Hæstiréttur íslands

Mál nr. 656/2016

Ljósaborg ehf. (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)
gegn
Berglindi Sigurðardóttur (Árni Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Ráðningarsamningur
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað

Reifun

B höfðaði mál gegn L ehf. til heimtu vangoldinna launa en hún hafði starfað hjá félaginu við mjaltir. Deildu aðilar um hvort samið hefði verið um rofinn vinnutíma. Fyrir lá að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila í samræmi við ákvæði kjarasamnings um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum sem gilti um starfskjör B. Í kjarasamningnum var kveðið á um að í ráðningarsamningi skyldi koma fram ef sérstaklega væri samið um vinnutíma, meðal annars rofinn vinnutíma. Talið var að sönnunarbyrði um það hvort samið hefði verið um rofinn vinnutíma hvíldi á L ehf. og hefði sú sönnun ekki tekist. Var því fallist á kröfu B.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. september 2016. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefndu, en að því frágengnu að krafa stefndu verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu að til frádráttar tildæmdri kröfu hennar komi innborgun áfrýjanda 11. desember 2014 að fjárhæð 37.045 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila í samræmi við 1. mgr. 12. gr. kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum, er gilti frá 1. júní 2011 til 31. janúar 2014. Samsvarandi ákvæði er í 1. mgr. 11. gr. kjarasamnings sömu aðila er gilti frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015. Hvílir því sönnunarbyrði um inntak ráðningarsambands aðila á áfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi var tekin rökstudd afstaða til þeirrar málsástæðu aðila hvort samið hafi verið sérstaklega um rofinn vinnutíma líkt og heimilt var samkvæmt 7. mgr. 2. gr. fyrstnefnds kjarasamnings og samsvarandi ákvæði í 2. mgr. 11. gr. síðarnefnds kjarasamnings. Héraðsdómur taldi ósannað að svo hafi um samist milli aðila og er fallist á þá niðurstöðu. Í rökstuðningi dómsins fyrir þeirri niðurstöðu fólst afstaða til þess álitaefnis hvort stefnda ætti rétt til greiðslu yfirvinnu frá og með apríl 2014 og þar til ráðningarsambandi aðila lauk. Samkvæmt framangreindu verður kröfu áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms hafnað.

Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ljósaborg ehf., greiði stefndu, Berglindi Sigurðardóttur, 1.684.913 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 134.362 krónum frá 30. september 2013 til 31. október 2013, af 201.839 krónum frá þeim degi til 30. nóvember 2013, af 399.129 krónum frá þeim degi til 5. desember 2013, af 398.272 krónum frá þeim degi til 31. desember 2013, af 437.050 krónum frá þeim degi til 31. janúar 2014, af 602.675 krónum frá þeim degi til 28. febrúar 2014, af 840.031 krónu frá þeim degi til 31. mars 2014, af 966.123 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2014, af 1.398.620 krónum frá þeim degi til 31. maí 2014, af 1.510.612 krónum frá þeim degi til 2. júní 2014, af 1.501.575 krónum frá þeim degi til 30. júní 2014, af 1.657.206 krónum frá þeim degi til 31. júlí 2014 og af 1.684.913 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 11. desember 2014 að fjárhæð 37.045 krónur.

Áfrýjandi greiði stefndu 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                             

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. júní 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 18. maí sl., er höfðað af Berglindi Sigurðardóttur, kt. [...], til heimilis að Þórunnarstræti 129, Akureyri,  með stefnu birtri við þingfestingu þann 3. júní 2015, gegn Ljósuborg ehf., kt. 681103-2870, Austurvegi 42 Selfossi.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.684.913 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 134.362 frá 30.09.2013 til 31.10.2013, af kr. 201.839 frá 31.10.2013 til 30.11.2013, af kr. 399.129 frá 30.11.2013 til 05.12.2013, af kr. 398.272 frá 05.12.2013 til 31.12.2013, af kr. 437.050 frá 31.12.2013 til 31.01.2014, af kr. 602.675 frá 31.01.0214 til 28.02.2014, af kr. 840.031 frá 28.02.2014 til 31.03.2014, af kr. 966.123 frá 31.03.2014 til 30.04.2014, af kr. 1.398.620 frá 30.04.2014 til 31.05.2014, af kr. 1.510.612 frá 31.05.2014 til 02.06.2014, af kr. 1.501.575 frá 02.06.2014 til 30.06.2014, af kr. 1.657.206 frá 30.06.2014 til 31.07.2014, af kr. 1.684.913 frá 31.07.2014 til greiðsludags.

Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins, eða samkvæmt málskostnaðarreikningi. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. 

            Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Án tillits til úrslita málsins krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Málsatvik

                Samkvæmt stefnu, greinargerð og gögnum málsins eru helstu málavextir þessir. Stefnandi var starfsmaður á kúabúi stefnda að Grund í Eyjafirði á tímabilinu frá 1. september 2013 þar til samkomulag varð um starfslok hennar þann 11. júlí 2015. Sinnti stefnandi aðallega mjöltum á búinu, þ.e. morgun- og kvöldmjöltum  Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur. Stefnandi sá sjálf um að skrá unna tíma í dagbók búsins. Af þeirri skráningu má ráða að morgunmjaltir hafi yfirleitt farið fram á tímabilinu frá klukkan 06:00 til 9.30-10:30, en kvöldmjaltir á tímabilinu frá klukkan 15:30 til 19:30. Þá mun stefnandi sjálf hafa borið ábyrgð á að koma upplýsingum um vinnustundir sínar til stefnda í lok hvers mánaðar. Mun stefnandi hafa tilkynnt stefnda um fjölda vinnutíma með smáskilaboðum í gegnum síma í lok hvers mánaðar. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að þannig háttur hafi verið hafður á frá septemberlokum þar til við útborgun launa fyrir aprílmánuð 2014 þann 2. maí sama ár. Samkvæmt síðastnefnda launaseðli var tiltekinn fjöldi yfirvinnutíma dreginn frá launum stefnanda, samtals 75,60 tímar vegna aprílmánaðar og 5,50 tímar vegna maímánaðar 2014. Í stefnu segir að í kjölfarið hafi stefnandi leitað réttar síns og komist að því að útreikningur launa hennar hafi ekki verið samkvæmt kjarasamningi þar sem hún hafi eingöngu fengið greidda þá tíma sem hún var í vinnu, þ.e. morgun- og kvöldmjaltir, þó svo komið hafi fyrir að vinnudagurinn hafi verið samfelldur, þ.e. milli mjalta. 

Með bréfi Pacta lögmanna, dags. 21. maí 2014, fyrir hönd stefnanda var stefndi krafinn um vangoldin laun. Er í bréfinu vísað til þess að ekki hafi verið samið sérstaklega um rofinn vinnutíma og hafi stefnandi ekki fengið greidd laun í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Stefndi hafnaði kröfu stefnanda með tölvupósti 4. júní 2014.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi vísar um kröfu sína til þess að ekki hafi verið samið um rofinn vinnutíma og því beri stefnanda laun til samræmis við venjulegan samfelldan vinnutíma samkvæmt kjarasamningi. Þannig mótist kröfugerð stefnanda af því að við hverja útborgun launa hafi myndast inneign vegna vangreiðslu á launum samkvæmt kjarasamningi og þeirra launa sem greidd hafi verið út, enda hafi stefnanda aðeins verið greiddir þeir tímar sem skráðir voru í dagbók.

