Hæstiréttur íslands
Mál nr. 368/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Réttindaröð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. apríl 2016, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu kröfu sem sóknaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti á varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín að fjárhæð 12.861.450 krónur verði viðurkennd með stöðu í réttindaröð aðallega samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara 110. gr. sömu laga, en að því frágengnu 111. gr. laganna. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili þess að málskostnaður í héraði falli niður, en að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerði Guðmundur A. Birgisson samning „um innheimtuþjónustu“ 14. september 2010 við sóknaraðila, sem þar var nefndur „lögfræðistofan“. Í samningnum var kveðið á um að sóknaraðili tæki að sér að lýsa í þrotabú félags með heitinu ISIS Investments Ltd. á Mön kröfu í eigu Guðmundar, sem Arion banki hf. nyti veðréttar í, að fjárhæð 1.800.002 sterlingspund. Ætti sóknaraðili að senda kröfulýsingu í þrotabúið og annast upp frá því öll samskipti við það uns skiptum yrði lokið. Samkvæmt samningnum átti sóknaraðili að fá fyrir þessa þjónustu þóknun, sem yrði „samtals 5% af því fé sem greiðist upp í kröfu kröfuhafans“, og væri þá innifalinn allur kostnaður sóknaraðila, en fengist „ekkert upp í kröfu kröfuhafans, verður um enga þóknun lögfræðistofunnar að ræða.“ Tekið var fram að semja yrði sérstaklega um frekari vinnu sóknaraðila, sem innt yrði af hendi og félli ekki undir samninginn en nauðsynleg yrði talin. Héraðsdómi Suðurlands mun hafa borist 4. nóvember 2013 krafa um að bú Guðmundar yrði tekið til gjaldþrotaskipta og var hún tekin til greina með úrskurði 20. desember sama ár, en samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila rann kröfulýsingarfrestur í þrotabúið út 28. febrúar 2014.
Varnaraðili kveðst hafa fengið um það vitneskju í ársbyrjun 2014 að Guðmundur A. Birgisson hafi gert samning sama dag og bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta við Kaupþing hf. og dótturfélag þess með heitinu Mön Investments ehf., þar sem Guðmundur hafi framselt til viðsemjenda sinna áðurnefnda kröfu á hendur þrotabúi ISIS Investments Ltd. gegn greiðslu á samtals 257.229.000 krónum. Þessa fjárhæð hafi átt að greiða þannig að viðsemjendurnir myndu inna af hendi í fyrsta lagi til Kaupþings hf. innan tíu daga 110.539.037 krónur til uppgjörs á skuldum Guðmundar samkvæmt afleiðusamningum, í öðru lagi til Guðmundar 128.614.500 krónur þegar annaðhvort hefði verið leitt í ljós að hann hefði náð samkomulagi við tvö nafngreind erlend félög um deilu sína við þau um ætluð tryggingarréttindi þeirra yfir kröfunni á hendur þrotabúi ISIS Investments Ltd. eða endanleg niðurstaða fengist á annan hátt um að krafan væri ekki háð slíkum réttindum og í þriðja lagi með því að leggja 18.075.463 krónur innan tíu daga á bankareikning í þágu Guðmundar. Í samningnum var sá bankareikningur nánar tilgreindur og tekið fram að hann væri vörslureikningur í eigu sóknaraðila. Varnaraðili kveður fyrstnefndu greiðsluna hafa verið innta af hendi 9. janúar 2014 til Kaupþings hf., en greiðslan að fjárhæð 18.075.463 krónur hafi borist varnaraðila sama dag. Varnaraðili gerði síðan 21. ágúst 2014 samning við Kaupþing hf. og Mön Investments ehf. um breytingar á samningi þeirra við Guðmund frá 20. desember 2013. Í þessum nýja samningi var meðal annars mælt svo fyrir að greiðslur til Guðmundar samkvæmt upphaflega samningnum skyldu lagðar á tiltekinn bankareikning, sem væri á nafni lögmannsstofunnar sem skiptastjóri varnaraðila starfaði við, svo og að greiðsla á 128.614.500 krónum, sem eftir upphaflega samningnum var háð niðurstöðu í deilu Guðmundar við tvö erlend félög, skyldi innt af hendi til varnaraðila.
Með bréfi til skiptastjóra varnaraðila 17. desember 2014 lýsti sóknaraðili kröfu um þóknun samkvæmt áðurnefndum samningi sínum við Guðmund A. Birgisson frá 14. september 2010. Í kröfulýsingunni var vísað til þess að sóknaraðili hafi fullnægt skyldum sínum samkvæmt samningnum með því að krafan á hendur þrotabúi ISIS Investments Ltd. hafi verið seld fyrir 257.229.000 krónur, en eftir honum hafi sóknaraðila borið að fá í þóknun 5% af þeirri fjárhæð eða 12.861.450 krónur, sem krafist væri greiðslu á. Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila í bréfi 26. janúar 2015 að krafa þessi yrði ekki viðurkennd við gjaldþrotaskiptin. Með því að ekki tókst að jafna ágreining um þetta var honum beint til héraðsdóms 8. júlí 2015 og var mál þetta þingfest af því tilefni 15. september sama ár. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði ákvað héraðsdómari í þinghaldi 26. janúar 2016 að skipta sakarefninu á þann hátt að fyrst í stað yrði aðeins leyst úr því hvort krafa sóknaraðila kæmist að við gjaldþrotaskiptin á varnaraðila með því að viðurkennt yrði að hún nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt 109. gr., 110. gr. eða 111. gr. laga nr. 21/1991, en úrlausn um fjárhæð kröfunnar biði eftir atvikum annars úrskurðar.
