Hæstiréttur íslands
Mál nr. 124/2011
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Afhending
- Greiðsludráttur
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 24. nóvember 2011. |
|
Nr. 124/2011
|
Sjóferðir Arnars ehf. (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn Hafsbrún ehf. (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Afhending. Greiðsludráttur. Riftun.
S ehf. og H ehf. gerðu með sér samning um kaup síðarnefnda félagsins á bát í eigu S ehf. Skyldi hluti kaupverðsins greiðast við undirritun kaupsamnings en eftirstöðvarnar við afhendingu og undirritun afsals. Í málinu krafðist S ehf. þess aðallega að viðurkennd yrði riftun félagsins á kaupsamningi aðila og byggði á því að H ehf. hefði vanefnt samning þeirra verulega þar sem dráttur hefði orðið á greiðslu kaupverðsins. Hæstiréttur vísaði til þess að að S ehf. hefði ekki gert athugasemd við það að fyrri hluti kaupverðsins greiddist síðar en kveðið var á um í kaupsamningi. Gæti greiðsludráttur á þessum hluta kaupverðsins því ekki orðið grundvöllur mats á því hvort ætlaðar vanefndir H ehf. teldust verulegar. Þá hefði S ehf. ekki fullnægt þeim skyldum sem á honum hvíldu samkvæmt kaupsamningi til þess að unnt væri að afhenda bátinn. Vegna þessa hefði ekki verið um vanefnd að ræða af hálfu H ehf. þegar S ehf. lýsti yfir riftun kaupsamningsins. Var H ehf. því sýknaður af kröfum S ehf. og S ehf. gert að gefa út afsal fyrir bátnum til H ehf. gegn greiðslu kaupverðsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2011. Hann krefst þess aðallega að viðurkennd verði riftun á kaupsamningi aðila 27. mars 2009, en til vara að kaupsamningurinn verði ógiltur, ,,honum breytt eða vikið til hliðar með dómi“. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í varakröfu áfrýjanda er þess ekki getið á hvern hátt hann telji að breyta eigi kaupsamningi aðila. Er sá þáttur kröfunnar því ekki til meðferðar í málinu.
Fyrir Hæstarétt var meðal annars lagt þinglýsingarvottorð 9. mars 2011 vegna vélbátsins Þingeyjar ÞH 51 sem ber með sér að tryggingarbréfi að fjárhæð 15.000.000 krónur hafi verið aflýst af bátnum.
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Áfrýjandi gerði ekki athugasemd við að fyrri hluti kaupverðs, 1.000.000 krónur, greiddist síðar en kveðið var á um í kaupsamningi. Eins og í héraðsdómi greinir, getur greiðsludráttur á þessum hluta kaupverðsins því ekki orðið grundvöllur mats á því, hvort ætlaðar vanefndir stefnda síðar hafi verið verulegar, sbr. 59. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.