Vegna vangoldinna launa og þar sem ekki hafi verið samið um annað, gerir stefnandi kröfu um laun samkvæmt lágmarkskjörum gildandi kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands frá 2011 og 2014. Því skuli greiða stefnanda yfirvinnu þegar virkum vinnutíma í dagvinnu pr. viku sleppir. Vísar stefnandi í því sambandi til 2. gr. áðurnefndra kjarasamninga en þar komi fram fjöldi vikulegra vinnustunda í dagvinnu og hvernig vinnutíma skuli hagað. Einnig komi þar fram að samningsbundin yfirvinna hefjist þegar umsaminni dagvinnu, 7 klst og 25 mínútum, ljúki. Þá skuli yfirvinnukaup greiðast á laugardögum, sunnudögum og öðrum samningsbundnum frídögum. 

Varðandi rofinn vinnutíma vísar stefnandi til þess að í 2. gr. beggja framangreindra kjarasamninga sé ákvæði sem heimili að þannig sé samið í sérstökum tilvikum. Ákvæðin verði að skýra þannig að með þeim sé gefin heimild til að semja um annan vinnutíma en hefðbundinn og sé það gert, sé skylt að tilgreina það sérstaklega í ráðningarsamningi. Sambærilegt ákvæði sé ekki í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands frá 2011 og 2014. Framangreind regla 2. gr. kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands sé því undantekningarregla sem beri að skýra þröngt. Stefnandi hafnar því að þrátt fyrir að stefnanda hafi verið kynnt við upphaf starfs hennar hvernig vinnutíma væri háttað, verði ekki talið að hægt sé að túlka það á þann hátt að með því hafi aðilar samið um vinnutímann. Engin viðurkenning felist í því af hálfu stefnanda hvernig tímaskriftum hafi verið háttað, enda hafi þessi vinnutími verið einhliða ákveðinn af vinnuveitanda þar sem það hafi hentað þeim störfum sem sinna þurfti. Stefnandi hafi ekki átt frumkvæðið að þessum vinnutíma, heldur hafi hún einungis samþykkt tilhögunina í verki. Jafnvel þótt talið verði að stefnandi hafi samþykkt þessa vinnutilhögun sé ljóst að stefnandi hafi ekki samþykkt að fá laun undir þeim kjörum sem samið hefur verið um sem lágmarkskjör, enda sé slíkur samningur ógildur, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980. Þar sem skriflegur ráðningarsamningur milli aðila hafi ekki verið gerður, eins og skylt sé að gera samkvæmt kjarasamningi,  beri að túlka allan vafa í þessu efni stefnanda í hag. 

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt framlögðum launaseðlum hvers mánaðar og nákvæmri tímaskráningu stefnanda í lok dags megi sjá með einföldum samanburði þeirra kjara sem stefnandi hlaut annars vegar samkvæmt launaseðlum og kjara samkvæmt kjarasamningum hins vegar, að þær launagreiðslur sem stefnandi fékk frá stefnda hafi ekki verið í samræmi við lágmarkskjör. Vísar stefnandi í þessu sambandi til neðangreindrar töflu í stefnu. Þar sem fram komi að niðurstaða samanburðar launa samkvæmt kjarasamningi annars vegar og launaseðlum hins vegar, sýni að stefnandi eigi inn laun hjá stefnda að fjárhæð 1.651.381 krónu, þar af orlof að fjárhæð 155.005 krónur.

 

Tímabil

Laun skv. kjarasamn.

Laun skv. launaseðli

Vangreidd laun

Þar af vangreitt orlof

sep.13

523.757

389.395

134.362

12.403

okt.13

483.191

415.714

67.477

6.229

nóv.13

534.046

336.756

197.290

18.212

des.13

399.221

360.443

38.778

3.580

jan.14

499.749

334.124

165.625

15.289

feb.14

515.900

278.554

237.356

21.911

mar.14

527.044

400.952

126.092

13.947

apr.14

492.372

59.875

432.497

42.233

maí.14

385.877

273.885

111.992

5.206

jún.14

418.073

262.442

155.631

16.674

júl.14

79.808

95.527

-15.719

-679

 Samtals

     4.859.038    

     3.207.667    

      1.651.381    

         155.005    

 

Varðandi kröfu um ógreitt áunnið orlof að fjárhæð 155.005 krónur sé miðað við 10,17% orlof á laun stefnanda á umræddu tímabili enda sé stefnanda ekki kunnugt um að orlofið hafi verið lagt inn á orlofsreikning enda engar tilkynningar borist þar að lútandi. Þá hafi stefnandi aldrei samþykkt greiðslu orlofs samhliða launum, enda ólögmætt samkvæmt 7. gr. laga nr. 30/1987.

