Hæstiréttur íslands

Mál nr. 439/2017

Vátryggingafélag Íslands hf. og B ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
A (Grímur Sigurðarson lögmaður)

Lykilorð

  • Umferðarlög
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Eigin sök
  • Stórkostlegt gáleysi

Reifun

Í málinu krafðist A viðurkenningar á skaðabótaskyldu V hf. og B ehf. vegna afleiðinga slyss sem hann varð fyrir er hann reyndi að stíga upp í farþegasæti bifreiðar á ferð. Héldu V hf. og B ehf. því fram að slysið hefði ekki hlotist af notkun bifreiðarinnar, sbr. 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og þá hefði A sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn með háttsemi sinni og ætti því að bera tjón sitt sjálfur að hluta eða að öllu leyti, sbr. 2. mgr. 88. gr. sömu laga. Í héraðsdómi kom fram að þegar A hefði freistað þess að stíga upp í bifreiðina hefði aflvél hennar verið í gangi og bifreiðin á ferð, þótt hraðinn hefði verið lítill. Yrði að telja að hreyfing bifreiðarinnar hefði verið orsök slyssins þótt aðrir þættir kynnu einnig að hafa haft áhrif á atburðarrásina umrætt sinn. Þegar af þeirri ástæðu var fallist á að slysið hefði hlotist af notkun ökutækisins í skilningi 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987. Þá kom fram að hegðun A umrætt sinn hefði ekki falið í sér frávik frá því sem venjulegt gæti talist þannig að honum yrði gert að bera tjón sitt sjálfur að hluta eða öllu leyti. Var því fallist á dómkröfur A. Fyrir Hæstarétti snerist ágreiningur aðila eingöngu um hvort 2. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987 tæki til slyss A. Að því gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2017. Þeir krefjast viðurkenningar á að þeir beri „aðeins hálfa bótaskyldu gagnvart stefnda“ vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir 20. maí 2015 og rekja megi til notkunar á bifreiðinni […]. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Hér fyrir dómi snýst ágreiningur aðila eingöngu um hvort 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 taki til slyss stefnda, en áfrýjendur krefjast þess að stefndi beri helming tjóns síns sjálfur. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjendum verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Fer um þann málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda samkvæmt því sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Vátryggingafélag Íslands hf. og B ehf., greiði óskipt 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 27. apríl 2017

   Mál þetta, sem var dómtekið 5. apríl sl. er höfðað 5. desember 2016. Stefnandi er A, […] en stefndu eru, Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík og B ehf., […].

   Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi full og óskipt bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda vegna líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir 20. maí 2015 og rekja megi til notkunar bifreiðarinnar […]. Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.

   Stefndu krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að viðurkenningarkrafa stefnanda verði aðeins tekin til greina að hluta og málskostnaður felldur niður.

   Í máli þessu deila aðilar um hvort slys sem stefnandi varð fyrir 20. maí 2015 megi rekja til notkunar bifreiðarinnar […]. Þá deila menn um hvort stefnandi hafi verið meðábyrgur að slysinu af stórfelldu gáleysi og verði af þeim sökum að þola niðurfærslu eða brottfall skaðabótaréttar á hendur stefndu. Stefnandi, lögmenn og dómari fóru á vettvang við upphaf aðalmeðferðar og skoðuðu aðstæður.

