/2002 um að áhætta, vegna eins viðskiptamanns eða hóps tengdra viðskiptamanna, megi ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002, með lánveitingum bankans til aðaleiganda hans og tengdra aðila. Sóknaraðili leitist við að sanna að eiginfjárhlutfall bankans hafi því verið mun lægra en það var samkvæmt reikningum og undir lögbundnum mörkum.
Af hálfu sóknaraðila sé og á því byggt í máli nr. X-69/2010 að varnaraðila hafi, lögum samkvæmt, borið að draga frá reiknuðu eigin fé bankans lán til kaupa á eigin hlutabréfum gegn veðum í bréfunum sjálfum. Fyrir liggi að bankinn hafi ekki leiðrétt útreikning eigin fjár með þeim hætti. Uppgefið eigið fé varnaraðila hafi fyrir vikið orðið hærra en rétt var samkvæmt reiknireglum laga nr. 161/2002 um eiginfjárhlutfall. Vísast um málsástæðu þessa til a-liðar tl. 2.1.2.2 á bls. 5-8 í greinargerð, þar sem raktar séu ýmsar lánveitingar varnaraðila á seinni hluta ársins 2007 og á árinu 2008 þar sem eina tryggingin fyrir lánunum voru veð í hlutabréfum í bankanum sjálfum. Þekkt sé að upplýsingar um þetta efni komi fram í þeim málum sem óskað sé eftir upplýsingum úr.
Um frekari rökstuðning fyrir kröfunum er vísað til atriða sem fram hafa komið í umfjöllun fjölmiðla um þau mál sem óskað sé endurrita úr:
Í fréttum RÚV 10. mars 2012 sé fjallað um stefnu slitastjórnar Glitnis gegn endurskoðunarfyrirtækinu PWC og haft þar eftir lögmanni varnaraðila að byggt sé á því í stefnunni að ársreikningur Glitnis 2007 og árshlutareikningar sem hluthafar, lánardrottnar og eftirlitsaðilar byggðu á hafi verið rangir, sbr. einnig frétt Eyjunnar 11. mars 2012. Einnig sé haft þar eftir lögmanni varnaraðila að byggt sé á því í stefnunni að ekki hafi verið greint rétt frá mikilli útlánaáhættu og lánum til tengdra aðila sem hafi farið langt umfram lögmæt mörk, sbr. einnig fréttir á vefsíðum RÚV og Eyjunni.
Í frétt RÚV 27. mars 2012 komi fram að gengið hafi verið frá ársreikningi fyrir árið 2007 þrátt fyrir athugasemdir Fjármálaeftirlitsins við fjárhag bankans. Í þeirri frétt segir að í stefnu slitastjórnar á hendur PWC komi fram að Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemdir við meðferð og eftirlit varnaraðila með stórum áhættuskuldbindingum og tengslum milli viðskiptavina við það áhættumat, ásamt því að alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar við lánveitingar og lánasamninga við marga af stærstu lántakendum bankans sem voru meðal stærstu eigenda hans, þ. á m. FL Group og Baug. Í stefnunni sé einnig fjallað um að í árslok 2007 hafi áhætta varnaraðila vegna Baugs, FL Group og tengdra aðila numið um 193 milljörðum króna sem var um 22 milljörðum króna umfram bókfært eigið fé bankans. Í frétt Sjónvarpsins 28. mars 2012 komi fram að lán til Baugs og tengdra félaga hafi numið 56 milljörðum króna í ársbyrjun 2008. Áhyggjur höfðu þá vaknað vegna stórfelldra lánveitinga varnaraðila til tengdra aðila. Í frétt Fréttablaðsins 29. mars 2012 segir að í sömu stefnu komi fram að lán varnaraðila til Baugs, FL Group og tengdra aðila hafi í árslok 2007 numið 192,3 milljörðum króna eða um 85% af eiginfjárgrunni bankans sem sé rúmlega þrisvar sinnum meira en lög heimiluðu. Í sömu frétt Fréttablaðsins segir að í stefnu Glitnis á hendur PWC greini frá því að bankinn hafi átt 2,8 milljarða hluta eða 21,43% af hlutabréfum í sjálfum sér í árslok 2007, þegar reikningar bankans hafi sýnt allt annað. Ekki hafi verið talin þar með hlutabréf sem seld voru í lok árs 2007 með annaðhvort einvörðungu veði í bréfunum sjálfum eða í framvirkum samningum með eigin bréfum.
