Hæstiréttur íslands
Mál nr. 421/2011
Lykilorð
- Afleiðusamningur
- Vanefnd
- Riftun
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2012. |
|
Nr. 421/2011.
|
Glitnir hf. (Andri Árnason hrl. Guðmundur Ingvi Sigurðsson hdl.) gegn Marel hf. (Gestur Jónsson hrl.) |
Afleiðusamningur. Vanefndir. Riftun. Uppgjör.
G hf. og M hf. gerðu árið 2006 með sér fimm samninga um afleiðuviðskipti, svonefnda gjaldmiðlaskiptasamninga. Síðla árs 2008 skipaði fjármálaeftirlitið G hf. slitastjórn og félaginu var síðar veitt heimild til greiðslustöðvunar, en í kjölfar þess deildu málsaðilar um uppgjör samninganna. Báru aðilarnir undir dómstóla ágreining sinn um hvaða aðferð bæri að beita við uppgjörið, en þeir höfðu áður komist að samkomulagi um önnur atriði þar að lútandi. Talið var að beita bæri svonefndri uppsöfnunaraðferð, enda miðaði hún að því að gera G hf. eins settan og ef M hf. hefði rift samningum aðilanna í samræmi við almennar reglur, en sú var og talin raunin í lögskiptum aðilanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.920.181,31 evru með 6% ársvöxtum frá 3. febrúar 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var nafni áfrýjanda breytt úr Glitni banka hf. í Glitni hf.
I
Í máli þessu greinir aðila á um uppgjör fimm svonefndra gjaldmiðlaskiptasamninga. Samningar þessir voru gerðir á tímabilinu frá 5. apríl til 28. desember 2006, en lokadagur þeirra allra skyldi vera 8. febrúar 2012. Samkvæmt hverjum þessara samninga um sig átti áfrýjandi við upphaf samningstímans að greiða stefnda tiltekna fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum, sterlingspundum í fyrsta samningnum en evrum í hinum fjórum, gegn greiðslu stefnda á tiltekinni fjárhæð í íslenskum krónum. Á lokadegi hvers samnings skyldu þessi gjaldmiðlaskipti snúast við þannig að áfrýjandi greiddi stefnda sömu fjárhæð í íslenskum krónum sem hann hafði fengið í upphafi samningstímans gegn greiðslu stefnda á þeirri fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, sem í hans hlut hafði komið í upphafi. Jafnframt var samið um tilteknar vaxtagreiðslur af þessum fjárhæðum á samningstímanum. Þannig átti stefndi að greiða fastan hundraðshluta, sem var tilgreindur í hverjum samningi, af höfuðstólnum í erlendum gjaldmiðli í einu lagi á lokadegi samninganna 8. febrúar 2012. Áfrýjandi skyldi hins vegar greiða 6% ársvexti af höfuðstól kröfunnar í íslenskum krónum, sem bundinn yrði vísitölu neysluverðs. Þessa vexti átti áfrýjandi að greiða á sex mánaða fresti á samningstímanum, 8. febrúar og 8. ágúst ár hvert. Í samningunum var kveðið á um að almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti í Glitni banka hf. ættu að gilda um þá, svo og almennir skilmálar um vaxta- og gjaldmiðlaskipti útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða í febrúar 1998. Ákvæði 9. gr. og 10. gr. síðastnefndu skilmálanna eru tekin upp í heild í hinum áfrýjaða dómi.
Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék félagsstjórn frá störfum og skipaði bankanum skilanefnd í samræmi við 100 gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim lögum hafði verið breytt með lögum nr. 125/2008. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 var félaginu veitt heimild til greiðslustöðvunar.
Meðal gagna málsins eru fjögur bréf sem stefndi sendi áfrýjanda á tímabilinu frá 12. október 2008 til 4. febrúar 2009. Af þessum bréfum, svo og bréfi stefnda 18. febrúar 2011 til lögmanns félagsins þar sem samskipti aðila voru rakin, sést að fyrst eftir fall Glitnis banka hf. gerði stefndi tillögu um að öllum afleiðusamningum milli þeirra yrði lokað, en frá því í janúar 2009 lýsti stefndi þeirri afstöðu að þeir fimm gjaldmiðlaskiptasamningar, sem mál þetta snýr að, yrðu látnir gilda til loka samningstímans og efndir samkvæmt efni sínu. Á þetta féllst áfrýjandi ekki og innti hann ekki af hendi greiðslu þeirra vaxta sem voru á gjalddaga 8. febrúar 2009.
Aðilarnir komust að samkomulagi 5. maí 2009 varðandi afleiðuviðskipti sín, sem meðal annars tók til samninganna fimm sem málið varðar. Samkvæmt því átti að loka öllum samningunum og miða uppgjör þeirra við 3. febrúar 2009. Aðilar náðu á hinn bóginn ekki samkomulagi um hvorri af tveimur uppgjörsaðferðum, sem þeir nefndu annars vegar núvirðisaðferð og hins vegar uppsöfnunaraðferð, skyldi beitt við uppgjörið. Þeir lýstu sig sammála um að heildarskuld stefnda við áfrýjanda samkvæmt fyrrgreindu aðferðinni næmi 24.256.266,05 evrum en 20.336.084,74 evrum samkvæmt þeirri síðarnefndu. Aðilarnir sömdu síðan 1. desember 2009 um að leita úrlausnar dómstóla um hvorri aðferðinni skyldi beitt og greiddi stefndi þá skuld, sem hann var í við áfrýjanda miðað við svonefnda uppsöfnunaraðferð, en áfrýjandi skyldi höfða mál til heimtu þeirrar fjárhæðar sem á vantaði miðað við svonefnda núvirðisaðferð. Sá mismunur er fjárhæðin, sem hann krefst í málinu samkvæmt áðursögðu.
II
Í áðurnefndum samningum, sem aðilarnir gerðu um ágreiningsefni sín, er ekki að finna lýsingu á þeim tveimur útreikningsaðferðum við uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninganna fimm sem þeir töldu koma til greina og nefndu annars vegar núvirðisaðferð og hins vegar uppsöfnunaraðferð. Þessum aðferðum var á hinn bóginn lýst í héraðsdómsstefnu og verður ekki séð að ágreiningur sé með aðilunum um þær. Samkvæmt því byggðist svonefnd núvirðisaðferð á því að gera báða samningsaðilana eins setta og ef þeir hefðu efnt gjaldmiðlaskiptasamningana samkvæmt efni þeirra, þó þannig að allar greiðslur, sem hefði átt að inna af hendi fram að lokadegi samninganna, yrðu núvirtar miðað við umsaminn uppgjörsdag 3. febrúar 2009. Þessi aðferð gerði því í reynd ráð fyrir að áfrýjandi yrði eins settur fjárhagslega og ef lokadagur samninganna hefði ekki verið færður fram. Með svonefndri uppsöfnunaraðferð yrði hins vegar litið svo á að áfrýjandi myndi ekki standa í skilum í framtíðinni og samningarnir yrðu því gerðir upp þegar í stað miðað við stöðu þeirra 3. febrúar 2009. Að þessu leyti svipaði uppsöfnunaraðferðinni til þess að stefndi hefði rift samningunum.