II
Í áðurgreindum samningi sóknaraðila við Guðmund A. Birgisson 14. september 2010 var mælt fyrir um að sóknaraðila bæri þóknun fyrir þjónustu sína við innheimtu kröfu Guðmundar á hendur þrotabúi ISIS Investments Ltd., sem yrði 5% af því sem fengist greitt upp í hana. Með þessu var kveðið á um skilyrt kröfuréttindi sóknaraðila, en í texta samningsins verður á hinn bóginn hvergi fundin stoð fyrir því að hann hafi falið í sér framsal Guðmundar á nefndu hlutfalli kröfunnar til sóknaraðila eða að stofnað hafi verið á annan hátt til eignarréttar hans yfir kröfunni að þessu leyti. Þegar af þessum ástæðum getur krafa sóknaraðila um þóknunina ekki notið stöðu í réttindaröð eftir 109. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti á varnaraðila.
Hvorki verður ráðið af fyrrnefndum samningi, sem skiptastjóri varnaraðila gerði 21. ágúst 2014 við Kaupþing hf. og Mön Investments ehf., né af öðrum gögnum málsins að varnaraðili hafi með yfirlýsingu eftir reglum XV. kafla laga nr. 21/1991 eða öðrum löggerningi gengist undir ákvæði samnings sóknaraðila frá 14. september 2010 við Guðmund A. Birgisson. Eins og málið liggur fyrir verður heldur ekki séð að skiptastjóri varnaraðila hafi aðhafst nokkuð sem leitt gæti til þess að varnaraðili teldist í verki hafa tekið á sig skuldbindingar þrotamannsins gagnvart sóknaraðila eða hagnýtt sér á annan hátt þjónustuna, sem hann veitti, þannig að átt gæti undir 3. tölulið eða önnur fyrirmæli 110. gr. laga nr. 21/1991.
Að því er varðar þá kröfu, sem sóknaraðili heldur fram til þrautavara, að fjárkröfu hans verði skipað í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 sökum þess að hann hafi notið tryggingarréttinda fyrir henni í kröfu varnaraðila á hendur þrotabúi ISIS Investments Ltd., er þess að gæta að ekkert var kveðið á um slík réttindi í texta samningsins frá 14. september 2010. Þótt mælt hafi verið fyrir um það í samningi Guðmundar A. Birgissonar við Kaupþing hf. og Mön Investments ehf. 20. desember 2013 um sölu á kröfu Guðmundar á hendur þrotabúi ISIS Investments Ltd. að greiðslur til hans skyldu lagðar á tiltekinn bankareikning á vegum sóknaraðila voru engar hindranir lagðar við því að þeim fyrirmælum yrði breytt, svo sem raun varð á í framhaldinu eins og áður var rakið. Þessi greiðslufyrirmæli gátu því ekki hafa veitt sóknaraðila tryggingarréttindi í kröfunni í skilningi 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991. Þá fékk sóknaraðili aldrei í hendur greiðslu á kröfunni, sem samningur hans við Guðmund 14. september 2010 snerist um, og getur því heldur ekki reynt á hvort hann hafi af einhverjum sökum notið réttar til að taka sér þóknun af henni.
Að virtu öllu framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest á þann hátt sem segir í dómsorði. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og þar greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Juris slf., um að viðurkennd verði krafa að fjárhæð 12.861.450 krónur sem hann lýsti 17. desember 2014 á hendur varnaraðila, þrotabúi Guðmundar A. Birgissonar.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. apríl 2016.
Mál þetta var þingfest 15. september 2015 og var þá lagt fram bréf skiptastjóra þrotabús Guðmundar A. Birgissonar, kt. [...], Núpum 3, Sveitarfélaginu Ölfusi, móttekið 10. júlí sama ár, þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um lýsta kröfu í bú varnaraðila. Skiptastjóri vísaði í bréfi sínu til dómsins til 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 31. mars 2016.
Sóknaraðili er Juris slf., kt. [...], Borgartúni 26, Reykjavík, en varnaraðili er þrotabú Guðmundar A. Birgissonar, kt, [...], Borgartúni 26, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila í máli þessu eru eftirfarandi: Aðallega er þess krafist að krafa á grundvelli samnings um innheimtuþjónustu, dagsettur 14. september 2010, að fjárhæð 12.861.450 krónur, verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til vara er þess krafist að framangreind krafa verði viðurkennd sem búskrafa eftir 110. gr. laga nr. 21/1991 og til þrautavara að krafan verði viðurkennd og njóti rétthæðar eftir 111. gr. laga nr. 21/1991. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi: Aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Til vara krefst varnaraðili þess að kröfur sóknaraðila verið lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Samkomulag varð milli aðila um að skipta sakarefni máls þessa á þann veg að fyrst yrði tekin afstaða til aðalkröfu varnaraðila. Í þessum þætti málsins krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Kröfur sóknaraðila í þessum þætti málsins eru þær sömu og dómkröfur hans, að því undanskildu að sóknaraðili krefst ekki málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Málsatvik
Upphaf máls þessa má rekja til þess að þann 14. september 2010 gerðu Lögfræðistofan Juris slf., sóknaraðili þessa máls, og Guðmundur A. Birgisson, kt. [...], Núpum 3, Sveitarfélaginu Ölfusi, hér eftir nefndur þrotamaður, með sér samning um innheimtuþjónustu, hér eftir nefndur innheimtusamningur, þar sem sóknaraðili tók að sér að sjá um að lýsa kröfu þrotamanns í þrotabú ISIS Investment Ltd., hér eftir nefnt ISIS, en krafa þrotamanns var að fjárhæð 1.800.002 bresk pund.