Samkvæmt kaupsamningi málsaðila skyldi báturinn afhentur á atvinnustöð áfrýjanda, Húsavík, ,,eigi síðar en fimmtudaginn 22. maí 2009.“ Kaupin voru reiðukaup, sbr. 6. gr. laga nr. 50/2000. Ekki er annað fram komið, en að áfrýjandi sem seljandi bátsins hafi mátt velja hvenær, innan framangreindra marka, afhending skyldi fara fram. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laganna bar honum að ,,tilkynna kaupanda með nægum fyrirvara hvenær sækja“ mætti bátinn. Á áfrýjanda hvíldu því tvenns konar skyldur er dró að afhendingu bátsins. Annars vegar skyldi hann hafa bátinn tilbúinn til afhendingar, en í því felst að báturinn átti að vera með nýtt haffærisskírteini samkvæmt kaupsamningi, hann skyldi vera án veðbanda og það átti að vera búið að flytja af honum ýmsar heimildir, sem honum fylgdu. Hins vegar hvíldi sú skylda á áfrýjanda, sem fyrr greinir, að tilkynna stefnda með hæfilegum fyrirvara hvenær afhending átti að fara fram. Sú tilkynning þurfti að fullnægja skilyrðum 82. gr. laga nr. 50/2000. Ekki er um það deilt í málinu, að báturinn var ekki tilbúinn til afhendingar í því horfi, sem að framan greinir, og að áfrýjandi sendi enga tilkynningu um hvenær afhending skyldi fara fram. Áfrýjandi getur ekki borið fyrir sig að maður sá, er hafði milligöngu um kaupin, hafi átt að annast um hluta af þeim ráðstöfunum, sem gera þurfti til að báturinn væri tilbúinn til afhendingar, enda ber áfrýjandi sjálfur ábyrgð á ætlaðri vanrækslu þeirra, sem hann felur að efna samningsskyldur sínar. Samkvæmt þessu var ekki um vanefnd af hálfu stefnda að ræða þegar áfrýjandi lýsti yfir riftun 2. júní 2009.
Fallist er á forsendur héraðsdóms fyrir því að hafna varakröfu áfrýjanda.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum áfrýjanda.
Stefndi höfðaði gagnsakarmál fyrir héraðsdómi og krafðist þar efnda samkvæmt aðalefni kaupsamnings málsaðila. Fallist er á með héraðsdómi að þetta hafi verið honum heimilt, sbr. 23. gr. laga nr. 50/2000. Jafnframt verður staðfest með vísan til forsendna niðurstaða héraðsdóms um þessa kröfu.
Þar sem fyrir liggur að tryggingarbréfi að fjárhæð 15.000.000 krónur hefur verið aflýst af bátnum er ljóst að áfrýjandi hefur uppfyllt þá skyldu, sem að þessu lýtur samkvæmt dómsorði héraðsdóms.
Að gættu því, sem að framan segir, verður niðurstaða héraðsdóms staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndi, Hafsbrún ehf., er sýkn af kröfum áfrýjanda, Sjóferðum Arnars ehf.
Áfrýjandi gefi út afsal til stefnda fyrir vélbátnum Þingey ÞH 51, skipaskrárnúmer 1650, gegn greiðslu á 7.000.000 krónum.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. nóvember 2010.
Mál þetta sem var dómtekið 4. október sl., er höfðað 3. febrúar 2010. Aðalstefnandi er Sjóferðir Arnars ehf., Litlagerði 8, Húsavík. Gagnstefnandi er Hafsbrún ehf., Arnórsstöðum neðri, Vesturbyggð. Gagnsök var höfðuð 2. mars 2010.
Aðalstefnandi krefst þess aðallega að viðurkennd verði með dómi riftun á kaupsamningi aðila frá 27. mars 2009, en til vara að hann verði ógiltur, honum breytt eða vikið til hliðar með dómi.
Gagnstefnandi krefst sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda í aðalsök.
Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnanda verði með dómi gert, að viðlögðum dagsektum, skylt að afhenda sér bátinn M/B Þingey ÞH 51, aflétta tryggingarbréfi að upphæð 15.000.000 króna og gefa út afsal til sín. Þá krefst hann þess að viðurkenndur verði réttur sinn til skaðabóta úr hendi aðalstefnanda vegna hagnaðarmissis sem hann hafi orðið fyrir og muni verða fyrir vegna vanefnda á kaupsamningi aðila frá 27.mars 2009.
Aðalstefnandi krefst aðallega sýknu af kröfum gagnstefnanda í gagnsök, en til vara að kröfu hans um dagsektir og viðurkenningu á skaðabótaábyrgð verði hafnað.
Hvor aðili um sig krefst málskostnaðar úr hendi hins, bæði í aðal- og gagnsök.
I.