Í sérstökum skilmálum einstakra gjaldmiðlaskiptasamninga aðilanna er ekki að finna ákvæði sem leitt geta til niðurstöðu um ágreining þeirra. Í almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti Glitnis Banka hf., sem vísað er til í samningunum, var að sönnu ákvæði í 2. mgr. 4. gr. um að skyldur samningsaðila samkvæmt afleiðusamningum skyldu við nánar tilteknar aðstæður jafnast hver á móti annarri, en ekki verður séð að það ákvæði skipti máli við úrlausn þess ágreinings sem hér er uppi. Eins og að framan er rakið áttu almennir skilmálar fyrir skiptasamninga frá febrúar 1998 einnig að gilda um gjaldmiðlaskiptasamninga aðilanna. Í 9. gr. skilmálanna voru ákvæði um vanefndir, en í 10. gr. um greiðslur við samningsslit. Samkvæmt ákvæðum gjaldmiðlaskiptasamninganna bar stefnda sem áður segir ekki að inna af hendi greiðslur samkvæmt þeim fyrr en á lokadegi þeirra 8. febrúar 2012. Þá er ljóst af fyrrnefndum bréfum að af hans hálfu var vilji til að samningarnir yrðu látnir gilda til lokadags og yrðu efndir eftir efni sínu. Á áfrýjanda hvíldi á hinn bóginn skylda til greiðslu vaxta tvisvar á ári á samningstímanum. Af áðurnefndu bréfi stefnda 18. febrúar 2011, en efni þess hefur að þessu leyti ekki sætt andmælum, er ljóst að í samskiptum aðilanna í janúar og febrúar 2009 kom fram að skilanefnd áfrýjanda féllst ekki á ósk stefnda um að samningarnir héldu gildi sínu. Í samræmi við þessa afstöðu greiddi áfrýjandi ekki vexti á gjalddaga þeirra 8. febrúar 2009 og voru samningarnir því vanefndir af hans hálfu. Má ljóst vera að í þessari afstöðu áfrýjanda fólst í raun riftun hans á samningunum. Samkvæmt grein 9.1 í áðurnefndum almennum skilmálum veitti vanefnd áfrýjanda á vaxtagjalddaganum 8. febrúar 2009 stefnda heimild til að rifta samningunum af sinni hálfu og skyldi sú riftun tilkynnt skriflega. Það gerði stefndi ekki, en við mat á réttaráhrifum þess verður bæði að líta til þess að fyrir lá skýr afstaða áfrýjanda til óska stefnda um að samningarnir yrðu látnir gilda áfram og að áfrýjandi naut á þessum tíma heimildar til greiðslustöðvunar, en af þeim sökum höfðu samningsákvæði um áhrif vanefnda af hans hálfu takmarkað gildi samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Áðurnefnd grein 10 í almennu skilmálunum bar fyrirsögnina: „Greiðslur við samningsslit“. Í grein 10.2, sem geymdi eftir fyrirsögn sinni ákvæði um hagnað og tap vegna markaðsaðstæðna, var lýst uppgjörsaðferð, sem beita átti til að reikna út hagnað og tap sem myndaðist hjá samningsaðilum sökum þess að samningur félli úr gildi. Ekki virðist leika vafi á því að aðferðin, sem þar var lýst, samsvari þeirri uppgjörsaðferð sem aðilarnir nefna núvirðisaðferð í samkomulagi sínu. Í grein 10.1 var meðal annars fjallað um við hvaða aðstæður beita ætti þessari uppgjörsaðferð samkvæmt grein 10.2. Í 2. mgr. greinar 10.1 sagði að félli skiptasamningur úr gildi samkvæmt samkomulagi samningsaðila skyldi reikna út hagnað og tap þeirra samkvæmt grein 10.2. Eins og að framan er rakið verður afstaða skilanefndar áfrýjanda til óskar stefnda um áframhaldandi gildi skiptasamninganna ekki skilin öðru vísi en svo að í henni hafi falist einhliða ákvörðun áfrýjanda um að loka samningunum. Gjaldmiðlaskiptasamningar aðilanna voru því ekki felldir úr gildi með samkomulagi þeirra 5. maí 2009, þar sem þeim hafði samkvæmt þessu þegar verið lokað. Ákvæði 2. mgr. greinar 10.1 í skilmálunum leiðir því ekki til þess að svonefndri núvirðisaðferð skuli beitt við uppgjör aðilanna. Í 1. mgr. greinar 10.1 var mælt svo fyrir að félli skiptasamningur úr gildi samkvæmt grein 9 í skilmálunum skyldi sá aðili, sem vanefndi samninginn, bæta þeim aðila, sem segði upp eða rifti samningnum, allt það tjón sem hann yrði fyrir, þar á meðal tap samkvæmt grein 10.2. Ljóst er að krafa áfrýjanda um beitingu svonefndrar núvirðisaðferðar verður ekki reist á þessu ákvæði, þar sem því var ætlað að tryggja þeim, sem yrði fyrir vanefnd, efndabætur úr hendi gagnaðilans, en eins og að framan segir var það áfrýjandi sem vanefndi samninga aðilanna og rifti þeim í raun. Af orðalagi greinar 10.2 verður að draga þá gagnályktun að ákvæðinu verði ekki beitt til hagsbóta þeim, sem hefur vanefnt samning, og er sú ályktun einnig í samræmi við almennar reglur fjármunaréttar um áhrif vanefnda. Í ljósi þess og þar sem svonefnd uppsöfnunaraðferð miðar að því samkvæmt málatilbúnaði aðilanna að gera áfrýjanda eins settan og ef stefndi hefði rift samningi vegna vanefnda áfrýjanda í samræmi við almennar reglur verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Glitnir hf., greiði stefnda, Marel hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2011.
Mál þetta var þingfest 31. mars 2010 og tekið til dóms 16. mars sl. Stefnandi er Glitnir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík, en stefndi er Marel hf., Austurhrauni 9, Garðabæ.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.920.181,31 evru með 6,00% ársvöxtum frá og með 3. febrúar 2009 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
I.
Málavaxtalýsing stefnanda.
Stefnandi kveður mál þetta vera tilkomið vegna ágreinings á milli stefnanda og stefnda um uppgjör svokallaðra afleiðuviðskipta, í þessu tilfelli þá tegund samninga sem nefnast skiptasamningar. Markmið afleiðuviðskipta sé yfirleitt að verja ákveðna stöðu eða taka skilgreinda áhættu, svo sem að stýra áhættu fyrirtækis í nútíð og framtíð m.t.t. starfsemi og fjárhagslegrar stöðu. Viðskipti sem þessi séu jafnframt stunduð sem liður í almennum viðskiptum, þ.e. með það að leiðarljósi að hagnast á hugsanlegum breytingum á markaði eða takmarka áhættu.
Í tengslum við afleiðuviðskipti stefnanda og stefnda hafi stefndi undirritað þann 22. júní 2006 almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda. Í þeim komi meðal annars fram, sbr. 10. gr. skilmálanna, að ákvæði svokallaðra Almennra skilmála fyrir skiptasamninga, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998, hafi gilt um viðskipti aðila.
Stefnandi og stefndi hafi gert með sér ýmsa afleiðusamninga. Í þeim hafi jafnframt verið vísað til skilmála stefnanda og hinna almennu skilmála. Þeir samningar sem mál þetta varði hafi verið vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningar en með slíkum samningum sé átt við samninga þar sem samningsaðilar skiptist á höfuðstól tveggja mynta á ákveðnu gengi í upphafi samnings og í framtíðinni og/eða skiptist á vaxtagreiðslum yfir ákveðið tímabil. Samningarnir hafi verið með svokallaðan lokadag eða lokagjalddaga þann 8. febrúar 2012. Nánar tiltekið hafi samningarnir verið auðkenndir sem CIRS 1486, CIRS 1703, CIRS 1867, CIRS 2018 og CIRS 2063. Stefnandi lýsir helstu efnisatriðum þeirra á eftirfarandi hátt:
CIRS 1486
Samningsdagur var 4. apríl 2006 og lokadagur var ákveðinn 8. febrúar 2012. Aðilar skyldu skiptast á höfuðstólum í upphafi og lok samningstímans og skiptast á vaxtagreiðslum á meðan á samningstíma stæði. Í upphafi samnings greiddi stefnandi 14.743.000 bresk pund gegn greiðslu stefnda á 1.855.996.270 íslenskum krónum. Í lok samningstímans skyldi stefndi greiða til baka framangreinda fjárhæð í breskum pundum (14.743.000) gegn greiðslu stefnanda á framangreindri fjárhæð í íslenskum krónum (1.855.996.270). Á meðan á samningstíma stæði skyldi stefndi greiða fasta 7,98% vexti af breskum pundum og stefnandi greiða fasta 6% verðtryggða vexti af íslenskum krónum. Vextir skyldu greiðast af þeim höfuðstól sem skipti um hendur í upphafi samningstímans. Vaxtagreiðslur skyldu fara fram á sex mánaða fresti.
CIRS 1703
Samningsdagur var 23. júní 2006 og lokadagur var ákveðinn 8. febrúar 2012. Aðilar skyldu skiptast á höfuðstólum í upphafi og lok samningstímans og skiptast á vaxtagreiðslum á meðan á samningstíma stæði. Í upphafi samnings greiddi stefnandi 10.835.486,42 evrur gegn greiðslu stefnda á 1.004.536.275 íslenskum krónum. Í lok samningstímans skyldi stefndi greiða til baka evrur (10.835.486,42) gegn greiðslu stefnanda á íslenskum krónum (1.004.536.275). Á meðan á samningstíma stæði skyldi stefndi greiða fasta 6,8% vexti af evrum og stefnandi greiða fasta 6% verðtryggða vexti af íslenskum krónum. Vextir skyldu greiðast af þeim höfuðstól sem skipti um hendur í upphafi samningstímans. Vaxtagreiðslur skyldu fara fram á sex mánaða fresti.
CIRS 1867
Samningsdagur var 1. ágúst 2006 og lokadagur var ákveðinn 8. febrúar 2012. Aðilar skyldu skiptast á höfuðstólum í upphafi og lok samningstímans og skiptast á vaxtagreiðslum á meðan á samningstíma stæði. Í upphafi samnings greiddi stefnandi 23.500.000 evrur gegn greiðslu stefnda á 2.166.230.000 íslenskum krónum. Í lok samningstímans skyldi stefndi greiða til baka evrur (23.500.000) gegn greiðslu stefnanda á íslenskum krónum (2.166.230.000). Á meðan á samningstíma stæði skyldi stefndi greiða fasta 6,9% vexti af evrum og stefnandi greiða fasta 6% verðtryggða vexti af íslenskum krónum. Vextir skyldu greiðast af þeim höfuðstól sem skipti um hendur í upphafi samningstímans. Vaxtagreiðslur skyldu fara fram á sex mánaða fresti.
