Hæstiréttur íslands

Mál nr. 152/2002


Lykilorð

  • Ábyrgð
  • Samningur
  • Skaðabætur
  • Víxill
  • Banki


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. janúar 2003.

Nr. 152/2002.

Sparisjóður Ólafsfjarðar

(Árni Pálsson hrl.)

gegn

Sigrúnu Konráðsdóttur

(Sif Konráðsdóttir hrl.)

og gagnsök

 

Ábyrgð. Samningur. Skaðabætur. Víxill. Bankar.

S ritaði nafn sitt sem útgefandi á víxileyðublað, sem var óútfyllt að öðru leyti. Gerði S það í því skyni að ábyrgjast yfirdrátt á tékkareikningi bróður hennar hjá SÓ. Ritaði bróðir hennar nafn sitt sem samþykkjandi á eyðublaðið og afhenti síðan SÓ. Var yfirdráttarheimildin á reikningnum í upphafi 100.000 krónur, en var eftir það hækkuð í nokkrum áföngum uns hún stóð í 3.705.000 krónum. Leitaði SÓ hvorki samþykkis S fyrir þessum hækkunum né tilkynnti henni um þær. Svo fór að SÓ  fyllti út eyðublaðið fyrir 3.830.379 krónum og skoraði á S að greiða þá fjárhæð. Höfðaði SÓ í framhaldi af því mál gegn S til heimtu skuldar samkvæmt víxlinum. Var málið rekið sem víxilmál á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Tók S til varna og bar fyrir sig atriði, sem meðal annars lutu að lögskiptum að baki víxlinum, en gegn mótmælum SÓ komust þær varnir ekki að í víxilmálinu. Var S dæmd til að greiða SÓ víxilfjárhæðina með dráttarvöxtum ásamt málskostnaði. Innti hún af hendi greiðslu samkvæmt dóminum og höfðaði í kjölfarið mál gegn SÓ til heimtu skaðabóta á grundvelli 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 vegna tjóns, sem hún taldi sig hafa orðið fyrir við að fara á mis við að koma að vörnum í áðurnefndu víxilmáli. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að S hafi mátt treysta því að yfirdráttarheimildin yrði ekki hækkuð á hennar áhættu án þess að samþykkis hennar yrði leitað. Verði ábyrgð hennar eins og atvikum sé háttað ekki skýrð með rýmkandi hætti þannig að hún nái til þeirrar hækkunar, sem síðar varð á yfirdráttarheimildinni. Var SÓ því gert að greiða S þá fjárhæð, sem S innti af hendi til fullnustu á dóminum í víxilmálinu að frádregnum 100.000 krónum. Þá var SÓ gert að greiða S þann kostnað sem hún hafði af því að taka til varna í áðurnefndu víxilmáli.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. apríl 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 24. júlí 2002. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og aðaláfrýjandi að auki dæmdur til að greiða sér 202.748 krónur, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málsatvik eru þau að á árinu 1989 ritaði gagnáfrýjandi nafn sitt sem útgefandi á víxileyðublað, sem var óútfyllt að öðru leyti. Gerði hún það að beiðni bróður síns, sem um það leyti stofnaði tékkareikning hjá aðaláfrýjanda. Bróðir hennar ritaði nafn sitt á eyðublaðið sem samþykkjandi og afhenti það síðan aðaláfrýjanda til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningnum. Var yfirdráttarheimild á reikningnum í upphafi 100.000 krónur. Er ekki ágreiningur um að áritun gagnáfrýjanda var gerð í því skyni að hún ábyrgðist yfirdrátt á reikningi þessum.

 Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var yfirdráttarheimildin óbreytt fram á mitt ár 1995, en hækkaði eftir það í nokkrum áföngum uns hún stóð í 3.705.000 krónum í júní 1997. Var heimildin felld niður í september það ár. Ekki er ágreiningur um að aðaláfrýjandi leitaði hvorki samþykkis gagnáfrýjanda fyrir þessum hækkunum né tilkynnti henni um þær. Í mars 1999 var áðurnefnt víxileyðublað útfyllt af aðaláfrýjanda. Var útgáfudagur tilgreindur 17. mars 1999, gjalddagi 7. apríl sama árs og fjárhæð 3.830.379 krónur. Með bréfi 17. mars 1999 tilkynnti aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda að tékkareikningnum hefði verið lokað og næmu vanskil ásamt kostnaði 4.070.329,42 krónum. Var skorað á hana sem ábyrgðarmann að greiða þá fjárhæð. Óumdeilt er að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem aðaláfrýjandi tilkynnti gagnáfrýjanda um stöðu reikningsskuldarinnar.

 Með stefnu 14. apríl 1999 höfðaði aðaláfrýjandi mál á hendur gagnáfrýjanda til heimtu skuldar samkvæmt víxlinum. Var málið rekið sem víxilmál á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnáfrýjandi tók til varna í málinu og bar meðal annars fyrir sig atriði, sem lutu að lögskiptum að baki víxlinum. Skoraði hún á aðaláfrýjanda að heimila henni að koma þeim vörnum að í víxilmálinu. Því hafnaði aðaláfrýjandi. Mun dómur hafa gengið í málinu 14. júlí 2000, þar sem gagnáfrýjandi var dæmd til að greiða víxilfjárhæðina með dráttarvöxtum og málskostnað. Innti hún af hendi greiðslu samkvæmt dóminum með tékka að fjárhæð 5.242.498 krónur, sem innleystur mun hafa verið af aðaláfrýjanda 2. október 2000. Höfðaði hún mál þetta með stefnu 15. maí 2001 og var það þingfest 31. sama mánaðar. Voru dómkröfur hennar jafn háar framangreindri greiðslu, en að auki krafði hún gagnáfrýjanda um 202.748 krónur, sem hafi verið kostnaður hennar vegna málsvarnar í framangreindu víxilmáli.

