Hæstiréttur íslands
Mál nr. 20/2013
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorkubætur
- Almannatryggingar
- Gjafsókn
Skaðabætur. Líkamstjón. örorkubætur. Almannatryggingar. Gjafsókn.
A krafðist skaðabóta úr hendi V hf. vegna vinnuslyss sem hún varð fyrir í starfi hjá A hf. A krafðist þess einnig að viðurkennt yrði að V hf. bæri að miða greiðslu vátryggingarbóta við að varanleg örorka hennar hefði orðið 20% af völdum slyssins. Deildu aðilar um það hvort A hf. hefði að fullu eða að hluta borið skaðabótaábyrgð á slysi A, hvort til grundvallar um tjón A ætti að leggja niðurstöðu örorkumats, sem A aflaði einhliða, eða matsgerð dómkvaddra manna og hvort eingreiðsluverðmæti bóta til A úr almannatryggingum skyldu koma til frádráttar skaðabótum vegna líkamstjóns hennar. Í niðurstöðu Hæstaréttar var talið að sök á slysinu hafi hvílt á A hf. auk þess sem vísað var til þess að tilkynning A hf. til Vinnueftirlits ríkisins, sem dagsett hefði verið degi eftir slysið, hefði ekki borist vinnueftirlitinu fyrr en það hefði verið um seinan að rannsaka vettvang slyssins. Þá taldi Hæstiréttur að gegn andmælum V hf. yrði matsgerð sú sem A aflaði einhliða hvorki lögð að jöfnu við matsgerð dómkvaddra manna né gæti hin fyrrnefnda gengið þeirri síðarnefndu framar, enda hefði hún engum annmörkum verið háð, sem áhrif hefðu á sönnunargildi hennar. Loks vísaði Hæstiréttur til þess að á slysdegi hefði samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga borið að draga frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns verðmæti greiðslna til tjónþola úr almannatryggingum. Samkvæmt framlögðum útreikningi um eingreiðsluverðmæti þeirra greiðslna var talið ljóst að A hefði fengið tjón sitt að fullu bætt frá V hf. og Sjúkratryggingum Íslands. Með vísan til þess að leggja bæri matsgerð dómkvaddra manna til grundvallar var ekki fallist á með A að varanleg læknisfræðileg örorka hennar af völdum slyssins hefði orðið 20%. Var V hf. því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara að fjárkrafa hennar verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 20. mars 2013. Hún krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 7.141.446 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.111.300 krónum frá 23. febrúar 2009 til 1. október sama ár og af 7.141.446 krónum frá þeim degi til 16. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum nánar tilgreindum innborgunum að fjárhæð samtals 2.938.191 króna. Hún krefst þess einnig að viðurkennt verði að aðaláfrýjanda beri að greiða sér vátryggingarbætur „fyrir 20% varanlega læknisfræðilega örorku, vegna vinnuslyss þann 23. febrúar 2009, úr slysatryggingu launþega samkvæmt gr. 8.7 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands sem gilti frá 1. febrúar 2008.“ Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
I
Samkvæmt gögnum málsins hafði gagnáfrýjandi starfað um árabil við ræstingar hjá Atafli hf. þegar hún varð fyrir slysi 23. febrúar 2009 við vinnu í húsi, sem félagið var að reisa fyrir björgunarmiðstöð í […]. Mun frágangi hússins hafa verið nærri lokið þegar gagnáfrýjanda var þennan dag fengið það viðfangsefni að sinna þar þrifum, en svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi stendur ágreiningur um hvað henni var nánar falið að gera. Gagnáfrýjandi hefur lýst aðdraganda slyssins þannig að hún hafi farið niður um opinn stiga af 2. hæð hússins til að þurrka af handriði. Óumdeilt er að pappír hafði verið lagður á þrep í stiganum, svo og að fjögur þau neðstu hafi vantað sökum þess að frágangi á gólfi neðan við hann hafi ekki verið lokið. Gagnáfrýjandi kveðst hafa runnið til á pappírnum, sem hafi verið laus á þrepunum, en aðaláfrýjandi staðhæfir að pappírinn hafi verið límdur í hring um hvert þrep. Við þetta hafi fótur gagnáfrýjanda flækst milli þrepa og hún fallið niður á gólfið á 1. hæð hússins. Maður, sem var við störf í húsinu, mun hafa flutt gagnáfrýjanda á slysadeild og kom síðar í ljós að hún hafi meðal annars tognað á ökkla, baki og hálsi. Atafl hf. gerði skriflega tilkynningu um slysið til Vinnueftirlits ríkisins, sem var dagsett 24. febrúar 2009 en árituð um móttöku þar 3. mars sama ár. Engin rannsókn fór fram á slysinu.
Atafl hf. hafði eftir gögnum málsins keypt ábyrgðartryggingu hjá aðaláfrýjanda ásamt slysatryggingu launþega í samræmi við ákvæði kjarasamnings, sem getið er í dómkröfum gagnáfrýjanda, og tilkynnti félagið aðaláfrýjanda 12. mars 2009 um slys hennar. Gagnáfrýjandi tilkynnti honum einnig um slysið 24. júlí sama ár, svo og að hún teldi vinnuveitanda sinn bera skaðabótaábyrgð á afleiðingum þess þannig að ábyrgðartrygging hans tæki til tjóns hennar. Aðaláfrýjandi hafði ekki tekið afstöðu til þessa þegar gagnáfrýjandi leitaði 12. mars 2010 einhliða eftir mati hæstaréttarlögmanns og bæklunarlæknis á afleiðingum slyssins og luku þeir örorkumati 18. maí sama ár. Niðurstöður þess voru þær að heilsufar gagnáfrýjanda hafi orðið stöðugt 1. október 2009, hún hafi verið tímabundið óvinnufær frá slysinu fram til þess dags, tímabil þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 án rúmlegu hafi verið það sama, varanlegur miski hennar vegna slyssins væri 20 stig og varanleg örorka 30%. Aðaláfrýjandi greindi loks gagnáfrýjanda frá því með bréfi 1. júlí 2010 að hann teldi að slysið yrði að öllu leyti „rakið til óhappatilviks sem enginn beri sök á“ og hafnaði hann vegna þessa greiðslu úr ábyrgðartryggingu. Hann greiddi á hinn bóginn gagnáfrýjanda 500.000 krónur 8. sama mánaðar upp í bætur úr slysatryggingu launþega.
Bú Atafls hf., sem hét orðið V 53 hf., mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 7. október 2010.
Fyrir liggur að Sjúkratryggingar Íslands mátu varanlega læknisfræðilega örorku gagnáfrýjanda 14. mars 2011. Taldist sú örorka 15% og fékk hún af því tilefni eingreiðslu örorkubóta 16. sama mánaðar að fjárhæð 595.866 krónur.
Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta gegn aðaláfrýjanda 15. júní 2011. Undir rekstri þess fékk sá síðarnefndi dómkvadda menn 23. nóvember sama ár til að leggja mat á afleiðingar slyss gagnáfrýjanda og luku þeir matsgerð 31. janúar 2012. Í henni var talið að gagnáfrýjandi hafi tímabundið verið óvinnufær frá slysdegi til 24. september 2009 þegar heilsufar hennar hafi orðið stöðugt, tímabil þjáningabóta án rúmlegu hafi verið það sama, varanlegur miski hennar af völdum slyssins væri 15 stig og varanleg örorka 25%. Í framhaldi af þessu greiddi aðaláfrýjandi 27. febrúar 2012 úr slysatryggingu launþega 1.842.325 krónur í bætur fyrir varanlega örorku gagnáfrýjanda til viðbótar þeim 500.000 krónum, sem hann hafði áður innt af hendi samkvæmt framansögðu, svo og 244.452 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns hennar.
Fyrir liggur í málinu að gagnáfrýjandi hefur notið greiðslna úr almannatryggingum og lífeyrissjóði vegna óvinnufærni af völdum áðurgreinds slyss. Fyrir héraðsdómi var lögð fram álitsgerð tryggingastærðfræðings um eingreiðsluverðmæti greiðslna til gagnáfrýjanda úr lífeyrissjóði, þar sem það var reiknað út annars vegar miðað við þá forsendu að hún nyti þeirra til loka febrúar 2013 þegar mat yrði á ný lagt á heilsufar hennar og hins vegar til 67 ára aldurs. Þá var einnig lagður fram útreikningur á eingreiðsluverðmæti bóta gagnáfrýjanda úr almannatryggingum, þar sem annars vegar var miðað við að hún fengi greiddar bætur fram til ágúst 2014, þegar meta ætti heilsufar hennar á nýjan leik, og hins vegar til 67 ára aldurs.
Svo sem ítarlega er lýst í hinum áfrýjaða dómi er deilt í málinu um hvort Atafl hf. hafi að fullu eða eftir atvikum að hluta borið skaðabótaábyrgð á slysinu, sem gagnáfrýjandi varð fyrir 23. febrúar 2009, þannig að hún njóti réttar til bóta úr ábyrgðartryggingunni, sem félagið tók hjá aðaláfrýjanda. Einnig stendur ágreiningur um hvort leggja eigi niðurstöður örorkumatsins frá 18. maí 2010 til grundvallar um tjón gagnáfrýjanda eða matsgerð dómkvaddra manna 31. janúar 2012, en af því ræðst jafnframt hvort gagnáfrýjandi eigi rétt til frekari bóta úr slysatryggingu launþega en aðaláfrýjandi hefur þegar greitt. Þá deila aðilarnir um hvort eingreiðsluverðmæti bóta til gagnáfrýjanda úr almannatryggingum eigi að koma til frádráttar skaðabótum vegna líkamstjóns hennar. Fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi á hinn bóginn fallið frá andmælum gegn því að eingreiðsluverðmæti greiðslna til sín úr lífeyrissjóði fram til 67 ára aldurs komi til frádráttar skaðabótum, en af þeim sökum er fjárhæð dómkröfu hennar hér fyrir dómi lægri en krafa hennar var í héraði.