Stefnandi krefst orlofsuppbótar, hlutfallslega fyrir þau orlofstímabil sem hún var í vinnu hjá stefnda, sbr. 3. gr. kjarasamninga frá 2011 og 2014. Tekið er fram að greiðsla orlofsuppbótar fyrir orlofstímabilið 1. maí 2013 til 30. apríl 2014 hafi verið ofgreitt um 9.037 krónur, og komi því frádráttar. Hins vegar hafi stefnandi verið í vinnu hjá stefnda á orlofstímabilinu 1. maí 2014 til 30. apríl 2015 í samtals 387 dagvinnustundir, að því gefnu að dagvinnustundir í júlí hafi verið 58 talsins miðað við útgefinn launaseðil stefnda þann mánuð, en tímaskriftir fyrir júlímánuð 2014 liggi ekki fyrir. Miðað við 21,9 krónur fyrir hverja dagvinnustund beri stefnanda að fá greidda orlofsuppbót að fjárhæð 1.270 krónur enda hafi orlofsuppbót ekki verið greidd við starfslok í júlí 2014.

Gerð er krafa um desemberuppbót, hlutfallslega fyrir þann tíma sem stefnandi vann hjá stefnda á árunum 2013 og 2014 í samræmi við 3. gr. umræddra kjarasamninga frá 2011 og 2014. Árið 2013 hafi stefnandi verið í vinnu hjá stefnda í 700,5 dagvinnustundir. Full desemberuppbót framangreint ár hafi verið 52.100 krónur miðað við 1.800 dagvinnustundir á ári, eða 28,9 fyrir hverja dagvinnustund. Stefnandi eigi því rétt á að fá 20.244 krónur í desemberuppbót fyrir árið 2013. Stefndi hafi greitt stefnanda desemberuppbót að fjárhæð 21.101 krónur. Því hafi stefndi ofgreitt sem nemi 857 krónum sem komi til frádráttar. Varðandi desemberuppbót fyrir árið 2014 sé við það miðað að stefnandi hafi verið í vinnu í 1.031 dagvinnustund. Full desemberuppbót framangreint ár hafi verið 73.600 krónur miðað við 1.800 dagvinnustundir á ári, eða 40,9 fyrir hverja dagvinnustund. Beri stefnda því að greiða stefnanda 42.156 krónur í desemberuppbót fyrir árið 2014, en framangreint hafi stefndi ekki greitt við starfslok stefnanda.

Í stefnu er krafa stefnanda samkvæmt framangreindu sundurliðuð þannig:

 

Í stefnu er tekið fram að samtals nemi kröfur stefnanda því 1.684.914 krónum, sem sé stefnufjárhæð. Tekið er fram að fjárhæðin sé lægri en sú heildarfjárhæð sem sett var fram í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 21. maí 2014, þar sem útreikningar hafi verið leiðréttir.