Aðalstefnandi samþykkti kauptilboð frá gagnstefnanda í bátinn M/B Þingey ÞH-51, skn. 1650, þann 13. mars 2009. Í kjölfarið var gerður kaupsamningur, dagsettur 27. mars 2009. Hafði skipasalan Bátar & Búnaður umsýslu með kaupunum. Kaupverð var 7.000.000 króna. Skyldi 1.000.000 króna þar af greiðast við undirritun kaupsamnings og eftirstöðvar við afhendingu og undirritun afsals, sem samkvæmt kaupsamningi átti að verða eigi síðar en 22. maí 2009.
Kaupsamningur ber ekki annað með sér en að hafa verið undirritaður í Reykjavík af hálfu beggja aðila þann 27. mars 2009. Fyrirsvarsmenn þeirra eru þó sammála um að hann hafi verið undirritaður í Reykjavík af hálfu gagnstefnanda, en síðan sendur til Húsavíkur, þar sem hann hafi verið undirritaður og farið með hann í þinglýsingu af hálfu aðalstefnanda. Skjalið var fært í þinglýsingabók 6. apríl 2009 og mun síðan hafa verið sent skipasölunni. Í tölvupósti frá sölumanni til fyrirsvarsmanna aðila, dags. 24. mars 2009, kemur fram ráðagerð um að seljandi undirriti samning og sendi sölumanninum. Að því búnu komi kaupandinn, undirriti af sinni hálfu og greiði 1.000.000 króna. Ljóst virðist að endaskipti hafi orðið á röð undirritana frá þessari ráðagerð, úr því að samningurinn reyndist tækur til þinglýsingar, en fyrirsvarsmaður aðalstefnanda skýrði svo frá að sér hafi verið ljóst að greiðsla sem átti að inna af hendi við undirritun hafi verið ógreidd er hann undirritaði samninginn fyrir sitt leyti og fór með hann í þinglýsingu. Greiðslan barst honum 16. apríl 2009.
Í 1. gr. kaupsamnings er kveðið á um að seljandi skuli ,,eigi síðar en við afsal“ aflétta tryggingarbréfi að fjárhæð 15.000.000 króna. Segir síðan í 3. gr. að gengið verði frá afsali og afhendingu eigi síðar en fimmtudaginn 22. maí 2009. Geti seljandi notað bátinn fram að afhendingardegi.
Tryggingarbréfinu var ekki aflétt og gerðist ekkert viðkomandi samningnum fyrr en með símtali sem fyrirsvarsmenn aðila eru sammála um að þeir hafi átt saman 2. júní 2009. Eru þeir ekki alveg sammála um það hvað þeim hafi þá farið á milli, en síðar þennan dag ritaði fyrirsvarsmaður aðalstefnanda yfirlýsingu um riftun kaupsamningsins. Er þar rakið sem grundvöllur riftunar að innborgun hafi ekki verið greidd á réttum tíma. Þá hafi átt að ganga frá kaupum eigi síðar en 22. maí og greiða eftirstöðvar. Sölumaður á skipasölunni hafi tekið að sér að sjá um afléttingu veðtryggingarbréfs og færslu aflaheimilda, en ekki sinnt þessu og ekki svarað símhringingum.
Fyrirsvarsmaður aðalstefnanda og sölumaðurinn skiptust á nokkrum tölvupóstum í framhaldinu. Kom fram að gagnstefnandi vildi halda kaupunum upp á aðalstefnanda, en hann hélt fast við riftunina og endurgreiddi þá milljón króna sem hann hafði fengið greidda. Einnig kom fram að sölumanni hefði orðið á að skrá það hjá sér að afhenda ætti bátinn í síðasta lagi 5. júní. Með bréfi 18. júní krafðist gagnstefnandi þess að aðalstefnandi efndi kaupsamninginn. Gagnstefnandi greiddi 6.000.000 króna inn á vörslureikning skipasalans þann 12. júní.
II.