II.

Ljóst er af málatilbúnaði gagnáfrýjanda að mál þetta er höfðað til heimtu skaðabóta á grundvelli 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91/1991 vegna tjóns, sem hún telur sig hafa orðið fyrir við að fara á mis við að koma að vörnum í áðurnefndu víxilmáli.

Aðilar deila um hvað falist hafi í ábyrgð þeirri, sem aðaláfrýjandi veitti með áritun sinn á víxileyðublaðið 1989 til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningi bróður síns, svo og hvort sú ábyrgð sé niður fallin eða hvort unnt sé að víkja henni til hliðar.

Ekkert er fram komið í málinu um að ábyrgð gagnáfrýjanda á fyrrgreindum yfirdrætti hafi verið tímabundin. Verður því ekki fallist á að hún sé fallin niður vegna þess tíma, sem leið frá því að hún var veitt og þar til gengið var að gagnáfrýjanda í skjóli hennar.

Eins og að framan greinir var yfirdráttarheimildin, sem ábyrgðinni var ætlað að tryggja, í upphafi 100.000 krónur. Var það sú hámarksfjárhæð yfirdráttar, sem ábyrgðin gat náð til þegar hún var veitt. Gagnáfrýjandi mátti treysta því að sú heimild yrði ekki hækkuð á hennar áhættu án þess að samþykkis hennar yrði leitað. Verður ábyrgð hennar eins og atvikum er háttað ekki skýrð með rýmkandi hætti þannig að hún verði látin ná til þeirrar hækkunar, sem síðar varð á yfirdráttarheimild á tékkareikningnum. Samkvæmt því verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 5.142.498 krónur vegna fyrri liðar kröfugerðar hennar. Er það sú fjárhæð, sem gagnáfrýjandi innti af hendi 2. október 2000 til fullnustu dómi í fyrrgreindu víxilmáli, að frádregnum 100.000 krónum, sem var hámark þeirrar ábyrgðar, sem hún tókst á herðar samkvæmt framansögðu. Verður aðaláfrýjandi að bera hallann af því að ekki liggja fyrir upplýsingar um hver hluti vaxta og kostnaðar, sem innifalinn var í fjárhæð þeirri sem gagnáfrýjandi innti af hendi 2. október 2000, varðar framangreindar 100.000 krónur af yfirdrættinum.

Samkvæmt gögnum málsins nam kostnaður gagnáfrýjanda við að taka til varna í framangreindu víxilmáli 202.748 krónum. Telur hún það hluta af tjóni sínu við að koma ekki að efnisvörnum í málinu og gerir kröfu um að aðaláfrýjandi bæti sér það. Í ljósi þess að gagnáfrýjanda var nauðsynlegt að láta á það reyna hvort aðaláfrýjandi samþykkti að frekari varnir en um getur í 118. gr. laga nr. 91/1991 kæmust að í málinu verður ekki litið svo á að þessi kostnaður hafi verið óþarfur. Verður því fallist á þennan kröfulið. Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 5.345.246 krónur með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi málsins í héraði, eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki liggur fyrir að gagnáfrýjandi hafi fyrr en þá krafið aðaláfrýjanda um greiðslu þessarar skaðabótakröfu sinnar.

Aðaláfrýjandi skal greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Sparisjóður Ólafsfjarðar, greiði gagnáfrýjanda, Sigrúnu Konráðsdóttur, 5.345.246 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. maí 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. janúar 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 9. janúar s.l., hefur Sigrún Konráðsdóttir, Hraunbergi 9, Reykjavík, höfðað hér fyrir dómi gegn Sparisjóði Ólafsfjarðar, Aðalgötu 14, Ólafsfirði.

Dómkröfur stefnanda eru, að stefndi greiði henni kr. 5.242.498,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 2. október 2000 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar vegna máls þessa og einnig kostnaðar vegna málsvarnar í víxilmáli stefnda gegn henni kr. 202.748,-.

Dómkröfur stefnda eru aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða honum málskostnað.  Til vara krefst stefndi þess, að krafa stefnanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Í máli þessu deila aðilar um efni og gildi umboðs, sem stefnandi gaf stefnda með nafnritun á víxileyðublað, en eyðublaðið var ætlað til tryggingar á yfirdráttarheimild á tékkareikningi bróður stefnanda hjá stefnda.

Málsatvik eru þau, að árið 1989 ritaði stefnandi, að ósk bróður síns Gottliebs, nafn sitt á víxileyðublað, sem útgefandi og framseljandi.  Gottlieb sjálfur ritaði á eyðublaðið sem samþykkjandi.  Víxileyðublaðið var að öðru leyti óútfyllt.  Það var síðan með vitund stefnanda afhent stefnda til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningi Gottliebs nr. 1403 hjá sjóðnum.  Var fjárhæð yfirdráttar á umræddum reikningi í upphafi kr. 100.000,-. 