CIRS 2018
Samningsdagur var 11. desember 2006 og lokadagur var ákveðinn 8. febrúar 2012. Aðilar skyldu skiptast á höfuðstólum í upphafi og lok samningstímans og skiptast á vaxtagreiðslum á meðan á samningstíma stæði. Í upphafi samnings greiddi stefnandi 11.956.521,74 evrur gegn greiðslu stefnda á 1.100.000.000 íslenskum krónum. Í lok samningstímans skyldi stefndi greiða til baka evrur (11.956.521,74) gegn greiðslu stefnanda á íslenskum krónum (1.100.000.000). Á meðan á samningstíma stæði skyldi stefndi greiða 5,87% vexti af evrum og stefnandi greiða fasta 6% verðtryggða vexti af íslenskum krónum. Vextir skyldu greiðast af þeim höfuðstól sem skpti um hendur í upphafi samningstímans. Vaxtagreiðslur skyldu fara fram á sex mánaða fresti.
CIRS 2063
Samningsdagur var 28. desember 2006 og lokadagur var ákveðinn 8. febrúar 2012. Aðilar skyldu skiptast á höfuðstólum í upphafi og lok samningstímans og skiptast á vaxtagreiðslum á meðan á samningstíma stæði. Í upphafi samnings greiddi stefnandi 1.315.236,00 evrur gegn greiðslu stefnda á 123.684.759 íslenskum krónum. Í lok samningstímans skyldi stefndi greiða til baka evrur (1.315.236) gegn greiðslu stefnanda á íslenskum krónum (123.684.759). Á meðan á samningstíma stæði skyldi stefndi greiða 6,02% vexti af evrum og stefnandi greiða fasta 6% verðtryggða vexti af íslenskum krónum. Vextir skyldu greiðast af þeim höfuðstól sem skipti um hendur í upphafi samningstímans. Vaxtagreiðslur skyldu fara fram á sex mánaða fresti.
Framangreind lýsing stefnanda er röng að því leyti að stefndi skyldi ekki greiða vexti fyrr en í lok samningstímans, þann 8. febrúar 2012. Stefnanda bar hins vegar að greiða vexti til stefnda í febrúar og ágúst ár hvert, í fyrsta sinn 8. febrúar 2006.
Stefnandi segir að í raun megi segja um viðskipti samkvæmt öllum framangreindum samningum að aðilar láni hvor öðrum tilgreinda höfuðstólsfjárhæð í upphafi samningstíma og greiði vexti af þeirri fjárhæð, sem veitt er að láni með þessum hætti, þar til höfuðstóllinn sé endurgreiddur við lok samningstíma. Þannig fái stefndi að láni erlendar myntir og greiði af þeim fasta vexti af erlendri mynt en stefnandi fái í staðinn að láni íslenskar krónur og greiði af þeim fasta umsamda vexti af íslenskum krónum. Ástæða þessara viðskipta fyrir stefnda sé að breyta skuldsetningu sinni úr íslenskum krónum í erlenda mynt. Í stað þess að skulda í íslenskum krónum og greiða af þeim íslenska vexti hafi stefndi gert skiptasamninga við stefnanda sem geri það að verkum að stefnandi taki að sér að greiða verðtryggða vexti af íslenskum krónum til stefnda gegn því að stefndi greiði til stefnanda vexti af erlendum myntum.
Allt frá því í október 2008 hafi aðilar átt í viðræðum um uppgjör á afleiðusamningunum, enda þótt margir þeirra væru ekki með lokagjalddaga fyrr en eftir nokkur ár. Þann 5. maí 2009 hafi stefnandi, stefndi og Marel ehf. gert með sér samkomulag þar sem þeir hafi sammælst um uppgjör allra afleiðusamninga, þ.m.t. skiptasamninga á milli stefnanda og stefnda. Samkomulagið hafi meðal annars falið í sér að lokadagur þeirra hafi í reynd verið færður fram og miðað við 3. febrúar 2009.
Í tengslum við uppgjör á afleiðusamningunum hafi aðila greint á um hvort uppgjör samninganna skyldi lúta svokallaðri núvirðisaðferð eða uppsöfnunaraðferð. Hafi samkomulagið kveðið á um að aðilar væru sammála um að útreikningur uppgjörs á öllum vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningum miðað við núvirðisaðferð leiddi til þess að heildarskuldir stefnda gagnvart stefnanda næmu þann 8. febrúar 2009 samanlagt 24.256.266,05 evrum en miðað við uppsöfnunaraðferð væru heildarskuldir stefnda við stefnanda miðað við 3. febrúar 2009, 20.336.084,74 evrur. Mismunur þessara tveggja fjárhæða sé 3.920.181 evra sem sé stefnufjárhæð máls þessa.
Núvirðisaðferðin byggist á þeirri forsendu að stefnandi og stefndi hefðu efnt vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningana samkvæmt efni þeirra, þó þannig að allar greiðslur sem skyldu fara fram á tímabilinu, þ. á m. vaxtagreiðslur og greiðslur höfuðstóla á lokadegi, hafi verið núvirtar miðað við 3. febrúar 2009. Nánar tiltekið hafi hagnaður stefnda af því að færa lokadag fram og losna þannig við að greiða háa fasta vexti til framtíðar, miðað við markaðsaðstæður, verið metinn til eingreiðsluverðmætis samkvæmt viðurkenndum aðferðum (þ.e. hin svokallaða núvirðing). Núvirðisaðferðin geri því í reynd ráð fyrir að stefnandi sé eins settur fjárhagslega og ef lokadagur hefði ekki verið færður fram. Sé slíkt viðurkennd uppgjörsaðferð þegar afleiðusamningum sé lokað (lokadagur færður fram) svo sem hér hafi verið ástatt.
Með hinni svokölluðu uppsöfnunaraðferð hafi hins vegar verið litið svo á að stefnandi myndi ekki standa í skilum í framtíðinni og samningarnir því gerðir upp þegar í stað, þ.e. miðað við 3. febrúar 2009. Sú aðferð hafi því ekki falið í sér fjárhagslega niðurstöðu sem átt hafi að svipa til þess að samningarnir hefðu verið efndir samkvæmt efni sínu, gagnstætt hinni svokölluðu núvirðisaðferð, heldur hafi hún falið í sér að vaxtagreiðslur, sem skyldu fara fram samkvæmt ákvæðum samninganna, féllu niður. Að þessu leyti hafi uppsöfnunaraðferðinni svipað til þess að samningum aðila væri rift til framtíðar (ex nunc).
Með samkomulagi, dags. 1. desember 2009, hafi stefnandi og stefndi orðið ásáttir um að leiða ágreining sinn um uppgjörsaðferð til lykta fyrir almennum dómstólum. Stefnandi krefji stefnda því um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem leiði af beitingu hinnar svokölluðu núvirðisaðferðar, þ.e. 3.920.181 evru, sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Jafnframt hafi orðið samkomulag með aðilum um að stefnufjárhæðin beri 6,00% fasta ársvexti frá og með 3. febrúar 2009 til og með greiðsludags. Ágreiningur aðila fyrir dómi sé í reynd eingöngu takmarkaður við kröfu stefnda um að miða eigi uppgjörið við uppsöfnunaraðferð í stað núvirðisaðferðar.
Málsástæður stefnanda.
Stefnandi byggir á því að uppgjör afleiðusamninga stefnanda og stefnda eigi að lúta núvirðisaðferð en ekki uppsöfnunaraðferð.
Stefnandi vísar til þess að í Almennu skilmálum fyrir skiptasamninga, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998, sem gilt hafi um viðskipti aðila, sé að finna sérstakar uppgjörsreglur, sbr. gr. 10 í skilmálunum, um útreikning hagnaðar eða taps þegar bundinn sé endi á skiptasamninga, þ.e. þeim lokað, hvort heldur á grundvelli einhverra þeirra atvika sem greini í gr. 9 í skilmálunum eða þegar sérstakt samkomulag sé með aðilum um lokun samninga. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. gr. 10.2 í almennu skilmálunum skuli „útreikningurinn grundvallast á markaðsaðstæðum á síðasta gildisdegi samningsins og reiknast sem núvirði mismunarins, milli annars vegar þeirra greiðslna sem samningsaðili hefði átt að inna af hendi og hefði átt að fá, ef samningurinn hefði haldið gildi sínu, og hins vegar þeirra greiðslna sem samningsaðilinn hefði fengið frá eða hefði þurft að greiða einhverjum banka fyrir að ganga inn í samninginn í stað hins samningsaðilans.“ Í samræmi við framangreint hafi stefnandi byggt á því að leggja beri hina svokölluðu núvirðisaðferð til grundvallar í uppgjöri aðila. Slík niðurstaða fái skýra stoð í þeim almennu skilmálum sem um viðskipti aðila giltu. Krafa stefnanda fái þannig stoð í meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga.
Stefnandi vísar jafnframt til þess að það sé þekkt markaðsvenja þegar skiptasamningum (afleiðusamningum) sé lokað fyrirfram, svo sem hér var ástatt, að uppgjör taki mið af ígildi efndabóta, svo sem núvirðisaðferðin feli í sér.
Stefndi hafi rökstutt sjónarmið um beitingu svokallaðrar uppsöfnunaraðferðar með vísan til sjónarmiða um réttaráhrif riftunar samkvæmt meginreglum kröfuréttar. Hafi stefndi nánar tiltekið vísað til þess að réttaráhrif riftunar séu ekki þau að aðilar eigi að vera eins settir og ef samningur væri efndur samkvæmt efni sínu svo sem núvirðisaðferðin feli hins vegar í sér að hans mati. Hafi stefndi sérstaklega vísað til þess að riftunarskilyrði hafi hvert á fætur öðru fallið stefnda í skaut og stefndi hafi komið þeim skilaboðum áleiðis til stefnanda að hann nýtti sér þann rétt. Hafi stefndi í því sambandi meðal annars vísað til bréfa stefnda til stefnanda, dags. 12. október, 27. nóvember 2008, 23. janúar og 4. febrúar 2009.