Fyrirsvarsmenn aðila, Arnar Sigurðsson af hálfu aðalstefnanda og Heimir Ingvason af hálfu gagnstefnanda gáfu skýrslur fyrir dómi. Þá voru teknar skýrslur af Heimi Gylfasyni, fyrrverandi sölumanni og Reyni Þorsteinssyni, löggiltum skipasala.
Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á riftun kaupsamningsins á verulegri vanefnd gagnstefnanda á kaupsamningi aðila. Telur hann gagnstefnanda fyrst hafa vanefnt samninginn með því að greiða innborgun 20 dögum of seint og aftur verulega með því að greiða síðari greiðsluna 21 degi of seint, 10 dögum eftir að aðalstefnandi lýsti yfir riftun. Bendir aðalstefnandi á að gagnstefnandi hafi ekki reynt að tilkynna aðalstefnanda um fyrirhugaða vanefnd og hverju hún sætti.
Aðalstefnandi kveðst benda á að gagnstefnandi hafi átt að fá afsal þegar kaupverð væri að fullu greitt og öllum veðskuldum aflétt. Þar sem kaupverð hafi ekki verið greitt hafi aðalstefnandi ekki getað aflétt tryggingarbréfinu og gefið út afsal, þar sem bankinn aflétti ekki tryggingarbréfinu nema gegn staðfestingu á að greiðsla komi á móti. Þá kveðst aðalstefnandi benda á að skipasalinn hafi átt að annast aflýsingu tryggingarbréfsins í tengslum við lokagreiðslu samningsins. Aðalstefnandi kveðst hafa haft bátinn tilbúinn til afhendingar á afhendingarstað á umsömdum tíma, 22. maí 2009.
Aðalstefnandi telur að viðurkennd sjónarmið í viðskiptum séu að líta skuli á hvern drátt á greiðslu peninga sem verulega vanefnd, þ.e.a.s. að rýmri skilyrði séu til riftunar vegna dráttar á peningagreiðslum en ella, og að hafa verði í huga að síðari greiðslan hafi numið u.þ.b. 87% af heildarsamningsfjárhæð. Telur aðalstefnandi að sérstök ákvæði um efndatíma hafi mikla þýðingu við mat á því við hvaða aðstæður riftun verði beitt. Afdráttarlaus ákvæði í samningi um að efnt skuli fyrir einhvern tilsettan tíma, eða þar sem slíkt sé gert að skilyrði, verði að virða. Lítur aðalstefnandi svo á að með því að inna lokagreiðsluna ekki af hendi fyrr en 12. júní 2009, eða 21 degi of seint, og löngu eftir að riftun var lýst yfir, hafi aðalstefnandi vanefnt samninginn verulega. Við riftun hans þann 2. júní 2009 hafi gagnstefnandi ekki enn greitt lokagreiðsluna eða haft hana tiltæka. Telur aðalstefnandi að þetta verði ekki túlkað öðruvísi en svo að hann hafi ekki haft á reiðum höndum fjármuni til að standa við sinn hluta samningsins.
Aðalstefnandi bendir á að samkvæmt íslenskum rétti sé heimild kröfuhafa til að beita vanefndaúrræðum ekki háð því að hann hafi áður skorað á skuldara að efna skyldur sínar réttilega. Þannig sé það almennt ekki viðbótarskilyrði riftunar samkvæmt kaupalögum til dæmis, að kröfuhafi hafi sannanlega skorað á skuldara að efna samninginn. Þrátt fyrir riftunaryfirlýsinguna hafi enn liðið 10 dagar uns greiðsla skilaði sér á vörslureikning skipasalans. Þannig hafi vanefndunum verið haldið áfram um langa hríð eftir að vanefndaúrræðinu var beitt.
Aðalstefnandi kveðst telja að mistök starfsmanns hjá skipasölunni Bátum & Búnaði séu meginorsök þess dráttar sem hafi orðið og hallann af því verði gagnstefnandi að bera. Þá tekur hann fram að hann hafi endurgreitt 1.000.000 króna og þannig uppfyllt skyldur sem af riftun leiddu.