                 Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups og laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7. og 8. gr. Þá er vísað til kjarasamninga Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands, hins eldri sem tekið hafi gildi árið 2011 og núgildandi samnings sem tekið hafi gildi 1. febrúar 2014.  Stefnandi vísar jafnframt til meginreglna vinnu-, kröfu- og samningaréttarins um efndir fjárskuldbindinga og að gerða samninga skuli halda, sérstaklega um skyldu vinnuveitanda til að greiða umsamin laun samkvæmt gildandi ráðningar- eða kjarasamningi. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að aðilar hafi munnlega samið um vinnutíma og vinnufyrirkomulag. Í þeim samningi hafi falist að stefnandi hafi verið ráðinn sem aðstoðarmaður við mjaltir á búinu kvölds og morgna. Því hafi vinnutími stefnanda verið rofinn milli mjalta. Hins vegar hafi ekki verið útilokað að stefnandi gengi í önnur störf og fengi greitt fyrir þau aukalega samkvæmt tímaskráningu. Í þeim störfum sem stefnandi hafi gegnt hjá stefnda sé slíkt vinnufyrirkomulag alþekkt og viðurkennt um allt land. Því til staðfestingar vísar stefndi til þess sérstaklega og þvert á hefðbundin sjónarmið vinnuréttar sé gert ráð fyrir slíku fyrirkomulagi varðandi mjaltaaðstoð o.fl., í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands, sbr. 7. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 12. gr. Í þessu sambandi sé til þess að líta að áætlaður vinnutími stefnanda, undir venjulegum kringumstæðum, hafi verið um 7 tímar, þ.e. rúmir þrír tímar bæði kvölds og morgna. Þar af leiðandi hafi allar líkur verið á því að aukavinna stefnanda félli utan þess tíma og þá undir yfirvinnu. Því hafi verið samið um að næði hún dagvinnustundum, 173,33 tímum, yrði yfirvinna greidd. Hafi báðir aðilar litið á ráðningu og ráðningarkjör stefnanda sömu augum, enda hafi skráningar stefnanda fyrir fyrstu þrjá mánuði ráðningartímabilsins verið meira og minna til samræmis við ofangreinda lýsingu á vinnufyrirkomulagi, sem báðir aðilar lýsi með sama hætti. Mótmælir stefndi því að sem fram kemur í stefnu að vinnutími geti ekki verið ákveðinn einhliða af vinnuveitanda, enda hafi starfsfólk almennt ekki sjálfdæmi um hvort og hvenær það stundar vinnu.

                Gögn málsins beri með sér að stefndi hafi greitt stefnanda mánaðarlaun sem hafi verið langt umfram viðmið kjarasamnings. Mánaðarlaun árið 2013 hafi verið 230.009 krónur, en á þeim tíma hafi kjarasamningsbundin laun verið 206.711 krónur. Með gildistöku kjarasamnings 1. febrúar 2014 hafi kjarasamningsbundin laun hækkað í 216.500 krónur, en stefndi greitt stefnanda 236.449 krónur í mánaðarlaun. Með sama hætti hafi stefndi greitt stefnanda hærri yfirvinnulaun en kjarasamningar kváðu á um. Því liggi fyrir að stefnandi hafi notið umtalsvert betri kjara en kjarasamningar hafi gert ráð fyrir.

Þá mótmælir stefndi forsendum kröfugerðar stefnanda enda sé hún að mati stefnda mjög vanreifuð og erfitt að hendur reiður á nákvæmlega hvaða forsendur liggja til grundvallar stefnufjárhæð. Tekur stefndi sem dæmi að svo virðist sem stefnandi miði við að hún hafi í raun unnið í 298,33 tíma í september 2013. Virðist sem miðað sé við að vinnudagur byrji þegar stefnandi hafi skráð sig inn í morgunmjaltir og vinnutíminn sé allt þar til kvöldmjöltum ljúki, eða 7,25 tímar í yfirvinnu, þó svo óumdeilt sé að stefnandi hafi alls ekki mætt í vinnu í samræmi við þetta.  Þessi nálgun standist ekki enda hafi stefnandi fengið greidd mánaðarlaun fyrir unnar „dagvinnustundir“ auk allrar yfirvinnu umfram þær og þar að auki á miklu hærri mánaðar- og yfirvinnutaxta en samkvæmt kjarasamningi. Þar sem hvergi sé að finna nákvæmt niðurbrot fyrir hvern dag og mánuð fyrir yfirvinnutíma sé kröfugerð stefnanda vanreifuð og í andstöðu við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 80. gr. laganna og varði það frávísun málsins án kröfu, bæti stefnandi ekki úr annmörkum kröfugerðarinnar undir rekstri málsins, enda geti stefndi ekki tekið til varnar gegn fjárkröfum stefnanda í þeim búningi sem þær séu. Sönnunarbyrði þar um hvíli á stefnanda.