Stefnandi hafnar framangreindum sjónarmiðum stefnda þegar af þeirri ástæðu að samkvæmt hinum almennu skilmálum, sem gilt höfðu um viðskipti aðila, hafi uppgjör aðila átt að lúta núvirðisaðferð. Ekki fái því staðist að byggja á sjónarmiðum um riftun og réttaráhrifum hennar samkvæmt meginreglum kröfuréttar í þessu samhengi. Aðilar séu bundnir af hinum almennu skilmálum. Stefnandi vísar í þessu sambandi til þess að í gr. 9 í greindum skilmálum, sem stefndi hafi meðal annars vísað til, segi: „Inni samningsaðili ekki af hendi greiðslu á gjalddaga samkvæmt skiptasamningi eða vanefni annað ákvæði hans verulega og bæti ekki úr innan þriggja bankadaga frá því að hann fékk um það skriflega kröfu frá hinum samningsaðilanum, er þeim síðarnefnda heimilt að rifta öllum skiptasamningum á milli þeirra.“ Með sama hætti sé kveðið á um heimild samningsaðila til að rifta í gr. 9.2 og gr. 9.3, annars vegar vegna vanefnda á öðrum samningum (gr. 9.2) og hins vegar vegna nauðasamninga, sameininga o.fl. (gr. 9.3). Í gr. 9.4 sé hins vegar kveðið á um að við gjaldþrot samningsaðila gjaldfalli allir skiptasamningar. Í gr. 10 sé síðan kveðið á um greiðslur við samningsslit. Með hugtakinu samningsslit sé átt við riftun eða gjaldfellingu samkvæmt gr. 9 í skilmálunum, sbr. orðalag gr. 10.1, sem kveði á um að falli skiptasamningar úr gildi samkvæmt gr. 9. skuli sá samningsaðili, sem vanefni samninginn, bæta þeim samningsaðila, sem segi upp eða rifti samningnum, allt það tjón sem hann verði fyrir vegna þess, þ. á m. tap samkvæmt gr. 10.2. Í gr. 10.2, sem gr. 10.1 vísi sérstaklega til, sé að finna sérstakar uppgjörsreglur um útreikning hagnaðar eða taps, þ.e. sem eigi að gilda þegar samningur sé felldur úr gildi samkvæmt gr. 9 (sbr. gr. 10.1). Sé þannig ráðgert að skiptasamningar séu gerðir upp í samræmi við gr. 10.2. Reglurnar gildi líka sé samkomulag meðal aðila um að fella samning úr gildi, sbr. 2. mgr. gr. 10.1.
Samkvæmt framangreindu lúti riftun reikningslegu uppgjöri því sem núvirðisaðferðin feli í sér, sbr. tilvísun gr. 10 til gr. 9 um riftun. Af því leiði að samkomulag teljist vera um réttaráhrif riftunar að þessu leyti, sem gangi jafnframt framar þeim réttaráhrifum sem myndu ella leiða af meginreglum kröfuréttar, enda hafi aðilar beinlínis undirgengist samkomulag þar að lútandi samkvæmt hinum almennu skilmálum. Byggir stefnandi á því að hafi aðilar undirgengist samningsskuldbindingu um réttaráhrif riftunar verði þeir að sæta henni. Önnur niðurstaða fæli í reynd í sér að umræddum samningsskilmálum væri vikið til hliðar.
Stefnandi bendir jafnframt á að yrði stefnda, þrátt fyrir allt framangreint, talið heimilt að rifta á grundvelli meginreglna kröfuréttar og með þeim réttaráhrifum sem af því kynni að leiða, þ.e. þannig að horfið væri frá hinum almennu skilmálum, kæmi slík riftun aldrei til álita í fyrirliggjandi máli. Í fyrsta lagi þegar af þeirri ástæðu að stefndi hafi aldrei lýst yfir riftun í skilningi meginreglna kröfuréttar. Það að stefndi rifti aldrei samningunum endurspeglist jafnframt í þeirri staðreynd að stefnandi og stefndi hafi gert með sér samkomulag um lokun allra samninga, en hefði samningunum verið rift hefðu þeir þá þegar verið fallnir úr gildi og því ekki um neina lokun samninga að ræða. Í annan stað vísar stefnandi til þess að skilyrði riftunar samkvæmt meginreglum kröfuréttar um verulega vanefnd hafi aldrei verið til að dreifa. Í því sambandi bendir stefnandi á að stefndi, ekki stefnandi, hafi verið í neikvæðri stöðu samkvæmt samningunum. Stefnanda hafi því verið óskylt að inna af hendi sínar greiðslur samkvæmt einstökum samningum í samræmi við meginreglur kröfuréttar um stöðvunarrétt, þ.e. að samningsaðili geti stöðvað efndir fjárskuldbindinga af sinni hálfu gagnvart gagnaðila vegna vanefnda gagnaðila. Fjárskuldbindingar stefnda gagnvart stefnanda hafi verið hærri en skuldbindingar stefnanda gagnvart stefnda og stefnanda því heimilt að halda eftir öllum greiðslum. Þannig hafi stefndi, en ekki stefnandi, verið í vanefnd. Þá liggi fyrir að allir samningar hafi verið í skilum 3. febrúar 2009 en uppgjör samninga miðist við þann dag. Í þriðja lagi sé ljóst að stefnda hafi aldrei verið heimilt að rifta samningunum eftir að stefnanda var veitt heimild til greiðslustöðvunar, sbr. reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. einkum 22. gr. laganna um réttaráhrif greiðslustöðvunar m.t.t. beitingar vanefndaúrræða af hálfu kröfuhafa.
Um lagarök vísar stefnandi einkum til meginreglna samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga, rétt til riftunar og réttaráhrif riftunar. Jafnframt vísar stefnandi til Almennra skilmála fyrir skiptasamninga, útgefni af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
II.
Málavaxtalýsing stefnda.
Stefnandi kveður mál þetta snúast um uppgjör á fimm afleiðusamningum sem gerðir hafi verið á milli stefnanda og stefnda. Stefndi geri ekki sérstakar athugasemdir við lýsingu málavaxta í stefnu. Nauðsynlegt sé þó að skýra nánar ástæðurnar fyrir gerð samninganna og gera nánari grein fyrir þeirri atburðarás sem hófst haustið 2008.
Stefndi sé í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingum. Stefndi starfræki skrifstofur og dótturfyrirtæki í meira en 30 löndum, auk 60 umboðsmanna og dreifingaraðila. Hjá fyrirtækinu starfi um 3.500 manns. Hlutabréf í stefnda séu skráð í Kauphöll Íslands (Nasdaq OMX). Langstærstur hluti eigna stefnda sé utan Íslands og tekjur aðallega í erlendum myntum. Breytingar hafi verið gerðar á reikningsskilaaðferðum stefnda í ársbyrjun 2002. Evran hafi verið gerð að uppgjörsmynt félagsins í stað krónu áður. Vægi evru í tekjum félagsins sé um 65% og annarra erlendra mynta yfir 34%. Tekjur í íslenskum krónum séu innan við 1% og útgjöld í krónum innan við 5% af heildarrekstrarkostnaði stefnda. Íslenska krónan sé þar af leiðandi áhættustærð í uppgjörum félagsins, sérstaklega er varði eignir og skuldir. Til þess að viðhalda stöðugleika í fjárhag félagsins leitist stefndi við að tryggja að skuldir félagsins séu að mestu leyti í sömu myntum og tekjur og eignir þess.
Afleiðusamningarnir hafi verið gerðir í framangreindum tilgangi. Með þeim hafi verið dregið úr gjaldeyrisáhættu sem hafi myndast af öðrum gjaldmiðlum en uppgjörsmyntinni þegar misvægi hafi orðið á eignum og skuldum annars vegar og tekjum og gjöldum hins vegar í viðkomandi mynt. Nánar tiltekið hafi samningarnir verið gerðir í tengslum við skuldabréfaútboð stefnda í febrúar 2006. Þá hafi stefndi boðið út skuldabréf að fjárhæð sex milljarðar króna sem skráð hafi verið á markaði í júní 2006. Skuldabréfin hafi verið til sex ára, verðtryggð og afborganalaus þar til á lokagjalddaga 8. febrúar 2012 og með hálfsárslegum vaxtagreiðslum. Markmið með skuldabréfaútgáfunni hafi verið að skapa svigrúm til að framfylgja vaxtastefnu félagsins sem kynnt hafi verið á aðalfundi 2006. Á grundvelli ofangreindra sjónarmiða hafi verið talið rétt að skipta skuldinni sem hafi myndast við útboðið úr íslenskum krónum yfir í erlenda mynt eftir því sem fjárfestingum í erlendum rekstri og fyrirtækjum hafi undið fram á árinu 2006. Vaxta- og gjaldmiðlasamningarnir hafi verið gerðir á tímabilinu frá 4. apríl til 28. desember 2008 og verið með lokadag 8. febrúar 2012. Með samningunum hafi verið dregið úr gengisáhættu félagsins, þannig að eignir og skuldir væru í sömu myntum. Með samningunum hafi stefnandi jafnframt tekið að sér að greiða hálfsárslega vexti af íslensku skuldabréfunum og lánað stefnda vextina til umsamins uppgjörsdags á afleiðusamningunum þann 8. febrúar 2012. Rétt sé að undirstrika að samningarnir hafi ekki verið gerðir í áhættuskyni, þ.e. til þess að hagnast á breytingum á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum. Afleiðusamningarnir hafi þvert á móti verið gerðir til að verjast og draga úr áhættu.