Af hálfu sóknaraðila sé á það bent að byggt sé á mjög svipuðum eða sömu málsástæðum í greinargerð í máli nr. X-69/2010.
Samkvæmt fréttum mbl.is og RÚV 12. janúar 2012 byggir stefna varnaraðila á hendur fyrrum stjórnendum, forstjóra og eiganda Glitnis, á sama grunni og dómsmál sem Glitnir hafði áður höfðað í New York-ríki í Bandaríkjunum. Stefnan sé m.a. byggð á því að lánamörk bankans til Baugs hafi í árslok 2007 verið komin langt yfir heimildir auk þess sem útlánareglur bankans hafi ekki heimilað víkjandi 15 milljarða króna lán sem veitt var. Virðist stefnan samkvæmt þessu byggð á sömu málsástæðum og sóknaraðili hefur reifað. Að því leyti megi ljóst vera að sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á mjög svipuðum eða sömu málsástæðum og varnaraðili gerir í því dómsmáli.
Í frétt Sjónvarpsins 28. mars 2012 greinir frá því að í stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur PWC sé skaðabótakrafa m.a. reist á því að snemma árs 2008 hafi Glitnir og endurskoðendur vitað um stórfelld vanskil ýmissa eignarhaldsfélaga þar sem trygging fyrir endurgreiðslu var bundin í hlutabréfum í bankanum sjálfum eða FL Group. Jafnframt að ekki hafi verið upplýst um þá gríðarlega miklu fjárhagslegu hagsmuni sem Glitnir var með í eigin bréfum með þeim afleiðingum að eigið fé hans var verulega of hátt skráð.
Því megi ljóst vera að sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn að hluta á sömu málsástæðum og varnaraðili gerir í þeim dómsmálum sem kröfugerð lýtur að, sbr. a-lið tl. 2.1.2.2 á bls. 5-8 í greinargerð sóknaraðila í máli nr. X-69/2010.
Í frásögn DV 18. apríl 2012 um það sem fram komi í stefnu varnaraðila á hendur PWC sé m.a. greint frá einstökum lánveitingum til viðskiptamanna sem einnig sé fjallað um í a-lið tl. 2.1.2.2 á bls. 5-8 í greinargerð sóknaraðila í máli nr. X-69/2010.
Í frétt á vefsíðu RÚV, á vefsíðu mbl.is og í fréttum RÚV 10. mars 2012 komi fram að eignir Glitnis hafi verið ofmetnar og gefin hafi verið sú mynd af bankanum að hann væri miklu betur staddur en raun bar vitni. Af hálfu sóknaraðila sé á það bent að byggt sé á þessum sömu málsástæðum í greinargerð í máli nr. X-69/2010.
Eins og sjá megi af greinargerð sóknaraðila í ágreiningsmáli nr. X-69/2010 sé af hálfu sóknaraðila byggt að verulegu leyti á því sem fram komi í stefnu Glitnis fyrir Hæstarétti New York-ríkis í Bandaríkjunum frá árinu 2010 á hendur fyrrum eigendum og stjórnendum Glitnis. Af hálfu sóknaraðila hafi slitastjórn Glitnis verið ritað bréf, dags. 23. sept. 2010, og farið fram á afhendingu þeirrar stefnu slitastjórnar í New York-ríki. Slitastjórn afhenti þá stefnu í íslenskri þýðingu, sbr. ódagsett meðfylgjandi svarbréf, og liggi hún frammi sem dómskjal í máli nr. X-69/2010. Því dómsmáli var vísað frá dómi í Bandaríkjunum, en fram komi í frétt á vefsíðu Viðskiptablaðsins frá 30. mars 2011 að sama stefna verði brotin upp og höfðuð verði smærri mál á Íslandi í staðinn, sbr. einnig frétt Morgunblaðsins 5. janúar 2012. Hvort tveggja, stefnan fyrir dómstóli í New York-ríki og þau málsgögn sem hér sé krafist afhendingar á, byggi samkvæmt framangreindu að verulegu leyti á sama málatilbúnaði af hálfu slitastjórnar Glitnis og sömu aðilar séu að málunum. Eins og sóknaraðili hafi leitt í ljós sé það málatilbúnaður sem styðji við þann málatilbúnað sem sóknaraðili byggir á í ágreiningsmáli nr. X-69/2010, sbr. greinargerð sóknaraðila í því máli. Þar sem slitastjórn hafi fallist á að afhenda sóknaraðila stefnu Glitnis fyrir Hæstarétti í New York verði ekki séð að nein réttlætanleg ástæða sé fyrir því að hafna sóknaraðila um afhendingu málsgagna sem hér sé óskað eftir að úrskurðað verði um afhendingu á.