Hafi stefnandi talið ráðningarkjör sín röng hafi hún átt að gera athugsemdir og mótmæla strax en ekki í lok vinnuréttarsambandsins. Fullt samkomulag hafi verið um ráðningarkjörin og stefnandi aldrei gert athugasemdir við greidd laun og hafi þvert á móti staðfest sama skilning á kjörum sínum og stefndi haldi fram.

Þá hafnar stefndi greiðslu frekara orlofs með vísan til þess að stefndi hafi greitt fullt orlof vegna greiddra launa og þar sem viðbótarkrafa miðast við launaforsendur, sem stefndi hafnar, er orlof að hans mati að fullu greitt.

Stefndi hafnar frekari greiðslu desemberuppbótar vegna ársins 2014 og vísar til að gefin hafi verið út launaseðil vegna desemberuppbótar 2014 í þeim sama mánuði og desemberuppbótin greidd að fullu, samtals 21.928 krónur eða ríflega 20.000 krónum hærri greiðsla en krafist sé. 

      Varðandi varakröfu um lækkun vísar stefndi til framangreindrar umfjöllunar um skort á nákvæmri sundurliðun á dagvinnu annars vegar og yfirvinnu hins vegar. Þá áskilur stefndi sér að koma á síðari stigum að kröfugerð um lækkun. Að öðru leyti sé krafist lækkunar á dómkröfu til samræmis við höfnun stefnda á frekari greiðslum vegna orlofs og orlofs- og desemberuppbóta. Þá gerir stefndi fyrirvara um að aksturspeningar sem hann hafi greitt stefnanda komi til frádráttar stefnukröfu. Dráttarvaxtakröfu er mótmælt í heild, enda hafi endanleg kröfugerð af hálfu stefnanda ekki verið kynnt fyrr en við birtingu stefnu.

Varðandi lagarök fyrir frávísun án kröfu vísar stefndi til laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 80. gr. laganna. Krafa um sýknu byggi aðallega á almennum reglum vinnu-, kröfu- og samningaréttarins sem vísa meðal annars til þess að greidd laun séu fullnaðaruppgjör milli starfsmanns og vinnuveitanda, krafa vinnulauna skuli byggja á vinnuframlagi og að samningar skulu standa hvort sem þeir eru munnlegir eða skriflegir. Kröfu um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 1. og 2. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laganna.  

Niðurstaða

            Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu stefnandi málsins, Berglind Sigurðardóttir og vitnið Víðir Sveinn Ágústsson fyrrverandi ráðsmaður á kúabúi stefnda.

                Ágreiningur máls þessa snýr að inntaki ráðningarsambands aðila. Stefnandi byggir á því að aðilar hafi samið um samfelldan vinnutíma og að við hverja útborgun launa hafi myndast inneign vegna vangreiðslu á launum samkvæmt kjarasamningi og þeirra launa sem stefnanda voru greidd. Þessu hafnar stefndi og heldur því fram að samið hafi verið um rofinn vinnutíma eins og heimilt sé samkvæmt 7. mgr. 2. gr. kjarasamninga aðila, enda hafi stefnandi verið ráðinn sem aðstoðarmaður við mjaltir kvölds og morgna og skipulag rekstrar stefnda krafist slíkra ráðningarkjara. Vísar stefndi til þess að báðir aðilar hafi haft framangreindan skilning á ráðningarkjörum og hafi skráning stefnanda á vinnutímum fyrstu þrjá mánuði starfstímans verið nánast meira og minna í samræmi við framangreint.  