Viðskipti banka með gjaldmiðlasamninga séu í raun ein tegund lánveitinga. Bankinn tryggi sig fyrir gengisáhættu með því að fá að láni strax í upphafi gjaldmiðilinn sem hann eigi að láta af hendi samkvæmt samningnum. Bankinn greiði vexti af því sem hann fái að láni og endurláni síðan fjárhæðina til viðskiptavinar í formi gjaldmiðlasamnings á hærri vöxtum. Bankinn þurfi því að ákveða framvirkt gengi gjaldmiðlasamningsins þannig að nýtt gengi nægi til að greiða vexti og eðlilega þóknun. Ávinningur bankans felist þannig í þóknun fyrir samningsgerðina og vaxtamun, eins og raunar í öllum hefðbundnum bankaviðskiptum. Áhætta bankans felist einvörðungu í því að mótaðili samningsins geti ekki innt samningsskyldu sína af hendi. Það sé hins vegar afar sjaldgæft og nánast óþekkt að fjármálafyrirtæki taki hreina gengisáhættu í samningum af þessum toga, nema þá í óverulegum viðskiptum, enda myndi slíkt hafa óheppileg áhrif á eiginfjárútreikninga þess og kunni að vera andstætt lögum og reglum, sbr. m.a. reglur nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja.
Eins og alkunnugt sé hafi stefnandi verið yfirtekinn af skilanefnd 7. október 2008 þegar fyrir hafi legið að bankinn hafi verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar, þar á meðal skuldbindingar um afhendingu fjármuna samkvæmt afleiðusamningum. Ógjaldfærni stefnanda hafi leitt til þess að ISDA (International Swaps and Derivatives Association) hafi gefið út fyrirmæli (e. Protocol) um uppgjör afleiðusamninga þar sem stefnandi hafi verið annar aðila. Fyrirmælin séu byggð á svokölluðum ISDA skilmálum sem almennt gildi um afleiðusamninga milli fjármálastofnana en við þá sé jafnframt stuðst í öðrum samningssamböndum um afleiður. Í fyrirmælunum sé skilgreint að stefnandi hafi þann 7. október 2008 orðið ófær til efnda á skuldbindingum sínum samkvæmt afleiðusamningum og því sé sá dagur gjaldfellingar- eða uppgjörsdagur (e. Default Date) gagnvart stefnanda á afleiðum, þ.m.t. framvirkum gjaldmiðlasamningum.
Strax í kjölfar ofangreindra atburða hafi stefndi gert stefnanda tilboð um uppgjör óuppgerðra afleiðusamninga málsaðila, sbr. bréf stefnda til stefnanda, dags. 12. október 2008. Með bréfinu hafi stefndi viljað eyða óvissu um fjárhagsstöðu félagsins og horfur í rekstri svo forsvaranlegt væri að opna fyrir viðskipti með bréf félagsins á markaði. Stefndi hafi ítrekað erindi sitt með bréfi, dags. 27. nóvember 2008. Í bréfinu hafi stefndi farið þess á leit við stefnanda að afleiðusamningum félaganna yrði lokað í samræmi við framangreind fyrirmæli ISDA, þ.e. miðað við gjaldmiðlagengi og vaxtakröfu 7. október 2008.
Á fundi aðila 19. janúar 2009 hafi fulltrúar skilanefndar stefnanda óskað eftir því að stefndi legði fram tillögu um með hvaða hætti félagið vildi leysa óvissu sem tengdist afleiðusamningum félagsins. Tekið hafi verið fram af Heimi Haraldssyni, sem sitji í skilanefndinni, að stefnandi myndi ekki standa við greiðslu á vaxtagjalddaga 8. febrúar 2009, eins og kveðið væri á um í afleiðusamningunum. Þrátt fyrir framangreindar yfirlýsingar stefnanda hafi stefndi tekið skýrt fram við stefnanda að hann vildi að afleiðusamningarnir héldu gildi sínu, sbr. bréf stefnda til stefnanda, dags. 23. janúar 2009. Með því móti yrði stöðugleika í bókum félagsins best viðhaldið.
Stefndi kveðst hafa ítrekað framangreind sjónarmið með bréfi, dags. 4. febrúar 2009, enda hefðu engin viðbrögð orðið af hálfu stefnanda vegna bréfsins frá 23. janúar 2009. Af hálfu stefnda hafi jafnframt verið tekið fram að ef stefnanda væri ókleift að standa við samningana væri þess óskað að samningarnir yrðu gerðir upp miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands 3. febrúar 2009.
Stefnandi hafi engar greiðslur innt af hendi á vaxtagjalddaga afleiðusamninganna 8. febrúar 2009. Hafi þetta verið í samræmi við það sem boðað hafði verið á fundi málsaðila 19. janúar 2009. Stefnda hafi þó ekki borið að inna af hendi greiðslu á grundvelli samninganna fyrr en á lokadegi þeirra 8. febrúar 2012.
Þegar orðið hafi verið ljóst að stefnandi myndi ekki efna afleiðusamningana hafi hafist viðræður um uppgjör þeirra. Við endurfjármögnun stefnda, í upphafi árs 2009, hafi nýju viðskiptabankarnir þrír, Arion, Íslandsbanki og NBI, gert það að skilyrði að gengið yrði frá samkomulaginu við stefnanda og bankinn lagt fram drög að slíku samkomulagi. Að loknum viðræðum hafi aðilar undirritað samkomulag, dags. 5. maí 2009, og viðbótarsamkomulag, dags. 1. desember 2009. Ágreiningur þessa máls snúist um hvaða aðferð skuli beitt við uppgjör samninganna, þ.e. hvort beitt skuli svokallaðri núvirðisaðferð eða svokallaðri uppsöfnunaraðferð. Málsaðilar séu sammála um til hvaða niðurstöðu í krónum talið hvor aðferð um sig leiði.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Almennt.
Stefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að kröfur stefnanda samkvæmt framlögðum afleiðusamningum séu að fullu greiddar. Óumdeilt sé að stefndi hafi greitt stefnanda 20.336.084,74 evrur sem sé heildarskuld stefnda miðað við uppsöfnunaraðferð, sbr. samkomulag málsaðila.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi vanefnt afleiðusamningana og stefnda hafi því verið heimilt að lýsa yfir riftun/lokun þeirra. Um þetta vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttarins um afleiðingar vanefndar og fyrirsjáanlegrar vanefndar, fyrirmæla ISDA og gr. 9 í Almennum skilmálum fyrir skiptasamninga sem útgefnir hafi verið af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða í febrúar 1998.
Hrun stefnanda, kröfur stefnda um uppgjör og yfirlýsingar skilanefndar um að ekki yrði staðið við skuldbindingar bankans samkvæmt afleiðusamningunum hafi verið ástæður þess að málsaðilar hafi hafið viðræður um uppgjör samninganna. Vegna viðræðnanna hafi aldrei komið til þess að stefndi tilkynnti formlega um riftun samninganna, þrátt fyrir skýra heimild þess efnis, enda hefði slíkt verið úr takti við samkomulagstilraunirnar sem þá hafi staðið yfir um uppgjör samninganna. Stefndi hafi margítrekað lýst því yfir við stefnanda að hann vildi efna samningana in natura. Yfirlýsing um riftun hefði verið í andstöðu við vilja stefnda til að efna samningana. Raunar telur stefndi að ekki hafi verið nauðsynlegt að lýsa formlega yfir lokun/riftun samninganna þar sem skyldur aðila samkvæmt samningunum hafi sjálfkrafa jafnast hver á móti annarri á grundvelli 2. mgr. 4. gr. skilmála stefnanda, sbr. 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Stefndi byggir á því að vegna vanefnda stefnanda skuli uppgjör afleiðusamninganna fara fram á grundvelli umræddrar uppsöfnunaraðferðar en ekki svokallaðrar núvirðisaðferðar, eins og stefnandi haldi fram. Því beri að sýkna hann af kröfum stefnanda. Stefndi telur að önnur niðurstaða brjóti gegn meginreglum kröfuréttarins, m.a. um skilyrði þess að aðili eigi rétt til að krefjast efndabóta.
Vanefnd stefnanda.
Óumdeilt sé að stefnandi hafi vanefnt skuldbindingar sínar á grundvelli afleiðusamninganna þegar hann innti ekki af hendi greiðslu á vaxtagjalddaga þann 8. febrúar 2009.