II
Eins og atvikum var háttað samkvæmt áðursögðu mátti vinnuveitanda gagnáfrýjanda þegar vera ljóst að hún yrði óvinnufær af völdum slyssins 23. febrúar 2009 að minnsta kosti tímabundið um lengri tíma en einn dag og hvíldi því skylda á honum til að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um slysið innan sólarhrings, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með síðari breytingum. Leggja verður til grundvallar að áðurnefnd tilkynning Atafls hf. til Vinnueftirlits ríkisins, sem var dagsett degi eftir slysið, hafi ekki borist þangað fyrr en 3. mars 2009. Þegar svo var komið var bersýnilega um seinan að rannsaka vettvang slyssins meðal annars með tilliti til þess hvernig gengið hafi verið frá pappír, sem breiddur hafði verið yfir þrep í stiganum sem gagnáfrýjandi féll úr, en aðilarnir deila ekki um að slysið verði rakið til þess að hún hafi runnið til á pappírnum. Aðaláfrýjandi verður að bera halla af þeirri óvissu um aðstæður á vinnustaðnum, sem rakin verður til þessa. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að skaðabótaábyrgð á slysi gagnáfrýjanda hafi hvílt að fullu á Atafli hf. staðfest með vísan til forsendna hans.
Gagnáfrýjandi leitaði sem áður segir 12. mars 2010 eftir örorkumati tveggja manna, sem hún valdi sjálf í því skyni án samþykkis aðaláfrýjanda. Gegn andmælum aðaláfrýjanda verður örorkumat, sem fengið var á þennan hátt, ekki lagt að jöfnu til sönnunar um afleiðingar slyssins fyrir heilsufar gagnáfrýjanda við matsgerð tveggja dómkvaddra manna, sem aðaláfrýjandi aflaði samkvæmt áðursögðu undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi, og getur enn síður gengið henni framar. Þeirri matsgerð hefur gagnáfrýjandi ekki hnekkt með yfirmati og verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að leggja matsgerðina til grundvallar við úrlausn málsins, enda er hún engum annmörkum háð, sem áhrif gætu haft á sönnunargildi hennar. Samkvæmt þessu verður á því byggt að heilsufar gagnáfrýjanda eftir slysið hafi orðið stöðugt 24. september 2009, hún eigi rétt til bóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga vegna þjáninga án rúmlegu til þess dags frá slysdegi 23. febrúar sama ár, varanlegur miski hennar af völdum slyssins sé 15 stig og varanleg örorka hennar 25%.
Að gefnum framangreindum forsendum og teknu tilliti til útreikninga beggja aðila á einstökum liðum í fjárkröfu gagnáfrýjanda verður að líta svo á að hún eigi rétt til þjáningabóta fyrir 213 daga, sem nemi 336.540 krónum, miskabóta að fjárhæð 1.322.775 krónur og bóta fyrir varanlega örorku að fjárhæð 4.831.542 krónur, en samtals eru þetta 6.490.857 krónur. Gagnáfrýjandi viðurkennir sem áður segir að draga eigi frá þessu eingreiðsluverðmæti greiðslna til sín úr lífeyrissjóði til 67 ára aldurs, en að teknu tilliti til þess að heilsufar hennar teljist hafa orðið stöðugt 24. september 2009 nemur þessi frádráttur samkvæmt framlögðum útreikningi tryggingastærðfræðings 801.000 krónum. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr., sbr. 2. mgr. 3. gr. og 4. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1999 og þau hljóðuðu á slysdegi 23. febrúar 2009, bar að draga frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns verðmæti greiðslna til tjónþola úr almannatryggingum. Breyting, sem gerð var á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga með 1. gr. laga nr. 53/2009, tók ekki gildi fyrr en 1. maí 2009 og getur hún því ekki tekið til uppgjörs á kröfu gagnáfrýjanda um skaðabætur, sem varð til á slysdegi, sbr. dóm Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 113/2010. Þótt réttur hennar til frambúðar til greiðslna úr almannatryggingum geti verið háð óvissu að því leyti að meta eigi örorku hennar með tilliti til þessara réttinda á nýjan leik í ágúst 2014 verður að leggja hér til grundvallar að þetta mat muni ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki sé unnt að draga frá metnum skaðabótum eingreiðsluverðmæti þessara greiðslna til 67 ára aldurs gagnáfrýjanda, sbr. dóm Hæstaréttar 20. október 2005 í máli nr. 119/2005. Samkvæmt framlögðum útreikningi nam þetta verðmæti miðað við 24. september 2009 samtals 17.345.000 krónum. Af þessu er þegar ljóst að tjón gagnáfrýjanda verður að teljast að fullu bætt án þess að líta þurfi til annarra greiðslna, sem hún hefur þegar fengið samkvæmt áðursögðu frá aðaláfrýjanda og Sjúkratryggingum Íslands. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af fjárkröfu gagnáfrýjanda.
Vegna þeirrar niðurstöðu, sem komist var að hér að framan um að leggja verði matsgerð dómkvaddra manna til grundvallar um afleiðingar slyssins 23. febrúar 2009 fyrir heilsufar gagnáfrýjanda, verður aðaláfrýjandi jafnframt sýknaður af kröfu hennar um að viðurkennt verði að hún njóti réttar til greiðslu bóta úr slysatryggingu launþega, sem taki mið af því að varanleg læknisfræðileg örorka hennar af völdum slyssins hafi orðið 20%.
Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verður látið standa óraskað, en um gjafsóknarkostnað hennar fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, A.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið fyrst 4. júlí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, […] með stefnu birtri 15. júní 2011. Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík. Dómsuppsaga dróst fram yfir lögbundin frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 og var málið því flutt á ný og dómtekið 25. september sl.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 7.712.446 kr. með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.111.300 kr. frá 23. febrúar 2009 til 1. október 2009, en af 7.712.446 kr. frá þeim degi til 16. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum og bótagreiðslu að fjárhæð 500.000 kr. 8. júlí 2010, 595.866 kr. 16. mars 2011 og 1.842.325 kr. 27. febrúar 2012.
Jafnframt krefst stefnandi þess að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til greiðslu vátryggingabóta fyrir 20% varanlega læknisfræðilega örorku, vegna vinnuslyss þann 23. febrúar 2009, úr slysatryggingu launþega samkvæmt gr. 8.7 kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands, sem gilti frá 1. febrúar 2008.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda og lækkunar á fjárkröfum. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir
Þann 23. febrúar 2009 féll stefnandi úr stiga þegar hún var í vinnu við ræstingar hjá V 53 hf., sem þá hét Atafl hf. Umræddan dag var stefnandi að þrífa nýbyggingu björgunarmiðstöðvarinnar í […], […]. V 53 hf. sá um byggingu hússins og var komið nálægt verklokum. Í upphafi var félaginu stefnt ásamt Vátryggingafélagi Íslands hf. Í ljósi þess að V 53 hf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta var fallið frá málssókn á hendur því félagi.
Stefnandi hafði unnið við ræstingar hjá V 53 hf. í 7 ár þegar slysið varð og einu sinni áður komið í það húsnæði sem hún var að vinna í á slysdegi. Að sögn stefnda hafi stefnandi hlotið almenna starfsþjálfun til þeirra starfa sem hún sinnti. Tilhögun á vinnu stefnanda fyrir V 53 hf. hafi verið með þeim hætti að hún hafi annast almenn þrif á verkstöðum V 53 hf. Hún hafi ekki haft fasta starfsstöð heldur verið kölluð til þegar þrifa var þörf og fengið fyrirmæli um þau þrif sem skyldi inna af hendi í hvert skipti.
Stefnandi segir svo frá að umræddan dag hafi verkstjóri hennar ekið henni á starfsstöðina í björgunarmiðstöðinni. Þegar þangað var komið hjálpaði hann stefnanda að bera tuskur, áhöld og efni sem hún notaði við þrif inn í húsið. Húsið er á tveimur hæðum en fyrir ofan aðra hæð er herbergi eða einskonar „turn“ með stórum gluggum. Verkstjórinn fór með stefnanda upp í það herbergi. Þau hafi ekki farið upp þann stiga sem hún féll síðar niður, heldur upp annan stiga sem var í húsinu. Að sögn stefnanda fékk hún þau fyrirmæli frá verkstjóranum að þrífa allt húsið eins og unnt væri. Hafi verkstjórinn m.a. lagt áherslu á að hún þrifi gler í gluggum í herberginu. Hann hafi einnig beðið hana að þrífa eldhús, baðherbergi, skrifstofur o.fl. Hún hafi fengið þau fyrirmæli að skúra og þurrka af. Að svo búnu hafi verkstjórinn farið af vettvangi. Auk stefnanda hafi iðnaðarmenn verið að störfum í húsinu þennan dag.