Óumdeilt er að um starfskjör stefnanda gilti kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum, þannig að fyrri hluta starfstíma stefnanda var í gildi samningur áðurgreindra aðila með gildistíma frá 1. júní 2011 til 31. janúar 2014 og síðari hluta starfstíma stefnanda samningur milli sömu aðila með gildistíma frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015. Fyrir liggur að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að Víðir Sveinn Ágústsson hafi séð um ráðninguna en í þeim viðræðum hafi hvorki verið rætt um vinnutíma að öðru leyti en því að í starfinu fælist mjaltir, þrif í fjósi og tilfallandi verkefni á bænum. Þá hafi ekki verið samið um um rofinn vinnutíma. 

Meðal gagna málsins er svokölluð „greinargerð f.h. Ljósuborgar“, undirrituð af Guðjóni Sigfússyni, forsvarsmanni stefnda, dags. 31. maí 2014. Ráða má að skjalið hafi verið sent Pacta lögmönnum í tilefni innheimtubréfs stefnanda, dagsettu 21. maí 2014. Í bréfi forsvarsmanns stefnda kemur fram að fyrirkomulag ráðningar og skilmálar hafi verið munnlegir og að stærstum hluta milli starfsmanns, þ.e. stefnanda, og bústjórans Víðis Ágústsonar, eins og segir í bréfinu. Einnig kemur fram í bréfinu að samið hafi verið um að stefnandi myndi aðallega vinna á fjósatíma, sem væri að jafnaði milli klukkan 06:00-09:00/10:00 og 16:00-18:00/19:00, en möguleiki á vinnu þar á milli einstaka sinnum. Í bréfinu kemur fram að vitni hafi verið að þessum samningum aðila. Fyrrverandi bústjóri á Grund, áðurnefndur Víðir, gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa haft milligöngu um að útvega Guðjóni starfsmann í fjósið, þ.e. stefnanda. Hafi stefnandi verið ráðinn til mjalta og þrifa þeim tengdum sem og í tilfallandi aukastarfa á búinu, t.d. við girðingavinnu, og hafi vinnutími farið eftir því hvað mikið hafi verið að gera á búinu á hverjum tíma. Aðspurt mundi vitnið ekki hvort samið hafi verið við stefnanda um rofinn vinnutíma. Þá mundi vitnið ekki hvort vitni hafi verið að ráðningu stefnanda. Vitnið kvað allan gang hafa verið á því hvort stefnandi hafi farið af búinu milli mjalta en stefnandi hafi ekki haft viðveruskyldu á búinu milli mjalta.

Eins og áður greinir var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur með aðilum en á stefnda hvíldi kjarasamningsbundin skylda til þess að gera slíkan samning samkvæmt 1. mgr. 12. gr. fyrrnefnds kjarasamnings og 1. mgr. 11. gr. síðarnefnda kjarasamnings, sbr. og auglýsingu nr. 503/1998 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/553/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitenda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi. Þá er í 2. mgr. 12. gr. áðurnefnds kjarasamnings, sbr. 2. mgr. 11.gr. yngri samningsins, kveðið á um að í ráðningarsamningi skuli koma fram ef sérstaklega er samið um vinnutíma, sbr. 5.-6. mgr. 2. gr., m.a. um rofinn vinnutíma. Þannig skuli í ráðningarsamningi tilgreint og útfært sérstaklega ef um hlutavinnu er að ræða eða ef skipulag búreksturs krefst þess að samið sé um rofinn vinnutíma. Vegna slíkra kjarasamningsbundinna fyrirmæla hefur Hæstiréttur í mörgum dómum sínum kveðið á um að vinnuveitandi skuli bera hallan af skorti á sönnun um efni ráðningarsambands.