I

    Ekki er ágreiningur um málsatvik. Eru þau helst að stefnandi var farþegi í framsæti í bifreiðinni […] miðvikudaginn 20. maí 2015. Í sumum gögnum sem liggja fyrir í málinu er slysdagur sagður 24. maí 2015 en 20. maí er sá dagur sem greinir í lögregluskýrslu og stefnu og er út frá því gengið í dómi þessum. Ökumaður bifreiðarinnar var samstarfsmaður stefnanda, C, og voru þeir saman að störfum á umræddum tíma í þágu stefnda B ehf. Óku þeir vestur Ártúnsbrekku/Vesturlandsveg og eftir frárein upp á Höfðabakkabrú í því skyni að beygja til vinstri yfir brúna í átt að Grafarvogi. Efst á fráreininni eru umferðarljós og lentu þeir þar á rauðu ljósi. Bifreiðin […] drap þá á sér og tókst ökumanni ekki að koma henni aftur í gang. Ökumaður sat áfram í sæti sínu en stefnandi fór út úr bifreiðinni og ýtti á hurðarkarm til að koma bifreiðinni á hreyfingu. Af aðstæðum á vettvangi mátti sjá að nokkuð átak hefur þurft þar sem ýta þurfti bifreiðinni lítillega upp í móti fyrsta metrann frá stöðvunarlínu en eftir það liggur akbrautin lítillega undan fæti. Er skemmst frá því að segja að í beygjunni fer bifreiðin í gang. Í kjölfar þessa reynir stefnandi að stíga inn í bifreiðina en hrasar og dettur niður á vinstra hné. Stefnandi og vitnið C voru sammála um að bifreiðin hafi verið á mjög lítilli ferð þegar stefnandi reyndi að stíga upp í hana. Einnig kom fram hjá þeim að aðstæður hafi verið erfiðar á þessum fjölförnu gatnamótum með bilaða bifreið og kom fram hjá stefnanda að hann hefði litið svo á að eðlilegt hefði verið fyrir hann að stíga upp í bifreiðina og taldi hann að ekki hafi verið mikil hætta samfara því eins og á stóð.

   Eftir slysið gat stefnandi ekki staðið og var hann fluttur af vettvangi í sjúkrabifreið. Lögregla kom á staðinn og gerði skýrslu.

   Stefnandi var 32 ára þegar slysið átti sér stað. Hann fékk við slysið áverka á vinstra hné og fór í skurðaðgerð vegna þessa 2. júní 2015. Í kjölfarið var hann í gipsi á átta vikur og í sjúkraþjálfun frá 13. ágúst 2015 til 3. júní 2016. Segir m.a. í fyrirliggjandi vottorði sjúkraþjálfara að stefnandi hafi náð góðri hreyfingu í vinstra hnéð en mikil hreyfiskerðing hafi verið í upphafi þjálfunartímabils. Hann hafi ekki enn náð fullum styrk en eigi þó enn möguleika á að bæta færni sína.

   Lögmaður stefnanda tilkynnti stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. um slysið 8. september 2015 en félagið hafnaði því með bréfi 23. desember 2015 að fyrir hendi væri bótaskylda úr ábyrgðartryggingu ökutækisins […]. Mál þetta var höfðað í framhaldi og nýtur stefnandi gjafsóknar.

II

   Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á hendur stefndu á 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndi B ehf. hafi verið skráður eigandi bifreiðarinnar […] og hún hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Beinist mál þetta því gegn báðum framangreindum aðilum, sbr. annars vegar 90. gr. og hins vegar 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

   Í 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987 sé mælt fyrir um hlutlæga ábyrgð með þeim hætti að „sá sem ábyrgð [beri] á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skuli bæta það tjón sem [hljótist] af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns“. Umrædd regla hafi verið skýrð svo í dómum og af fræðimönnum að í henni felist að það slys sem krafist er bóta fyrir þurfi að mega rekja til „notkunar“ ökutækis. Þannig teljist tilvitnuð regla eiga við ef hinir sérstöku hættueiginleikar ökutækis leiði til tjóns. Hættan sem átt sé við tengist hraða bifreiða, vélarafli og þyngd.

   Af hálfu stefnanda er vísað til tveggja dóma Hæstaréttar þar sem það var talinn þáttur í notkun bifreiðar í framangreindum skilningi að ýta henni í gang. Annars vegar dóms í máli nr. 43/1941, sem kveðinn var upp 16. janúar 1942 og í máli nr. 364/1996 sem kveðinn var upp 22. maí 1997.

   Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi slasast við notkun bifreiðarinnar […]. Þar sem vél bifreiðarinnar hafi verið komin í gang og hjól hennar á hreyfingu tengist slysið því að bifreiðin sé hættulegt tæki og þess vegna eigi regla 88. gr. laga nr. 50/1987 við. Stefnandi hafi dottið vegna hreyfingar bifreiðarinnar og sé slysið því ótvírætt afleiðing notkunar bifreiðarinnar í skilningi tilvitnaðs ákvæðis umferðarlaga. Bendi stefnandi á að hreyfing sé einkennandi fyrir notkun bifreiða og því hafi slysið orðið vegna notkunar bifreiðarinnar.

   Miðað við allt framangreint sé ekki hægt annað en að fallast á að stefndu séu skaðabótaskyldir gagnvart stefnanda vegna slyssins 20. maí 2015.

   Stefnandi kveðst mótmæla röksemdum stefndu, með vísan til 2. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987, um að stefnandi hafi fyrirgert bótarétti sínum vegna stórfellds gáleysis. Sé umrætt lagaákvæði undantekningarregla sem beri að skýra þröngt. Kveðst stefnandi mótmæla því að háttsemi hans í umrætt sinn geti talist fela í sér stórfellt gáleysi eða ásetning. Stefnandi hafi þurft að vera fyrir utan bifreiðina til að geta ýtt henni og hafi haldið við gluggapóstinn. Hann hafi síðan þurft að komast aftur í farþegasætið þegar bifreiðin hafi farið í gang og af stað. Slysið sem orsakast hafi af þeirri háttsemi tengist ekki stórkostlegu gáleysi stefnanda eða ásetningi. Samkvæmt því beri að hafna því að fella niður eða lækka bætur til stefnanda vegna slyssins.

   Varðandi ábyrgð stefndu kveðst stefnandi byggja á umferðarlögum nr. 50/1987, skaðabótalögum nr. 50/1993 og meginreglum skaðabótaréttar. Varðandi varnarþing, málskostnað og viðurkenningarkröfu stefnanda sé byggt á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

   Stefndu kveða sýknukröfu reista á því að umrætt slys hafi ekki hlotist af notkun bifreiðarinnar […], heldur hafi stefnandi sjálfur valdið slysinu af stórfelldu gáleysi. Verði hann því að bera allt tjón sitt sjálfur.

   Samkvæmt því sem fyrir liggi hafi bifreiðin drepið á sér og stöðvast á Höfðabakkabrú. Hafi stefnandi, sem setið hafi í framsæti við hlið ökumanns, farið út úr bifreiðinni til að ýta henni af stað, en ökumaðurinn, hafi setið áfram undir stýri. Hafi stefnandi byrjað að ýta bifreiðinni af stað með því að ýta á gluggapóst hennar. Bifreiðin hafi komist í gang og á smá ferð. Hafi stefnandi þá reynt að hoppa upp í framsæti bifreiðarinnar farþegamegin, en hafi fallið við og skollið með vinstra hnéð niður í götuna.

   Hafi slysið þannig ekki hlotist af notkun bifreiðarinnar sem slíkrar, heldur af þeirri athöfn stefnanda að reyna að hoppa upp í bifreiðina á ferð. Hefði stefnandi látið þetta ógert hefði ekkert slys orðið.

   Hafi þessi háttsemi stefnanda verið stórlega gálaus og enga nauðsyn hafi borið til hennar. Sé ávallt stórhættulegt að freista þess að stökkva upp í ökutæki á ferð, jafnvel þó hraði þess sé ekki mikill, og megi ekkert út af bera svo slys hljótist ekki af. Hafi sú líka orðið raunin í þessu tilviki. Blasi við hverjum manni háskinn af því að reyna að komast upp í bifreið á ferð.

   Stefnandi hafi verið 32 ára á slysdegi og hafi honum mátt vera ljós hættan af umræddri háttsemi, sem feli að mati stefndu í sér verulegt frávik frá eðlilegri hegðun og sé því stórkostlega gálaus. Að auki hafi engin þörf verið fyrir stefnanda að reyna að komast upp í bifreiðina á ferð. Hafi ökumaður setið undir stýri og hafi haft fulla stjórn bifreiðarinnar. Hafi stefnandi einfaldlega getað beðið með að setjast upp í bifreiðina þar til ökumaðurinn hafi stöðvað hana.