Með vísan til framanritaðs telur sóknaraðili engan vafa leika á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá umrædd gögn afhent. Ósk um afhendingu gagna sé því ítrekuð og krafist úrskurðar þar um. Sé þess óskað muni sóknaraðili greiða fyrir fram áætlað gjald fyrir afritin. Áskilinn sé réttur til þess að koma að frekari röksemdum vegna kröfu þessarar, ef tilefni verður til. Um rétt sóknaraðila vísast til 14. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður varnaraðila
Í umsögn varnaraðila segir að í kröfu sóknaraðila komi með engu móti fram hvaða lögvörðu hagsmuni sóknaraðili hafi af afhendingu allra gagna í umræddum dómsmálum. Af kröfu sóknaraðila að dæma viti hann ekki hvaða gögn liggja frammi í umræddum málum og því liggi í hlutarins eðli að ómögulegt sé fyrir sóknaraðila að sýna fram á lögvarða hagsmuni sína af því að fá gögnin afhent.
Virðist rökstuðningur sóknaraðila snúa að umfjöllun í fjölmiðlum hvar fjölmiðlar draga ályktanir af stefnum sem ekki sé ljóst hvort þeir hafi undir höndum. Hvergi í rökstuðningi sóknaraðila sé því að finna rökstuðning fyrir því hvaða lögvörðu hagsmuni sóknaraðili hafi af afhendingu allra gagna í þeim málum sem vísað sé til án málanúmera. Sé því ómögulegt fyrir héraðsdóm að taka til greina kröfu sóknaraðila.
Hvað aðalkröfu sóknaraðila varðar megi einnig benda á hæstaréttardóm í máli nr. 518/2011. Þar telur Hæstiréttur aðila ekki geta velt sönnunarbyrði yfir á gagnaðila sinn með áskorun um afhendingu ótilgreindra skjala. Varnaraðili telur það ekki standast lög að önnur regla eigi að gilda um kröfu sóknaraðila um afhendingu ótilgreindra gagna sem sóknaraðili viti ekki hver séu eða hvað þau hafi að geyma.
Varakrafa sóknaraðila felist í kröfu um afhendingu staðfestra endurrita af stefnu og stefnuskrá í málunum. Í kröfu sóknaraðila komi ekki fram rök fyrir því með hvaða hætti sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá hin staðfestu endurrit afhent.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 sé það sóknaraðila að sýna fram á lögvarða hagsmuni sína. Í tilkynningu dómstólaráðs nr. 2/2008 komi síðan fram í 5. grein að líta skuli til þess hvort lögaðili hafi „beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta“. Varnaraðili telur sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að það hafi slíkra hagsmuna að gæta af afhendingu stefnu og skjalaskrár í fyrrgreindum málum. Þó sé rétt að fara yfir þau rök sem sóknaraðili færir fram.
Því sé haldið fram af hálfu sóknaraðila að það að sóknaraðili sé kröfuhafi í slitameðferð Glitnis hafi sjálfkrafa í för með sér að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá öll framlögð gögn í öllum málum sem varnaraðili höfðar. Því sé alfarið hafnað. Það beri að árétta að krafa sóknaraðila byggist á 14. gr. laga nr. 91/1991 en ekki á lögum nr. 21/1991. Sé umrædd röksemd ekki rökstudd, en ljóst sé að kröfuhafi í slitameðferð eða í þrotabú eigi ekki sjálfkrafa lögvarinna hagsmuna að gæta samkvæmt 14. grein laga nr. 91/1991 með því einu að vera kröfuhafi, hvað þá þegar fjármálafyrirtæki sé í slitameðferð, enda ýmsar lög- og samningsbundnar trúnaðarskyldur sem á slíkum aðila hvíla. Brot á þeim geti haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir varnaraðila, meðal annars í formi skaðabótakrafna.
Því sé einnig haldið fram að sóknaraðila sé nauðsynlegt að fá umrædd gögn „til þess að undirbyggja málatilbúnaði sinn þar og í tengslum við matsbeiðni sem sóknaraðili áformar að leggja fram ...“.