Stefnandi segist hafa hafið störf sín í húsinu á efstu hæð og hafa verið á leið niður húsið við þrifin. Slysið hafi orðið þegar hún var að þrífa stiga. Stigaþrepin hafi verið þakin með pappír. Þegar stefnandi hafi verið að þurrka af handriði stigans hafi hún runnið til á pappírnum með þeim afleiðingum að hún flækti fót milli stigaþrepa og datt svo niður á gólf. Fallið niður hafi verið hátt þar sem fjögur neðstu stigaþrepin vantaði í stigann. Við fallið hafi stefnandi meiðst illa, meðal annars fengið högg á höfuð og bak, átt erfitt með andardrátt og kennt eymsla í vinstri fæti. Iðnaðarmaður sem hafi verið við störf í húsinu hafi komið henni til aðstoðar og ekið henni á slysadeild Heilbrigðisstofnunar […].
Stefndi segir það rangt að stefnandi hafi fengið þau fyrirmæli að þrífa allt húsið eins og unnt væri. Stefnanda hafi eingöngu verið falið að þrífa veggflísar enda hafi framkvæmdum í húsnæðinu ekki verið lokið og því óhægt um vik með þrif. Er því sérstaklega mótmælt að stefnandi hafi verið beðin um að skúra og þurrka af. Að sögn stefnda var umræddur stigi ekki fullgerður þegar slysið varð og ekki búið að taka hann í notkun. Átti til að mynda eftir að setja fjögur neðstu þrepin á stigann og voru því um 80 cm niður á gólfið frá neðsta ísetta þrepi. Til að hlífa yfirborði þrepanna fyrir óhreinindum hafi pappír verið vafið utan um hvert þrep fyrir sig og hann festur með límbandi. Það hafi verið augljóst hverjum sem var á staðnum að pappír var á þrepunum og einnig hafi verið augljóst að neðstu þrepin vantaði í stigann. Stefnandi hafi engin fyrirmæli fengið um að þrífa stigann, hvorki handrið hans né þrepin, heldur hafi það verk alfarið verið unnið að hennar eigin frumkvæði.
Við komu á Heilbrigðisstofnun […] var stefnandi með merki um tognun á vinstri ökkla og mar yfir vinstri olnboga. Þá var hún með dreifð eymsli í baki. Hún leitaði ítrekað til stofnunarinnar í kjölfar slyssins en hún átti m.a. mjög erfitt með að stíga í vinstri fót og var mjög aum yfir vöðvum í hálsi og mjóbaki. Stefnandi leitaði einnig til B bæklunarskurðlæknis sem vísaði henni til sjúkraþjálfara þann 27. mars 2009. Stefnandi var vottuð óvinnufær vegna afleiðinga slyssins frá slysdegi til 31. mars 2010. Hún hefur enn ekki snúið aftur til fyrri starfa. Að mati B tognaði stefnandi í hálsi, baki og vinstri ökkla við slysið. Sýndu röntgenmyndir slit í hálsi og baki og merki um tognun á vinstri ökkla. Við síðustu skoðun hjá B, þann 8. febrúar 2010, hafði stefnandi enn töluverð óþægindi frá hálsi og baki og sýndu röntgen- og segulómsskoðun slit í hálsi.
Tilkynning til vinnueftirlitsins um slysið er dagsett 24. febrúar 2009 eða degi eftir slysið en tilkynningin er stimpluð af Vinnueftirlitinu 3. mars s.á. Vinnueftirlitið kom hins vegar ekki á slysstað. Þá var Vátryggingafélagi Íslands send tilkynning um slysið 12. mars og 24. júlí 2009. Tilkynning til Sjúkratrygginga Íslands er dagsett 21. apríl 2009.
Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir. Sú fyrri, frá 18. maí 2010, er unnin af C bæklunarlækni og D hrl., að beiðni stefnanda. Í þeirri matsgerð er stefnandi sögð hafa verið óvinnufær frá slysdegi fram að batahvörfum þann 1. október 2009 og eftir það vinnufær með þeim takmörkunum sem afleiðingar slyssins hafi leitt til. Tímabil þjáninga telja matsmenn það sama og tímabil óvinnufærni en stefnandi hafi ekki verið rúmföst það tímabil. Varanlegur miski stefnanda er metinn til 20 stiga og varanleg örorka 30%. Stefndi mótmælir efni matsgerðarinnar sem röngu og kveður matið byggt á ófullnægjandi og röngum forendum.
Síðari matsgerðin er unnin af dómkvöddum matsmönnum að beiðni stefnda. E, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum, og F hrl. voru dómkvaddir til verksins. Þeir skiluðu matsgerð 31. janúar 2011. Niðurstöður matsgerðar þeirra er sú að stöðugleikapunkti hafi verið náð 24. september 2009, stefnandi hafi verið óvinnufær frá 23. febrúar 2009 til þess dags og tímabil þjáninga hafi verið það sama. Varanleg örorka er metin 25% og varanlegur miski 15 stig.
Stefnandi telur að stefndi V 53 hf. beri skaðabótaábyrgð á tjóni hennar vegna slyssins. Með bréfi, dags. 24. júlí 2009, gerði stefnandi kröfu um greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu fyrirtækisins hjá Vátryggingafélagi Íslands. Stefndi hafnaði þeirri kröfu með bréfi dagsettu 1. júlí 2010. Málinu var skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem kvað upp úrskurð þann 24. ágúst 2010. Niðurstaða nefndarinnar var sú að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu V 53 hf. hjá stefnda.
V 53 hf. tryggði starfsmenn sína einnig með kjarasamningsbundinni slysatryggingu hjá stefnda samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem tók gildi 28. febrúar 2008. Ekki er ágreiningur um bótaskyldu úr tryggingunni en deilt er um hvaða miskabótastig eigi að leggja til grundvallar bótagreiðslu. Stefndi setti á fyrri stigum máls fram bótatilboð miðað við 5% örorku og greiddi 500.000 kr. upp í bótakröfu þann 8. júlí 2010. Þann 24. febrúar 2012, eftir að skýrsla dómkvaddra matsmanna lá fyrir, greiddi stefndi því til viðbótar 1.842.325 kr. vegna varanlegrar örorku og dagpeninga að fjárhæð 152.755 kr. vegna tímabilsins 1. ágúst til 24. september 2009.
Allir matsmenn staðfestu matsgerðir sínar og gáfu skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu einnig skýrslu G verkstjóri og stefnandi, A.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að V 53 hf. beri fulla skaðabótaábyrgð á tjóni hennar sem varð vegna slyssins 23. febrúar 2009 á grundvelli almennra skaðabótareglna. Vátryggingafélagi Íslands hf. beri því að bæta tjón hennar að fullu þar sem félagið var ábyrgðartryggt hjá því á slysadegi. Um aðild stefnda vísar stefnandi til 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.
Stefnandi heldur því fram að slysið megi fyrst og fremst rekja til hættulegs vanbúnaðar á stiganum sem stefnandi féll í. Sá vanbúnaður felist í fyrsta lagi í því að þrep stigans sem hún féll í voru hulin með pappír, í öðru lagi að þrep vantaði í stigann og í þriðja lagi að ekki var varað við því að ofanverðu, við stigaopið, að þrep vantaði í stigann. Því hafi V 53 hf. ekki gætt ákvæða laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem skyldi. Vinnustaður sé skilgreindur í 41. gr. laganna sem umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Í 42. gr. laganna segi að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Segi enn fremur í 2. mgr. ákvæðisins að fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins hvað þetta varðar. Vinnueftirlit ríkisins hafi sett sérstakar reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, reglur nr. 547/1996. Segi í 8. gr. þeirra að atvinnurekendur/verktakar skuli, til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna á byggingarvinnustað, gera ráðstafanir sem m.a. samræmast kröfum sem settar eru fram í IV. viðauka reglnanna. Í A-hluta viðaukans segi orðrétt í grein 13.1: „Umferðarleiðir, þar með talið innbyggða eða fasta stiga, hlaðstæði og palla, skal staðsetja og útbúa þannig að þær megi nota á öruggan hátt og sem tilgangur þeirra segir til um, og þannig að starfsmönnum sem eru við vinnu í grennd við þær stafi ekki hætta af.” Þá komi einnig fram í grein 17.1 í B-hluta sama viðauka að öruggar og heppilega staðsettar umferðarleiðir skuli vera til vinnustöðva, á verkpöllum og í byggingum. Stigar í byggingum skuli gerðir til umferðar svo fljótt sem verða megi.
Tilvitnuðum reglum hafi ekki verið fylgt við frágang á umræddum stiga. Orsakir tjóns stefnanda hafi helst verið þær að þrep stigans voru hulin með pappír og að þrep vantaði neðst í stigann. Pappírinn olli því að hún rann og missti jafnvægið en það að þrep vantaði varð til þess að fall hennar varð mun hærra en ella og höggið á líkama hennar því þeim mun meira. Stiginn hafi því ekki verið útbúinn þannig að nota mætti hann á öruggan hátt. Frágangur hans hafi verið til þess fallinn að skapa hættu. Ef V 53 hf. hefði fylgt tilvitnuðum ákvæðum laga og reglna hefði stefnandi ekki orðið fyrir tjóni. Með þessum óforsvaranlega frágangi á stiganum hafi V 53 hf. valdið tjóni hennar með saknæmum og ólögmætum hætti. Á engan hátt hafi verið varað við vanbúnaði stigans þrátt fyrir að því hefði auðveldlega mátt koma við. Þá vísar stefnandi einnig til öryggis- og heilbrigðisáætlunar Atafls hf., sem síðar varð V 53 hf., dags. 4. apríl 2008, en þar sé ítarlega gerð grein fyrir þeim öryggiskröfum sem fyrirtækið hafi sett sér. Þar sé m.a. að finna ákvæði um fallvarnir ýmiss konar, m.a. sé kveðið á um að girða skuli fyrir gólfop sem séu breiðari en stærð fóta. Merkja beri slíkar varnir greinilega og bannað sé að færa þær til. V 53 hf. hafi í þessu tilviki ekki fylgt sínum eigin öryggisreglum sem styðji enn frekar röksemdir stefnanda um að frágangur stigans hafi ekki verið forsvaranlegur.