Stefndi byggir einnig á því að frá og með 7. október 2008 hafi verið fyrirsjáanlegt að stefnandi gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt afleiðusamningunum um greiðslur vaxta á vaxtagjalddögum og höfuðstóls á lokadegi samninganna 8. febrúar 2012. Þessu til stuðnings vísar stefndi til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefndar fyrir stefnanda, dags. 7. október 2008. Meðal forsendna fyrir skipan skilanefndar hafi verið að líkur væru á að stefnandi gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sbr. núgildandi VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum um fjármálafyrirtæki. Þá vísar stefndi einnig til þeirra sjónarmiða sem fram komi í beiðni stefnanda um heimild til greiðslustöðvunar og rakin séu í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 24. nóvember 2008. Í greiðslustöðvunarúrskurðinum segi að stefnandi hafi verið ófær um að mæta greiðsluskuldbindingum sínum gagnvart lánardrottnum. Hafi þetta orðið til þess að ýmsir lánardrottnar hafi tekið ákvörðun um gjaldfellingu lána, m.a. á grundvelli ákvæðis í lánssamningum sem heimili lánveitendum að gjaldfella lán verði vanefnd á öðru og óskyldu láni (e. cross-default clauses). Almennt sé viðurkennt að greiðsluþrot skuldara feli í sér sérstakt tilvik af fyrirsjáanlegri vanefnd sem veitt geti kröfuhafa heimild til riftunar.
Með vísan til ofangreinds og almennra reglna kröfuréttarins um afleiðingar vanefnda hafi stefnda verið heimilt að lýsa yfir riftun afleiðusamninganna. Stefndi telur að sérstaklega hafi þurft að mæla fyrir um það í samningum og skilmálum, sem gilt hafi í skiptum málsaðila, ef ætlunin hefði verið að svipta stefnda rétti til að beita almennum vanefndaúrræðum kröfuréttarins, einkum þegar haft sé í huga að samningarnir, sem skýra þurfi, hafi verið samdir einhliða af stefnanda.
Vanefnd stefnanda hafi veitt stefnda heimild til riftunar afleiðusamninganna. Af því leiði að honum hafi verið heimil öll vægari vanefndaúrræði, þ.m.t. að krefjast lokunar samninganna.
Stefndi bendir á að ógjaldfærni stefnanda hafi leitt til þess að ISDA (International Swaps and Derivatives Association) hafi gefið út fyrirmæli (e. Protocol) um uppgjör afleiðusamninga þar sem stefnandi hafi verið annar aðila. Í fyrirmælunum sé skilgreint að þann 7. október 2008 hafi stefnandi orðið ófær til efnda á skuldbindingum sínum samkvæmt afleiðusamningum og því sé sá dagur gjaldfellingar- eða uppgjörsdagur (e. Default Date) gagnvart stefnanda á afleiðum, þ.m.t. framvirkum gjaldmiðlasamningum.
Stefndi telur stefnanda hafa vanefnt skyldur sínar samkvæmt afleiðusamningunum með því að greiða ekki vexti 8. febrúar 2009, sbr. gr. 9.1 í Almennum skilmálum fyrir skiptasamninga, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998. Stefndi telur raunar að honum hafi verið heimil lokun/riftun samninganna 7. október 2008. Þann dag hafi orðið fyrirsjáanlegt að stefnandi gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt afleiðusamningunum. Stefndi telur að stefnandi geti ekki borið fyrir sig að formskilyrði ákvæðisins hafi ekki verið uppfyllt. Áskorun um að bætt verði úr vanefndum geti aðeins haft þýðingu í tilvikum þar sem líkur séu á að gagnaðili geti efnt skuldbindingar sínar. Sú hafi ekki verið raunin í þessu tilviki.
Samkvæmt gr. 9. 2 í skilmálunum sé samningsaðila heimilt að rifta öllum samningum við gagnaðila, inni gagnaðilinn ekki af hendi greiðslu samkvæmt einhverjum samningi sem leggi á hann greiðsluskyldu og samningurinn hafi verið gjaldfelldur vegna þess. Þannig hafi staðið á í þessu tilviki.
Stefndi telur jafnframt að sér hafi verið heimilt að krefjast lokunar/riftunar á afleiðusamningunum á grundvelli gr. 9.3 í skilmálunum, eins og skýra verði ákvæðið með hliðsjón af tilgangi þess. Þar sé kveðið á um að aðila sé heimilt að rifta öllum afleiðusamningum við gagnaðila hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá samningsaðila eða hann leitað nauðasamninga, óskað sjálfur eftir gjaldþrotaskiptum á búi sínu, sameinast öðru félagi með yfirtöku eða samruna eða verið skipt í tvö eða fleiri félög. Um framangreint vísar stefndi m.a. til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefndar fyrir stefnanda, dags. 7. október 2008, ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda og Nýja Glitnis banka hf. og til þeirra sjónarmiða sem fram komi í beiðni stefnanda um heimild til greiðslustöðvunar sem rakin séu í úrskurði Héraðsdómi Reykjavíkur 24. nóvember 2008. Fyrir liggi að frá 7. október 2008 hafi stefndi almennt vanefnt skyldur sínar samkvæmt afleiðusamningum við viðskiptavini.
Í gr. 9.4 í framangreindum skilmálum fyrir skiptasamninga sé tekið fram að við gjaldþrot samningsaðila gjaldfalli allir samningar milli aðila um framvirk gjaldmiðlaviðskipti, án sérstakrar tilkynningar þar um. Stefndi byggir á því að með gjaldþroti í skilningi ákvæðisins sé átt við að skuldari sé ógjaldfær, þ.e. að hann sé ófær um að inna af hendi skuldbindingar sínar þegar þær falli í gjalddaga. Stefndi telur þar af leiðandi að skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt þann 7. október 2008 þegar stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Því hafi stefnda verið heimilt að krefjast lokunar/riftunar á afleiðusamningunum frá og með þeim degi.
Stefndi byggir á því að ekki hafi verið nauðsynlegt að lýsa formlega yfir lokun/riftun samninganna, heldur hafi skyldur aðila samkvæmt samningunum sjálfkrafa jafnast hver á móti annarri á grundvelli 2. mgr. 4. gr. skilmála stefnanda, sbr. 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Þetta hafi gerst þegar Fjármálaeftirlitið hafi tekið ákvörðun um skipan skilanefndar fyrir stefnanda 7. október 2008, sbr. ofangreinda umfjöllun um að þann dag hafi verið um að ræða vanefnd af hálfu stefnanda. Í öllu falli sé ljóst að skyldur aðila á grundvelli samninganna hafi jafnast hver á móti annarri þegar stefnanda hafi verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og í allra síðasta lagi við vanefnd stefnanda á vaxtagjalddaga samninganna 8. febrúar 2009. Þessu til frekari stuðnings vísar stefndi til tilskipunar EB nr. 96/10 frá 21. mars 1996, sem sé fyrirmynd 40. gr. verðbréfaviðskiptalaga. Stefndi bendir á að samkvæmt 10. gr. markaðsskilmálanna gangi þeir framar ákvæðum hinna Almennu skilmála fyrir skiptasamninga, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998.
Nánar um kröfu stefnanda.
Í ljósi ofangreinds komi það stefnda mjög á óvart þegar stefnandi lýsi því yfir að hann telji sig eiga heimtingu á því að við uppgjör samninganna skyldi miðað við svokallaða núvirðisaðferð í stað uppsöfnunaraðferðar.
Í núvirðisaðferðinni felist að stefnandi kalli eftir uppgjöri sem byggt sé á forsendum um að hann verði eins settur og samningar aðila hefðu verið efndir út samningstímann. Aðili sem reynist ófær um að efna samningsskuldbindingar sínar til frambúðar eigi ekki rétt til efndabóta. Í uppsöfnunaraðferðinni felist að ekki sé tekið tillit til þess ávinnings sem stefnandi hefði haft af tilvist samninganna frá uppgjörsdegi (3. febrúar 2009) til umsamins lokagjalddaga (8. febrúar 2012). Stefndi telur að vegna vanefnda stefnanda sé uppsöfnunaraðferðin í samræmi við almennar reglur kröfuréttarins.
Við mat á því hvort eðlilegra sé að beita núvirðis- eða uppsöfnunaraðferðinni beri að líta til þess að framtíðarávinningurinn sem stefnandi reikni sér í núvirðisaðferðinni sé endurgjald bankans á hverjum tíma fyrir að veita stefnda þá tryggingu sem hann leitaði eftir með samningsgerðinni. Ávinningur bankans nemi iðgjaldi stefnda af þeirri gjaldmiðlavörn sem stefndi hafi keypt af stefnanda með samningsgerðinni. Óeðlilegt sé að stefnandi geti reiknað sér tekjur til framtíðar af vörnum sem hann sé ófær um að veita eftir fall bankans. Uppgjör samkvæmt uppsöfnunaraðferðinni sé því eðlilegt við þessar aðstæður.
Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnanda um að núvirðisaðferðin sé viðurkennd uppgjörsaðferð þegar afleiðusamningum sé lokað. Rök kunni að standa til slíks uppgjörs þegar banki sé í stakk búinn að veita viðsemjanda sínum þá vörn sem um var samið. Rökin eigi hins vegar ekki við þegar bankinn sé ekki lengur fær um að efna sinn hluta samningsins. Markaðsvenja um að uppgjör taki mið af ígildi efndabóta byggist á forsendu um að kröfuhafinn geti efnt skyldur sínar ólíkt því sem eigi við í þessu tilviki.