Varnaraðili mótmælir því að málsaðili geti, á öðru ári eftir að hann hafi markað máli sínu farveg með framlagningu greinargerðar, komið og óskað eftir gögnum til þess að undirbyggja málatilbúnað sinn.
Í 1. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 segir:
„Ef sótt er þing af hálfu beggja eða allra aðila við þingfestingu og ekki verður sátt í málinu skal héraðsdómari gefa sóknaraðila kost á að skila greinargerð þar sem jafnframt komi fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Heimilt er þó að veita sóknaraðila skamman frest í þessu skyni ef ekki er um mál að ræða sem 172. gr. tekur til, þar sem stefna og sóknargögn hafa þegar komið fram.“
Það sé því ljóst að málatilbúnaður sóknaraðila eigi að vera byggður á þeim málsástæðum sem fram komu í greinargerð og þeim gögnum er þar voru lögð fram. Segir í umræddri lagagrein að í greinargerð eigi að koma fram til fullnaðar hverjar kröfur séu og á hverju þær séu byggðar. Það sé því fjarri lagi svo að sóknaraðili geti komið, þetta seint í málsmeðferð og eftir að varnaraðili hafi farið fram á að ákveðinn verði dagur til aðalmeðferðar, og krafist þess að stefnur og skjalaskrár í ákveðnum málum verði afhentar „til þess að undirbyggja málatilbúnað“ sóknaraðila. Það átti sóknaraðili að vera búinn að gera fyrir margt löngu.
Sóknaraðili telur einnig að í umræddum stefnum og skjalaskrám komi ýmislegt fram sem geti gagnast honum í málatilbúnaði sínum. Því er mótmælt að slíkt uppfylli lagaskilyrði um lögvarða hagsmuni.
Séu umrædd mál sem vísað er til í kröfu sóknaraðila þau sömu og varnaraðili telur þau vera þá sé annars vegar um að ræða skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og bankastjóra Glitnis, auk fyrrverandi forstjóra Baugs Group. Hins vegar sé um að ræða kröfu á hendur endurskoðunarfyrirtækinu PWC vegna brota á starfsskyldum sínum. Sóknaraðili hafi með engu móti sýnt fram á lögvarða hagsmuni sína í ágreiningsmáli vegna afstöðu til kröfu sóknaraðila um afhendingu umræddra stefna og skjalaskráa.
Það liggi í hlutarins eðli, með vísan til þess um hvað fyrrgreint mál fjallar, að sóknaraðili geti ekki haft lögvarinna hagsmuna að gæta af öllu því sem fram komi í umræddum stefnum. Taka beri tillit til þess eigi dómstólar að verða við kröfum sóknaraðila ella fengi sóknaraðili í hendurnar skjöl sem hafa að geyma ýmislegt annað en það sem sóknaraðili telur geta gagnast sér og hafi meinta lögvarða hagsmuni af að sjá.
Yrði krafa sóknaraðila tekin til greina þýðir það að hver sá sem telur einhvern hluta af einhverju dómskjali í máli geta gagnast sér, og hann hafi lögvarða hagsmuni af að sjá það tiltekna atriði, þá gæti sá hinn sami fengið skjalið í heild sinni afhent og þá einnig þá hluta þess sem hafa ekkert með umræddan aðila að gera. Slíkt standist ekki ákvæði laga, hvað þá þegar í þeim skjölum sem óskað sé eftir komi fram upplýsingar sem verndaðar séu af lögákveðinni bankaleynd og samningsbundnum trúnaðarákvæðum fjármálafyrirtækis.
Því sé einnig alfarið mótmælt að málsaðili geti byggt rétt á því sem komi fram í stefnum í alls óskyldum málum, enda feli stefnur í sér ýtrustu kröfur og málsástæður stefnanda, hvort sem slíkar kröfur og málsástæður eru studdar gögnum eða ekki. Sóknaraðili gæti engan rétt byggt á slíku og því skilyrði um lögvarða hagsmuni ekki fyrir hendi.
Tilvísun til óljósra orða blaðamanna í þeim blaðagreinum sem fylgdu kröfu sóknaraðila hafi engin áhrif hvað þetta varðar og geti ekki verið grundvöllur sönnunar á lögvörðum hagsmunum. Krafa um afhendingu gagna geti ekki byggst á getgátum um það sem kunni að koma fram í ákveðnum skjölum. Slíkar getgátur uppfylli hvorki lagaskilyrði um afhendingu gagna samkvæmt 14. gr. laga nr. 91/1991 né skilyrði sem koma fram í tilkynningu nr. 2/2008.