Þann 18. desember 2013 var tekin fyrir í Héraðsdómi Suðurlands beiðni sýslumannsins á Selfossi um gjaldþrotaskipti á búi þrotamanns. Sótt var þing af hálfu þrotamanns sem óskaði eftir fresti. Skiptabeiðandi hafnaði frestbeiðni þrotamanns og var krafan tekin til úrskurðar að kröfu skiptabeiðanda. Þann 20. desember sama ár var bú þrotamanns tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands. Var úrskurðarorð lesið upp í dómnum að aðilum málsins fjarverandi. Þá var Erla S. Árnadóttir hrl., skipaður skiptastjóri búsins, þ.e. varnaraðila þess máls.
Fyrir liggur að þann 20. desember 2013, sama dag og bú þrotamanns var tekið til gjaldþrotaskipta gerði þrotamaður samning við Mön Investments ehf., hér eftir nefnt Mön, sem kaupanda, og Kaupþing hf. Í samningnum er meðal annars kveðið á um kaup Manar á kröfum þrotamanns í þrotabú ISIS á verðinu 257.229.000 krónur.
Aðilar málsins er sammála um að 8. og 9. janúar 2014 hafi skiptastjóri varnaraðila og einn eigenda sóknaraðila átt í tölvupóstsamskiptum vegna áðurnefnds innheimtusamningsins og skiptastjóra varnaraðila hafi þá borist umræddur samningur.
Innköllun í búið birtist fyrst í Lögbirtingablaðinu 30. desember 2013 og rann kröfulýsingarfrestur út 28. febrúar 2014. Fyrsti skiptafundur var haldinn 14. mars 2014. Frestdagur við skiptin var 4. nóvember 2013.
Þann 10. janúar 2014 ritaði skiptastjóri varnaraðila skiptastjóra þrotabús ISIS bréf vegna krafna sem þrotamaður hafi lýst í þrotabú ISIS. Þar greinir skiptastjóri varnaraðila frá því að sama dag og bú þrotamanns hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta hafi þrotamaður gert samning um sölu krafna sinna í þrotabúi ISIS til Manar og Kaupþings hf. Segir í bréfinu að skiptastjóri varnaraðila sé að skoða efni og kringumstæður við gerð áðurnefnds samnings, m.a. hvort áðurnefndur samningur sé bindandi fyrir varnaraðila samkvæmt íslenskum lögum. Fyrir liggur að um vorið 2014 komst skiptastjóri varnaraðila að þeirri niðurstöðu að þrotabúið væri bundið af framangreindum samningi þrotamanns þar sem ekki hafi reynst unnt að sýna fram á grandsemi viðsemjenda þrotamanns um gjaldþrotaskiptin þegar samningurinn var gerður.
Þann 21. ágúst 2014 gerði skiptastjóri varnaraðili annars vegar og Mön og Kaupþing hins vegar, með sér viðauka við sölusamninginn frá 20. desember 2013. Með honum var gerð sú breyting að í stað viðskiptareiknings sóknaraðila kom umbjóðendareikningur lögmannsstofu skiptastjóra varnaraðila. Þá er einnig óumdeilt að hluti greiðslna samkvæmt sölusamningnum voru greiddar til varnaraðila 9. janúar og 3. október 2014.
Með bréfi sóknaraðila til varnaraðila, dagsettu 17. desember 2014, lýsti sóknaraðili aðallega sértökukröfu í bú þrotamanns, samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, að fjárhæð 12.861.450 krónur. Þá vísar sóknaraðili einnig til 2. og 3. tölul. 110. gr. áðurnefndra laga. Þessu hafnaði varnaraðili með bréfi dagsettu 26. janúar 2015, sem sóknaraðili móttók þann 27. sama mánaðar. Á skiptafundi 4. febrúar 2015 lagði sóknaraðili fram mótmæli og athugasemdir við afstöðu skiptastjóra. Auk áðurnefndrar kröfugerðar vísaði sóknaraðili til þess að krafan félli undir 111. gr. laga nr. 21/1991. Ekki náðist að jafna ágreining aðila á fundi 29. apríl 2015, sem skiptastjóri boðaði til með vísan til 2. mgr. 120. gr. laganna. Í framhaldinu vísaði skiptastjóri varnaraðila ágreiningnum til dómsins, eins og áður er rakið.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Aðalkröfu sinni, sértökukröfu, til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að með innheimtusamningnum, dags. 14. september 2010, hafi sóknaraðili eignast 5% hlutdeild í fjárkröfu á hendur ISIS. Þá hafi sóknaraðili, við sölu á kröfunni á hendur ISIS til Manar, átt að lögum 5% af endurgjaldinu á grundvelli áðurnefnds samnings. Vísar sóknaraðili í því sambandi til þess að í sölusamningnum við Mön og Kaupþing hafi verið gert ráð fyrir krafan yrði greidd inn á reikning sóknaraðila. Hins vegar hafi skiptastjóri varnaraðila óskað eftir því að fjárhæðinni yrði ráðstafað með öðrum hætti, þ.e. inn á reikning lögmannsstofu skiptastjóra varnaraðila, þ.m.t. þeim hluta hennar sem sóknaraðili eigi eignarrétt yfir. Vísar sóknaraðili til þess að eðli málsins samkvæmt verði að leggja kröfu sóknaraðila um hlutdeild í endurgjaldinu að jöfnu við kröfu um skil á eign í vörslum þrotabús samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Vísar sóknaraðili til þess að krafan sé ekki háð sérstakri kröfulýsingu, sbr. 4. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem skiptastjóri varnaraðila hafi verið upplýstur um innheimtusamninginn þegar hann tók við endurgjaldi vegna kröfunnar á hendur ISIS. Því hafi varnaraðila mátt vera vel kunnugt um að hann hafi tekið við fjármunum sem tilheyrðu og voru eign sóknaraðila.