Varakröfu um ógildingu samnings vegna brostinna forsendna byggir aðalstefnandi á því að eftir að hann komst á, en þó áður en hann varð efndur, hafi strandveiðar verið heimilaðar í landhelgi Íslands. Með því hafi verðmæti bátsins aukist umtalsvert og þar með hafi allar forsendur fyrir kaupverðinu brostið. Aðalstefnandi hefur lagt fram verðmat Reynis Þorsteinssonar, löggilts fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala, dagsett 14. október 2009. Samkvæmt því var raunhæft markaðsvirði bátsins þá 12.000.000 króna. Kveður aðalstefnandi ljóst að strandveiðar hafi verið heimilaðar með stjórnvaldsákvörðun sem hafi komið öllum að óvörum og ekki verið kynnt eða rædd áður. Aðalstefnanda hafi því ekki verið mögulegt að reikna þá verðmætaaukningu inn í söluverðið, enda hafi hann ekki haft hugmynd um að þetta stæði til. Hafi þetta kollvarpað forsendum aðalstefnanda fyrir samningsverðinu og í raun gert það ósanngjarnt í garð aðalstefnanda.
Til stuðnings kröfum sínum vísar aðalstefnandi einkum til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum III. kafla laganna, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og meginreglna samninga- og kröfuréttar.
III.
Gagnstefnandi byggir kröfur sínar í aðalsök á því að hann hafi ekki vanefnt kaupsamning aðila á neinn hátt og kveðst benda á það að aðalstefnandi hafi tekið athugasemdalaust við fyrri greiðslu samkvæmt kaupsamningi þann 15. apríl 2009. Þá kveðst hann einnig benda á það að samkvæmt kaupsamningi hafi ekki borið að greiða síðari kaupsamningsgreiðslu, lokagreiðslu, á tilteknum degi, heldur hafi verið miðað við að greiðslan yrði innt af hendi við undirritun afsals og afhendingu. Aðalstefnandi hafi því haft svigrúm til að velja afhendingartíma og þar með þann tíma hvenær greiðslu¬skylda stefnda stofnaðist, sbr. 2. og 3. mgr. 9. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Sú skylda hafi því hvílt á aðalstefnanda að tilkynna um hvenær báturinn yrði afhentur. Slík tilkynning hafi ekki borist gagnstefnanda. Hafi aðalstefnandi því vanefnt skyldur sínar að þessu leyti. Skylda gagnstefnanda til að inna af hendi lokagreiðslu hafi því enn ekki stofnast og með hliðsjón af því telji hann að enginn greiðsludráttur hafi orðið, hann hafi ekki vanefnt samninginn og því hafi enginn grundvöllur verið til að rifta kaupunum. Verði hins vegar talið að um vanefnd hafi verið að ræða af hálfu gagnstefnanda, kveðst hann hafna því að hún hafi verið veruleg í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2000. Bendir hann á að aðalstefnandi hafi ekki skorað á hann að ganga frá viðskiptunum í samræmi við sinn skilning á efni samningsins, en slíkt hefði verið eðlilegt í ljósi þess að riftun sé það vanefndaúrræði sem hvað lengst gangi og sé hvað mest íþyngjandi gagnvart gagnstefnanda. Telur hann að með því að velja ekki afhendingartíma í samræmi við ákvæði kaupsamningsins, vanefni aðalstefnandi samninginn með heimili gagnstefnanda að sama skapi að grípa til viðeigandi vanefndaúrræða á grundvelli laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. V. kafla laganna. Byggir hann á að hann hafi innt af hendi þær skyldur sem á honum hvíli samkvæmt kaupsamningi aðila frá 27. mars 2009 með greiðslu kaupverðs. Aðalstefnandi hafi hinsvegar vanefnt samninginn með ólögmætri riftun, með því að stuðla ekki að efndum sem og með því að sinna ekki áskorun gagnstefnanda um að efna samninginn samkvæmt orðanna hljóðan.