Stefnandi byggir á því að hún hafi verið að sinna því verki sem henni hafi verið falið þegar hún féll í stiganum umrætt sinn. Hún hafi m.a. átt að þurrka af og það hafi hún verið að gera þegar hún datt. Jafnvel þótt henni hefði ekki verið falið það tiltekna verk breyti það engu varðandi skyldur V 53 hf. samkvæmt lögum nr. 46/1980 og reglum nr. 547/1996. Hún og fleiri hafi verið við vinnu í húsnæðinu umræddan dag, í grennd við stigann. V 53 hf. hafi því borið að tryggja öryggi á vinnustaðnum og haga frágangi stigans þannig að ekki skapaðist hætta af notkun hans.
Ekki hafi verið af hálfu stefnda eða V 53 hf. aflað frekari sönnunar á orsökum slyssins en fram kemur í fyrirliggjandi gögnum málsins, t.d. með því að kalla til lögreglu og/eða Vinnueftirlit ríkisins. V 53 hf. hafi ekki sinnt lögbundinni tilkynningarskyldu sinni skv. 79. gr. laga nr. 46/1980 Tilkynning til Vinnueftirlitsins sé dagsett 24. febrúar 2009 en samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirlitinu barst hún þeim ekki fyrr en 3. mars 2009. Fyrir liggi að Vinnueftirlitið kom ekki á vettvang. Stefnda hafi frá upphafi verið skýr og samkvæm sjálfri sér í lýsingu á atvikum og ástæðum slyssins. Vegna þessa verði stefndi að bera hallann af skorti á sönnun um þau atriði sem teljast óljós. Stefnda hafi verið í lófa lagið að tryggja sér óyggjandi sönnun fyrir því hvernig aðstæður voru á vettvangi þegar slysið varð. Því hafi til dæmis verið haldið fram af hálfu stefnda að það sé þekkt verklag að hylja stigaþrep með pappír á byggingavinnustöðum. Stefndi hafi þó ekki tryggt sér sönnun, með staðfestum samtímagögnum, að staðið hafi verið eðlilega að því að hylja þrepin á stiganum umrætt sinn miðað við stöðu verksins. Svo sem fram er komið telur stefnandi að pappírinn á stiganum hafi verið til þess fallinn að skapa hættu og auk þess óeðlilegt að ekki hafi verið lokið við frágang stigans að öðru leyti.
Stefnandi telur að hún hafi ekki sýnt ógætni þegar slysið varð. Hún vann ekki að staðaldri í björgunarmiðstöðinni og þekkti því ekki aðstæður í húsinu, þó að hún hafi unnið hjá V 53 hf. í rúmlega sjö ár þegar slysið varð. Hún hafi komið að stiganum að ofanverðu og mun erfiðara hafi verið að sjá þaðan að neðstu þrep stigans vantaði heldur en þegar staðið hafi verið fyrir neðan stigann. Engar aðvaranir hafi verið að ofanverðu um að þrep vantaði og þá hafi verkstjóri stefnda ekki á nokkurn hátt varað hana við að nota stigann jafnvel þó honum hljóti að hafa verið ljóst að hún þyrfti að fara niður einhvern stiga hússins.
Þá hafi dómur EFTA-dómstólsins í máli nr. E-2/10 frá 10. desember 2010, Þór Kolbeinsson gegn íslenska ríkinu, mikla þýðingu í þessu máli að því er varðar afleiðingar á mögulegri eigin sök. Í því máli var m.a. deilt um þýðingu 5. gr. tilskipunar ráðsins nr. 89/391/EBE, frá 12. júní 1989, sem er vísað til í 8. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn. Lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sé ætlað að taka til efnis tilskipunarinnar og hafi innleiðing hennar m.a. verið gerð með breytingum á þeim lögum, sbr. lög nr. 68/2003. Í 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar segi að vinnuveitanda sé skylt að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna við allar aðstæður í vinnu. Þá segi í 3. mgr. 5. gr. að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda. Í framangreindu máli hafi niðurstaða EFTA-dómstólsins orðið sú að einungis í undantekningartilvikum samræmist það ákvæðum tilskipunarinnar að gera starfsmann ábyrgan fyrir öllu tjóni eða meginhluta tjóns sem hann hefur beðið vegna vinnuslyss á grundvelli reglna um eigin sök, í þeim tilvikum þegar vinnuveitandi hefur ekki farið að reglum um öryggi og heilsu á vinnustað. Meðal undantekninga í framangreindum skilningi megi nefna þau tilvik þegar starfsmaður veldur slysi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Jafnvel í slíkum tilvikum myndi alger missir bótaréttar vera úr hófi íþyngjandi og ekki í samræmi við tilskipunina, nema svo sérstaklega hátti til að starfsmaður hafi átt talsvert meiri sök á slysinu en vinnuveitandinn. Liggi ljóst fyrir í þessu máli að stefndi hafi með háttsemi sinni brotið gegn lögum og reglum og því hafi dómurinn í framangreindu máli þýðingu í þessu máli og styðji málsgrundvöll hennar sem byggist á því að vinnuveitandi stefnanda beri fulla ábyrgð á tjóni hennar og rétt sé að beina kröfum að stefnda á grundvelli 44. gr. laga nr. 30/2004.
Krafa stefnanda um skaðabætur byggist á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum matsgerðar C bæklunarlæknis og D hrl. Stefnandi telji ekki rétt að leggja matsgerð dómkvaddra matsmanna til grundvallar útreikningum á tjóni sínu, enda sé fyrri matsgerðin ekki haldin neinum göllum og auk þess betur rökstudd og sundurliðuð hvað varðar einstaka liði miskabótamatsins.
Krafa stefnanda er sundurliðuð á eftirfarandi hátt í endanlegri kröfugerð:
1. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. kr. 347.600
2. Bætur vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skbl. kr. 1.763.700
3. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-8. gr. skbl. kr. 5.601.146
Samtals kr. 7.712.446
Til frádráttar kröfunni komi innborganir stefnda, 500.000 kr. þann 8. júlí 2010 og 1.842.325 kr. þann 27. febrúar 2012, auk eingreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands, sem stefnandi fékk þann 16. mars 2011, að fjárhæð 595.866 kr.
Miðað sé við að stöðugleikapunkti hafi verið náð 1. október 2009. Auk skaðabóta er krafist vaxta og dráttarvaxta til greiðsludags og málskostnaðar líkt og í dómkröfum greinir. Frekari rökstuðningur fyrir bótakröfu sé eftirfarandi:
Krafa um þjáningabætur er byggð á 3. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð, telji matsmenn að tímabil þjáninga samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga sé frá 23. febrúar 2009 til 1. október 2009. Stefnandi hafi því verið veik án þess að vera rúmföst í 220 daga. Þjáningabætur nema 1.580 kr. á dag, sbr. 3. gr. skaðabótalaga, að viðbættri hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. laganna. Með vísan til framangreinds krefst stefnandi bóta fyrir þjáningar, samtals 347.600 kr. (220 x 1.580).
Þá er vísað til 4. gr. skaðabótalaga varðandi kröfu um bætur vegna varanlegs miska. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð telji matsmenn varanlegan miska stefnanda af völdum slyssins samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga vera 20 stig. Vegna þessa þáttar er því krafist 1.763.700 kr. (8.818.500x20%) með vísan til 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og aldurs stefnanda á slysdegi.
Loks er krafa um bætur vegna varanlegrar örorku reist á 5. - 7. gr. skaðabótalaga. Matsmenn telji samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga sé 30%. Með vísan til aldurs stefnanda, á þeim degi er heilsufar hennar í kjölfar slyssins telst stöðugt, er margfeldisstuðull hennar samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga 7,458. Varðandi tekjuviðmið, er byggt á launatekjum stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt skattframtölum voru launatekjur hennar árið 2006 1.924.685 kr., árið 2007 2.283.679 kr. og árið 2008 2.224.057 kr. Meðaltekjur hennar, leiðréttar samkvæmt launavísitölu, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, auk framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, séu því 2.608.003 kr. Verði bætur fyrir varanlega örorku því samtals 5.835.145 kr. (2.608.003x7,458x30%) og er gerð krafa þar um, allt að frádregnum eingreiðsluverðmæti greiðslna frá lífeyrissjóði, miðað við að bætur verði greiddar til febrúar 2013.
Stefnandi rökstyður kröfu sína um bótaskyldu stefnda úr slysatryggingu launþega miðað við 20% varanlega læknisfræðilega örorku með vísan til niðurstöðu matsgerðar C og D, sem meta varanlegan miska 20 stig. Ágreiningslaust sé að V 53 hf. slysatryggði stefnanda við vinnu sína á slysdegi samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands hjá stefnda. Hefur stefndi viðurkennt bótaskyldu í því sambandi og greiddi m.a. 500.000 kr. inn á tjón stefnanda þann 26. júlí 2010.