Til stuðnings varakröfu sinni, búskröfu, vísar sóknaraðili til þess að sölusamningurinn hafi verið afrakstur vinnu sóknaraðila um árabil, eða allt frá því sóknaraðili gerði innheimtusamning við þrotamann árið 2010. Hafi vinna sóknaraðila bæði falist í því að lýsa kröfum í þrotabú ISIS og síðar í samningaviðræðum við Kaupþing hf., og dótturfélag þess um sölu á kröfunni. Með því að varnaraðili hafi tekið við sölusamningnum sem sóknaraðili hafi komið á milli þrotamanns og Manar hafi varnaraðili jafnframt tekið yfir innheimtusamninginn sem þrotamaður gerði við sóknaraðila og þar með hafi þrotabúið skuldbundið sig til þess að greiða sóknaraðila hlutdeild hans í fjárkröfunni gegn ISIS. Hafi greiðsluskylda varnaraðila stofnast um leið og varnaraðili hafi fengið greitt með skuldajöfnuði. Með þessu hafi skiptastjóri varnaraðila ákveðið að njóta afraksturs af vinnu sóknaraðila, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og hafi varnaraðili því í raun gert vinnu sóknaraðila að sinni. Það sé mat sóknaraðila að komist hafi á samningur milli sóknar- og varnaraðila, þ.e. slíkur samningur hafi komist á í framkvæmd, sbr. 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggir þrautavarakröfu sína, þ.e. að krafan njóti réttarhæðar skv. 111. gr. laga nr. 21/1991, á því að hann hafi með innheimtusamningnum öðlast tryggingarrétt í fjárkröfunni og þar með þeim fjármunum sem fengust við sölu hennar. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi til þess að hann hafi átt að taka við greiðslu vegna fjárkröfunnar og með þeim hætti væri tryggt að hann fengi hlutdeild sína í innheimtuþóknun. Hins vegar hafi skiptastjóri varnaraðila, án samráðs við sóknaraðila, kosið að svipta sóknaraðila þessari tryggingarráðstöfun með því að láta ráðstafa greiðslunni beint til sín. Þrátt fyrir þessar ráðstafanir skiptastjóra hafi tryggingarréttur sóknaraðila í fjárkröfunni haldist að lögum og sé því enn til staðar enda sé skýrt kveðið á um að greiða skuli kröfuna til sóknaraðila í sölusamningnum. Þetta hafi skiptastjóra varnaraðila mátt vera ljóst áður en greiðsla frá ISIS barst.
Þá hafnar sóknaraðili fullyrðingu varnaraðila í bréfi til dómsstólsins um að hvers konar veðkrafa sé fallin niður vegna vanlýsingar sem og því að vanlýsing valdi því að ekki sé unnt að nýta tryggingarrétt sem sé til staðar, jafnvel þótt ekki væri unnt að öðru leyti að koma kröfunni að gagnvart þrotabúinu. Í því sambandi vísar sóknaraðili til þess að almennt sé litið svo á að tryggingarréttur, sem telst til óbeinna eignarréttinda, haldist og veðhafi eigi rétt á að fá sinn skerf af andvirði eignar, sbr. t.d. 5. og 6. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungasölu. Eðli málsins samkvæmt þurfi skiptastjóri að virða veðtryggð réttindi við úthlutun úr búi með sama hætti og aðrir sem ráðstafa veðtryggðri eign án tillits til kröfulýsingar.
Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 109. - 111. gr. laganna og XV. kafla laganna, almennra reglan eigna- og kröfuréttar og meginreglna skiptaréttar um úthlutun. Loks vísar sóknaraðili til 72. gr. stjórnarskrárinnar. Varðandi kröfu um málskostnað vísar sóknaraðili til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Í þessum þætti málsins verður eingöngu gerð grein fyrir málsástæðum varnaraðila um aðalkröfu hans, þ.e. að aðal-, vara- og þrautavarakröfum sóknaraðila verði hafnað.
Sértökukrafa: Varnaraðili vísar annars vegar til þess að krafa sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991, þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að um eign sé ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar vísar varnaraðili til þess að umkrafin fjárhæð sé ekki í vörslu búsins.
Varnaraðili vísar í fyrsta lagi til ákvæða 2., 3. og 4. gr. innheimtusamningsins og byggir á því að ljóst sé að þeir fjármunir sem greiddir hafi verið til varnaraðila séu tilkomnir vegna sölusamningsins frá árinu 2013. Því verði þeir fjármunir sem komið hafi inn í búið og sóknaraðili geri nú tilkall til ekki raktir til innheimtuþjónustu sem skilgreind sé í 2. gr. innheimtusamningsins, enda hafi þjónustan eingöngu tekið til þess að senda kröfulýsingu í búið og sjá um samskipti við búið og skiptastjóra þess. Með vísan til þess verði ekki séð að sóknaraðili eigi nokkra kröfu til innheimtuþóknunar á grundvelli samningsins við Mön, hvað þá að um geti verið að ræða eign í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991.
Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi í innheimtusamningnum eingöngu áskilið sér rétt til 5% þóknunar af því fé sem kynni að innheimtast upp í kröfu þrotamanns, en í engu hafi verið fjallað um það hvernig umrædd hagsmunatenging ætti að koma til framkvæmda og með hvaða hætti fjármunir sem kynnu að renna til þrotamanns ættu að færast til sóknaraðila. Í þriðja lagi byggir varnaraðili á því að einföld greiðslufyrirmæli, án frekari aðgerða af hálfu sóknaraðila, geti í engum tilvikum talist nægjanleg sönnun á eignarétti í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi Mön greitt það sem átt hafi að koma í hlut þrotamanns til varnaraðila án nokkurra athugasemda.