Yfirdráttarfjárhæð áðurnefnds reiknings stóð óbreytt allt til ársins 1995, en á miðju því ári var hún hækkuð nokkuð og þann 30. október 1995 stóð hún í kr. 500.000,-.  Þann 15. apríl 1996 var heimildin síðan hækkuð í kr. 1.500.000,- og þann 30. desember s.á. í kr. 3.300.000,-.  Á árinu 1997 var heimildin hækkuð í tvígang og eftir síðari hækkunina, þann 3. júní 1997, stóð hún í kr. 3.705.000,-.  Ástæður hinna miklu hækkana á heimildinni 15. apríl 1996 og 30. desember s.á. voru þær, að greitt var út af tékkareikningnum til að koma tilteknum skuldbindingum Gottliebs við stefnda, sem voru í vanskilum, í skil.

Snemma árs 1999 lokaði stefndi á öll viðskipti við Gottlieb.  Í kjölfarið var lokið við útfyllingu áðurnefnds víxileyðublaðs af Magnúsi D. Brandssyni núverandi sparisjóðsstjóra stefnda og það gert að fullgildum víxli.  Var útgáfudagur ritaður 17. mars 1999 og gjalddagi 7. apríl 1999.  Fjárhæð víxilsins var rituð kr. 3.830.379,-.

  Lögmaður stefnda sendi stefnanda innheimtubréf í mars 1999 og skoraði á hana að greiða kr. 4.070.329,42 vegna umræddrar tékkareikningsskuldar og víxilábyrgðar hennar á skuldinni.  Er óumdeilt að stefndi hafi ekki fyrr en með umræddu innheimtubréfi upplýst stefnanda um stöðu yfirdráttarheimildarinnar og reikningsskuldarinnar. 

Því næst var stefnanda birt stefna í víxilmáli og var málið nr. E-255/1999 þingfest 20. maí 1999.  Við þingfestingu málsins lagði lögmaður stefnanda m.a. fram bréf bankaeftirlits Seðlabanka Íslands til viðskiptabanka og sparisjóða dags. 8. nóvember 1993 og samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða, sem undirritað var 27. janúar 1998, en að því stóðu Samband íslenskra viðskiptabanka f.h. viðskiptabanka, Samband íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Kreditkort hf., Greiðslumiðlun h.f., Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra af hálfu stjórnvalda   

Í nefndu bréfi bankaeftirlits Seðlabanka Íslands segir m.a. eftirfarandi:  „Bankaeftirlitið telur rétt að ítreka fyrri athugasemdir og beinir þeim eindregnu tilmælum til viðskiptabanka og sparisjóða að jafnhliða veitingu fyrirgreiðslu af hálfu hlutaðeigandi stofnana verði formlega og endanlega gengið frá tryggingarskjölum hennar vegna.  Séu atvik hins vegar með þeim hætti að slíkt sé ekki unnt þá verði fengið formlegt umboð til endanlegs frágangs tryggingarskjala síðar, en þess þá jafnframt gætt að endanlegur frágangur fari fram án ástæðulauss dráttar.“

Í þeim kafla samkomulagsins frá 27. janúar 1998, sem ber yfirskriftina „6. Sérákvæði um yfirdráttarlán“, segir eftirfarandi: „Sé sjálfskuldarábyrgð sett til tryggingar yfirdráttarheimild á tékkareikningi er fjármálafyrirtæki heimilt að breyta henni án samþykkis ábyrgðarmanns enda miðist ábyrgð hans við tiltekna hámarksfjárhæð. – Sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdráttarheimild tékkareiknings skal ekki nema hærri fjárhæð en sem yfirdráttarheimildinni nemur þegar ábyrgðin er veitt og ekki gilda lengur en í fjögur ár frá útgáfudegi.“ 

Lögmaður stefnanda skilaði greinargerð í víxilmálinu í júní s.á.  Var í henni skorað á stefnda að hleypa að vörnum í málinu, sem rekið var samkvæmt ákvæðum XVII. kafla einkamálalaga nr. 91, 1991.  Í greinargerðinni var því jafnframt lýst yfir af hálfu stefnanda, að höfðað yrði endurkröfumál samkvæmt 2. mgr. 119. gr. einkamálalaga, yrði vörnum ekki hleypt að.  Var málið því næst á fresti til 21. september 1999.  Við fyrirtöku þess nefndan dag lagði lögmaður stefnanda fram tvö bréf dagsett sama dag.  Var annað bréfið til Fjármálaeftirlitsins og hitt til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjórans.  Við svo búið var málinu frestað um óákveðinn tíma.