Í framangreindum kjarasamningi segi m.a. í grein 8.7.1 að atvinnurekendum sé skylt að tryggja launafólk fyrir varanlegri læknisfræðilegri örorku og tímabundinni örorku. Samkvæmt grein 8.7.3 breytist vátryggingarfjárhæðir eftir vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir frá 1. febrúar 2008 (282,6 stig) og breytist fyrsta dag hvers mánaðar í réttu hlutfalli við breytingu vísitölunnar. Bótafjárhæðir reiknist á grundvelli vátryggingarfjárhæða á slysdegi en breytist með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá slysdegi til uppgjörsdags. Um bótafjárhæðir fari samkvæmt greinum 8.7.5 og 8.7.6. Grunnfjárhæð örorkubóta vegna varanlegrar örorku sé 11.400.000 kr. miðað við 1. febrúar 2008 og fyrir hvert örorkustig frá 1-25 greiðist því 114.000 kr. en fjárhæðirnar hækki í samræmi við ofangreinda hækkun vísitölu.
Stefnda beri að greiða stefnanda bætur samkvæmt kjarasamningnum og skilmálum tryggingarinnar. Stefnandi hafi þegar gert kröfu um bætur á grundvelli fyrirliggjandi matsgerða en stefndi hafi ekki viljað ganga til fullnaðaruppgjörs við hana. Stefnandi telji allar forsendur til að byggja á fyrirliggjandi matsgerð og kjarasamningnum. Tjón stefnanda sé einnig ótvírætt.
Stefnandi styðji kröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, einkum sakarregluna, lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglur nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, lög nr. 2/1993 og skaðabótalög nr. 50/1993.
Um aðild vísast til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um varnarþing vísast til 33. gr. og 42. gr. laga um meðferð einkamála og um málskostnað til 129. og 130. gr. sömu laga.
Varðandi vaxtakröfu af skaðabótum er vísað til 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en varðandi kröfu um dráttarvexti til 4. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta miðast við þann dag er stefna var þingfest og sbr. 4. mgr. 5. gr. og 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eigi bætur úr slysatryggingu launþega að dragast frá bótum fyrir varanlega örorku.
Málsástæður og lagarök stefnda
Sýknukrafa stefnda, að því er varðar kröfu um greiðslu úr ábyrgðartryggingu V 53 hf., er byggð á því að hvorki V 53 hf. né nokkur á vegum fyrirtækisins eigi sök á slysi stefnanda. Um skaðabótaábyrgð í málinu fari eftir almennum skaðabótareglum. Af því leiði að aðili verði ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni annars aðila nema það megi rekja til sakar hans eða einhverra sem hann beri ábyrgð á. Sönnunarbyrðin um sök stefnda hvílir því óskipt á stefnanda enda ekkert komið fram í málinu um að víkja beri frá meginreglunni og leggja sönnunarbyrðina að einhverju leyti á stefnda. Þá beri stefnandi að öllu leyti sönnunarbyrðina fyrir því að hafa yfirhöfuð orðið fyrir tjóni og um orsakir og umfang þess.
Á vinnuveitanda hvíli ekki hlutlæg ábyrgð á tjóni sem starfsmenn hans kunna að verða fyrir við vinnu sína. Ávallt þurfi að sanna sök. Stefndi hafnar því að stefnanda hafi tekist að sanna nokkra sök V 53 hf. Stiginn sem stefnandi datt í hafi ekki verið vanbúinn að neinu leyti. Það sé alvanaleg og hættulaus framkvæmd að klæða stigaþrep með pappa á verkstað. Að sama skapi sé einnig alvanalegt að stigaþrep séu ekki sett í stiga fyrr en eftir að frágangi á gólfi undir stiga sé lokið en óhægt sé um vik að ljúka slíkum frágangi án þess að fjarlægja stigaþrep á meðan. Því sé jafnframt mótmælt að stefnda hafi verið skylt að setja upp sérstakar merkingar við stigaopið um að þrep vantaði neðst í stigann. Stiginn hafi ekki verið umferðarleið þegar slysið varð og augljóst var að hann var ekki fullbúinn.
Stefnanda hafi ekki getað dulist að stiginn var ekki fullbúinn þar sem þrep hans voru klædd með pappír og í hann vantaði þrep. Stiginn hafi enda ekki verið ætlaður til notkunar fyrr en við afhendingu fasteignar. Annar fullbúinn stigi var á milli hæða sem stefnanda hafi verið kunnugt um. Þau ákvæði laga sem stefnandi vísar til að hafi verið brotið gegn við frágang stigans séu almenn ákvæði sem veiti ekki leiðbeiningu um sakarmat. Af efni þeirra sé ljóst að þetta séu almennar leiðbeiningarreglur um það hvernig vinnu skuli háttað og hvernig vinnustaðir eigi að vera en það dugi ekki að vísa almennt til þeirra varðandi meinta sök. Hafa verði í huga varðandi frágang mannvirkja, hvers konar starfsemi hafi verið í gangi. Hér hafi verið um að ræða hús í smíðum og eðli málsins samkvæmt séu hlutar þess, þ.m.t. stigar á milli hæða, á einhverju tímabili í smíðum. Hafi stefnandi ekki fært sönnur á eða sýnt fram á með beinum hætti, á hvern hátt brotið var gegn þeim almennu hátternis- og leiðbeiningarreglum í lögum sem stefnandi vitnar til. Í tilvitnuðu greinum reglnanna segi m.a. að stiga skuli útbúa þannig að þá megi nota á öruggan hátt og að öruggar og heppilega staðsettar umferðarleiðir skuli vera til staðar í byggingum og skuli stigar gerðir til umferðar svo fljótt sem verða má. Fyrir liggi að fullbúinn hringstigi var á verkstaðnum sem notaður var til að komast á milli hæða og hafi stefnandi áður notað hann. Sú fullyrðing stefnanda að hún hafi mátt treysta því að þessi tiltekni stigi væri tilbúinn til notkunar sé fráleit. Öllum lagaskilyrðum um fullnægjandi og öruggan aðbúnað á verkstað hafi verið fullnægt enda var fyrir hendi örugg umferðarleið á milli hæða. Ekki hafði reynst unnt að taka stigann sem stefnandi datt úr í notkun þar sem frágangi á gólfi undir stiganum var ekki lokið þegar slysið varð.
Stefndi heldur því jafnframt fram að stefnandi hafi ávallt fengið skýr fyrirmæli um þau verk sem vinna skyldi hverju sinni á hverjum stað fyrir sig Í umrætt sinn hafi stefnandi ekki verið beðinn um að þrífa stigahandriðið heldur aðeins að þrífa flísar í baðherbergjum. Það hafi því alfarið verið ákvörðun stefnanda sjálfs að vinna það verk sem hún hafði með höndum þegar slysið varð. Vísað sé til framburðar vitnisins G, verkstjóra hjá V 53 hf., hvað þetta atriði varðar.
Ekki sé ágreiningur um að stefnandi hafi runnið á pappírnum á einu þrepi stigans og fallið niður. Hins vegar sé því alfarið mótmælt að það hafi átt þátt í fallinu að neðstu þrepin vantaði í stigann. Auk þess sé engin leið að fullyrða um það hvort meiðsli stefnanda hefðu orðið verri eða mildari hefði neðstu þrepin ekki vantað.
Stefndi mótmælir því að V 53 hf. hafi brugðist skyldu sinni að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins. Það hafi verið gert innan sólarhrings frá því að slysið varð og sé tilkynningin dagsett þann 24. febrúar 2009 eða daginn eftir að slysið varð. Engu breyti þótt tilkynningin hafi verið stimpluð viku síðar hjá Vinnueftirlitinu eða þann 3. mars 2009. Leggja beri til grundvallar dagsetningu tilkynningarinnar. Jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að tilkynning hafi ekki borist Vinnueftirlitinu fyrr en 3. mars þá hafi engin sönnunargögn spillst á því tímabili sem leitt geti til þess að sönnunarbyrðinni ætti að snúa við varðandi aðstæður á slysstað. Sú niðurstaða styðjist við langa dómvenju og kenningar fræðimanna.
Verði ekki talið að um óhappatilvik hafi verið að ræða verði að líta svo á að tjón stefnanda verði fyrst og fremst rakið til skorts á aðgæslu hennar sjálfrar. Í því sambandi verði að hafa í huga að stefnandi fékk ekki fyrirmæli um að þrífa stigann heldur átti hún einvörðungu að þrífa flísar á baðherbergjum. Hún hafi á eigin ábyrgð verið á ferð um stigann. Það hafi verið augljóst hverjum sem var að stiginn var ekki fullbúinn, þrep hans klædd pappír og neðstu þrep stigans vantaði. Fall stefnanda megi því rekja til aðgæsluleysis hennar sjálfrar. Því sé hafnað að tilvitnaður dómur EFTA-dómstólsins, í máli nr. E-2/10 eigi við í þessu máli enda hafi vinnuveitandi stefnanda farið í einu og öllu að gildandi reglum um öryggi og heilsu á vinnustað. Umræddur dómur EFTA-dómstólsins sé fyrst og fremst staðfesting á því að íslensk lög hafi verið þess efnis á tilteknum tíma að unnt væri að láta starfsmann bera ábyrgð á öllu eða meginhluta tjóns vegna vinnuslyss á grundvelli reglna um eigin sök. Sé sú niðurstaða ekki í samræmi við tilskipun nr. 89/391, þannig að meint réttindi hennar hafi ekki verið tryggð að lögum, beri íslenska ríkið ábyrgð á því gagnvart stefnanda.