Þá vísar varnaraðili til þess að gjaldþrotaskipti sé sameiginleg fullnustugerð kröfuhafa þar sem meginreglan sé sú að kröfuhafar njóti jafnræðis til úthlutunar af eignum búsins og sé 109. gr. laga nr. 21/1991 frávik frá þeirri meginreglu sem beri að túlka þröngt. Ekki sé hægt að gera minni kröfur til stofnunar og sönnunar á eignarétti en veðrétti við þær aðstæður sem hér um ræðir. Krafa sóknaraðila sé fyrst og fremst krafa um endurgjald fyrir innheimtuþjónustu, þ.e. fjárkrafa vegna vinnu sem á hafa verið innt af hendi fyrir þrotamann. Slíkri kröfu hefði sóknaraðili mögulega getað komið að sem almennri kröfu við búskiptin, hefði henni verð lýst innan kröfulýsingarfrests og færðar nægar sönnur fyrir grundvelli hennar og fjárhæð.
Þá byggir varnaraðili á því eins og áður segir að umkrafin fjárhæð sé ekki í vörslu búsins, eða a.m.k. sé hún ekki búinu til frjálsrar ráðstöfunar. Vísar varnaraðili til þess að af þeirri fjárhæð, sem samkvæmt sölusamningnum skyldi greidd fyrir réttindi þrotamanns í ISIS, hafi 110.539.037 krónur verið varið til greiðslu skuldar við Kaupþing hf., þann 9. janúar 2014. Þá hafi Mön samkvæmt sölusamningnum átt að halda eftir 128.614.500 krónum þar til leyst hafi verið úr ágreiningi við Pillar um veðréttindi fyrir hluta kröfunnar án nánari útfærslu. Hins vegar hafi skiptastjóri varnaraðila gert viðauka við sölusamninginn þann 21. ágúst 2014, þar sem kveðið hafi verið á um að framangreind fjárhæð yrði greidd til varnaraðila með því skilyrði þó að 112.405.437 krónum yrði haldið til haga og ekki ráðstafað fyrr en leyst hafi verið úr ágreiningi um veðrétt Pillar. Því hafi þann 3. október 2014 verið greiddar 128.614.500 krónur til varnaraðila, en þó þannig að aðeins 16.209.063 krónur hafi verið til frjálsrar ráðstöfunar fyrir varnaraðila. Þá hafi þann 9. janúar 2014 verið greiddar 18.075.463 krónur til varnaraðila, þannig að samtals hafi varnaraðili getað ráðstafað 34.284.526 krónur af þeim fjármunum sem um ræðir. Sú ráðstöfun, sem hafi að mestu leyti verið vegna skiptakostnaðar, hafi átt sér stað áður en sóknaraðili lýsti sértökukröfu í samræmi við 117. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem varnaraðili hafi hvorki í vörslum sínum sérgreinda fjárhæð né hafi búinu borið að halda slíkri fjárhæð sérgreindri, geti ekki verið um sértökukröfu í skilningi 1. mgr. 109. gr. laganna að ræða.
Þá mótmælir varnaraðili því að sértökukrafa sóknaraðila sé ekki háð sérstakri kröfulýsingu enda fái það ekki stoð í 4. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991, og þá eigi undantekning 117. gr. laganna ekki við.
Búskrafa: Varnaraðili hafnar því að undantekningar í 1.- 6. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991, um skriflega kröfulýsingu í samræmi við 85. gr. laganna eigi hér við, enda verði að túlka undantekningarnar þröngt. Kröfunni hafi ekki verið lýst án ástæðulausra tafa, þ.e. ekki fyrr en 17. desember 2014, eða um ári eftir upphaf skipta.
Varnaraðili hafnar þeim málatilbúnaði sóknaraðila að skiptastjóri hafi kosið að taka yfir sölusamninginn, sbr. 91. gr. laga nr. 21/1991, og með því hafi varnaraðili tekið yfir skuldbindingar af hálfu þrotabúsins um að greiða sóknaraðila hlutdeild sína í áðurnefndri fjárkröfu, þ.e. tekið yfir innheimtusamninginn. Þá er því hafnað að skiptastjóri hafi ákveðið að njóta afraksturs af vinnu sóknaraðila. Vísar varnaraðili í því sambandi til þess að búið hafi verið bundið af sölusamningnum, sbr. 3. mgr. 74. gr. laga nr. 21/1991. Með því hafi þó ekki verið tekin nein afstaða til innheimtusamningsins enda hafi kröfu á grundvelli hans ekki verið lýst fyrr en 17. desember 2014. Þá hafnar varnaraðili því að sölusamningurinn hafi verið gagnkvæmur samningur í skilningi XV. kafla laga nr. 21/1991.
Varnaraðili mótmælir því einnig að sóknaraðili geti með einhverjum hætti byggt rétt á sölusamningnum enda hafi sóknaraðili engar sérstakar ráðstafanir gert til að tryggja að greiðsla til þrotamanns samkvæmt samningnum yrði greidd til sóknaraðila, eingöngu hafi verð um að ræða einföld greiðslufyrirmæli. Þá verði ekki framhjá því horft að sóknaraðili lýsti ekki kröfu í búið fyrr en um ári eftir upphaf skipta eins og áður segir.