Hvað varðar varakröfu aðalstefnanda kveðst gagnstefnandi byggja á því, að ekki verði séð hvernig ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936, með áorðnum breytingum, eigi við og ekki verði heldur séð til hvaða meintu brostnu forsendna vísað sé. Verði samningnum ekki vikið til hliðar í heild eða að hluta eða breytt með vísan til þess að það yrði talið ósanngjarnt að bera hann fyrir sig. Það að strandveiðar voru heimilaðar í landhelgi Íslands, eftir að samningar tókust á milli aðila, breyti þar engu um. Telur gagnstefnandi efni kaupsamnings, stöðu samningsaðila, atvik við samningsgerðina eða síðari atvik ekki vera með nokkrum þeim hætti, að ósanngjarnt sé að bera samninginn fyrir sig. Þá liggi ekkert fyrir um verðmætisaukningu bátsins eftir að heimild var veitt til strandveiða. Verðmat sem aðalstefnandi hafi lagt fram renni ekki stoð undir fullyrðingar um verðmæti bátsins nú og ekki verði byggt á fullyrðingum einum um að hærra verð megi að rekja til nefndrar heimildar. Þá kveðst gagnstefnandi mótmæla tilgátum í stefnu um að hann virðist hafa ákveðið að halda við kaupin eftir að ríkisstjórn Íslands heimilaði strandveiðar þann 14. apríl 2009.
IV.
Kröfur í gagnsök kveðst gagnstefnandi styðja við það að hann hafi á engan hátt vanefnt samning aðila og sé sér rétt að krefjast þess að hann verði efndur. Hann bendir á að gagnstefndi hafi tekið athugasemdalaust við fyrri greiðslunni, þann 15. apríl 2009. Vísar hann til þess að hann fallist ekki á að aðalstefnanda hafi verið rétt að rifta samningnum, sbr. málsástæður hans því til stuðnings í næsta kafla hér að framan. Telur gagnstefnandi að með riftunaryfirlýsingunni og því að velja ekki afhendingar¬tíma hafi aðalstefnandi vanefnt kaupsamninginn og heimili það sér að grípa til viðeigandi vanefndaúrræðis. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 50/2000 geti kaupandi haldið fast við kaup og krafist efnda, sbr. 1. og 2. mgr. 22. gr. laganna, og sé það í samræmi við meginreglu kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Kveðst hann, í ljósi þess að hann hafi innt af hendi fullnaðargreiðslu vegna viðskiptanna inn á vörslureikning umsýsluaðila og fyrir sitt leyti efnt kaupsamning aðila, krefjast þess að aðalstefnanda verði gert skylt með dómi að afhenda bátinn, aflétta tryggingarbréfi og gefa út afsal í samræmi við ákvæði kaupsamnings, sbr. 22. og 23.gr. laga nr. 50/2000. Telur hann nauðsynlegt að gera kröfu um dagsektir til að tryggja að aðalstefnandi inni skyldur sínar af hendi, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Viðurkenningarkröfu sína byggir gagnstefnandi á því að aðalstefnandi hafi vanefnt kaupsamning aðila á saknæman hátt og því fái krafa um viðurkenningu á bótarétti stoð í 5. mgr. 27. gr laga nr. 50/2000. Samkvæmt meginreglum á sviði kaupa- og kröfuréttar beri að gera tjónþola eins settan og samningurinn hefði verið réttilega efndur. Vegna afhendingardráttar af hálfu aðalstefnanda hafi gagnstefnandi ekki haft umráð bátsins og því ekki getað nýtt sér hann til tekjusköpunar. Byggir gagnstefnandi á að aðalstefnandi beri ábyrgð á því tjóni sem vanefndir hans hafi þegar haft í för með sér, sbr. 1. og 5. mgr. 27. gr. og 67. gr. laga nr. 50/2000. Gerð sé krafa um viðurkenningu á bótarétti þar sem óljóst sé hvenær báturinn verði afhentur og því enn óljóst hvert heildartjón gagnstefnanda verði vegna vanefnda gagnstefnda. Sé hér byggt á ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/2000.