Fjármálaeftirlitið svaraði bréfi stefnanda með bréfi dags. 30. desember 1999.  Í bréfinu sagði m.a.:  „Fjármálaeftirlitið telur almennt eðlilegt og í samræmi við góða bankasiði að formlega sé gengið frá tryggingarskjölum vegna fyrirgreiðslu viðskiptabanka og sparisjóða þegar hún er veitt.  Séu aðstæður með þeim hætti að slíkt reynist ekki unnt ber hlutaðeigandi stofnun að tryggja sér formlegt umboð til endanlegs frágangs tryggingarskjala, sbr. dreifibréf bankaeftirlits Seðlabanka Íslands sem sent var til viðskiptabanka og sparisjóða þann 8. nóvember 1993.  Fjármálaeftirlitið telur að sparisjóðnum hefði borið að bæta úr þeim umboðsskorti sem hér um ræðir. – Fjármálaeftirlitið telur einnig að hækkun yfirdráttarheimildarinnar án þess að ábyrgðarmanni sé gerð grein fyrir því, samrýmist ekki eðlilegum viðskiptaháttum viðskiptabanka og sparisjóða.  Jafnframt hafi sparisjóðnum borið að tilkynna ábyrgðarmanni um stöðu vanskila fyrr en gert var, sbr. m.a. samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða sem undirritað var 27. janúar 1998. ..... Umrædd ábyrgð stóð eðli máls samkvæmt til tryggingar á yfirdrætti á tékkareikningi Gottliebs.  Fjármálaeftirlitið telur því óeðlilegt af hálfu sparisjóðsins að láta fyrrgreinda ábyrgð standa til tryggingar á gjaldföllnum afborgunum óskildra skuldbindinga Gottliebs gagnvart sparisjóðnum. – Með hliðsjón af framansögðu telur Fjármálaeftirlitið að umrædd ábyrgð ráðstöfun sparisjóðsins á skuldbindingum Gottliebs sé ekki í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.“

Við aðalmeðferð víxilmálsins þann 30. júní 2000 lýsti lögmaður stefnda því yfir, í tilefni af fyrirspurn dómara, að stefndi hafnaði því að hleypa að öðrum vörnum í málinu, en heimilar væru í málum, sem rekin væru samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91, 1991.  Dómur í málinu var kveðinn upp 14. júlí 2000 og var stefnandi dæmd til að greiða stefnda kr. 3.830.379,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 7. apríl 1999 til greiðsludags og kr. 401.508,- í málskostnað.  Stefnandi greiddi stefnda samkvæmt niðurstöðu dómsins kr. 5.242.498,- með tékka sem sendur var lögmanni stefnda og innleystur 2. október 2000.

 Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir fjártjóni, sem nemi stefnufjárhæðinni, þar sem hún hafi orðið að greiða stefnda víxilkröfu, sem hún sé ekki ábyrg fyrir.  Hún beri ekki ábyrgð á skuld Gottliebs bróður síns á tékkareikningi nr. 1403 hjá stefnda.  Hún hafi á árinu 1989 ábyrgst yfirdráttarheimild á einkareikningi hans að fjárhæð allt að kr. 100.000,-.  Sú ábyrgð sé löngu niður fallin og nemi sannanlega ekki fjörutíufaldri upphaflegri ábyrgðarfjárhæð.  Engin sönnunargögn bendi til slíkrar ábyrgðar.

Þá byggir stefnandi á því, að ósanngjarnt sé að sparisjóðurinn beri fyrir sig meinta ábyrgð hennar og vísar til þess að stefndi sé fjármálastofnun sem beri a.m.k. að tryggja, að skuldbindingum, sem ætlað sé að gilda um langan tíma og nái til hárra fjárhæða, sé haldið til haga með sannanlegum hætti.  Vísar stefnandi um þetta til álits Fjármálaeftirlitsins er fram kemur í bréfi, dags. 30. desember 1999.

Stefnandi kveður Gottlieb m.a. hafa haft atvinnurekstur með höndum í Ólafsfirði og verði ekki betur séð en hinn mikli yfirdráttur hin síðari ár á umræddum tékkareikningi hafi tengst rekstrinum og að því er virðist, óeðlilegum lánveitingum fyrrum sparisjóðsstjóra án fullnægjandi trygginga.  Umræddur sparisjóðsstjóri hafi farið frá og hafi efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans haft meint umboðssvik hans gagnvart stjórn sparisjóðsins til rannsóknar.

Stefnandi kveðst engin tök hafa haft á að fylgjast með notkun tékkareikningsins og yfirdráttarheimildar á honum.  Sannað sé að reikningurinn hafi ekki verið í notkun síðustu ár.  Hins vegar hafi yfirdráttarheimildin verið hækkuð jafnt og þétt á undanförnum árum og kaup á skuldaskjölum Gottliebs farið í gegnum reikninginn, greitt hafi verið út af honum aftur, að því er næst verður komist vanskilaskuldir við stefnda, en mismunur þessa hafi enn aukið á yfirdráttarskuldina.

Eftir að fyrrum sparisjóðsstjóri lét af störfum sumarið 1997, hafi yfirdráttarheimild Gottliebs verið felld niður, þ.e. haustið 1997.  Stefnandi hafi enga vitneskju fengið um það frá stefnda, frekar en annað viðvíkjandi þessum viðskiptum.  Það hafi fyrst verið með bréfi lögmanns sparisjóðsins í mars 1999, sem henni hafi borist vitneskja um að sjóðurinn hefði í hyggju að nota hinn umdeilda tryggingarvíxil.

Stefnandi kveður óhjákvæmilegt, með vísan til ógildingarákvæða samningalaga, að líta til aðstæðna stefnanda nú og þegar hún hafi, 24 ára að aldri, ritað undir eyðuvíxilinn. Stefnandi hafi stundað nám við ritaraskólann til ágústmánaðar 1987, en eftir það farið að vinna við almenn skrifstofustörf.  Hún hafi einnig verið heimavinnandi, en hún eigi þrjú börn, fædd 1986, 1991 og 1993.  Hún hafi í upphafi búskapar síns búið að Stuðlaseli 15, en staðið í húsbyggingu að Þingási 16 í Reykjavík frá árinu 1988 til ágústmánaðar 1989.  Búið þar í rúmt ár en flutt svo með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar, þar sem hún hafi búið í fimm ár, eða til ársins 1995, er fjölskyldan flutti aftur til Íslands. 