Með framangreindum rökstuðningi er á því byggt af hálfu stefnda að jafnvel þó að bótaskylda teldist vera fyrir hendi, þá falli hún niður vegna eigin sakar stefnanda samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að bótaskylda sé fyrir hendi úr frjálsri ábyrgðartryggingu V 53 hf. hjá stefnda byggir stefndi á því að leggja beri matsgerð dómkvaddra matsmanna til grundvallar í málinu. Matsgerð sem aflað er einhliða af hálfu stefnanda hafi lítið sem ekkert sönnunargildi auk þess sem í ljós sé leitt að fyrri matsgerðin byggi á röngum heilsufarsupplýsingum. Í matsskýrslunni sé haft eftir stefnanda að fyrir slysið hafi hún ekki haft vöðvabólgueinkenni og aldrei verið til sjúkraþjálfunarmeðferðar fyrir slys, ekki lent í öðrum slysum og almennt verið heilsuhraust. Þetta komi ekki heim og saman við sjúkraskrá stefnanda þar sem fram komi að hún hafi fyrri sögu um einkenni frá hálsi. Á tímabilinu 13. nóvember 2001 til 20. janúar 2004 hafi hún leitað sjö sinnum til læknis vegna verkja í hálsi og verið greind með vöðvabólgu og vöðvagigt. Stefnanda hafi bæði verið vísað í sjúkraþjálfun og ávísað verkjalyfjum. Þessi ranga upplýsingagjöf stefnanda hafi leitt til þess að metið tjón hennar samkvæmt matsgerðinni sé meira en efni standa til. Á hinn bóginn séu engir gallar á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna og sú gangrýni á matsgerðina sem kom fram hjá stefnanda við aðalmeðferð málsins sé of seint fram komin. Til að hnekkja matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi stefnandi átt þess kost að afla yfirmats sem ekki hafi verið gert. Því beri að leggja matsgerðina til grundvallar í málinu, ef bótaskylda er á annað borð viðurkennd.
Varakrafa um lækkun fjárkröfu stefnanda er byggð á öllum sömu sjónarmiðum og málsástæðum og aðalkrafa um sýknu. Lækkunarkrafan er enn fremur studd þeim rökum að, til viðbótar þeim frádráttarliðum sem taldir eru upp í kröfu stefnanda, beri að draga frá bótafjárhæð eingreiðsluverðmæti (núvirði) bóta sem stefnandi nýtur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrisgreiðslur frá Festu lífeyrissjóði, miðað við að stefnandi njóti slíkra bóta til 67 ára aldurs.
Krafa stefnanda um viðurkenningu bótaskyldu úr slysatryggingu launþega hljóði þannig að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til að greiða stefnanda vátryggingabætur fyrir 20% varanlega læknisfræðilega örorku vegna þess slyss er mál þetta varðar. Þegar af þeirri ástæðu að ekki er tekið tillit til innborgana stefnda, sem óumdeildar eru í málinu sé ekki unnt að taka viðurkenningarkröfu stefnanda til greina. Að sama skapi sé ósannað að orsakatengsl séu á milli slyssins og einkenna stefnanda frá mjóbaki, enda hafi stefnandi ekki kvartað undan verkjum í mjóbaki við komu á Heilbrigðisstofnun […] strax í kjölfar slyssins og ekki heldur við endurkomu á Heilbrigðisstofnunina þremur dögum síðar, þann 26. febrúar 2009, eða við komu til læknis þann 11. mars 2009. Að auki telji stefndi að í mati á læknisfræðilegri örorku hafi ekki verið tekið tillit til áverka á ökkla matsþola fyrir slys. Stefnandi hefur ökklabrotnað áður, en á röntgenmyndum sem teknar voru 26. mars 2009 hafi komið í ljós gamalt brot á ökkla. Þá sé stefnandi jafnframt með stóran hælspora.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrri tíma en dómsuppsögu. Fyrr hafi ekki verið komnar fram þær upplýsingar sem þörf er á til að meta fjárhæð bóta, sbr. 2. málsgrein 9. greinar laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Óháð niðurstöðu máls þessa mótmælir stefndi kröfu stefnanda um greiðslu málskostnaðar, sbr. 3. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991, og vísar sérstaklega til rangrar upplýsingagjafar stefnanda sem leiddi til þess að metið tjón hennar samkvæmt matsgerð, sem lá fyrir við upphaf máls, sé meira en efni standi til. Þá krefst stefndi þess að við ákvörðun málskostnaðar sé höfð hliðsjón af því að málið er gjafsóknarmál. Krafa stefnda um málskostnað er reist á 129. gr., 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991.
Með framangreindum rökstuðningi telur stefndi að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda. Um lagarök vísar stefndi einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, almennra reglna vátryggingaréttar og skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og meginreglna um sönnunarbyrði og orsakasamband. Þá vísar stefndi til 2. mgr. 47. gr., sbr. 4. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Einnig er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað er vísað til 129., 130. gr. og 131 gr. laga um meðferð einkamála.
Forsendur og niðurstaða
Ekki er ágreiningur um að stefnandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína þann 23. febrúar 2009. Stefndi hefur viðurkennt bótarétt stefnanda úr slysatryggingu launþega vegna þessa og greitt stefnanda bætur á grundvelli niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Töldu þeir miskastig stefnanda sem afleiðingu slyssins vera 15 stig en stefnandi heldur því fram að miða eigi við 20 stiga miska.
Meginágreiningur aðila snýst hins vegar um það hvort stefnandi geti sótt bætur til stefnda á grundvelli ábyrgðartryggingar vinnuveitanda hennar, sem óumdeilt er að hann hafði keypt hjá stefnda. Eitt meginskilyrði þess að svo megi vera, og deilt er um í málinu, er hvort slysið megi rekja til saknæmrar háttsemi V 53 hf. eða manna sem það fyrirtæki beri ábyrgð á. Stefnandi heldur því fram að frágangur stigans sem hún féll í hafi verið óforsvaranlegur og ekki í samræmi við kröfur sem lög nr. 46/1980 og reglur settar á grundvelli þeirra gera. Á því beri V 53 hf. ábyrgð. Stefndi heldur því hins vegar fram að frágangi stigans hafi í engu verið áfátt miðað við byggingarstig hans og reglur um frágang fullbúinna stiga milli hæða geti eðli málsins samkvæmt ekki átt við um stiga í smíðum. Þá heldur stefndi því fram að stefnandi hafi ekki átt erindi um stigann, hún hafi ekki fengið fyrirmæli um að þrífa hann og henni hafi borið að nota annan og fullbúinn stiga til að komast á milli hæða. Sé um sök að ræða hjá V 53 hf. eigi að lækka eða fella niður bætur vegna eigin sakar stefnanda.
Í skýrslu sinni fyrir dómi rakti stefnandi atburðarásina á slysdegi í samræmi við það sem rakið er í atvikalýsingu. Hún bar að verkstjóri hefði ekið henni á starfsstöðina, hjálpað henni að bera ræstingarvörur upp á efri hæð hússins og gefið henni fyrirmæli um að þrífa allt húsið eftir því sem hægt væri en vinna hefði verið á lokastigi í húsinu þegar þarna var komið. Fyrir dómi voru stefnanda sýndar myndir af stiganum og staðfesti hún að frágangur hans hefði verið eins og myndirnar sýna fyrir utan það að hún taldi pappír á stigaþrepum ekki hafa verið festan niður með þeim hætti sem hann er á myndunum. Framburður hennar er þó óljós um það hvernig frágangi hans var nákvæmlega háttað.
G, verkstjóri hjá V 53 hf. gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa farið með stefnanda á starfsstöð hennar umræddan dag. Frásögn hans kemur heim og saman við frásögn stefnanda að öðru leyti en því sem lýtur að fyrirmælum um verkefni sem henni voru falin. Hann segist einvörðungu hafa falið stefnanda að þrífa flísar á tveimur baðherbergjum, öðru á efri hæðinni og hinu á þeirri neðri. Hann sagðist líka vera viss um að þegar slysið varð hafi frágangur á pappír á stigaþrepum verið eins og framlagðar myndir sýna, þ.e. pappír hafi verið vafið utan um hvert þrep fyrir sig og límdur þannig niður. Myndirnar sýndu frágang stigans eins og hann var á slysdegi.
Því er haldið fram af hálfu stefnanda að sönnunarbyrði um aðstæður á slysstað eigi að leggja á stefnda þar sem tilkynning til Vinnueftirlitsins hafi ekki borist svo fljótt sem krafist er í 79. gr. laga nr. 46/1980, með síðari breytingum. Tilkynningin frá V 53 hf. er dagsett 24. september 2009. Engin gögn liggja fyrir sem benda til þess að hún hafi ekki verið send þann dag ef frá er talinn tölvupóstur frá Vinnueftirlitinu þar sem segir að tilkynningin hafi verið stimpluð af þeim viku síðar, þ.e. 3. september s.á. Af þeim tölvupósti verður ekki ráðið neitt frekar um móttöku stofnunarinnar á tilkynningunni. Verður af þessum sökum að leggja til grundvallar að tilkynningin hafi verið send á þeim degi sem stefndi heldur fram í samræmi við skyldur hans samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980. Þá verður heldur ekki séð að rannsókn Vinnueftirlitsins á slysstað eftir slysið hefði leitt nokkuð frekar í ljós um þau atvik sem aðila greinir á um. Er því ekki fallist á það með stefnanda að það hafi áhrif á sönnunarmat í málinu hvernig staðið var að tilkynningu til Vinnueftirlitsins.