Stefndi telur æði mótsagnakennt að sú niðurstaða að miða uppgjör við núvirðisaðferð fái skýra stoð í meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga, eins og stefnandi haldi fram, enda sé óumdeilt að afleiðusamningarnir voru vanefndir af hálfu stefnanda en ekki stefnda. Með því hafi stefnandi að engu gert þá tryggingu sem samningarnir hafi átt að veita stefnda.
Stefndi byggir á því að núvirðisaðferðin gangi þvert á meginreglur kröfuréttarins, enda leiði aðferðin til þess að aðili, sem vanefnt hefur samning, fái fullar efndir. Stefndi byggir á því að samkvæmt meginreglum kröfuréttar séu réttaráhrif riftunar þau að greiðslur sem aðilar hafi innt af hendi gangi til baka ásamt því að framtíðarskuldbindingar falli niður. Stefndi byggir á því að samkvæmt meginreglum kröfuréttarins geti aðili, sem vanefnt hefur samning, ekki krafist efndabóta, enda sé frumskilyrði slíks réttar að orsakatengsl séu milli vanefndar gagnaðila og meints tjóns. Uppsöfnunaraðferðin sé í samræmi við framangreindar meginreglur, enda byggist hún á því að aðilar greiði hvor öðrum upphaflegan höfuðstól en vaxtagreiðslur, sem skyldu fara fram síðar samkvæmt ákvæðum afleiðusamninganna, falli niður. Þá byggist aðferðin á því að aðili, sem vanefnt hefur samning og tekinn hefur verið til slita, hagnist ekki af vanefndinni. Því telur stefndi að sýkna beri hann af kröfum stefnanda.
Stefndi mótmælir því að uppgjör skuli gert samkvæmt núvirðisaðferð vegna orðalags gr. 10. 2 í hinum almennu skilmálum fyrir skiptasamninga. Stefndi mótmælir því að ákvæðið eigi við í þessu tilviki. Skýra verði samkomulag aðila frá 5. maí 2009 og 1. desember 2009 í ljósi vanefndar stefnanda og falls bankans. Þá byggir stefndi á því að skýra verði gr. 10.2 til samræmis við gr. 10.1. Samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu geti sá aðili sem vanefnt hefur samning ekki krafist greiðslu á grundvelli tapaðs hagnaðar nema sérstaklega hafi verið um það samið. Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd séu gerðar ríkar kröfur um aðgæslu til fjármálafyrirtækja á borð við stefnanda. Fjármálafyrirtæki verði að tryggja sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist réttinda sinna, umfangi þeirra og heimilda að öðru leyti. Af þessu leiði að allan vafa í lögskiptum fjármálafyrirtækja og viðsemjenda þeirra beri að túlka þeim síðarnefndu í hag.
Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda um að þar sem stefndi hafi verið í neikvæðri stöðu samkvæmt samningunum hafi stefnanda verið óskylt að inna af hendi sínar greiðslur samkvæmt einstökum samningum á grundvelli meginreglna kröfuréttar um stöðvunarrétt. Skylda stefnda til þess að inna af hendi greiðslu samkvæmt samningunum hafi ekki verið fyrr en á lokadeginum 8. febrúar 2012. Því sé rangt að tala um vanefnd af hálfu stefnda. Samkvæmt meginreglum kröfuréttarins geti aðili aðeins beitt stöðvunarrétti þegar fyrirsjáanlegt sé að gagnaðili muni ekki efna verulegan hluta af skyldum sínum. Slíkt hafi ekki átt við í tilviki stefnda. Stefndi hefði ávallt getað haldið eftir greiðslu á lokagjalddaga vegna vanefnda stefnanda, sbr. m.a. þau sjónarmið sem búa að baki 90. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Stefndi hafnar því jafnframt að það hafi nokkra þýðingu að uppgjörið hafi miðast við 3. febrúar 2009. Afleiðusamningarnir höfðu þá þegar verið vanefndir af hálfu stefnanda eins og áður er rakið.
Mótmælt er því sem fram kemur í stefnu að stefnda hafi ekki verið heimilt að rifta samningum eftir að stefnanda var veitt heimild til greiðslustöðvunar, sbr. einkum 22. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því til stuðnings vísar stefndi til 2. mgr. 4. gr. skilmála stefnanda, sbr. 40. gr. laga um verðbréfaviðskipti, sbr. einnig 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þá byggir stefndi einnig á því að samið hafi verið um uppgjörið eftir að greiðslustöðvun lauk.
Komist dómurinn að niðurstöðu um að gr. 10.2 í hinum almennu skilmálum fyrir skiptasamninga gildi um uppgjör afleiðusamninganna krefst stefndi sýknu með vísan til þess að víkja beri ákvæðinu til hliðar eða breyta því á grundvelli 1. mgr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Stefndi telur að það sé bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju ef stefnandi verður talinn geta borið samninginn fyrir sig eins og gert sé í stefnu, sé litið til ofangreindra sjónarmiða og þeirra atriða sem tilgreind séu í 2. mgr. 36. gr. Þá vísar stefndi einnig til umfjöllunar um málsatvikakafla um þann hagnað sem stefnandi hafði af samningunum.
Fallist dómurinn að einhverju leyti á kröfur stefnanda krefst stefndi þess að dráttarvextir verði einungis dæmdir frá dómsuppsögu, sbr. m.a. 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Lagarök.
Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfuréttarins, m.a. um afleiðingar vanefndar, rétt til efndabóta og heimild aðila gagnkvæms samnings til að halda eftir greiðslum. Þá byggir stefndi á skýringu ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndi vísar jafnframt til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum XII. kafla laganna og ákvæða til bráðabirgða, sbr. lög nr. 125/2008 og 44/2009. Þá byggir stefndi á ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, einkum 2., 39. og 40. gr. laganna, 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Niðurstaða.
Ágreiningur aðila snýst um uppgjör svokallaðra afleiðusamninga en þeir gerðu með sér ýmsa slíka samninga. Þeir samningar, er mál þetta varðar, voru vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningar en með slíkum samningum er átt við samninga þar sem aðilar skiptast á höfuðstól tveggja mynta á ákveðnu gengi í upphafi samnings og í framtíðinni og skiptast jafnframt á vaxtagreiðslum yfir ákveðið tímabil.
Fram hefur komið í málinu að á árinu 2006 fékk stefndi lán að fjárhæð sex milljarðar króna hjá stefnanda. Vextir af því láni skyldu greiðast á sex mánaða fresti, í febrúar og ágúst ár hvert. Tekjur stefnda eru 99% í erlendri mynt og til þess að minnka gengisáhættu í sambandi við lánið gerði stefndi skiptasamning við stefnanda til þess að hafa jafnan til ráðstöfunar íslenskar krónur á gjalddögum lánsins í febrúar og ágúst og þannig hugðist stefndi tryggja sig gagnvart skuldbindingum sínum við stefnanda vegna lánsins.
Hinir umdeildu samningar voru fimm að tölu og er þeim lýst hér að framan. Í upphafi lánuðu aðilar hvor öðrum tilgreinda höfuðstólsfjárhæð og skyldu greiða vexti af þeirri fjárhæð. Stefndi fékk að láni erlenda mynt og greiddi fasta vexti en stefnandi fékk í staðinn að láni íslenskar krónur og greiddi af þeim vexti. Í lok samningstímans skyldi stefndi greiða til baka til stefnanda í erlendri mynt þá fjárhæð sem hann hafði fengið að láni í upphafi og stefndi á sama hátt endurgreiða stefnanda í íslenskum krónum þá fjárhæð sem hann hafði fengið að láni hjá stefnanda. Aðilar skyldu því skiptast á höfuðstól tveggja mynta og aftur við lok samningsins. Stefnandi skyldi greiða stefnda vexti í febrúar og ágúst ár hvert til þess að mæta vaxtagreiðslu stefnda vegna áðurnefndrar lántöku að fjárhæð sex milljarðar króna en stefndi átti ekki að greiða vexti fyrr en í lok samningstímans þann 8. febrúar 2012. Samningarnir eru allir með svokallaðan lokadag þann 8. febrúar 2012.
Á grundvelli laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. greip Fjármálaeftirlitið inn í rekstur stefnanda, tók yfir vald hluthafafundar, vék félagsstjórn frá störfum og skipaði stefnanda skilanefnd 7. október 2008. Í kjölfar þess gerði stefndi stefnanda tilboð um uppgjör afleiðusamninga, þ. á m. þeirra skiptasamninga sem hér eru til umfjöllunar. Fyrsta bréf stefnda er dagsett 12. október 2008 og það ítrekað 27. nóvember sama ár. Fundur var haldinn með aðilum 19. janúar 2009 og er ágreiningslaust að á þeim fundi kom m.a. fram af hálfu stefnanda að hann hygðist ekki standa við greiðslu vaxta til stefnda á gjalddaga hinna umdeildu samninga þann 8. febrúar 2009. Stefndi lýsti því yfir í bréfi 23. janúar 2009 að hann vildi að samningarnir héldu gildi sínu út samningstímabilið og ítrekaði það í bréfi 4. febrúar 2009.