Eins og rakið hefur verið gat Víðir, fyrrverandi bússtjóri stefnda, sem stefndi vísaði til varðandi ráðningu stefnanda eins og rakið hefur verið hér að framan, hvorki staðfest í skýrslugjöf sinni fyrir dómi að samið hafi verið um rofinn vinnutíma við stefnanda né tilgreint hvort vitni hafi verið að samningsgerðinni eins og stefndi hélt fram í áðurnefndu bréfi. Í 2. gr. umræddra kjarasamninga er sérstaklega hnykkt á nauðsyn þess að tilgreina sérstaklega í ráðningarsamningi ef semja skal um annað en hefðbundið vinnutímafyrirkomulag, svo sem eins og rofinn vinnutíma. Samkvæmt ákvæðinu skal dagvinna ekki hefjast fyrr en klukkan 07:00 og eigi standa lengur en til klukkan 19:00. Dagvinna geti þó ekki staðið lengur en 7 klst og 25 mínútur (virkar vinnustundi) á þessu tímabili. Stefndi hefur í engu gert grein fyrir útreikningi launa til handa stefnanda þann tíma sem um ræðir að öðru leyti en því að vísa til þess að samið hafi verið við stefnanda um að greiða yfirvinnukaup fyrir vinnustundir sem færu mánaðarlega fram yfir 173,33 tíma í dagvinnu. Verður málflutningur stefnda ekki skilinn á annan veg en þann að þar með hafi hvorki verið tekið tillit til vinnustunda fyrir klukkan 07:00 á morgnanna og eftir klukkan 19:00 á kvöldin, né vinnustunda á laugardögum, sunnudögum og öðrum samningsbundnum frídögum, þ.e. utan dagvinnutímabils, en slíkt er í andstöðu við kjarasamninga.

Þegar allt það er virt, sem að framan greinir, hefur stefnda að mati dómsins ekki tekist að færa fram sönnur á því að samið hafi verið um rofinn vinnutíma í tilviki stefnanda. Fyrir liggur að stefnandi leitaði til stéttarfélags síns í marsmánuði 2014 en stefnandi hóf störf 1. september 2013. Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt af sér aðgerðarleysi við að halda uppi kröfum sínum. Stefndi hefur engin efnisleg rök fært fram gegn kröfu stefnanda um orlof og orlofsuppbætur og ekki lagt fram gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að desemberuppbót fyrir árið 2014 hafi verið greidd. Þó svo fyrir liggi að stefnandi hafi ekki unnið alla daga milli mjaltatíma byggjast dómkröfu málsins á því að ekki hafi verið samið um rofinn vinnutíma. Þar sem dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki axlað sönnunarbyrði að þessu leyti verður dómkrafa stefnanda tekin til greina að fullu og með dráttarvöxtum eins og krafist er, enda málatilbúnaður og kröfugerð stefnanda í samræmi við framlögð gögn. Þá er ekki fallist á það með stefnda að skilyrði til dráttarvaxta hafi ekki skapast fyrr en endanleg kröfugerð hafi verið kynnt stefnda, enda er dráttarvaxtakrafa stefnanda í samræmi við gjalddaga launa. sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Með vísan til framangreindra málsúrslita og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn að fjárhæð 2.000.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna embættisanna dómara. Dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Ljósaborg ehf., greiði stefnanda, Berglindi Sigurðardóttur, kt. [...], 1.684.913 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 134.362 frá 30.09.2013 til 31.10.2013, af kr. 201.839 frá 31.10.2013 til 30.11.2013, af kr. 399.129 frá 30.11.2013 til 05.12.2013, af kr. 398.272 frá 05.12.2013 til 31.12.2013, af kr. 437.050 frá 31.12.2013 til 31.01.2014, af kr. 602.675 frá 31.01.0214 til 28.02.2014, af kr. 840.031 frá 28.02.2014 til 31.03.2014, af kr. 966.123 frá 31.03.2014 til 30.04.2014, af kr. 1.398.620 frá 30.04.2014 til 31.05.2014, af kr. 1.510.612 frá 31.05.2014 til 02.06.2014, af kr. 1.501.575 frá 02.06.2014 til 30.06.2014, af kr. 1.657.206 frá 30.06.2014 til 31.07.2014, af kr. 1.684.913 frá 31.07.2014 til greiðsludags.

Stefndi, Ljósaborg ehf., greiði stefnanda, Berglind Sigurðardóttir, krónur 2.000.000 í málskostnað.