V.
Aðalstefnandi krefst sýknu af öllum kröfum í gagnsök og byggir á því að gagnstefnandi hafi verulega vanefnt kaupsamning aðila og hafi riftun samningsins verið heimil. Er af hans hálfu byggt á sömu málsástæðum og í aðalsök.
VI.
Eins og að framan er rakið gerðu aðilar samning um kaup gagnstefnanda á bátnum M/B Þingey ÞH 51 af aðalstefnanda. Samkvæmt samningnum átti gagnstefnandi að greiða 1.000.000 króna við undirritun, en svo var ekki gert við undirritun fyrirsvarsmanns gagnstefnanda. Það var aðalstefnanda ljóst. Engu að síður undirritaði hann kaupsamning, þinglýsti honum og afhenti til skipasalans. Samþykkti hann þannig í verki frávik frá þessu samningsákvæði. Var honum ekki fært að byggja riftun á því eftir á.
Ganga átti frá afsali og afhendingu eigi síðar en 22. maí 2009 gegn greiðslu 6.000.000 króna og skyldi þá vera búið að aflétta tryggingarbréfi. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup getur seljandi rift kaupum vegna dráttar á greiðslu kaupverðs þegar um verulegar vanefndir af hálfu kaupanda er að ræða. Við mat á því hvort greiðsludráttur teljist verulegur ber meðal annars að líta til samnings aðila og atvika við kaupin.
Samkvæmt 2. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 50/200 á seljandi rétt á að velja afhendingartíma, ef samið hefur verið um svigrúm um hann, enda verði ekki annað ráðið af samningi. Skal hann þá tilkynna með nægum fyrirvara hvenær sækja megi hið selda. Orðalag kaupsamnings aðila þessa máls verður að skilja þannig að aðalstefnandi hafi getað valið um það hvenær hann afhenti bátinn, til og með 22. maí 2009. Hann hlutaðist hvorki til um það fyrir né eftir það tímamark, en lýsti yfir riftun er gagnstefnandi grennslaðist eftir framkvæmdinni. Aðalstefnandi sinnti heldur í engu skyldu sinni samkvæmt samningnum til að leysa veðbönd af bátnum. Getur hann ekki borið fyrir sig gagnvart gagnstefnanda að framkvæmd þessa hafi hann falið skipasalanum og ekkert í samningnum styður það að hann hafi áskilið að það yrði aðeins gert gegn greiðslu kaupverðsins jafnharðan. Leið svo fram til 2. júní 2009, er gagnstefnandi hafði samband við hann símleiðis til að grennslast fyrir. Eins og þessum atvikum er háttað verður það ekki metið sem vanefnd af hálfu gagnstefnanda að hann innti sína greiðslu ekki af hendi þann 22. maí 2009, án þess að hafa fengið tilkynningu frá aðalstefnanda um að hið selda væri þá reiðubúið til afhendingar. Þá leið ekki svo langur tími frá þeim degi til þess að gagnstefnandi hóf eftirgrennslan sína, að aðalstefnandi gæti litið svo á með réttu að hann væri laus undan skyldum sínum samkvæmt samningnum þess vegna. Það, að tíu dagar liðu frá því að aðalstefnandi lýsti yfir riftun uns gagnstefnandi greiddi eftirstöðvar kaupverðs inn á vörslureikning skipasölunnar, verður ekki metið svo að í því hafi falist sérstök vanefnd af hálfu gagnstefnanda.