Veðkrafa: Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að krafa hans skuli njóta stöðu veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess sem sóknaraðili þurfi að sýna fram á að um hafi verið að ræða gildan veðsamning milli aðila, sú eign sem hann telur til veðréttar yfir verði að falla undir veðsamninginn sem og hafi þurft að afla veðinu réttarverndar gagnvart þriðja manni. Vegna þess að engin framangreind skilyrði séu uppfyllt í máli þessu beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila um það hvernig hann hafi öðlast tryggingaréttindi í fjárkröfu samkvæmt innheimtusamningnum ekki standast. Byggir varnaraðili á því að samningurinn geti ekki talist gildur veðsamningur, enda hafi ekki verið tekið fram að um væri að ræða veðsamning og fjárkrafa sett að veði, aðeins hafi verið áskilið samtals 5% af því fé sem greiðist upp í kröfu þrotamanns sem þóknun. Þá hafi þeir fjármunir sem skiluðu sér verið tilkomnir vegna sölusamningsins en ekki þjónustu sóknaraðila eins og hún sé skilgreind í innheimtusamningnum. Sóknaraðili hafi ekki gert neinar ráðstafanir til að tryggja meintum veð- eða tryggingaréttindi sínum réttarvernd gagnvart þriðja manni eins og lög geri ráð fyrir. Þá vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt íslenskum rétti verði veðréttindum í kröfuréttindum aðeins aflað réttarverndar með tilkynningu til skuldara, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 75/1997, en fyrir liggi að engar slíkar ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu sóknaraðila, hvorki með tilkynningu til ISIS eða Manar, né með öðru hætti.
Byggir varnaraðili á því að jafnvel þó svo að talið yrði að sóknaraðili gæti byggt rétt á samningi sem hann var ekki aðili að og að fyrirmæli um greiðslureikning hefðu verið bindandi, þá hafi Hæstiréttur hafnað því að jafnvel skýr viljayfirlýsing aðila um að greiðslur fari inn á tiltekinn reikning, sem geymi skuldbindingu sem ekki verði breytt nema með samþykki gagnaðila, feli í sér að gagnaðilanum sé veitt veð eða önnur tryggingarréttindi í umræddum greiðslum ef ekki sé tekið fram að um veðsamning sé að ræða og fjárkrafa sett að veði.
Því telur varnaraðili að tilgreining á reikningi sóknaraðila í sölusamningnum geti ekki falið í sér veðréttindi til handa sóknaraðila eða neins konar ígildi þess. Þá verði ekki framhjá því litið að sóknaraðili sé lögmannsstofa sem eigi að búa yfir sérþekkingu varðandi stofnun veða og ráðstafana til að tryggja réttarvernd veðréttinda. Hafi meint veðkrafa einhvern tíma verið fyrir hendi sé hún fallin niður vegna vanlýsingar og vísar varnaraðili í þessu sambandi til 117. og 118. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 4. mgr. 116. gr. laganna.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 3. mgr. 74. gr., 109. gr., 110. gr., 111. gr., 116. gr., 117. gr., 118. gr. 171. gr. og XV. kafla laga nr. 75/1997 um samningsveð, sérstaklega 2. gr. og 46. gr. laganna, auk almennra reglna gjaldþrotaréttar og veðréttar. Varðandi kröfu um málskostnaðar vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Sóknaraðili byggir aðal-, vara- og þrautavarakröfur sínar á tveimur samningum sem þrotamaður, Guðmundur A. Birgisson, gerði. Annars vegar innheimtusamningi sem þrotamaður og sóknaraðili undirrituðu þann 14. september 2010. Í samningnum fólst að sóknaraðili tók að sér að lýsa kröfu í eigu þrotamanns í þrotabú ISIS og annast, fyrir hönd þrotamanns, öll samskipti við þrotabú ISIS og skiptastjóra þess frá og með undirritun samningsins til og með skiptaloka eða úthlutunar úr þrotabúinu eins og segir í 1. og 2. gr. samningsins. Í 3. gr. samningsins, sem fjallar um þóknun, segir: „Í þóknun fyrir þá vinnu af hálfu lögfræðistofunnar sem skilgreind er í 2 gr. samnings þessa, áskilur stofan sér samtals 5 % af því fé sem greiðist upp í kröfu kröfuhafans. Í þessari þóknun felst allur kostnaður lögfræðistofunnar, þ.m.t. allur útlagður kostnaður og öll opinber gjöld, þ.m.t. virðisaukaskattur. Greiðist ekkert upp í kröfu kröfuhafans, verður um enga þóknun lögfræðistofunnar að ræða.“ Þá segir í 4. gr. samningsins. „Aðilar skulu semja sérstaklega fyrir frekari vinnu af hálfu lögfræðistofunnar sem kann að verða innt af hendi og sem ekki fellur undir samning þennan, en nauðsynlegt er að fari fram.“ Í 5. gr. samningsins kemur fram að frestur til að lýsa kröfu í þrotabúið var til 6. desember 2010.
Hins vegar byggir sóknaraðili á samningi frá 20. desember 2013 sem ber heitið „Agreement For sale and Purchase of Clames“ og gerður var á ensku, en heitir í íslenskri þýðingu „Samningur um kaup og sölu á kröfum“. Enska útgáfa samningsins liggur frammi í málinu. Þá lagði sóknaraðili fram þýðingu á völdum greinum samningsins, þ.e. ákvæðum um aðild og aðdraganda, 1. gr., sem ber heitið „skilgreiningar og túlkun“, 2. gr., sem ber heitið „greiðsla kaupverðs“ og 3. gr., sem ber heitið „framsal seljanda“. Í upphafi samnings eru aðilar skilgreindir, þ.e. Mön sem kaupandi, Kaupþing hf., sem Kaupþing, og þrotamaður sem seljandi.