Í ljósi ofangreinds kveður stefnandi það fráleitt að hún hafi tekið á sig ábyrgð á yfirdráttarskuld bróður síns af þeirri stærðargráðu, sem henni hafi tíu árum síðar verið stefnt til greiðslu á.  Leggja verði á það ríka áherslu, að stefnandi hafi aldrei fengið neitt að vita um skuldastöðu Gottliebs við stefnda á umræddum tékkareikningi allan þann tíma sem liðið hafi frá því að hún ritaði undir víxileyðublaðið og þar til hún fékk bréf lögmanns sparisjóðsins, skömmu fyrir stefnu í víxilmálinu.  Hún hafi ekki tekið á sig neinar aðrar ábyrgðir fyrir hann á þeim tíma sem hún ritaði undir víxileyðublaðið og hafi ekki verið í ábyrgðum fyrir hann síðan.

Við mat á því hvað sé sanngjarnt af hálfu stefnda gagnvart stefnanda, varðandi það að krefja hana um greiðslu víxilskuldarinnar, beri að líta til stöðu sjóðsins sem fjármálastofnunar.  Einnig beri að horfa til þess, að líkur bendi óneitanlega til að fyrrum sparisjóðsstjóri hafi farið út fyrir umboð sitt í lánveitingum til viðskiptamanns síns með þeim afleiðingum, að yfirdráttur varð svo hár sem raun ber vitni á umræddum tékkareikningi.  Þá beri að líta til þess, að stefndi gerði ekki reka að því í tíu ár að upplýsa stefnanda um stöðu reikningsins eða benda henni á hina óvenjulega víðtæku ábyrgð, sem sjóðurinn taldi hana bera á skuldinni á hverjum tíma. 

Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir kveðst stefnandi byggja á því, að ábyrgð hennar geti ekki verið hærri en yfirdráttarheimildin var á sínum tíma.  Engum líkum hafi verið leitt að því, að umboð stefnda hafi verið víðtækara og vísar stefnandi um þetta til dómafordæma um hliðstæðar ábyrgðir.  Kveður stefnandi stefnda alfarið bera sönnunarbyrðina um efni umboðsins.

Stefnandi kveðst hafa boðað höfðun máls þessa í greinargerð í víxilmáli stefnda gegn stefnanda, féllist sjóðurinn ekki á að varnir um viðskipti að baki víxlinum kæmust að í því máli, sbr. 1. og 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Til stuðnings þeirri málsástæðu, að ábyrgð stefnanda, hafi hún verið fyrir hendi í upphafi, sé fyrir löngu fallin niður vegna þess hversu langt stefndi hafi farið út fyrir það sem honum var heimilað eða um samdist, vísar stefnandi til 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936.  Stefndi geti ekki borið fyrir sig slíkan samning en um það vísist til sömu sjónarmiða og fram komi í fyrirliggjandi bréfi Fjármálaeftirlitsins.  Þá vísar stefnandi einnig til annarra ákvæða III. kafla samningalaga um ógilda löggerninga, sérstaklega neytendaákvæðanna í 36. gr. a-d, svo og 33. gr.

Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91, 1991.  Vísar stefnandi sérstaklega til þess, að stefndi hafi hafnað því að efnisvarnir kæmust að í áðurnefndu víxilmáli, en í greinargerð stefnda í því máli hafi verið lýst yfir, að gerð yrði krafa um bætur vegna kostnaðar af málarekstri í víxilmálinu.  Stefnandi kveður fullkomlega hafa verið réttlætanlegt að taka til varna um önnur atriði en heimiluð séu skv. 118. gr. laga 91, 1991, sbr. 1. mgr. 119. gr. laganna.  Um málskostnað í því máli sem nú sé til úrlausnar vísist til 130. gr. einkamálalaga.

 Stefndi kveður að í undanfarandi víxilmáli, sem rekið hafi verið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91, 1991, hafi því verið hafnað af hálfu sjóðsins, að varnir kæmust að umfram það sem gert sé ráð fyrir í 118. gr. laganna.  Heldur stefndi því fram að í þessu máli, sem rekið sé með vísan til 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91, 1991, verði stefnandi að sýna fram á, að það leiði til skaðabótaskyldu stefnda að hún hafi ekki fengið að koma að vörnum í víxilmálinu umfram það sem gert sé ráð fyrir í 118. gr. laganna.  Ekki verði séð að málsástæður stefnanda í málinu séu á því byggðar, að ef efnisvarnir hefðu komist að hefðu þær leitt til sýknu í fyrra málinu.  Svo virðist sem mál þetta sé höfðað sem almennt skaðabótamál og verði stefnandi því að sýna fram á saknæma háttsemi starfsmanna stefnda við meðferð víxilsins.