Í máli þessu verður að leggja til grundvallar, miðað við lýsingu í gögnum málsins um frágang stigans, sem aðilar eru að meginstefnu sammála um, að stiginn hafi ekki verið þannig frágenginn að óhætt væri að ganga um hann. Það eitt og sér að í hann vantaði fjögur neðstu þrepin, leiðir til þess að hann var hættulegur og ónothæfur til umferðar.
Meðal þeirra skyldna sem hvílir á atvinnurekanda samkvæmt ákvæði 13. gr. laga nr. 46/1980, er að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað og í reglum nr. 547/1996 eru sérákvæði um slíkar ráðstafanir á byggingarvinnustöðum. Þau ákvæði reglnanna sem einkum koma til skoðunar hér eru ákvæði 13. liðar í viðauka IV við reglurnar, sem kveða á um lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd. Þar segir í grein 13.1 að umferðarleiðir, þar með talda innbyggða eða fasta stiga, skuli staðsetja og útbúa þannig að starfsmönnum sem eru við vinnu í grennd við þá stafi ekki hætta af. Jafnframt segir í grein 13.4 að hættusvæði á vinnustöðum skuli þannig frágengið að komið sé í veg fyrir aðgang óviðkomandi starfsmanna um þau. Ákvæði þessi eru lágmarksákvæði og geta eðli málsins samkvæmt ekki verið tæmandi fyrir þær öryggisráðstafanir sem vinnuveitanda er skylt að grípa til. Eins og hér háttar til hefði það hvorki verið umfangsmikið né flókið að loka stigaopinu ofan frá, t.d. með bráðabirgðahliði eða öðrum hætti og vekja athygli á hættunni með einhvers konar merkingu. Það er einnig í samræmi við eigin öryggisreglur V 53 hf. varðandi fallvarnir við ófrágengin op á byggingarstað þar sem m.a. segir um fallvarnir að girða skuli fyrir gólfop sem eru breiðari en stærð fóta, merkja beri slíkar varnir greinilega og bannað sé að færa þær til. Þá segir einnig í sama kafla að loka skuli fyrir aðgengi að handriðalausum svæðum. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að frágangur stigans hafi verið ófullnægjandi og að vinnuveitandi stefnanda hafi borið að koma í veg fyrir að hann væri notaður á meðan þannig stóð á eða að minnsta kosti vara við hættunni af notkun hans.
Því er mótmælt af hálfu stefnda að það hafi átt þátt í fallinu að neðstu þrepin vantaði í stigann auk þess sem engin leið sé að fullyrða um það hvort meiðsli stefnanda hefðu orðið verri eða mildari hefði neðstu þrepin ekki vantað. Í þessari málsástæðu stefnda felst að mótmælt er orsakatengslum milli óforsvaranlegs frágangs stigans og tjóns stefnanda. Svo sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að frágangur stigans hafi verið óforsvaranlegur og sú skylda hafi hvílt á vinnuveitanda stefnanda að sjá til þess að stiginn væri ekki notaður á meðan þannig var frá honum gengið. Því verður á því byggt í málinu að orsök slyssins megi rekja til frágangs hans, enda ekkert í málinu sem bendir til þess að orsakirnar megi rekja til annarra þátta.
Þá heldur stefndi því fram að eigin sök stefnanda eigi að leiða til þess að bótaréttur hennar lækki eða fallið niður. Stefndi heldur því fram að ekki hafi verið búið að taka stigann í notkun þegar slysið varð og af málflutningi hans verður helst ráðið að gáleysi stefnanda hafi falist í því að átta sig ekki á því að svo væri. Þá er deilt um það hvort stefnandi hafi fengið fyrirmæli um að þrífa stigann eða tekið það upp hjá sjálfri sér að gera það. Hvað fyrirmæli til stefnanda varðar þá hefur stefnandi ekki fært sönnur á að hún hafi fengið fyrirmæli um að þrífa stigann. Standa þar orð hennar gegn orðum verkstjóra hennar. Hvað sem því líður verður að ætla að hún hafi talið sig eiga að vinna það verk og háttsemi hennar hafi ekki verið svo fjarlæg starfsskyldum hennar að öðru leyti að það verði metin henni til eigin sakar að hafa gert það. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að aðferð hennar við að ganga niður stigann eða þrífa hann hafi verið óvanaleg eða gáleysisleg. Með framangreindum rökum er því hafnað að eigin sök stefnanda eigi þátt í slysinu.
Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að V 53 hf. beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda og skilyrði bótaréttar úr ábyrgðartryggingu stefnda því fyrir hendi hvað þetta atriði varðar. Þá er því hafnað að röng eða ófullnægjandi upplýsingagjöf stefnanda á matsfundi hjá þeim C og D eigi að leiða til þess að bótaréttur hennar falli niður á grundvelli 2. mgr. 47. gr. sbr. 4. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004. Í ljós hafi komið, eftir að matsins var aflað, að stefnandi hafi ekki greint rétt frá þegar haft er eftir henni að hún hafi ekki leitað til læknis vegna verkja í baki og hálsi fyrir slysið. Hið rétta sé, sem komi fram í sjúkragögnum, að stefnandi hafi á árnunum 2001 til 2004, leitað ítrekað til læknis vegna verkja í hálsi og baki. Hún hafi verið greind með vöðvabólgu og vöðvagigt og fengið meðferð við því, m.a. verið vísað til sjúkraþjálfara. C gat fyrir dómi ekki fullyrt hvort umrædd ummæli sem höfð voru eftir stefnanda hefðu verið beint eftir henni höfð og gat ekki útilokað að tungumálaörðugleikar hafi leitt til þess að hún hafi misskilið spurningar hans. Þá ber einnig að líta til þess að þær upplýsingar sem um ræðir varða læknismeðferð fyrir mörgum árum og matsmaður gat ekki dæmt um það hvort þær hefðu haft afgerandi áhrif á niðurstöðu matsins. Þá bendir síðari matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna ekki til þess að þessir þættir í sjúkrasögu stefnanda hafi haft teljandi áhrif á mat á afleiðingum slyssins þótt þeir séu ekki þýðingarlausir.
Varðandi fjárhæð bóta er bæði deilt um miska- og örorkustig og frádráttarliði. Stefnandi leggur til grundvallar kröfu sinni um bætur niðurstöðu matsgerðar sem aflað var áður en mál þetta var höfðað að beiðni lögmanns stefnanda. Stefndi taldi niðurstöður matsgerðarinnar rangar og byggðar á ófullnægjandi upplýsingum Óskaði stefndi því eftir dómkvaðningu matsmanna sem skiluðu matsskýrslu 31. janúar 2011. Stefnandi miðar kröfugerð sína eftir sem áður við fyrri matsgerðina sem er frá 18. maí 2010. Rökstyður stefnandi þá kröfu sína á þann veg að það mat sé ítarlegra og betur rökstutt en síðari matsgerðinni, bæði varðandi mat á miska og örorku. Vísar stefnandi einkum til þess að í fyrri matsgerðinni séu miskastig sundurliðuð vegna einstakra áverka og örorkumatið taki mið af þeim sérstöku aðstæðum stefnanda sem felist í því að hún sé af erlendum uppruna og hafi ekki náð fullum tökum á íslensku. Þá telur stefnandi að síðari matsgerðin leggi of mikla áherslu á tengsl fyrri sjúkrasögu stefnanda og vinnufærni hennar í framtíðinni. Stefndi mótmælir því að fyrri matsgerðin geti haft sönnunargildi í málinu. Hún sé unnin að beiðni stefnanda án aðkomu stefnda. Matsmenn hafi ekki haft undir höndum réttar upplýsingar um sjúkrasögu stefnanda við gerð matsins og því sé það byggt á ófullnægjandi gögnum. Í ljósi þessa sé sönnunargildi matsgerðarinnar lítið sem ekkert og því beri að líta fram hjá niðurstöðum hennar og byggja á niðurstöðum dómkvaddra matsmanna.
Þótt sönnunarmat dómara sé frjálst hefur matsgerð dómkvaddra matsmanna alla jafna ríkt sönnunargildi í málum af þessu tagi. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn sem benda til þess að matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Dómurinn fellst ekki á að rökstuðningi matsgerðarinnar sé ábótavant. Þvert á móti er ítarlega og skýrlega gerð grein fyrir forsendum niðurstöðunnar og byggt á öllum fyrirliggjandi gögnum um heilsufar stefnanda. Dragi aðili máls í efa niðurstöður matsgerðar dómkvaddra matsmanna á hann þess kost að óska yfirmats, sbr. 64. gr. laga nr. 91/1991. Það hafa aðilar ekki gert. Því eru engin rök til að víkja frá niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna og verður hún því lögð til grundvallar í málinu. Samkvæmt þessari niðurstöðu er tjón stefnanda, sem rakið verður til slyssins, metið til 15 miskastiga, varanleg örorka telst vera 25% og stöðugleikapunkti hafi verið náð 24. september 2009. Niðurstaða dómsins um fjárkröfu stefnanda tekur mið af þessu.
Samhliða fjárkröfu gerir stefnandi kröfu um að viðurkennd verði með dómi skylda stefnda til að greiða stefnanda vátryggingarbætur úr slysatryggingu launþega fyrir 20% varanlega læknisfræðilega örorku.