   Þar sem stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að reyna að stökkva upp í bifreiðina […] á ferð beri að fella bætur til hans niður eða lækka þær mjög verulega, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, jafnvel þótt slysið teljist eiga rót að rekja til notkunar bifreiðarinnar. Hafi ökumaðurinn ekki getað komið í veg fyrir slysið og hafi háttsemi stefnanda verið eina orsök þess. Beri að sýkna stefndu af framangreindu virtu, eða í öllu falli að viðurkenna bótaskyldu aðeins að litlum hluta. Sé varakrafa stefndu miðuð við það.

   Stefndu vísa til reglna skaðabótaréttar um orsakatengsl og um stórkostlegt gáleysi, svo og 1. og 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

IV

   Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987 skal sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns.

   Í máli þessu hefur stefnandi uppi skaðabótakröfu á grundvelli framangreindrar reglu á hendur stefnda B ehf. sem eiganda bifreiðarinnar […], sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. sem vátryggjanda bifreiðarinnar, sbr. 1. mgr. 97. gr. sömu laga.

   Þegar stefnandi freistaði þess að stíga upp í bifreiðina […] var aflvél hennar í gangi og bifreiðin var á ferð, þó ökumaður og stefnandi hafi verið sammála um að hraðinn hafi verið lítill. Er það mat dómsins að telja verði eins og hér stendur á að hreyfing bifreiðarinnar hafi verið orsök þess að slysið varð, þó aðrir þættir kunni einnig að hafa haft áhrif á atburðarásina. Er þegar af þeirri ástæðu fallist á með stefnanda að slysið hafi hlotist af notkun ökutækisins í skilningi 1. málsliðar, 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987.

   Í 2. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987 greinir að bætur fyrir líkamstjón eða missi framfæranda megi lækka eða fella niður ef sá sem orðið hafi fyrir tjóninu eða hafi látist hafi verið meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Byggja stefndu á því að ákvæði þetta eigi við um háttsemi stefnanda, eins og nánar er lýst hér fyrr.

   Fallist er á með stefndu að sú háttsemi að stíga upp í bifreið sem er á ferð er hættuleg og er fjarri því æskileg. Verður ekki talið að háttsemin verði réttlætt með vísan til aðstæðna á slysstað, á fjölförnum gatnamótum, þótt fallast megi á að umræddar aðstæður geri hegðunina skiljanlegri. Þrátt fyrir framangreint er að mati dómsins ekki unnt að fallast á með stefnda að hegðun stefnanda hafi falið í sér, eins og hér stóð á, slíkt frávík frá því sem venjulegt getur talist að til greina geti komið að beita 2. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987 til að gera honum að bera tjón sitt sjálfur að hluta eða öllu leyti eins og stefndu krefjast. Eru þegar af framangreindum ástæðum ekki efni til annars en taka viðurkenningarkröfu stefnanda að fullu til greina.

   Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu. Hefur hann lagt fram afrit reikninga vegna útlagðs kostnaðar vegna mætinga fyrir dómi samtals að fjárhæð 14.508 krónur og 50.000 krónur vegna skýrslu sjúkraþjálfara sem liggur fyrir í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda skal greiðast úr ríkissjóði og þar með talin þóknun lögmanns hans sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði og hefur þar verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

   Stefndu verður gert að greiða sameignlega málskostnað í ríkissjóð að þeirri fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði. Hefur við þá ákvörðun verið tekið tillit til þess gjafsóknarkostnaðar sem stefnandi upplýsti dóminn um og að framan er tiltekinn.         

   Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

   Viðurkennt er að stefndu, B ehf. og Vátryggingafélag Íslands hf., bera óskipt fulla bótaskyldu gagnvart stefnanda, A, vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir 20. maí 2015 og rekja má til notkunar bifreiðarinnar […].            

   Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans sem þykir hæfilega ákveðin 744.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

   Stefndu greiði sameiginlega 808.508 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.