Stefndi mótmælir því að það eitt, að langur tíminn var liðinn frá því að víxileyðublaðið var afhent stefnda, geti orðið til þess, að ábyrgð stefnanda falli niður.  Fjöldi dóma hafi gengið varðandi útfyllingu viðskiptabanka á víxileyðublöðum, sem afhent hafi verið löngu áður en þau voru fyllt út.  Undantekningarlaust hafi dómar fallið þannig, að útfylling víxileyðublaðanna hafi verið talin heimil.  Í ljósi þessa virðist langsótt að líta svo á, að ábyrgð stefnanda hafi fallið niður fyrir það eitt, að langt var um liðið síðan víxileyðublaðið var afhent.  Hér verði að hafa í huga, að ekkert tilefni hafi verið til þess að láta á ábyrgð stefnanda reyna fyrr en yfirdráttarheimildin var felld niður í september 1997.  Í kjölfarið hafi stefndi samið við bróður stefnanda um greiðslu skuldarinnar, en Gottlieb ekki efnt þann samning.  Sé þetta skýring þess að ekki hafi verið hafnar innheimtuaðgerðir fyrr en raun bar vitni.

Kveður stefndi þann hátt, sem hafður var á um tryggingu á yfirdrætti á umræddum tékkareikningi, hafa verið þann, sem almennt var tíðkaður hjá bönkum og sparisjóðum.  Það sé eðli þessa forms trygginga, að verið sé að tryggja óákveðna skuld eða þann yfirdrátt, sem á hverjum tíma sé á tékkareikningi. Sé því ekkert í vegi, að takmarka ábyrgðir sem þessar, standi vilji hlutaðeigandi til þess.  Í umræddu tilviki hafi það hins vegar ekki verið gert og af þeim sökum verði því ekki borið við, að ábyrgðin hafi sjálfkrafa fallið niður.

Stefndi kveður ábyrgð ekki geta fallið niður af  þeim sökum, að ósanngjarnt sé að bera hana fyrir sig, en væntanlega sé hægt að vísa til ósanngirni í flestum þeim tilvikum, sem reynir á ábyrgð eins vegna skulda annars.  Í því tilviki sem hér um ræði hafi stefnandi auðveldlega getað fylgst með þeim viðskiptum bróður síns við stefnda, sem varðað hafi tékkareikninginn, og þannig kynnt sér stöðu hans á hverjum tíma og eftir atvikum gripið til ráðstafana til að takmarka ábyrgð sína.  Það hafi stefnandi hins vegar ekki gert og því hafi stefndi verið í fullum rétti þegar hann fyllti út víxileyðublaðið, en til þess hafi hann haft fullt umboð, sbr. það sem rakið hefur verið og 10. gr. víxillaga nr. 93, 1933. 

Ágreiningslaust sé, að víxlinum hafi þegar í upphafi verið ætlað að vera til tryggingar yfirdrætti á títtnefndum tékkareikningi.  Þá virðist það einnig ágreiningslaust, að fjárhæð sú, sem færð var á víxileyðublaðið, hafi verið skuld á þessum sama reikningi.  Af þessu verði óhjákvæmilega dregin sú ályktun, að ábyrgð stefnanda hafi verið í fullu gildi þegar hún var dæmd til að greiða víxilinn og því geti stefndi ekki orðið skaðabótaskyldur á þeim forsendum, að stefnandi hafi ekki fengið að koma að vörnum í víxilmálinu, sbr. 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91, 1991, enda komi ekki fram í stefnu hvaða varnir það séu nákvæmlega sem hún kom ekki að og vörðuðu form víxilsins eða viðskipti að baki honum.

Vegna tilvísunar stefnanda til 36. gr. laga nr. 7, 1936 tekur stefndi fram, að sá háttur, sem hafður var á við tryggingar að baki tékkareikningnum, hafi verið sá sem venjulega var tíðkaður af bönkum og sparisjóðum.  Megi vísa til fjölda dómsmála þar sem skorið hafi verið úr ágreiningi um heimild innlánsstofnana til að fylla út „tryggingarvíxla“(sic).  Kveður stefndi eðlilegt að líta á „tryggingarvíxla“ sem venjulegt form trygginga í viðskiptum sem þessum.  Það sé því hæpið að líta svo á, að meðferð víxilsins af hálfu stefnda hafi verið andstæð góðri viðskiptavenju.  Hafa verði í huga, að aðferð þessi við tryggingar að baki tékkareikningum hafi undantekningarlítið verið notuð af bönkum og sparisjóðum, bæði að því er varðaði einstaklinga og fyrirtæki, þar til á árinu 1998.  Þá hafi þessu formi verið breytt þannig að við víxlana hafi verið fest umboð og einnig hafi verið farið að nota yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgðir.  Enn þann dag í dag sé ekki tíðkað að tilkynna ábyrgðarmönnum um breytingar á yfirdráttarheimildum á tékkareikningum þannig að ekki verði séð, að sú aðferð, sem stefndi viðhafði í umræddu tilviki, sé í ósamræmi við venjur á þessu sviði.  Í ljósi þessa verði því varla talið, að um saknæma háttsemi hafi verið að ræða, sem valdið geti skaðabótaábyrgð stefnda.

Kveður stefnda svo virðast sem 36. gr. a laga nr. 7, 1936 eigi ekki við í þessu tilfelli verði því varla litið á stefnanda sem neytanda eins og það hugtak sé skilgreint í ákvæðinu.

Þar sem í stefnu komi ekki fram hvernig 33. gr. laga nr. 7, 1936 geti átt við í málinu lætur stefndi við það sitja, að mótmæla því að á henni verði byggt í málinu.