Samkvæmt 2. gr. áðurnefnds sölusamnings skyldi kaupverðið, 257.229.000 krónur, greiðast í þremur hlutum. Í fyrsta lagi, samkvæmt grein 2.2, skyldi Mön, innan tíu virkra daga frá undirritun samningsins, greiða til Kaupþings, f.h. þrotamanns, 110.539.037 krónur, sem fulla og endanlega greiðslu allra skuldbindinga þrotamanns gagnvart Kaupþingi að því er varðar afleiðuviðskipti, (svokölluð uppgjörsfjárhæð afleiðusamningsins). Í öðru lagi, samkvæmt grein 2.3, var Mön aðeins skylt að greiða 128.614.500 krónur (svokölluð skilyrt Lúxemborgarfjárhæð) af kaupverðinu til þrotamanns að uppfylltum tveimur nánar tilteknum skilyrðum, sem m.a. vörðuðu deilur þrotamanns við Pillar og Banque Havilland S.A., en ekki er ástæða til að rekja þau skilyrði nánar. Í þriðja lagi, samkvæmt grein 2.4, skyldi kaupverð að frádreginni uppgjörsfjárhæð afleiðusamningsins og hinni skilyrtu Lúxemborgarfjárhæð, 18.075.463 krónur, (svokallaðar eftirstöðvar) lagðar inn á „hinn tilgreinda reikning“, innan tíu daga frá undirritun. Tilgreindur reikningur er skilgreindur í 1. gr. samningsins sem íslenskur viðskiptareikningur lögfræðistofu þrotamanns, þ.e. sóknaraðila þessa máls.
Eins og rakið er í málvaxtalýsingu undirrituðu skiptastjóri varnaraðila annars vegar og Mön og Kaupþing hins vegar þann 21. ágúst 2014 með sér viðauka við sölusamninginn frá 20. desember 2013. Með viðaukanum var m.a. gerð sú breyting að í stað viðskiptareiknings sóknaraðila, sem var skilgreindur í 1. gr. sölusamningsins sem tilgreindur viðtökureikningur, kom umbjóðendareikningur lögmannsstofu skiptastjóra varnaraðila.
Eins og rakið er í málavaxtalýsingu krafðist sóknaraðili þess í bréfi til varnaraðila, dagsettu 17. desember 2014, að eign sóknaraðila að fjárhæð 12.861.450 krónur, væri afhent úr búinu með vísan til 109. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfinu fylgdi reikningur sóknaraðila á hendur búinu, dagsettur sama dag, og er þar vísað til lögfræðiþjónustu samkvæmt samningi dagsettum 14. september 2010.
Í 109. gr. laga nr. 21/1991, er mælt fyrir um rétthæstu kröfurnar á hendur þrotabúi. Þar segir að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni, ef hann sanni eignarrétt sinn að þeim. Skilyrði þess að unnt sé að afhenda slík réttindi þriðja manni, eru því að þrotabúið hafi vörslur á eign eða réttindum og að þriðji maður sanni eignarrétt þess sem krafist er. Eru framangreind skilyrði í samræmi við þann tilgang gjaldþrotaskiptalaga að tryggja jafnræði kröfuhafa við skiptin. Ágreiningur aðila hvað aðalkröfu sóknaraðila varðar snýr því annars vegar að því hvort sóknaraðili sé eigandi kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli áðurnefndra samninga og hins vegar hvort hluti greiðslna, sem óumdeilt er að greiddar voru úr þrotabúi ISIS til varnaraðila eftir töku þrotabúsins til skipta, hafi verið sérgreindar í vörslum varnaraðila, en uppfylla þarf bæði framangreind skilyrði til þess að krafa njóti stöðu sértökukröfu samkvæmt lögunum.
Eins og rakið hefur verið hér að framan tók sóknaraðili að sér tiltekna vinnu fyrir þrotamann, þ.e. að senda, fyrir hönd þrotamanns, kröfulýsingu í þrotabú ISIS og annast öll samskipti við þrotabúið og skiptastjóra þess. Sem þóknun fyrir þessi störf, áskildi sóknaraðili sér í innheimtusamningnum sem heildargreiðslu fyrir þá vinnu, 5% af því fé sem greiðast myndi upp í kröfu þrotamanns. Í samningnum er hins vegar hvorki vikið að því hvernig standa skyldi að greiðslu hinnar áskildu þóknunar til sóknaraðila né áhrifa þess ef þrotamaður stæði sóknaraðila ekki skil á þóknuninni ef greiðslur bærust úr þrotabúi ISIS. Að mati dómsins felur innheimtusamningurinn ekki með sér annað og meira en samkomulag milli þrotamanns og sóknaraðila um nánar skilgreinda þóknun til handa sóknaraðila.
Sóknaraðili, sem hefur sérþekkingu á sviði samningsgerðar, vísar til þess að hann hafi árum saman unnið að því að koma á samningi milli Manar og Kaupþings annars vegar og þrotamanns hins vegar og hafi sölusamningurinn frá 20. desember 2013 verið afrakstur þeirrar vinnu. Við mat á því hvort sóknaraðili eigi sértökurétt á grundvelli samningsins er til þess að líta að sóknaraðili var hvorki aðili að sölusamningnum né var í samningnum vísað til samkomulags sóknaraðila og þrotamanns samkvæmt innheimtusamningnum. Þá er í sölusamningnum enginn fyrirvari gerður um ætluð réttindi eða kröfur sóknaraðila á hendur þrotamanni eða með öðrum hætti vikið að samkomulagi þeirra um tiltekna þóknun til handa sóknaraðila fyrir vinnu við að lýsa kröfu þrotamanns í þrotabú ISIS. Þá er ekki fallist á það með sóknaraðila að einföld greiðslufyrirmæli í sölusamningnum, þ.e. að viðskiptareikningur sóknaraðila er í samningnum skilgreindur sem viðtökureikningur hluta söluandvirðis eins og áður hefur verið rakið, feli í sér að stofnast hafi til eignaréttar sóknaraðila í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991. Þykir það engu breyta þó svo fyrir liggi að skiptastjóri varnaraðila hafi í upphafi árs 2014 verið kunnugt um innheimtusamninginn. Að öllu framansögðu virtu hefur sóknaraðili ekki fært fram sönnur þess að hann sé eigandi hinnar lýstu kröfu í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991. Verður því staðfest sú ákvörðun skiptastjóra varnaraðila að hafna aðalkröfu sóknaraðila.
Varakröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að þar sem varnaraðili hafi tekið yfir sölusamninginn, sem sóknaraðili hafi komið á milli þrotamanns annars vegar og Manar og Kaupþings hins vegar, hafi varnaraðili jafnframt tekið yfir skuldbindingu þrotabúsins gagnvart sóknaðila með vísan til innheimtusamningsins og vísar sóknaraðili í því sambandi til 3. töluliðar 1. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Í 110. gr. laga nr. 21/1991 segir að næstar kröfum samkvæmt 109. gr. gangi kröfur samkvæmt 1.-4. tölulið greinarinnar í þeirri röð sem þar segir, sbr. þó 3. mgr. 111. gr. Undir 3. tölulið falla kröfur sem hafa orðið til á hendur þrotabúinu eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið bakar öðrum. Kröfur á grundvelli þessa ákvæðis eru t.d. samningsbundin útgjöld vegna atvinnurekstrar þrotabús, s.s. vinnulaun starfsmanna, launatengd gjöld og kröfur vegna kaupa á vörum eða öðrum aðföngum til rekstrarins.
Eins og rakið er í umfjöllun um aðalkröfu sóknaraðila hér að framan var sóknaraðili ekki aðili að sölusamningnum sem þrotamaður gerði við Mön og Kaupþing. Þá var ekki í greiðslufyrirmælum 2. gr. samnings getið um áskilnað sóknaraðila til tiltekinnar þóknunar vegna vinnu í þágu þrotamanns eða með öðrum hætti fjallað um kröfu sóknaraðila á hendur þrotamanni. Þá er ekki fallist á það með sóknaraðila að sú staðreynd að reikningur hans var tilgreindur í samningum, þ.e. að hluti kaupverðs skyldi greitt inn á reikning sóknaraðila, hafi falið í sér annað og meira en einföld greiðslufyrirmæli. Þá verður ekki séð að sóknaraðili hafi með nokkrum hætti gert viðsemjendum þrotamanns viðvart eftir að bú þrotamanns var tekið til gjaldþrotaskipta og fyrir liggur að í kjölfar samningsins 21. ágúst 2014 bárust greiðslur frá Mön athugasemdalaust til varnaraðila. Er því ekki fallist á það með sóknaraðila að hann hafi eignast kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli 3. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991, og er því varakröfu hans hafnað.
Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að krafa hans um greiðslu 12.861.450 krónur verði viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 21/1991. Af gögnum málsins má ráða að sóknaraðili setti framangreinda þrautavarakröfu fyrst fram á skiptafundi 4. febrúar 2015. Þá liggur fyrir að fjallað var um kröfu sóknaraðila á fundi 29. apríl sama ár, sem haldinn var vegna ágreinings sem mál þetta fjallar um.
Verður málatilbúnaður sóknaraðila ekki skilinn á annan veg en þann að hann hafi, hvort heldur litið sé til innheimtusamningsins eða sölusamningsins, öðlast tryggingaréttindi í fjárkröfu þrotamanns á hendur ISIS. Nánar rökstyður sóknaraðili ekki mál sitt og ekki er vikið að því í greinargerð til hvaða flokks veðréttinda hann telji kröfu sína flokkast undir. Í munnlegum málflutningi vísaði sóknaraðili til haldsréttar, en þeirri málsástæðu mótmælti varnaraðili sem of seint fram kominni.
Vísað er til umfjöllunar hér að framan um efni innheimtu- og sölusamninganna. Gögn málsins bera með sér að krafa sóknaraðila sé almenn fjárkrafa. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997, öðlast veðréttur í almennum kröfum réttarvernd við það að skuldari fær tilkynningu um veðsetningu annað hvort frá veðsala eða veðhafa og þarf slík tilkynning að vera gerð með formlegum hætti. Í innheimtusamningnum er í engu getið um hinn ætlaða veðrétt sóknaraðila og ekkert liggur fyrir í málinu um að þrotabúi ISIS hafi verið tilkynnt um innheimtusamninginn eða kröfu sóknaraðila á hendur þrotamanni. Þó svo getið hafi verið um viðskiptareikning sóknaraðila sem viðtökureikning í sölusamningnum uppfyllir slík tilgreining ekki þær kröfur sem gera verður til réttarverndar tryggingaréttinda samkvæmt áðurnefndri lagagrein, enda er í sölusamningnum í engu getið um hinn ætlað veðrétt sóknaraðila. Þá bera gögn málsins ekki með sér að Mön, kaupandi hinnar lýstu kröfu í þrotabú ISIS, hafi borist tilkynning samkvæmt 46. gr. laga nr. 75/1997, og fyrir liggur að Mön undirritaði athugasemdalaust undir viðauka við sölusamninginn og greiddi varnaraðila í framhaldinu í samræmi við hann að teknu tilliti til breytinga sem viðaukasamningurinn kvað á um viðtökureikningi greiðslna, eins og áður er rakið. Þykir sóknaraðili því ekki hafa sýnt fram á að með framangreindum samningum hafi stofnast til gilds veðsamnings. Sóknaraðili, sem er lögfræðistofa og sem slík sérhæfð í stofnun veðsamninga og tryggingaráðstöfunum, verður að bera hallann af því að hafa ekki með fullnægjandi hætti gætt að réttindum sínum við alla samningagerð sem tengdist vinnu hans í þágu þrotamanns. Að öllu framansögðu virtu er þrautavarakröfu sóknaraðila hafnað.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað eins og greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Staðfest er sú ákvörðun skiptastjóra varnaraðila, þrotabús Guðmundar A. Birgissonar, að hafna því að krafa sóknaraðila, Juris slf., komist að við skiptameðferð á þrotabúinu, sem sértöku-, bús- eða veðkrafa.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 1.100.000 krónur í málskostnað.