Fyrir liggur að Reynir Þorsteinsson, löggiltur fasteigna- fyrirtækja- og skipa¬sali metur verðmæti bátsins 12.000.000 króna 14. október 2009 vera 12.000.000 króna. Við skýrslutöku af Reyni kom fram að hann skoðaði bátinn ekki til að leggja mat á hann, en kveðst þekkja vel til hans frá fyrri tíð.
Líta verður til þess að hér er um einhliða mat að ræða. Þá er ekkert sem styður það sérstaklega að verð hafi hækkað vegna þess að svokallaðar strandveiðar voru heimilaðar. Er ekki nægilega sýnt fram á að einhverjar þær ástæður séu fyrir hendi sem réttlætt geti að kaupsamningur aðila verði ógiltur, honum breytt eða vikið til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 með áorðnum breytingum.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna gagnstefnanda af kröfum í aðalsök.
VII.
Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að aðalstefnanda hafi ekki verið rétt að rifta kaupsamningi aðila. Verður að líta svo á að hann hafi ennþá verið bundinn við kaupin 2. júní 2009 þegar honum var tilkynnt að gagnstefnandi vildi halda þeim upp á hann. Gagnstefnandi greiddi afgang kaupverðsins 10 dögum seinna og var krafa hans ítrekuð með bréfi lögmanns skömmu á eftir. Verður að telja gagnstefnanda heimilt að halda fast við kaupin og fá dóm um efndir, sbr. 23. gr. laga nr. 50/2000. Skilja ber kröfugerð hans svo, eins og kom fram við munnlegan málflutning, að hann krefjist afsals gegn greiðslu kaupverðs, enda var upplýst að greiðslum hefur verið skilað til hans. Verður í samræmi við þetta að fallast á að dæma aðalstefnanda til að leysa bátinn úr tilgreindum veðböndum. Verður honum gert að ljúka því innan tveggja vikna frá uppsögu þessa dóms, en eftir þann tíma að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 20.000 krónur, og gefa að því búnu út afsal til gagnstefnanda. Hann verður hins vegar ekki dæmdur til greiðslu dagsekta eftir að hann hefur leyst bátinn úr veðböndum, þar sem gagnstefnandi þarf fyrir sitt leyti að afhenda greiðslu gegn útgáfu afsals.
Til að aflað verði viðurkenningardóms um bótaskyldu með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, verður að áskilja að sá sem kröfu hefur uppi þess efnis leiði að minnsta kosti að því líkur að hann hafi raunverulega orðið fyrir tjóni vegna þess atviks sem hann vísar til. Gagnstefnandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings því að hann hafi raunverulega orðið fyrir tjóni vegna þess að aðalstefnandi efndi kaupsamninginn af sinni hálfu. Ber samkvæmt því að vísa viðurkenningarkröfu hans sjálfkrafa frá dómi.
Eftir þessari niðurstöðu verður aðalstefnandi dæmdur til að greiða gagnstefnanda málskostnað, sem ákveðst í einu lagi í aðal- og gagnsök, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
DÓ M S O R Ð :
Gagnstefnandi, Hafsbrún ehf. er sýkn af kröfum aðalstefnanda, Sjóferða Arnars ehf., í aðalsök.
Aðalstefnandi skal leysa bátinn m/b Þingey ÞH 51 úr veðböndum samkvæmt tryggingarbréfi að fjárhæð 15.000.000 króna. Dagsektir að fjárhæð 20.000 krónur taka að falla á að liðnum 15 dögum frá uppsögu þessa dóms, verði aðalstefnandi ekki við þessari skyldu.
Aðalstefnandi skal gefa út afsal til gagnstefnanda fyrir m/b Þingey ÞH 51 gegn greiðslu 7.000.000 króna.
Viðurkenningarkröfu gagnstefnanda er vísað frá dómi.
Aðalstefnandi greiði gagnstefnanda 500.000 krónur í málskostnað.