Að auki sé mótmælt sem rangri og vanreifaðri þeirri fullyrðingu sóknaraðila að það að sóknaraðili fái ekki þau gögn sem hann vill feli í sér brot gegn reglum um sanngjarna málsmeðferð fyrir dómi. Sú fullyrðing sé í engu rökstudd.
Að lokum verði að hafa í huga að sóknaraðili hafi haft nægan tíma til að óska eftir úrskurði um afhendingu gagna og dómkvaðningu matsmanna, en kosið að gera það ekki fyrr en varnaraðili hafi óskað eftir því að aðalmeðferð verði ákveðin.
Með vísan til alls framangreinds mótmælir varnaraðili því að skilyrði 14. gr. laga nr. 91/1991 og tilkynningar dómstólaráðs nr. 2/2008 séu uppfyllt. Beri að hafna kröfu LSR um afhendingu endurrita gagna.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. reglur dómstólaráðs um aðgang að gögnum hjá héraðsdómstólum samkvæmt tilkynningu dómstólaráðs nr. 2/2008, er skylt, gegn greiðslu gjalds að láta þeim, sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, í té staðfest eftirrit af málsskjölum og úr þingbók eða dómabók, eins og nánar er mælt fyrir um í reglum þessum. Í 5. gr. framangreindra reglna dómstólaráðs segir að við mat á því hvort einstaklingur eða lögaðili hafi lögvarða hagsmuni af aðgangi að gögnum máls skuli einkum litið til þess hvort viðkomandi hafi beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Er við það miðað að starfandi lögmenn hafi slíkra hagsmuna að gæta í tengslum við úrlausn lögfræðilegra álitaefna sem þeir starfa að.
Þau dómsmál sem sóknaraðili hefur krafist að fá endurrit úr eru mál nr. E-500/2012 og E-1411/2012 sem til meðferðar eru í Héraðsdómi Reykjavíkur. Annars vegar er þar um að ræða skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og bankastjóra Glitnis, auk fyrrverandi forstjóra Baugs Group. Hins vegar er um að ræða kröfu á hendur endurskoðunarfyrirtækinu PWC vegna meintra brota á starfsskyldum sínum.
Aðalkrafa sóknaraðila lýtur að því að afhent verði staðfest endurrit af öllum málsskjölum í málum þessum. Í máli nr. E -500/2012 voru lögð fram við þingfestingu 92 skjöl, en skjöl málsins eru nú alls 113 eftir að greinargerðir stefndu í málinu hafa verið lagðar fram. Málið fór til dómstjóra til úthlutunar af reglulegu dómþingi 21. júní sl. Í máli nr. E-1411/2012 voru lögð fram við þingfestingu 146 skjöl, en það mál er ennþá til meðferðar á reglulegu dómþingi. Með hliðsjón af skýringarreglu 5. gr. framangreindra reglna um dómstólaráð er fallist á að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af aðgangi að gögnum í ofangreindum málum að því marki sem þau kunna að skipta máli í tengslum við úrlausn í ágreiningsmáli nr. X-69/2010 milli aðila og ákvæði laga mæla ekki gegn afhendingu þeirra. Af því leiðir að ekki er unnt að fallast á kröfu um afhendingu allra málsskjala í greindum málum án nánari tilgreiningar. Verður því hafnað aðalkröfu sóknaraðila.
Til vara gerir sóknaraðili kröfu um afhendingu á staðfestu endurriti af stefnu og stefnuskrá í fyrrgreindum dómsmálum. Samkvæmt því sem að framan greinir um lögvarða hagsmuni sóknaraðila varðandi aðgang að gögnum í ofangreindum málum er með vísan til 1. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 fallist á kröfu hans um afhendingu á staðfestu endurriti af stefnu og stefnuskrá í dómsmálum nr. E-500/2012 og E-1411/2012, sem til meðferðar eru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Eggert Óskarsson dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Aðalkröfu sóknaraðila, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins A-deildar, um afhendingu allra málsskjala í dómsmálum nr. E-500/2012 og E-1411/2012, sem til meðferðar eru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, er hafnað. Fallist er á kröfu sóknaraðila um afhendingu á staðfestu endurriti af stefnu og stefnuskrá í greindum dómsmálum.