Hvað varakröfu sjóðsins varðar þá kveður stefndi svo virðast sem stefnandi, sem og Fjármálaeftirlitið, byggi að einhverju leiti á því, að ekki hafi verið eðlilegt að skuldfæra umræddan tékkareikning fyrir afborgunum af lánum Gottliebs hjá stefnda.  Þannig virðist nefndir aðilar gera greinarmun á því hvað sé greitt af reikningnum.  Kveður stefndi það mjög langsótt ef kanna þurfi sérstaklega hvernig standi á yfirdrætti á tékkareikningi þegar meta eigi hvort ábyrgð sé í gildi eða hvort heimilt sé að ógilda hana að hluta þannig að hún taki aðeins til sumra úttekta en ekki annarra.  Þetta sé ekki vinnandi vegur og þó að upplýst sé í þessu tilviki, að greitt hafi verið af lánum Gottliebs með því að skuldfæra reikninginn þá teji stefndi að það eigi ekki að hafa áhrif á ábyrgð stefnanda.  Bendir stefndi á, að þann 31. desember 1996 séu skuldfærðar afborganir á reikning Gottliebs, en á sama tíma sé keyptur víxill inn á reikninginn þannig að raunveruleg skuldfærsla sé rúmlega kr. 1.500.000,-.

Stefndi kveður framlagt „Samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða“, dags. 27. janúar 1998, hafa tekið gildi 1. maí s.á., en fyrir þann tíma hafi engar almennar reglur gilt varðandi meðferð ábyrgða og samskipti við ábyrgðarmenn í bankakerfinu.  Telur stefndi að gagnálykta megi frá 1. mgr. 6. gr. reglnanna, en  í málsgreininni komi fram, að ef yfirdráttur sé hækkaður og ábyrgð ekki fyrir ákveðinni upphæð þá beri að tilkynna ábyrgðarmanninum um hækkunina.  Í því tilviki sem mál þetta fjalli um hafi heimild á reikningnum ekki verið hækkuð eftir 1. maí 1998.  Hins vegar megi halda því fram, að eftir að reglurnar tóku gildi hafi stefndi átt að tilkynna um vanskil á tékkareikningnum vegna þess að yfirdráttarheimild var þá fallin niður.  Samkvæmt yfirliti sem liggi fyrir í málinu hafi yfirdráttur á reikningnum þá verið kr. 4.035.903,- svo ekki verði séð að dráttur á að tilkynna stefnanda um vanskilin hafi valdið henni tjóni.  Ástæða þess að ekki var tilkynnt um vanskilin hafi hins vegar verið sú, að Gottlieb samdi við stefnda um greiðslu á hluta á yfirdrættinum og stóð nokkurn veginn við samning sinn á árinu 1998 með því að borga inn á reikninginn kr. 600.000,-.

Stefndi kveður fram koma á dómskjali nr. 15, að heimild Gottliebs á tékkareikningnum hafi verið felld niður 20. september 1997, en skuld á reikningnum hafi þá numið kr. 3.881.198,-.  Hugsanlega hefði stefndi átt að tilkynna stefnanda um vanskil Gottliebs þegar heimildin var felld niður, en þá hafi reikningsskuldin verið hærri en stefnukröfur í víxilmálinu.  Fyrr hafi ekkert tilefni verið til að tilkynna stefnanda um stöðu reikningsins.  Samkvæmt framansögðu liggi hins vegar ljóst fyrir, að stefnandi varð ekki fyrir fjárhagslegu tjóni af því að fá ekki tilkynningu um vanskilin fyrr en raun varð á.

Mótmælir stefndi því sérstaklega að hann verði dæmdur til að greiða málskostnað stefnanda í víxilmálinu enda hafi varnir í því eingöngu byggst á málsástæðum, sem ekki hafi komist að í því máli.  Þá mótmælir stefndi því jafnframt sérstaklega, að ábyrgð stefnanda hafi verið takmörkuð við upphaflega yfirdráttarheimild eða kr. 100.000,- enda ekkert fyrirliggjandi í málinu sem bendi til þess.

Fyrir liggur að stefnandi ritaði nafn sitt á hið umdeilda víxileyðublað árið 1989 að beiðni bróður síns, Gottliebs Konráðssonar, vitandi það, að eyðublaðið væri ætlað til tryggingar á yfirdráttarheimild Gottliebs á tékkareikningi nr. 1403 hjá stefnda.  Með því veitti stefnandi stefnda samkvæmt meginreglum víxilréttar umboð til að ljúka útfyllingu víxileyðublaðsins og gera það að fullgildum víxli.

Ekkert hefur komið fram um að stefnandi hafi í tengslum við umboðsgjöfina takmarkað ábyrgð sína sérstaklega við ákveðna fjárhæð eða bundið umboð sitt tímamörkum.  Þykir því verða að slá því föstu, að stefnandi hafi gefið stefnda ótakmarkað umboð til að færa inn á víxileyðublaðið þá fjárhæð, sem yfirdráttarskuld Gottliebs stóð í á útfyllingardegi eyðublaðsins.

Í 1. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7, 1936 segir, að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.  Hið sama eigi við um aðra löggerninga.  Í 2. mgr. segir síðan, að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.

Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til stefnanda, dags. 30. desember 1999, kom fram það álit stofnunarinnar, að ráðstafanir stefnda á skuldum Gottliebs hefðu ekki verið í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.  Gerði stofnunin jafnframt athugasemdir við skuldfærslur, hækkun yfirdráttarheimildar án tilkynningar til ábyrgðarmanns og umboðsskort til endanlegs frágangs tryggingarskjalsins.  Studdi Fjármálaeftirlitið álit stofnunarinnar m.a. við bréf bankaeftirlits Seðlabanka Íslands til viðskiptabanka og sparisjóða, dags. 8. nóvember 1993, og samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða, sem undirritað var 27. janúar 1998, en nefnd gögn innihalda m.a. fyrirmæli um stofnun ábyrgðarskuldbindinga og meðferð lánastofnana á þeim.

Við mat á því hvort víkja megi til hliðar umboðinu frá 1989 þykir verða að miða við stöðu mála í mars 1999 þegar núverandi sparisjóðsstjóri stefnda lauk við útfyllingu víxileyðublaðsins, sbr. þau orð 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7, 1936 að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli m.a. líta til atvika sem síðar komu til, en það var ekki fyrr en nefndan dag sem stefndi nýtti sér umboð stefnanda. 

Óumdeilt er að á árinu 1995 hóf Gottlieb Konráðsson atvinnurekstur, en hann hafði áður verið launamaður.  Liggur fyrir að áðurnefndur tékkareikningur var nýttur í atvinnurekstri Gottliebs og hafa miklar líkur verið að því leiddar, að a.m.k. hluta skuldarinnar á tékkareikningnum megi rekja til þess reksturs.

Upplýst er að á árinu 1996 voru skuldfærðar á tékkareikninginn verulegar fjárhæðir, sem nýttar voru til greiðslu á öðrum skuldbindingum Gottliebs við stefnda, en þær skuldbindingar voru stefnanda með öllu óviðkomandi.

Samkvæmt gögnum málsins var yfirdráttarheimild á umræddum tékkareikningi óbreytt í á sjötta ár eftir að stefnandi veitti stefnda nefnt umboð.

Þá er það staðreynd, að stefnandi var fyrst upplýst um stöðu reikningsskuldarinnar og hinnar meintu ábyrgðar sinnar með bréfi lögmanns stefnda í mars 1999, eða um 10 árum eftir að hún veitti sjóðnum títtnefnt umboð með nafnritun sinni á víxileyðublaðið. Var þetta bréf fyrstu eiginlegu samskipti málsaðila vegna ábyrgðar stefnanda.

Þegar horft er til ofantalinna atriða þykir með hliðsjón af bréfi bankaeftirlits Seðlabanka Íslands til viðskiptabanka og sparisjóða, dags. 8. nóvember 1993, samkomulags um notkun sjálfskuldarábyrgða, einkum sjötta kafla samkomulagsins, sem undirritað var 27. janúar 1998 og bréfs Fjármálaeftirlitsins til stefnanda, dags. 30. desember 1999, hafa verið ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að nýta hið umþrætta umboð til útfyllingar víxileyðublaðsins í mars 1999.  Víkja ber umboðsgerningnum því til hliðar í heild með vísan til 36. gr. laga nr. 7, 1936.  Af þessari niðurstöðu dómsins leiðir, að stefnandi ber enga ábyrgð á skuld Gottliebs á tékkareikningi nr. 1403 hjá stefnda, sem honum var gert að greiða í máli nr. E-255/1999.

Stefndi hefur ekki gert tölulegar athugasemdir við kröfugerð stefnanda.  Af málatilbúnaði stefnanda verður skýrlega ráðið að hún byggi skaðabótakröfu sína á því, að hún hafi í máli nr. E-255/1999 ekki komið að þeim vörnum, sem dómurinn hefur nú að hluta til fallist á, vegna ákvæða 118. gr. laga nr. 91, 1991.  Vísar stefnandi til 2. mgr. 119. gr. nefndra laga til stuðnings bótakröfu sinni.  Að fenginni ofangreindri niðurstöðu þykir stefnandi eiga rétt á skaðabótum úr hendi stefnda með vísan til nefndrar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 91, 1991 og eru þær bætur réttilega ákvarðaðar sem sú fjárhæð, er stefnandi greiddi stefnda á grundvelli dómsins í máli nr. E-255/1999, kr. 5.242.498,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 með síðari breytingum frá 2. október 2000 til og með 30. júní 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Varnir stefnanda í máli nr. E-255/1999 byggðust eingöngu á málsástæðum, sem ekki komust að í því máli vegna afstöðu stefnda, er nýtti sér heimildir sínar samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91, 1991, einkum 118. gr. laganna.  Að athuguðum nefndum ákvæðum, og að teknu tilliti til ágreiningsefnis máls þessa, þykir stefnanda ekki hafa tekist að rökstyðja með fullnægjandi hætti kröfu um málskostnað vegna umrædds víxilmáls. 

Með vísan til úrslita máls þessa dæmist stefndi til greiðslu málskostnaðar er hæfilega þykir ákvarðaður kr. 750.000,-.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Sparisjóður Ólafsfjarðar, greiði stefnanda, Sigrúnu Konráðsdóttur, kr. 5.242.498,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 með síðari breytingum frá 2. október 2000 til og með 30. júní 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 750.000,- í málskostnað.