Í grein 8.7.5 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins greiðast bætur úr slysatryggingu launþega vegna varanlegrar örorku í hlutfalli við læknisfræðilegar afleiðingar slyss. Bætur samkvæmt tryggingunni miðast þannig við miskabótastig en ekki hlutfall varanlegrar örorku. Samkvæmt niðurstöðu dómsins er tjón stefnanda metið til 15 miskastiga. Þegar af þeirri ástæðu er kröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti til hærri bóta úr slysatryggingu launþega hafnað.
Í endanlegri kröfugerð stefnanda hefur verið tekið tillit til greiðslna stefnda úr slysatryggingu launþega og eingreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands. Ekki er því ágreiningur um þá frádráttarliði. Stefndi gerir að auki kröfu um að til frádráttar komi eingreiðsluverðmæti (núvirði) greiðslna sem stefnandi fær frá almannatryggingum til 67 ára aldurs og að verðmæti greiðslna frá lífeyrissjóði verði miðaðar við sama tímamark.
Varðandi frádrátt vegna bóta frá almannatryggingum liggur fyrir að stefnandi fær mánaðarlega greiddar örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt greiðsluáætlun fyrir árið 2011 námu þessar bætur samtals 1.754.496 kr. á því ári og verða 1.792.357 kr. á yfirstandi ári. Stefndi hefur lagt fram útreikninga H tryggingastærðfræðings á núvirði framtíðargreiðslna örorkubóta miðað við mismunandi forsendur, m.a. þá að stefnandi haldi óbreyttum bótarétti til 67 ára aldurs. Nemur verðmæti 2/3 af núvirði greiðslna miðað við þær forsendur 11.563.000 kr. Verði krafa um frádrátt á kröfu stefnanda sem þessu nemur tekin til greina er ljóst að tjón stefnanda er þegar að fullu bætt. Jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir greiðslum almannatrygginga til lengri tíma en til ársins 2014, en ákvörðun Tryggingastofnunar sætir endurskoðun á því ári, næmi frádráttar vegna þessara greiðslna hærri fjárhæð en stefndi hefur þegar greitt. Ágreiningur aðila, hvað þennan frádráttarlið varðar, snýst um það hvort miða skuli við frádráttarreglur eins og þær voru í lögum á slysdegi eða á þeim tíma þegar stöðugleikapunkti var náð.
Með lögum nr. 53/2009 var ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 breytt á þann veg að í stað þess að draga frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum segir nú að draga skuli frá bótum eingreiddar örorkubætur almannatrygginga, sbr. 5. mgr. 34. gr. laga nr. 100/2007. Lögin tóku gildi 1. maí 2009 skv. 3. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005. Við mat á því hvort tjónþoli eigi rétt á miska- og örorkubótum er miðað við ástand hans þegar heilsufar hans er orðið stöðugt, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fyrir það tímamark er því ekki unnt að meta fjárhæð skaðabóta vegna varanlegs miska og örorku. Svo sem fram er komið ber að miða við að heilsufar stefnanda hafi orðið stöðugt 24. september 2009. Fyrir það tímamark var því ekki hægt að krefja um eða ákvarða bætur til hennar. Fer því um fjárhæð bóta, þ.m.t. um heimildir til frádráttar, eftir löggjöf á þeim tíma, enda geymi lögin ekki ákvæði um að fara skuli eftir eldri lögum. Með þessum röksemdum er því hafnað að draga skuli frá bótum stefnanda núvirt verðmæti áætlaðra bóta frá almannatryggingum.
Hvað varðar frádrátt vegna eingreiðsluverðmætis greiðslna úr lífeyrissjóði þá mótmælir stefnandi því að við mat á verðmæti þeirra verði horft til lengri tíma en fram til febrúar 2013, en þá verða bætur til stefnanda endurmetnar. Í endanlegri kröfugerð stefnanda er gert ráð fyrir frádrætti sem nemur verðmæti þessara greiðslna miðað við það tímamark og stöðugleikapunkti þann 1. október 2009.
Núverandi réttindi stefnanda til greiðslna frá lífeyrissjóði byggja á mati trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins frá 28. júní 2011 þar sem lagt er til grundvallar að örorka stefnanda gagnvart fyrri störfum sé 50%. Lífeyrir greiðist ekki nema örorka sé metin 50% eða meiri. Í grein 12.4 í samþykktum lífeyrissjóðsins segir að fyrstu þrjú árin eftir orkutap skuli örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skuli orkutap metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu. Orkutap skuli síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telji ástæðu til. Ljóst er að þegar það mat fer fram, þ.e. í febrúar 2013, verða önnur gögn tiltæk um mat á örorku stefnanda en lágu fyrir í upphafi, m.a. nýtt mat dómkvaddra matsmanna í þessu máli, sem telja varanlegan miska og varanlega örorku lægri en það mat sem fyrir lá þegar upphafleg ákvörðun sjóðsins var tekin. Þá kemur fram í niðurstöðu örorkumats dómkvaddra matsmanna að örorka stefnanda sé heldur meiri gagnvart störfum af því tagi sem hún sinnti áður en gagnvart öðrum störfum sem telja má líklegt að standi stefnanda til boða þótt meginskerðingin sé vegna skerðingar á starfsúthaldi hennar og álagsgetu til allra starfa. Í ljósi þessa leikur verulegur vafi á því að stefnandi muni njóta lífeyrisréttar frá lífeyrissjóði sínum lengur en fram í febrúar 2013. Því er ekki fallist á það með stefnda að við núvirðingu lífeyris úr lífeyrissjóði skuli leggja til grundvallar mat á verðmæti greiðslna miðað við óbreyttar bætur til 67 ára aldurs. Hins vegar dragast frá skaðabótum stefnanda lífeyrir úr lífeyrissjóði miðað við 40% af eingreiðsluvirði hans fyrir tímabilið sem lýkur í febrúar 2013 í samræmi við ákvæði 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/2003. Samkvæmt útreikningi H tryggingastærðfræðings eru verðmæti þeirra greiðslna 232.000 kr. og koma þær til frádráttar höfuðstól dæmdra örorkubóta.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrri tíma en dómsuppsögu og telur að fyrr hafi ekki verið komnar fram þær upplýsingar sem þörf er á til að meta fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Á það er ekki fallist. Fyrir liggur að krafa stefnanda um greiðslu bóta er lögð fram löngu fyrir upphaf málshöfðunar þessarar og allar upplýsingar af hálfu stefnanda lágu fyrir meira en mánuði áður en mál þetta var höfðað. Breytir engu í þessu sambandi þótt aðilar hafi deilt um forsendur niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerðar. Eru því engin sérstök atvik fyrir hendi sem leitt geti til þess að beitt verði heimild í síðari málslið 9. gr. vaxtalaga til að ákvarða upphafsdag dráttarvaxta frá síðara tímamarki. Verður upphafsdagur dráttarvaxta því miðaður við þingfestingardag í samræmi við kröfugerð stefnanda.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er niðurstaða málsins sú að viðurkennd er krafa stefnanda um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda á grundvelli ábyrgðartryggingar V 53 hf. Um fjárhæð bóta skal miða við að miskastig séu 15 og varanleg örorka 25% og að stöðugleikapunkti hafi verið náð 24. september 2009. Höfuðstóll bótafjárhæðar verður því 6.289.937 kr., þ.e. 336.540 kr. í þjáningabætur fyrir tímabilið frá slysadegi til 24. september 2009, 1.322.775 kr. vegna varanlegs miska og 4.862.662 kr. vegna varanlegrar örorku, að frádregnu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti greiðslna frá Festu lífeyrissjóði að fjárhæð 232.000 kr. Frá höfuðstól dragast innborganir stefnda og greiðsla frá Sjúkratryggingum Íslands svo sem greinir í kröfugerð. Krafa stefnanda ber vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.659.315 kr. frá 23. febrúar til 24. september 2009 og af 6.289.937 kr. frá þeim degi til 16. júní 2011 en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Með vísan til þess sem áður er sagt varðandi upplýsingagjöf stefnanda á matsfundi vegna fyrri matsgerðar í málinu er ekki tilefni til að taka til greina kröfu stefnda um að það atriði eigi að hafa áhrif á niðurstöðu um málskostnað. Þá eru ekki lagaskilyrði til að taka til greina kröfu hans um að við ákvörðun málskostnaðar verði höfð hliðsjón af því að málið er gjafsóknarmál, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af úrslitum málsins skal stefndi greiða stefnanda málskostnað með vísan til 1. mgr. 130. gr. sömu laga. Málskostnaður telst hæfilega ákveðinn 897.000. kr., þ.m.t. virðisaukaskattur, sem rennur í ríkissjóð. Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu vegna rekstur þess fyrir héraðsdómi. Gjafsóknarkostnaður hennar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun til lögmanns hennar, Kristjáns B. Thorlacius hrl., sem telst hæfilega ákveðinn 659.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, settur héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands greiði stefnanda, A, 6.289.937 kr. með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.659.315 kr. frá 23. febrúar til 24. september 2009 og af 6.289.937 kr. frá þeim degi til 16. júní 2011 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum og bótagreiðslu að fjárhæð 500.000 kr. 8. júlí 2010, 595.866 kr. 16. mars 2011 og 1.842.325 kr. 27. febrúar 2012.
Kröfu stefnanda um að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða vátryggingabætur fyrir 20% varanlega læknisfræðilega örorku úr slysatryggingu launþega er hafnað.
Stefndi greiði stefnanda 897.000 kr. í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns stefnanda, Kristjáns B. Thorlacius, 659.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.