Í samræmi við fyrri yfirlýsingu sína innti stefnandi ekki af hendi umsamda vaxtagreiðslu til stefnda á gjalddaga 8. febrúar 2009 og í framhaldi af því hófust viðræður aðila um uppgjör samninganna. Samkomulag var gert 5. maí 2009 og viðbótarsamkomulag 1. desember 2009 þar sem m.a. var samið um að loka öllum framangreindum vaxta- og gjaldmiðlasamningum og miða uppgjör þeirra allra við 3. febrúar 2009 en leggja ágreining um uppgjörsaðferð í dóm. Deilt er um í málinu hvort beita eigi svokallaðri núvirðisaðferð eða svokallaðri uppsöfnunaraðferð við útreikning á uppgjöri aðila.
Í núvirðisaðferðinni, sem stefnandi byggir mál sitt á, felst að stefndi greiði stefnanda efndabætur, stefnukröfuna, sem miðast við þann hagnað eða ávinning sem stefnandi hefði haft af samningnum ef þeir hefðu gengið til enda. Í uppsöfnunaraðferðinni, sem stefndi byggir á, felst að ekki er tekið tillit til þess ávinnings sem stefnandi hefði haft af tilvist samninganna frá uppgjörsdegi 3. febrúar 2009 til umsamins lokadags 8. febrúar 2012, heldur greiðslur hvers um sig jafnaðar á móti hver annarri með skuldajöfnun. Mismunur þessara tveggja aðferða er stefnukrafan, 3.920.181,31 evra.
Óumdeilt er að um viðskipti aðila giltu ákvæði svokallaðra Almennra skilmála fyrir skiptasamninga, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998. Ákvæði gr. 9 og 10 hinna almennu skilmála er svohljóðandi:
„9 Vanefndir
9.1. Vanefnd á greiðslu samkvæmt skiptasamningi
Inni samningsaðili ekki af hendi greiðslu á gjalddaga samkvæmt skiptasamningi eða vanefni annað ákvæði hans verulega og bæti ekki úr innan þriggja bankadaga frá því að hann fékk um það skriflega kröfu frá hinum samningsaðilanum, er þeim síðarnefnda heimilt að rifta öllum skiptasamningum milli þeirra. Riftunin skal tilkynnt skriflega.
9.2. Vanefnd á öðrum samningum
Inni samningsaðili ekki af hendi greiðslu samkvæmt einhverjum samningi sem leggur á hann greiðsluskyldu og hafi samningurinn verið gjaldfelldur vegna þess eða vanefni annað ákvæði slíks samnings og hafi samningnum verið rift eða hann gjaldfelldur vegna þess, er hinum samningsaðilum heimilt að rifta öllum skiptasamningum milli þeirra. Riftunin skal tilkynna skriflega.
9.3. Nauðasamningar, sameining o.fl.
Hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá samningsaðila eða hann leitað nauðasamninga, óskað sjálfur eftir gjaldþrotaskiptum á búi sínu, sameinast öðru félagi með yfirtöku eða samruna eða verið skipt í tvö eða fleiri félög, er hinum samningsaðilanum heimilt að rifta öllum skiptasamningum milli þeirra. Riftunin skal tilkynnt skriflega. Þetta ákvæði tekur þó ekki til sameiningar banka.
9.4. Gjaldþrot
Við gjaldþrot samnings aðila gjaldfalla allir skiptasamningar milli samningsaðila án sérstakrar tilkynningar þar um.
10 Greiðslur við samningsslit
10.1 Almennt
Falli skiptasamningur úr gildi skv. 9. gr. þessara almennu skilmála skal sá samningsaðili sem vanefnir samninginn bæta þeim samningsaðila sem segir upp eða riftir samningnum allt það tjón sem hann verður fyrir vegna þess, þ. á m. tap skv. gr. 10.2.
Falli skiptasamningur úr gildi samkvæmt samkomulagi samningsaðila skal reikna út hagnað og tap aðila vegna markaðsaðstæðna skv. gr. 10.2 og kostnað sem samningsaðilar verða fyrir og skal mismunurinn gerður upp milli þeirra.
10.2 Hagnaður og tap vegna markaðsaðstæðna
Falli skiptasamningur úr gildi reiknar bankinn út þann hagnað og tap sem myndast hjá samningsaðilum við það að samningurinn fellur úr gildi. Útreikningurinn grundvallast á markaðsaðstæðum á síðasta gildisdegi samningsins og reiknast sem núvirði mismunarins, milli annars vegar þeirra greiðslna sem samningsaðili hefði átt að inna af hendi og hefði átt að fá, ef samningurinn hefði haldið gildi sínu, og hins vegar þeirra greiðslna sem samningsaðilinn hefði fengið frá eða hefði þurft að greiða einhverjum banka fyrir að ganga inn í samninginn í stað hins samningsaðilans. Við útreikning á hagnaði og tapi skal bankinn leita upplýsinga frá innlendum og erlendum bönkum eftir því sem við á.
Bankinn skal senda viðskiptamanninum útreikninginn innan fjórtán daga frá því að samningurinn féll úr gildi og gefa honum kost á að koma með athugasemdir við útreikninginn. Viðskiptamaðurinn skal koma athugasemdum sínum á framfæri innan sjö daga. Bankinn skal hafa þær til hliðsjónar í endanlegum útreikningi sínum.“
Stefnandi byggir á því að skýra beri ákvæði gr. 9 og 10 í skilmálunum á þann veg að stefnanda sé heimilt að beita núvirðisaðferðinni burtséð frá þeirri vanefnd stefnanda að greiða ekki umsamda vexti á gjalddaga 8. febrúar 2009. Stefnandi telur að aðilar séu bundnir af hinum almennu skilmálum og að hinir almennu vanefndaúrræði kröfuréttarins komist ekki að í málinu. Þá hafi stefndi aldrei lýst yfir riftun með formlegum hætti eins og áskilið sé í gr. 9 í skilmálunum og það hafi verið stefndi en ekki stefnandi sem hafi verið í vanefnd. Stefnandi heldur því ennfremur fram að það sé markaðsvenja að núvirða afleiðusamninga þegar uppgjör fari fram áður en lokadagur sé kominn.
Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á í málinu að það sé markaðsvenja, hvernig sem á stendur, að gera vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga upp með núvirðisaðferð. Þá hefur stefnandi ekki heldur sýnt fram á að stefndi hafi vanefnt samninga aðila en það er málsástæða af hálfu stefnanda. Nægilega er komið fram í málinu að það var stefnandi en ekki stefndi sem vanefndi samningana þegar hann hafnaði að greiða vexti á gjalddaga 8. febrúar 2009, um 240.000.000 króna. Enginn gjalddagi var þá kominn hjá stefnda. Við þessa vanefnd stefnanda féll sú gjaldeyrisvörn sem stefndi taldi sig hafa tryggt með gerð framangreindra vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga. Fyrirsjáanleg vanefnd varð strax við fall bankans 6. október 2008 og raunveruleg vanefnd á gjalddaga 8. febrúar 2009. Stefndi lýsti því hins vegar yfir í tvígang að hann vildi efna samningana fyrir sitt leyti.
Ekki verður fallist á með stefnanda að skýra beri framangreind ákvæði gr. 10 á þann veg að honum beri efndabætur. Ber að skýra ákvæði gr. 10 út frá þeirri forsendu að sá einn, sem orðið hefur fyrir vanefnd, geti kallað eftir bótum. Þá ber einnig að líta til þess að vanefnd stefnanda var ekki minniháttar heldur algjör við hrun bankans. Í því tilviki verður stefndi ekki sviptur rétti til að beita almennum vanefndaúrræðum kröfuréttarins. Skiptir því ekki máli þótt stefndi hafi ekki rift samningi aðila skriflega eins og áskilið er í gr. 9 í hinum almennu skilmálum, enda stefnandi ekki lengur í stakk búinn til að veita þá þjónustu sem hann hafi skuldbundið sig til samkvæmt samningum aðila.
Samkvæmt framansögðu verður talið að sú uppgjörsaðferð, sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á, núvirðisaðferðin, gangi þvert á meginreglu kröfuréttarins þar sem aðferðin leiði til þess að aðili, sem vanefnir samning, fái fullar bætur. Verður fallist á með stefnda að beita eigi svokallaðri uppsöfnunaraðferð við uppgjör hinna umdeildu samninga, enda byggir sú aðferð á því að skuldajöfnuður fari fram á ákveðnum degi þar sem höfuðstólar og áfallnir vextir mætast en vaxtagreiðslur í framtíðinni falli niður. Þessi aðferð fær stoð í 2. mgr. 4. gr. skilmála aðila sem undirritaðir voru 22. júní 2006. Þar segir að „[m]eð undirritun sinni á skilmála þessa samþykkir viðskiptamaður einnig að kominn sé á skriflegur samningur við bankann í samræmi við III. kafla laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, um að skyldur samningsaðila samkvæmt afleiðu, skuli jafnast hver á móti annarri, með skuldajöfnuði, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, og að samningurinn skuli halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.“, sbr. nú 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður alfarið af kröfum stefnanda í málinu. Eftir þeirri niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Marel hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Glitnis banka hf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.